Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 144 . mál.


159. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    Í stað orðanna „falla undir gjaldflokk D í lögum nr. 97/1987, um vörugjald“ í 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: flokkast undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka við lög þessi.


2. gr.

    Við 7. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Hafi aðili talið til innskatts virðisaukaskatt af öflun eða leigu ökutækis en ökutækið er síðar tekið til annarrar notkunar þar sem honum er heimill minni eða enginn frádráttarréttur ber honum að tilkynna það til skattstjóra áður en notkun er breytt og fjarlægja auðkenni sem sett hafa verið á ökutækið samkvæmt þessari grein.

3. gr.

    25. gr. laganna orðast svo:
    Skattstjóri skal ákvarða virðisaukaskatt skráðs aðila á hverju uppgjörstímabili.
    Hann skal rannsaka virðisaukaskattsskýrslur og leiðrétta þær ef þær eða einstakir liðir þeirra eru í ósamræmi við lög þessi eða fyrirmæli sem sett verða samkvæmt þeim. Þá skal skattstjóri áætla skatt af viðskiptum þeirra aðila sem ekki senda skýrslur innan tilskilins tíma, senda enga skýrslu eða ef skýrslu eða fylgigögnum er ábótavant. Áætlun skal vera svo rífleg að eigi sé hætt við að skattfjárhæð sé áætluð lægri en hún er í raun og veru. Skattstjóri skal tilkynna innheimtumanni og skattgreiðanda um áætlanir og leiðréttingar sem gerðar hafa verið. Þó skal skattstjóri ávallt leiðrétta augljósar reikningsskekkjur án sérstakrar tilkynningar til skattgreiðanda.
    Sé innskattur á einhverju uppgjörstímabili hærri en útskattur skal skattstjóri rannsaka skýrslu sérstaklega. Fallist skattstjóri á skýrsluna tilkynnir hann aðila og innheimtumanni ríkissjóðs um samþykki sitt til endurgreiðslu. Innheimtumaður ríkissjóðs skal endurgreiða aðila mismuninn. Kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum skal skuldajafna á móti endurgreiðslum samkvæmt lögum þessum.
    Hafi skýrslu verið skilað á tilskildum tíma skal endurgreiðsla fara fram innan fimmtán daga frá lokum skilafrests. Endurgreiðsla má þó aðeins fara fram að skattákvörðun liggi fyrir vegna fyrri tímabila. Berist skýrsla eftir lok skilafrests skal endurgreiðsla fara fram innan fimmtán daga frá því að skattstjóri kveður upp úrskurð skv. 29. gr. Geti skattstjóri ekki vegna aðstæðna aðila gert nauðsynlegar athuganir á gögnum þeim er skýrslugjöfin byggist á, þar með talið að aðili hafi lagt fram röng eða villandi gögn, framlengist framangreindur frestur um þann tíma sem slíkar aðstæður ríkja.
    Komi í ljós að endurgreiðsla samkvæmt þessari grein hafi verið of há skal skattstjóri þegar í stað tilkynna aðila og innheimtumanni ríkissjóðs þar um. Aðila ber eigi síðar en sjö dögum eftir tilkynningu skattstjóra um of háa endurgreiðslu að greiða innheimtumanni það sem ofgreitt var.
    

4. gr.

    26. gr. laganna orðast svo:
    Komi í ljós annmarkar á virðisaukaskattsskýrslu, fyrir eða eftir ákvörðun skv. 25. gr., eða telji skattstjóri frekari skýringa þörf á einhverju atriði varðandi virðisaukaskattsskil aðila, skal hann skriflega skora á aðila að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skriflegar skýringar og þau gögn sem skattstjóri telur þörf á að fá. Fái skattstjóri fullnægjandi skýringar og gögn innan frests ákvarðar hann eða endurákvarðar virðisaukaskatt samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu og fengnum skýringum og gögnum. Ef eigi er bætt úr annmörkum á virðisaukaskattsskýrslu, svar aðila berst ekki innan tiltekins tíma, skýringar hans eru ófullnægjandi eða eigi eru send þau gögn sem óskað er eftir, er skattstjóra heimilt að áætla virðisaukaskatt aðila.
    Þá er skattstjóra heimilt að áætla virðisaukaskatt ef í ljós kemur að virðisaukaskattsskýrsla styðst ekki við tilskilið bókhald samkvæmt lögum nr. 145/1994, um bókhald, samkvæmt ákvæðum laga þessara eða ákvæða reglugerða settra samkvæmt þeim. Jafnframt er skattstjóra heimilt að áætla virðisaukaskatt aðila ef í ljós kemur að færsla á innskatti eða útskatti eða öðrum þáttum, sem virðisaukaskattsskýrsla byggist á, styðst ekki við lögmæt gögn. Sama gildir ef bókhald og þau gögn, sem liggja fyrir um fjárhæðir virðisaukaskattsskýrslu, verða ekki talin nægilega örugg eða ef tekjuskráning, þar með talin notkun sjóðvélar eða útbúnaður hennar eða notkun og form reikninga, er ekki í samræmi við ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Enn fremur er heimilt að áætla virðisaukaskatt aðila ef ekki er lagt fram bókhald eða þau gögn sem skattyfirvöld kunna að biðja um til að sannprófa virðisaukaskattsskýrslu. Áætlun skal vera svo rífleg að eigi sé hætt við að skattfjárhæð sé áætluð lægri en hún er í raun og veru. Ákvæði 27. gr. á við um áætlun samkvæmt þessari grein.
    Við ákvörðun eða endurákvörðun, sbr. 1. og 2. mgr., skal skattstjóri tilkynna aðila skriflega um fyrirhugaðar breytingar og af hvaða ástæðum þær eru gerðar til að aðili geti tjáð sig skriflega um efni máls og lagt fram viðbótargögn. Við endurákvörðun skal skattstjóri þó veita aðila a.m.k. 15 daga frest, frá póstlagningu tilkynningar um fyrirhugaðar breytingar. Sé ekki kunnugt um dvalarstað aðila er skattstjóra heimilt að gera breytingar án þess að tilkynna um þær.
    Skattstjóri skal að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum þess frests sem skattstjóri hefur veitt aðila til að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun skv. 3. mgr. og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi. Tilkynning um skattbreytingu skal send viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs við uppkvaðningu úrskurðar. Samrit úrskurðar skal samtímis sent ríkisskattstjóra. Heimilt er aðila að kæra úrskurð skattstjóra til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
    Heimild til endurákvörðunar virðisaukaskatts samkvæmt þessari grein nær til skatts síðustu fjögurra ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Sama gildir um endurákvörðun á áður ofendurgreiddum skatti. Frestur til endurákvörðunar er þó sex ár hafi aðili dregið viðskipti undan skatti af ásetningi eða stórfelldu gáleysi eða ef telja verður virðisaukaskatt vanreiknaðan af þeim ástæðum sem um getur í 2. mgr. Fari fram rannsókn við embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins eða hjá ríkislögreglustjóra á skattskilum aðila reiknast heimild til endurákvörðunar frá byrjun þess árs þegar rannsókn hófst.
    Hafi skattstjóri eða ríkisskattstjóri grun um að skattsvik eða refsiverð brot á lögum um bókhald og ársreikninga hafi verið framin skal hann tilkynna það skattrannsóknarstjóra ríkisins sem ákveður um framhald málsins.


5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
    Í stað „26. gr.“ í 1. mgr. kemur: 25. gr.
    7.–10. mgr. falla brott.


6. gr.

    Í stað „26. gr.“ í 4. mgr. 28. gr. laganna kemur: 25. gr.


7. gr.

    29. gr. laganna orðast svo:
    Ákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti skv. 25. gr. er kæranleg til hans innan 30 daga frá því er skatturinn var ákveðinn. Kærufrestur reiknast frá póstlagningu tilkynningar um skattákvörðun. Við ákvörðun virðisaukaskatts án sérstakrar tilkynningar til kæranda reiknast kærufrestur þó frá gjalddaga uppgjörstímabilsins, sbr. 24. gr. Kærur skulu vera skriflegar og rökstuddar. Innsend fullnægjandi virðisaukaskattsskýrsla skal tekin sem kæra þegar um er að ræða áætlanir skv. 25. gr.
    Skattstjóri skal að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum kærufrests kveða upp rökstuddan úrskurð um kæruna og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi.
    Úrskurði skattstjóra má skjóta til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
    Ágreining um skattskyldu og skatthæð má bera undir dómstóla, enda hafi áður verið um hann úrskurðað af yfirskattanefnd. Það skal þó gert innan sex mánaða frá því að yfirskattanefnd úrskurðar í málinu.
    Áfrýjun eða deila um skattskyldu frestar ekki gjalddaga skattsins né leysir undan neinum þeim viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans, en verði skattur lækkaður eftir úrskurði eða dómi skal endurgreiða það sem lækkuninni nemur.

8. gr.

    Í stað orðanna „5. mgr. 96. gr. og 4. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum“ í 4. mgr. 39. gr. laganna kemur: 6. mgr. 26. gr.


9. gr.

    Í stað orðsins „virðisaukaskatt“ í 3. málsl. 2. mgr. 42. gr. laganna kemur: 60% þess virðisaukaskatts.

10. gr.

    Við lögin bætist viðauki sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Viðauki.

    Af vörum til manneldis í eftirgreindum tollskrárnúmerum skal greiða 24,5% virðisaukaskatt:

1704.1000
1704.9001
1704.9002
1704.9003
1704.9004
1704.9005
1704.9006
1704.9007
1704.9009
1805.0001
1805.0009
1806.1000
1806.2001
1806.2003
1806.2004
1806.2005
1806.2006
1806.2009
1806.3101
1806.3109
1806.3201
1806.3202
1806.3203
1806.3209
1806.9023
1806.9024
1806.9025
1806.9026
1806.9028
1806.9029
1806.9039
1905.2000
1905.3011
1905.3019
1905.3021
1905.3029
1905.3030
2009.1101
2009.1109
2009.1901
2009.1909
2009.2001
2009.2009
2009.3001
2009.3009
2009.4001
2009.4009
2009.5001
2009.5009
2009.6001
2009.6009
2009.7001
2009.7009
2009.8001
2009.8009
2009.9001
2009.9009
2106.9011
2106.9019
2106.9021
2106.9022
2106.9031
2106.9039
2106.9061
2106.9063
2201.1000
2202.1001
2202.1009
2202.9009
2203.0001
2204.1001
2204.2111
2204.2121
2204.2131
2204.2141
2204.2151
2204.2161
2204.2911
2204.2921
2204.2931
2204.2941
2204.2951
2204.2961
2204.3001
2205.1001
2205.9001
2206.0001
2208.7011
2208.7091
2208.9091
2209.0000

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Hafi skattstjóri tilkynnt aðila um fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskatti fyrir 1. janúar 1997 skal fara með málið eftir þeim ákvæðum sem í gildi voru fyrir þann tíma.

II.

    Fari afhending á vinnu manna við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis sannanlega fram fyrir 1. janúar 1997 er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt af henni að fullu enda sé dagsetning sölureiknings fyrir þann tíma.
    Hafi verksamningur vegna afhendingar á þjónustu skv. 1. mgr. verið gerður fyrir 1. janúar 1997 og afhending farið fram bæði fyrir og eftir þann tíma skal einungis endurgreiða virðisaukaskatt að fullu af þeirri vinnu sem unnin var fyrir 1. janúar 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru fyrst og fremst lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögunum sem gera þarf vegna breytinga á öðrum skattalögum.
    Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á málsmeðferðarákvæðum laganna til samræmis við ákvæði laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þeim ákvæðum var breytt á haustþingi 1995 og koma til framkvæmda 1. janúar 1997.
    Í öðru lagi er lagt til að tekin verði út tilvísun í viðauka I laga nr. 97/1987, um vörugjald, og lögfestur í stað þess viðauki við lögin sama efnis.
    Í þriðja lagi er lagt til að endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna viðhalds og endurbóta á íbúðarhúsnæði verði lækkaðar í 60% til samræmis við endurgreiðslur af nýbyggingum.
    Í fjórða lagi er lögð til breyting á lögunum til að styrkja framkvæmd og eftirlit með virðisaukaskattsbifreiðum.
    Málsmeðferðarreglur virðisaukaskattslaganna eru í IX. kafla þeirra. Við lögfestingu laganna var á sínum tíma ákveðið að kveða aðeins að hluta á um málsmeðferð í þeim og vísa að öðru leyti í ákvæði laga nr. 75/1981. Ókostir þessa fyrirkomulags eru þeir að erfitt er að gera sér grein fyrir hvaða reglur gildi við málsmeðferð vegna virðisaukaskatts hjá skattyfirvöldum aðrar en þær sem eru fyrir í lögunum. Í raun þarf töluverða sérþekkingu til að geta áttað sig á hvernig túlka eigi saman ákvæði laganna og laga nr. 75/1981. Því er lagt til að málsmeðferðarreglur 95., 96. og 99. gr. laga nr. 75/1981 verði teknar upp í lögin eftir því sem þurfa þykir, en ákvæði laga nr. 75/1981 gildi eftir sem áður til fyllingar ákvæðum laganna. Með lögfestingu skýrari málsmeðferðarreglna í lögunum verður réttaröryggi skattaðila betur tryggt og um leið stuðlar það að markvissari framkvæmd. Er sú breyting í samræmi við þá þróun í lagasetningu varðandi réttaröryggi borgara í samskiptum sínum við hið opinbera sem hefur verið í þjóðfélaginu á síðustu árum. Sem dæmi má nefna nýleg stórnsýslulög, nr. 37/1993, og upplýsingalög, nr. 50/1996.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að felld verði brott tilvísun í lög nr. 97/1987, um vörugjald, en í stað þess komi tilvísun í viðauka við lögin, sbr. 10. gr., er efnislega samhljóða gjaldflokki D í lögum nr. 97/1987 áður en þeim var breytt á síðasta vorþingi.


Um 2. gr.

    Ákvæði þessu er ætlað að styrkja framkvæmd og eftirlit með virðisaukaskattsbifreiðum, sérstaklega þeim bifreiðum sem auðkenndar eru með rauðum skráningarmerkjum vegna nýtingar á frádrætti innskatts af kaupum þeirra. Frá því að farið var að auðkenna virðisaukaskattsbifreiðar í júlí 1993 hafa mörg mál komið fyrir yfirskattanefnd þar sem tekið hefur verið á úrskurðum skattyfirvalda vegna meintrar misnotkunar skattaðila. Yfirskattanefnd hefur nú kveðið upp marga stefnumarkandi úrskurði varðandi framkvæmd, eftirlit og málsmeðferð mála sem varða virðisaukaskattsbifreiðar. Af úrskurðum nefndarinnar má draga þá ályktun að nauðsynlegt sé að setja skýrari reglur um skyldur aðila sem fá endurgreiddan virðisaukaskatt af kaupverði bifreiða. Í ákvæðinu er lagt til að kveðið verði á um það með skýrum hætti að hafi skattaðila verið heimilt að telja virðisaukaskatt af öflun og leigu ökutækis til innskatts beri honum að tilkynna skattstjóra áður en hann hyggst breyta notkun bifreiðarinnar.
    Breyting þessi tekur af vafa um hvernig fara beri með mál þar sem fyrir liggur í gögnum skattyfirvalda að bifreið á rauðum skráningarmerkjum hafi verið notuð í öðrum tilgangi en varðar skattskylda starfsemi án þess að tilkynnt hafi verið um breytta notkun til skattstjóra. Í slíkum tilvikum er skattstjóra rétt að fella niður innskatt af kaupum bifreiðarinnar.
    

Um 3. gr.

    Í þessari grein er annars vegar lagt til að fella í eina lagagrein ákvæði um hina reglulegu ákvörðun virðisaukaskatts sem fram fer að liðnu hverju uppgjörstímabili, hvort sem um er að ræða virðisaukaskatt til greiðslu (áður í 25. gr.) eða til endurgreiðslu (áður ákvæði 26. gr.). Breytingar frá núgildandi lögum eru m.a. þær að tekið er fram í 1. mgr. að skattstjóri skuli ákvarða virðisaukaskatt skráðra aðila á hverju uppgjörstímabili. 1. mgr. 25. gr. á við um ákvörðun skattstjóra hvort sem ákvörðun er tekin á grundvelli 25. eða 26. gr. Þetta hefur þýðingu með tilliti til kærufrests, sbr. athugasemdir með 7. gr. frumvarpsins. Þá er mælt fyrir um það sérstaklega að tilkynna skuli aðila um samþykki skattstjóra til endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt skýrslu þar sem innskattur er hærri en útskattur. Er það í samræmi við ákvæði reglugerðar um framtal og skil á virðisaukaskatti. Ekki er gert ráð fyrir tilkynningu til aðila vegna reglulegrar ákvörðunar á virðisaukaskatti skráðs aðila.
    Hins vegar er lagt til að bætt verði við ákvæðið til fyllingar og samræmingar við málsmeðferðarreglur laga nr. 75/1981 og til staðfestingar á núgildandi framkvæmd. Í þessu felast ekki efnisbreytingar.
    Lagt er til að bætt verði tveimur nýjum málsliðum til fyllingar á 25. gr. laganna, í samræmi við málsmeðferðarreglur tekjuskatts- og eignarskattslaganna. Annars vegar er gerð skýr skylda skattstjóra til að áætla fjárhæð á skatti til greiðslu svo ríflega að hún sé örugglega ekki lægri en aðila ber raunverulega að greiða. Hins vegar er kveðið á um að skattstjóri geti leiðrétt augljósar reikningsskekkjur án sérstakrar tilkynningar til skattgreiðanda. Hér undir falla tilvik eins og þegar mismunur til greiðslu á skýrslu er ekki í samræmi við útskatt og innskatt á skýrslu. Sé greiðslan í samræmi við útskatt og innskatt á skýrslu þykir ekki tilefni til þess að tilkynna sérstaklega um leiðréttingu skattstjóra. Sé greiðslan hins vegar í samræmi við mismun til greiðslu á skýrslu er hins vegar tilefni til fyrirspurnar skv. 26. gr. laganna.

Um 4. gr.

    Í þessari grein er lagt til að 26. gr. virðisaukaskattslaganna verði eftir því sem við á aðlöguð 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tilgangur þessarar breytingar er tvíþættur. Annars vegar að stytta feril málsmeðferðar við endurákvarðanir til samræmis við breytingu sem gerð var á lögum nr. 75/1981. Hins vegar að gera málsmeðferðarreglur laganna skýrari og aðgengilegri.
    Fram að þessu hafa málsmeðferðarreglur laganna verið ófullkomnar og hafa málsmeðferðarákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt verið þeim til fyllingar, sbr. 49. gr. laganna. Í þeirri grein kemur fram að um þau atriði þar sem ekki eru sérstök ákvæði í virðisaukaskattslögunum fari samkvæmt lögum nr. 75/1981 eftir því sem við eigi. Eins og fram hefur komið í almennum athugasemdum með frumvarpinu er talið æskilegt að málsmeðferðarákvæði þessi séu skýr í lögunum.
    Breytingar sem gerðar eru á ákvæðinu eru eftirfarandi: 1) Lagt er til að reglur um fyrirspurn skattstjóra verði færðar inn í ákvæði virðisaukaskattslaga. 2) Tekinn er upp 15 daga lágmarksfrestur til andmæla við endurákvarðanir til samræmis við ákvæði laga nr. 75/1981 ásamt því að tekið er upp almennt ákvæði um boðun breytinga. 3) Frestur skattstjóra til að endurákvarða verður að jafnaði tveir mánuðir í stað þess að áður hafði skattstjóri þrjátíu daga til að kveða upp úrskurð. Fresturinn er lengdur til samræmis við ákvæði laga nr. 75/1981. 4) Í núgildandi ákvæði er heimild til endurákvörðunar virðisaukaskatts sex ár aftur í tímann en lagt er til að stytta þennan tíma í fjögur ár nema í þeim tilvikum þegar um er að ræða stórfellt gáleysi eða ásetning eða í tilvikum er greinir í 2. mgr. Er þessi breyting í samræmi við breytingar á þessum frestum sem lagðar eru til í frumvarpi til breytinga á lögum nr. 75/1981. 5) Í núgildandi ákvæði virðisaukaskattslaga ber að gera aðila viðvart í ábyrgðarbréfi áður en virðisaukaskattur er reiknaður að nýju en slíkt ákvæði hefur ekki verið í lögum nr. 75/1981 og þykir því rétt að gæta samræmis hvað þetta varðar og fella út ákvæðið. Að öðru leyti skýrir greinin sig sjálf þar sem einungis er verið að samræma ákvæði virðisaukaskattslaga tekjuskattslögum eftir því sem við á.
    Styttingu málsmeðferðar um eitt kærustig við endurákvörðun er ætlað að miða að aukinni skilvirkni á skattstjórastigi án þess þó að skerða réttaröryggi skattaðila. Engar breytingar verða á rannsóknar- eða rökstuðningsskyldu skattstjóra né andmælarétti skattaðila, en þær reglur eru ýmist lögfestar í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eða leiddar af stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Breytingarnar eiga að leiða til tíma- og vinnusparnaðar, bæði hjá skattaðilum og skattstjórum. Í framkvæmd hefur verið talið að mál séu nokkuð þung í vöfum eftir ákvörðun og því haldið fram að við kæruúrskurði verði sjaldnast miklar breytingar þar sem allar málsástæður, lagarök og gögn hafi að jafnaði komið fram þegar endurákvörðun hefur verið boðuð. Tekið skal fram að þegar skattaðila eru tilkynntar fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskatti hans eru þær breytingar rökstuddar og sama gildir um endurákvörðun.
    Ferill mála samkvæmt gildandi reglum er eftirfarandi:
—    fyrirspurn skattstjóra,
—    svar skattaðila,
—    tilkynning skattstjóra um fyrirhugaðar breytingar,
—    viðbótargögn og andmæli skattaðila,
—    endurákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti,
—    kæra skattaðila,
—    úrskurður skattstjóra sem síðan er kæranlegur til yfirskattanefndar.
    Verði þær breytingar sem hér eru lagðar til að lögum verður ferill máls þessi:
—    fyrirspurn skattstjóra,
—    svar skattaðila,
—    tilkynning skattstjóra um fyrirhugaðar breytingar,
—    viðbótargögn og andmæli skattaðila,
—    úrskurður skattstjóra um endurákvörðun á virðisaukaskatti sem er þá kæranlegur til yfirskattanefndar.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að 7.–10. mgr. 27. gr. verði felldar brott enda eru efnisákvæði þeirra tekin upp í 26. gr., sbr. 4. gr. frumvarpsins. Eftir breytinguna fjallar 27. gr. einungis um beitingu álags. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Um 7. gr.

    Lagt er til að frestur skattstjóra til að kveða upp kæruúrskurð verði að jafnaði tveir mánuðir. Er sú breyting í samræmi við breytingar þær sem gerðar voru á lögum nr. 75/1981 á haustþingi 1995. Jafnframt er lagt til að ákvæði laganna um kærufresti verið gerð skýrari, þ.e. tiltekið er frá hvaða tíma kærufrestir byrji að líða vegna ákvörðunar virðisaukaskatts. Aðrar breytingar á 29. gr. laganna eru að felldar eru brott nokkrar málsgreinar þar sem kveðið er á um kærurétt til yfirskattanefndar og verksvið hennar. Ákvæði samhljóða þessum eru í lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.


Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Um 9. gr.

    Í þessari grein er lagt til að endurgreiðslur vegna vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis verði lækkaðar í 60% til samræmis við endugreiðslur vegna vinnu manna við nýbyggingar.Við breytingu sem gerð var á lögum um virðisaukaskatt sl. vor gætti þeirrar ónákvæmni að lækkun endurgreiðslunnar náði einungis til vinnu við byggingu íbúðarhúsnæðis en ekki til vinnu við viðhald eða endurbætur.


Um 10. gr.

    Í þessari grein er lagt til að tekinn verði upp sérstakur viðauki við lögin til skilgreiningar á því hvaða vörur til manneldis falli undir hærra þrep virðisaukaskatts. Þessi breyting tengist þeirri breytingu sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins að fella brott tilvísun í viðauka við lög nr. 97/1987, um vörugjald. Ástæðan er sú að Alþingi samþykkti sl. vor breytingar á viðauka við þau lög með þeim áhrifum að tilvísun í viðauka þeirra á ekki lengur við. Í stað þess að leggja til breytingar á þeim viðauka þykir eðlilegra að taka upp sérstakan viðauka við þessi lög.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 50/1988,


um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að lögfestar verði skýrar málsmeðferðarreglur í virðisaukaskattslögin. Frumvarpið mun þó ekki hafa í för með sér neina breytingu í framkvæmd, þar sem samkvæmt núgildandi lögum er vísað til laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þeim til fyllingar. Gert er ráð fyrir að þessi breyting hafi óverulegan kostnað í för með sér.