Ferill 218. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 218 . mál.


275. Frumvarp til lagaum breyting á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19 6. apríl 1996, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)1. gr.

    Fyrri málsliður 2. tölul. 4. mgr. 1. gr. laganna, sbr. 22. gr. laga nr. 133/1993, orðast svo: Þegar sá sem í hlut á nýtur réttar hér á landi samkvæmt reglum samnings um Evrópska efnahagssvæðið um frjálsa fólksflutninga, staðfesturétt, þjónustustarfsemi eða fjármagnsflutninga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 133 31. desember 1993 voru gerðar breytingar á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna í þeim tilgangi að aðlaga ákvæði þeirra ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt ákvæðum hans skulu ríkisborgarar annarra samningsríkja og félög sem hafa aðalstöðvar eða aðalstarfsemi í ríki innan EES eða hafa þar heimili samkvæmt samþykktum sínum hafa sama rétt til fasteignakaupa hér á landi og íslenskir ríkisborgarar að því leyti sem það er nauðsynlegt til að nýta þau réttindi sem samningurinn veitir til frjálsra fólksflutninga, staðfestu og þjónustustarfsemi.
    Meginregla EES-samningsins er að aðilum í einu ríki innan EES skal vera heimilt að fjárfesta í öðru ríki á svæðinu til jafns við aðra. Í XII. viðauka með EES-samningnum er Íslandi þó veitt heimild til að viðhalda ótímabundið gildandi banni við fjárfestingu erlendra aðila í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Sambærilegan fyrirvara er einnig að finna í VIII. viðauka að því er varðar staðfesturétt. Þá var Íslandi veittur frestur til 1. janúar 1996 til að laga gildandi reglur um fjárfestingu erlendra aðila í fasteignum að ákvæðum samningsins.
    Með lögum nr. 46 22. maí 1996 voru gerðar breytingar á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri með það fyrir augum að rýmka reglur um fjárfestingu erlendra aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins til samræmis við ákvæði EES-samningsins. Ákvæði 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna eins og það er nú orðað vísar hins vegar til laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna og segir að erlendum aðila sé heimilt að öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Ákvæðum laganna um eignarrétt og afnotarétt fasteigna var hins vegar ekki breytt samtímis.
    Frumvarp þetta miðar að því að laga ákvæði laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna að ákvæðum EES-samningsins, þannig að ákvæði 2. tölul. 4. mgr. 1. gr. laganna um að ekki þurfi að afla leyfis dómsmálaráðherra til réttinda yfir fasteign taki til þeirra sem njóta réttar samkvæmt reglum samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga, auk reglna um frjálsa fólksflutninga, staðfesturétt og þjónustustarfsemi.
    Samkvæmt síðari málslið 2. tölul. 4. mgr. 1. gr. setur ráðherra nánari reglu um til hvaða fasteigna réttur samkvæmt fyrri málslið tekur og um framkvæmd réttarins að öðru leyti. Um það efni gildir reglugerð um rétt tiltekinna EES-ríkisborgara og EES-félaga til að öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteignum, nr. 697 20. desember 1995. Að samþykktri lagabreytingu þeirri sem frumvarp þetta felur í sér munu verða gerðar viðeigandi breytingar á ákvæðum reglugerðarinnar þar sem tekið verður tillit til lagabreytingarinnar.Fylgiskjal.
    
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um eignarrétt


og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, með síðari breytingum.


    Frumvarp þetta miðar að því að laga ákvæði laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna að ákvæðum EES-samningsins. Ekki verður séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð verði frumvarpið óbreytt að lögum.