Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 143 . mál.


232. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Indriða H. Þorláksson, Bolla Þór Bollason, Braga Gunnarsson, Maríönnu Jónasdóttur og Ragnheiði Snorradóttur frá fjármálaráðuneyti og Steinþór Haraldsson frá embætti ríkisskattstjóra. Þá fékk nefndin einnig á sinn fund Svein Jónsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Stefán Halldórsson frá Verðbréfaþingi Íslands, Martein Másson frá Lögmannafélagi Íslands og Gunnar Helga Hálfdanarson og Vilborgu Loftsdóttir frá Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja, en þessir aðilar sendu nefndinni einnig skriflegar umsagnir um málið.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagðar eru til breytingar á 5. gr. laganna. Í a-lið er gert ráð fyrir að samræmt verði orðalag staðgreiðslulaga og laga um tekjuskatt og eignarskatt. Staðgreiðsla verði þannig tekin af öllum eignfærðum vöxtum og verðbótum í bönkum og sparisjóðum.
                  Í c- og d-lið er lagt til að skattlagning ávöxtunar á lífeyristryggingum, söfnunartryggingum, verði samræmd því sem lagt er til varðandi hlutdeildarsjóði. Í stað þess að skattleggja frá ári til árs verði ávöxtun tryggingartakans skattlögð þegar tryggingin kemur til útborgunar. Með þessari breytingu skapast jafnframt samræmi á tímamarki við skattlagningu innlendra og erlendra tryggingabóta.
                  Í f- og g-lið er lagt til að í stað beinnar skráningar á skuldaviðurkenningar og verðbréf geti fyrirtæki sem hafa með höndum umsýslu viðskipta nýtt sér tölvu í því skyni að halda utan um upplýsingar. Þessi breyting leiðir til einföldunar í framkvæmd. Um leið er lagt til að ótvírætt sé tekið fram að skrá beri kaupverð allra krafna.
    Lögð er til sú breyting á 11. gr. laganna að aðilar, sem skilaskyldir eru skv. 3. gr. laganna, geti sótt um undanþágu frá skilaskyldu ef þeir hafa einungis að óverulegu leyti með höndum innheimtu á eða milligöngu með peningalegar eignir einstaklinga. Þessum aðilum verður samt skylt að veita skattyfirvöldum upplýsingar um þær fjármagnstekjur einstaklinga sem þeir hafa innheimt. Ákvæðið mun þannig rýmkast nokkuð frá því sem nú er.
    Með breytingartillögu við 3. gr. er lagt til að nægjanlegt verði að skrá eftirstöðvar kröfu eða verðbréfs við greiðslu eða fyrstu afborgun eftir 1. janúar 1997. Áfallnir vextir og verðbætur fyrir þann tíma eru undanþegin fjármagnstekjuskatti. Er því nauðsynlegt að fjárhæð þeirra sé skýrt afmörkuð.
                  Samkvæmt gildandi lögum teljast vextir af bréfum og kröfum sem gefin voru út eða til var stofnað fyrir 1. janúar 1997 eigi til skattskyldra vaxtatekna að því leyti sem þeir voru áfallnir 1. janúar 1997. Í ljós hefur komið að við innheimtu afborgana og vaxta af verðbréfum og kröfum sem eru þegar í vörslu skilaskyldra aðila við gildistöku laganna verður mikil fyrirhöfn hjá þeim að safna saman upplýsingum um kaupverð verðbréfanna til að innheimta staðgreiðslu af afföllum eða til að taka tillit til yfirverðs. Sama á við um sölu þeirra eða innlausn. Til að auðvelda framkvæmd er lagt til að settar verði tvær einfaldar meginreglur sem farið skuli eftir við ákvörðun á eftirstöðvaverði til ákvörðunar staðgreiðslu fjármagnstekna þessara verðbréfa. Annars vegar verði miðað við meðalstöðu einstakra flokka verðbréfa ef um er að ræða bréf sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands. Hins vegar gildir sú regla um öll önnur verðbréf og kröfur sem ekki eru skráð á Verðbréfaþingi Íslands að miða skuli við uppreiknað virði bréfsins að teknu tilliti til 5% ávöxtunarkröfu í öllum tilvikum, hafi nafnvextir verið lægri en 5%. Að sjálfsögðu getur gjaldandi komið með leiðréttingar í framtali hafi hann ekki kosið að koma þeim að fyrir afdrátt skattsins.
                  Að lokum er sett sérregla um skuldaviðurkenningar sem einstaklingar taka við í viðskiptum og teljast hluti söluandvirðis samkvæmt kaupsamningi. Hér er um að ræða markaðsbréf eins og húsbréf sem ella ætti að meta í árslok 1996 skv. 2. mgr., svo og önnur skuldabréf og víxla skv. 3. mgr.

Alþingi, 3. des. 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Valgerður Sverrisdóttir.

Sólveig Pétursdóttir.


form., frsm.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Pétur H. Blöndal.

Einar Oddur Kristjánsson.