Ferill 182. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 182 . mál.


203. Frumvarp til laga



um auknar ábyrgðir vegna norrænnar fjárfestingaráætlunar fyrir Eystrasaltsríkin 1996–1999 og nýs lánaflokks í Norræna fjárfestingarbankanum til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    Ríkisstjórninni er fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að ábyrgjast hluta Íslands, að fjárhæð allt að 330.000 ECU, gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum vegna fjárfestingarlána og fjárfestingarábyrgða í tengslum við norræna fjárfestingaráætlun fyrir Eystrasaltsríkin.

2. gr.

    Ríkisstjórninni er fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að ábyrgjast hluta Íslands, að fjárhæð allt að 1.100.000 ECU, gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum vegna lána til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna.

3. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að ganga frá samningi við Norræna fjárfestingarbankann um ábyrgðir skv. 1. og 2. gr. Jafnframt er ríkisstjórninni heimilt að staðfesta breytingar á 6. gr. samþykkta bankans með því að bæta við greinina c-lið um lán til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Norræn fjárfestingaráætlun fyrir Eystrasaltsríkin framlengd.
    Á þingi Norðurlandaráðs í mars 1992 var samþykkt tillaga frá norrænu fjármálaráðherrunum um að Norðurlöndin hrintu í framkvæmd sérstakri þriggja ára fjárfestingaráætlun fyrir Eystrasaltsríkin. Markmið þessarar áætlunar er að stuðla að uppbyggingu efnahags- og atvinnulífs í þessum ríkjum með því að útvega lánsfjármagn og áhættufé, veita þeim tæknilega aðstoð og ráðgjöf á sviði efnahagsmála og finna heppilegar leiðir til þess að beina erlendu fé til ýmissa fjárfestingarverkefna og efla samvinnu milli norrænna og baltneskra fyrirtækja. Mikilvæg forsenda þessa var stofnun sérstakra fjárfestingarbanka í Eystrasaltsríkjunum sem gætu orðið tengiliðir milli alþjóðlegra lánastofnana og einstakra fyrirtækja eða verkefna.
    Áætlunin kom formlega til framkvæmda um mitt ár 1992. Hún skiptist í tvo meginþætti, annars vegar bein fjárframlög frá Norðurlöndunum til þess að styrkja tæknilega uppbyggingu fjárfestingarbankanna og hins vegar lánsfjárútvegun og lánafyrirgreiðsla til ákveðinna fjárfestingarverkefna, bæði í formi beinna lána og áhættufjármagns. Þrjár stofnanir önnuðust milligöngu um þessa fyrirgreiðslu, þ.e. Norræni fjárfestingarbankinn (NIB), Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn (NOPEF) og Evrópubankinn (EBRD). Heildarframlag Norðurlandanna á þriggja ára tímabili áætlunarinnar nam um 45 millj. ECU, eða 3,6 milljörðum ísl. kr. Hlutur Íslands nam um 36 millj. kr., eða 12 millj. á ári. Auk þess voru veittar auknar ríkisábyrgðir til Norræna fjárfestingarbankans.
    Fjármálaráðherrar Norðurlandanna hafa nú samþykkt framlengingu á fjárfestingaráætluninni til ársins 1999. Heildarframlag Norðurlandanna mun minnka um þriðjung og nema 29 millj. ECU á næstu þremur árum, eða sem nemur 2,4 milljörðum kr. Þar af næmi hlutur Íslands um 9 millj. kr. á ári. Auk þess verði Norræna fjárfestingarbankanum veittar auknar heimildir til útlána með því að hækka ábyrgðarramma Norðurlandanna um 30 millj. ECU.
    Framlagi Norðurlandanna til fjárfestingaráætlunarinnar verður varið á eftirfarandi hátt:
—    30 millj. ECU vegna lána og ábyrgða til fjárfestinga, í umsjón NIB.
—    11,5 millj. ECU vegna lána, ábyrgða og hlutabréfakaupa í fjárfestingarbönkum, í umsjón EBRD.
—    7,5 millj. ECU til kaupa á hlutabréfum í fjárfestingarbönkum, í umsjón NIB.
—    5 millj. ECU til að stuðla að norrænni fjárfestingu, í umsjón Nopef.
—    3,25 millj. ECU vegna tæknilegrar aðstoðar við fjárfestingarbanka, í umsjón NIB.
—    1,75 millj. ECU til annarra verkefna.

2. Umhverfislán til grannhéraða Norðurlandanna.
    Efnahags-, fjármála- og umhverfisráðherrar Norðurlanda samþykktu snemma árs 1995, að fengnum tillögum sameiginlegs vinnuhóps þessara aðila, að fela Norræna fjárfestingarbankanum að gera tillögu um nánari útfærslu á sérstakri lánafyrirgreiðslu til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna. Tillögur bankans lágu fyrir um mitt ár 1995 og hafa síðan verið til nánari skoðunar. Á fundi sínum 26. ágúst 1996 samþykktu forsætisráðherrar Norðurlandanna að þessi lánafyrirgreiðsla skyldi koma til framkvæmda í upphafi árs 1997 samkvæmt þeim hugmyndum sem þá lágu fyrir frá Norræna fjárfestingarbankanum og var efnahags-, fjármála- og umhverfisráðherrunum falið að tryggja þessu máli framgang.
    Samkvæmt tillögunum er gert ráð fyrir að Norræni fjárfestingarbankinn geti veitt sérstök lán til umhverfismála í þessum ríkjum sem nemi allt að 100 millj. ECU. Jafnframt er gert ráð fyrir að Norðurlöndin ábyrgist þessi lán að fullu, þ.e. 100%. Þar af nemur hlutur Íslands 1,1 millj. ECU, eða um 92,4 millj. ísl. kr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í nóvember 1995 samþykktu fjármálaráðherrar Norðurlandanna að ábyrgjast að fullu lántökur vegna fjárfestingarlána og fjárfestingarábyrgða í tengslum við norræna fjárfestingaráætlun fyrir Eystrasaltsríkin. Ábyrgst er lántaka samtals að fjárhæð 30 millj. ECU, þar sem fjár verði aflað af Norræna fjárfestingarbankanum. Hluti Íslands í ábyrgðinni er 1,1% sem samsvarar 330.000 ECU, eða um 27 millj. kr.

Um 2. gr.


    Óskað er eftir heimild frá Alþingi um ríkisábyrgð, að fjárhæð allt að 1.100.000 ECU, gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum vegna lána til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna.

Um 3. gr.


    Óskað eftir heimild til þess að ríkisstjórnin geti gengið frá samningi við Norræna fjárfestingarbankann um ábyrgðir skv. 1. og 2. gr. og staðfest breytingar á 6. gr. samþykkta bankans með því að bæta nýjum lið við greinina, c-lið, um lán til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um auknar ábyrgðir vegna norrænnar


fjárfestingaráætlunar fyrir Eystrasaltsríkin 1996–1999 og


nýs lánaflokks í Norræna fjárfestingarbankanum til umhverfismála


í grannhéruðum Norðurlandanna.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að ríkissjóður ábyrgist fjárhæð allt að 330.000 ECU (27 m.kr.) gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum vegna fjárfestingarlána og ábyrgða í tengslum við norræna fjárfestingaráætlun fyrir Eyrstrasaltsríkin og allt að 1.100.000 ECU (92,4 m.kr.) til sama aðila vegna lána til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna.
    Þar sem ekki er tekið fram í lagatextanum hvort um einfalda ábyrgð eða sjálfskuldarábyrgð er að ræða verður að líta svo á að ábyrgðin sé einföld. Líklegt verður að telja að ábyrgð þessi komi til með að falla á ríkissjóð að einhverju leyti, en einföld ábyrgð felur í sér að Norræni fjárfestingarbankinn mun þurfa að ganga að aðalskuldara áður en hægt verður að gera kröfu á ríkissjóð.