Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 1 . mál.


334. Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Fjárlög eru stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og ein mikilvægasta efnahagslega ákvörðunin sem tekin er í landinu ár hvert. Vegna stærðar og umfangs fjárlaganna hafa þau víðtæk áhrif á íslenskt efnahagslíf. Þau ráða lífsafkomu fjölda fólks og afkomu byggðarlaga. Fjárlagafrumvarpið er ekki bara upptalning á einstökum útgjaldaliðum og tekjupóstum. Það segir ekki aðeins til um hvað skattar eru áætlaðir háir á fjárlagaárinu eða hvað heilbrigðisþjónusta landsmanna muni væntanlega kosta. Fjárlögin eiga að vera tæki til að gera aðstæður einstaklinga og fjölskyldna bærilegar og við núverandi skilyrði ættu þau að fela í sér jákvæð skilaboð til verkalýðshreyfingarinnar í aðdraganda afdrifaríkra kjarasamninga. Launafólk hefur tekið á sig þungar byrðar á undanförnum árum sem kominn er tími til að létta af því og ef allt væri með felldu ætti fjárlagafrumvarpið að gefa skýrar vísbendingar þar um. Þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hafa aukist, við státum okkur af einhverjum mesta hagvexti innan OECD og efnahagsspár benda til framhalds þar á. Fjárlagafrumvarpið ber það ekki með sér að höfundar þess hafi fylgst með þessari þróun. Á undanförnum árum hefur skattastefnan miðað að því að leggja meiri skatta á heimilin. Sífelldar breytingar á barnabótum, barnabótaauka og vaxtabótum hafa leitt til mikillar óvissu hjá barnafólki og ungum húskaupendum. Það er sérkennileg skattastefna sem boðar upplausn fjölskyldunnar frekar en sameiningu hennar. Þar fyrir utan hafa heimilin þurft að taka á sig aukna skattbyrði til að hægt væri að lækka byrði fyrirtækja. Það er kominn tími til að fjölskyldan verði aftur hornsteinn þjóðfélagsins í stað þess að vera hornsteinn skattakerfisins.

Þjóðhagshorfur og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

    Efnahagsmál hafa að sumu leyti þróast með hagstæðum hætti á þessu ári. Samkvæmt nýjustu spá Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að vöxtur landsframleiðslunnar á þessu ári nemi um 5,5%. Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1997 gerir stofnunin ráð fyrir nokkuð minni hagvexti eða sem nemur 2,5%. Ef þetta gengur eftir verður meðalvöxtur landsframleiðslunnar hér á landi um 3,4% frá árinu 1994 eða um einu prósentustigi hærri en í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar að meðaltali.
    Hagþróunin að undanförnu hefur fremur markast af auknum þjóðarútgjöldum en aukinni innlendri verðmætasköpun. Þetta má glöggt sjá í þeim mikla umsnúningi sem orðið hefur í þróun viðskiptajafnaðarins á þessu ári, en gert er ráð fyrir að viðskiptahallinn muni nema um 9 milljörðum kr. í ár. Sama er uppi á teningnum á næsta ári. Þjóðarútgjöld eru talin munu aukast um 3,5% og á sú aukning aðallega rætur í neysluútgjöldum heimilanna og fjárfestingu. Vöxtur innflutnings er verulegur eða 5,7% samanborið við 2,8% áætlaða aukningu útflutningstekna. Allt þetta mun valda því að viðskiptahallinn á árinu 1997 verður langt yfir viðunandi mörkum miðað við eðlilegt fjárfestingarstig eða um 15 milljarðar kr. Nauðsynlegt er að allir átti sig á því að aukinn viðskiptahalli er ávísun á auknar erlendar skuldir.
    Vart þarf að taka fram að ef af fyrirhuguðum framkvæmdum við nýtt álver á Grundartanga verður munu þjóðhagsforsendur breytast. Þannig áætlar Þjóðhagsstofnun að landsframleiðslan aukist um 4,5% í stað 2,5% ef af þessu verður og viðskiptahallinn fari yfir 20 milljarða kr. Við slíkar aðstæður hefur stefnan í ríkisfjármálum veigamikið gildi ef halda á verðlagsforsendum og skuldaþróun innan eðlilegra marka.
    Minni hlutinn telur allt benda til meiri hagvaxtar á næsta ári en boðað er í frumvarpinu og eru tekjur þess vegna verulega vanáætlaðar. Aukin umsvif og neysla skila tekjum í ríkissjóð sem verða mun meiri á þessu ári en gert var ráð fyrir í fjárlögum og augljóslega meiri á næsta ári en áætlað er í frumvarpinu. Rétt er að nýta þann tekjuauka til að bæta skuldastöðu ríkissjóðs, en ekki er síður mikilvægt að nýta hann til þess að rétta af stefnuna í menntakerfinu, heilbrigðis- og tryggingakerfinu og félagslega kerfinu. Niðurskurður síðustu ára í þessum málaflokkum hefur komið harkalega niður á almenningi og veldur meiri kostnaði til lengri tíma litið, bæði hjá einstaklingum og þjóðfélaginu í heild.

Fjárhagsstaða heimilanna.
    Gríðarleg skuldasöfnun hefur átt sér stað hjá heimilunum í landinu á undanförnum árum. Í upphafi níunda áratugarins námu skuldir heimilanna um 24,1% af ráðstöfunartekjum þeirra. Á þessu ári er áætlað að samsvarandi hlutfall nemi um 131,3%. Greiðslubyrði lána hefur að sama skapi stóraukist og takmarkað svigrúm margra fjölskyldna, ekki síst tekjulágra, til að framfleyta sér á þann hátt sem við öll gerum kröfur til í nútímasamfélagi. Þegar skuldaaukning er orðin svo mikil að ráðstöfunartekjur heimilanna á heilu ári duga ekki til uppgreiðslu þeirra blasir alvarlegur vandi við.
    Í lok þessa árs áætlar Seðlabankinn að heildarskuldir heimilanna muni nema tæpum 350 milljörðum kr. Á milli áranna 1995 og 1996 nemur skuldaaukning hátt í 30 milljörðum kr. á föstu verðlagi.
    Hvað skýrir svo óhagstæða þróun í fjármálum heimilanna sem raun ber vitni? Stór hluti þessarar þróunar stafar af því að einkaneysla er fyrst og fremst fjármögnuð með lánum. Undirrótin er án efa að stórum hluta fólgin í óhóflegri bjartsýni um framtíðartekjur sem stjórnvöld hafa ýtt undir með margvíslegum hætti. Hagvöxtur á þessu ári stendur því ótraustum fótum. Gert er ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram á næsta ári.
    Þá veldur það frekari áhyggjum að heimilin, sem halda uppi þessum hagvexti, eru talin auka neysluútgjöld sín í ár sem nemur 7%. Það þýðir að annaðhvort er gengið á sparnað eða safnað skuldum. Hvorugur kosturinn getur talist góður þar sem sparnaður heimilanna er afar lítill fyrir á alþjóðlegan mælikvarða og skuldsetning þegar mikil.
    Það sér því hver maður að efnahagsstefna, sem felur í sér frekari vaxtahækkanir, hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir heimilin við þær aðstæður sem nú hafa verið skapaðar.

Skuldasöfnun hins opinbera.
    Hið opinbera hefur ekki verið fordæmi fyrir heimilin í fjárhagslegu tilliti undanfarin ár. Skuldasöfnun opinberra aðila er nú komin á það stig að ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur. Seðlabankinn áætlar að í lok þessa árs nemi samanlagðar skuldir A-hluta ríkissjóðs og sveitarfélaga rúmum 275 milljörðum kr. Í hlutfalli við landsframleiðslu nema skuldirnar 53,3%. Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1995 koma fram sláandi tölur í þessu samhengi. Þar segir að ráðstafa þyrfti öllum skatttekjum ríkissjóðs í tvö ár ef greiða ætti niður skuldir hans.
    Sífellt er hamrað á því að opinberar skuldir fari lækkandi og er þá vitnað til skulda í hlutfalli við ýmsar hagstærðir. Það ætti hins vegar að vera hagsmunamál allra, bæði stjórnmálamanna og almennings, að horfast í augu við skuldavandann í stað þess að hengja sig ætíð í hlutfallstölur sem eru síbreytilegar milli tímabila til að réttlæta tiltekna stefnu. Kjarni málsins er sá að skuldir opinberra aðila aukast á þessu ári að raungildi úr rúmum 278 milljörðum kr. á árinu 1995 í rúman 281 milljarð kr. Þetta kemur skýrt fram í töfluviðauka við frumvarpið. Þá verður ekki fram hjá því litið að ríkisfjármálastefna sem bregst ekki af fullum þunga við þeim gríðarlega halla sem myndast hefur í viðskiptum þjóðarinnar við útlönd er í reynd skuldastefna. Við núverandi aðstæður eru ríkisfjármálin langvirkasta tækið til að bregðast við viðskiptahallanum.

Fjárfestingar.
    Í þjóðhagsáætlun til aldamóta er gert ráð fyrir að fjárfestingar aukist verulega hjá fyrirtækjum og heimilum. Einnig er gert ráð fyrir að framleiðnin í þjóðarbúskapnum aukist. Heildarútflutningur eykst um 3,5% og aukning innflutnings verður um 3%. Ef þessi spá gengur eftir mun viðskiptahallinn snúast og afgangur verða. Það verður að gerast ef takast á að lækka erlendar skuldir. Minni hlutinn telur að erlendar skuldir megi ekki vera hærri en 35–40% af landsframleiðslu ef unnt á að vera að ráða við sveiflur sem skapast af því að okkar afkoma byggist aðallega á sjávarútvegi.
    Lítil fjármunamyndun er alvarleg meinsemd í efnahagsstjórn. Á árunum 1992–94 varð um fjórðungssamdráttur á þessu sviði og þrátt fyrir lítils háttar aukningu síðan er Ísland í hópi þeirra þjóða sem hafa hvað lægst hlutfall fjármunamyndunar af landsframleiðslu eða 15,5%. Að jafnaði er náið samband á milli fjármunamyndunar og atvinnustigs. Það er hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma að stuðla að fjárfestingu og nýsköpun í atvinnulífinu og skapa þannig störf fyrir ungt fólk sem streymir inn á vinnumarkaðinn. Skortur á slíkri stefnu er ávísun á viðvarandi atvinnuleysi. Varanlegum stoðum verður ekki skotið undir hagvöxt í framtíðinni nema hlutfall fjármunamyndunar hækki. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að lækka viðhalds- og fjárfestingarframlög verulega til þess að sporna við þenslu. Minni hlutinn varar við að láta eignir ríkisins drabbast niður vegna skorts á viðhaldi og endurbótum.

Launa- og atvinnumál.
    Meðal launafólks gætir vaxandi óþolinmæði og gremju yfir kjörum. Það er öllum ljóst að þjóðarsáttarsamningarnir byggðust á því að verkafólk axlaði að mestu byrðarnar af því að koma stöðugleikanum á. En forréttindahópar áttu að bera sinn skerf. Gerðu þeir það? Ákveðið var að frysta að mestu þáverandi ástand í launamálum með því óréttlæti sem í því er, enda talið mikilvægast að ná tökum á íslensku efnahagslífi. Það hefur tekist og er komið að því að stjórnvöld styðji við bakið á verkalýðshreyfingunni og mæti kröfum hennar um réttlátari skiptingu teknanna láglaunafólki til hagsbóta og jafnframt að treysta það öryggisnet sem velferðarkerfið á að vera sjúkum, öldruðum og láglaunafólki. Áform ríkisstjórnarinnar eru til þess fallin að vekja upp efasemdir um að stjórnvöld muni standa við sinn þátt þjóðarsáttarsamninganna. Stjórnarstefnan hefur svipt burt þeim trúnaði sem áður ríkti milli verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda og er þannig orðin sjálfstætt efnahagsvandamál. Aftenging atvinnuleysisbóta og bóta ellilífeyrisþega og öryrkja er eitt þeirra atriða sem verður að breyta til fyrra horfs og tryggja verður að þær fylgi almennri launaþróun í landinu.
    Launafólk á Íslandi er dæmt til þess í launa- og skattkerfinu að reyna að ná endum saman með vinnutíma sem er allt að þremur mánuðum lengri á ári en gerist meðal grannþjóða okkar. Í þessu fjárlagfrumvarpi er ekki að finna neinar tillögur eða stefnu sem tekur á þessum málum. Minni hlutinn átelur harðlega að einmitt nú, þegar við stöndum frammi fyrir allsherjarkjarasamningum við gerbreytt skilyrði eftir samdráttarskeið og í nýju efnahagsumhverfi, reyni stjórnvöld ekki að ná árangri með því að leggja fram efnahagsstefnu sem er þess eðlis að hún sannfæri launafólk um að hugur fylgi máli. Það virðist ekki vera alvara í því af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda að gera hvort tveggja, að breyta skattkerfinu í þá átt að það verði vinnuhvetjandi en ekki letjandi og stuðli að réttlátari tekjudreifingu og sýna fram á að þessi efnahagsstefna verði haldbær, eins og hún reyndist vera í hallærinu, og þoli líka góðærið.
    Verulega minna fjármagn rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári en á þessu. Að hluta til skýrist það af áætlun um minna atvinnuleysi eða 0,2% sem er áætlað um 130 millj. kr. En það eru líka boðaðar hertar úthlutunarreglur sem ástæða er til að vara við.
    Minni hlutinn telur skilnings- og afskiptaleysi ríkisstjórnar Davíðs Oddsonar gagnvart höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar óþolandi. Skilningsleysið birtist í því að láta hvers kyns óréttlæti dafna í viðskiptum með sameign þjóðarinnar, hugmyndum um að heimila veðsetningu kvóta og afskiptaleysi gagnvart því að lög séu brotin, þegar sjómenn eru látnir taka þátt í rekstri útgerðar með þátttöku í kvótaleigu og verða að sæta brottrekstri ef þeir sætta sig ekki við það sem útgerð vill skammta þeim eins og nýleg dæmi sanna.

Heilbrigðismál.
    Velferðarkerfi þjóðarinnar er einn mikilvægasti hlekkur samfélagsins. Það á að stuðla að jöfnuði meðal fólks og tryggja lágmarksafkomu þeirra fjölskyldna og einstaklinga sem lent hafa í sérstökum erfiðleikum. Í þessu fjárlagafrumvarpi er á mörgum sviðum þrengt að velferðarkerfinu og getu þess til að sinna skyldum sínum. Framlög til sjóða eru skorin niður, atvinnuleysisbætur skertar og sjúkrahúsin látin búa við vaxandi rekstrarvanda. Jákvæðar, uppbyggjandi aðgerðir skortir.
    Útgjöld til heilbrigðismála hafa árlega verið helsti skotspónn sparnaðaraðgerða. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt því að til þess málaflokks fara um 41,6 % af útgjöldum íslenska ríkisins, eða 52 milljarðar kr. í fjárlagafrumvarpinu. Gæta þarf aðhalds og huga af kostgæfni að því hvernig þessum háu fjárhæðum er varið. Ráðdeild og sparnaður í þessum mikilvæga málaflokki er stöðugt verkefni. Á hinn bóginn verður að standa vörð um rétt landsmanna til bestu fáanlegrar þjónustu.
    Það er gagnrýni vert að meiri hlutinn hafi ekki getað afgreitt rekstur sjúkrastofnana frá nefndinni fyrir 2. umræðu fjárlaga. Tillögur um niðurskurð vegna rannsókna og röntgengreininga sem nemur 100 millj. kr. hafa verið kynntar lauslega í nefndinni en engin útfærsla á framkvæmd. Ekki virðist vilji til sértækra aðgerða til að stytta biðlista vegna bæklunaraðgerða þar sem 1.400–1.500 manns bíða aðgerða. Alls bíða yfir 3.000 manns eftir mismunandi aðgerðum samkvæmt upplýsingum landlæknis. Halli allra sjúkrahúsanna í landinu frá fyrri árum nemur að minnsta kosti 800 millj. kr. og samkvæmt framlögðum gögnum vantar að minnsta kosti 1–1,5 milljarða kr. til að mæta þeirri þörf sem stjórnendur telja fyrir hendi.
    Minni hlutinn telur brýna nauðsyn á nýrri stefnumörkun í heilbrigðismálum í stað handahófskennds niðurskurðar við fjárlagagerð ár hvert og telur sýnt að lengra verði ekki gengið á þessari braut. Minni hlutinn lýsir andstöðu við aukna gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og telur að ekki megi víkja frá þeim meginþætti í heilbrigðislöggjöf okkar að fólki skuli ekki mismunað eftir efnahag.

Húsnæðismál.
    Ástæða er til að fara nokkrum orðum um Byggingarsjóð verkamanna. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að stefnt skuli að stórfelldum skerðingum framlaga til hans. Þessi skerðing er aðför að sjóðnum og samkvæmt nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar stefnir í gjaldþrot sjóðsins með sama áframhaldi. Minni hlutinn lýsir allri ábyrgð á stöðu sjóðsins á hendur ríkisstjórninni.
    Minni hlutinn vill leggja áherslu á að úrræða verði leitað til að auka möguleika ungs fólks til að fjárfesta í húsnæði. Þá er ljóst að auka þarf framboð á leiguhúsnæði og tryggja betur en nú stöðu leigjenda á fasteignamarkaðinum.

Framkvæmdasjóður fatlaðra.
    Minni hlutinn varar við aðgerðum ríkisstjórnar varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra Þegar sjóðurinn tók við ákveðnum hluta af rekstrarkostnaði í þessum málaflokki var það raunverulega samkvæmt samkomulagi í síðustu ríkisstjórn og það var sett í fjárlögin þá að við það væri miðað að ef þessi sjóður ætti að einhverju leyti að fjármagna rekstur yrði tryggt að hann fengi óskertar tekjur af erfðafjárskatti sem nú eru 420 millj. kr. Nú eru einungis 165 millj. kr. settar í sjóðinn þannig að um 255 millj. kr. renna í ríkissjóð. Minni hlutinn telur að hér sé um alvarlega aðgerð og mjög vafasama að ræða þar sem þótt ekki sé verið að skera niður reksturinn núna fer framkvæmdageta sjóðsins mjög minnkandi og það mun koma fram í stöðnun í uppbyggingu á málefnum fatlaðra á næstu árum og lengingu biðlista.

Menntakerfi í upplausn.
    Fjárlögin eru hin raunverulega yfirlýsing stjórnvalda um menntastefnu og menntunarmöguleika ungs fólks í heimi sem breytist óðfluga. Við Íslendingar veitum minna til menntamála en allar nágrannaþjóðir okkar og vísinda- og rannsóknastarfsemi er aftarlega í forgangsröðinni. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur í verki sýnt mikilvægi menntunar fullkomið skilningsleysi þrátt fyrir loforð um annað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar voru hástemmd loforð höfð í frammi um að vegur menntunar skyldi aukinn, lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna endurskoðuð og Nýsköpunarsjóður námsmanna styrktur. Það sem af er kjörtímabili ríkisstjórnarinnar hefur menntakerfið verið í stórkostlegri afturför, enda hefur þjóðfélagið logað í illdeilum vegna menntastefnu stjórnarinnar. Í fyrra var ráðist að kennurum ásamt öðrum ríkisstarfsmönnum með breytingum á lögum um starfsmenn ríkisins þrátt fyrir mikla andstöðu þeirra og samtaka þeirra. Háskólinn hefur verið sveltur svo að ráðamenn þar á bæ hafa lýst því yfir að þeir treysti sér ekki til að halda uppi viðunandi gæðum í kennslu og þjónustu, framhaldsskólar og starfsmenntun eru fórnarlömb handahófskennds niðurskurðar í ár og þeir sem verst fara út úr niðurbrotinu eru að sjálfsögðu notendur menntakerfisins, sjálfir námsmennirnir. Framtíð þjóðarinnar, fólkið sem á að taka við þjóðarskútunni, býr við síauknar álögur í formi ýmiss konar skólagjalda og nú síðast birtist óendanlegt hugmyndaflug ríkisstjórnarinnar í endurinnritunargjaldi eða fallskatti. Lánasjóður íslenskra námsmanna er enn í sama farinu og þegar ríkisstjórnin tók við þrátt fyrir loforð framsóknarmanna um breytta stefnu í þeim málum fyrir kosningar. Menntastefna ríkisstjórnarinnar er hættuleg landi og þjóð, hún rýrir samkeppnisstöðu Íslendinga á alþjóðavettvangi og brýtur niður alla framþróun þjóðarinnar. Og það allra versta er kannski sú staðreynd að ríkisstjórnin hefur með markvissum aðgerðum séð til þess að aðeins þeir sem eiga fjárhagslegan hauk í horni geta notið þeirra forréttinda að mennta sig. Sú þróun er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í öðrum málaflokkum þar sem sífellt er þrengt að þeim sem nota samfélagslega þjónustu, svo sem fötluðum, öryrkjum og öldruðum.
    Munu nú einstakir þættir menntakerfisins teknir til umfjöllunar.

A.     Grunnskólar og leikskólar.
    Með flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna var grundvallarbreyting gerð á skólakerfi landsmanna og enn er ekki séð fyrir endann á því hvort sú ráðstöfun hafi verið til góðs. Pólitísk sátt var um málið á Alþingi þótt fulltrúar stjórnarandstöðunnar hefðu ýmsa fyrirvara á stuðningi sínum við málið. Grundvöllur þess að sátt verði um málið í framtíðinni er að sveitarfélögunum verði tryggður fjárhagslegur grunnur til að standa sómasamlega að uppbyggingu skólanna, en samkomulag var gert á milli ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga í mars sl. um flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga. Framlag til málaflokksins Grunnskólar og leikskólar er í frumvarpi til fjárlaga áætlað um 1.618 millj. kr. sem er lækkun um 5 milljarða kr. frá fjárlögum þessa árs. Flutningur grunnskólans til sveitarfélaga mun leiða til lækkunar á útgjöldum menntamálaráðuneytisins um 6,2 milljarða kr., en á móti koma sérstakar greiðslur til sveitarfélaga á árinu 1997, samtals að fjárhæð um 1,2 milljarðar kr., vegna flutnings grunnskólans. Við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 1996 kom í ljós að greiðslur vegna þessa voru vanmetnar fyrir árið 1996 og þurfti að sækja um viðbótarheimild upp á 239 millj. kr. Þá er fyrirhugað að breyta verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga hvað varðar þjónustu við fötluð börn í leikskólum, en mikilvægt er að sú breyting komi á engan hátt niður á þjónustu við börnin.
    Sveitarfélögin hafa mótmælt síauknum álögum af hálfu ríkisins sem koma óneitanlega niður á þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að veita. Leggur minni hlutinn áherslu á mikilvægi samráðs við sveitarfélögin um skuldbindingar sem lagðar eru þeim á herðar þar sem þeim hafa verið falin æ stærri verkefni í seinni tíð. Rekstur grunnskólans er eitt slíkt og flutningur hans til sveitarfélaga má ekki verða til þess að landsmönnum verði mismunað eftir búsetu og efnahag.

B.     Framhaldsskólar og sérskólar.
    Stórfelldur niðurskurður til framhaldsskólanna í fjárlögum þessa árs hefur orðið tilefni mótmæla og mikillar ólgu í þjóðfélaginu. Af fyrirhuguðum niðurskurði upp á um 200 millj. kr. hefur verið ákveðið að standa við 160 millj. kr., en 40 millj. kr. er áætlað að skila til baka. Hluti þess, eða 20 millj. kr., er fluttur á liðinn Framhaldsskólar, óskipt. Ætlunin er að þeim fjármunum verði varið til að standa straum af kostnaði við fyrirhugaða samninga, skipulagsbreytingar við framhaldsskólana og innheimtu endurinnritunargjalds. Er að nokkru leyti verið að koma til móts við hörð mótmæli gegn fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til nokkurra skóla á landsbyggðinni, þ.e. Framhaldsskólans á Laugum, í Austur-Skaftafellssýslu, á Húsavík og Skógarskóla. Þá er ætlað að 20 millj. kr. umfram það sem áætlað var í fjárlagafrumvarpinu verði varið til tækjakaupa og lausnar rekstrarvanda nokkurra skóla þannig að nú þegar liggur fyrir að sparnaðaráform ríkisstjórnarinnar í rekstri framhaldsskólanna eru óraunhæf. Þrátt fyrir 40 millj. kr. eftirgjöf er staða framhaldsskólanna algerlega óviðunandi og á engan hátt í takt við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um eflingu menntunar.
    Þá hefur hinn umdeildi fallskattur vakið mikla reiði. Það er ótrúlega lágkúruleg fjáröflunaraðferð sem ríkisstjórnin fer hér af stað með. Átelur minni hlutinn harðlega slík vinnubrögð, enda mun hann flytja breytingartillögur til að afnema þennan fyrirhugaða skatt. Í skýringum með frumvarpi til fjárlaga er gjaldtakan sögð vera lögð til í þeirri von að hún leiði til markvissari innritunar, og auðveldi skipulagningu kennslu, fremur en til útgjalda nemenda. Þessari skýringu vísar minni hlutinn algerlega á bug. Í fyrsta lagi má stórlega efast um þá kenningu að slík gjaldtaka leiði til markvissari innritunar en nú, hvað þá heldur að hún auðveldi skipulagningu kennslu. Ekkert hefur komið fram sem sýnir þetta. Þá er ljóst að skatturinn leiðir til útgjaldaauka nemenda auk þess sem hann leiðir til þess að þeim sem þurfa á stuðningi að halda er með markvissum hætti ýtt út úr skólakerfinu. Á sama tíma ætlar ríkisstjórnin að vísa ungmennum á aldrinum 16–18 ára úr atvinnuleysisbótakerfinu þótt hún hafi ekki nokkur úrræði tiltæk til þess að auka atvinnumöguleika þessa hóps. Minni hlutinn fordæmir þessa aðför ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að ungmennum og varar við afleiðingum slíkrar mismununarstefnu.
    Í nýjum framhaldsskólalögum er lögð áhersla á aukna verkmenntun og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er mikil áhersla einnig lögð á þennan þátt. Þessar áherlsur er alls ekki að finna í fjárlagafrumvarpinu eða í síðari tillögum sem frá menntamálaráðuneytinu hafa komið. Niðurskurðurinn í frumvarpinu bitnar þvert á móti verst á þeim framhaldsskólum sem bjóða upp á verkmenntun á meðan hinir klassísku bóknámsskólar fara betur út úr sparnaðaráformum. Slík stefna er úr takt við kröfur samfélagsins sem einmitt þarfnast öflugri verkmenntunar á meðan offramboð er á stúdentum úr mörgum bóknámsgreinum.

C.     Háskólastigið.
    Samkvæmt frumvarpinu hækkaði fjárveiting til Háskóla Íslands um 89 millj. kr. frá fyrra ári. Að teknu tilliti til verðlagsforsendna mun raunhækkunin hafa numið um 34 millj. kr. Í frumvarpinu er samhengið á milli nemendafjölda og framlaga til menntamála viðurkennt sem vissulega er ný stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar og er fagnaðarefni að loksins skuli þessi sjálfsögðu sannindi mæta skilningi.
    Háskóli Íslands gerði athugasemdir við að ekki hefði verið komið til móts við ósk um fjárveitingu til bóka- og tímaritakaupa upp á 17 millj. kr. og bent var á að erlendar verðhækkanir á bókum hafi leitt til þess að safnið hafi orðið að segja upp 30% áskrifta tímarita næsta árs sem muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir kennslu og rannsóknir skólans. Að hluta til var komið til móts við beiðnina á milli 1. og 2. umræðu, eða með sem svarar 12 millj. kr. Minni hlutinn vill vara við óraunsæjum sparnaðartillögum á þessu sviði og vekur um leið athygli á nauðsyn þess að Þjóðarbókhlaðan sé opin á þeim tímum sem námsmenn þurfa á að halda þannig að safnið nýtist í sem ríkustum mæli. Þá vill minni hlutinn vekja athygli á framkominni beiðni Háskólans á Akureyri um stóraukin framlög til rannsóknastarfsemi sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur ekki fallist á. Framlagið í ár er 13,8 millj. kr. miðað við 13,5 í fyrra en skólinn telur að hækka þurfi þetta um helming eigi skólinn að geta sinnt rannsóknum af metnaði. Sýnir þetta enn og aftur að vilji ríkisstjórnarinnar til að styðja rannsóknir og vísindi ristir ekki djúpt.
    Framlag til Nýsköpunarsjóðs námsmanna er óbreytt frá síðustu fjárlögum þannig að enn og aftur sýnir ríkisstjórnin að hún ætlar ekki að standa við loforð sín gagnvart kjósendum sínum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var lofað að efla sjóðinn, en þess í stað var gerð tilraun til að skerða hann á síðustu fjárlögum og í ár á framlag til hans að standa í stað. Minni hlutinn gerir að tillögu sinni að framlög til sjóðsins verði aukin um 5 millj. kr. sem er síst of há fjárhæð til eflingar sjóðnum.

D.     Starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Í frumvarpinu eru gerðar breytingar á stöðu Starfsmenntasjóðs þannig að sjálfstæð fjárveiting til sjóðsins verður felld niður, en í stað þess verður tryggt að sömu fjármunum verði varið til starfsmenntunar í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð. Að auki er honum ætlað að fjármagna liðinn Atvinnumál kvenna, en þessi verkefni heyrðu áður undir liðinn Vinnumál. Þessi breyting er í engu samræmi við þá umræðu sem átt hefur sér stað á síðari árum um mikilvægi starfsmenntunar, erlendis eða hér á landi á evrópsku ári símenntunar. Minni hlutinn lýsir yfir undrun sinni á þessari breytingu og vísar því á bug að hún geti samræmst áformum ríkisstjórnarinnar um eflingu starfsmenntunar. Þvert á móti velur ríkisstjórnin að gera starfsmenntun að nokkurs konar hliðarbúgrein Atvinnuleysistryggingasjóðs, auk þess sem sköpuð er veruleg hætta á því með breytingunni að þeir fjármunir sem hingað til hafa runnið í Starfsmenntasjóð verði hluti af potti sem bitist er harðlega um. Með breytingunni er komið á fullkomnu óvissuástandi um framtíð starfsmenntamála og þess vegna gerir minni hlutinn það að tillögu sinni að þessum málum verði fyrir komið á sama hátt og áður var. Aðeins þannig er tryggt að þeim fjármunum sem um ræðir verði varið til starfsmenntunar en ekki til annarra verkefna.
    Þá gerir minni hlutinn að tillögu sinni að framlög til Félagsmálaskóla alþýðu verði hækkuð í því skyni að efla starfsmenntun. Minni hlutinn vekur sérstaklega athygli á nauðsyn þess að auka framlög til liðarins 1.40 Námskeið fyrir trúnaðarmenn á vinnustöðum þar sem hlutverk trúnaðarmanna hefur stóraukist með stórfelldum breytingum á lagaumhverfi vinnumarkaðar og auknum áhuga fyrir gerð vinnustaðasamninga.

Umhverfismál.
    Ríkisstjórnin hefur gefið fyrirheit um að hún vilji leggja aukna áherslu á umhverfismál, og gerð framkvæmdaáætlunar í umhverfismálum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi er nú á lokastigi í umhverfisráðuneytinu. Áætlunin er til næstu fjögurra ára og í henni er að finna markmið og leiðir sem augljóslega munu kosta talsvert fé. Verkefnin munu dreifast á nokkur ráðuneyti, en umhverfisráðuneytið þarf að hafa með höndum frumkvæði, skipulagningu, upplýsingar og eftirlit, auk beinna verkefna til að ná settu markmiði. Í fjárlagafrumvarpinu sjást þess hins vegar engin merki að gert sé ráð fyrir aukinni starfsemi ráðuneytisins vegna þessa. Það vekur ugg um að ekki fylgi hugur máli.
    Allar stofnanir umhverfisráðuneytisins sinna mikilvægum og vaxandi verkefnum og þyrftu auknar fjárveitingar ef vel ætti að vera. Minni hlutinn vill sérstaklega benda á aðstæður innan tveggja þessara stofnana.
    Þrátt fyrir aukafjárveitingu á þessu ári til Hollustuverndar ríkisins eru horfur á verulega auknum halla hjá stofnuninni sem henni virðist ætlað að draga áfram á eftir sér. Ástæðan fyrir erfiðum rekstri stofnunarinnar er sú að henni eru sífellt ætluð aukin verkefni án þess að fjárveitingar og stöðuheimildir fylgi. Aukin verkefni eru fyrst og fremst vegna alþjóðlegra samninga og skuldbindinga, svo sem vegna EES o.fl. Þau eru orðin svo rúmfrek að framkvæmd eftirlits og vöktunar situr á hakanum, og sama er að segja um rannsóknir, fræðslu- og leiðbeiningarstörf. Niðurstöður úttektar á verksviði og mannaflaþörf stofnunarinnar, sem unnin var af Skipulagi og stjórnun ehf., eru þær að 20,5 stöðugildi til viðbótar þeim 40 sem fyrir eru sé „alger lágmarksþörf“. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að aðeins verði fjölgað um eitt starf vegna framkvæmdar laga um erfðabreyttar lífverur. Málefnum þessarar stofnunar er með þessu stefnt í algjört óefni.
    Veðurstofan hefur tekið á sig æ fleiri og stærri verkefni á síðustu árum, einkum við vöktun náttúru og umhverfis. Forsvarsmenn stofnunarinnar telja launalið hennar vanáætlaðan um liðlega 11 millj. kr. miðað við óbreytt umfang almennrar starfsemi og telja samdrátt í þjónustu óhjákvæmilegan fáist hann ekki leiðréttur. Meiri hlutinn hefur ekki viljað fallast á það þótt ljóst sé að Veðurstofan þarf aukinn mannskap ef hún á að geta aukið sértekjur sínar eins og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Verra er þó að ekki hefur fengist leiðrétting á framlagi til eignakaupa stofnunarinnar. Sá liður þyrfti 10–20 millj. kr. hækkun, og má til áherslu vitna í rökstuðning Veðurstofunnar sem segir að „120 ársverka stofnun, sem veltir 450 m.kr. (þ.m.t. ICAO, ofanflóðasjóðsverkefni, ESB-styrkt verkefni o.fl.), rekur 150 veðurathugunarstöðvar, 30 jarðskjálftastöðvar, veðurratsjá, tvær háloftastöðvar, 50–60 tölvur, netkerfi til tölvuvinnslu og fjarskipta o.m.fl., gerir nánast ekkert til endurnýjunar búnaðar eða bætir þjónustu með eignakaupalið upp á 10,4 m.kr.“

Forvarnir og aðgerðir vegna vímuefnavandans.
    Stjórnvöld hafa nú loks tekið við sér vegna vaxandi neyslu vímuefna sem veldur ómældum vanda, ekki aðeins einstaklinga og fjölskyldna, heldur þjóðfélagsins alls. Ólögleg efni virðast beinlínis streyma inn í landið, starfsemi innflytjenda og sölumanna teygir krumlurnar um allt samfélagið, neytendur verða sífellt yngri, og ofbeldi verður æ harðara innan þessara hópa. Stjórnvöld hyggjast nú loks taka nokkuð á vandanum og þá fyrst og fremst með því að freista þess að draga úr framboði ólöglegra efni, herða löggæslu og tollgæslu. Því ber að fagna, enda brýn nauðsyn að efla gæslu á því sviði og sérstaklega að herða eftirlit í höfnum landsins. Einnig þarf stórbætta gæslu í Leifsstöð, m.a. vegna ábendinga frá Interpol um vaxandi hættu á að stöðin verði notuð sem skiptistöð til að koma ópíum og heróíni frá Suður-Ameríku til Evrópulanda. Skuggahliðin á þessu átaki stjórnvalda er sú að ekki er nóg að draga úr framboði, heldur þarf með öllum tiltækum ráðum að draga úr eftirspurninni sem er mikil og ört vaxandi, því miður ekki síst meðal ungmenna. Forvarnarþátturinn er vanræktur og illa skipulagður og meðferðarþátturinn er fjársveltur þrátt fyrir augljósan og merkilegan árangur. Þar mætti ná enn betri árangri við björgun og endurhæfingu þeirra sem lent hafa í klóm eiturefnanna. Meiri stuðningur stjórnvalda mundi skila sér margfalt til samfélagsins aftur.

Lokaorð.
    Fjáralaganefnd hefur nánast eingöngu fjallað um útgjaldahlið frumvarpsins og tekjuhlið þess bíður því 3. umræðu. Allt bendir til þess að tekjuhliðin sé verulega vanáætluð og telur minni hlutinn að þar muni a.m.k. 1,5–2 milljörðum kr., m.a. þar sem áætlunin byggir á röngum grunni. Breytingartillögur meiri hlutans nema rúmlega 700 millj. kr. og styður minni hlutinn margar þeirra. Minni hlutinn flytur nokkrar breytingartillögur við gjaldahlið frumvarpsins nú við 2. umræðu sem rúmast fyllilega innan fjárlagarammans.
    Fjárlög markast af efnahagsstefnu þeirrar ríkisstjórnar sem við völd er. Minni hlutinn getur ekki tekið ábyrgð á efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar og mun því sitja hjá við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins.

Alþingi, 12. des. 1996.



Gísli S. Einarsson,

Bryndís Hlöðversdóttir.

Kristinn H. Gunnarsson.


frsm.



Kristín Halldórsdóttir.