Ferill 147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 147 . mál.


162. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 95/1980, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Í skuldabréfum og víxlum fyrirtækja með trausta eiginfjárstöðu og góða rekstrarafkomu, enda séu viðkomandi skuldabréf skráð á Verðbréfaþingi Íslands.

2. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins, að lífeyrissjóðurinn taki við viðbótariðgjaldi sem greitt verði umfram iðgjald skv. 1. mgr.

3. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:

    Samanlögð iðgjöld sjóðfélaga hvert almanaksár skulu umreiknuð í stig er mynda grundvöll lífeyrisréttinda hans.
    Til grundvallar stigaútreikningi skal grundvallarfjárhæð í janúar 1996 vera 49.084 kr. og breytist hún mánaðarlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá 174,2 stigum. Verði grundvöllur þessi að dómi sjóðstjórnar ónothæfur mælikvarði skal hún ákveða annan stigagrundvöll, svo og tengingu hans við fyrri grundvöll. Sama gildir ef stigagrundvöllur, sem ákveðinn hefur verið af sjóðstjórn, reynist síðar ónothæfur.
    Stig ársins reiknast þannig að deilt skal í tíföld iðgjöld, sem greidd hafa verið vegna hlutaðeigandi sjóðfélaga, með grundvallarlaunum ársins skv. 2. mgr. Við útreikning lífeyris reiknast áunnin stig að fullu. Ef um maka- eða örorkulífeyri er að ræða skal reikna að fullu stig þeirra 30 ára sem hagstæðust eru fyrir sjóðfélagann, en að hálfu stig þeirra ára sem afgangs verða. Þó skal aldrei miða við færri stig en áunnin eru.
    Ekki skal reikna stig fyrir tíma eftir lok þess mánaðar er sjóðfélagi nær 70 ára aldri.
    Stig skulu reiknuð með þremur aukastöfum.
    Verði iðgjöld ekki reiknuð í stig, sbr. 4. mgr., fer um endurgreiðslu þeirra eftir ákvæðum 16. gr.


4. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:

    Lífeyrir sem úrskurðaður hefur verið skv. 10., 11., 12. og 13. gr. skal taka sömu hlutfallsbreytingum í mánuði hverjum og vísitala neysluverðs til verðtryggingar sú sem Hagstofa Íslands birtir samkvæmt lögum nr. 12/1995, með síðari breytingum.
    Verði gerð breyting á grundvelli eða á útreikningi neysluverðsvísitölunnar skal ráðherra, að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins, ákveða með hvaða hætti lífeyrir samkvæmt fyrrnefndum greinum skuli verðtryggður þaðan í frá.


5. gr.

    Síðari málsliður 16. gr. laganna orðast svo:
    Sjóðurinn skal endurgreiða iðgjöld sem honum eru greidd vegna starfsmanna sem ekki hafa náð 16 ára aldri eða þeirra sem náð hafa 70 ára aldri.

6. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
    Stjórn sjóðsins er heimilt að gera samning við Spöl hf. um kaup víkjandi skuldabréfa, útgefnum af Speli hf., í samræmi við viljayfirlýsingu lífeyrissjóðsins dags. 13. desember 1993 og yfirlýsingu dags. 22. maí 1995.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samkvæmt beiðni stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda en í henni eiga sæti fulltrúar lífeyrissjóðasambandanna, lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og fulltrúar ríkisins. Er lagt til að lífeyrir verði verðtryggður miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs, en nú er miðað við lánskjaravísitölu, og að réttindi sjóðfélaga verði bætt þannig að öll stig verði reiknuð á sama hátt. Einnig er gert ráð fyrir að sjóðurinn geti tekið við viðbótarframlögum. Þá er lagt til að sjóðurinn fái heimild til að fjárfesta í skuldabréfum fyrirtækja sem sýna góða afkomu og eru skráð á Verðbréfaþingi Íslands. Margir sameignasjóðir hafa nú þegar slíka heimild. Loks er lagt til að sjóðurinn fái auknar heimildir til þess að fjárfesta í víkjandi skuldabréfum útgefnum af Speli hf.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að sjóðurinn fái auknar heimildir til fjárfestinga í samræmi við þær reglur sem gilda hjá öðrum lífeyrissjóðum. Eru innlend fyrirtæki í auknum mæli farin að leita út á verðbréfamarkaðinn til að afla sér lánsfjár. Þar bjóðast sterkum fyrirtækjum oftast betri kjör en hjá öðrum lánveitendum, en jafnframt eru vaxtakjör til fjárfesta oft mjög áhugaverð. Þess má geta að sjóðurinn hefur nú þegar heimild til hlutabréfakaupa í fyrirtækjum sem eru skráð á Verðbréfaþingi Íslands og því er eðlilegt að sjóðurinn hafi heimild til að kaupa skuldabréf og víxla útgefna af sömu fyrirtækjum.

Um 2. gr.

    Hér er kveðið á um að heimilt verði að setja ákvæði í reglugerð um móttöku viðbótariðgjalds umfram lágmarksiðgjaldið sem er 10% af heildarlaunum.

Um 3. gr.

    Lagt er til að verðtrygging lífeyris miðist við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Er eðlilegt að miða við neysluverðsvísitölu þar sem hún hefur tekið við af lánskjaravísitölu þegar skuldbindingar eru verðtryggðar. Nær allar eigur sjóðsins voru verðtryggðar með lánskjaravísitölu, en frá gildistöku laga um visitölu neysluverðs, nr. 12/1995, eru eigur sjóðsins verðtryggðar samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að ellilífeyrir skv. 10. gr., örorkulífeyrir skv. 11. gr., makalífeyrir skv. 12. gr. svo og barnalífeyrir skv. 13. gr. verði verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, eftir að hann hefur verið ákveðinn. Ákvæði um hvernig fara skuli með ef breyting verður á vísitölunni er óbreytt frá fyrri lögum.

Um 5. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir því að sjóðurinn endurgreiði öll iðgjöld sem honum eru greidd eftir að sjóðfélagi hefur náð 70 ára aldri. Þar sem ekki eru reiknuð stig vegna þessara iðgjalda, sbr. 3. gr. frumvarpsins, þykir eðlilegt að endurgreiða þau.

Um 6. gr.

    Lagt er til að sjóðurinn fái heimild til að leggja Speli hf. til viðbótarlánsfé þegar Hvalfjarðargöngin eru fullgerð í samræmi við viljayfirlýsingu sjóðsins. Samkvæmt fyrri yfirlýsingu er honum heimilt að kaupa víkjandi skuldabréf útgefin af Speli hf. fyrir 70 millj. kr. Hér er lagt til að hann geti keypt skuldabréf fyrir 30 millj. kr. til viðbótar.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/1980,


um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á ákvæðum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, svo sem að heimilt verði að greiða til hans iðgjald umfram núverandi lágmark, að sjóðurinn fái auknar heimildir til fjárfestingar í skuldabréfum fyrirtækja sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands og í skuldabréfum útgefnum af Speli hf. Ekki verður séð að frumvarp þetta muni hafa kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.