Ferill 199. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 199 . mál.


225. Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu á alþjóðasamþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda samþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem gerð var á 67. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 23. júní 1981.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu.
    Á liðnum árum hefur af og til komið upp umræða um gildi þess að Ísland fullgildi samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156. Ályktað hefur verið um málið, fyrirspurn komið fram á Alþingi og samstarfsnefnd félagsmálaráðuneytisins um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur tekið spurninguna til efnislegrar umfjöllunar.
    Alþjóðasamþykkt nr. 156 ber yfirskriftina Samþykkt um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Samþykktin var afgreidd af 67. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1981. Jafnframt var tillaga með nánari útfærslu á efni samþykktarinnar samþykkt. Í samþykktinni felast skuldbindingar og má þar m.a. nefna að stjórnvöld skulu setja sér þau markmið
—    að auðvelda fólki með fjölskylduábyrgð sem er í vinnu eða hyggur á að gegna launuðu starfi að ná fram þeim rétti sínum,
—    að auðvelda starfsmönnum sem bera ábyrgð á fjölskyldu að hagnýta rétt sinn til að velja starf við hæfi,
—    að taka tillit til þarfa þeirra að því er varðar kjör, vinnuskilyrði og félagslegt öryggi,
—    að við skipulagningu á þjónustu sveitarfélaga skuli tekið tillit til þarfa starfsfólks með fjölskylduábyrgð, t.d. hvað varðar barnagæslu og fjölskylduaðstoð,
—    að glæða skilning á meginreglunni um sömu möguleika og jafnrétti til handa vinnandi konum og körlum, m.a. með kynningarstarfi,
—    að gera ráðstafanir á sviði starfsmenntunar til að gera starfsmönnum með fjölskylduábyrgð kleift að hefja og halda áfram þátttöku í atvinnulífinu, svo og að eiga afturkvæmt á vinnumarkað eftir fjarveru vegna þessarar ábyrgðar,
—    að tryggja að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða uppsagnar úr starfi.
    Einnig er fjallað um með hvaða hætti aðildarríkin geti hrundið samþykktinni í framkvæmd, með lögum, reglugerðum, kjarasamningum, starfsreglum, gerðardómum, dómsúrskurðum eða á annan hátt sem venjur og hefðir í landinu gera mögulegt.
    Þegar þríhliða samstarfsnefnd félagsmálaráðuneytis og samtaka aðila vinnumarkaðarins fjallaði um samþykktina árið 1988 var niðurstaða hennar að nauðsynlegt væri að setja lög til að framfylgja ákvæði 8. gr. samþykktarinnar en það er fyrst og fremst skuldbindingin sem felst í þeirri grein sem komið hefur í veg fyrir fullgildingu. Hún kveður á um að aðildarríki samþykktarinnar tryggi að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða uppsagnar. Í þessu ákvæði felst ákveðið starfsöryggi fyrir fjölskyldufólk þegar harðnar á dalnum í atvinnumálum. Hér á landi þýðir þetta lagasetningu eða ákvæði í kjarasamningum að mati Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
    Þótt samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sé frá árinu 1981 var hún á vissan hátt endurvakin þegar ákveðið var á 251. fundi stjórnarnefndar ILO árið 1991 að gera sérstaka úttekt á þeirri samþykkt og tillögu Alþjóðavinnumálaþingsins sem helst varða stöðu og hag fjölskyldunnar. Sú ákvörðun kom til af yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um að helga árið 1994 málefnum fjölskyldunnar. Markmið stjórnarnefndar með úttektinni var að vekja athygli aðildarríkjanna á samþykktinni og hvetja þau til að minnast árs fjölskyldunnar með fullgildingu hennar. Sérfræðinganefnd skilaði skýrslu á 80. vinnumálaþinginu í Genf 1993. Niðurstöður skýrslunnar voru að 19 af 154 aðildarríkjum stofnunarinnar (sem eru orðin 170) hefðu fullgilt alþjóðasamþykkt nr. 156 en 71 ríki skilaði upplýsingum um samþykkt hennar.
    Í 8. gr. samþykktar nr. 156 er kveðið á um að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða til uppsagnar úr starfi, en á Íslandi þarf atvinnurekandi ekki að gefa upp ástæðu uppsagnar.
    Milli launþegasamtaka og Vinnuveitendasambands er ágreiningur um gildi þess að fullgilda samþykktina. Félagsmálaráðherra fékk tilmæli frá miðstjórn ASÍ í mars 1992 um að samþykktin yrði tekin fyrir á fundi samstarfsnefndar félagsmálaráðuneytis og helstu samtaka á vinnumarkaði um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar með fullgildingu að markmiði. Málið hafði oft áður verið reifað af fulltrúum launþegahreyfinganna í nefndinni en árangur ekki náðst. Í febrúar 1994 beindi stjórn BSRB því erindi til samstarfsnefndarinnar að hún beitti sér fyrir fullgildingu alþjóðasamþykktar nr. 156 og taldi það verðugt verkefni á alþjóðlegu ári fjölskyldunnar. Erindi ASÍ var jafnframt ítrekað í bréfi til félagsmálaráðherra í mars 1994. Þá beindi landsnefnd um ár fjölskyldunnar þeim tilmælum til félagsmálaráðherra að Ísland fullgilti samþykktina.
    Vinnuveitendasamband Íslands hefur talið að fullgilding sé óþörf. Annars vegar er því um að ræða það sjónarmið að fullgilding samþykktar nr. 156 skapi góðan bakhjarl við stefnumörkun hins opinbera í málefnum fjölskyldunnar, verndi launafólk sem ber fjölskylduábyrgð og sé hvatning til stjórnvalda að auðvelda konum að koma aftur til virkrar þátttöku á vinnumarkaði eftir að hafa tímabundið verið frá. Hins vegar er það sjónarmið að fullgilding sé óþörf, hægt sé að ná markmiðum hennar eftir öðrum leiðum, þ.e. með stefnu fyrirtækja í starfsmannamálum, að slíkar samþykktir gætu orsakað að atvinnurekendur yrðu síður fúsir til að ráða fjölskyldufólk til starfa, t.d. konur, og áhersla er lögð á að grundvallarreglan á íslenskum vinnumarkaði sé að atvinnurekendur þurfi ekki að gefa upp ástæðu uppsagnar og með fullgildingu samþykktarinnar yrði horfið frá þeirri reglu.
    Afstaða atvinnurekenda þýðir að stjórnvöld verða að setja lög ef hrinda á í framkvæmd ákvæði 8. gr. samþykktarinnar og kemur til álita að setja sérstök lög eða fella ákvæðið inn í lög um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, nr. 19/1979.
    Alþjóðavinnumálastofnunin var stofnuð árið 1919 og er með elstu sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt stofnskrá hennar skal aðildarríki senda stofnuninni skýrslu um aðgerðir til að hrinda í framkvæmd ákvæðum samþykktar sem það hefur fullgilt og þar með gengist við skuldbindingu um að haft sé alþjóðlegt eftirlit með á hvern hátt samþykktin er framkvæmd.
    Niðurstöður skýrslna aðildarríkjanna eru birtar í árlegri skýrslu sérfræðinganefndar sem fjallað er um í einni af fastanefndum ILO. Fjórir fulltrúar frá hverju aðildarríki eiga rétt á að taka þátt í afgreiðslu þingsins, tveir fulltrúar ríkisstjórnarinnar, einn fulltrúi atvinnurekenda og einn fulltrúi launafólks.
    Ísland gerðist aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni árið 1945 og hefur félagsmálaráðuneytið borið ábyrgð á samningu skýrslna um framkvæmd samþykkta sem Ísland hefur fullgilt.
    Hinn 31. desember 1993 höfðu eftirtalin 20 ríki fullgilt samþykktina: Argentína, Ástralía, Bosnía-Hersegóvína, Eþíópía, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Jemen, Júgóslavía, Nígería, Noregur, Perú, Portúgal, San Marínó, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Úrúgvæ og Venesúela.

Fylgiskjal I.


Samþykkt nr. 156 um jafna möguleika og jafnrétti til handa


körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð.



(Repró, 4 síður. Athugið pdf-skjalið.)






Fylgiskjal II.


Tillaga nr. 165 um jafna möguleika og jafnrétti til handa


körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð.



(Repró, 5 síður. Athugið pdf-skjalið.)