Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 146 . mál.


263. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 5. des.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 97/1996:
    Orðin „svo og gengishækkun hlutdeildarskírteina“ í 1. málsl. falla brott.
    2. málsl. orðast svo: Til tekna í þessu sambandi telst enn fremur gengishækkun hlutdeildarskírteina, svo og hvers kyns gengishagnaður og afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum kröfum og hvers kyns aðrar tekjur af peningalegum eignum.

2. gr.


    Í stað 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Stuðullinn skal miðast við breytingu á vísitölu neysluverðs frá upphafi til loka 12 mánaða tímabils, sbr. lög nr. 12/1995, um vísitölu neysluverðs, og skal miða breytingu við þann mun sem verður á vísitölu neysluverðs sem gildir fyrir janúarmánuð á tekjuári og vísitölu neysluverðs sem gildir fyrir janúarmánuð á álagningarári. Hafi aðili annað reikningsár en almanaksárið skal miða stuðulinn við þann mun sem verður á vísitölu neysluverðs sem gildir fyrir fyrsta mánuð tekjuárs og vísitölu neysluverðs sem gildir fyrir fyrsta mánuð eftir lok þess tekjuárs.

3. gr.


    1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1996, orðast svo:
    Fé sem varið er til aukningar á fjárfestingu í innlendum atvinnurekstri á árunum 1997–1999 samkvæmt lögum nr. 9/1984.
    Frádráttur skv. 1. mgr. skal miðast við aukningu á fjárfestingu í innlendum atvinnurekstri á hverju ári. Til þess að fá fullan frádrátt samkvæmt þessum tölulið skal árlega fjárfest fyrir að lágmarki 129.900 kr. hjá einstaklingi og 259.800 kr. hjá hjónum.
    Frádráttur hjá þeim sem fjárfest hafa fyrir þær fjárhæðir er greinir í 2. mgr. eða fyrir hærri fjárhæð skal vera sem hér greinir:
    Vegna fjárfestingar á árinu 1997 skal hann vera 60% af fjárhæðum skv. 2. mgr.
    Vegna fjárfestingar á árinu 1998 skal hann vera 40% af fjárhæðum skv. 2. mgr.
    Vegna fjárfestingar á árinu 1999 skal hann vera 20% af fjárhæðum skv. 2. mgr.
    Hafi maður fjárfest fyrir lægri fjárhæð en greinir í 2. mgr. skal frádráttur skv. 3. mgr. taka hlutfallslegum breytingum.
    Fjárhæð, sem heimilt hefur verið að flytja á milli ára vegna fjárfestinga í atvinnurekstri fyrir gildistöku laga þessara, telst vera aukning á fjárfestingu í atvinnurekstri skv. 1. og 2. mgr. og skal um frádráttinn gilda ákvæði 3. og 4. mgr. Ónýtt frádráttarheimild tekur breytingu í samræmi við breytingar á verðbreytingarstuðli skv. 26. gr.
    Frádráttur vegna hlutabréfakaupa miðast við kaup á hlutabréfum í innlendum hlutafélögum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., og er háður því skilyrði að maður eigi viðkomandi hlutabréf í a.m.k. þrjú ár. Selji hann bréfin innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa. Skal hann framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr. frá því ári þegar hann var dreginn frá tekjum til söluárs. Ekki skal þó beita ákvæðum 2. og 3. málsl. um tekjufærslu frádráttar ef maður kaupir önnur hlutabréf í innlendu félagi staðfestu af ríkisskattstjóra í stað hinna seldu innan 30 daga frá söludegi þeirra og kaupverð keyptra hlutabréfa nemur a.m.k. sömu fjárhæð og hinna seldu. Sé kaupverðið lægra skulu ákvæði 2. og 3. málsl. eiga við um mismuninn.
    Reglur þessa ákvæðis skulu gilda með sama hætti um samvinnuhlutabréf. Enn fremur skulu þær þrátt fyrir lög nr. 9/1984 gilda um stofnfjárbréf í sparisjóðum, enda sé útboð slíkra stofnfjárbréfa opið fyrir alla einstaklinga sem eiga lögheimili á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs og það staðfest af ríkisskattstjóra og skal eigi heimilt að selja stofnfjárbréf í þrjú ár frá kaupum. Ef stofnfjárbréf er selt fyrir þann tíma skal nýttur frádráttur færður til tekna samkvæmt ákvæðum 2. og 3. málsl. 6. mgr.
    Frádráttur samkvæmt þessum tölulið heimilast frá tekjum skv. A- og B-lið 7. gr.
    Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd frádráttar samkvæmt þessu ákvæði.

4. gr.


    Í stað orðsins „fimm“ í 1. málsl. 7. tölul. 31. gr. laganna kemur: átta.

5. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
    Í stað hlutfallstalnanna „6“ og „8“ í 1. tölul. kemur: 5 og 10.
    Í stað hlutfallstalnanna „6“ og „8“ í 2. tölul. kemur: 5 og 10.
    Í stað hlutfallstalnanna „9“ og „12“ í 3. tölul. kemur: 5 og 15.
    Í stað hlutfallstalnanna „15“ og „20“ í a-lið 4. tölul. kemur: 10 og 20.
    Í stað hlutfallstalnanna „11“ og „15“ í b-lið 4. tölul. kemur: 10 og 20.
    5. tölul. orðast svo: Fyrning mannvirkja, þar með talin ræktun á bújörðum og byggingar, skal vera árlegur hundraðshluti af fyrningargrunni einstakra eigna sem hér segir:
         
    
    Af eftirtöldum mannvirkjum skal árleg fyrning vera að lágmarki 1% en að hámarki 3%:
                   
    Íbúðarhúsnæði.
                   
    Skrifstofubyggingum.
                   
    Verslunarbyggingum.
         
    
    Af eftirtöldum mannvirkjum skal árleg fyrning vera að lágmarki 3% en að hámarki 6%:
                   
    Verksmiðjubyggingum.
                   
    Verkstæðisbyggingum.
                   
    Vörugeymslubyggingum.
                   
    Dráttarbrautum.
                   
    Gisti- og veitingahúsum.
                   
    Útihúsum á bújörðum.
                   
    Loðdýrabúum og tilheyrandi girðingum.
                   
    Lýsis-, olíu- og vatnsgeymum.
                   
    Ræktun á bújörðum.
                   
    Hvers konar öðrum mannvirkjum og húsum, notuðum til atvinnurekstrar, sem ekki eru talin annars staðar í þessari grein.
         
    
    Af eftirtöldum mannvirkjum skal árleg fyrning vera að lágmarki 6% en að hámarki 8%:
                   
    Bryggjum og plönum þeim tengdum.
                   
    Gróðurhúsum.
         
    
    Af eftirtöldum mannvirkjum skal árleg fyrning vera að lágmarki 7,5% en að hámarki 10%:
                   
    Borholum.
                   
    Raflínum.
                   
    Vinnubúðum, óvaranlegum.
                  Ekki skiptir máli í sambandi við ákvörðun fyrningarhlutfalls úr hvaða byggingarefni mannvirki er gert.

6. gr.


    Á eftir orðinu „Sameining“ í fyrirsögn á undan 56. gr. laganna kemur: og skipting.

7. gr.


    Á eftir 56. gr. laganna kemur ný grein, 56. gr. A, sem orðast svo:
    Sé hlutafélagi skipt og því slitið þannig að fleiri en eitt hlutafélag eða einkahlutafélag taki við öllum eignum og skuldum þess og hluthafarnir í félaginu sem skipt er fái eingöngu hlutabréf í félögunum sem við taka sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í hinu skipta félagi skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem hlutabréfin lét af hendi. Eignarhlutir hluthafa í sérhverju viðtökufélaganna skulu vera innbyrðis í sömu hlutföllum og eignarhlutirnir voru í því félagi sem slitið er með skiptingunni. Eignir skulu yfirfærast á bókfærðu verði. Við slíka skiptingu flytjast allar skattaréttarlegar skyldur og réttindi frá því félagi sem slitið var og til þeirra félaga sem við taka til samræmis við þær eignir og skuldir sem flytjast til þeirra.

8. gr.


    57. gr. A laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 56. gr., 56. gr. A og 57. gr. skal rekstrartap, þar með taldar eftirstöðvar rekstrartapa frá fyrri árum, sbr. 7. tölul. 31. gr., hjá því félagi sem slitið var ekki flytjast til þess félags eða þeirra félaga sem við taka nema uppfyllt séu öll skilyrði þessarar greinar. Félag eða félög þau sem við taka skulu hafa með höndum skyldan rekstur eða starfsemi og það félag sem slitið var. Tap flyst ekki milli félaga við sameiningu eða skiptingu þegar það félag sem slitið var átti fyrir slitin óverulegar eignir eða hafði engan rekstur með höndum. Sameining eða skipting félaga verður að vera gerð í venjulegum og eðlilegum rekstrartilgangi. Hið yfirfærða tap verður að hafa myndast í sams konar rekstri og það félag sem við tekur eða þau félög sem við taka hafa með höndum.

9. gr.


    Við 63. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Einstaklingar í staðfestri samvist skulu telja fram og skattlagðir eins og hjón.

10. gr.


    Í stað hlutfallstölunnar „33,15%“ í 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. laganna kemur: 30,5%.

11. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
    Á eftir „7. tölul. 3. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 2. tölul. kemur: sbr. þó 4. tölul. þessarar greinar.
    Á eftir „8. tölul. 3. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 3. tölul. kemur: sbr. þó 4. tölul. þessarar greinar.
    Við bætist nýr töluliður, er verður 4. tölul., sem orðast svo: Tekjuskattur manna sem hafa takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 3. gr. af arði, leigutekjum og söluhagnaði skal ákvarðaður skv. 3. mgr. 67. gr. og skal það vera endanleg álagning á þessar tekjur, sbr. 4. mgr. 67. gr.

12. gr.


    Á eftir orðinu „samvinnufélögum“ í 2. málsl. 1. mgr. 5. tölul. 74. gr. laganna kemur: stofnfjárbréf í sparisjóðum.

13. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 91. gr. laganna:
    Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Ríkisskattstjóri getur heimilað lögaðilum og einstaklingum sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi að skila skýrslu í tölvutæku formi.
    Við greinina bætist ný málsgrein, er verður 4. mgr., sem orðast svo:
                  Skil á skýrslu í tölvutæku formi að fenginni heimild ríkisskattstjóra jafngildir undirritun skýrslunnar skv. 2. og 3. mgr.

14. gr.


    Í stað orðanna „eftir reglum 99. og 100. gr.“ í síðari málslið 3. mgr. 101. gr. laganna kemur: til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992.

15. gr.

    Við 109. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Innheimtuaðilum samkvæmt þessari grein skal heimill aðgangur að fasteigna-, skipa- og ökutækjaskrá í því skyni að sannreyna eignastöðu einstakra gjaldenda.

16. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 114. gr. laganna:
    Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Reglur þessarar málsgreinar um ábyrgð hjóna skulu gilda með sama hætti um samskattað sambúðarfólk og einstaklinga í staðfestri samvist.
    Við 4. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Hafi félagi verið skipt skv. 56. gr. A án þess að skattar hafi verið greiddir bera þau félög sem við taka ábyrgð á skattgreiðslum.

17. gr.


    118. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er ríkisskattstjóra að breyta tímaákvörðunum og frestum sem um ræðir í 93., 98. og 99. gr. ef brýna nauðsyn ber til.

18. gr.


    Á eftir orðinu „samvinnufélög“ í 1. málsl. 124. gr. laganna kemur: og stofnfjárbréf í sparisjóðum, sbr. lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.

19. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda eins og hér greinir:
    Ákvæði 9., 12., 15., 16., 17. og 18. gr. koma til framkvæmda þegar í stað.
    Ákvæði 14. gr. kemur til framkvæmda frá og með gildistöku laga þessara og gildir um úrskurði um endurákvarðanir frá og með þeim tíma, þó þannig að hafi heimild skattyfirvalda til endurákvörðunar gjalda verið fallin niður við gildistöku laga þessara, skv. 2. mgr. 97. gr. eins og hún hljóðaði fyrir gildistöku laga þessara, skapast ekki nýr afturvirkur frestur.
    Ákvæði 3. gr. öðlast gildi 1. janúar 1997 og verður því eigi heimilt að draga frá tekjum ársins 1997 fjárhæð vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri.
    Ákvæði 4. og 5. gr. kemur til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1997 vegna rekstrar ársins 1996 og eigna í lok þess árs.
    Ákvæði 10. gr. kemur til framkvæmda við staðgreiðslu tekjuskatts á árinu 1997 og álagningu tekjuskatts á árinu 1998 vegna tekna ársins 1997.
    Ákvæði 1. og 11. gr. koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 1998 vegna tekna á árinu 1997.
    Ákvæði 2. gr. kemur fyrst til framkvæmda á árinu 1998 við útreikning verðbreytingarstuðuls fyrir tekjuárið 1997.

20. gr.


    Við lögin bætast tvö ákvæði til bráðabirgða er orðast svo ásamt fyrirsögn:

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

Sérstakur verðbreytingarstuðull fyrir tekjuárið 1996.

    Auk verðbreytingarstuðuls skv. 26. gr. laganna skal ríkisskattstjóri birta sérstakan verðbreytingarstuðul sem miðast við breytingu sem verður á vísitölu neysluverðs sem gildir fyrir 1. janúar 1996 og janúar 1997. Skattaðila skal heimilt í stað verðbreytingarstuðuls skv. 26. gr. laganna að miða verðbreytingar við þennan sérstaka stuðul. Sama stuðli skal beitt á allar eignir og skuldir.
    Fyrir annað reikningsár, sbr. 60. gr. laganna, sem lýkur á árinu 1996 skal með sama hætti heimilt að nota sérstakan verðbreytingarstuðul sem ákveðinn skal með sama hætti og í 1. mgr. greinir.

II.
Nýting eftirstöðva rekstrartapa rekstraráranna 1988 og síðar.

    Þrátt fyrir ákvæði 7. tölul. 31. gr. er heimilt að draga eftirstöðvar rekstrartapa sem mynduðust í rekstri á rekstrarárunum 1988 og síðar og yfirfæranleg eru samkvæmt lögum frá skattskyldum tekjum við ákvörðun tekjuskattsstofns vegna rekstraráranna 1997–2000.