Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 144 . mál.


234. Nefndarálit



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson, Bolla Þór Bollason og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármálaráðuneyti. Þá mættu á fundinn Þórður Skúlason og Garðar Jónsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ingólfur Bender frá Samtökum iðnaðarins og Jónas Fr. Jónsson og Birgir Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, en þeir sendu nefndinni einnig skrifleg erindi um málið. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Neytendasamtökunum og Sambandi sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.
    Breytingartillaga við 4. gr. frumvarpsins er í samræmi við breytingu sem lagt er til að gerð verði á málsmeðferðarreglum frumvarps til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Til að gæta samræmis er þessi breyting felld brott og ákvæðið orðað eins og í núgildandi lögum.
    Samkvæmt breytingu, sem lagt er til að gerð verði á 7. gr. frumvarpsins, er endurákvörðun virðisaukaskatts kæranleg til skattstjóra þegar hann endurákvarðar virðisaukaskatt fyrri tímabila samhliða ákvörðun virðisaukaskatts hverju sinni, enda liggi ekki fyrir álagning tekjuskatts skv. 98. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ef skattstjóri ákvarðar og endurákvarðar virðisaukaskatt samtímis eru bæði ákvörðunin og endurákvörðunin kæranlegar til skattstjóra innan 30 daga frá því að skatturinn var ákveðinn. Telja verður að heimild þessi sé mjög mikilvæg bæði fyrir skattborgarana og skattkerfið. Algengt er að þegar skattstjóri skoðar virðisaukaskattsskýrslu viðkomandi tímabils í því skyni að ákvarða skatt komi í ljós að endurákvarða þarf skatt vegna fyrri tímabila. Í slíkum tilvikum fer ákvörðun vegna viðkomandi tímabils og endurákvörðun fyrri tímabila fram samtímis, enda gilda sömu málsmeðferðarreglur fyrir og eftir ákvörðun. Af þeim sökum er nauðsynlegt að lögfesta þá heimild sem lögð er til í ákvæðinu þar sem samkvæmt frumvarpinu er lagt til að ferill málsmeðferðar vegna endurákvörðunar verði styttur. Að öðrum kosti má búast við að téðar breytingar á málsmeðferðarreglum laganna skili ekki tilætluðum árangri þar sem iðulega yrði sú staða uppi að skattstjóri ræki mál gegn sama aðila á grundvelli mismunandi málsmeðferðarreglna, þannig að við endurákvörðun mundi skattstjóri úrskurða og sá úrskurður væri svo kæranlegur til yfirskattanefndar. Hins vegar yrði að kæra ákvörðun skattstjóra um skatt vegna síðasta tímabils aftur til skattstjóra. Úrskurður skattstjóra yrði svo loks kæranlegur til yfirskattanefndar. Til þess að koma í veg fyrir að skipta þurfi endurákvörðun skattstjóra vegna fyrri tímabila og ákvörðun viðkomandi tímabils upp í tvö aðskilin mál er lagt til að endurákvörðun verði jafnframt kæranleg til skattstjóra þegar skattstjóri sameinar málin og rekur þau bæði eftir þeirri reglu sem gerir skattaðila heimilt að kæra ákvörðunina og endurákvörðunina fyrst til skattstjóra og svo til yfirskattanefndar.

Alþingi, 3. des. 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Valgerður Sverrisdóttir.

Sólveig Pétursdóttir.


form., frsm.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Pétur H. Blöndal.

Einar Oddur Kristjánsson.