Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 106 . mál.


211. Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar og Kristins H. Gunnarssonar um flutning Landmælinga Íslands.

    Hver er áætlaður heildarkostnaður ríkisins af flutningi Landmælinga Íslands til Akraness?
    Samkvæmt leigusamningi sem Landmælingar Íslands hafa þegar gert um leigu húsnæðis á Akranesi frá og með 1. október 1998 mun leigusali, sem er Akranesbær og Málningarþjónustan hf., hanna og innrétta húsnæðið í samræmi við þarfir stofnunarinnar. Leigusali mun samkvæmt samningnum koma fyrir tölvulögnum sem stofnunin leggur til. Sem kostnaði við flutninginn er gert ráð fyrir kaupum á tölvulögnunum, svo og geymsluhillum og skjalaskápum. Að öðru leyti er reiknað með að notast verði við núverandi tækjabúnað og húsgögn.
    Þá er miðað við aðkeypta vinnu við flutning á Akranes en ekki er meðtalin vinna starfsmanna við undirbúning og pökkun vegna flutningsins. Enn fremur er reiknað með leigu á núverandi húsnæði stofnunarinnar í 4–6 mánuði samhliða leigu húsnæðisins á Akranesi og frágangi og þrifum á núverandi húsnæði. Loks er gert ráð fyrir vinnu Framkvæmdasýslu ríkisins við undirbúning, umsjón og eftirlit, eins og kveðið er á um í fyrrgreindum leigusamningi.
    Miðað við framangreindar forsendur er beinn kostnaður ríkisins af flutningi Landmælinga Íslands til Akraness áætlaður um 16–20 millj. kr. samkvæmt mati umhverfisráðuneytisins og Framkvæmdasýslu ríkisins.
    Um annan kostnað er erfitt að fullyrða og enn erfiðara að áætla. Gera má ráð fyrir kostnaði af flutningi starfsmanna til Akraness, en hann er óljós sökum þess að ekki liggur fyrir hversu margir starfsmenn muni flytja búferlum eða starfa hjá stofnuninni eftir flutninginn og ekki hefur verið gengið frá samningum við starfsfólk um þessi efni.
    Þá er enn fremur ekki ólíklegt að flutningurinn muni hafa í för með sér einhverja tímabundna lækkun á sértekjum stofnunarinnar.
    Á hinn bóginn má gera ráð fyrir að nokkur ávinningur felist í að stofnunin flytji í húsnæði sem hannað verður og innréttað sérstakleg í samræmi við þarfir hennar þar sem m.a. verður tekið tillit til framtíðarþróunar eins og kostur er. Augljóst er að þannig mun nást fram hagræðing í skipulagi og rekstri til lengri tíma litið.
    Vert er enn fremur að benda á að stofnunin mun flytja í minna húsnæði á Akranesi en hún hefur nú til ráðstöfunar og mun leigukostnaður hennar lækka um 2,8 millj. kr. á ári við það.

    Hver eru helstu rök fyrir flutningi stofnunarinnar til Akraness?
    Það hefur verið stefna flestra stjórmálaflokka og ríkisstjórna undanfarna tvo áratugi að flytja ríkisstofnanir frá höfuðborgarsvæðinu út á land. Á vegum stjórnvalda hefur á undanförnum árum verið lögð mikil vinna í tillögugerð um flutning ríkisstofnana, síðast með áliti og tillögum nefndar forsætisráðherra um flutning ríkisstofnana frá árinu 1993. Lítið hefur þó orðið úr framkvæmdum, ef frá er talinn flutningur Skógræktar ríkisins til Egilsstaða og embættis veiðistjóra til Akureyrar.
    Það er stefna ríkisstjórnarinnar að flytja ríkisstofnanir út á land og var raunar stefna þeirrar síðustu einnig. Ákvörðun um flutning Landmælinga Íslands til Akraness er því tekin á stjórnmálalegum forsendum til að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar. Í ríkisstjórnarsáttmála stjórnarflokkannna segir m.a. að stuðlað verði að eflingu þjónustukjarna með ákvörðun um staðsetningu opinberra stofnana. Með stefnu sinni um flutning opinberra stofnana vilja stjórnvöld m.a. stuðla að jafnvægi í byggð landsins, styrkja byggðarkjarna, dreifa opinberri þjónustu og stuðla að fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifærum utan höfuðborgarsvæðisins. Þá vilja stjórnvöld gefa ungu fólki sem leitar sér háskólamenntunar á höfuðborgarsvæðinu eða erlendis kost á vinnu við sitt hæfi í heimabyggð eða velja sér búsetu á landsbyggðinni og jafnframt hamla gegn þeirri þróun að fólk og fyrirtæki flytji í auknum mæli af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Verður og að telja óæskilegt að menntafólk setjist allt að á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni búi einungis fólk sem starfar að frumgreinum atvinnulífsins. Í samræmi við framangreinda stefnu hefur verið tekin ákvörðun um að flytja Landmælingar Íslands til Akraness. Með sífellt bættum samgöngum og fjarskiptum, svo og aukinni tækni, verður flutningur og rekstur ríkisstofnana utan höfuðborgarsvæðisins auðveldari en áður. Ekki er ástæða til að ætla að þjónusta þeirra og starfsemi verði önnur eða verri við að flytja starfsemina frá höfuðborgarsvæðinu. Kostnaður við rekstur Landmælinga Íslands á ekki að vera hærri eftir flutninginn en fyrir. Verkefni stofnunarinnar eru þess eðlis að þau eru ekki bundin við aðsetur á höfuðborgarsvæðinu og geta farið fram utan þess. Af hálfu fyrrverandi umhverfisráðherra var hafin athugun og undirbúningur á flutningi Landmælinga Íslands til Akraness. Þeim undirbúningi hefur verið haldið áfram á þessu kjörtímabili og þótti ekki rétt að setja málið í annan farveg, þ.e. að huga að flutningi annað.

    Hvaða áhrif hefur það á starfsemi stofnunarinnar ef núverandi starfsmenn kjósa að að láta af störfum fremur en að flytjast með stofnuninni?
    Ljóst er að flutningur Landmælinga Íslands hefur í för með sér röskun fyrir starfsfólk og starfsemi stofnunarinnar. Því er lögð áhersla á að nægur fyrirvari sé á flutningnum og að starfsfólki gefist kostur á að gera upp hug sinn og undirbúa flutning eða leita sér að nýju starfi. Bæjaryfirvöld á Akranesi hafa heitið því starfsfólki sem flyst til bæjarins margháttuðum stuðningi, m.a. í tengslum við húsnæði, atvinnu fyrir maka, skólamál, þar á meðal leikskóla, og aðra félagslega sarfsemi. Þá hefur umhverfisráðherra enn fremur skipað starfshóp sem fjalla mun sérstaklega um málefni starfsmanna. Þannig er leitast við að auðvelda starfsmönnum umræddan flutning og þá röskun sem honum fylgir. Gert er ráð fyrir að starfsmenn hafi gert upp hug sinn um áframhaldandi störf hjá stofnuninni fyrir 1. janúar 1998. Vonast er til að sem flestir starfmenn haldi áfram störfum hjá Landmælingum Íslands eftir að stofnunin hefur starfsemi á Akranesi. Verði svo ekki er ljóst að ráða þarf nýja starfsmenn og þjálfa til starfans. Slíkt hefur óhjákvæmilega í för með sér viðbótarkostnað og röskun á starfsemi stofnunarinnar, enda þekking og hæfni starfsfólks mikilvægur hluti hennar.

    Hvaða áhrif er talið að starfsemi stofnunarinnar á Akranesi hafi á þróun atvinnulífs og byggðar þar?
    Skipta má áhrifum af fyrirhugaðri starfsemi Landmælinga Íslands á þróun atvinnulífs og byggðar á Akranesi í þrennt. Í fyrsta lagi er um bein fjárhagsleg áhrif á bæjarsjóð að ræða, í öðru lagi áhrif á þjónustuaðila og í þriðja lagi ýmis önnur almenn áhrif.
    Áhrif á bæjarsjóð munu eðli máls samkvæmt ráðast af því hversu stór hluti starfmanna stofnunarinnar kemur til með að búa á Akranesi. Ætla má að heildarlaunakostnaður Landmælinga Íslands á næsta ári verði um 64 millj. kr. Hámarksútsvar yrði því 6,4 millj. kr. það ár, en sú fjárhæð nemur um 1% af útsvarstekjum Akraneskaupstaðar. Miðað við að helmingur starfsmanna flytti til Akraness með stofnuninni og að meðallaun þeirra séu um 80% af þeim meðallaunum sem greidd eru hjá stofnuninni nú má gera ráð fyrir að tekjuaukning bæjarsjóðs yrði um 2,5 millj. kr. á ári. Hlutfallið mundi síðan væntanlega hækka á næstu árum eftir flutning stofnunarinnar. Að auki bætast við tekjur vegna útsvarsgreiðslna maka starfsmanna. Viðbótarkostnaður bæjarins vegna þjónustu við nýja íbúa, t.d. vegna grunnskóla og leikskóla, verður óverulegur. Ekki er því ólíklegt að bein tekjuaukning bæjarsjóðs Akraness af flutningnum verði um 1% af útsvarstekjum þegar fram líða stundir.
    Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi munu Landmælingar Íslands verja um 70 millj. kr. til almenns reksturs og tækjakaupa. Því er ljóst að áhrif flutnings stofnunarinnar til Akraness á verslun og þjónustu í bænum verða umtalsverð þótt einungis hluti af umsvifum stofnunarinnar skilaði sér til fyrirtækja þar. Flutningurinn mun m.a. auka möguleika ýmissa sérhæfðra fyrirtækja á Akranesi, t.d. á sviði tölvu- og verkfræðiþjónustu, til að selja stofnuninni þjónustu sína. Þá mun flutningurinn almennt séð, eðli máls samkvæmt, auka aðra verslun og viðskipti og ýmsa þjónustustarfsemi í bæjarfélaginu.
    Komi stærstur hluti starfsmanna sem starfa munu hjá Landmælingum í framtíðinni til með að búa á Akranesi eftir að stofnunin tekur þar til starfa má búast við að íbúafjölgun gæti orðið allnokkur og allt að 100 manns, sem er um 2% af íbúafjölda á Akranesi.
    Þá hefur ákvörðun um flutning stofnunarinnar ásamt öðrum breytingum aukið mjög bjartsýni manna á Akranesi um að kyrrstöðutímabili í atvinnulífi þar sé lokið. Ljóst er að flutningurinn mun fjölga atvinnutækifærum í bænum og gefa kost á fjölbreyttari störfum. Enn má nefna að langskólagengnu fólki mun fjölga í bænum, en það býr yfir víðtækri þekkingu sem nýtast mun bæjarsamfélaginu á ýmsan hátt, m.a. í almennu félagsstarfi og menningarlífi svo eitthvað sé nefnt.
    Ljóst er því að flutningur Landmælinga Íslands mun hafa víðtæk og veruleg jákvæð áhrif á þróun mannlífs á Akranesi.