Ferill 228. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 228 . mál.


308. Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)1. gr.

    3. mgr. 6. gr. laganna hljóðar svo:
    Í svæðisráði sitja sjö fulltrúar og skulu þeir skipaðir af ráðherra til 1. janúar 1999. Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið skulu tilnefna sinn fulltrúann hvor og svæðisbundin samtök sveitarfélaga þrjá og skal einn þeirra vera félagsmálastjóri á svæðinu. Jafnframt skal héraðslæknir eiga sæti í svæðisráði. Ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar. Svæðisráð skal kveðja á sinn fund fólk með sérþekkingu á skólamálum þegar ástæða er til.

2. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 12. gr. laganna hljóðar svo: Ráðherra skipar framkvæmdastjóra svæðisskrifstofa til 1. janúar 1999 að fenginni umsögn svæðisráða.

3. gr.

    Í stað 3. málsl. 3. mgr. 16. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir er hljóða svo: Félagsmálaráðherra skipar forstöðumann til fimm ára að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar. Forstöðumaður ræður aðra starfsmenn.

4. gr.

    2. málsl. 4. tölul. 40. gr. laganna hljóðar svo: Styrkur þessi má ná til alls framlags framkvæmdaraðila.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. 2. og 3. gr. öðlast þó ekki gildi fyrr en 1. janúar 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Félagsmálaráðherra skal eftir gildistöku þessara laga gera ráðstafanir til að undirbúa yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga og skipa verkefnisstjórn/stjórnir í því skyni.
    Yfirfærsla málaflokksins komi til framkvæmda 1. janúar 1999, enda hafi Alþingi þá m.a. samþykkt:
    ný lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem taka til þeirrar þjónustu sem veitt er samkvæmt gildandi lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, þó ekki starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins,
    breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga,
    sérstök lög um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Frumvarp þetta er samið af nefnd sem félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, skipaði 3. apríl 1996 til að endurskoða lög um málefni fatlaðra. Í nefndina voru skipuð: Ásta B. Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur, tilnefnd af Landssamtökunum Þroskahjálp, Einar K. Guðfinnsson alþingismaður, tilnefndur af þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Haukur Þórðarson, yfirlæknir tilnefndur af Öryrkjabandalagi Íslands, Hjörleifur Kvaran borgarlögmaður, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Ólafur Örn Haraldsson alþingismaður, tilnefndur af þingflokki Framsóknarflokksins, sem félagsmálaráðherra skipaði jafnframt formann nefndarinnar. Jafnframt sat í nefndinni Árni Gunnarsson, formaður stjórnarnefndar málefna fatlaðra. Ritari nefndarinnar var Margrét Margeirsdóttir deildarstjóri.
    Tilefni endurskoðunar laga um málefni fatlaðra á árinu 1996 er að finna í ákvæði til bráðabirgða II í gildandi lögum, en þar segir að lögin skuli endurskoðuð innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra með hliðsjón af endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtök fatlaðra. Jafnframt segir í fyrrnefndu ákvæði að við endurskoðun laganna skuli miða að því að auka ábyrgð sveitarfélaga á málefnum fatlaðra.
    Frumvarpi þessu má skipta í tvo meginþætti. Meginefni frumvarpsins lýtur að yfirtöku sveitarfélaga á málefnum fatlaðra. Aðrar breytingartillögur eru flestar nauðsynlegar vegna breytinga á öðrum lögum.

Yfirtaka sveitarfélaga á málefnum fatlaðra.

    Eins og fram kemur í athugasemdum frumvarps er varð að lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, náðist á þeim tíma ekki samstaða um að ganga lengra í að flytja málaflokkinn til sveitarfélaga en fram kemur í 13. gr. laganna. Aftur á móti er mælst til þess í athugasemdum fyrrnefnds frumvarps að við endurskoðun laganna, að fjórum árum liðnum, verði þessu atriði sérstakur gaumur gefinn, m.a. með hliðsjón af þróun málefna sveitarfélaga, einkum þeirri sameiningu sveitarfélaga sem kann að eiga sér stað á tímabilinu.
    Á tímabilinu 1. janúar 1992 til 1. júlí 1996 hafa 54 sveitarfélög sameinast í 19 sveitarfélög. Frá gildistöku laga um félagsþjónustu sveitarfélaga á árinu 1991 hafa 27 sveitarfélög sameinast um sjö félagsmálanefndir og þannig styrkt stöðu sína til að takast á við félagsþjónustu (fylgiskjal II).
    Enda þótt þær væntingar um sameiningu sveitarfélaga, sem fram koma í lögskýringargögnum með gildandi lögum um málefni fatlaðra, svo og væntingar um samstarf sveitarfélaga um félagsþjónustu, sem fram koma í 7. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, hafi ekki gengið eftir nema að nokkru leyti hafa engu að síður átt sér stað talsverðar hræringar hvað varðar aukna ábyrgð sveitarfélaga og tilflutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Þannig hefur félagsþjónustu sveitarfélaga vaxið fiskur um hrygg. Samþykkt laga um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994, hefur leitt til þess að sveitarfélög hafa yfirtekið nokkur verkefni, þar á meðal málefni fatlaðra, sbr. samning við Akureyrarbæ, og í undirbúningi er samningur við Vestmannaeyjabæ. Auk þess er nú stefnt að samningi við Húsavíkurbæ um þjónustu í Þingeyjarsýslum á grundvelli 13. gr. laga um málefni fatlaðra. Síðast en ekki síst í þessu sambandi kemur hér til hinn umfangsmikli flutningur grunnskólans til sveitarfélaga. Allt rennir þetta stoðum undir frekari verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur nýverið lýst því yfir við félagsmálaráðherra að sjónir manna í þessum efnum beinist nú að málefnum fatlaðra. Vísast þar til ályktunar XV. landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því í september 1994 þar sem hvatt er til „að markvisst verði unnið að flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga, til að styrkja og efla sveitarstjórnarstigið og færa ákvarðanatöku og ábyrgð nær þeim sem þjónustunnar njóta“. Síðar segir í sömu ályktun: „Landsþingið telur rétt að fela sveitarfélögum að fullu rekstur grunnskóla og heilsugæslustöðva, svo og yfirtöku verkefna á sviði málefna fatlaðra og aldraðra.“ Málefni þetta er síðan áréttað í bréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 19. september 1996, til nefndarinnar er vann að undirbúningi þessa frumvarps. 20. september 1996 komu á fund nefndarinnar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þórður Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem þeir mæltu fyrir því að málefni fatlaðra flyttust í einu lagi til sveitarfélaga. Á fundi Sambands íslenskra sveitarfélaga 30. október 1996 var síðan tekið fyrir bréf nefndarinnar sem samdi frumvarpið til Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 6. september 1996. Á fundinum var samþykkt svofelld bókun um málið:
    „Stjórnin telur ekki koma til greina að flytja þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga í áföngum. Lagt er til að skipuð verði verkefnisstjórn fulltrúa ríkis, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka sem vinni að tillögugerð um flutning alls málaflokksins og tekna frá ríki til sveitarfélaga til að mæta öllum kostnaði. Í ljósi þess að nokkur reynslusveitarfélög eru nú að yfirtaka verkefni á sviði málefna fatlaðra af ríkinu telur stjórnin rétt að verkefnisstjórn verði gefinn góður tími til að vinna að málinu en að stefnt verði að niðurstöðu á árinu 1998 þannig að verkefnaflutningur geti átt sér stað 1. janúar 1999 ef full sátt næst milli aðila þar um.“ Hagsmunasamtök fatlaðra taka í sama streng. Þannig ályktuðu Landssamtökin Þroskahjálp á fulltrúafundi samtakanna 18. og 19. október 1996 að þau styddu það að sveitarfélög tækju yfir stjórnun og rekstur málaflokksins frá ársbyrjun 1999. Í tengslum við þann verkefnaflutning leggja landssamtökin áherslu á að réttindagæsla fatlaðra verði efld og jafnframt að taka þurfi tillit til mismunandi aðstæðna í sveitarfélögum. Á fundi framkvæmdastjórnar Öryrkjabandalags Íslands 22. október 1996 var samþykktur stuðningur við flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga að því tilskildu að tryggt yrði að fjármagn flyttist að sama skapi frá ríki til sveitarfélaga. Jafnframt leggur Öryrkjabandalagið ríka áherslu á að fulltrúi/fulltrúar fatlaðra sitji í verkefnastjórn sem áformað er að félagsmálaráðherra skipi til að undirbúa flutning málaflokksins til sveitarfélaga.
    Markmiðið með flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaga er að stíga lokaskrefið í þeirri þróun að fatlaðir séu sjálfsagðir þátttakendur í samfélaginu. Með flutningi málaflokksins til sveitarfélaga eru bundnar vonir við að þjónustan verði bætt. Litið er á yfirtöku sveitarfélaga á málefnum fatlaðra sem eðlilegan þátt í þróun sveitarstjórnarstigs og þjónustu sveitarfélags við íbúa sína.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum í áðurnefndu frumvarpi til laga um málefni fatlaðra hefur það verið álitið æskilegt að þjónusta við fatlaða falli að almennri félagsþjónustu sveitarfélaga. Óæskilegt sé til lengdar að greina þjónustu við fatlaða frá þjónustu við aðra íbúa í sveitarfélagi. Það fyrirkomulag þótti hins vegar nauðsynlegt á sínum tíma, fól í sér eins konar átak til að lyfta málefnum fatlaðra úr þeirri kyrrstöðu sem áður ríkti um þann málaflokk. Nú þegar sérlög um málefni þroskaheftra og síðar málefni fatlaðra hafa gilt frá árinu 1980 og að mestu leyti verið á ábyrgð ríkisins, og grettistaki hefur verið lyft í þjónustu við fatlaða frá því sem var fyrir setningu sérlaga um þessi efni, þykir kominn tími til þess að sveitarfélög axli ábyrgð gagnvart fötluðum með sama hætti og öðrum íbúum sveitarfélagsins og sú þjónusta verði eðlilegur þáttur í félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Hagsmunasamtök fatlaðra hafa á undanförnum árum bent á að einn liður í blöndun fatlaðra og ófatlaðra sé sá að þjónusta við fatlaða og ófatlaða sé hlið við hlið og aðgreining milli fatlaðra og ófatlaðra sé óæskileg. Einnig leggja hagsmunasamtökin áherslu á sveigjanlega þjónustu sem taki mið af þörfum hvers einstaklings. — Sjónarhornið er að íbúar sveitarfélags fái þá félagslegu þjónustu sem þeir þarfnist, óháð því hver sé orsök þess að þeir þurfi á þjónustunni að halda, enda byggjast lög um félagsþjónustu sveitarfélaga á þessu grundvallaratriði.
    Auk framangreindra raka má benda á að í núverandi fyrirkomulagi eru dæmi um að valdmörk milli ríkis og sveitarfélaga séu óskýr. Nefna má í því sambandi liðveislu og heimaþjónustu sveitarfélaga annars vegar og frekari liðveislu á vegum svæðisskrifstofa hins vegar. Með því að hafa þjónustu sem þessa á einni hendi fæst betri yfirsýn og einföldun.
    Með hliðsjón af framangreindu er lagt til að málefni fatlaðra færist til sveitarfélaga, yfirfærsla málaflokksins verði í einu lagi og komi til framkvæmda 1. janúar 1999. Dagsetningin 1. janúar 1999 er lögð til með það í huga að hæfilega langur tími gefist til undirbúnings. Með reynslu af yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaga þykja tvö ár hæfilegur tími, enda gert ráð fyrir að undirbúningur hefjist tafarlaust verði frumvarp þetta að lögum.
    Áður en af yfirfærslu málaflokksins getur orðið þarf að eiga sér stað umfangsmikill undirbúningur bæði hvað varðar þjónustuþáttinn og fjármálin. Því er lagt til í frumvarpinu að ráðherra skipi verkefnisstjórn eða -stjórnir sem vinni að undirbúningnum. Gert er ráð fyrir að í verkefnistjórn sitji, auk fulltrúa af hálfu ríkisins, m.a. fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hagsmunasamtökum fatlaðra og stéttarfélögum. Verkefnistjórn/ stjórnir hafi bæði það verkefni að semja ný lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem og að undirbúa flutning fjármagns frá ríki til sveitarfélaga. Lögð er áhersla á að fagfólk, sem hefur reynslu og þekkingu á framkvæmd málefna fatlaðra, taki þátt í starfi verkefnastjórna.
    Um lagalegan búning er gert ráð fyrir að þjónustuþátturinn verði felldur undir lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, þó ekki Greiningar- og ráðgjafarstöð sem verði áfram stofnun á vegum ríkisins. Um hana verði sett sérstök lög. Með því að fella þjónustu við fatlaða undir lög um félagsþjónustu sveitarfélaga þarf að semja ný og breytt lög um félagsþjónustu. Ljóst er að sú lagasetning krefst mikils og vandaðs undirbúnings. Lögin um málefni fatlaðra eru ítarleg sérlög sem kveða ríkt á um réttindi fatlaðra og skyldur ríkisins. Lögunum fylgja sex reglugerðir. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga eru hins vegar almenn rammalög, ná yfir víðtækt svið þar sem skyldur sveitarfélaga eru ekki nákvæmlega tíundaðar heldur er svigrúm sveitarfélaga mikið. Engin almenn reglugerðarheimild fylgir þeim lögum. Samsteypa jafnólíkra laga er því vandaverk. Tryggt verður að vera að réttindi fatlaðra samkvæmt gildandi lögum verði að engu leyti fyrir borð borin í hinum nýju lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Gert er ráð fyrir að einhver sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðis sameinist um félagsþjónustuna fyrir 1. janúar 1999, enda þótt frumvarpið hafi ekki að geyma fyrirmæli þar að lútandi. Samstarf sveitarfélaga á þessum vettvangi er í ýmsum tilvikum forsenda fyrir því að þau geti veitt lögboðna þjónustu.
    Við flutning málaflokksins til sveitarfélaga er nauðsynlegt að vera á verði um það að sérþekking innan málaflokksins glatist ekki. Búið verði svo um hnútana að einum aðila verði falið að halda utan um þekkingaröflun og varðveislu hennar, svo og ráðgjöf til sveitarfélaga. Nefndin sem vann að frumvarpinu bendir í þessu sambandi á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, en eins og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að um þá stofnun verði sett sérstök lög. Jafnframt bendir nefndin á að við flutning málaflokksins til sveitarfélaga verði engu að síður séð til þess að fyrir hendi verði sérhæfð þjónusta á landsvísu. Auk þess verði hugað að því hvort réttindagæsla fatlaðra verði best tryggð með því móti að einum aðila verði falið að hafa þar yfirsýn.
    Við undirbúning að yfirfærslunni til sveitarfélaga þarf jafnframt að huga að því hvernig með skuli fara þegar í hlut eiga stofnanir félagasamtaka eða sjálfseignarstofnanir, sem reknar eru samkvæmt lögum um málefni fatlaðra, þar sem búa heimilismenn víðs vegar af landinu. Tekið skal þó fram í þessu tilliti að skv. 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, telst lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu og eru vistheimili og sambýli fatlaðra þar ekki undanskilin.
    Hvað fjármálum viðkemur þurfa ríki og sveitarfélög að gera með sér samkomulag um kostnaðar- og tekjutilfærslur vegna yfirtöku sveitarfélaganna á málaflokki fatlaðra. Í þeim efnum verður væntanlega horft til sambærilegra leiða og farnar voru við yfirtöku sveitarfélaga á grunnskólanum. Í þeim leiðum fólst að útsvarstekjur sveitarfélaga voru auknar og sömuleiðis tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna jöfnunaraðgerða og sameiginlegra verkefna. Í kjölfarið verði gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu.

    Flestar breytingarnar eru nauðsynlegar þar sem þær leiðir af breytingum á öðrum lögum. Koma þar til lög um grunnskóla, nr. 66/1995, en með þeim lögum var fræðslustjóraembættið lagt niður, svo og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, en samkvæmt þeim lögum skulu embættismenn skipaðir tímabundið.
    Auk framangreindra nauðsynlegra breytinga eru þau nýmæli lögð til í 4. gr. frumvarpsins að styrkur Framkvæmdasjóðs fatlaðra til framkvæmdaraðila, sem byggja félagslegar íbúðir til leigu fyrir fatlaða, sé sá sami hvort sem framkvæmdaraðili er sveitarfélag eða félagasamtök. Um nánari skýringar á þessu atriði vísast til athugasemda við 4. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Breyting sú sem lögð er til er í samræmi við það að embætti fræðslustjóra hefur verið lagt niður með flutningi grunnskólans til sveitarfélaga, sbr. lög nr. 66/1995. Ekkert embætti svarar nú til embættis fræðslustjóra. Til þess að þekking á skólamálum skili sér engu að síður í störfum ráðsins er lagt til að svæðisráð kveðji á sinn fund fólk með þekkingu á skólamálum eftir því sem þörf er talin á. Sá aðili hafi málfrelsi og tillögurétt á fundum svæðisráðs.
    Með niðurlagningu fræðslustjóraembættisins fækkar óhjákvæmilega í svæðisráði úr sjö í sex. Þar sem óheppilegt þykir að fjöldi fulltrúanna sé jöfn tala er lagt til að ráðherra skipi einn fulltrúa þannig að fjöldi fulltrúa í ráðinu verði óbreyttur.
    Svæðisráðið verði skipað til 1. janúar 1999 þar sem gert er ráð fyrir að málaflokkurinn í heild sinni færist til sveitarfélaga 1. janúar 1999, sbr. ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu.

Um 2. gr.

    Ákvæði þetta tengist annars vegar 22. og 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, þar sem fram kemur að embættismenn skuli skipaðir tímabundið til fimm ára, nema kveðið sé á annan veg í lögum. Hins vegar tekur ákvæðið mið af væntanlegum flutningi málaflokksins til sveitarfélaga 1. janúar 1999.
    Með hliðsjón af framansögðu skulu framkvæmdastjórar svæðisskrifstofu skipaðir tímabundið. Vegna væntanlegrar yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga rennur skipunartíminn út um leið og málaflokkurinn færist til sveitarfélaga.

Um 3. gr

    Ákvæðið er til samræmis við 22. og 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, um að embættismenn skuli skipaðir tímabundið í fimm ár. Jafnframt er það til samræmis við framangreind lög að aðrir starfsmenn séu ráðnir til starfa.

Um 4. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að veita félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum styrk sem nemur öllu framlagi framkvæmdaraðila félagslegra leigubúða og kaupleiguíbúða í leigu. Hins vegar er einungis heimilt að veita sveitarfélögum styrk sem nemur helmingi framlagsins. Framlag framkvæmdaraðila er nú 10% af kostnaðarverði íbúða, en lán Byggingarsjóðs verkamanna 90%. Núgildandi fyrirkomulag felur því í sér að sveitarfélag getur fengið styrk úr Framkvæmdasjóði fatlaðra sem nemur 5% af kostnaðarverði íbúða, en félagasamtök og sjálfseignarstofnanir fá 10%. Þessi tvískipting milli réttar sveitarfélaga annars vegar og annarra aðila hins vegar til styrkveitingar af þessu tagi þykir ekki hafa gefist vel. Rétt þykir að ýta undir það að sveitarfélög komi upp íbúðum til leigu fyrir fatlaða ekki síður en félagasamtök og sjálfseignarstofnanir. Því er lagt til að viðkomandi aðilar verði jafnt settir í þessum efnum, þ.e. heimilt verði að veita báðum aðilum styrk sem nemur öllu framlagi framkvæmdaraðila, þ.e. 10% af kostnaðarverði íbúða miðað við núgildandi lög um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Um 5. gr.

    Ástæða þess að lagt er til að gildistaka 2. og 3. gr. frumvarpsins verði bundin við 1. janúar 1997 er sú að gætt sé samræmis við gildistökuákvæði í frumvarpi til laga um breytingu á sérákvæðum í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem lagt hefur verið fram á yfirstandandi haustþingi. Rétt þykir að ákvæði er varða tímabundna skipun embættismanna innan málefna fatlaðra eigi heima í þessu frumvarpi fremur en í fyrrnefndu frumvarpi.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Vísað er til skýringa í almennum athugasemdum frumvarpsins.Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum


um málefni fatlaðra, nr. 59/1992.


    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem lúta annars vegar að fyrirhugaðri yfirtöku sveitarfélaga á málaflokknum frá 1. janúar 1999 og hins vegar nauðsynlegum breytingum vegna ákvæða laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Í 40. gr. gildandi laga er heimild til þess að greiða úr Framkvæmdasjóði fatlaðra 10% framlag félagasamtaka og sjálfseignarstofnana til félagslegra leiguíbúða og kaupleiguíbúða í leigu en Byggingarsjóður verkamanna fjármagnar 90%. Annað gildir um sveitarfélög sem framkvæmdaraðila, en þau fá greidd 5% af framlagi. Í frumvarpinu er lagt til að styrkur þessi megi nema öllu framlagi framkvæmdaraðila. Gert er ráð fyrir að sá kostnaður sem af þessu kann að hljótast verði tekinn af öðrum viðfangsefnum sjóðsins. Ef sveitarfélögum hefðu verið greidd 10% í stað 5% á árunum 1993-1996 hefði kostnaðurinn aukist um 4,9 m.kr. á áætluðu meðalverðlagi ársins 1996 eða 1,2 m.kr að jafnaði á ári. Tilgangurinn með þessari breytingu er að jafna aðstöðu þessara aðila auk þess sem rétt þykir að ýta undir að sveitarfélög komi upp íbúðum til leigu fyrir fatlaða.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi önnur áhrif á útgjöld ríkissjóðs.Fylgiskjal II.


Sameining sveitarfélaga 1. janúar 1992 til 31. júní 1996.


    Fellshreppur og Óspakseyrarhreppur í Strandasýslu verða Broddaneshreppur.
    Hörðudalshreppur og Miðdalahreppur í Dalasýslu verða Suðurdalahreppur.
    Beruneshreppur, Búlandshreppur og Geithellnahreppur í Suður-Múlasýslu verða Djúpavogshreppur.
    Landmannahreppur og Holtahreppur í Rangárvallasýslu verða Holta- og Landsveit.
    Öxarfjarðarhreppur og Fjallahreppur í Norður-Þingeyjarsýslu verða Öxarfjarðarhreppur.
    Suðurdalahreppur, Haukadalshreppur, Laxárdalshreppur, Hvammshreppur, Fellsstrandarhreppur og Skarðshreppur í Dalasýslu verða Dalabyggð.
    Ólafsvíkurbær, Staðarsveit, Breiðuvíkurhreppur og Neshreppur utan Ennis í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu verða Snæfellsbær.
    Keflavíkurbær, Njarðvíkurbær og Hafnahreppur verða Reykjanesbær.
    Neskaupstaður og Norðfjarðarhreppur verða Neskaupstaður.
    Barðastrandarhreppur, Rauðasandshreppur, Patrekshreppur og Bíldudalshreppur í Vestur-Barðastrandarsýslu verða Vesturbyggð.
    Þórshafnarhreppur og Sauðaneshreppur verða Þórshafnarhreppur.
    Norðurárdalshreppur, Stafholtstungnahreppur, Borgarnesbær og Hraunhreppur í Mýrasýslu verða Borgarbyggð.
    Eyjarhreppur og Miklaholtshreppur verða Eyja- og Miklaholtshreppur.
    Nauteyrarhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu og Hólmavíkurhreppur í Strandasýslu verða Hólmavíkurhreppur.
    Snæfjallahreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu og Ísafjarðarkaupstaður verða Ísafjarðarkaupstaður.
    Höfn, Mýrahreppur og Nesjahreppur verða Hornafjarðarbær.
    Reykjarfjarðarhreppur, Súðavíkurhreppur og Ögurhreppur verða Súðavíkurhreppur.
    Sléttuhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu sameinaður Ísafjarðarkaupstað verður Ísafjarðarkaupstaður.
    Flateyrarhreppur, Ísafjarðarkaupstaður, Mosvallahreppur, Mýrahreppur, Suðureyrarhreppur og Þingeyrarhreppur verða Ísafjarðarbær.

Sameining félagsmálanefnda frá gildistöku laga um félagsþjónustu


sveitarfélaga, nr. 40/1991, fram til október 1996.


    Félagsmálanefnd fyrir Andakílshrepp, Skorradalshrepp, Lundarreykjadalshrepp, Reykholtsdalshrepp og Hálsahrepp.
    Félagsmálanefnd Mýrasýslu. Álftanes-, Hvítársíðu-, Þverárhlíðar- og Borgarhreppur.
    Félagsmálaráð Vestur-Húnavatnssýslu. Fremri-Torfustaða-, Hvammstanga-, Kirkjuhvamms-, Staðar-, Ytri-Torfustaða-, Þorkelshóls- og Þverárhreppur.
    Félagsmálanefnd Hjaltastaðarhrepps og Eiðahrepps.
    Félagsmálanefnd Hlíðarhrepps, Jökuldalshrepps og Tunguhrepps.
    Félagsmálanefnd Hornafjarðarbæjar, Bæjarhrepps, Borgarhafnarhrepps og Hofshrepps.
    Félagsmálanefnd Kolbeinsstaðahrepps og Eyja- og Miklaholtshrepps.


Fylgiskjal III.


Sérálit fulltrúa Landssamtakanna Þroskahjálpar.


    Breytingartillögur minni hluta nefndar um endurskoðun laga um málefni fatlaðra,
Ástu B. Þorsteinsdóttur, fulltrúa Landssamtakanna Þroskahjálpar
    Breyting á ákvæðum til bráðabirgða:
    C-liður orðist svo: Sérstök lög um greiningu fatlana, ráðgjöf og aðra sérhæfða þjónustu á landsvísu.
    Við ákvæði til bráðabirgða bætist nýr liður svohljóðandi:
    d. Lög um réttindagæslu á landsvísu.

Athugasemdir við frumvarpið.


    Landssamtökin Þroskahjálp eru sammála í meginatriðum frumvarpinu og þeim athugasemdum sem fylgja með því og virða það að fjölmargar athugasemdir og ábendingar samtakanna hafa verið teknar til greina í nefndarvinnunni. Þó telja samtökin það óráðlegt að einstökum atriðum sé ekki fylgt skýrar eftir með beinum breytingartillögum við núgildandi lög eða í bráðabirgðaákvæðum þessa frumvarps.
    Landssamtökin Þroskahjálp hafa allt frá árinu 1993 hvatt eindregið til þess að ábyrgð á þjónustu við fatlaða yrði færð til sveitarfélaga, að þeim skilyrðum uppfylltum að fjármagn fylgdi með, að réttindagæsla fyrir fatlaða væri styrkt og að ákveðin sérhæfð þjónusta, t.d. við fólk með fátíðar fatlanir, væri tryggð á landsvísu.
    Landssamtökin Þroskahjálp telja það forsendur fyrir því að þessi verkefnatilfærsla gangi eftir til hagsbóta fyrir fatlaða og fjölskyldur þeirra að frá þessum þáttum verði gengið með t.d. nýjum lögum um réttindagæslu fatlaðra á landsvísu, breytingum á lögum um ýmsar sérhæfðar þjónustustofnanir fyrir fatlaða. Því leggja samtökin það til að í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins komi ofangreind atriði auk þeirra þátta sem eru tilgreindir þar.
    Þegar horft er til reynslu nágrannaþjóða okkar kemur það skýrt í ljós að þetta voru þeir þættir sem ekki hafði verið gaumur gefinn fyrir flutning á þjónustu við fatlaða til sveitarfélaganna. Reynsla Dana var sú að sérhæfð þekking glataðist að nokkru leyti, þannig að nú hefur verið brugðið á það ráð að setja á stofn miðstöðvar þekkingar um einstakar fatlanir. Það var einnig reynsla Dana að yfirsýn yfir afleiðingar og samspil ýmissa aðgerða stjórnvalda var fyrir borð borin og mismununar í þjónustu milli einstakra sveitarfélaga eða á milli hópa fatlaðra varð vart. Því hafa þeir komið á sérstakri jafnréttisstofnun til þess að vaka yfir réttindum og réttindagæslu á landsvísu. Í Svíþjóð hefur verið stofnað embætti umboðsmanns fatlaðra af sömu ástæðum. Áður en þjónusta við fatlaða í Noregi var flutt til sveitarfélaga var skýrt skilgreint og um það sett lög og reglugerðir um sérhæfða þjónustu við fólk með fátíðar fatlanir.
    Í Finnlandi hefur þjónusta við fatlaða óheft verið flutt til sveitarfélaganna án þess að aðgát væri höfð á ofangreindum þáttum. Afleiðingar þess hafa verið mjög alvarlegar m.a. dauðsföll íbúa í einstökum sveitarfélögum, að því að talið er vegna lélegs aðbúnaðar og þjónustu.
    Þá má benda á það að verksvið trúnaðarmanna hér á landi er skilgreint mjög þröngt, þ.e. að þeir eiga eingöngu að sjá um réttindagæslu fyrir þá sem búa á heimilum eða stofnunum sem skilgreind eru í lögum um málefni fatlaðra. Þetta hefur m.a. leitt til þess að þeir fjölmörgu sem hafa nýtt sér þann kost á að fá liðveislu til sjálfstæðrar búsetu eiga ekki rétt til þjónustu trúnaðarmanna. Þetta og fjölmargt annað sem betur má fara hefur ítrekað verið bent á af hálfu trúnaðarmanna fatlaðra.
    Því leggja Landssamtökin Þroskahjálp svo ríka áherslu á að þessum málum verði gefinn sérstakur gaumur í meðförum Alþingis og það tryggt að sérstök lög verði sett um réttindagæslu á landsvísu og að sértækri þjónustu verði fundinn staður, hugsanlega með breytingum á gildandi lögum um einstakar þjónustustofnanir. Þessi sjónarmið eiga einnig víðtækan stuðning hjá einstökum aðildarfélögum Öryrkjabandalags Íslands, m.a. Félagi heyrnarlausra, Blindrafélaginu, Geðhjálp, og Umsjónarfélagi einhverfra og sem kom fram í málflutningi fulltrúa þessara félaga á fundi nefndarinnar.
    Í nefndaráliti með núgildandi lögum var á það bent að sérstaklega þurfi að gefa gaum réttarstöðu þeirra sem búa á sólarhringsstofnunum og sér í lagi stofnunum sem eru skilgreindar sem heilbrigðisstofnanir. Frá því að núgildandi lög voru sett hefur ein sólarhringsstofnun verið lögð niður, Sólborg á Akureyri, og hafist hefur verið handa við að flytja íbúa fyrrverandi Kópavogshælis, nú Endurhæfingarstöð Landspítalans í Kópavogi, í aðra búsetu. Engin áform eru enn komin um framhald á því verki, en aðeins fyrsta áfanga er lokið. Landssamtökin Þroskahjálp leggja ríka áherslu á að Alþingi fjalli um og skýri rétt þessara hópa til að njóta grundvallarmannréttinda.

F.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar,Ásta B. Þorsteinsdóttir.