Ferill 200. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 200 . mál.


226. Tillaga til þingsályktunarum fullgildingu á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda.

Flm.: Bryndís Hlöðversdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda samþykkt nr. 158 um uppsögn af hálfu atvinnurekanda sem gerð var á 68. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 22. júní 1982.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu.
    Á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar árið 1982 var gerð samþykkt, nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Samþykktin byggðist á tillögu Alþjóðavinnumálaþingsins frá árinu 1963 um sama efni og kom hún, ásamt tillögu nr. 166, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda, í stað tillögunnar frá 1963. Samþykkt nr. 158 tryggir launafólki lágmarksstarfsöryggi og hefur efni samþykktarinnar víða verið viðurkennt sem lágmarksréttur launafólks við uppsagnir. Á síðasta ári höfðu alls 24 ríki fullgilt samþykktina (sbr. fylgiskjal III). Þar á meðal eru tvö Norðurlandanna, Svíþjóð og Finnland, en í Noregi og Danmörku er eigi að síður byggt á reglum ámóta þeim sem samþykktin byggist á.
    Samþykkt nr. 158 tekur til allra greina atvinnulífsins og alls launafólks, en aðildarríkið getur þó undanskilið tiltekna flokka launafólks öllum eða nokkrum ákvæðum samþykktarinnar. Þeir flokkar eru taldir upp í 2. gr. samþykktarinnar en þar eru nefndir til sögunnar þeir sem hafa verið ráðnir tímabundið í vinnu eða til tiltekins verkefnis og þeir sem ráðnir eru til reynslu eða þjálfunar um tíma sem ákveðinn er fyrir fram og er hæfilega langur. Einnig má undanskilja þá sem ráðnir eru tilfallandi um skamman tíma. Þá er að auki heimilt, í samráði við hlutaðeigandi samtök launafólks og atvinnurekenda, að undanskilja tiltekna flokka launafólks ef ráðningarkjör þess og starfsskilyrði lúta sérstakri skipan sem í heild tryggir ekki lakari vernd en þá sem veitt er með þessari samþykkt eða ef í ljós kemur að framkvæmdin er verulegum vandkvæðum bundin með tilliti til sérstakra starfsskilyrða hlutaðeigandi launafólks eða stærðar eða eðlis fyrirtækisins sem hefur það í vinnu. Slíkir hópar skulu skráðir og gera skal grein fyrir ástæðum undanþáganna í skýrslum til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
    Meginefni samþykktarinnar má skipta í þrjá þætti. Sá fyrsti felst í því að atvinnurekanda er gert skylt að rökstyðja uppsögn starfsmanns ef eftir því er óskað en annar þátturinn felur í sér að starfsmanni skal ekki sagt upp nema til þess sé gild ástæða, í sambandi við hæfni eða hegðun starfsmanns, eða hún byggist á rekstrarlegum ástæðum fyrirtækisins, stofnunarinnar eða þjónustunnar. Í 5. gr. samþykktarinnar er nánar skilgreint hvað skuli ekki teljast gild ástæða uppsagnar en þar eru talin upp atriði eins og aðild að stéttarfélagi eða þátttaka í starfsemi þess, það að gegna stöðu trúnaðarmanns launafólks, það að hafa borið fram kæru eða tekið þátt í málssókn gegn atvinnurekanda sem felur í sér ásökun um meint brot á lögum eða öðrum reglum, kynþáttur, hörundslitur, kynferði, hjúskaparstétt, fjölskylduábyrgð, þungun, trúarbrögð, stjórnmálaskoðanir, þjóðerni og félagslegur uppruni og fjarvist frá vinnu í fæðingarorlofi. Þá segir í 6. gr. samþykktarinnar að fjarvist frá starfi um stundarsakir vegna veikinda eða slysa skuli ekki talin gild ástæða uppsagnar en skilgreina skal með lögum, reglugerðum eða í kjarasamningum hvað teljist fjarvist um stundarsakir í þessu samhengi. Í þriðja lagi kveður samþykktin á um tiltekið málsmeðferðarkerfi sem starfsmaður á rétt á við uppsögn. Honum skal gefinn kostur á að verja sig gegn aðfinnslum sem á hann eru bornar, hann skal eiga rétt á að vísa uppsögninni til hlutlauss aðila og hann á rétt á bótum vegna ólögmætrar uppsagnar. Einnig er heimilt að kveða á um að hann eigi rétt á endurráðningu. Ljóst er að þessir þrír þættir samþykktarinnar mundu gerbreyta stöðu íslensks launafólks til hins betra ef þeir væru teknir upp í íslensk lög. Ekki síst gæti fullgilding samþykktarinnar haft áhrif á þá þróun sem verið hefur hér undanfarin ár og felst í því að starfsfólki er í æ meiri mæli sagt upp störfum í því skyni einu að gera við það verktakasamninga. Slíkir samningar hafa verið kallaðir „gerviverktakasamningar“ og launafólk á í flestum tilvikum engan kost annan en að taka slíku boði eða missa starf sitt ella. Með auknu starfsöryggi er m.a. verið að vernda fólk fyrir slíkum gerningum, vernda rétt þess til að fá að vera launafólk og njóta réttar sem slíkt.
    Eins og staðan er nú hér á landi njóta aðeins trúnaðarmenn, foreldrar í fæðingarorlofi og þungaðar konur einhvers starfsöryggis í reynd, en einnig er kveðið á um tilteknar reglur í tengslum við hópuppsagnir og þegar starfsfólki er sagt upp vegna aðilaskipta að fyrirtækjum. Tvö síðasttöldu dæmin eru til komin vegna EES-reglna og voru tekin upp í íslenska löggjöf í tengslum við EES-samninginn.
    Að auki er í samþykktinni kveðið á um að starfsmenn sem sagt er upp skuli eiga rétt á tilteknum uppsagnarfresti og bótum vegna atvinnumissis, en þar sem slíkar reglur eru þegar í íslenskum lögum mundu þau ákvæði ekki hafa breytingar í för með sér þótt samþykktin yrði fullgilt.
    Á undanförnum árum hefur alloft verið rætt á vettvangi þríhliða nefndar félagsmálaráðuneytisins og aðila vinnumarkaðarins hvort fullgilda skuli samþykktina. Krafa hefur verið gerð um það af hálfu fulltrúa launafólks í nefndinni en fulltrúi atvinnurekenda hefur hafnað fullgildingu og fulltrúi félagsmálaráðuneytis hefur ekki viljað taka afgerandi afstöðu af þessum sökum. Af hálfu ráðuneytisins hefur því verið borið við að samstöðu skorti meðal aðila vinnumarkaðarins um málið. Af þeirri ástæðu hefur það ekki verið afgreitt úr nefndinni. Reyndar gerir stjórnarskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar ekki ráð fyrir því að stjórnvöld leiki hlutlausan aðila í þríhliða nefndinni, enda er þríhliða starfið þannig uppbyggt að nauðsynlegt er að hið pólitíska vald taki afstöðu til mála eftir að hafa rætt málið í nefndinni. Sú stefna sem rekin hefur verið í þríhliða nefndinni hefur bitnað á því starfi sem henni er ætlað að sinna, enda ber fjöldi fullgildinga af Íslands hálfu merki um það. Íslendingar hafa fullgilt 18 samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar en fjöldi fullgildinga annars staðar á Norðurlöndum er frá 60 til 100 í hverju landi. Í Norðurlandasamstarfi verkalýðshreyfinga hefur margoft komið til tals hversu slæm staða íslensks launafólks sé varðandi starfsöryggi og fyrirspurnir verið gerðar um það hvers vegna ekki séu fullgiltar fleiri samþykktir. Svör Íslendinga eru aðeins þau að ekki hafi verið pólitískur vilji til að koma málinu í gegn hjá þríhliða nefndinni, hvað þá heldur á Alþingi. Þar sem lausn er ekki í sjónmáli í þríhliða nefndinni er ekki að vænta tillagna þaðan um fullgildingu og því er tillaga þessi til þingsályktunar lögð fram.


Fylgiskjal I.


Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158,


um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda.
(Repró, 6 bls.)

Fylgiskjal II.


Tillaga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 166,


um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda.
(Repró, 5 bls.)

Fylgiskjal III.


Ríki sem hafa fullgilt samþykkt Alþjóða-


vinnumálastofnunarinnar nr. 158. frá 1982.Samþykktin tók gildi 23. nóvember 1985.
    Ríki     Fullgilding

    Ástralía          26. febrúar 1993
    Bosnía-Hersegóvína          2. júní 1993
    Brasilía          5. janúar 1995
    Eþíópía          28. janúar 1991
    Finnland          30. júní 1992
    Frakkland          16. mars 1989
    Gabon          6. desember 1988
    Jemen          13. mars 1989
    Júgóslavía          23. nóvember 1984
    Kamerún          13. maí 1988
    Kýpur          5. júlí 1985
    Lettland          25. júlí 1994
    Malaví          1. október 1986
    Marokkó          7. október 1993
    Níger          5. júní 1985
    Sambía          9. febrúar 1990
    Slóvenía          29. maí 1992
    Spánn          26. apríl 1985
    Svíþjóð          20. júní 1983
    Tyrkland          4. janúar 1995
    Úganda          18. júlí 1990
    Úkraína          16. maí 1994
    Venesúela          6. maí 1985
    Zaire          3. apríl 1987


24 ríki hafa fullgilt samþykktina.