Ferill 149. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 149 . mál.


164. Frumvarp til lagaum Póst- og fjarskiptastofnun.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)1. gr.

Yfirstjórn o.fl.


    Póst- og fjarskiptastofnun hefur umsjón með framkvæmd fjarskipta- og póstmála hér á landi eftir því sem mælt er fyrir um í lögum þessum og öðrum lögum sem um fjarskipta- og póstmál fjalla.
    Póst- og fjarskiptastofnun er sjálfstæð stofnun, en undir yfirstjórn samgönguráðherra.
    

2. gr.

Starfsmenn.


    Samgönguráðherra skipar forstöðumann Póst- og fjarskiptastofnunar til fimm ára í senn. Forstöðumaður stjórnar daglegum rekstri og gætir þess að stofnunin starfi í samræmi við lög og reglugerðir á hverjum tíma. Forstöðumaður Póst- og fjarskiptastofnunar ræður annað starfsfólk stofnunarinnar.
    Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar mega ekki vera stjórnarmenn eða starfsmenn félaga eða annarra aðila sem þeir hafa eftirlit með. Þeir mega ekki vera í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við slíka aðila eða samtök þeirra.
    

3. gr.

Verkefni.


    Verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar eru m.a.:
    Að gefa út og veita leyfi til fjarskipta- og póstþjónustu samkvæmt lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu.
    Að hafa eftirlit með því að leyfishafar uppfylli og virði þau skilyrði og aðrar kvaðir sem rekstrarleyfunum fylgja.
    Að hafa eftirlit með því að ákvæði laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu, auk reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, séu virt.
    Að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og ráðuneyti á sviði fjarskipta- og póstmála og hafa eftirlit með því að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðlegum samningum á sviði fjarskipta- og póstmála.
    Að gera áætlanir um notkun tíðnirófsins í samræmi við alþjóðlegar reglur og úthluta tíðnum til einstakra leyfishafa og fyrir mismunandi þjónustu, þar með talið útvarpsþjónustu.
    Að setja reglur um tæknilega eiginleika kapalkerfa og hafa eftirlit með því að þeim sé framfylgt.
    Að hafa eftirlit með viðskiptaskilmálum leyfishafa, gjaldskrám og bókhaldi, þar sem það á við.
    Að hafa umsjón með og ákvarða fjárframlög vegna alþjónustu og óarðbærrar þjónustu.
    Að hafa eftirlit með fjarskiptabúnaði.
    Að setja reglur um úthlutun notendanúmera.
    Að hafa eftirlit með samtengingu fjarskiptaneta.
    Að veita leyfi til að annast uppsetningu og aðra tækniþjónustu við fjarskiptavirki.
    Að framkvæma gerðarprófanir, gefa út gerðarsamþykki og hafa umsjón með innflutningi fjarskiptabúnaðar.
    Að taka þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði fjarskipta- og póstmála.
    Að gefa út öryggisvottorð fyrir fjarskiptabúnað þar sem þess er krafist samkvæmt lögum og reglugerðum.
    Að annast skráningu og halda skrá yfir póstrekendur.
    Annað sem lýtur að framkvæmd fjarskipta- og póstmála hér á landi.
    

4. gr.

Eftirlit með leyfishöfum.


    Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með starfsemi leyfishafa. Með leyfishöfum í lögum þessum er átt við þá aðila sem hafa rekstrarleyfi til fjarskiptaþjónustu og þá sem rekstrarleyfi hafa eða eru skráningarskyldir samkvæmt lögum um póstþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun er jafnframt heimilt að hafa eftirlit með fjárhagsstöðu leyfishafa.
    

5. gr.

Eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar og viðurlög.


    Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að leyfishafar upplýsi um alla þætti starfsemi sinnar sem leyfið eða skráningin tekur til. Getur stofnunin krafist hvort sem er munnlegra eða skriflegra upplýsinga, innan hæfilegs frests sem hún ákveður.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt við eftirlit með fjárhagsstöðu að krefjast þess að leyfishafar láti stofnuninni í té ársreikninga, milliuppgjör, yfirlýsingar endurskoðenda eða aðrar sambærilegar upplýsingar. Telji Póst- og fjarskiptastofnun að fjárhagsstaða leyfishafa sé slík að hætta sé á að viðkomandi uppfylli ekki skyldur þær sem mælt er fyrir um í rekstrarleyfi getur stofnunin krafist þess að bætt verði úr innan tiltekins frests.
    Til að framfylgja eftirlitsskyldu sinni samkvæmt lögum þessum er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt, án sérstakrar tilkynningar eða dómsúrskurðar, að fara eftirlitsferðir í húsakynni leyfishafa.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja á og innheimta dagsektir af leyfishöfum, uppfylli þeir ekki skilyrði sem þeim hafa verið sett eða aðrar kvaðir sem á þá hafa verið lagðar samkvæmt lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu. Geta dagsektir numið frá 50.000 til 500.000 kr. á dag. Eru slíkar sektir aðfararhæfar skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
    Vanræki leyfishafi skyldur sínar samkvæmt rekstrarleyfi eða uppfylli ekki kröfur sem Póst- og fjarskiptastofnun setur um úrbætur getur stofnunin svipt viðkomandi leyfi til fjarskipta- eða póstþjónustu, að undangenginni skriflegri aðvörun.
    Ef grunur vaknar um að aðili reki leyfis- eða skráningarskylda póst- eða fjarskiptastarfsemi án þess að hafa til þess rekstrarleyfi skal Póst- og fjarskiptastofnun krefjast þess að viðkomandi upplýsi um starfsemi sína. Vanræki viðkomandi að veita umbeðnar upplýsingar eða ef ætla má að grunur sé á rökum reistur getur stofnunin krafist opinberrar rannsóknar og saksóknar samkvæmt lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.
    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits Póst- og fjarskiptastofnunar.

6. gr.

Þagnarskylda.


    Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um viðskipti og rekstur aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um endurskoðendur og aðra sérfræðinga sem starfa á vegum stofnunarinnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.
    Með gögn og aðrar upplýsingar, t.d. að því er varðar viðskiptahagsmuni sem stofnunin aflar við framkvæmd eftirlits eða af öðrum ástæðum, skal að jafnaði fara sem trúnaðarmál.
    

7. gr.

Kvartanir.


    Telji notandi fjarskipta- eða póstþjónustu, rekstrarleyfishafi eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta að leyfishafi brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um fjarskipti eða lögum um póstþjónustu, eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í rekstrarleyfi, getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar um að hún láti málið til sín taka. Á sama hátt getur notandi beint kvörtun til stofnunarinnar vegna reikninga sem gefnir eru út vegna almennrar fjarskiptaþjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal leita álits viðkomandi leyfishafa á kvörtuninni og jafnframt freista þess að jafna ágreining aðila. Ella skal úr ágreiningi skorið með úrskurði.
    Úrskurðum Póst- og fjarskiptastofnunar má skjóta til úrskurðarnefndar skv. 8. gr. innan fjögurra vikna frá því viðkomandi varð kunnugt um úrskurð stofnunarinnar.
    

8. gr.

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála.


    Ákvarðanir og úrskurðir Póst- og fjarskiptastofnunar sæta kæru til sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Í úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála sitja þrír menn sem skipaðir eru af samgönguráðherra og jafnmargir til vara. Formaður og varaformaður skulu skipaðir eftir tilnefningu Hæstaréttar. Einn nefndarmaður ásamt varamanni skal skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar Verkfræðingafélags Íslands. Samgönguráðherra skipar einn nefndarmann ásamt varamanni án tilnefningar. Formaður og varaformaður skulu fullnægja hæfisskilyrðum hæstaréttardómara, en aðrir nefndarmenn skulu hafa faglega kunnáttu eða reynslu á sviði fjarskipta- og póstmála. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.
    Úrskurður nefndarinnar skal að jafnaði liggja fyrir innan átta vikna frá því kæra berst henni.
    Úrskurðir nefndarinnar skulu vera endanlegir á stjórnsýslustigi. Nú vill aðili ekki una úrskurði nefndarinnar og getur hann þá borið úrskurðinn undir dómstóla, en slíkt mál skal höfða innan sex mánaða frá því aðili fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurða nefndarinnar.
    Um starfshætti nefndarinnar, málsmeðferð, málskotsgjald o.fl. skal mælt fyrir um í reglugerð.

9. gr.


Gjaldtaka o.fl.


    Fyrir útgáfu rekstrarleyfisbréfa og skráningu póstrekenda greiðist gjald til ríkissjóðs samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.
    Rekstrarleyfishafar skulu árlega greiða rekstrargjald sem nemur 0,25% af bókfærðri veltu. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem leyfishafi hefur af leyfisbundinni starfsemi sinni hér á landi.
    Við útgáfu rekstrarleyfa til fjarskiptaþjónustu, þar sem takmarka þarf fjölda rekstrarleyfishafa, er heimilt að innheimta sérstakt gjald fyrir rekstrarleyfi, auk gjalda samkvæmt 1. og 2. mgr. Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið að gjaldið skuli ákvarðast með útboði.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur gert leyfishöfum að greiða samkvæmt reikningi kostnað vegna sérstakra kannana sem stofnunin telur nauðsynlegt að framkvæma vegna eftirlits með starfsemi á þeirra vegum og ósanngjarnt telst að jafna á alla leyfishafa.
    Samgönguráðherra setur gjaldskrá fyrir aðra þjónustu Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Allar tekjur samkvæmt þessari grein skulu renna óskiptar til Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Gjöld samkvæmt þessari grein má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.
    Um álagningu og innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á og skulu innheimtuaðilar standa Póst- og fjarskiptastofnun skil á innheimtum gjöldum mánaðarlega.
    

10. gr.

Skýrsla.


    Póst- og fjarskiptastofnun skal árlega birta skýrslu um starfsemi sína. Í skýrslunni skal m.a. greint frá útgefnum leyfum og birtur listi yfir leyfishafa og skráða póstrekendur.
    

11. gr.

Reglugerðir.


    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna.
    

12. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast gildi þann 1. janúar 1997.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


    Póst- og fjarskiptastofnun skal taka til starfa þann 1. apríl 1997. Frá gildistöku laga þessara og til þess tíma er Póst- og fjarskiptastofnun tekur til starfa skal samgönguráðuneytið annast þau verkefni sem Póst- og fjarskiptastofnun er falið í lögum þessum.
    Póst- og fjarskiptastofnun yfirtekur eignir og skuldir Fjarskiptaeftirlits ríkisins frá og með gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


Inngangur.


    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að sérstök stofnun, Póst- og fjarskiptastofnun, taki að sér almennt stjórnsýsluhlutverk á sviði fjarskipta- og póstmála sem lið í þeirri viðamiklu breytingu sem gerð er á fjarskipta- og póstmálum samkvæmt sérstökum lagafrumvörpum sem lögð eru fram samhliða þessu frumvarpi.
    Með afnámi einkaréttar ríkisins á sviði fjarskiptamála og með þeirri breytingu sem fyrirhuguð er á fyrirkomulagi póstmála, og aukinni samkeppni í þessum þjónustugreinum, er nauðsynlegt að setja á laggirnar sérstakan stjórnsýsluaðila sem annast almennt eftirlit með þessum málaflokkum hér á landi.
    Þróun fjarskipta- og póstmála í Evrópu hefur verið sú að afnema eða draga úr einkaleyfum þannig að meira frelsi ríki á þessum sviðum innan efnahagssvæðisins. Frá 1. janúar 1998 verður ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins t.d. óheimilt að veita einkaleyfi á sviði almennrar talsímaþjónustu, svo sem verið hefur. Frumvörp til laga um fjarskipti og um póstþjónustu, sem verða lögð fram samhliða frumvarpi þessu gera ráð fyrir umtalsverðum breytingum að þessu leyti á íslenskum fjarskipta- og póstmarkaði.
    Jafnhliða þeirri breytingu, sem felst í afnámi einkaleyfa og útgáfu sérstakra rekstrarleyfa til samkeppnisaðila, er gert ráð fyrir því að öll almenn stjórnsýsla á fyrrgreindum sviðum verði falin Póst- og fjarskiptastofnun sem fær m.a. það hlutverk að annast leyfisveitingar til einstakra rekstrarleyfishafa og annast eftirlit með þeim, auk þess sem stofnuninni er ætlað að hafa almennt eftirlit með framkvæmd fjarskiptalaga og laga um póstþjónustu. Stofnuninni er þannig falið mikilvægt hlutverk í þeirri breytingu sem fyrirhuguð er á sviði fjarskipta- og póstmála.
    Þá er Póst- og fjarskiptastofnun ætlað að taka að sér núverandi starfsemi Fjarskiptaeftirlits ríkisins sem starfar samkvæmt fjarskiptalögum, þar á meðal eftirlit með fjarskiptabúnaði og fjarskiptavirkjum, eftirlit með þráðlausum fjarskiptum, skipulagningu, úthlutun tíðna til fjarskipta o.fl.
    Póst- og fjarskiptastofnun er ætlað sjálfstætt stjórnsýsluhlutverk á sviði fjarskipta- og póstmála (e. regulator) og er gert ráð fyrir að hún verði í daglegum störfum sínum óháð fyrirmælum samgönguráðuneytis, þó svo að stofnunin heyri undir ráðuneytið. Er í því sambandi gert ráð fyrir því að stjórnsýsluákvarðanir stofnunarinnar verði ekki kærðar til samgönguráðherra heldur verði þær kærðar til sérstakrar úrskurðarnefndar á sviði fjarskipta- og póstmála, til endanlegrar úrlausnar á stjórnsýslustigi. Er hér að nokkru höfð hliðsjón af sérstakri áfrýjunarnefnd sem starfar samkvæmt samkeppnislögum.
    Með því móti er ætlunin að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar m.a. með tilliti til þess að samgönguráðherra fer með eignaraðild ríkisins að Pósti og síma hf., sem kann að eiga í samkeppni við aðra aðila á umræddum sviðum, en með lögum nr. 103/1996 var Póst- og símamálastofnun breytt í hlutafélag og tekur sú formbreyting gildi þann 1. janúar 1997. Skv. 2. mgr. 6. gr. laganna fer samgönguráðherra með eignaraðild ríkissjóðs að Pósti og síma hf.
    Jafnframt er gert ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun taki að sér víðtækt þjónustu- og ráðgjafahlutverk á sviði fjarskipta- og póstmála fyrir íslensk stjórnvöld og hafi umsjón með alþjóðlegu samstarfi sem Ísland tekur þátt í á alþjóðavettvangi. Er stofnuninni að þessu leyti ætlað að taka að nokkru við verkefnum sem nú hafa fallið undir ráðuneyti samgöngumála og jafnvel að einhverju leyti undir Póst- og símamálastofnun sem annast hefur einkarétt ríkisins á sviði fjarskipta- og póstmála.
    

II.


Nánar um hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar.


    Leyfisveitingar á sviði fjarskipta- og póstmála verður eitt af meginhlutverkum stofnunarinnar. Um skilyrði fyrir leyfisveitingum og afmörkun þeirra vísast til athugasemda við fyrrgreind frumvörp til laga um fjarskipti og póstþjónustu. Rekstrarleyfi skulu almennt veitt þeim aðilum sem fullnægja þeim kröfum sem mælt er fyrir um í viðkomandi lagafrumvörpum. Það kemur í hlut Póst- og fjarskiptastofnunar að annast könnun þess hvort leyfisskilyrði séu uppfyllt og eftir atvikum hve mörgum aðilum skuli veitt leyfi á því þjónustusviði sem um ræðir. Skilyrði sem sett eru fyrir leyfisveitingum skulu almennt vera skýr, hlutlæg og gagnsæ, og þess gætt að ekki sé um að ræða ólögmæta mismunun.
    Hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar verður jafnframt að sjá til þess að rekstrarleyfishafar uppfylli á hverjum tíma þær kröfur sem settar eru í rekstrarleyfi. Í því sambandi má m.a. benda á að í rekstrarleyfum kann að vera mælt fyrir um gæði þjónustu og þjónustustig, útbreiðslu þjónustunnar o.s.frv. Kemur það í hlut Póst- og fjarskiptastofnunar að sjá til þess að uppfyllt sé þau skilyrði laga um fjarskipti og póstþjónustu að hér á landi séu örugg og hagkvæm fjarskipta- og póstþjónusta á hverjum tíma.
    Þegar samkeppni hefst á tilteknum sviðum fjarskipta- og póstmála verður óhjákvæmilegt að hafa eftirlit með ýmsum samkeppnisþáttum og greiða úr ágreiningi milli einstakra rekstrarleyfishafa svo og ágreiningi á milli neytenda og rekstrarleyfishafa um það hvort og með hvaða hætti uppfyllt séu skilyrði sem mælt er fyrir um í rekstrarleyfum og eftir atvikum hvort brotið hafi verið gegn lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun hefur umtalsvert hlutverk á því sviði og er ætlað að taka stjórnsýsluákvarðanir á þessum sérsviðum og greiða úr ágreiningi að þessu leyti.
    Þá er stofnuninni ætlað margs konar hlutverk samkvæmt fyrrnefndum frumvörpum um fjarskipti og um póstþjónustu, svo sem að hafa umsjón og eftirlit með kostnaðarjöfnun vegna óarðbærrar þjónustu, og eiga atbeina að ákvörðun um innheimtu jöfnunargjalda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 1. gr. er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun hafi yfirumsjón með framkvæmd fjarskipta- og póstmála eftir því sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og öðrum lögum sem um fjarskipta- og póstmál fjalla. Með því er fyrst og fremst verið að vísa til laga um fjarskipti og frumvarps til laga um póstþjónustu, sem lögð eru fram samhliða frumvarpi þessu. Tekur Póst- og fjarskiptastofnun við hluta verkefna samgönguráðuneytisins á þessu sviði, auk þess sem gert er ráð fyrir að stofnunin taki yfir verkefni sem í gildandi fjarskiptalögum hafa verið falin Fjarskiptaeftirliti ríkisins. Þá tekur stofnunin einnig við þeim stjórnsýsluverkefnum sem Póst- og símamálastofnun hefur annast.
    Póst- og fjarskiptastofnun er samkvæmt frumvarpinu sjálfstæð stofnun, en undir yfirstjórn samgönguráðherra. Þannig heyrir stofnunin undir samgönguráðherra í skilningi stjórnsýsluréttar án þess þó að hann hafi boðvald yfir stofnuninni eða starfsmönnum hennar, í þeim skilningi að hann geti haft áhrif á einstakar ákvarðanir þeirra. Ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar sæta þannig ekki kæru til samgönguráðuneytis samkvæmt stjórnsýslurétti heldur skal þeim skotið til sérstakrar úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sem fjallað er um í 8. gr. Ákvarðanir úrskurðarnefndarinnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Ástæða þess að ákvörðunum er ekki skotið til ráðuneytisins er að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar, en líkt og áður hefur komið fram mun samgönguráðherra fara með eignaraðild ríkisins að Pósti og síma hf. þykir það því ekki samræmast hæfisreglum stjórnsýsluréttar að samgönguráðherra úrskurði um ágreining sem getur varðað Póst og síma hf., auk þess sem sérstaklega er mælt fyrir um sjálfstæði úrskurðar- og eftirlitsaðila (regulator) í tilskipunum og tilskipunartillögum ESB á sviði fjarskipta- og póstmála.
    

Um 2. gr.


    Samkvæmt 2. gr. skal samgönguráðherra skipa forstöðumann Póst- og fjarskiptastofnunar til fimm ára í senn. Forstöðumaður skal annast daglegan rekstur og bera ábyrgð á því að stofnunin starfi í samræmi við lög og reglur á hverjum tíma. Forstöðumaður ræður sjálfur annað starfsfólk stofnunarinnar og er ekki gert ráð fyrir að samgönguráðherra komi þar nærri. Um réttindi og skyldur þeirra fer að öðru leyti samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar mega ekki vera stjórnarmenn rekstrarleyfishafa eða póstrekenda eða annarra aðila sem stofnunin hefur eftirlit með. Þeir mega heldur ekki vera í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við slíka aðila eða samtök þeirra. Mega starfsmenn stofnunarinnar þar af leiðandi t.d. ekki eiga hlutabréf í rekstrarleyfishöfum eða póstrekendum ef ástæða er til að ætla að hlutafjáreignin sé til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Eru að þessu leyti gerðar ríkari hæfiskröfur til starfsmanna Póst- og fjarskiptastofnunar en til starfsmanna stjórnsýslunnar almennt þar sem starfsmenn stofnunarinnar teljast ekki uppfylla almenn hæfisskilyrði til starfsins vegna framangreindra tengsla. Að öðru leyti gilda um starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar reglur II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um sérstakt hæfi vegna meðferðar einstakra mála sem eru til umfjöllunar hjá stofnuninni.
    

Um 3. gr.


    Um verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar er fjallað í 3. gr. Verkefnin eru m.a. eftirfarandi:
    Að gefa út og veita leyfi til fjarskipta- og póstþjónustu samkvæmt lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu. Er gert ráð fyrir því í frumvörpum til laga um fjarskipti og póstþjónustu, sem lögð eru fram samhliða þessu frumvarpi að þeir sem annist slíka þjónustu skuli hafa til þess leyfi, nema annað sé tekið fram. Er gert ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun veiti slík leyfi.
    Í frumvörpum til laga um fjarskipti og póstþjónustu er gert ráð fyrir því að tiltekin skilyrði séu sett fyrir leyfum til fjarskipta- og póstþjónustu og að Póst- og fjarskiptastofnun fari með eftirlit með því að skilyrðin séu uppfyllt. Póst- og fjarskiptastofnun skal einnig hafa almennt eftirlit með því að ákvæði laganna og reglugerða, sem kunna að vera settar samkvæmt þeim, séu virt.
    Eins og áður kemur fram er gert ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun fari með yfirumsjón með fjarskipta- og póstmálum. Stofnunin skal jafnframt vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og samgönguráðuneyti, m.a. að því er varðar alþjóðlegar skuldbindingar og samskipti við alþjóðlegar stofnanir á sviði fjarskipta- og póstmála.
    Samkvæmt núgildandi fjarskiptalögum ber Fjarskiptaeftirliti ríkisins að stuðla að sem hagkvæmastri nýtingu tíðnirófsins og skipuleggja notkun þess. Tíðnirófið er takmörkuð gæði sem mikilvægt er að nýtt séu á sem hagkvæmastan hátt.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa eftirlit með viðskiptaskilmálum leyfishafa, gjaldskrám og bókhaldi, þar sem það á við. Í frumvörpum til laga um fjarskipti og póstþjónustu er tilgreint nánar í hverju eftirlitið er fólgið, en það er fyrst og fremst bundið við eftirlit með viðskiptaskilmálum vegna alþjónustu, samtengingu fjarskiptaneta og þjónustu sem lýtur einkarétti á sviði póstmála. Skal stofnunin gæta þess að gjaldskrár séu í samræmi við skilyrði sem sett eru með rekstrarleyfi.
    Í VIII. kafla frumvarps til laga um fjarskipti og IX. kafla frumvarps til laga um póstþjónustu er gert ráð fyrir svokölluðu jöfnunargjaldi til að greiða niður óarðbæra þjónustu. Er veitt heimild til að innheimta jöfnunargjald af leyfishöfum til að fjármagna slíka þjónustu og úthluta því til aðila sem annast óarðbæra þjónustu í samræmi við ákvæði áðurgreindra frumvarpa.
    Samkvæmt núgildandi lögum eru það samgönguráðuneytið, Póst- og símamálastofnun og Fjarskiptaeftirlit ríkisins sem tekið hafa þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði fjarskipta- og póstmála. Hér er hins vegar gert ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun taki þátt í slíku samstarfi er varðar stjórnsýslu fjarskipta- og póstmála. Þegar samstarfið snýr fremur að þeim sem veita slíka þjónustu (operators) getur stofnunin hins vegar mælt fyrir um að leyfishafar taki þátt í slíku samstarfi, sbr. t.d. 44. gr. frumvarps til laga um póstþjónustu.
    Eins og áður segir á Póst- og fjarskiptastofnun að veita leyfi til fjarskipta- og póstþjónustu. Á stofnunin því að hafa í fórum sínum upplýsingar um alla rekstrarleyfishafa. Póst- og fjarskiptastofnun skal einnig annast skráningu póstrekenda og halda skrá yfir þá.
    Önnur verkefni sem fram koma í 3. gr. en hafa ekki verið nefnd hér þarfnast ekki skýringar. Er þar m.a. um að ræða ýmis verkefni sem Fjarskiptaeftirlit ríkisins annast samkvæmt núgildandi lögum. Rétt er að geta þess að verkefnin sem talin eru upp í 3. gr. eru ekki tæmandi því að Póst- og fjarskiptastofnun skal einnig annast öll önnur verkefni sem lúta að fjarskipta- og póstmálum hér á landi, sbr. 17. tölul. 3. gr.
    

Um 4. gr.


    Eins og áður segir er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun veiti leyfi til að annast fjarskipta- og póstþjónustu. Samkvæmt 16. tölul. 3. gr. frumvarpsins skal stofnunin einnig annast skráningu og halda skrá yfir póstrekendur.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal samkvæmt greininni hafa almennt eftirlit með starfsemi leyfishafa, m.a. með fjárhagsstöðu viðkomandi. Með leyfishöfum er þá átt við hvort tveggja rekstrarleyfishafa og póstrekendur. Er það gert til hægðarauka, þar sem póstrekendur lúta samkvæmt frumvarpinu í raun sams konar eftirliti og rekstrarleyfishafar.
    Í frumvörpum til laga um fjarskipti og póstþjónustu er gert ráð fyrir eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar með tilteknum þáttum er lúta að gjaldskrám, viðskiptaskilmálum og bókhaldi leyfishafa. Má sem dæmi þar um nefna 18. gr. frumvarps til laga um póstþjónustu þar sem gert er ráð fyrir að stofnunin staðfesti og hafi eftirlit með gjaldskrám fyrir þjónustu er lýtur einkarétti. Mætti einnig nefna 11. gr. frumvarps til laga um fjarskipti sem gerir ráð fyrir eftirliti stofnunarinnar með gjaldskrám í alþjónustu, sbr. og VII. kafla varðandi samtengingu neta.
    Eru í þessu sambandi höfð til hliðsjónar ákvæði norskra laga.
    

Um 5. gr.


    Í 5. gr. frumvarpsins er fjallað um þær heimildir sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur til að fullnægja áðurgreindri eftirlitsskyldu sinni, en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir nokkuð víðtækum heimildum stofnunarinnar. Þannig er í 1. mgr. gert ráð fyrir því að stofnunin geti krafist þess að leyfishafar upplýsi um alla þætti starfsemi sinnar sem rekstrarleyfi eða skráning tekur til, en stofnunin getur hins vegar ekki krafist upplýsinga um þá þætti starfsemi leyfishafa sem snúa að öðrum rekstrarþáttum. Tekið er fram í 2. mgr. hvaða upplýsinga stofnunin getur krafist við eftirlit með fjárhagsstöðu leyfishafa.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að leyfishafi veiti skriflegar eða munnlegar upplýsingar um leyfisbundna eða skráningarskylda starfsemi sína innan hæfilegs frests sem stofnunin ákveður. Þá er stofnuninni skv. 3. mgr. heimilt, án sérstakrar tilkynningar eða dómsúrskurðar, að fara eftirlitsferðir um húsakynni leyfishafa. Við eftirlitsstörf sín samkvæmt framangreindu ber Póst- og fjarskiptastofnun ekki að fara strangar í sakirnar en nauðsyn ber til og virða þannig meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Verði Póst- og fjarskiptastofnun þess áskynja að leyfishafar fullnægi ekki skilyrðum sem þeim hafa verið sett samkvæmt rekstrarleyfi eða lagafyrirmælum getur stofnunin lagt á viðkomandi dagsektir, enda hafi tilmælum stofnunarinnar til úrbóta ekki verið sinnt. Fjárhæð dagsekta er í samræmi við ákvæði 1. mgr. 51. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993. Reynist Póst- og fjarskiptastofnun hins vegar ekki unnt að framfylgja lögbundnu eftirliti sínu vegna ástæðna sem leyfishafar eiga sök á, svo sem þegar leyfishafi veitir ekki umbeðnar upplýsingar eða framfylgir ekki kröfum sem stofnunin hefur sett, getur stofnunin svipt viðkomandi rekstrarleyfi. Leyfishafi skal ávallt fá að tala máli sínu áður en svo íþyngjandi ákvörðun er tekin.
    Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki eftirlit með öðrum en leyfishöfum. Vakni hins vegar grunur um að aðili reki leyfisskylda póst- eða fjarskiptastarfsemi án þess að hafa til þess rekstrarleyfi skal Póst- og fjarskiptastofnun krefjast þess að viðkomandi upplýsi um starfsemi sína. Verði slíkar upplýsingar ekki veittar eða ef ætla má að grunur sé á rökum reistur getur stofnunin kært viðkomandi starfsemi til lögreglu og krafist opinberrar rannsóknar og eftir atvikum saksóknar samkvæmt lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.
    Samgönguráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd framangreinds eftirlits Póst- og fjarskiptastofnunar.
    

Um 6. gr.


    Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar eru bundnir þagnarskyldu um það sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um viðskipti og rekstur aðila sem þeir hafa eftirlit með. Gilda ákvæði 18. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, að öðru leyti um þagnarskyldu starfsmanna Póst- og fjarskiptastofnunar. Endurskoðendur og aðrir sérfræðingar sem starfa á vegum stofnunarinnar, án þess þó að teljast til starfsliðs hennar, eru einnig bundnir þagnarskyldu samkvæmt framangreindu. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Með gögn og aðrar upplýsingar sem stofnunin aflar við framkvæmd eftirlits, eða eru lagðar fyrir stofnunina með öðrum hætti, skal að jafnaði fara sem trúnaðarmál. Slík gögn geta t.d. snert viðskiptahagsmuni sem miklu varðar að fari leynt. Skulu gögnin því ekki kynnt utan stofnunarinnar án heimildar þess eða þeirra sem hagsmunirnir varða, nema í undantekningartilfellum.
    

Um 7. gr.


    Í 7. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um úrræði fyrir neytendur, rekstrarleyfishafa og aðra sem hagsmuna hafa að gæta telji þeir á sig hallað í viðskiptum við leyfishafa, og/eða að leyfishafi brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögum eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í rekstrarleyfi. Getur hlutaðeigandi þá beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar um að hún láti málið til sín taka. Telji stofnunin að kvörtunin geti átt við rök að styðjast skal hún leita álits leyfishafa á kvörtuninni og jafnframt freista þess að jafna ágreining aðila. Reynist ekki unnt að jafna ágreining kveður Póst- og fjarskiptastofnun upp úrskurð í málinu. Þeim úrskurði geta málsaðilar skotið til úrskurðarnefndar fjarskiptamála innan fjögurra vikna frá því úrskurðurinn hefur verið tilkynntur þeim og þeim varð kunnugt um efni hans.
    

Um 8. gr.


    Ákvarðanir og úrskurðir Póst- og fjarskiptastofnunar skulu kæranlegir til sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Verða úrskurðir nefndarinnar endanlegir á stjórnsýslustigi því að eins og áður segir er ekki gert ráð fyrir því að úrskurðir nefndarinnar séu kæranlegir til samgönguráðherra.
    Í úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála skulu sitja þrír menn sem skipaðir eru til fjögurra ára af samgönguráðherra og jafnmargir til vara. Skulu formaður og varaformaður tilnefndir af Hæstarétti og einn nefndarmaður ásamt varamanni af stjórn Verkfræðingafélags Íslands. Þriðji nefndarmaður skal skipaður ásamt varamanni án tilnefningar. Formaður og varaformaður skulu fullnægja almennum hæfisskilyrðum hæstaréttardómara, en aðrir nefndarmenn skulu hafa faglega kunnáttu eða reynslu á sviði fjarskipta- og póstmála.
    Þar sem það getur varðað aðila miklu að fá skjóta úrlausn á þessu sviði er gert ráð fyrir að úrskurðir nefndarinnar séu kveðnir upp innan átta vikna frá því að kæra berst nefndinni.
    Vilji málsaðili, Póst- og fjarskiptastofnun eða aðrir, ekki una úrskurði nefndarinnar, getur hlutaðeigandi borið úrskurðinn undir dómstóla. Slíkt mál skal þá höfða innan sex mánaða frá því aðili fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar. Málshöfðun frestar þó ekki réttaráhrifum úrskurðarins.
    Um starfshætti nefndarinnar, málsmeðferð, málskotsgjald o.fl. skal mælt fyrir um í reglugerð sem samgönguráðherra setur.
    Með úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála er tryggt að úrlausn ágreiningsmála á þessu sviði fái hlutlausa og skjóta málsmeðferð í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins hér að lútandi.
    

Um 9. gr.


    Póst- og fjarskiptastofnun er fjárhagslega sjálfstæð stofnun og gert er ráð fyrir að rekstur hennar verði að mestu leyti fjármagnaður af leyfishöfum.
    Gjöld sem innheimtast samkvæmt þessari grein skulu renna til Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Tekjur stofnunarinnar samkvæmt frumvarpinu verða eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi gjöld fyrir útgáfu leyfisbréfa og skráningu póstrekenda. Er gert ráð fyrir viðbót við 11. og 13. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, vegna þessa þar sem veitt verður heimild til að innheimta sérstakt gjald fyrir leyfi til að reka almenna talsímaþjónustu og að fara með einkarétt ríkisins samkvæmt lögum um póstþjónustu annars vegar og fyrir almenn rekstrarleyfi til fjarskipta- og póstþjónustu hins vegar. Verður einnig heimilt að innheimta sérstakt gjald fyrir skráningu póstrekenda.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að rekstrarleyfishafar greiði árlega rekstrargjald sem nemi 0,25% af bókfærðri veltu viðkomandi. Með bókfærðri veltu er þá átt við rekstrartekjur sem leyfishafi hefur af leyfisbundinni starfsemi sinni hér á landi.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir heimild til að innheimta sérstakt gjald fyrir rekstrarleyfi þar sem takmarka þarf fjölda rekstrarleyfishafa. Getur stofnunin jafnvel ákveðið að gjaldið skuli ákvarðast með útboði.
    Í fjórða lagi er skv. 5. mgr. gert ráð fyrir að samgönguráðherra setji gjaldskrá fyrir aðra þjónustu stofnunarinnar. Er þar gert ráð fyrir gjaldskrá sambærilegri þeirri sem nú gildir fyrir Fjarskiptaeftirlit ríkisins sem veitir heimild til að innheimta þjónustugjöld fyrir ýmiss konar leyfi, gerðasamþykki, eftirlit o.fl.
    Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun geti gert leyfishöfum að greiða samkvæmt reikningi kostnað vegna sérstakra kannana sem stofnunin telur nauðsynlegt að framkvæma vegna eftirlits með starfsemi á þeirra vegum og ósanngjarnt telst að jafna á alla leyfishafa.
    Ákvæðið breytir því þó ekki að stofnuninni er almennt séð heimilt að gera reikning vegna veittrar þjónustu.
    

Um 10. gr.


    Samkvæmt 10. gr. frumvarpsins skal Póst- og fjarskiptastofnun birta árlega skýrslu um starfsemi sína. Í skýrslunni skulu m.a. birtir úrskurðir stofnunarinnar og aðrar meiri háttar ákvarðanir, auk þess sem greina skal frá nýjum rekstrarleyfum og birta lista yfir leyfishafa og skráða póstrekendur.
    

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.
    

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Samkvæmt 12. gr. er gert ráð fyrir að gildistaka laganna miðist við næstu áramót. Ljóst er að hin nýja stofnun getur ekki tekið til starfa þá þegar. Er gert ráð fyrir að stofnunin taki til starfa 1. apríl 1997, en tíminn frá áramótum skal notaður til ráða starfsfólk til stofnunarinnar og undirbúa og skipuleggja starfsemi hennar að öðru leyti.
    Gert er ráð fyrir því að samgönguráðuneytið fari til bráðabirgða með þau verkefni, sem Póst- og fjarskiptastofnun eru falin í frumvarpi þessu, frá áramótum og til 1. apríl 1997.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Póst- og fjarskiptastofnun.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um fjarskipti og frumvarpi til laga um póstþjónustu í kjölfar stofnunar hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar um næstu áramót. Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á laggirnar stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun, Póst- og fjarskiptastofnun, sem hafi umsjón með framkvæmd fjarskipta- og póstmála hér á landi. Áformað er að stofnunin taki yfir hlutverk og rekstur Fjarskiptaeftirlits ríkisins og verði fjármögnuð af sérstökum tekjustofnum. Í frumvarpi til laga um fjarskipti er ákvæði til bráðabirgða um að Póstur og sími hf. hafi einkaleyfi til að reka almenna talsímaþjónustu og almennt fjarskiptanet allt fram til 1. janúar 1998. Þetta ákvæði veldur því að hugsanleg áhrif fyrirhugaðra breytinga koma ekki að fullu fram í rekstri Póst- og fjarskiptastofnunar fyrr en á árinu 1998. Vakin er athygli á að einkaréttur til almennrar póstmeðferðar mun hvíla hjá íslenska ríkinu en það getur framselt þann rétt og þær skyldur sem honum fylgja til póstrekanda.
    Verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar verða í fyrsta lagi núverandi verkefni Fjarskiptaeftirlits ríkisins. Þessi verkefni felast í eftirliti með fjarskiptabúnaði, framkvæmd gerðaprófana, gerðasamþykki, eftirlit með þráðlausum fjarskiptum og úthlutun tíðna til fjarskipta auk umsjónar með innflutningi fjarskiptabúnaðar. Kostnaður við þessi verkefni er greiddur af þeim sem nota þjónustuna samkvæmt verðskrá útgefinni af samgönguráðherra. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997 er áætlað að rekstur Fjarskiptaeftirlits ríkisins muni kosta 58 m.kr. Starfsmenn þess eru 10 talsins.
    Í öðru lagi er stofnuninni ætlað að annast framkvæmd póst- og fjarskiptamála hér á landi. Í því felst m.a. að gefa út og veita leyfi til póst- og fjarskiptaþjónustu, hafa eftirlit með að leyfishafar uppfylli og virði skilyrði og kvaðir rekstrarleyfa og vera stjórnvöldum til ráðgjafar við að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Með þessu er stofnunin að taka við verkefnum sem hingað til hafa fallið undir samgönguráðuneytið eða Póst- og símamálastofnun. Gert er ráð fyrir að þessi verkefni verði fjármögnuð með sérstöku rekstrargjaldi. Þeim fyrirtækjum sem hafa rekstrarleyfi til fjarskipta- og póstþjónustu er ætlað að greiða til stofnunarinnar 0,25% af rekstrartekjum vegna leyfisbundinnar starfsemi þeirra hér á landi. Erfitt er að geta sér til um hvað breytingar á fjarskipta- og póstmálum muni þýða varðandi veltu á þessum markaði í náinni framtíð.Verið er að leggja niður einkarétt ríkisins á fjarskiptaþjónustu en á móti kemur að rekstrarskilyrði eru nokkur samkvæmt frumvarpi til fjarskiptalaga og frumvarpi til laga um póstþjónustu. Miðað við núverandi umfang er talið að árlegar tekjur af rekstrargjaldinu gætu numið um 30 m.kr. Aukin útgjöld stofnunarinnar eru áætluð 15–16 m.kr. vegna fleira starfsfólks sem miðast við fjóra háskólamenntaða starfsmenn. Kostnaður vegna alþjóðlegs samstarfs sem áður var greiddur af Póst- og símamálastofnun er áætlaður um 10 m.kr. Þá má gera ráð fyrir að kostnaður við breytingar á húsnæði og kaup á húsbúnaði og tækjum nemi um 4 m.kr. Miðað er við að stofnunin verði rekin á sama stað og Fjarskiptaeftirlitið er nú til húsa, en þar er til staðar nægjanlegt rými fyrir fjóra starfsmenn til viðbótar.
     Í þriðja lagi er stofnuninni heimilt að framkvæma sérstakar kannanir telji hún það nauðsynlegt vegna eftirlits með starfsemi tiltekins aðila. Viðkomandi leyfishöfum verður gert að greiða útlagðan kostnað stofnunarinnar við slíka könnun. Ætla má að kostnaður við gerð hverrar könnunar geti orðið á bilinu 0,4–1 m.kr. eftir umfangi hennar.
    Að framangreindu má ætla að kostnaður vegna reglubundinnar starfsemi stofnunarinnar verði 85–87 m.kr. á ári sem verður fjármagnaður með mörkuðum tekjustofnum. Verði frumvarp um fjárreiður ríkisins að lögum verða rekstrartekjur stofnunarinnar flokkaðar sem skattar á tekjuhlið fjárlaga en ekki sem sértekjur til frádráttar gjöldum eins og nú er gert.
    Þá er í frumvarpinu heimild til að innheimta sérstakt rekstrargjald vegna rekstrarleyfa þar sem takmarka þarf fjölda leyfishafa. Hér er átt við annað GSM-farsímakerfi eða aðra sambærilega þjónustu. Gert er ráð fyrir að þetta sérstaka rekstrargjald sé heimilt að ákvarða á grundvelli útboðs. Áætlað er að kostnaður við væntanlegt útboð á nýju GSM-farsímakerfi verði um 32 m.kr.
    Þá er í frumvarpinu heimild til að innheimta sérstakt málskotsgjald til úrskurðarnefndar póst- og fjarskiptamála og greiðslu dagsekta ef leyfishafar uppfylla ekki skilyrði rekstrarleyfis sem þeim hefur verið veitt. Gert er ráð fyrir að þessi gjöld standi undir kostnaði við þessi verkefni. Allur kostnaður við útboðið greiðist af rekstrarleyfishöfum.
    Að síðustu ber að geta þess að greiða skal í ríkissjóð rekstrargjald fyrir útgáfu rekstrarleyfisbréfa og skráningu vegna rekstrarleyfa til fjarskipta- og póstþjónustu. Ekki er ljóst hvað þar gæti verið um mörg leyfi að ræða en í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að rekstrargjald til að reka almenna talsímaþjónustu og að fara með einkarétt ríkisins samkvæmt lögum um póstþjónustu verði 500 þús. kr. og að önnur leyfi kosti minna en 100 þús. kr.