Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 150 . mál.


165. Frumvarp til laga



um fjarskipti.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



I. KAFLI

Gildissvið laganna og markmið.

1. gr.

    Lög þessi taka til fjarskipta og fjarskiptaþjónustu.
    Markmið fjarskiptalaga er að tryggja örugg fjarskipti og sem hagkvæmasta fjarskiptaþjónustu hér á landi.
    Íslenska ríkið skal tryggja eftir því sem unnt er að öllum landsmönnum bjóðist aðgangur að talsímaþjónustu og öðrum fjarskiptum, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.
    

II. KAFLI

Orðskýringar.

2. gr.

    Merking nokkurra orða sem notuð eru í lögum þessum er sem hér segir:
     Fjarskipti: Það sem nefnt er „Telecommunication“ í alþjóðafjarskiptasamningum (nú Convention Internationale des Telecommunications, Nice 1989) og merkir hvers konar sendingu og móttöku tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum með raföldum (radio) eða öðrum rafsegulkerfum.
     Fjarskiptavirki: Hvers konar tæki, tækjahlutar, leiðslur, búnaður og því um líkt sem sérstaklega er ætlað til að koma á fjarskiptum eða reka þau, hvort heldur er til sendingar eða móttöku.
     Almennt fjarskiptanet: Innviðir fyrir almenn fjarskipti sem gera kleift að flytja merki milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði, örbylgjum, ljóstæknilegum aðferðum eða með öðrum rafsegulaðgerðum.
     Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um fjarskiptanet með fjarskiptaaðferðum, öðrum en sjónvarpi eða hljóðvarpi.
     Almenn fjarskiptaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta, sbr. hér að framan, sem ætluð er til almenningsnota eða önnur starfsemi sem miðar að því að flytja fjarskiptaboð milli óskyldra og ótengdra aðila í atvinnuskyni.
     Alþjónusta: Afmarkaðir þættir fjarskipta, sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Nánar skal mælt fyrir um í reglugerð, sem samgönguráðherra setur, hvaða þættir fjarskiptaþjónustu falli undir alþjónustu.
     Talsímaþjónusta: Þjónusta, seld almenningi, sem fólgin er í beinum rauntímaflutningi á tali um sjálfvirkt fjarskiptanet þannig að notandi getur notað búnað tengdan við tengipunkt á netinu til að hafa samband við annan notanda sem tengdur er við annan tengipunkt.
     Virðisaukandi þjónusta: Þjónusta þar sem virðisaukandi þáttum er bætt við fjarskiptaþjónustu.
     Rekstrarleyfishafi: Aðili, einstaklingur, félag eða stofnun, sem fengið hefur leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar til að reka fjarskiptaþjónustu og/eða til reksturs fjarskiptanets.
     Nettengipunktur: Allar efnislegar tengingar og tækniforskriftir varðandi aðgang að þeim sem eru hluti af almenna fjarskiptanetinu og nauðsynlegar fyrir aðgang og skilvirk fjarskipti um viðkomandi net.
     Kapalkerfi: Þráðbundið kerfi sem ætlað er til dreifingar á útvarpsmerkjum til almennings.
     Lokaðir notendahópar: Hópar einstaklinga, félaga eða stofnana sem þurfa ekki að vera tengd fjárhagslega, en líta má á sem aðila með viðvarandi viðskiptatengsl vegna sameiginlegrar viðskiptastarfsemi þar sem innri fjarskiptaþarfir verða til vegna þeirra hagsmuna sem liggja að baki viðskiptatengsla þeirra.
     Símatorgsþjónusta: Upplýsingaþjónusta með sjálfvirkri svörun sem veitt er gegn gjaldi í gegnum sérstök upphringinúmer sem upplýsingaveitanda er úthlutað.
    

III. KAFLI

Um yfirstjórn fjarskiptamála.

3. gr.

    Samgönguráðherra fer með yfirstjórn fjarskiptamála.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa umsjón með fjarskiptamálum hér á landi og hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara.
    

IV. KAFLI

Réttur til að veita rekstrarleyfi.

4. gr.

    Íslenska ríkið hefur eitt rétt til þess að veita leyfi til reksturs fjarskiptaþjónustu hér á landi, í íslenskri landhelgi og lofthelgi og til þess að veita leyfi til reksturs almenns fjarskiptanets.
    Fjarskiptaleyfi skulu eingöngu veitt íslenskum aðilum eða aðilum með staðfesturétt innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Samgönguráðherra getur mælt fyrir um það í reglugerð að rekstrarleyfi megi veita öðrum aðilum en þeim sem tilteknir eru í 2. mgr.
    

V. KAFLI

Rekstrarleyfi, undanþágur.

5. gr.

Útgáfa rekstrarleyfa.

    Póst- og fjarskiptastofnun veitir leyfi til fjarskiptaþjónustu og til þess að reka almennt fjarskiptanet, þar með talið kapalkerfi, samkvæmt lögum þessum. Í rekstrarleyfi skal skilgreina til hvaða þjónustu leyfið nær.
    Ekki þarf sérstakt leyfi til að veita virðisaukandi þjónustu eða til sölu á almennum notendabúnaði.

6. gr.

Skilyrði fyrir rekstrarleyfisveitingum.


    Póst- og fjarskiptastofnun setur skilyrði fyrir rekstrarleyfisveitingu skv. 5. gr. Skulu skilyrði vera skýr og þannig að gætt sé jafnræðis meðal umsækjenda og leyfishafa. Rekstrarleyfi skulu vera tímabundin.
    Skilyrði fyrir rekstrarleyfi geta verið eitt eða fleiri, þar með talið:
    að greitt sé leyfisgjald og rekstrargjald í samræmi við lög um Póst- og fjarskiptastofnun og lög um aukatekjur ríkissjóðs,
    að rekstrarleyfishafi veiti þá þjónustu sem leyfið nær til á öllu landinu eða á tilteknum landsvæðum, og að hún nái til tiltekins hluta landsmanna innan tímamarka sem Póst- og fjarskiptastofnun ákveður,
    að aðgangur að fjarskiptaneti rekstrarleyfishafa sé að jafnaði opinn öllum á viðkomandi landsvæði, samkvæmt skilmálum sem tryggja að jafnræðis sé gætt,
    að rekstrarleyfishafi bjóði fjarskiptaþjónustu til útlanda þar sem það á við,
    að búnaður rekstrarleyfishafa sé ætíð í samræmi við tæknistaðla sem Póst- og fjarskiptastofnun mælir fyrir um og uppfylli á hverjum tíma tilskildar tæknikröfur til að veita alhliða fjarskiptaþjónustu á viðkomandi sviði,
    að rekstrarleyfishafi fullnægi á hverjum tíma kröfum um tæknilega þekkingu, samkvæmt reglum sem Póst- og fjarskiptastofnun setur,
    að viðskiptaskilmálar rekstrarleyfishafa í almennri fjarskiptaþjónustu séu háðir samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar og að gjaldskrár fyrir alþjónustu sæti eftirliti hennar, sbr. VI. kafla laganna,
    að rekstrarleyfishafi sem leyfi hefur til reksturs almenns fjarskiptanets skuldbindi sig til að annast uppsetningu og viðhald slíks nets á starfssvæði sínu, tengja fjarskiptanet sitt fjarskiptanetum annarra rekstrarleyfishafa og veita öðrum rekstrarleyfishöfum heimild til samtengingar við fjarskiptanet sitt, sbr. VII. kafla laganna,
    að notendum verði úthlutuð númer úr þeim númeraröðum, sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur veitt rekstrarleyfishafa heimild til að nota, í samræmi við reglur sem stofnunin setur,
    að rekstrarleyfishafi haldi skrá yfir notendur fjarskiptaþjónustunnar og gefi út eða taki þátt í útgáfu slíkrar skrár, en veiti ella öðrum heimild til útgáfu notendaskrár samkvæmt fyrirmælum Póst- og fjarskiptastofnunar. Þá má gera rekstrarleyfishafa skylt að veita eða láta í té sambærilegar upplýsingar gegnum sérstakt upplýsinganúmer,
    að erlendur rekstrarleyfishafi setji upp starfsstöð hér á landi eða hafi hér á landi fulltrúa sem umboð hefur til að koma fram fyrir hönd rekstrarleyfishafa gagnvart notendum hér á landi,
    að rekstrarleyfishafi geti sætt eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar á fjárhagsstöðu sinni með tilliti til hugsanlegrar hættu á rekstrarstöðvun,
    að rekstrarleyfishafi fullnægi á hverjum tíma, eftir gildistöku leyfisins, þeim tilskipunum og reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, og þeim skuldbindingum sem Ísland undirgengst samkvæmt gildandi alþjóðasamningum á sviði fjarskiptamála,
    að lokaðir notendahópar afhendi Póst- og fjarskiptastofnun fyrir fram lista yfir meðlimi með símanúmerum þeirra eða öðru kennimerki, enda geta þeir uppfært hann eftir þörfum. Lokaðir notendahópar skulu einnig, ef þess er óskað, halda skrá yfir upphafs- og endastað hvers uppkalls í því skyni að auðvelda eftirlit,
    að rekstrarleyfishafi taki þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði fjarskiptamála.
    Nánar skal mælt fyrir um skilyrði fyrir rekstrarleyfisveitingum í reglugerð.
    

7. gr.

Skylda til að veita alþjónustu.


    Við útgáfu rekstrarleyfa til þeirra sem veita fjarskiptaþjónustu á almennum fjarskiptanetum getur Póst- og fjarskiptastofnun mælt svo fyrir að auk þess að uppfylla skilyrði skv. 6. gr. skuli rekstrarleyfishafa skylt að veita alþjónustu á starfssvæði sínu.
    Sjái rekstrarleyfishafi sér ekki fært að veita tilteknum aðila alþjónustu skv. 1. mgr., svo sem vegna fjarlægðar, kostnaðar eða annars óhagræðis, skal ágreiningur vegna synjunar borinn undir Póst- og fjarskiptastofnun til úrskurðar.
    

8. gr.

Fjöldi rekstrarleyfishafa.


    Þegar takmarka þarf fjölda rekstrarleyfishafa á einstökum þjónustusviðum skal taka mið af því hve mörgum er hægt að heimila af tæknilegum ástæðum að veita þjónustuna, en að jafnaði skal þess gætt að samkeppni sé nægileg með tilliti til hagsmuna notenda fjarskiptaþjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal ákveða hversu mörgum aðilum verði veitt rekstrarleyfi í þeim tilvikum þar sem takmarka þarf fjölda rekstrarleyfa.
    

9. gr.

Útboð.


    Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið að rekstrarleyfi, sbr. 8. gr., skuli veitt að undangengnu útboði.
    Útboð skal að jafnaði vera opið. Póst- og fjarskiptastofnun semur útboðsskilmála þar sem meðal annars skal mælt fyrir um þá þjónustu sem boðin er út og um lágmarksboð.
    Póst- og fjarskiptastofnun annast eða hefur umsjón með útboðum þessum.
    

10. gr.

Undanþágur.


    Póst- og fjarskiptastofnun getur heimilað einstökum mönnum, félögum eða stofnunum að setja upp og reka fjarskiptanet til eigin nota, án þess að uppfyllt séu skilyrði skv. 6. gr., enda verði þau ekki nýtt fyrir aðra.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur heimilað lokuðum notendahópum að setja upp og reka fjarskiptanet til eigin nota og skulu þá ekki sett önnur skilyrði fyrir leyfisveitingu en um getur í a-, j-, k-, m- og o- liðum 6. gr.
    Fjarskipti, sem eingöngu eru boð eða sendingar með þræði innan húsakynna heimilis, fyrirtækis, eða stofnunar, svo sem í sjúkrahúsum, gistihúsum, skólum og verksmiðjum, heyra ekki undir lög þessi.
    Póst- og fjarskiptastofnun sker úr ágreiningi um hvort fjarskipti falli undir ákvæði laga þessara eða ekki, og hvort undanþáguheimildir 1.–3. mgr. eigi við.

VI. KAFLI

Viðskiptaskilmálar, gjaldskrár, uppgjörs- og bókhaldsreglur.

11. gr.

    Rekstrarleyfishafi í almennri fjarskiptaþjónustu eða sem leyfi hefur til reksturs almenns fjarskiptanets skal semja og birta opinberlega þá viðskiptaskilmála sem gilda fyrir fjarskiptaþjónustu hans. Þar skal m.a. mælt fyrir um biðtíma eftir tengingu við fjarskiptanet eftir því sem við á, um viðgerðir eða lagfæringar ef tenging rofnar og um þjónustu rekstrarleyfishafa að öðru leyti, um ábyrgðartakmarkanir ef þeim er til að dreifa og um uppsögn viðskiptasamnings.
    Rekstrarleyfishafa er heimilt að breyta skilmálum sínum, enda sé slík breyting tilkynnt viðskiptamönnum rekstrarleyfishafa með hæfilegum fyrirvara.
    Viðskiptaskilmálar rekstrarleyfishafa skulu fyrir fram kynntir Póst- og fjarskiptastofnun. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að mæla fyrir um breytingar á viðskiptaskilmálum, t.d. ef þeir teljast ekki í samræmi við rekstrarleyfi.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa almennt eftirlit með gjaldskrám í alþjónustu. Gjaldtaka í alþjónustu skal taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að mæla fyrir um hámarksverð í alþjónustu þegar sérstaklega stendur á.
    Samgönguráðherra er heimilt, vegna eftirlits með verðlagningu alþjónustu, að setja í reglugerð sérstakar reglur um bókhald fjarskiptafyrirtækja, sundurgreiningu þess og fjárhagslegan aðskilnað milli einstakra rekstrarþátta fjarskiptaþjónustu annars vegar og fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptaþjónustu frá annarri starfsemi rekstrarleyfishafa hins vegar.
    

VII. KAFLI

Um samtengingu neta.

12. gr.

Samtenging fjarskiptaneta

    Nú vill rekstrarleyfishafi tengja fjarskiptanet sitt fjarskiptaneti annars rekstrarleyfishafa, og skulu þá viðkomandi aðilar leita samkomulags um tenginguna og skilmála hennar.
    Náist ekki innan hæfilegs tíma, sem lengstur skal vera þrír mánuðir, samkomulag milli rekstrarleyfishafa um að net skuli samtengd, getur hvor aðili um sig leitað til Póst- og fjarskiptastofnunar sem skal leita sátta með aðilum, sbr. 13. gr.
    Telji stofnunin að samtenging geti valdið hættu á rekstrartruflunum á viðkomandi fjarskiptaneti eða samtengdum fjarskiptanetum getur stofnunin mælt svo fyrir að fjarskiptanet skuli ekki samtengd.
    

13. gr.

Eftirlit með verðlagningu við samtengingu fjarskiptaneta o.fl.


    Verðlagning rekstrarleyfishafa á þjónustu fyrir afnot annars rekstrarleyfishafa af fjarskiptaneti skal taka mið af raunkostnaði þess sem viðkomandi fjarskiptanet rekur að teknu tilliti til hæfilegs hagnaðar.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að samningar sem gerðir eru milli rekstrarleyfishafa um samtengingu fjarskiptaneta, séu lagðir fyrir stofnunina.
    Náist ekki samkomulag milli rekstrarleyfishafa um gjald og aðra samningsskilmála vegna samtengingar fjarskiptaneta, sbr. 2. mgr. 12. gr., skal Póst- og fjarskiptastofnun hafa milligöngu um ákvörðun samningsskilmála milli aðila. Getur stofnunin í því sambandi lagt fram miðlunartillögu eða á annan hátt gert tillögur um sættir. Náist ekki samkomulag, þrátt fyrir sáttatilraunir sem lengst skulu taka sex mánuði, skal Póst- og fjarskiptastofnun að kröfu aðila ákveða skilmála fyrir samtengingu. Við ákvörðun skilmála vegna samtengingar skal taka mið af fyrirmælum 1. mgr.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur við sáttameðferð eða ákvarðanatöku skv. 3. mgr. krafist upplýsinga úr bókhaldi rekstrarleyfishafa og falið löggiltum endurskoðendum að yfirfara slík gögn.
    Þegar sérstaklega stendur á getur Póst- og fjarskiptastofnun að kröfu annars hvors aðila mælt fyrir um breytingu á samningum um samtengingu neta eða á ákvörðunum sínum þar að lútandi.
    Samgönguráðherra er heimilt að mæla fyrir um í reglugerð bókhaldslegan aðskilnað eða aðgreiningu einstakra rekstrarþátta þannig að unnt sé að fylgjast með stofnkostnaði og kostnaði af rekstri samtengdra fjarskiptaneta.

VIII. KAFLI

Samningar og greiðslur fyrir alþjónustu

14. gr.

Rekstur til almannaheilla. Umsóknir um fjárframlög og greiðslur þeirra.

    Telji rekstrarleyfishafi að alþjónusta, sem honum er gert skylt að veita samkvæmt rekstrarleyfi, sbr. 7. gr., sé rekin með tapi eða sé óarðbær, getur hann krafist þess að honum verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá starfsemi sem um ræðir. Skal slík beiðni send Póst- og fjarskiptastofnun.
    Nú berst Póst- og fjarskiptastofnun beiðni um fjárframlög skv. 1. mgr., og ekki verður talið að þjónustan verði tryggð með öðrum hagkvæmari hætti, en jafnframt talið að þjónustan sé óhjákvæmileg og verði ekki aflögð, og skal stofnunin þá með fjárframlögum tryggja rekstrarleyfishafa eðlilegt endurgjald fyrir þá þjónustu sem veitt er.
    Skal Póst- og fjarskiptastofnun krefjast þess að rekstrarleyfishafi upplýsi nákvæmlega hvert rekstrartap af starfseminni er og hvernig það sundurliðast.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur við mat á fjárframlögum krafist skýrslna löggiltra endurskoðenda, eða falið slíkum aðila að gera úttekt á rekstrarafkomu á viðkomandi rekstrarsviði. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að krefjast aðgangs að bókhaldi rekstrarleyfishafa við mat á fjárframlögum og eftirliti með þeim.
    Fjárframlög skulu að jafnaði miðuð við eitt ár í senn. Nú telur annar hvor aðili að forsendur fyrir ákvörðun fjárframlaga hafi breyst verulega, og getur hvor um sig þá krafist endurskoðunar á framlaginu.
    Nú er hluti af starfsemi rekstrarleyfishafa háður fjárframlögum samkvæmt ákvæði þessu, og getur Póst- og fjarskiptastofnun þá krafist þess að sá þáttur starfseminnar sé bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi leyfishafans.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal skera úr ágreiningi um fjárframlög, þar á meðal um greiðslur samkvæmt þessari grein.
    

15. gr.

Jöfnunargjald.


    Til að stranda straum af greiðslu fjárframlaga samkvæmt þessum kafla skal innheimta álag, jöfnunargjald, sem rennur til Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Skal jöfnunargjaldið lagt á rekstrarleyfishafa innan viðkomandi þjónustusviðs, í hlutfalli við bókfærða veltu á viðkomandi þjónustusviði. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem rekstrarleyfishafi hefur af leyfisbundinni starfsemi hér á landi. Sá þáttur rekstrarleyfishafa sem lýtur að leyfisbundinni starfsemi hér á landi skal vera bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi leyfishafans.
    Jöfnunargjald samkvæmt lögum þessum skal ákveðið árlega í upphafi hvers árs, í fyrsta skipti 1. janúar 1998.
    Jöfnunargjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.
    Um álagningu og innheimtu jöfnunargjalds fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á og skulu innheimtuaðilar standa Póst- og fjarskiptastofnun skil á innheimtum gjöldum mánaðarlega.
    Samgönguráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um fjárframlög og jöfnunargjöld í fjarskiptaþjónustu, þar á meðal um útreikning á kostnaði við að veita fjarskiptaþjónustu, um útreikning rekstrartaps og um álagningu jöfnunargjalds á rekstrarleyfishafa.
    Í þeim tilfellum þar sem ekki verður beitt jöfnunargjaldi skal kostnaður vegna óarðbærrar alþjónustu skv. 7. gr. greiddur úr ríkissjóði eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum.

IX. KAFLI

Samningar og greiðslur fyrir óarðbæra þjónustu, aðra en alþjónustu.

16. gr.

    Nú óskar samgönguráðherra eftir því að lagt sé í framkvæmdir eða rekstur sem er til almannaheilla í öryggisskyni, eða vegna byggðasjónarmiða, og ætla má að skili ekki arði, án þess þó að um alþjónustu sé að ræða, og skal Póst- og fjarskiptastofnun þá falið að gera um slíkt samning við rekstrarleyfishafa á viðkomandi sviði.
    Kostnaður sem rekja má til ákvarðana samgönguráðherra skv. 1. mgr. skal að jafnaði greiddur úr ríkissjóði, eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum.
    

X. KAFLI

Leynd og vernd fjarskipta.

17. gr.

Þagnarskylda.

    Allir þeir sem starfa við fjarskiptavirki, hvort sem um er að ræða starfsmenn rekstrarleyfishafa eða aðra, skulu skyldir, bæði meðan þeir gegna starfinu og eftir að þeir hafa látið af því, að halda leyndu fyrir óviðkomandi aðilum öllu því sem um fjarskiptavirkin fer, hvort sem um er að ræða efni skeyta eða samtala eða hvort fjarskipti hafa átt sér stað og milli hverra.
    Ekki má án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti eða önnur skjöl sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti skal fara samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
    Rekstrarleyfishöfum skal heimilt að skrá upplýsingar um fjarskipti sem um fjarskiptavirki þeirra fara, enda sé um að ræða lið í reikningsfærslu gagnvart viðkomandi notanda.
    Samgönguráðherra setur reglur um skráningu og meðferð upplýsinga um fjarskipti, að fengnum tillögum Póst- og fjarskiptastofnunar.
    

18. gr.

Vernd skeyta- og merkjasendinga.


    Enginn sem starfar við fjarskiptavirki má aflaga, ónýta eða skjóta undan skeytum, myndum eða öðrum merkjum sem afhent eru til flutnings um fjarskiptavirkin eða liðsinna öðrum við þess konar athæfi.
    Sá sem fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum eða hlustar á fjarskiptasamtöl má ekki skrá neitt slíkt hjá sér eða notfæra sér það á nokkurn hátt. Berist manni með slíkum hætti skeyti eða skjal, skal viðkomandi tilkynna sendanda að slíkt hafi ranglega borist sér. Skylt er að gæta fyllsta trúnaðar í slíkum tilfellum.
    

XI. KAFLI

Eftirlit með búnaði, leyfisbréf o.fl.

19. gr.

Gerðarsamþykki búnaðar.

    Ekki má flytja inn, smíða eða setja á markað fjarskiptavirki eða annan búnað, er tengja á við almennt fjarskiptanet, nema að viðkomandi búnaður eða einstakir hlutar hans hafi eða fái gerðarsamþykki, sbr. 2.–5. mgr.
    Öll fjarskiptavirki skulu fá gerðarsamþykki Póst- og fjarskiptastofnunar, nema fyrir liggi að þau hafi þegar fengið gerðarsamþykki, sbr. 6. mgr.
    Fjarskiptavirki sem þurfa gerðarsamþykki eru:
    öll fjarskiptavirki fyrir þráðlaus fjarskipti, enda hafi undanþága ekki verið veitt,
    allur notendabúnaður, þ.e. fjarskiptavirki sem tengjast eða geta tengst almennum fjarskiptanetum.
    Nú liggja fyrir vottorð og mælingarskýrslur um fjarskiptavirki frá faggiltri prófunarstöð, innlendri eða erlendri, um að það sé í samræmi við viðurkennda staðla og reglur, og skal þá leggja slík gögn til grundvallar við útgáfu gerðarsamþykkis. Að öðrum kosti skal leggja mælingar og prófanir Póst- og fjarskiptastofnunar til grundvallar.
    Öll fjarskiptavirki sömu gerðar og hinn samþykkti búnaður skal merkja á þann hátt sem stofnunin ákveður. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að veita undanþágu frá skyldu til gerðarsamþykkis fjarskiptavirkja, enda sé búnaðurinn merktur á þann hátt sem stofnunin ákveður.
    Hafi fjarskiptavirki CE-merkingu til staðfestingar á því að það uppfylli viðeigandi kröfur um fjarskiptavirki innan Evrópska efnahagssvæðisins, þarf Póst- og fjarskiptastofnun ekki að gefa út gerðarsamþykki. Á sama hátt má fella niður kröfu um gerðarsamþykki Póst- og fjarskiptastofnunar ef fjarskiptavirki hefur sérstaka merkingu í samræmi við samevrópskar reglur sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að hlíta.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal hafna viðurkenningu á fjarskiptavirki eða öðrum búnaði ef hann er ekki í samræmi við staðla sem gilda um fjarskiptabúnað á Evrópska efnahagssvæðinu. Jafnframt er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að afturkalla fyrri yfirlýsingu ef breyting verður á staðlakröfum eða ef forsendur fyrir leyfisveitingu hafa breyst eða brostið.

20. gr.

Réttindi til að starfa við fjarskiptavirki.


    Þeir sem annast uppsetningu og aðra tækniþjónustu við fjarskiptavirki skulu hafa til þess réttindi samkvæmt reglugerð sem samgönguráðherra setur.
    

21. gr.

Sérstök leyfisbréf og skírteini.


    Póst- og fjarskiptastofnun gefur út leyfisbréf og skírteini til handa þeim aðilum sem samkvæmt sérstökum lögum eða alþjóðasamþykktum hafa fengið leyfi til eða skuldbundið sig til að halda uppi fjarskiptum á ákveðnum sviðum. Í leyfisbréfum skal kveðið á um tæknilega eiginleika fjarskiptavirkja í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir, svo sem um tíðni og útgeislað afl. Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með starfsemi þessara fjarskiptavirkja.
    

XII. KAFLI


Um fjarskiptavirki í farartækjum.


22. gr.


Fjarskiptavirki í farartækjum.


    Samgönguráðherra getur mælt fyrir um það í reglugerð að íslensk skip, loftför og önnur farartæki séu búin fjarskiptavirkjum.
    

23. gr.

Fjarskiptavirki í erlendum farartækjum.


    Fjarskiptavirki í erlendum skipum, flugvélum eða öðrum erlendum farartækjum, sem eru innan íslenskrar land- eða lofthelgi, má aðeins nota í samræmi við íslensk lög og reglugerðir. Póst- og fjarskiptastofnun getur bannað notkun fjarskiptavirkja í erlendum förum innan íslenskrar lögsögu ef talið er að notkun þeirra sé andstæð íslenskum reglum.

XIII. KAFLI

Sérstök ákvæði um þráðlaus fjarskipti.

24. gr.

Notkun tíðnirófs.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal stuðla að sem hagkvæmastri nýtingu tíðnirófsins, skipuleggja notkun þess og úthluta tíðnum. Samgönguráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um skipulagningu og úthlutun tíðna.
    

25. gr.

Leyfi fyrir búnaði og kerfum til þráðlausra fjarskipta.


    Búnað fyrir þráðlaus fjarskipti, bæði sendi- og viðtæki, má aðeins hafa undir höndum, setja upp eða nota að fengnu leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar, sbr. XI. kafla laganna. Skulu leyfin vera tímabundin. Slík leyfi má binda skilyrðum, m.a. að því er varðar sendiafl, staðsetningu búnaðar, bandbreidd, útbreiðslusvæði og tengingar við almennt fjarskiptanet.
    Leyfi skv. 1. mgr. geta ýmist verið einstaklingsbundin eða almenn fyrir notkun tiltekinna gerða fjarskiptatækja, samkvæmt ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Kerfi með tækjum fyrir þráðlaus fjarskipti má aðeins setja upp eða nota að fengnu leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar. Slíkt leyfi má binda skilyrðum, m.a. að því er varðar öryggisráðstafanir gegn óheimilli notkun kerfisins.
    Samgönguráðherra getur sett reglugerð um uppsetningu og notkun búnaðar og kerfa fyrir þráðlaus fjarskipti.

26. gr.

Synjun um leyfi. Afturköllun.


    Póst- og fjarskiptastofnun getur synjað um tíðniúthlutun ef ekki hefur verið aflað nauðsynlegs leyfis til að reka fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu.
    Tíðniúthlutun má afturkalla ef nauðsynlegt leyfi skv. 1. mgr. fellur úr gildi eða ef aðrar mikilvægar forsendur fyrir úthlutun eða leyfi breytast eða bresta, t.d. vegna alþjóðlegs samkomulags sem Ísland er aðili að.
    

XIV. KAFLI

Eftirlit með símatorgsþjónustu.

27. gr.

    Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um símatorgsþjónustu sem staðfestar skulu af samgönguráðherra.
    Nú telur Póst- og fjarskiptastofnun að símatorgsþjónusta sé andstæð almennu siðferði, svo sem vegna kláms eða því um líks, og getur Póst- og fjarskiptastofnun þá mælt fyrir um fyrirvaralausa stöðvun slíkrar starfsemi.
    

XV. KAFLI

Uppsetning og vernd fjarskiptavirkja.

28. gr.

Heimild til að leggja fjarskiptaleiðslur, um eignarnám o.fl.

    Nú er rekstrarleyfishafa nauðsynlegt að leggja leiðslur fjarskiptavirkja um land annars manns, yfir það eða í jörðu, yfir hús eða önnur mannvirki á landinu, á þeim, gegnum þau eða undir þeim, og er eiganda viðkomandi fasteignar þá skylt að heimila slíkt. Hafa skal samráð við eigendur eða umráðamenn slíkra fasteigna og mannvirkja um hvar leiðslur eru lagðar og skal þess gætt að sem minnst sé raskað hagsmunum eiganda viðkomandi eignar. Starfsmenn við fjarskiptavirki skulu gæta þess að valda eigendum og íbúum ekki meiri óþægindum en brýnustu nauðsyn ber til.
    Nú verður tjón á landi manna, mannvirkjum eða öðrum eignum við lagningu fjarskiptavirkja eða viðhald þeirra, og ekki verður úr bætt, eða lagning fjarskiptavirkja leiðir til takmörkunar á afnotamöguleikum viðkomandi eignar, og skal eigandi fjarskiptavirkis þá bæta tjónið. Náist ekki samkomulag um bótafjárhæð skulu bæturnar metnar samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
    Ef rekstrarleyfishafa er nauðsynlegt að tryggja sér land, lóð eða aðra eign í sambandi við lagningu eða rekstur almennra fjarskiptavirkja og samningum um kaup verður ekki við komið, má samgönguráðherra heimila, að fenginni umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar, að eign eða hluti hennar sé tekinn eignarnámi gegn endurgjaldi sem meta skal samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Samþykki ráðherra fyrir eignarnámi skal m.a. háð því að eignarnemi setji tryggingu fyrir greiðslu áætlaðra eignarnámsbóta og kostnaðar við matið. Nú fást eignarnámsbætur ekki greiddar hjá eignarnema, og skal ríkissjóður þá ábyrgjast greiðslu þeirra, enda hafi eignarnámsþoli staðið tilhlýðilega að innheimtu þeirra hjá eignarnema.
    

29. gr.

Vernd fjarskiptavirkja.


    Þar sem fjarskiptavirki eru, má ekki reisa mannvirki, setja upp tæki, leggja pípur, raflagnir, leiðslur og því um líkt, gera jarðrask eða aðrar ráðstafanir er af geta hlotist skemmdir á fjarskiptavirkjum eða truflanir á rekstri þeirra, nema áður hafi verið aflað upplýsinga um legu þeirra og samráð verið haft við eiganda fjarskiptavirkisins um tilhögun framkvæmdanna.
    Nú reynist nauðsynlegt vegna verklegra framkvæmda að flytja til eða breyta legu fjarskiptavirkja, og ber þá sá sem slíka framkvæmd annast allan kostnað sem af því kann að leiða, beinan og óbeinan, nema annað hafi orðið að samkomulagi.
    Ef jarðrask eða aðrar framkvæmdir hafa leitt til skemmda á fjarskiptavirkjum eða truflunum á rekstri þeirra skal sá sem þeim hefur valdið þegar í stað tilkynna það til eiganda fjarskiptavirkisins. Er tjónvaldi jafnframt skylt að bæta allt tjón sem af skemmdunum leiðir, bæði beint og óbeint, þar á meðal viðskiptatap, nema hann sýni fram á að ekki hafi verið komist hjá tjóni þó að fyllsta aðgæsla hefði verið sýnd.
    Nú liggur fyrir að tæki, raflagnir, pípur, leiðslur eða því um líkt valda truflun á rekstri fjarskiptavirkis, og er rekstrarleyfishafa þá heimilt að krefjast úrbóta frá eiganda án tafar, en ella er rekstrarleyfishafa heimilt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir truflun þá sem af þessu hlýst. Nú er truflun að þessu leyti að rekja til gáleysis eiganda viðkomandi búnaðar, og ber eiganda þá að greiða allan kostnað sem af úrbótum leiðir.
    

30. gr.

Vernd sæstrengja.


    Þar sem fjarskiptastrengir liggja í sjó skulu sjófarendur sýna aðgæslu og gæta varúðar. Nú er tjóni valdið á fjarskiptastreng af ásetningi eða gáleysi, og skal þá sá sem tjóni hefur valdið bæta beint og óbeint fjártjón sem af því hlýst, nema hann sýni fram á að hann hafi gert allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til þess að komast hjá tjóni.
    

31. gr.

Viðgerð sæstrengja.


    Þegar skip er innan eða utan landhelgi að starfa við lagningu eða viðgerð fjarskiptastrengja og ber til sýnis alþjóðamerki eða önnur merki er gefa þetta til kynna, skulu önnur skip, sem sjá eða eiga að geta séð þessi merki, halda sig eigi skemmra en mílufjórðung frá sæsímaskipinu. Net og önnur veiðarfæri skal hafa í sömu fjarlægð. Fiskiskip skulu þó hafa 12 stunda frest til þess að fjarlægja veiðarfæri sem í sjó liggja.
    Nú hefur dufl verið lagt út vegna lagningar eða viðgerðar á sæstreng, og skulu skip þá halda sig og veiðarfærum sínum eigi skemmra en mílufjórðung frá duflinu.
    

32. gr.

Aðgerðir til verndar sæstrengjum, bætur o.fl.


    Ef skip hefur orðið að sleppa akkeri eða leggja net eða önnur veiðarfæri í sölurnar til þess að komast hjá því að skemma sæstrengi á það kröfu um skaðabætur frá eiganda strengjanna, enda hafi skipið sjálft ekki stofnað til hættunnar af gáleysi.
    Ef unnt er skulu skipverjar þegar færa til bókar skýrslu um tjónið sem staðfest skal af stjórnanda skipsins. Að auki skal eiganda sæstrengsins eða forsvarsmanni eiganda tilkynnt um atburðinn eins fljótt og kostur er.
    

33. gr.

Takmörkun fjarskipta vegna truflana.


    Póst- og fjarskiptastofnun getur látið innsigla fjarskiptavirki eða hluta þeirra eða bannað notkun þeirra og eftir atvikum fyrirskipað að fá þau afhent til geymslu undir innsigli, ef fjarskiptavirkin trufla önnur fjarskipti eða hætta er á að öryggi fjarskipta sé raskað.
    

XVI. KAFLI

Fjarskipti á hættutímum.

34. gr.

    Á ófriðartímum getur samgönguráðherra samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar mælt fyrir um stöðvun fjarskipta sem teljast hættuleg öryggi ríkisins.
    Í neyðartilvikum, svo sem þegar um er að ræða eldgos, jarðskjálfta, snjóflóð o.s.frv., getur samgönguráðherra að beiðni almannavarnaráðs mælt fyrir um takmörkun fjarskipta sem truflað geta neyðar- og öryggisfjarskipti. Á sama hátt skal heimilt að mæla fyrir um að tiltekin fjarskiptavirki skuli notuð í þágu björgunaraðgerða og að sett skuli upp ný fjarskiptavirki. Komi endurgjald til greina greiðist það úr ríkissjóði samkvæmt mati.
    

XVII. KAFLI

Ábyrgðartakmarkanir, útilokun sambanda, aðfararheimild.

35. gr.

Ábyrgðartakmarkanir.

    Þeim sem hefur leyfi til reksturs almenns fjarskiptanets samkvæmt lögum þessum er heimilt í viðskiptaskilmálum sínum að undanþiggja sig bótaábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis, rofa á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptanetsins eða mistaka við afgreiðslu símskeyta, hvort sem slíkt má rekja til línubilana, bilana í sambandastöðvum eða annarra ástæðna. Slík ábyrgðartakmörkun er þó bundin við að tjónið verði ekki rakið til stórfelldra mistaka starfsmanna rekstrarleyfishafa.

36. gr.

Útilokun sambanda.


    Rekstrarleyfishafa er heimilt að mæla svo fyrir í viðskiptaskilmálum sínum að notanda, sem ekki stendur skil á áföllnum gjöldum á réttum gjalddaga fyrir fjarskipti eða afnot fjarskiptavirkja, megi útiloka frá almennum fjarskiptum um óákveðinn tíma eða þar til hann hefur greitt skuld sína að fullu.
    

37. gr.

Aðfararheimild.


    Gjaldfallnar kröfur rekstrarleyfishafa vegna afnotagjalda og tengdrar þjónustu, á hendur skráðum rétthöfum í talsímaþjónustu, má taka fjárnámi samkvæmt aðfararlögum án undangenginnar dómsúrlausnar eða dómsáttar.
    

XVIII. KAFLI

Viðurlög við brotum á lögum þessum.

38. gr.

    Brot á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum, en varðhaldi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar eða brot ítrekuð. Gáleysisbrot skulu eingöngu varða sektum.
    Brot gegn X. kafla laganna um leynd og vernd fjarskipta varða refsingu svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. Sé slíkt brot framið í ávinningsskyni, hvort sem er í eigin þágu eða annarra, má refsa með fangelsi allt að þremur árum.
    Upptæk skal gera tæki þau og hluti sem í heimildarleysi hafa verið flutt inn, smíðuð eða starfrækt, sbr. 69. gr. almennra hegningarlaga, með síðari breytingum.
    

XIX. KAFLI

Reglugerðir.

39. gr.

    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd fjarskiptamála.
    

XX. KAFLI

Gildistaka.

40. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997.
    Jafnframt falla þá úr gildi lög um fjarskipti, nr. 73/1984, með síðari breytingum. Ákvæði 1. mgr. 3. gr., 3. og 4. mgr. 6. gr., 7. gr. og 17. gr. laganna er fjalla um Fjarskiptaeftirlit ríkisins skulu þó halda gildi sínu þar til Póst- og fjarskiptastofnun tekur til starfa 1. apríl 1997
    

Ákvæði til bráðabirgða.

    Samgönguráðherra skal veita Pósti og síma hf. einkaleyfi til þess að reka almenna talsímaþjónustu hér á landi og til þess að eiga og reka almennt fjarskiptanet. Skal það rekstrarleyfi Pósts og síma hf. gilda þar til réttur til að veita einkaleyfi til almenns fjarskiptareksturs fellur niður eða eigi síðar en 1. janúar 1998. Á sama tíma skal öðrum óheimilt að eiga og reka almennt fjarskiptanet og veita almenna talsímaþjónustu.
    Um skilyrði fyrir einkaleyfi og um gjaldtöku á gildistíma einkaleyfis fer skv. 9. og 10. gr. laga um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar, nr. 103/1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.

    Frumvarp þetta er samið af starfshópi sem samgönguráðherra setti á laggirnar til þess að endurskoða lög um fjarskipti og póstlög og semja drög að lögum um sérstaka stofnun á sviði fjarskipta- og póstmála, sem tæki að sér að hafa umsjón með fjarskiptamálum hér á landi fyrir hönd ríkisins.
    Með frumvarpi þessu er stefnt að því að tryggja örugg og hagkvæm fjarskipti fyrir alla landsmenn á sambærilegum kjörum. Lagt er til að lögbundinn einkaréttur ríkisins verði afnuminn og þeir sem fullnægja ákveðnum skilyrðum fái leyfi til að veita fjarskiptaþjónustu. Samhliða afnámi einkaréttarins eru settar ítarlegar reglur um frelsi í fjarskiptum og samkeppni á þessu sviði. Markmiðið með slíkum reglum er annars vegar að tryggja aðgang nýrra aðila að markaðnum, m.a. aðgang að þeim fjarskiptanetum sem komið hefur verið upp, og hins vegar að tryggja að fjarskiptaþjónustu verði haldið uppi. Er í síðarnefnda tilvikinu talið mikilvægt að öllum sé tryggður aðgangur að tiltekinni þjónustu ( e. universal service), svo sem talsímaþjónustu, á sanngjörnu verði og á grundvelli viðurkenndra viðskiptaskilmála. Með frumvarpi þessu eru íslensk fjarskiptalög færð til samræmis við þær breytingar sem orðnar eru og sem boðaðar hafa verið í fjarskiptamálum í Evrópu.
    Ljóst er að sú breyting sem hér er lögð til leiðir til grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi og stjórn fjarskiptamála hér á landi. Samkvæmt fjarskiptalögum, nr. 73/1984, hafði ríkið einkarétt á að veita fjarskiptaþjónustu hér á landi og voru undanþágur fáar. Einkaréttur ríkisins var takmarkaður verulega með breytingu á fjarskiptalögum árið 1993 og nær samkvæmt gildandi lögum eingöngu til að veita almenna talsímaþjónustu og eiga og reka almennt fjarskiptanet. Jafnframt var sett á fót ný stofnun, Fjarskiptaeftirlit ríkisins, sem annast almennt tæknilegt eftirlit með markaðnum. Með lagabreytingu sem gerð var sl. vor, með lögum nr. 99/1996, voru gerðar breytingar á fjarskiptalögum sem byggjast á því að hlutafélag í eigu ríkisins, Póstur og sími hf., tekur við réttindum og skyldum Póst- og símamálastofnunar 1. janúar 1997, sbr. lög 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Ekki voru þá gerðar frekari breytingar á fjarskiptalögum en nauðsynlegt var talið vegna fyrrgreindrar formbreytingar Póst- og símamálastofnunar.
    Hér er lagt til að lögbundinn einkaréttur verði með öllu afnuminn eigi síðar en 1. janúar 1998. Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að Póstur og sími hf. hafi einkarétt til þess að reka almenna talsímaþjónustu og reka almennt fjarskiptanet til þess tíma. Er ákvæðið í samræmi við ákvæði laga nr. 103/1996. Þessi tilhögun fjarskiptamála byggir á tilskipunum Evrópusambandsins um að samkeppni skuli ríkja á sviði fjarskipta og að afnuminn skuli einkaréttur einstakra aðila, ríkisins sjálfs eða tiltekinna fjarskiptafyrirtækja, til að annast fjarskiptaþjónustu. Þannig er ráð fyrir því gert að eftir 1. janúar 1998 geti þeir sem uppfylla skilyrði laganna fengið leyfi til fjarskiptaþjónustu á öllum sviðum fjarskipta og til að eiga og reka grunnnet.

II. Um þróun fjarskiptamála í Evrópu.

1. Almennt.

    Fjarskiptamálum í Evrópu var þannig skipað að ríkisreknar símastjórnir önnuðust flest fjarskipti, yfirleitt í skjóli einkaréttar sem löggjöf viðkomandi ríkja veitti þeim. Íslensk löggjöf var í engu frábrugðin löggjöf annarra Evrópuríkja. Póst- og símamálastofnun fór með einkarétt ríkisins á fjarskiptum og voru undanþágur fáar. Þetta fyrirkomulag var almennt viðurkennt meðan verið var að byggja upp grunnnetin og voru tekjur af fjarskiptaþjónustu gjarnan nýttar beint eða óbeint til öflugrar uppbyggingar almennra fjarskiptaneta. Þá var litið á aðgang að fjarskiptum sem öryggisatriði og hluta af neyðarþjónustu við almenning. Almannahagsmunir réðu því öðru fremur að óumdeilt var um áratugaskeið að almenn fjarskiptaþjónusta væri eingöngu í höndum ríkisvaldsins.
    Á síðustu árum hefur orðið mikil viðhorfsbreyting að þessu leyti. Tæknibreytingar og þróun fjarskiptaþjónustu hafa kallað á grundvallarbreytingar á því lagalega umhverfi sem fjarskipti búa við. Fyrir þessum breytingum og aukinni samkeppni má færa ýmis rök, m.a.:
    Uppbyggingu almennra fjarskiptaneta er að mestu lokið.
    Með samruna tals, gagna og myndar í stafrænu kerfi er tæknilega erfitt að halda einni þjónustu, talsímaþjónustu, utan samkeppni.
    Það er almenn krafa viðskiptalífsins að samkeppni verði heimiluð á þessu sviði eins og öðrum. Er talið að það flýti fyrir nýrri þjónustu og þróun tækninnar og auki hagkvæmni fyrir notendur.
    Tilskipun ESB frá mars 1996 mælir fyrir um samkeppni á öllum sviðum fjarskipta. Ef íslensk löggjöf fylgir ekki löggjöf annarra Evrópuríkja versnar samkeppnisstaða okkar gagnvart öðrum löndum.
    Aukin samkeppni kallar á breytt afskipti stjórnvalda. Það verður t.d. að tryggja að öllum standi til boða ákveðin grunnþjónusta á sanngjörnu verði og að allir eigi jafnan aðgang að markaðnum, þar á meðal grunnnetinu. Þetta gera stjórnvöld ýmist með því að setja ákveðin skilyrði fyrir leyfisveitingum eða með því að setja ákveðnar leikreglur hér að lútandi.
    Um framangreind grundvallaratriði hefur ítarlega verið fjallað innan Evrópusambandsins og EES. Árið 1987 lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram svokallaða „grænbók“ um fjarskiptamál þar sem lagður var grunnur að áætlun um samkeppni á evrópska fjarskiptamarkaðnum og að þróun innri markaðar fjarskiptaþjónustu í Evrópu.
    Í framhaldi af „grænbókinni“ og öðrum síðari grænbókum hafa ráðherraráð og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins látið frá sér fara nokkrar tilskipanir um framkvæmd áætlunarinnar. Grundvallartilskipanir á þessu sviði eru tilskipanir nr. 90/387, um myndun innri markaðar fyrir fjarskiptaþjónustu með því að koma á frjálsum aðgangi að netum og fjarskiptaþjónustu, og tilskipun nr. 90/388, um frelsi á mörkuðum fyrir fjarskiptaþjónustu. Þessar tilskipanir eru hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    

2. Tilskipun 90/387.

    Tilskipun ráðherraráðsins nr. 90/387, myndar ramma um aðgang þjónustuveitenda að almennum fjarskiptanetum. Með tilskipuninni er þeim sem veita fjarskiptaþjónustu tryggður aðgangur að almennu fjarskiptanetunum. Settar eru reglur um „opinn aðgang“ að fjarskiptanetum (Open Network Provision), sem meðal annars mæla fyrir um samræmingu á sviði tækni, aðgangs og gjaldtöku. Samræmingin leiðir jafnframt til þess að gert er ráð fyrir gagnkvæmum viðurkenningum á prófunum og samþykktum fyrir notendabúnað og sameiginlegum stöðlum.
    Samhæfðar reglur og skilmálar um frjálsan aðgang að netum voru taldar grundvöllur þess að samkeppni á sviði fjarskiptaþjónustu kæmist á. Samkvæmt 3. gr. tilskipunarinnar skulu skilmálarnir vera skýrir og byggðir á hlutlægum viðmiðunum og þess skal gætt að þeir séu ekki umfangsmeiri eða gangi lengra en markmið þeirra gefur tilefni til. Þá er tekið fram að skilmálarnir verði að tryggja jafnan aðgangsrétt að fjarskiptanetunum og að ekki megi í því sambandi byggja á sjónarmiðum sem fela í sér mismunun milli aðila með neinum hætti.
    Í framhaldi af tilskipun nr. 90/387, um frjálsan aðgang að fjarskiptanetum, hafa verið gefnar út fleiri tilskipanir á þessu sviði. Árið 1992 var gefin út ONP-tilskipun fyrir leigulínur, tilskipun nr. 92/264. Samkvæmt tilskipuninni eiga allar leigulínur sem eru boðnar fram af símastjórnum að vera í samræmi við ákvæði hennar. Þar er einnig kveðið á um lágmarksfjölda mismunandi tegunda leigulína sem skulu vera fáanlegar. Sama ár voru einnig gefnar út tilskipanir fyrir gagnaflutning, nr. 92/382, og fyrir samnet, nr. 92/383. Í þeim er kveðið á um lágmarksframboð og val fyrir neytendur að því er varðar þessi svið fjarskiptaþjónustu. Nýjasta tilskipunin um opið netaframboð er um talsímaþjónustu.
    Í tilskipun 90/387 var upphaflega ekki gengið út frá því að einkaleyfi eða sérréttindi varðandi uppsetningu og rekstur grunnneta yrðu afnumin. Talsverðar takmarkanir á samkeppni voru hins vegar taldar fólgnar í því að ekki væri öllum heimilt að setja upp og reka grunnnet. Þetta hefði það í för með sér að þegar samkeppni kæmist á í fjarskiptaþjónustu væru nýir aðilar á markaðnum neyddir til þess að tengjast inn á net samkeppnisaðilans, venjulega innlenda einkaleyfishafans. Einkaleyfishafinn hefði við þessar aðstæður vald til þess að ákveða hvar og hvenær samkeppnisaðilarnir veittu þjónustu sína. Hætta var jafnframt talin á því að viðkomandi stofnanir settu upp óhóflegt verð fyrir aðgang að netinu eða nýttu sér upplýsingar frá samkeppnisaðilanum í sínum eigin rekstri. Sú hætta væri því alltaf fyrir hendi að innlendu fjarskiptastofnanirnar myndu haga aðgangi að fjarskiptanetinu þannig að það kæmi niður á samkeppnisaðilum sem sinntu fjarskiptaþjónustu. Af þessum sökum voru taldar miklar líkur á því að innlenda fjarskiptastofnunin myndi halda markaðsráðandi stöðu sinni þegar samkeppnin kæmist á. Það að viðhaldið væri einkaleyfinu til að setja upp og reka grunnnetin setti því innlendu fjarskiptastofnanirnar í slíka aðstöðu að hætta væri á misnotkun á markaðsráðandi stöðu en það væri andstætt 86. gr. Rómarsáttmálans.
    

3. Tilskipun 90/388.

    Tilskipun nr. 90/388 var sett með hliðsjón af Rómarsáttmálanum, einkum 3. mgr. 90. gr., en þar er kveðið á um skyldu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til að tryggja að ákvæði 90. gr. séu virt og gera viðeigandi ráðstafanir gagnvart aðildarríkjunum, eftir því sem þörf krefur. Framkvæmdastjórnin gegnir því eftirlitshlutverki að þessu leyti en hefur einnig frumkvæði og sinnir ákveðinni stefnumótun með útgáfu tilskipana.
    Í tilskipuninni er kveðið á um skyldu hvers ríkis Evrópusambandsins að koma á samkeppni í fjarskiptaþjónustu innan hins sameiginlega markaðar. Skv. 2. gr. tilskipunarinnar skulu aðildarríki Evrópusambandsins fella úr gildi öll sérstök réttindi eða einkarétt til að veita fjarskiptaþjónustu aðra en talsímaþjónustu. Tilskipunin náði ekki yfir fjarrita, farsíma, boðkerfi og gervihnattaþjónustu, sbr. 2. mgr. 1.gr. tilskipunarinnar.
    Í formála tilskipunarinnar kemur fram að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins taldi rétt að koma á samkeppni í fjarskiptaþjónustu þar sem veiting einkaleyfa eða sérréttinda á fjarskiptasviði takmarkaði viðskipti milli aðildarríkjanna, en slíkt væri andstætt ákvæðum Rómarsáttmálans, einkum 59. gr. og 90. gr. hans.
    Í 59. gr. Rómarsáttmálans er krafist afnáms allra takmarkana á frelsi ríkisborgara aðildarríkjanna með staðfestu í öðru aðildarríki til að veita aðilum í öðrum aðildarríkjum þjónustu. Takmarkanir á veitingu fjarskiptaþjónustu, í skilningi 59. gr., til eða frá öðru aðildarríki fólust einkum í því að bannað var að tengja leigðar línur við sjálfvirk kerfi en einnig í því að krafist var hærri gjalda fyrir slíka tengingu en veitt þjónusta gaf tilefni til. Þá komu takmarkanirnar fram í því að bannað var að flytja merki til eða frá þriðja aðila um leigðar línur og að beitt var magnháðum töxtum án þess að fyrir því væru fjárhagslegar röksemdir. Einnig var þeim er veittu fjarskiptaþjónustu oft neitað um aðgang að netinu. Notkunartakmarkanir og hin óhóflegu gjöld miðað við tilkostnað voru talin hindra að látin væri í té ýmiss konar þjónusta milli aðildarríkjanna.
    Af dómum dómstóls Evrópusambandsins má sjá að takmarkanir á frelsi til að veita þjónustu hafa verið taldar ásættanlegar ef þær standast grunnkröfur með tilliti til almannahags. Hefur sú krafa verið gerð að takmörkunum sé beitt án mismununar og þær megi ekki teljast óhóflegar miðað við tilgang þeirra. Framkvæmdastjórnin taldi ekki nauðsynlegt að takmarka frelsi til að veita fjarskiptaþjónustu vegna neytendaverndar þar sem því marki yrði einnig náð með frjálsri samkeppni. Einu grunnkröfurnar sem réttlætt gætu frávik frá 59. gr. og takmörkun á notkun fjarskiptanetsins væru kröfur um heildstæði fjarskiptanetsins og rekstraröryggi þess. Viðhald eða lögleiðing sérstakra réttinda eða einkaréttur sem ekki uppfyllti ofangreind skilyrði voru því talin vera brot á 90. gr. Rómarsáttmálans, sbr. 59. gr. hans. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins taldi ekki samrýmast 1. mgr. 90. gr., sbr. 86. gr. Rómarsáttmálans, að fyrirtækjum væri veittur einkaréttur til fjarskiptaþjónustu.
    Samkvæmt 86. gr. sáttmálans er allt framferði eins eða fleiri fyrirtækja sem felur í sér misnotkun á yfirburðastöðu á hinum sameiginlega markaði, eða verulegum hluta hans, bannað. Framkvæmdastjórnin taldi fjarskiptastofnanir vera fyrirtæki í skilningi 86. gr. Á innanlandsmörkuðum höfðu fjarskiptastofnanirnar, hver fyrir sig eða sameiginlega, yfirburðastöðu með tilliti til uppsetningar og reksturs neta þar sem þær voru einu aðilarnir sem í einstökum aðildarríkjum réðu yfir neti sem náði um allt yfirráðasvæði viðkomandi ríkis.
    Þegar ríki veitti stofnun, sem þegar hafði slíka yfirburðastöðu, einkarétt til að láta í té fjarskiptaþjónustu, styrktu slík réttindi enn frekar yfirburðastöðu þeirrar stofnunar. Að sama skapi var veiting sérstakra réttinda eða einkaréttar til að láta í té vissa fjarskiptaþjónustu talin hafa það í för með sér að aðgangur keppinauta að markaðnum fyrir þá fjarskiptaþjónustu var útilokaður eða verulega takmarkaður. Slíkt drægi úr valfrelsi notenda og væri til þess fallið að hamla tækniframförum til tjóns fyrir neytendur. Framkvæmdastjórnin taldi að í slíkum tilvikum væri um misnotkun á yfirburðastöðu að ræða og því brot gegn 86. gr.
    Eins og fyrr greinir gerði tilskipun nr. 90/388 aðildarríkjum Evrópusambandsins ekki skylt að fella úr gildi sérstök réttindi eða einkarétt til þess að veita talsímaþjónustu, sbr. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Ástæða þessa var sú að talið var að talsímaþjónusta gæti fallið undir undantekningarregluna í 2. mgr. 90. gr. Rómarsáttmálans en þar er veitt heimild til að veita undanþágu frá reglum sáttmálans ef ákvæði hans koma í veg fyrir að fjarskiptastofnanir geti að lögum og í raun leyst af hendi það sérstaka verkefni sem þeim er ætlað. Það verkefni var að setja upp og reka almennt net, þ.e. net sem nær til alls landsins og hver þjónustuaðili eða notandi sem þess óskaði, fengi aðgang að innan hæfilegs tíma. Framkvæmdastjórnin benti á að fjármagn til þróunar netsins fengist að mestu leyti frá rekstri talsímaþjónustunnar. Það að leyfð yrði samkeppni um talsímaþjónustu gæti því stofnað fjárhagsgrundvelli fjarskiptafyrirtækjanna í hættu. Einnig var lögð áhersla á að talsímaþjónustan væri mikilvægasta leiðin til að gera viðvart og kalla á þær neyðarþjónustustofnanir sem sjá um öryggi almennings. Þessar ástæður m.a. þóttu réttlæta það að tilskipun nr. 90/388 tæki ekki til talsímaþjónustu og ekki þyrfti að koma á samkeppni um slíka þjónustu.
    Í tilskipun nr. 96/19 frá 13. mars 1996, sem er viðauki við tilskipun nr. 90/388, er hins vegar gert ráð fyrir að undanþágan vegna talsímaþjónustunnar verði afnumin þar sem þær ástæður sem réttlættu undanþáguna á sínum tíma eru ekki taldar vera lengur fyrir hendi. Bent er á að flest ríki hafa þegar náð að setja upp net sem taka til alls lands þeirra og jöfnun taxta vegna gagnaflutningsþjónustu er vel á veg komin.
    Ráðherraráðið hefur samþykkt að komið skuli á samkeppni í talsímaþjónustu og veitt til þess frest til 1. janúar 1998. Þó var gert ráð fyrir tímabundnum undanþágum fyrir ríki með vanþróuð net eða mjög lítil net. Slík undanþága verður þó aðeins veitt að til þess séu brýnar ástæður og aðeins svo lengi sem nauðsyn krefur.
    Afnám einkaleyfis og sérréttinda í talsímaþjónustu gerir það að verkum að fjarskiptafyrirtæki í einu ríkja Evrópusambandsins getur frá 1. janúar 1998 veitt þjónustu sína óhindrað í öðru ríki sambandsins.

4. Um farsíma og boðkerfi.

    Tilskipun nr. 90/388 náði upphaflega ekki til farsímakerfa. Á undanförnum árum hefur verið mjög ör þróun í farsímaþjónustunni. Fjöldi notenda hefur margfaldast og sífellt er verið að kynna nýja tækni á þessu sviði. Einkaleyfi og sérréttindi í farsímaþjónustu þóttu líkleg til að hægja verulega á þessari þróun til óhags fyrir neytendur og takmarka mjög framboð á farsímaþjónustu. Vegna þessa lét framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frá sér fara svokallaða „grænbók“ um farsímasviðið, 27. apríl 1994. Þar var fjallað um nauðsyn þess að tilskipun nr. 90/388 tæki einnig til farsímaþjónustu. Með tilskipun nr. 96/2, frá 16. janúar 1996, viðauka við tilskipun nr. 90/388, var undanþágan að því er varðar farsímaþjónustu afnumin og aðildarríkjum gert að afnema einkarétt á þessu sviði.
    

5. Staðan í fjarskiptamálum í Evrópu.

    Í Bretlandi, Svíþjóð og Finnlandi hefur einkaréttur á fjarskiptaþjónustu þegar verið afnuminn. Önnur ríki í Evrópu hafa hins vegar flest enn það fyrirkomulag á fjarskiptamálum að opinber stofnun eða fyrirtæki hefur einkaleyfi á stærstum hluta fjarskiptaþjónustunnar, þar á meðal talsímaþjónustunni og rekstri grunnnetanna, en unnið er að breytingu á fyrirkomulaginu þannig að opna megi fyrir samkeppni á þessu sviði fyrir 1. janúar 1998. Ýmis ríki í Evrópu, svo sem Danmörk, hafa þó tilkynnt að þau muni afnema einkaréttinn fyrr en lokafresturinn rennur út.
    

III. Þróun löggjafar um fjarskiptamál á Íslandi.

    Með aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið skuldbatt íslenska ríkið sig til þess að taka inn í löggjöf sína ýmsar samþykktir Evrópusambandsins er varða fjarskiptamál, sbr. 7. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en þar segir að gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samninginn eða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, skuldbindi samningsaðila. Í XI. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið er fjallað um fjarskiptamál. Þar er að finna ýmsar tilskipanir ráðherraráðsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er varða fjarskiptamál, þar á meðal grundvallartilskipunina um samkeppni á mörkuðum fyrir fjarskiptaþjónustu, eins og hún er aðlöguð samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Núgildandi fjarskiptalög, nr. 73/1984, leystu af hólmi eldri fjarskiptalög, nr. 30/1941. Skv. 2. gr. fjarskiptalaga, nr. 73/1984, eins og henni var breytt árið 1993, hefur íslenska ríkið einkarétt á að eiga og reka almennt fjarskiptanet á Íslandi og í íslenskri landhelgi og lofthelgi. Í sömu grein er kveðið á um einkarétt íslenska ríkisins á að veita talsímaþjónustu. Póst- og símamálastofnun var falið að annast framkvæmd þessa einkaréttar ríkisins. Heimilað var að veita aðilum með staðfesturétt innan Evrópska efnahagssvæðisins rétt til að reka ákveðna tegund fjarskiptaþjónustu, aðra en talsímaþjónustu á almennum fjarskiptanetum, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Með lögunum var sérstök stofnun, Fjarskiptaeftirlit ríkisins, sett á stofn og tók hún við tilteknum verkefnum af Póst- og símamálastofnuninni. Með því var að mestu leyti skilið milli fjarskiptaeftirlits annars vegar og fjarskiptareksturs hins vegar, í samræmi við kröfur Evrópusambandsins.
    Með lögum nr. 103/1996 var Póst- og símamálastofnun breytt í hlutafélag í eigu ríkisins. Mun Póstur og sími hf. yfirtaka starfsemi stofnunarinnar frá og með 1. janúar 1997. Markmið þessarar breytingar var að gera núverandi starfsemi stofnunarinnar sjálfstæðari en verið hefur, m.a. í þeim tilgangi að fyrirtækið verði samkeppnishæfara og skilvirkara í þeirri samkeppni sem búast má við í kjölfar þeirra breytinga á einkarétti á sviði fjarskipta sem fyrirsjáanlegar eru. Þrátt fyrir breytinguna á rekstrarformi stofnunarinnar er gert ráð fyrir því að fyrirtækið verði áfram alfarið í eigu ríkisins.
    Með lögum nr. 99/1996 var fjarskiptalögum síðan breytt, með tilliti til formbreytingar Póst- og símamálastofnunar í hlutafélag. Þau lög taka gildi 1. janúar 1997.
    

IV. Yfirlit yfir helstu efnisatriði frumvarpsins.

    Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um gildissvið laganna og markmið. Lögunum er ætlað að taka til hvers konar fjarskiptaþjónustu hér á landi, nema hún sé sérstaklega undanskilin. Með vísan til þeirrar efnisbreytingar sem felst í afnámi einkaréttar á sviði fjarskipta verður markmið laganna að tryggja örugg og góð fjarskipti hér á landi og jafnframt að tryggja að öllum landsmönnum standi til boða að njóta slíkrar þjónustu á viðráðanlegu verði.
    Í II. kafla eru helstu orð og hugtök frumvarpsins skýrð og er þar að nokkru leyti um að ræða hugtök sem ekki hafa áður verið notuð í fjarskiptalögum.
    Samkvæmt III. kafla frumvarpsins fer samgönguráðherra með yfirstjórn fjarskiptamála hér á landi, en dagleg umsjón með fjarskiptamálum færist hins vegar úr höndum samgönguráðherra til sérstakrar stofnunar, Póst- og fjarskiptastofnunar, sem gert er ráð fyrir að sett verði á laggirnar. Er í því sambandi vísað til sérstaks lagafrumvarps um þá stofnun.
    Í IV. kafla frumvarpsins kemur fram að ríkið hafi eitt rétt til þess að veita leyfi til fjarskiptareksturs hér á landi og til að reka almennt fjarskiptanet, og að slík leyfi skuli veitt íslenskum aðilum og aðilum með staðfesturétt innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Samkvæmt V. kafla er það Póst- og fjarskiptastofnun sem veitir rekstrarleyfi til fjarskiptaþjónustu, að uppfylltum viðeigandi skilyrðum. Helstu skilyrði sem rekstrarleyfishafi þarf að uppfylla eru tiltekin í 6. gr. frumvarpsins. Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um svonefnda alþjónustu sem nær til ákveðinna þátta fjarskiptaþjónustu, sem almenningi skulu vera aðgengilegir á viðráðanlegu verði. Í þessum kafla er jafnframt fjallað um takmörkun á fjölda leyfa til fjarskiptaþjónustu á tilteknum sviðum og um það að val á rekstrarleyfishöfum geti farið fram að undangengnu útboði.
    VI. kafli frumvarpsins fjallar um viðskiptaskilmála rekstrarleyfishafa, gjaldskrár og um uppgjörs- og bókhaldsreglur sem rekstrarleyfishafar þurfa að gangast undir.
    Í VII. kafla eru sérákvæði um samtengingu fjarskiptaneta.
    VIII. kafli frumvarpsins fjallar um samninga og greiðslur fyrir alþjónustu og um svokölluð jöfnunargjöld. Er hér gert ráð fyrir því að heimilt sé að tryggja með fjárframlögum að fjarskiptaþjónusta sé veitt, jafnvel þótt hún sé óarðbær. Er lagt til að heimilt verði að innheimta svokallað jöfnunargjald í þessum tilgangi.
    Í IX. kafla er fjallað um óarðbæra þjónustu aðra en alþjónustu.
    Í X. kafla er fjallað um leynd og vernd fjarskipta, þ.e. um þagnarskyldu þeirra sem starfa við fjarskiptavirki og um öryggi skeytasendinga.
    Í XI. kafla er fjallað um eftirlit með fjarskiptabúnaði og fjarskiptavirkjum, samþykki búnaðar o.fl.
    Í XII. kafla er fjallað um fjarskiptavirki í farartækjum.
    Í XIII. kafla eru sérstök ákvæði um þráðlaus fjarskipti.
    Í XIV kafla er fjallað um eftirlit með símatorgsþjónustu. Gert er ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun hafi eftirlit með þessari þjónustugrein og gæti hagsmuna neytenda.
    Í XV. kafla er fjallað um uppsetningu og vernd fjarskiptavirkja. Ákvæðum kaflans er ætlað að tryggja að rekstrarleyfishafar geti lagt fjarskiptavirki sín, leiðslur o.s.frv., með sem hagkvæmustum hætti. Í því sambandi er talið rétt að heimila t.d. að farið sé yfir land manna, enda sé röskun ekki meiri en nauðsynlegt er. Skal landeigandi eiga rétt á skaðabótum, verði hann fyrir tjóni vegna lagningar fjarskiptavirkja. Jafnframt er fjallað um tjón á fjarskiptavirkjum og röskun á rekstri þeirra. Tekur það hvort tveggja til fjarskiptavirkja á landi og á sjó.
    Í XVI. kafla eru sérákvæði um fjarskipti á hættutímum, svo sem þegar styrjaldarástand ríkir eða sérstakt hættuástand.
    Í XVII. kafla er fjallað um ábyrgðartakmarkanir sem rekstrarleyfishöfum er heimilt að setja í viðskiptaskilmála sína, um útilokun sambanda vegna vanskila og loks um aðfararheimild vegna vangreiddra gjalda í almennri talsímaþjónustu.
    Í XVIII. kafla er fjallað um viðurlög við brotum.
    Í XIX. kafla er fjallað um heimild til að setja reglugerð um framkvæmd fjarskiptamála.
    Í lok frumvarpsins er bráðabirgðaákvæði þar sem mælt er fyrir um einkaleyfi Pósts og síma hf. til að reka almenna talsímaþjónustu hér á landi og til að reka almennt fjarskiptanet, allt þar til réttur til að veita slíkt einkaleyfi fellur niður samkvæmt reglum EES. Er miðað við að slík einkaleyfi falli niður eigi síðar en 1. janúar 1998.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í þessari grein er fjallað um gildissvið frumvarpsins og meginmarkmið þess. Í 1. mgr. er þess getið að frumvarpið taki til fjarskipta og fjarskiptaþjónustu, en samkvæmt orðskýringum 2. gr. taka fjarskipti yfir hvers konar sendingu eða móttöku tákna eftir leiðslum (radio) eða eftir öðrum rafsegulkerfum. Fjarskiptaþjónusta er einnig almennt skilgreind í 2. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu er lögð á það áhersla að lögin taki til hvers konar fjarskipta, þó svo að samkvæmt því sé útvarp, hljóðvarp eða sjónvarp, undanþegið ákvæðum laganna, sbr. útvarpslög, nr. 68/1985, og einnig er mælt fyrir um að tiltekin fjarskipti innan heimilis, fyrirtækis eða stofnunar geti verið undanþegin ákvæðum laganna, sbr. 10. gr. frumvarpsins.
    Í 2. og 3. mgr. er tiltekið að markmið fjarskiptalaga sé að tryggja örugg fjarskipti hér á landi og sem hagkvæmasta fjarskiptaþjónustu, og að íslenska ríkið skuli tryggja aðgang manna að fjarskiptum eftir því sem unnt er. Ljóst er að með lögunum er afnuminn einkaréttur ríkisins á almennri fjarskiptaþjónustu og er lögunum því jafnframt ætlað að tryggja að slík þjónusta verði engu að síður veitt þó að ríkið annist ekki framkvæmd fjarskiptamála. Er lögunum þannig eftir sem áður ætlað að tryggja að almenningi bjóðist aðgangur að öruggum, góðum og hagkvæmum fjarskiptum hér á landi. Má í því sambandi m.a. vísa til V. kafla frumvarpsins um skilyrði fyrir rekstrarleyfum, VIII. kafla um samninga og greiðslur fyrir alþjónustu og IX. kafla um óarðbæra þjónustu.
    

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    

Um 3. gr.

    Í þessari grein er fjallað um yfirstjórn fjarskiptamála hér á landi. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að yfirstjórn fjarskiptamála verði hjá samgönguráðherra, en að sjálfstæð stofnun, Póst- og fjarskiptastofnun, taki við umsjón með fjarskiptamálum hér á landi og hafi með höndum eftirlit með framkvæmd laganna. Sérstakt lagafrumvarp hefur verið samið um stofnunina, skipulag hennar og hlutverk, og vísast til þess frumvarps að því er varðar frekari umfjöllun um stofnunina.
    Nauðsynlegt er, samhliða þeirri breytingu, sem gerð er á almennri skipan fjarskiptamála, að setja á laggirnar sérstaka stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun sem hefur með höndum þá stjórnsýslu sem ýmist hefur verið falin Póst- og símamálastofnuninni eða ráðuneyti samgöngumála. Eftir formbreytingu Póst- og símamálastofnunar, samkvæmt lögum nr. 103/1996, og með tilliti til ákvæða þessa frumvarps er ekki talið æskilegt að dagleg stjórnsýsla á sviði fjarskiptamála sé í umsjá samgönguráðuneytis og er því gert ráð fyrir að hún flytjist að mestu leyti frá ráðuneytinu til Póst- og fjarskiptastofnunar. Svo sem nánar er vikið að í nefndu frumvarpi til laga um Póst- og fjarskiptastofnun er jafnframt gert ráð fyrir sérstakri úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála, sem ætlað er að taka við því hlutverki samgönguráðherra sem lýtur að stjórnsýslukærum í fjarskiptamálum. Gert er ráð fyrir að ákvörðunum og úrskurðum Póst- og fjarskiptastofnunar megi skjóta til úrskurðarnefndarinnar sem kveður upp fullnaðarúrskurð á stjórnsýslustigi. Með þessu fyrirkomulagi er bæði höfð hliðsjón af kröfum EES um sjálfstæðan, óháðan stjórnsýsluaðila (regulator) á sviði fjarskiptamála, og einnig að samgönguráðherra fer með alla hluti ríkisins í Pósti og síma hf., sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 103/1996.
    

Um 4. gr.

    Samkvæmt frumvarpi þessu er gerð sú breyting frá núgildandi lögum að ríkið hefur ekki lengur einkarétt á því að veita talsímaþjónustu eða eiga og reka almennt fjarskiptanet. Þess í stað er gert ráð fyrir því að íslenska ríkið hafi eitt rétt til þess að veita leyfi til reksturs fjarskiptaþjónustu og til þess að veita leyfi til reksturs almenns fjarskiptanets. Íslenska ríkið heldur með öðrum orðum forræði þess að veita leyfi til fjarskiptareksturs en afsalar sér einkarétti til að veita þjónustuna eða til þess að eiga og reka almennt fjarskiptanet.
    Leyfi til fjarskiptareksturs skal eingöngu veitt íslenskum aðilum eða aðilum með staðfesturétt innan Evrópska efnahagssvæðisins. Með íslenskum aðilum er átt við íslenska ríkisborgara, sem lögheimili eiga hér á landi, og félög eða stofnanir, sem löglega eru stofnuð og skráð hér á landi. Um skilyrði fyrir stofnun hlutafélaga hér á landi og um stjórn og framkvæmdastjóra þeirra vísast til laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994.
    Veita má fjarskiptaleyfi til þeirra sem staðfesturétt hafa innan Evrópska efnahagssvæðisins, en um staðfesturétt og réttarstöðu þeirra sem hans njóta innan Evrópska efnahagsvæðisins vísast til 2. kafla laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið.
    Með vísan til 3. gr. laga um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, með síðari breytingum, yrði öðrum erlendum aðilum hins vegar ekki veitt leyfi til fjarskiptareksturs hér á landi.
    Samkvæmt lokamálsgrein er ráðherra heimilt að mæla fyrir um það í reglugerð að öðrum aðilum en um getur í 2. mgr. megi veita leyfi til fjarskiptareksturs hér á landi. Eðlilegt þykir að veita ráðherra slíka heimild þar sem viðurhlutamikið er að breyta lögunum um fjarskipti ef svo ber undir að rétt þyki að veita öðrum aðilum rétt til fjarskiptareksturs hér á landi. Er þá t.d. haft í huga það tilvik að gerður yrði tvíhliða samningur við erlend ríki um gagnkvæm réttindi á þessu sviði.
    

Um V. kafla.

    Gert er ráð fyrir því að þeir sem annast almenna fjarskiptaþjónustu hér á landi þurfi rekstrarleyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun. Samkvæmt frumvarpinu veitir Póst- og fjarskiptastofnun leyfin og setur skilyrði fyrir rekstrarleyfi, eftir því sem við á. Upptalning þeirra skilyrða sem setja má fyrir rekstrarleyfi er ekki tæmandi, en gera má ráð fyrir að helstu tilvika sé getið. Skilyrðin yrðu tiltekin í rekstrarleyfi viðkomandi. Gert er ráð fyrir að ekki séu sett önnur skilyrði fyrir leyfisveitingu en við eiga í hverju tilfelli, að mati Póst- og fjarskiptastofnunar, til þess að tryggt sé að markmiðum laganna um þjónustu og heildstæðni fjarskiptanetsins verði náð. Í ákveðnum tilvikum kann að vera nauðsynlegt að takmarka fjölda rekstrarleyfishafa á tilteknum sviðum fjarskipta, og kemur ákvörðun um slíka takmörkun í hlut Póst- og fjarskiptastofnunar. Í ákveðnum tilvikum, þegar um er að ræða takmörkuð fjarskipti, er heimilt að veita leyfi til fjarskipta án þess að uppfyllt séu skilyrði 6. gr.
    

Um 5. gr.

    Það kemur í hlut Póst- og fjarskiptastofnunar að veita rekstrarleyfi til fjarskiptaþjónustu og til þess að reka almenn fjarskiptanet, þar með talið kapalkerfi, eins og það er skilgreint í 2. gr. Gert er ráð fyrir því að í slíkum rekstrarleyfum sé ítarlega gerð grein fyrir réttindum og skyldum rekstrarleyfishafa, eftir því sem nauðsynlegt er í hverju tilviki. Þannig verði mælt fyrir um að leyfið taki til einstakra tegunda fjarskiptaþjónustu, svo sem talsímaþjónustu, leigulína, gagnaflutningsþjónustu og reksturs almenns fjarskiptanets, til farsímaþjónustu, boðkerfaþjónustu o.s.frv.
    Ekki þarf leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar til að veita virðisaukandi þjónustu eða til þess að selja almennan notendabúnað. Rétt er þó að vekja athygli á því að Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með innflutningi á slíkum búnaði samkvæmt XI. kafla frumvarpsins. Hugtakið virðisaukandi þjónusta er skilgreint í orðskýringum 2. gr.
    

Um 6. gr.

    Meginreglan varðandi skilyrði fyrir rekstrarleyfi er að þau séu skýr og að gætt sé jafnræðis meðal umsækjenda og leyfishafa. Þannig skal þess gætt að nýjum aðilum á sviði fjarskipta séu ekki sett önnur skilyrði en öðrum rekstrarleyfishöfum á viðkomandi sviði. Þá skal þess gætt að ekki séu sett önnur skilyrði en nauðsynleg teljast til að viðkomandi geti fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru á viðkomandi þjónustusviði. Við ákvörðun skilyrða ber Póst- og fjarskiptastofnun að gæta almennra stjórnsýslusjónarmiða, samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.
    Telji rekstrarleyfishafi eða umsækjandi um rekstrarleyfi að skilyrði, sem honum eru sett eða mælt er fyrir um, séu óþörf, íþyngjandi eða takmarki með óeðlilegum hætti möguleika hans á að veita fjarskiptaþjónustu, getur hann krafist þess að Póst- og fjarskiptastofnun taki rökstudda ákvörðun í málinu sem síðan er hægt að kæra til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sem gert er ráð fyrir að sett verði á laggirnar samkvæmt sérstöku frumvarpi til laga um Póst- og fjarskiptastofnun sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi. Með þessu er tryggt að aðilum séu ekki settir óeðlilegir skilmálar eða skilyrði, og að kostur sé á skjótri, hlutlausri kærumeðferð í slíkum tilvikum.
    Í ákvæðinu eru tiltekin helstu skilyrði sem sett kunna að verða fyrir rekstrarleyfi á sviði fjarskipta þótt ekki sé um tæmandi talningu að ræða.
    Um a-lið: Leyfishafar skulu greiða leyfisgjald við útgáfu rekstrarleyfis, svo sem mælt er fyrir um í lögum um aukatekjur ríkissjóðs og að auki rekstrargjald sem greiðist árlega á leyfistímanum. Þá er gert ráð fyrir að innheimta megi sérstakt leyfisgjald fyrir fjarskiptaleyfi þar sem fjöldi rekstrarleyfa er takmarkaður. Heimilt væri að ákvarða slíkt gjald með útboði.
    Um leyfisgjöld er nánar fjallað í frumvarpi til laga um Póst- og fjarskiptastofnun.
    Um b-lið: Í sumum tilfellum getur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að sú þjónusta sem leyfið nær til skuli veitt á tilteknu landsvæði, eða nái t.d. til landsins alls. Þá getur stofnunin ákveðið í rekstrarleyfi að þjónusta rekstrarleyfishafa nái tiltekinni útbreiðslu innan ákveðinna tímamarka, ef við á. Mikilvægur þáttur í útbreiðslu fjarskiptaneta og þjónustu við landsmenn er að fjarskiptanet nái til landsins alls eða a.m.k. helstu landsvæða. Í VIII. og IX. kafla frumvarpsins, sem fjalla um greiðslur til rekstrarleyfishafa, m.a. fyrir alþjónustu og óarðbæra þjónustu, eru enn frekari ráðstafanir gerðar til að tryggja útbreiðslu fjarskiptaneta og að alþjónusta sé veitt sem víðast á landinu þótt hún sé ekki lengur á vegum ríkisins.
    Um c-lið: Rekstrarleyfishafar skulu að jafnaði vera skyldugir til þess að veita almenningi og öðrum þjónustuveitendum, þar á meðal öðrum rekstrarleyfishöfum, aðgang að neti sínu, og að ekki verði um að ræða óeðlilegar takmarkanir að því leyti. Núverandi fyrirkomulag hefur falið það í sér að allur almenningur og aðrir notendur síma hafa fengið tengingu án takmarkana og án tillits til hagkvæmni viðskiptanna. Eftir sem áður er gert ráð fyrir þeirri tilhögun á fjarskiptaþjónustu að allir sem vilja tengjast fjarskiptaneti eigi þess kost, enda séu hvorki á því sérstakir tæknilegir annmarkar né aðrar lögmætar hindranir.
    Um d-lið: Í tilteknum tilvikum kann að reynast nauðsynlegt að mæla sérstaklega fyrir um að fjarskiptaþjónusta sé veitt til útlanda, þótt almennt megi gera ráð fyrir því að slíkt liggi í hlutarins eðli, þ.e. að slík þjónusta verði veitt. Er skilyrði þetta því sett til áhersluauka.
    Um e-lið: Þarfnast ekki skýringar.
    Um f-lið: Nauðsynlegt er talið að rekstrarleyfishafar hafi tæknilega þekkingu á fjarskiptum eða á því fjarskiptasviði sem rekstrarleyfi þeirra nær til. Með þessu er reynt að tryggja öryggi fjarskiptanetsins í heild og að auðvelda eftirlit á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar. Þá er ekki hvað síst haft í huga að tryggja hag neytenda, þar á meðal varðandi bilanaþjónustu og þjónustu við sambandsrof. Gert er ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun setji sérstakar reglur um tæknilega þekkingu tiltekinna forsvarsmanna eða ábyrgðarmanna fjarskiptafyrirtækja.
    Um g-lið: Með þeirri breytingu sem frumvarpið mælir fyrir um verða skilmálar þeirra sem veita fjarskiptaþjónustu ekki lengur gefnir út af samgönguráðuneyti, svo sem nú er, sbr. gjaldskrá og reglur fyrir símaþjónustu í einkarétti, sem nú gilda sem nokkurs konar viðskiptaskilmálar Póst- og símamálastofnunar gagnvart notendum. Nú er gert ráð fyrir að rekstrarleyfishafar í almennri fjarskiptaþjónustu, þ.e. þeir sem reka fjarskiptaþjónustu til almenningsnota, setji sína eigin viðskiptaskilmála eða samningsskilmála sem gilda munu gagnvart viðskiptamönnum. Mikilvægt verður að skilmálar fjarskiptafyrirtækjanna liggi fyrir og sæti eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar. Þannig er gert ráð fyrir því í VI. kafla frumvarpsins að stofnunin hafi náið eftirlit með skilmálunum.
    Í 10. gr. laga nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar, er mælt svo fyrir að gjaldskrá félagsins vegna einkaleyfisþjónustu sé háð samþykki samgönguráðherra á hverjum tíma og mun það fyrirkomulag gilda þar til einkaréttur Pósts og síma hf. fellur niður eigi síðar en 1. janúar 1998. Eftir það er gert ráð fyrir að viðskiptaskilmálar sem fyrir almenna fjarskiptaþjónustu gilda skuli samþykktir af Póst- og fjarskiptastofnun og að gjaldskrár í alþjónustu verði háðar eftirliti stofnunarinnar.
    Um h-lið: Rekstrarleyfishafa á sviði talsímaþjónustu má gera skylt að annast uppsetningu og rekstur almenns fjarskiptanets á starfssvæði sínu. Með ákvæði þessu er stefnt að því að tryggja að fjarskiptanet þróist m.a. í samræmi við þróun byggðar. Ákvæði þetta er að þessu leyti tengt skilyrði því sem mælt er fyrir um í b-lið hér að framan. Jafnframt er mælt fyrir um að rekstrarleyfishafa sem rekur fjarskiptanet megi gera skylt að tengja fjarskiptanet sitt öðrum netum. Er skylda til samtengingar neta eitt af grundvallaratriðum varðandi aðgang nýrra aðila að markaði og til þess að tryggja heildstæðni fjarskiptanets hér á landi. Nánar er fjallað um samtengingu neta í VII. kafla frumvarpsins.
    Um i-lið: Gert er ráð fyrir að settar verði sérstakar reglur um úthlutun númera, en Póst- og fjarskiptastofnun kemur til með að úthluta rekstrarleyfishöfum sérstökum númeraröðum.
    Um j-lið: Gert er ráð fyrir að rekstrarleyfishafar gefi út eða taki þátt í útgáfu notendaskrár og að rekstrarleyfishafar veiti upplýsingar um notendur með aðgengilegum hætti. Ljóst er að þegar notendur dreifast á fleiri en einn rekstrarleyfishafa verður mikilvægt að haldin sé heildstæð skrá yfir alla notendur og að slíkar upplýsingar fáist almennt á einum stað en séu ekki bundnar við einstaka þjónustuveitendur. Gefi rekstrarleyfishafi út skrá yfir notendur getur Póst- og fjarskiptastofnun mælt fyrir um skyldu hans til að birta einnig nöfn notenda hjá öðrum rekstrarleyfishöfum, og með hvaða skilmálum. Ef rekstrarleyfishafar gefa ekki út heildstæða skrá yfir notendur er stofnuninni heimilt að mæla svo fyrir að rekstrarleyfishafar skuli láta í té upplýsingar í skrá sem stofnunin annaðist útgáfu á, og jafnframt á hvaða kjörum. Í slíku tilfelli mundi við það miðað að fjárhagslegum afrakstri eða kostnaði slíkrar útgáfu yrði skipt niður á rekstrarleyfishafa í hlutfalli við fjölda notenda. Hér ber að hafa í huga að rekstrarleyfishafar í almennri talsímaþjónustu hafa umtalsverðan kostnað af umsjón og eftirliti með skráningu notenda og breytingum á henni, en á móti hafa komið tekjur af útgáfu símaskráa. Þá er gagnagrunnur að þessu leyti verðmæti sem rétt þykir að viðkomandi rekstrarleyfishafi njóti góðs af. Verður hann því ekki skyldugur til að láta slíkar upplýsingar af hendi nema gegn hæfilegri greiðslu.
    Um k-lið: Heimilt er að mæla fyrir um það í rekstrarleyfi að erlendur aðili, þar á meðal frá Evrópska efnahagssvæðinu, setji upp starfsstöð hér á landi, eða að hér starfi aðili sem umboð hefur til að koma fram gagnvart neytendum hér á landi. Heimild þessi yrði væntanlega fyrst og fremst bundin við þá aðila sem önnuðust fjarskiptaþjónustu á neytendamarkaði, en ætti væntanlega síður við þegar um afmarkaða fjarskiptaþjónustu er að ræða. Talið er eðlilegt að erlendir aðilar, sem hér bjóða fjarskiptaþjónustu, hafi starfsstöð eða umboðsmann hér á landi til þess m.a. að sinna neytendamálum o.s.frv.
    Um l-lið: Við útgáfu rekstrarleyfa og við eftirlit með rekstrarleyfishöfum kann að vera mikilvægt fyrir Póst- og fjarskiptastofnun að hafa upplýsingar um eða fylgjast með fjárhagsstöðu rekstrarleyfishafa. Er þá ekki hvað síst haft í huga að rekstrarleyfishafi sýni fram á að hann sé fær um að uppfylla þær skyldur sem honum eru lagðar á herðar í rekstrarleyfi. Verði Póst- og fjarskiptastofnun þess vör að fjárhagsstaða rekstrarleyfishafa sé slík að hann geti hugsanlega ekki lengur uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru, hefur stofnunin möguleika á að aðvara viðkomandi rekstrarleyfishafa eða gera fyrirbyggjandi ráðstafanir til þess að tryggja sem minnsta röskun á fjarskiptum, ef til rekstrarstöðvunar kæmi. Rétt er að geta þess að fjarskiptalög setja ekki sérstök mörk, t.d. um eiginfjárstöðu þeirra fyrirtækja eða aðila sem leyfi fengju, en að sjálfsögðu teljast það almennar forsendur fyrir rekstrarleyfi, að fjárhagsstaða sé svo traust að fyrirvaralaus rekstrarstöðvun sé ekki fyrirsjáanleg.
    Um m-lið: Ljóst er að gera má ráð fyrir talsverðu umróti á fjarskiptamarkaði í Evrópu í náinni framtíð og að Evrópusambandið muni setja fram ýmsar kröfur sem gert er ráð fyrir að stjórnvöld framfylgi innan tiltekinna tímamarka. Rétt kann að vera að sett séu fyrirfram skilyrði um að rekstrarleyfishafar undirgangist slíkar breytingar. Sama gildir um þær skuldbindingar sem Ísland kemur til með að gangast undir í alþjóðasamningum á sviði fjarskiptamála. Er nauðsynlegt að tryggja að rekstrarleyfishafar fullnægi á hverjum tíma þeim skuldbindingum sem mælt er fyrir um í slíkum alþjóðasamningum.
    Um n-lið: Í 1. mgr. 10. gr. er gert ráð fyrir að hægt verði að heimila ákveðnum hópi notenda að setja upp og reka eigin fjarskiptanet, fyrir eigin not. Slíkir lokaðir notendahópar eru skilgreindir af Evrópusambandinu. Eigi er heimilt að setja tæknilegar takmarkanir á tengingu nets, sem rekið er af lokuðum notendahópi, en gera má kröfu til þeirra sem bera ábyrgð á rekstri þessara neta að þeir tryggi að einungis meðlimir hópsins njóti þjónustu um netin. Til þess að gera mögulegt eftirlit með að orðið sé við kröfunni, er talið eðlilegt að Póst- og fjarskiptastofnun fái lista yfir meðlimi hópsins og geti jafnframt óskað eftir því að öll notkun sé skráð.
    Um o-lið: Í ákveðnum tilvikum kann að reynast nauðsynlegt að tryggja þátttöku rekstrarleyfishafa í tengslum við alþjóðlegt samstarf á sviði fjarskiptamála. Póst- og fjarskiptastofnun, sem mun að nokkru leyti taka að sér umsjón með alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á þessu sviði, getur lagt fyrir rekstrarleyfishafa að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á viðkomandi fjarskiptasviði, ef slíkt er talið nauðsynlegt.
    Loks er gert ráð fyrir að nánar sé mælt fyrir um skilyrði fyrir rekstrarleyfisveitingum í reglugerð sem samgönguráðherra setur.

Um 7. gr.

    Í þessari grein er fjallað sérstaklega um svokallaða alþjónustu. Við þá breytingu sem frumvarpið boðar, að einkaréttur falli niður, þarf jafnframt að gera ráðstafanir til þess að tryggja að þeir sem reka almenna fjarskiptaþjónustu og leyfi hafa til reksturs almenns fjarskiptanets hafi ákveðnum skyldum að gegna, svo sem fyrr var getið varðandi 6. gr. frumvarpsins. Er þar sérstaklega haft í huga að veitt verði svokölluð alþjónusta, sem í tilskipunum Evrópusambandsins er nefnd „Universal service“. Í orðskýringum 2. gr. er vikið að hugtakinu alþjónusta, en þar er tekið fram að heimilt sé að ákveða í reglugerð hvaða þættir fjarskiptaþjónustu falli þar undir. Með alþjónustu er fyrst og fremst átt við talsímaþjónustu, en einnig aðra þætti fjarskiptaþjónustu sem á hverjum tíma er talið nauðsynlegt að almenningur og fyrirtæki hafi aðgang að, á öllu landinu. Slíkt getur verið breytilegt frá einum tíma til annars og þykir því rétt að mæla svo fyrir að samgönguráðherra setji reglugerð um þá þætti fjarskiptaþjónustu sem á hverjum tíma er felld undir alþjónustu.
    Hér er sérstaklega tekið fram að auk skilyrða sem mælt er fyrir um í 6. gr. sé heimilt að leggja á rekstrarleyfishafa á sviði almennrar fjarskiptaþjónustu skyldur til þess að veita alþjónustu á starfssvæði sínu. Með ákvörðun um alþjónustu svo sem hún er skilgreind á hverjum tíma er reynt að tryggja að þeir aðilar sem leyfi hafa til reksturs almennrar fjarskiptaþjónustu veiti fullkomna fjarskiptaþjónustu, en láti ekki við það sitja að veita eingöngu takmarkaða þjónustu. Á þetta ekki hvað síst við um ýmiss konar nýjungar á sviði fjarskipta. Þannig er gert ráð fyrir að íslenskir neytendur og aðrir notendur fjarskipta muni að jafnaði hafa aðgang að öllum þeim tegundum fjarskiptaþjónustu sem almennt er viðurkennt að almenningur eigi að hafa aðgang að á hverjum tíma, samanborið t.d. við lönd Evrópusambandsins.
    Er í því sambandi ekki hvað síst haft í huga að tryggja alhliða fjarskiptaþjónustu við notendur með sérþarfir, svo sem fatlaða eða aldraða, sem oft á tíðum þurfa á sérstakri fjarskiptaþjónustu að halda. Miklar framfarir hafa orðið í fjarskiptum fyrir slíka hópa og ýmiss konar búnaður sem tryggir öryggi þeirra séð dagsins ljós. Mikilvægt er að sett séu ströng skilyrði í rekstrarleyfum fyrir fjarskiptaþjónustu við slíka hópa. Slíkar kvaðir, sem lagðar kunna að verða á rekstrarleyfishafa, yrðu bundnar við það þjónustusvið sem rekstrarleyfið tekur til. Þannig yrði rekstrarleyfishafa ekki gert að veita slíka þjónustu á öðrum sviðum fjarskipta en leyfið tekur til.
    Í 2. mgr. er tekið fram að rekstrarleyfishafa sé heimilt að synja einstökum aðilum um alþjónustu. Sem dæmi um slíkt má nefna tengingu við býli eða bústað fjarri byggð. Skal slík synjun borin undir Póst- og fjarskiptastofnun sem metur hvort rekstrarleyfishafa sé skylt að veita umsækjanda alþjónustu.
    

Um 8. gr.

    Í ákveðnum tilvikum getur verið nauðsynlegt að takmarka fjölda þeirra sem geta fengið rekstrarleyfi til fjarskipta á tilteknum sviðum. Í greininni er mælt svo fyrir að slíka takmörkun skuli byggja á tæknilegum forsendum, enda er áhersla lögð á að nægjanleg samkeppni myndist á einstökum þjónustusviðum. Ber því að túlka heimild til takmörkunar þröngt. Ef nauðsynlegt er að takmarka fjölda rekstrarleyfa skal ákvörðun um slíkt tekin hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Ákvörðun að því leyti kann að verða skotið til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, t.d. ef aðili sem synjað er um leyfi af tæknilegum ástæðum telur að slík ákvörðun sé ekki á rökum reist.
    

Um 9. gr.

    Samkvæmt ákvæði þessu getur Póst- og fjarskiptastofnun í ákveðnum tilvikum ákveðið að leyfi til fjarskipta skuli veitt að undangengnu útboði. Er í því sambandi vísað til 8. gr. frumvarpsins. Algengt er erlendis að viðbótarrekstrarleyfi, t.d. í farsímaþjónustu (GSM), séu boðin út, og má nefna sem dæmi um slíkt útboð þýska ríkisins á fjórða GSM-símakerfinu þar í landi. Við val á tilboðum yrði m.a. tekið tillit til útbreiðslu kerfa sem boðin yrðu, og fyrirsjáanlegra gæða þjónustunnar. Þannig mætti í útboðsgögnum mæla fyrir um lágmarksútbreiðslu innan tiltekinna tímamarka, ef slíkt ætti við. Ekki er víst að t.d. tilboð í sérstakt rekstrarleyfisgjald yrði látið ráða úrslitum. Í því sambandi má benda á að við útboð GSM-þjónustu í Þýskalandi var fyrst og fremst lögð áhersla á útbreiðslu kerfanna.
    Gert er ráð fyrir að útboð skuli að jafnaði vera opin, sem leiðir til þess að sérstök rök þurfa að vera fyrir hendi til að velja lokaða útboðsmeðferð. Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa umsjón með útboðunum og getur annaðhvort ákveðið að annast útboðið sjálf eða fela öðrum, t.d. Ríkiskaupum, að sjá um útboðið fyrir sína hönd.
    

Um 10. gr.

    Frumvarpið byggir á þeirri forsendu að allir sem reka fjarskiptaþjónustu eða reka fjarskiptanet þurfi til þess sérstakt rekstrarleyfi Póst- og fjarskiptastofnunar sem setur rekstrarleyfishafa skilyrði í samræmi við 6. gr. Skilyrði þau sem sett eru í hverju tilviki byggjast á eðli þeirrar þjónustu sem um ræðir.
    Í þessari grein er hins vegar heimilað að reka fjarskiptanet, án þess að viðkomandi uppfylli sérstaklega þau skilyrði sem mælt er fyrir um í 6. gr. Þessi undanþágutilvik eru eftirfarandi:
    1. mgr. Heimila má einstökum mönnum, félögum eða stofnunum að setja upp og reka fjarskiptanet til eigin nota, enda verði þau ekki nýtt fyrir aðra. Ákvæði þetta er óbreytt frá núgildandi lögum, sbr. 7. mgr. 2. gr., þó með þeirri breytingu að fellt er niður það skilyrði að slíkt net verði ekki tengt við almenn fjarskiptanet.
    2. mgr. Póst- og fjarskiptastofnun getur heimilað svokölluðum lokuðum notendahópum (e. closed user groups) að setja upp og reka fjarskiptanet til eigin nota, og má í slíkum tilvikum eingöngu setja í rekstrarleyfi skilyrði samkvæmt a-lið 6. gr., að greitt sé tiltekið gjald til stofnunarinnar, og skilyrði skv. j-, k-, m- og o-liðum.
    Lokaðir notendahópar eru skilgreindir í orðskýringum 2. gr. frumvarpsins og er í því sambandi stuðst við skilgreiningu á lokuðum notendahópum samkvæmt skýrslu framkvæmdastjórnar ESB 95/C 275/02, sem birt var 20. október 1995.
    Af framanskráðu er ljóst að hrein fyrirtækjanet, sem ekki eru nýtt fyrir aðra en eigendur sína, eru alfarið undanþegin skilyrðum 6. gr. Lokaðir notendahópar með skilgreindum meðlimum verða undanþegnir flestum skilyrðum 6. gr., en þó ekki öllum. Aðrir leyfishafar þurfa eftir atvikum að lúta skilyrðum 6. gr. samkvæmt ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar á hverjum tíma.
    3. mgr. Fjarskipti með þræði innan veggja heimila, fyrirtækja eða stofnana heyra ekki undir lög þessi. Er hér átt við svokölluð innanhússkerfi sem algeng eru t.d. í sjúkrahúsum, gistihúsum, skólum og víðar. Er þetta óbreytt frá núgildandi lögum.
    Í lokamálsgrein er sérstaklega tekið fram að það kemur í hlut Póst- og fjarskiptastofnunar að skera úr ágreiningi um það hvort tiltekin fjarskipti falli undir ákvæði laganna eða ekki. Er talið eðlilegt að stofnun sem hefur eftirlit með framkvæmd fjarskiptalaga hafi jafnframt úrskurðarvald um það hvort fjarskipti séu leyfisskyld eða ekki. Í þessu felst jafnframt að stofnunin hefur úrskurðarvald um það hvort fjarskipti falli undir 5. gr., sbr. 6. gr. frumvarpsins, eða njóti undanþágu samkvæmt 10. gr.
    

Um 11. gr.

    Með hliðsjón af ONP-tilskipun Evrópusambandsins er hér mælt fyrir um viðskiptaskilmála þá sem gilda skulu gagnvart viðskiptamönnum rekstrarleyfishafa í almennri fjarskiptaþjónustu og vegna almennra fjarskiptaneta. Í viðskiptaskilmálum skal mæla fyrir um helstu atriði sem notendum er nauðsynlegt að hafa vitneskju um. Er t.d. nefnt að mæla skuli fyrir um biðtíma eftir tengingu, um þjónustustig vegna bilana og um þjónustu rekstrarleyfishafa að öðru leyti. Í þessu sambandi er vísað til núgildandi gjaldskrár og reglna fyrir símaþjónustu þar sem almennir viðskiptaskilmálar Póst- og símamálastofnunar hafa verið birtir.
    Ljóst er að viðskiptaskilmálar fjarskiptaþjónustuaðila kunna að taka mið af því samkeppnisumhverfi sem að er stefnt, en engu að síður er ljóst að Póst- og fjarskiptastofnun þarf að geta haft almennt eftirlit með þeim skilmálum sem í gildi eru og þeim breytingum sem á þeim eru gerðar.
    Í greininni er gert ráð fyrir að stofnuninni sé heimilt að mæla fyrir um breytingar á viðskiptaskilmálum einstakra rekstrarleyfishafa, einkum ef skilmálarnir teljast andstæðir rekstrarleyfi. Kann slík breyting að byggjast á sjálfstæðri athugun Póst- og fjarskiptastofnunar, en ekki síður á ábendingu neytenda eða annarra notenda. Þar sem einhliða breyting viðskiptaskilmála telst jafnan íþyngjandi stjórnvaldsaðgerð má krefjast sérstakrar rökstuddrar ákvörðunar þar að lútandi, sem síðan er unnt að skjóta til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um Póst- og fjarskiptastofnun í samræmi við stjórnsýslulög.
    Í ákvæðinu er jafnframt mælt fyrir um eftirlit Póst- og fjarskiptastofnunar á gjaldskrám sem gilda í alþjónustu. Í tilskipunum Evrópusambandsins er gert ráð fyrir því að gjaldtaka í almennri talsímaþjónustu verði háð almennu eftirliti þeirra sérstöku stofnana sem með eftirlitshlutverkið fara. Er sérstaklega til þess vísað að gjöld í slíkri þjónustu séu í samræmi við kostnað rekstrarleyfishafa af starfseminni en að teknu tilliti til hæfilegs hagnaðar. Hér er gert ráð fyrir slíku eftirliti að því er varðar svokallaða alþjónustu, þ.e. þá þjónustu sem nauðsynlegt er talið að sé aðgengileg öllum almenningi. Er þar fyrst og fremst átt við almenna talsímaþjónustu, en undir alþjónustu getur einnig fallið önnur þjónusta, sem talið er nauðsynlegt að sé almenningi aðgengileg á hverjum tíma. Til öryggis er mælt svo fyrir í ákvæðinu að heimilt sé að ákveða hámarksverð fyrir slíka þjónustu, en til þess mundi ekki koma nema þær aðstæður sköpuðust að alþjónusta teldist vera orðin dýrari á Íslandi en í löndum sem sambærileg teljast, án þess að slíkt yrði réttlætt sérstaklega. Að öðru leyti kemur ekki til opinberra afskipta af verðlagningu fjarskiptaþjónustu, en miðað við að verðlagning mótist af samkeppni á markaði.
    Í lokamálsgrein er mælt fyrir um það að samgönguráðherra sé heimilt vegna eftirlits með verðlagningu alþjónustu að setja með reglugerð sérstakar reglur um bókhald rekstrarleyfishafa, sérstaklega að því er varðar uppbyggingu þess og gagnsæi. Þá er tekið fram að heimilt sé að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað milli einstakra rekstrarþátta fjarskiptaþjónustu annars vegar og milli fjarskiptaþjónustu og annarrar starfsemi rekstrarleyfishafa hins vegar. Er þetta nauðsynlegt þar sem allt eins má búast við að fyrirtæki sem þegar starfa á öðrum sviðum muni hasla sér völl á sviði fjarskipta.
    

Um VII. kafla.

    Í þessum kafla er fjallað um almenn fjarskiptanet og samtengingu neta, en eitt af meginatriðum í sambandi við þær breytingar sem felast í frumvarpi þessu er að skilmerkilega er mælt fyrir um samtengingu einstakra fjarskiptaneta. Þegar fjarskiptanet verða rekin af fleiri en einum aðila er nauðsynlegt að mæla fyrir um samtengingu þeirra, annars vegar til að tryggja samkeppnisstöðu rekstrarleyfishafa innbyrðis og hins vegar til að tryggja heildstæðni fjarskiptaneta hér á landi.
    

Um 12. gr.

    Eins og fram kom í almennum inngangi að athugasemdum þessum er talið að veruleg samkeppnishindrun geti falist í synjun aðgangs að almennum fjarskiptanetum, t.d. í því verði sem viðkomandi setur upp fyrir að veita öðrum aðgang að neti sínu. Í þessari grein er mælt fyrir um að aðilar skuli sjálfir freista þess að ná samningum sín á milli um samtengingu neta og að ekki skuli leitað milligöngu Póst- og fjarskiptastofnunar nema sættir takist ekki innan hæfilegs tíma. Ef tenging getur valdið rekstrartruflunum á fjarskiptaneti eða á samtengdum fjarskiptanetum getur Póst- og fjarskiptastofnun tekið þá ákvörðun að fjarskiptanet skuli ekki samtengd.
    Náist ekki samkomulag milli aðila um samtengingu neta er unnt að vísa því til sáttameðferðar hjá stofnuninni, sbr. nánar 13. gr.
    

Um 13. gr.

    Þegar ákveðnir eru skilmálar fyrir samtengingu fjarskiptaneta er meginreglan sú að sá sem veitir aðgang að neti sínu skuli fá greiddan kostnað sem hann hefur af rekstri netsins annars vegar og hins vegar skal taka tillit til hæfilegs hagnaðar af starfseminni. Er hér að jafnaði átt við kostnað sem viðkomandi getur reiknað af eigin starfsemi vegna reksturs netsins, en hagnaðarsjónarmið geta annaðhvort tekið mið af raunhagnaði þess sem netið rekur eða af stöðluðum hagnaði. Póst- og fjarskiptastofnun er rétt að krefjast þess að samningar sem gerðir eru milli aðila um samtengingu neta séu lagðir fyrir stofnunina, þannig að unnt sé að nýta upplýsingar úr þeim til samanburðar. Með því er tryggt að ákveðið jafnræði geti náðst í slíkum samningum, en mikla áherslu verður að leggja á að ekki gæti ójafnræðis milli aðila á þessu sviði.
    Náist ekki samkomulag milli aðila um skilmála fyrir samtengingu, þar á meðal varðandi gjöld fyrir samtengingu, er unnt að vísa málinu til Póst- og fjarskiptastofnunar til sáttameðferðar. Stofnunin skal freista þess að miðla málum milli aðila og getur í því sambandi lagt fram sáttatillögu eða tillögu að lausn varðandi einstaka þætti í ágreiningi aðila. Hér getur stofnunin m.a. nýtt sér upplýsingar sem hún hefur úr öðrum sambærilegum samningum sem stofnuninni hafa borist. Gert er ráð fyrir að sáttameðferð Póst- og fjarskiptastofnunar geti tekið allt að sex mánuðum. Ef ljóst er að sættir geta ekki tekist, eða ef sáttatilraunir hafa staðið yfir árangurslaust í sex mánuði, getur hvor aðili um sig krafist þess að Póst- og fjarskiptastofnun taki ákvörðun um skilmála samtengingarinnar. Við endanlega ákvörðun skilmálanna skal taka tillit til þeirra sjónarmiða sem rakin eru í 1. mgr., þ.e. að sá sem aðgang veitir fái raunkostnað sinn greiddan, auk hæfilegs hagnaðar.
    Ef nauðsyn krefur er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að krefja viðkomandi aðila um upplýsingar úr bókhaldi, m.a. til að leggja mat á raunkostnað af rekstri nets.
    

Um VIII. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um alþjónustu sem nauðsynlegt er talið að veitt sé en ber sig ekki fjárhagslega eða yrði rekin með tapi. Sem dæmi um slíkt mætti nefna bætt fjarskiptasamband á afskekktum stöðum. Ljóst er að samhliða því sem Póst- og fjarskiptastofnun getur breytt skilmálum rekstrarleyfishafa, t.d. vegna samtengingar neta o.s.frv., þarf stofnunin að geta haft eftirlit með kostnaði af rekstri almennra fjarskiptaneta Þá er og nauðsynlegt í tilefni af fyrrgreindum breytingum að mæla fyrir um jöfnunargjöld sem ætlað er að greiða kostnað af óarðbærri starfsemi sem rekstrarleyfishöfum er gert að annast til að tryggja heildstæðni netsins og sem víðtækastan aðgang að fjarskiptanetum.
    

Um 14. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um tilvik þar sem rekstrarleyfishafa er gert skylt að veita alþjónustu samkvæmt rekstrarleyfi, sbr. 7. gr., sem hann telur ekki arðbæra. Getur hann þá leitað eftir því að honum verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá þjónustu sem honum er gert að veita.
    Komi fram beiðni um slík fjárframlög skal stofnunin afla nákvæmra upplýsinga um tap af viðkomandi starfsemi og í hvaða þáttum það er fólgið. Í þessu sambandi getur stofnunin krafist upplýsinga frá viðkomandi rekstrarleyfishafa og um sundurgreiningu þeirra. Í ákveðnum tilvikum kann að reynast nauðsynlegt að krefjast aðgangs að bókhaldi rekstrarleyfishafa til að meta raunverulegt rekstrartap af starfseminni.
    Nú nýtur rekstrarleyfishafi fjárframlaga samkvæmt þessum kafla laganna og er þá gert ráð fyrir því að sá þáttur starfseminnar geti lotið sérstöku eftirliti, ef þörf þykir. Í greininni er mælt fyrir um að gjaldið skuli ekki ákveðið til lengri tíma en eins árs í senn, í þeim tilgangi að tryggja virkara eftirlit með slíkum fjárframlögum. Jafnframt er settur sá varnagli að endurskoða megi fjárframlag á tímabilinu ef forsendur þess hafa breyst.
    Gerð er krafa um aðskilnað bókhalds þeirrar starfsemi sem nýtur fjárframlaga samkvæmt kafla þessum frá annarri starfsemi rekstrarleyfishafa. Er ákvæðið þannig í samræmi við grunnsjónarmið 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993.
    

Um 15. gr.

    Til þess að standa undir greiðslu fjárframlaga skv. 14. gr. er heimilað að leggja á rekstrarleyfishafa sérstakt gjald, svokallað jöfnunargjald. Gjaldið yrði lagt á þá aðila sem leyfi hafa til fjarskiptareksturs á viðkomandi sviðum. Þannig yrði meginreglan að þeir sem leyfi hafa til fjarskiptareksturs á þéttbýlissvæðum greiddu jöfnunargjald í samræmi við rekstrartekjur af starfseminni, en gjaldið yrði síðan eftir atvikum notað til að tryggja sambærilega þjónustu í tilteknum, afmörkuðum byggðum.
    Samgönguráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um jöfnunargjöld, útreikning þeirra og álagningu. Ber í því sambandi að hafa til hliðsjónar reglur sem settar kunna að verða innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í þeim tilvikum þar sem ekki verður talið sanngjarnt eða eðlilegt að beita jöfnunargjaldi, svo sem þar sem um er að ræða niðurfellingu á talsímagjöldum til aldraðra eða öryrkja, skal kostnaður af alþjónustu greiddur úr ríkissjóði.
    

Um 16. gr.

    Lengi hefur tíðkast að lagt sé í framkvæmdir á sviði fjarskipta eða aukið við fjarskiptaþjónustu sem ljóst er að ekki ber sig fjárhagslega, en nauðsynlegt hefur verið talið að lagt sé í, svo sem vegna byggðasjónarmiða eða félagslegra sjónarmiða. Kostnaður vegna slíkra ákvarðana hefur í reynd verið greiddur af annarri fjarskiptastarfsemi. Hefur þetta að vissu leyti leitt til þess að fjarskiptanet er mjög útbreitt og fullkomið hér á landi. Þegar einkaaðilar taka að sér að annast fjarskiptaþjónustu og sú starfsemi leggst niður af hálfu hins opinbera er nauðsynlegt að mæla fyrir um hvernig staðið skuli að framkvæmd ákvarðana stjórnvalda að þessu leyti, og hvernig einkaaðilum skuli bætt tap af starfsemi sem af slíkum ástæðum er talið nauðsynlegt að halda uppi.
    Í þeim tilvikum þar sem samgönguráðherra telur óhjákvæmilegt að lagt sé í tilteknar framkvæmdir á sviði fjarskipta, án þess þó að um alþjónustu sé að ræða, svo sem vegna tilmæla Alþingis eða ríkisstjórnar, skal Póst- og fjarskiptastofnun falið að gera samninga um slíkt við rekstrarleyfishafa á viðkomandi þjónustusviði. Í þessum tilvikum skal að jafnaði miðað við að kostnaður sé greiddur úr ríkissjóði.
    Sambærilegt ákvæði er í lögum nr. 103/1996 um stofnun hlutafélags um starf Póst- og símamálastofnunar.

Um 17. gr.

    Grein þessi er að mestu leyti í samræmi við 15. gr. núgildandi laga.
    Í 2. mgr. er tiltekið að ekki megi veita óviðkomandi aðilum upplýsingar um fjarskipti, svo sem þar er lýst. Jafnframt er tekið fram að um aðgang lögreglu að upplýsingum fari samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
    Í niðurlagi ákvæðisins er heimild til handa rekstrarleyfishöfum til að skrá upplýsingar um fjarskipti, enda sé um að ræða lið í reikningsfærslu gagnvart viðkomandi notanda. Er heimild þessi í samræmi við þær heimildir sem tölvunefnd, sem starfar skv. X. kafla laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, hefur veitt Póst- og símamálastofnun. Jafnframt er gert ráð fyrir því að samgönguráðherra setji sérstakar reglur um skráningu og meðferð slíkra upplýsinga, að fengnum tillögum Póst- og fjarskiptastofnunar. Að mörgu leyti er heppilegra að samgönguráðherra setji reglur hér að lútandi þar sem um sérsvið er að ræða, en tölvunefnd, sem starfar skv. X. kafla fyrrgreindra laga, hefur hingað til látið málið til sín taka.

Um 18. gr.

    Grein þessi er í megindráttum í samræmi við 16. og 18. gr. núgildandi laga.
    

Um 19. gr.

    Ákvæði þetta er efnislega að mestu leyti samhljóða 1. mgr. 3. gr. núgildandi laga. Í greininni er þó nánar fjallað um gerðarsamþykki sem búnaður þarf að hafa til þess að heimilt sé að taka hann í notkun hér á landi. Er þar m.a. fjallað um svokallaðar CE-merkingar á fjarskiptabúnaði til staðfestingar þess að búnaðurinn uppfylli kröfur um fjarskiptavirki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    

Um 20. gr.

    Greinin er efnislega sambærileg við 2. mgr. 3. gr. núgildandi laga.
    

Um 21. gr.

    Greinin er efnislega sambærileg við 3.–4. mgr. 6. gr. núgildandi laga.
    

Um 22. gr.

    Greinin er samhljóða 1. mgr. 6. gr. núgildandi laga.
    

Um 23. gr.

    Greinin er efnislega sambærileg við 5. gr. núgildandi laga.
    

Um 24. gr.

    Í greininni er fjallað um skipulagningu á notkun tíðnirófsins. Póst- og fjarskiptastofnun fær samkvæmt lögum þessum það hlutverk að skipuleggja tíðnir og úthlutun þeirra þar sem tíðnir á sviði fjarskipta eru í reynd gæði, sem takmarka þarf aðgang að. Skv. 7. gr. núgildandi laga fer Fjarskiptaeftirlit ríkisins með úthlutun tíðna. Greinin skýrir sig að öðru leyti sjálf.
    

Um 25. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 26. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 27. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um að settar skuli reglur um svokallaða símatorgsþjónustu, en slík þjónusta felur í sér upplýsingaþjónustu gegnum sérstök upphringinúmer, sem tengd eru sjálfvirkum svörunarbúnaði. Reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að setja skýrar reglur um slíka þjónustu, ekki hvað síst til að vernda hag neytenda. Tekur slík vernd hvort tveggja til þeirra upplýsinga sem veittar eru gegnum slíka þjónustu og til kostnaðar sem af slíkum upphringingum getur hlotist.
    

Um 28. gr.

    Greinin er í samræmi við 10. gr., sbr. 14. gr. núgildandi laga, sbr. lög nr. 99/1996, um breytingu á lögum um fjarskipti. Í lokamálsgrein er þess sérstaklega getið að samþykki ráðherra þurfi fyrir eignarnámi ef rekstrarleyfishafa er nauðsynlegt að tryggja sér land, t.d. vegna uppsetningar eða lagningar fjarskiptavirkja. Gert er ráð fyrir því að ráðherra geti samþykkt eignarnám, en þar sem eignarnemi í slíku tilviki væri einkaaðili er nauðsynlegt að tiltaka ábyrgð ríkisins á greiðslu eignarnámsbóta, til að uppfylla kröfur stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar. Gert er ráð fyrir því að ráðherra geti gert það að skilyrði fyrir heimild til eignarnáms, að trygging sé sett fyrir fram fyrir greiðslu eignarnámsbóta og kostnaðar við matið. Reynist eignarnemi ófær um að greiða eignarnámsbætur, þrátt fyrir eðlilegar innheimtutilraunir, getur eignarnámsþoli krafist bótanna hjá ríkissjóði, sem þá gæti eftir atvikum gripið til þeirrar tryggingar sem sett hefði verið.
    

Um 29. gr.

    Greinin er að mestu leyti samhljóða 11. gr. núgildandi laga. Í 3. mgr. er mælt fyrir um sérstaka sönnunarreglu vegna tjóns á fjarskiptavirkjum. Gert er ráð fyrir því að sá sem valdið hefur tjóni á fjarskiptavirki skuli bæta tjónið, nema hann sýni fram á að ekki hefði verið komist hjá tjóni þó svo að fyllstu aðgæslu hefði verið gætt. Í þessu felst svokölluð öfug sönnunarbyrði, sem getur leitt til ríkari ábyrgðar en samkvæmt almennum skaðabótareglum. Rétt þykir að snúa henni við með þessum hætti þar sem sönnunarstaða eiganda fjarskiptavirkis er í mörgum tilfellum erfiðari en sönnunarstaða meints tjónvalds. Greinin skýrir sig að öðru leyti sjálf.
    

Um 30. gr.

    Í greininni er fjallað um vernd sæstrengja. Gert er ráð fyrir að sjófarendur sýni aðgæslu í nánd við fjarskiptastrengi. Verði tjón á fjarskiptastreng sem liggur í sjó er mælt svo fyrir um að sá sem valdið hefur slíku tjóni skuli bæta það, þar á meðal beint og óbeint fjártjón, nema tjónvaldur sýni fram á að ekki hafi verið komist hjá tjóni þó að fyllstu aðgæslu hefði verið gætt. Hér er mælt fyrir um sambærilega sönnunarreglu og í 29. gr. frumvarpsins. Eru rökin að mörgu leyti þau sömu.
    Ísland telst vera aðili að alþjóðasamningi um vernd á hraðfréttaþráðum, er lagðir eru neðansævar, frá 14. mars 1884. Í 2. gr. samningsins segir: „Það varðar refsing að brjóta eða skemma hraðfréttaþræði neðansævar, ef það er gert af ásettu ráði, eður það verður fyrir lastvert gáleysi, og getur af því hlotist, að hraðfréttaviðskipti stöðvast að öllu eða að einhverju leyti eða tálmast. Höfða má eins fyrir þetta einkamál til skaðabóta.“
    Í 30. gr. er sérstaklega fjallað um bótaábyrgð þess sem tjóni hefur valdið á sæstreng eða öðrum slíkum fjarskiptavirkjum. Reglan byggist á almennum skaðabótasjónarmiðum, en hér er þó lagt til, eins og að framan er getið, að meintur tjónvaldur sýni fram á að hann hafi gert allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til þess að komast hjá tjóni. Í þessu felst fyrst og fremst að sjófarendur skuli gæta að legu sæstrengja og gæta varúðar ef veiðarfæri eru í sjó í námunda við sæstrengi. Sé alls slíks gætt, en tjón verður engu að síður, t.d. vegna þess að strengur hefur færst til eða er ranglega merktur á sjókort, yrði ekki talið að komast hefði mátt hjá umræddu tjóni. Aðstaða sjófaranda til að sanna sakleysi sitt er að jafnaði betri en eiganda sæstrengsins að sanna ásetning eða gáleysi meints tjónvalds. Því er lagt til að byggt verði á nefndri sönnunarreglu.
    

Um 31. gr.

    Greinin er samhljóða 12. gr. núgildandi laga.
    

Um 32. gr.

    Greinin er að mestu samhljóða 13. gr. núgildandi laga.
    

Um 33. gr.

    Í greininni er Póst- og fjarskiptastofnun heimilað að innsigla eða banna notkun tiltekinna fjarskiptavirkja og krefjast þess eftir atvikum að fá þau afhent. Eru hér höfð í huga undantekningartilvik, svo sem þegar fjarskiptatæki, t.d. vegna bilunar eða rangrar notkunar, sendir truflandi boð eða á annan hátt truflar fjarskipti. Getur þá verið nauðsynlegt að grípa til aðgerða án tafar.
    

Um 34. gr.

    Greinin kemur í stað 19.–21. gr. núgildandi laga. Í fyrstu málsgrein er heimilað að stöðva fjarskipti á ófriðartímum, ef þau eru talin hættuleg öryggi ríkisins.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um afskipti af fjarskiptum, þar á meðal um takmörkun fjarskipta þegar neyðarástand skapast vegna eldgosa, snjóflóða o.s.frv. Þá er heimilt við slíkar aðstæður að taka tiltekin fjarskiptakerfi undir björgunarstörf tímabundið og mæla fyrir um að ný fjarskiptavirki skuli sett upp.
    

Um 35. gr.

    Ákvæðið er samhljóða c-lið 12. gr. laga nr. 99/1996, um breytingu á lögum um fjarskipti.
    

Um 36. gr.

    Ákvæðið er efnislega í samræmi við 8. tölul. 23. gr. núgildandi laga.
    

Um 37. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um beina aðfararheimild vegna krafna rekstrarleyfishafa á hendur rétthöfum í talsímaþjónustu. Aðfararheimildin tekur til afnotagjalda vegna slíkra fjarskipta, þar á meðal fastagjalda, og tekur jafnframt til krafna vegna skyldrar þjónustu sem símnotendur kaupa af rekstrarleyfishöfum. Heimild þessi er í samræmi við núgildandi reglur að þessu leyti, en skv. 10. gr. núgildandi laga, sbr. lög nr. 29/1885, njóta slík gjöld lögtaksréttar og þar með beinnar aðfararheimildar skv. 10. tölul. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989.
    

Um 38. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 39. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 40. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um fjarskipti.

    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um Póst- og fjarskiptastofnun og frumvarpi til laga um póstþjónustu í kjölfar stofnunar hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar um næstu áramót. Í frumvarpinu er lagt til að samgönguráðherra verði heimilað að fela einkaaðilum að annast þá fjarskiptaþjónustu sem ríkið hefur haft einkarétt á. Til bráðabirgða er það ákvæði í frumvarpinu að Póstur og sími hf. muni hafa einkaleyfi til að reka almenna talsímaþjónustu og almennt fjarskiptanet til 1. janúar 1998. Eftir það mun ráðherra heimilað að leyfa öðrum aðilum að eiga og reka almennt fjarskiptanet og veita talsímaþjónustu hér á landi, í íslenskri land- og lofthelgi. Heimildin er þó bundin allmörgum skilyrðum sem talin eru upp í 6. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 7. gr. frumvarpsins getur Póst- og fjarskiptastofnun mælt fyrir um að rekstrarleyfishöfum verði gert skylt að veita svokallaða alþjónustu á starfssvæði sínu, þ.e. að halda uppi lágmarksþjónustu á sambærilegu verði. Nánari skilgreiningu á alþjónustu er að finna í 2. gr. frumvarpsins.
    Til þess að fjármagna þá alþjónustu sem telst vera óarðbær, t.d. vegna fjarlægðar, kostnaðar eða annars óhagræðis, er skv. 15. gr. frumvarpsins heimilt að leggja á leyfishafa sérstakt jöfnunargjald. Í þeim tilfellum þar sem ekki verður beitt jöfnunargjaldi skal kostnaður vegna óarðbærrar alþjónustu greiddur úr ríkissjóði eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum. Leyfishöfum ber að aðskilja hinn óarðbæra þátt starfseminnar bókhaldslega frá annarri starfsemi. Póst- og símamálastofnun niðurgreiðir nú samkvæmt reglugerð símkostnað elli- og örorkuþega fyrir um 38 m.kr. og samkvæmt ríkisstjórnarsamþykktum kosningasíma fyrir um að jafnaði 2–3 m.kr. á ári. Þá hefur stofnunin borið kostnað af rekstri strandstöðva sem sjá m.a. um neyðarhlustun sem ekki hefur verið greitt sérstaklega fyrir. Talið er að núverandi kostnaður við rekstur stöðvanna sé allt að 200 m.kr. Ekki verður séð af texta frumvarpsins hvernig þeim rekstri verði háttað í framtíðinni.
    Samkvæmt 16. gr. frumvarpsins er samgönguráðherra heimilt að láta leggja í framkvæmdir eða rekstur sem er til almannaheilla í öryggisskyni eða vegna byggðasjónarmiða og ætla má að skili ekki arði án þess þó að um alþjónustu sé að ræða. Þennan kostnað skal að jafnaði greiða úr ríkissjóði eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum. Ógjörningur er á þessu stigi að áætla kostnað sem af þessu kann að hljótast.
    Samkvæmt 28. gr. frumvarpsins getur samgönguráðherra fyrir hönd rekstrarleyfishafa heimilað eignarnám ef rekstrarleyfishafa er nauðsynlegt að tryggja sér land, lóð eða aðra eign í sambandi við lagningu eða rekstur almennra fjarskiptavirkja og samningar nást ekki um kaup. Samþykki ráðherra fyrir eignarnámi er m.a. háð því að eignarnemi setji tryggingu fyrir greiðslu eignarnámsbóta sem og kostnað við matið. Fáist eignarnámsbætur ekki greiddar hjá eignarnema, þrátt fyrir innheimtuaðgerðir er gert ráð fyrir, að ríkissjóður ábyrgist greiðsluna. Í 34. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilað verði að tiltekin fjarskiptavirki skuli notuð í þágu björgunaraðgerða. Komi endurgjald til greina yrði það greitt úr ríkissjóði.