Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 216 . mál.


272. Beiðni um skýrslu



frá fjármálaráðherra um fjárhagsleg áhrif af útboðum Vegagerðarinnar og töpuðum kröfum ríkisins á hendur verktakafyrirtækjum.

Frá Guðmundi Lárussyni, Bryndísi Hlöðversdóttur, Hjörleifi Guttormssyni,


Kristni H. Gunnarssyni, Ragnari Arnalds, Sigríði Jóhannesdóttur,


Steingrími J. Sigfússyni, Svavari Gestssyni og Ögmundi Jónassyni.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um fjárhagsleg áhrif af útboðum og tilboðum og töpuðum kröfum ríkisins á hendur verktakafyrirtækjum. Í skýrslunni komi m.a. fram upplýsingar um eftirfarandi atriði:
1.a.    Hver er heildarupphæð kostnaðaráætlana í útboðum á vegum Vegagerðarinnar árin 1990–95, sundurliðað eftir árum?
  b.    Hver er heildarupphæð verksamninga þegar gengið hefur verið til samninga við verktaka að loknu útboði Vegagerðarinnar árin 1990–95, sundurliðað eftir árum?
  c.    Hver er mismunur kostnaðaráætlana Vegagerðarinnar í útboðum og tekinna tilboða árin 1990–95, sundurliðað eftir árum og samtals?
2.a.    Hvert var tap ríkissjóðs vegna óinnheimtra fjármuna í formi þungaskatts af ökutækjum í eigu þeirra verktakafyrirtækja sem unnu verk fyrir Vegagerðina á árunum 1990–95?
  b.    Hvert var tap ríkissjóðs vegna óinnheimtra fjármuna í formi virðisaukaskatts hjá verktakafyrirtækjum sem unnu að verkum fyrir Vegagerðina á sama tímabili?
  c.    Hver var greiðsla Vegagerðarinnar vegna vanefnda verktaka á verkum í vinnslu samkvæmt útboði árin 1990–95?
  d.    Hversu miklum fjármunum er talið að undirverktakar og aðrir aðilar hafi tapað í viðskiptum við verktaka sem urðu gjaldþrota eða stóðu ekki í skilum á sama tímabili?
3.         Hvaða kröfur eru gerðar til verktaka sem Vegagerðin felur verk hvað varðar fjárhagsstöðu, tækniþekkingu, tækjakost og búnað?
4.a.    Hversu algengt er að samið sé um viðbótarverkþætti án útboðs við verktaka sem fyrir eru í verkum og um hve háar fjárhæðir var að ræða árin 1990–95, sundurliðað eftir árum?
  b.    Hversu algengt er að verkum sé ekki skilað á tilsettum tíma?
  c.    Er í slíkum tilvikum undantekningarlaust beitt dagsektum? Hvaða reglur gilda um meðferð mála í þeim tilvikum að öðru leyti?





Prentað upp.