Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 145 . mál.


160. Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
    Í stað hlutfallstölunnar „1,5%“ í 1. mgr. kemur:1,35%.
    Í stað 3., 4. og 5. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Almennt tryggingagjald skal vera 4,15% af gjaldstofni skv. III. kafla, sbr. þó 4. og 5. mgr.
                  Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. skal almennt tryggingagjald vera í tveimur gjaldflokkum, almennum gjaldflokki og sérstökum gjaldflokki, við álagningu tryggingagjalds á árunum 1998–2000 og staðgreiðslu þess á árunum 1997–1999.
                  Hundraðshluti almenns tryggingagjalds í sérstökum gjaldflokki, þ.e. fiskveiðar, iðnaður, landbúnaður, hugbúnaðariðnaður, kvikmyndaiðnaður, gisting, veitingarekstur og útleiga bifreiða, sbr. upptalningu atvinnugreinanúmera í viðauka I við lög þessi, skal vera sem hér segir:
         a.     Við staðgreiðslu tryggingagjalds á árinu 1997 og álagningu á árinu 1998 skal hundraðshlutinn vera 2,7%.
        b.     Við staðgreiðslu tryggingagjalds á árinu 1998 og álagningu á árinu 1999 skal hundraðshlutinn vera 3,2%.
        c.     Við staðgreiðslu tryggingagjalds á árinu 1999 og álagningu á árinu 2000 skal hundraðshlutinn vera 3,7%.
                  Hundraðshluti almenns tryggingagjalds í almennum gjaldflokki, þ.e. fyrir allar aðrar atvinnugreinar en falla undir 5. mgr., skal vera sem hér segir:
        a.     Við staðgreiðslu tryggingagjalds á árinu 1997 og álagningu á árinu 1998 skal hundraðshlutinn vera 5,15%.
        b.     Við staðgreiðslu tryggingagjalds á árinu 1998 og álagningu á árinu 1999 skal hundraðshlutinn vera 4,8%.
        c.     Við staðgreiðslu tryggingagjalds á árinu 1999 og álagningu á árinu 2000 skal hundraðshlutinn vera 4,45%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997. Ákvæði a-liðar 1. gr. kemur til framkvæmda við álagningu tryggingagjalds á árinu 1998 og við staðgreiðslu tryggingagjalds á árinu 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.


    Þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi þarf að skoða í samhengi við ákvæði annarra frumvarpa á sviði skattamála sem lögð eru fyrir Alþingi á sama tíma. Í meginatriðum má skipta þeim breytingum sem lagðar eru til í þessum frumvörpum í fernt. Fyrst eru breytingar á tekju- og eignarsköttum fyrirtækja. Í öðru lagi eru tilteknar breytingar á tekjusköttum einstaklinga. Í þriðja lagi eru breytingar á tryggingagjaldi sem fyrirtæki greiða, en þær eru lagðar til í þessu frumvarpi. Í fjórða lagi eru breytingar á vörugjöldum.

Skattbreytingar að undanförnu.

    Verulegar breytingar hafa orðið á skattlagningu fyrirtækja og einstaklinga á undanförnum árum. Hér hefur einkum verið horft til þess að breyta skattlagningunni til samræmis við það sem er í helstu samkeppnislöndunum. Tekjuskattshlutfall fyrirtækja hefur verið lækkað umtalsvert, en á móti hafa ýmsir frádráttarliðir verið lækkaðir eða felldir niður. Aðstöðugjald, sem lagt var á veltu fyrirtækja, var fellt niður. Skattstofn virðisaukaskatts var breikkaður og tekið upp nýtt lægra þrep. Jafnframt var virðisaukaskattur á matvælum lækkaður. Loks voru stigin fyrstu skref í átt til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjuskattskerfisins með því að undanþiggja lífeyrisiðgjöld einstaklinga skattlagningu og með því að draga úr skerðingu á barnabótaauka vegna tekna. Með þeim breytingum sem kynntar eru í þessu frumvarpi er haldið áfram á þeirri braut að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og laga skattlagninguna að því sem er víða erlendis. Nánari grein er gerð fyrir þessum breytingum hér á eftir.

Samhengi áformaðra skattbreytinga.

    Sem fyrr segir eru áformaðar fleiri breytingar í skattamálum en felast í þessu frumvarpi. Þessar breytingar tengjast að nokkru leyti. Þannig vega breytingar á tekjuskatti fyrirtækja á móti tillögum sem kynntar eru í þessu frumvarpi, um að samræma álagningu tryggingagjalds milli atvinnugreina og stefna að einu gjaldhlutfalli eftir fjögur ár. Þetta á fyrst og fremst við um rýmri heimildir til að nýta rekstrartap fyrri ára til frádráttar tekjum. Lækkun á vörugjöldum nú er síðari hluti þeirrar breytingar sem hafin var fyrr á þessu ári en þá var gert ráð fyrir að hún yrði fjármögnuð með hækkun á almennu tryggingagjaldi um leið og það yrði samræmt. Vegna lækkunar á atvinnutryggingagjaldi, þ.e. þeim hluta tryggingagjalds sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs, verður ekki þörf á því að tryggingagjaldið í heild hækki frá því sem nú er.

Breytingar á tryggingagjaldi.

    Í þessu frumvarpi eru kynntar tvenns konar breytingar á tryggingagjaldi. Annars vegar er gert ráð fyrir samræmingu gjaldhlutfallsins milli atvinnugreina á næstu fjórum árum. Hins vegar er gjaldhlutfall atvinnutryggingagjalds lækkað (í samræmi við og með hliðsjón af minni fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári) og almenna tryggingagjaldið hækkað samsvarandi til að fjármagna lækkun vörugjalds.

Samræming gjaldhlutfalls.

    Ríkisstjórnin ákvað síðastliðið vor að stefna að samræmingu tryggingagjalds milli atvinnugreina í nokkrum áföngum. Þessi ákvörðun var tekin í framhaldi af athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í febrúar sl. þar sem talið var að mishátt tryggingagjald eftir atvinnugreinum samrýmdist ekki samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þótt EES-samningurinn taki ekki til allra þeirra atvinnugreina sem nú dag búa við lægra gjaldhlutfall telur ríkisstjórnin eðlilegt og sanngjarnt að allar atvinnugreinar sitji við sama borð og greiði jafnhátt tryggingagjald.
    Samkvæmt gildandi lögum er tryggingagjaldið lagt á í tveimur þrepum, 3,55% á launagreiðslur í landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði, hótel- og veitingahúsarekstri, bílaleigu, hugbúnaðargerð og kvikmyndagerð. Aðrar greinar greiða 6,85% tryggingagjald. Meðalgjaldhlutfallið er um 5,5%, ef rekstur ríkis og sveitarfélaga er undanskilinn.
    Í þessu frumvarpi er gerð tillaga um samræmt 5,5% gjald fyrir allar atvinnugreinar sem komi til framkvæmda í jöfnum áföngum á næstu 4 árum, sbr. meðfylgjandi yfirlit:

Samræming tryggingagjalds

Sem % af launagreiðslum
Í dag
1997 1998 1999 2000


Landbúnaður, sjávarútvegur, iðnaður o.fl.     
3,55
4,05 4,55 5,05 5,5
Aðrar greinar     
6,85
6,50 6,15 5,80 5,5


    Samræmingin felur í sér um 350 m.kr. árlega tilfærslu tryggingagjalds frá greinum í hærra þrepi yfir á þær sem eru í því lægra á næstu fjórum árum, eða um 1.400 m.kr. þegar breytingin verður að fullu komin til framkvæmda. Þar af á sjávarútvegurinn um það bil helming.

Tilfærsla frá atvinnutryggingagjaldi í almennt tryggingagjald.

    Samkvæmt gildandi lögum er álagning tryggingagjalds þrískipt eftir rétthöfum. Fyrst er sérstakt 1,5% gjald eyrnamerkt Atvinnuleysistryggingasjóði og fjármögnun hans í kjölfar þeirra lagabreytinga sem samþykktar voru í lok síðasta árs. Í öðru lagi er kveðið á um hlut Vinnueftirlits ríkisins sem nemi allt að 0,08% af gjaldstofni. Það sem eftir stendur fer síðan til Tryggingastofnunar ríkisins upp í greiðslu lífeyris- og slysatrygginga almannatrygginga.
    Ríkisstjórnin ákvað sl.vor að lækka vörugjöld í tveimur áföngum. Hinn fyrri er þegar kominn til framkvæmda, en sá síðari er fyrirhugaður í byrjun næsta árs. Áætlað var að hvor áfangi um sig kostaði ríkissjóð nálægt 350 m.kr. og að hinn síðari yrði fjármagnaður með hækkun tryggingagjalds. Nú er staðan hins vegar sú að fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs er minni en svarar til hluta hans í tryggingagjaldi (atvinnutryggingagjalds) sem nemur 350 m.kr. Þannig er nú svigrúm til að fjármagna lækkun vörugjalda án þess að hækka tryggingagjaldið frá því sem nú er. Í þessu frumvarpi er því lagt til að atvinnutryggingagjaldið lækki úr 1,5% í 1,35% til samræmis við minni fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs. Jafnframt hækki almenna tryggingagjaldið (bæði lægra og hærra þrepið) um sama hlutfall til að mæta tekjutapi vegna lækkunar vörugjalds.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagðar eru til tvær breytingar á 2. gr. laganna.
    Í a-lið er lagt til að atvinnutryggingagjald lækki úr 1,5% í 1,35% af gjaldstofni í samræmi við minni fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Í b-lið eru síðan lagðar til breytingar á almennu tryggingagjaldi. Annars vegar er lögð til sú breyting að almennt tryggingagjald hækki um 0,15% til þess að standa undir lækkun vörugjalda. Hins vegar er lagt til að tekið verði upp í áföngum samræmt gjaldhlutfall almenns tryggingagjalds. Gert er ráð fyrir að samræmt gjaldhlutfall verði að fullu komið til framkvæmda við staðgreiðslu tryggingagjalds á árinu 2000. Fram að þeim tíma verður almennt tryggingagjald lagt á og innheimt eins og verið hefur í tveimur gjaldflokkum, almennum og sérstökum. Er gert ráð fyrir að árlega hækki gjaldhlutfall í sérstökum gjaldflokki og lækki að sama skapi í almennum gjaldflokki.
    Um forsendur að öðru leyti vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum.

Um 2. gr.

    Ákvæði um gildistöku.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 113/1990,
um tryggingagjald, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta snýr að breytingum á lögum varðandi tekjur ríkissjóðs og verður ekki séð að það hafi teljandi áhrif á gjaldahlið.