Ferill 24. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 24 . mál.


326. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1997.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Magnús Pétursson, Halldór Árnason og Arnar Jónsson frá fjármálaráðuneyti. Þá komu einnig á fund nefndarinnar Halldór Jónatansson og Örn Marinósson frá Landsvirkjun, Halldór J. Kristjánsson frá iðnaðarráðuneyti, Benedikt Jónsson og Þórður Ingvi Guðmundsson frá utanríkisráðuneyti, Friðrik Andersen frá samgönguráðuneyti, Pétur Guðmundsson frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Sigurður Helgason, Gunnar Olsen og Guðmundur Pálsson frá Flugleiðum hf., Logi Úlfarsson frá Íslenskum markaði hf., Kolbeinn Kristinsson og Birgir Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökunum, Hákon Sigurgrímsson frá landbúnaðarráðuneyti, Jón Vilmundarson frá Stóðhestastöð ríkisins í Gunnarsholti, Guðmundur Malmquist frá Byggðastofnun og Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að heildarlántökuheimild ráðherra lækki um 200 millj. kr., sbr. breytingartillögu við 3. gr.
    Lagðar eru til þrjár breytingar við 3. gr. Í fyrsta lagi að endurlánsheimild til Lánasjóðs íslenskra námsmanna lækki um 170 millj. kr. Er það gert á grundvelli þess að í endurskoðaðri fjárhagsáætlun sjóðsins er gert ráð fyrir að greiðendum fjölgi um 1.600 á næsta ári auk þess sem afborganir verði minni en samkvæmt fyrri áætlunum. Í öðru lagi er lagt til að heimild til að endurlána til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar lækki um 530 millj. kr. Er það gert þar sem ákveðið hefur verið að fresta þeim framkvæmdum við flugstöðina sem kynntar eru í frumvarpinu en þess í stað verður eingöngu ráðist í breytingar á innritunarsal og önnur tengd verk. Áætlaður kostnaður við þær breytingar er allt að 120 millj. kr. Samkvæmt tillögum fjármálaráðherra mun kostnaður við þessar 120 millj. kr. framkvæmdir verða að hálfu fjármagnaður af tekjum flugmálaáætlunar og að hálfu af tekjum Fríhafnarinnar. Þá er í þriðja lagi lagt til að við bætist nýr töluliður þar sem fjármálaráðherra verði veitt heimild til endurlána allt að 500 millj. kr. til lóðarframkvæmda við iðnaðarsvæðið á Grundartanga vegna fyrirhugaðs álvers Columbia Ventures Corporation.
    Lagt er til að lántökuheimild Landsvirkjunar, sbr. 1. tölul. 4. gr., hækki úr 4.800 millj. kr. í 9.000 millj. kr. Ástæðan fyrir aukinni lánsfjárþörf er áform um virkjunarframkvæmdir á árinu 1997 í þágu fyrirhugaðs 60 þús. tonna álvers Columbia Ventures Corporation á Grundartanga, sem áætlað er að hefji starfsemi um mitt ár 1998, og stækkun Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga sem áætlað er að verði


Prentað upp á ný.

        lokið haustið 1999. Nefndin fjallaði ítarlega um fyrirhugaðar framkvæmdir vegna álvers á Grundartanga, stækkunar járnblendiverksmiðjunnar og nauðsynlegra virkjana sem þeim tengjast. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja eru samningar um byggingu álvers Columbia Ventures Corporation á lokastigi. Eftir að samningar liggja fyrir mun Columbia Ventures Corporation leita fjármögnunar á fjárfestingu sinni og er áætlað að því verði lokið í marsmánuði 1997. Skilningur nefndarinnar er sá að framkvæmdir við virkjanir muni ekki hefjast nema fyrir liggi verklokaábyrgð vegna byggingar álversins og er lánsheimildin til Landsvirkjunar veitt í því ljósi. Nefndin mun jafnframt taka málið til umfjöllunar á nýjan leik þegar fjármögnunarvinnu Columbia Ventures Corporation er lokið þannig að hún geti lagt mat á stöðu málsins áður en Landsvirkjun hefur framkvæmdir og tekur lán vegna þeirra. Þannig vill nefndin ganga úr skugga um að þær forsendur standist sem upphaflega eru lagðar til grundvallar lánsheimild til Landsvirkjunar. Nefndin vekur sérstaka athygli á því að framkvæmdatími Landsvirkjunar vegna nýs álvers og stækkunar járnblendiverksmiðjunnar er þrjú ár. Á árinu 1997 er fyrirhugað af þessum ástæðum að framkvæma fyrir 5.137 millj. kr., á árinu 1998 fyrir 6.846 millj. kr. og á árinu 1999 fyrir 6.789 millj. kr. eða alls um 19 milljarða kr. Fjárfestingin í álverinu sjálfu mun nema um 12 milljörðum kr. og stækkun járnblendiverksmiðjunnar mun kosta 2,7 milljarða kr. ef af verður. Til viðbótar þarf svo að fjárfesta í hafnarmannvirkjunum og fleiru. Nefndin telur að áhættuna af þessu máli sé unnt að taka þar sem fyrir liggur að ekki verði lagt í virkjanaframkvæmdir nema verklokaábyrgð vegna álversframkvæmdanna sé til staðar og að hið nýja álver muni geta framleitt á kostnaðarstigi sem liggur neðan við miðju í hópi þeirra álvera sem nú selja framleiðslu sína á álmörkuðum. Að sjálfsögðu verður aldrei komist hjá nokkurri rekstraráhættu hjá hinu nýja álveri fremur en í öðrum rekstri en nefndin telur að sú áhætta sé ásættanleg á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um verklokaábyrgð og kostnaðarstig.
    Lagt er til að fjármálaráðherra verði veitt heimild til að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántökur Hafnarsjóðs Grundartangahafnar, allt að 200 millj. kr. til hafnarframkvæmda vegna fyrirhugaðs álvers, Hita- og vatnsveitu Akureyrar, allt að 2.100 millj. kr. til skuldbreytingar eldri lánum, og Lyfjabúðar Háskóla Íslands, allt að 35 millj. kr. til frekari endurbóta á fasteigninni Austurstræti 16. Ríkisábyrgð til Hita- og vatnsveitu Akureyrar er í samræmi við samkomulag fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og bæjarstjórnar Akureyrar frá 7. febrúar 1994.
    Lagt er til að fjármálaráðherra verði heimilt að ábyrgjast mögulega skaðabótakröfu vegna notkunar lyfsins Thalidomide. Vegna auka- og hliðarverkana lyfsins afgreiðir framleiðandi þess það ekki nema viðkomandi ríki veiti slíka ábyrgð, auk þess sem tilvonandi neytendur eru látnir undirrita skjal þess efnis að þeir muni ekki hafa uppi neinar bótakröfur vegna hugsanlegra aukaverkana lyfsins, hvorki á hendur framleiðanda eða ríkissjóði.

Alþingi, 12. des. 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Sólveig Pétursdóttir.


form., frsm.



Einar Oddur Kristjánsson.

Valgerður Sverrisdóttir.

Pétur H. Blöndal.