Ferill 148. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 148 . mál.


163. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 69/1994, um sölu notaðra ökutækja.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi taka til sölu notaðra skráningarskyldra ökutækja sem fram fer með eftirgreindum hætti:
    Milliganga um sölu notaðra skráningarskyldra ökutækja þegar slík viðskipti eru þáttur í atvinnustarfsemi milligönguaðilans.
    Sala á notuðum skráningarskyldum ökutækjum í eigu seljandans þegar slík viðskipti eru þáttur í atvinnustarfsemi hans.
    Lögin taka ekki til nauðungarsölu notaðra ökutækja.
    

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Hver sá sem vill reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki skal hafa til þess sérstakt leyfi viðskiptaráðherra.
    Viðskiptaráðuneytið skal halda skrá yfir þá sem leyfi hafa til starfsemi samkvæmt lögum þessum.
    Heimilt er bifreiðasala að leggja inn til ráðuneytisins starfsleyfi sitt. Óheimilt er honum að segja upp starfsábyrgðartryggingu sinni fyrr en að fenginni staðfestingu ráðuneytisins á innlögn leyfisins.
    

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
    3. tölul. 1. mgr. orðast svo: Eru lögráða og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og lögum um sölu notaðra ökutækja.
    4. tölul. 1. mgr. orðast svo: Hafa forræði á búi sínu.
    5. tölul. 1. mgr. orðast svo: Hafa lagt fram skírteini því til sönnunar að þeir hafi tekið ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi, aflað sér bankatryggingar eða lagt fram aðrar tryggingar sem ráðherra metur gildar og bæta viðskiptamönnum tjón er þeir kunna að baka þeim með störfum sínum sem bifreiðasalar. Nánari ákvæði um ábyrgðartrygginguna, m.a. um lágmarksfjárhæð og vátryggingaskilmála, skulu ákveðin með reglugerð.
    5. tölul. 1. mgr. verður 6. tölul.
    1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Meiri hluti stjórnarmanna lögaðila skal fullnægja skilyrðum 1.–4. tölul. 1. mgr.
    4. málsl. 2. mgr. orðast svo: Framkvæmdastjóri fyrirtækisins eða yfirmaður viðkomandi starfsemi innan þess skal fullnægja skilyrðum 1.–4. og 6. tölul. 1. mgr.
    Aðili sem sviptur hefur verið leyfi skv. 9. gr. skal sitja námskeið og standast prófkröfur, sbr. 6. tölul., áður en honum er veitt starfsleyfi á ný.

4. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 4. gr. orðast svo: Gögn þessi skulu fylgja afsali og skal bifreiðasali jafnframt varðveita þau í eitt ár frá söludegi viðkomandi ökutækis.

5. gr.

    Á eftir 1. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Bifreiðasali skal með áberandi hætti vekja athygli á gjaldskrá fyrir söluþóknun þar á meðal þegar um skipti á bifreiðum er að ræða. Einnig er skylt að leyfisbréf vegna starfseminnar liggi frammi á starfsstöð.
    

6. gr.

    Fyrirsögn III. kafla laganna verður: Eftirlit.
    

7. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Eftirlit með starfsemi bifreiðasala er í höndum lögreglustjóra í því umdæmi þar sem starfsstöð bifreiðasala er.
    Til þess að standa straum af kostnaði við eftirlit lögreglustjóra skal leggja á gjald er nema skal 5.000 kr. á ári, eða hluta úr ári, fyrir hvern einstakan leyfishafa samkvæmt lögum þessum. Skal greiða gjald þetta fyrir upphaf hvers árs. Gjaldið skal renna til lögreglustjóra í því umdæmi þar sem bifreiðasali hefur sína starfsstöð og sér lögreglustjóri jafnframt um innheimtu þess.
    Nú gerist bifreiðasali ítrekað sekur um brot á skyldum sínum samkvæmt lögum þessum að mati lögreglustjóra, fullnægir ekki lengur skilyrðum laganna eða vanrækir að greiða eftirlitsgjaldið í þrjá mánuði frá gjalddaga, og skal þá lögreglustjóri tilkynna það viðskiptaráðherra sem sviptir viðkomandi leyfi til sölu notaðra ökutækja samkvæmt lögunum.
    Nú rekur aðili starfsemi sem leyfi þarf til samkvæmt lögum þessum án tilskilinna réttinda, og skal þá lögreglustjóri þegar í stað stöðva þá starfsemi, þar á meðal með lokun starfsstöðvar.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög um sölu notaðra ökutækja tóku gildi í maí 1994, sem lög nr. 69/1994. Skv. 2. gr. laganna skal hver sá sem vill reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki hafa til þess sérstakt leyfi sýslumanns í viðkomandi umdæmi og í 9. gr. er kveðið á um að eftirlit með starfsemi bifreiðasala skuli vera í höndum sýslumanna.
    Fljótlega eftir gildistöku laganna kom í ljós að endurskoða þyrfti tilhögun útgáfu leyfisbréfs og eftirlits. Því var leitað til hagsmunaaðila varðandi tillögur um breytingar á gildandi lögum eftir að lögin höfðu verið í gildi í eitt ár og komu fram nokkrar ábendingar um breytingar. Unnið var úr þessum ábendingum í viðskiptaráðuneytinu og niðurstaðan varð frumvarp það sem hér er lagt fram. Leitað var umsagnar eftirtalinna aðila við frumvarpið: Neytendasamtakanna, dómsmálaráðuneytis, prófnefndar bifreiðasala, Sambands íslenskra tryggingafélaga, fjármálaráðuneytis (vegna Ríkiskaupa), Verslunarráðs Íslands, utanríkisráðuneytis (vegna Sölu varnarliðseigna), Félags íslenskra bifreiðaeigenda og Félags löggiltra bifreiðasala.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að orðalagi 1. gr. laganna verði breytt á þann veg að gildissvið laganna verði skýrara. Samkvæmt því orðalagi sem hér er lagt til gilda lögin um hefðbundna starfsemi bifreiðasala, þ.e. milligöngu um sölu notaðs ökutækis sem fram fer á skipulagðan hátt sem þáttur í atvinnustarfsemi viðkomandi. Lögin taka einnig til sölu notaðra ökutækja þótt þau séu í eigu seljandans, ef sú starfsemi er þáttur í atvinnustarfsemi viðkomandi.
    Samkvæmt þessu gilda lögin t.d. um sölu bifreiðaumboða á notuðum bifreiðum, hvort sem þær eru í eigu umboðsins eða viðskiptamanna. Einnig taka lögin til vátryggingafélaga sem selja tjónabíla, hvort sem þeir hafa verið formlega yfirteknir af vátryggingafélaginu eða eru enn í eigu þess sem fyrir tjóninu varð. Sama máli gegnir um skipulagða sölu Sölu varnarliðseigna á ökutækjum. Enn fremur fellur hér undir sölustarfsemi innkaupastofnana sveitarfélaga eða ríkis sem hafa það hlutverk að annast sölu notaðra ökutækja fyrir viðkomandi sveitarfélag eða ríki. Þá fellur undir lögin sala bílaleiga á þeim bifreiðum sem notaðar hafa verið til útleigu, enda er litið þannig á að sala og endurnýjun bifreiða á vegum bílaleigu sé eðlilegur þáttur í atvinnustarfsemi slíks fyrirtækis. Sama á við um beina sölu fjármálastofnana, svo sem banka og eignarleigufyrirtækja, á bifreiðum sem slíkar stofnanir hafa leyst til sín.
    Lögin taka hins vegar ekki til milliliðalausrar sölu á einstökum bifreiðum eða milligöngu um sölu einstakra bifreiða sem ekki fer fram með skipulögðum hætti eða sem þáttur í atvinnustarfsemi. Þannig má nefna að sala stofnana eða fyrirtækja, eins og banka, eignarleigufyrirtækja eða vátryggingafélaga, á einstökum bifreiðum sem notaðar hafa verið í rekstri eða starfsemi viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis, fellur ekki undir gildissvið laganna.
    Ástæða þykir til að láta lögin ekki taka til nauðungarsölu notaðra ökutækja, sbr. núgildandi lög, enda verður að ætla að neytendamarkmiðum laganna sé nægilega vel borgið hjá opinberum sýslunarmönnum.

Um 2. gr.


    Lagt er til að sama fyrirkomulag verði á útgáfu leyfis til sölu notaðra ökutækja og er á útgáfu leyfa til verðbréfamiðlunar og vátryggingamiðlunar. Þannig er gert ráð fyrir því að þeir sem vilja stunda sölu notaðra ökutækja í atvinnuskyni hafi til þess leyfi viðskiptaráðherra. Slíkt fyrirkomulag auðveldar að unnt sé að halda á einum stað landsskrá yfir leyfishafa.
    Rétt þykir einnig að kveða á um það með skýrum hætti að leyfishafi geti lagt inn leyfi sitt, verði breytingar á aðstæðum hans, án þess að missa við það nokkurn rétt.
    

Um 3. gr.


    Breytingar þær sem lagðar eru til í þessari grein eru til þess að skýrar sé kveðið á um hæfisskilyrði umsækjenda um leyfi til þess að mega stunda bifreiðasölu. Þannig er nú gert ráð fyrir, auk þeirra ákvæða sem óbreytt standa, að umsækjendur séu lögráða og hafi eigi hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað á síðustu þremur árum. Er þetta ákvæði sett inn til samræmis við ákvæði hlutafélagalöggjafarinnar. Í samræmi við ákvæði um starfsábyrgðartryggingar verðbréfa- og vátryggingamiðlara eru ákvæði 3. gr. þar um einnig endurskoðuð.
    Þá hefur nýrri málsgrein verið bætt við greinina um það að aðili sem sviptur hefur verið leyfi skuli sækja námskeið og standast prófkröfur að nýju, hyggist hann hefja aftur störf við sölu notaðra ökutækja. Ekki er óeðlilegt að þeir sem gerast brotlegir við lögin, án þess þó að um svo stórkostlegt brot sé að ræða að viðkomandi hafi hlotið dóm fyrir, þurfi að sanna þekkingu sína á þeim reglum sem gilda um sölu notaðra ökutækja áður en þeim er veitt starfsleyfi á ný.

Um 4. gr.


    Lagt er til að upplýsingar þær sem bifreiðasala ber að afla skriflega frá seljanda fylgi afsalinu þannig að ekki fari á milli mála að þeirra hafi verið aflað og kaupanda gerð grein fyrir þeim.

Um 5. gr.


    Kaupendur bifreiða virðast almennt ekki hafa vitneskju um þau sölulaun sem bifreiðasalar krefjast þegar um skipti á bifreiðum er að ræða, þ.e. þegar ódýrari bifreið er tekin upp í dýrari, enda hefur skort nokkuð á að vakin sé athygli á gjaldskrá fyrir söluþóknun vegna bifreiðaviðskipta. Þar sem kvörtunarmál vegna ofangreindra sölulauna eru tíð er hér lagt til að bifreiðasala sé skylt að vekja athygli viðskiptamanna sinna á gjaldskrá fyrir söluþóknun áður en viðskipti eru gerð.
    

Um 6. gr.


    Lagt er til að III. kafli laganna fjalli ekki aðeins um sviptingu leyfis heldur einnig um það hvernig eftirliti með starfsemi bifreiðasala verði háttað. Eðlilegt er því talið að breyta fyrirsögn kaflans.
    

Um 7. gr.


    Lagt er til að lögreglustjóri hafi eftirlit með þeim bifreiðasölum í hans umdæmi sem fengið hafa starfsleyfi. Skiptir hér engu hvort starfsstöðin er aðalstarfsstöð eða útibú frá aðalstarfsstöð sem staðsett er í öðru umdæmi. Sá sem veitir starfseminni forstöðu skal ætíð hafa starfsleyfi.
    Jafnframt er hér kveðið á um það að lagt verði á starfandi bifreiðasala sérstakt árlegt gjald til þess að standa straum af kostnaði við eftirlitið. Er þess gætt að hafa gjaldtöku þessa þannig að hún sé ekki íþyngjandi fyrir rekstur bifreiðasala. Ekki er talið eðlilegt að leggja það á lögreglustjóra að sinna eftirlitinu án þess að einhverjar tekjur komi á móti. Jafnframt er hér kveðið á um úrræði sem lögreglustjóri getur beitt þegar um er að ræða ítrekuð brot leyfishafa á skyldum sínum samkvæmt lögunum. Ákvæði varðandi þetta eru ekki nógu eindregin í lögunum eins og þau eru nú.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.
    

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting


á lögum nr. 69/1994, um sölu notaðra ökutækja.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á upphaflegum lögum um sölu notaðra ökutækja. Eina breytingin sem hefur fjárhagslegar afleiðingar er álagning 5.000 kr. leyfisgjalds skv. 7. gr. sem bifreiðasölum ber að greiða árlega til lögreglustjóra til að standa undir kostnaði og eftirliti lögreglustjóraembætta með bifreiðasölum.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarps þessa hafi önnur fjárhagsleg áhrif í för með sér.