Ferill 57. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 57 . mál.


354. Frumvarp til laga



um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

(Eftir 2. umr., 13. des.)



I. KAFLI

Fiskveiðar íslenskra skipa.

1. gr.

    Ákvæði þessa kafla taka til veiða íslenskra skipa úr nytjastofnum utan lögsögu Íslands, sbr. lög um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Til veiða samkvæmt lögum þessum telst hvers konar nýting nytjastofna. Til nytjastofna í þessu sambandi teljast sjávardýr og sjávargróður sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð.

2. gr.

    Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

3. gr.

    Ráðherra getur sett reglur um veiðar íslenskra skipa utan lögsögu sem nauðsynlegar eru til að fullnægja almennum skyldum Íslands til verndunar lifandi auðlindum hafsins eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.

4. gr.

    Öllum íslenskum skipum eru heimilar veiðar utan lögsögu Íslands með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum og reglum settum með stoð í þeim.
    Ráðherra skal með reglugerð binda veiðar íslenskra skipa á úthafinu sérstökum leyfum sé það nauðsynlegt vegna alþjóðlegra samningsskuldbindinga Íslands, til þess að fullnægja almennum ákvörðunum sem teknar eru með stoð í 3. gr., eða til að vernda hagsmuni Íslands að því er varðar fiskstofna sem um ræðir í 5. gr., og eru veiðar í þessum tilvikum óheimilar án slíkra leyfa. Skulu leyfin bundin þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru. Því aðeins er heimilt að veita skipum leyfi samkvæmt þessari grein að eigendur þeirra og útgerðir fullnægi þeim skilyrðum til að stunda veiðar í efnahagslögsögu Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands.
    Ákvæði 2. mgr. gilda einnig um veiðar íslenskra skipa í lögsögu annarra ríkja úr þeim stofnum sem um ræðir í 5. gr.
    Fiskveiðar íslenskra skipa innan lögsögu annarra ríkja eru ekki heimilar nema með leyfi þar til bærra yfirvalda.
    Ráðherra getur sett sérstakar reglur um stjórn veiða íslenskra skipa í þeim tilvikum sem Ísland hefur nýtt rétt sinn til að mótmæla samþykktum um fiskveiðistjórn, sem gerðar hafa verið á grundvelli samnings sem Ísland er aðili að, enda þótt ákvæði 1. málsl. 2. mgr. eigi ekki við. Getur hann í því skyni bundið veiðarnar sérstökum leyfum og eru þær þá óheimilar án slíkra leyfa. Binda má leyfin nauðsynlegum skilyrðum. Ákvæði 5. og 6. gr. gilda í þessum tilvikum eftir því sem við getur átt.

5. gr.

    Um veiðar utan lögsögu Íslands úr stofnum, sem veiðast bæði innan og utan hennar, íslenskum deilistofnum, skulu gilda ákvæði laga um stjórn fiskveiða eftir því sem við getur átt, sbr. þó ákvæði þessarar greinar.
    Sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr slíkum stofni sem samfelld veiðireynsla er á, skal aflahlutdeild einstakra skipa ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu veiðitímabil þeirra á undangengnum sex veiðitímabilum. Veiðireynsla telst samfelld samkvæmt lögum þessum hafi ársafli íslenskra skipa úr viðkomandi stofni a.m.k. þrisvar sinnum á undangengnum sex árum svarað til a.m.k. þriðjungs þess heildarafla sem er til ráðstöfunar af hálfu íslenskra stjórnvalda.
    Ráðherra getur bundið úthlutun skv. 2. og 5. mgr. því skilyrði að skip afsali sér aflaheimildum innan lögsögu Íslands er nemi, reiknað í þorskígildum, allt að 15% af þeim aflaheimildum sem ákveðnar eru á grundvelli þeirra málsgreina. Þær útgerðir sem ekki geta uppfyllt skilyrði þessarar málsgreinar skulu sæta skerðingu á úthlutuðum aflaheimildum samkvæmt þessari grein sem þessu nemur.
    Þeim aflaheimildum sem ekki er úthlutað samkvæmt framansögðu skal ráðstafað með þeim hætti sem um ræðir í 5. mgr.
    Sé ekki fyrir hendi samfelld veiðireynsla úr viðkomandi stofni skal ráðherra ákveða aflahlutdeild einstakra skipa. Skal hann við þá ákvörðun m.a. taka mið af fyrri veiðum skips. Einnig getur hann tekið mið af stærð skips, gerð þess eða búnaði og öðrum atriðum er máli skipta. Þá getur hann ráðstafað veiðiheimildum til skipa þeirra útgerða sem að undangenginni auglýsingu hafa lýst sig með skuldbindandi hætti reiðubúnar til þess að afsala af viðkomandi skipi mestum aflaheimildum, reiknað í þorskígildum, á tegundum sem heildarafli er takmarkaður af.
    Þeim aflaheimildum sem afsalað hefur verið á grundvelli 1. málsl. 3. mgr. eða á grundvelli 5. mgr. skal úthlutað til annarra skipa í hlutfalli við samanlagða aflahlutdeild sem þau hafa, í þorskígildum talið, á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga um stjórn fiskveiða eða á grundvelli þessara laga.
    Ráðherra er heimilt að veita íslenskum skipum, sem ekki hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni í íslenskri lögsögu skv. 1. mgr. 4. gr. laga um stjórn fiskveiða, leyfi til veiða úr þeim stofnum, sem um ræðir í þessari grein, utan lögsögunnar enda uppfylli þau skilyrði lokamálsliðar 2. mgr. 4. gr. þessara laga. Þá skulu slík skip koma til greina við úthlutun aflahlutdeildar enda hafi þau veiðireynslu úr viðkomandi stofni.
    Ráðherra getur, þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar, ákveðið að allt að 5% heildaraflans verði sérstaklega úthlutað til þeirra skipa sem hófu veiðar úr viðkomandi stofni.

6. gr.

    Sé ákveðinn heildarafli úr öðrum stofnum en þeim, sem um ræðir í 5. gr., á grundvelli samnings sem Ísland er aðili að, skal ráðherra setja reglur um veiðar íslenskra skipa á þeim hluta heildaraflans sem kemur í hlut Íslands. Skulu þær reglur tryggja að aflinn verði innan umsaminna marka og getur ráðherra í því skyni skipt veiðiheimildum úr stofninum á hverju veiðitímabili milli einstakra íslenskra skipa.
    Við skiptingu veiðiheimilda úr stofni sem samfelld veiðireynsla er á, skulu veiðiheimildir einstakra skipa ákveðnar á grundvelli veiðireynslu skipanna miðað við bestu þrjú veiðitímabil þeirra á undangengnum sex veiðitímabilum.
    Ráðherra getur bundið úthlutun skv. 2. og 6. mgr. því skilyrði að skip afsali sér aflaheimildum innan lögsögu Íslands er nemi, reiknað í þorskígildum, allt að 7% af þeim aflaheimildum sem ákveðnar eru á grundvelli þeirra málsgreina. Þær útgerðir sem ekki geta uppfyllt skilyrði þessarar málsgreinar skulu sæta skerðingu á úthlutuðum aflaheimildum samkvæmt þessari grein sem þessu nemur.
    Þeim aflaheimildum sem ekki er úthlutað samkvæmt framansögðu skal ráðstafað með þeim hætti sem um ræðir í 6. mgr.
    Ráðherra getur ákveðið einstökum skipum fasta hlutdeild í afla til lengri tíma en eins veiðitímabils þegar veiðiheimildum er úthlutað skv. 2. mgr. og getur hann þá ákveðið að ákvæði laga um stjórn fiskveiða varðandi framsal veiðiheimilda gildi eftir því sem við getur átt.
    Sé ekki fyrir hendi samfelld veiðireynsla úr viðkomandi stofni skal ráðherra ákveða veiðiheimildir einstakra skipa. Skal hann við þá ákvörðun m.a. taka mið af fyrri veiðum skips. Einnig getur hann tekið mið af stærð skips, gerð þess eða búnaði og öðrum atriðum er máli skipta. Þá getur hann ráðstafað veiðiheimildum til skipa þeirra útgerða sem að undangenginni auglýsingu hafa lýst sig með skuldbindandi hætti reiðubúnar til þess að afsala af viðkomandi skipi mestum aflaheimildum, reiknað til þorskígilda, í tegundum sem heildarafli er takmarkaður af.
    Þeim aflaheimildum sem afsalað hefur verið á grundvelli 1. málsl. 3. mgr. eða á grundvelli 6. mgr. skal úthlutað til annarra skipa í hlutfalli við samanlagða aflahlutdeild sem þau hafa, í þorskígildum talið, á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga um stjórn fiskveiða eða á grundvelli þessara laga.
    Sé ekki ákveðinn heildarafli skv. 1. mgr., en gert ráð fyrir takmörkun veiða á úthafinu á annan hátt, skal ráðherra setja reglur sem nauðsynlegar eru til að tryggja að veiðar íslenskra skipa verði innan þeirra marka. Getur hann í því skyni m.a. sett reglur um fjölda skipa, fjölda veiðiferða og úthaldstíma einstakra skipa.
    Ráðherra er einnig heimilt að setja reglur sem nauðsynlegar eru til að takmarka veiðar í öðrum tilvikum, sbr. 3. gr., og skal hann í þeim efnum leita álits Hafrannsóknastofnunarinnar.
    Ráðherra getur, þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar, ákveðið að allt að 5% heildaraflans verði sérstaklega úthlutað til þeirra skipa sem hófu veiðar úr viðkomandi stofni.

7. gr.

    Ráðherra setur með reglugerð ákvæði um gerð og frágang veiðarfæra íslenskra skipa við veiðar utan lögsögu Íslands, þar á meðal um lágmarksmöskvastærð. Þá getur hann sett reglur um lokun veiðisvæða og aðrar þær aðgerðir sem nauðsynlegar kunna að vera til að tryggja verndun smáfisks og ábyrgar veiðar. Ráðherra skal í þessum efnum byggja á samningum sem Ísland er aðili að. Jafnframt getur ráðherra tekið mið af þeim reglum sem gilda við veiðar í lögsögu Íslands, reglum sem gilda í lögsögu annarra ríkja sem liggur að viðkomandi hafsvæði eða reglum sem settar hafa verið af viðkomandi svæðisstofnun.

8. gr.

    Eftirlitsmönnum Fiskistofu er heimilt að fara í eftirlitsferðir með íslenskum skipum við veiðar utan íslensku lögsögunnar. Um eftirlit með framkvæmd laga þessara gilda ákvæði laga um stjórn fiskveiða og laga um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum eftir því sem við á. Auk þess skal ráðherra með reglugerð gera íslenskum skipum að sæta því eftirliti sem kveðið er á um í samningum sem Ísland er aðili að. Þá getur ráðherra sett reglur um eftirlit á grundvelli 5. mgr. 4. gr.
    Fyrir leyfi til veiða á úthafinu sem veitt verða á grundvelli 2. og 5. mgr. 4. gr. laga þessara skal greiða gjald skv. 4. mgr. 18. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða.
    Útgerðir skipa, sem fá úthlutað veiðiheimildum á grundvelli 5. gr., skulu greiða sérstakt gjald — veiðieftirlitsgjald — vegna eftirlits með veiðum skipanna. Gilda um það ákvæði laga um stjórn fiskveiða varðandi gjaldskyldu, gjaldstofn, gjaldstig, álagningu og innheimtu.
    Útgerðir skipa, sem stunda veiðar á sjávardýrum á grundvelli 6. gr., skulu greiða sérstakt gjald — veiðieftirlitsgjald — vegna eftirlits með veiðum skipanna. Skal gjaldið renna til reksturs veiðieftirlits Fiskistofu. Gjald af hverju einstöku skipi skal vera 30 aurar á hvert aflakíló metið til þorskígilda í samræmi við verðmætastuðla sem ákveðnir eru á grundvelli laga um stjórn fiskveiða. Skulu útgerðir fiskiskipa greiða gjaldið í samræmi við ákvæði 5. og 6. mgr.
    Útgerð skips, sem fær úthlutað veiðiheimildum úr stofnum sem veiðast alfarið utan lögsögu Íslands, skal greiða gjald skv. 4. mgr. fyrir hvert úthlutað aflakíló. Skal gjaldið greitt fyrir fram við útgáfu tilkynningar um aflamark er kveður á um heimild til að veiða tiltekið magn sjávardýra á viðkomandi fiskveiðiári, vertíð eða veiðitímabili og skal gjaldstofn miðaður við úthlutað aflamark. Gjaldið er ekki endurkræft þótt veiðiheimildir hafi ekki verið nýttar.
    Fari stjórn veiða á þeim stofnum, sem veiðast alfarið utan lögsögu Íslands, fram með öðrum hætti en úthlutun veiðiheimilda til skipa skal gjald skv. 4. mgr. innheimt árlega eftir á samhliða gjaldi af almennu veiðileyfi skv. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, af skipum er hafa það leyfi. Innheimta af afla fiskiskipa, er hafa ekki leyfi til veiða í atvinnuskyni samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, fer fram á sama tíma. Skulu ákvæði 4. mgr. gilda um álagningu gjaldsins en gjaldstofn miðast við landaðan afla viðkomandi fiskiskips er veiðar stundar úr þessum stofnum á tólf mánaða tímabili frá 1. ágúst til 31. júlí fyrir upphaf hvers fiskveiðiárs.
    Hafi íslensk stjórnvöld á grundvelli milliríkjasamnings, eða með öðrum skuldbindandi hætti, samið um að eftirlit með veiðum fiskiskipa úr stofni, sem alfarið veiðist utan lögsögu Íslands, skuli vera með þeim hætti að um borð í hverju fiskiskipi skuli starfa eftirlitsmaður, skulu útgerðir skipa, er veiðar stunda úr þeim stofni, greiða 15.000 kr. fyrir hvern dag er skipið stundar þær veiðar. Verði samið um minna eftirlit, þannig að veiðieftirlitsmaður verði við eftirlitsstörf um borð í hluta skipa er stunda veiðar úr viðkomandi stofni, skal hvert skip greiða gjald, fyrir hvern dag er skipið stundar þær veiðar, er nemur sama hlutfalli af daggjaldinu skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar og umsömdu hlutfalli skipa með eftirlitsmenn um borð. Skal gjaldið greitt af öllum skipum er veiðarnar stunda án tillits til veru eftirlitsmanna um borð í einstökum skipum. Gjald vegna eftirlitsmanna samkvæmt þessari málsgrein greiðist mánaðarlega eftir á, fyrir eftirlit síðastliðins mánaðar.
    Útgerð skips skal greiða fæði veiðieftirlitsmanna og sjá þeim endurgjaldslaust fyrir aðstöðu meðan þeir stunda eftirlitsstörf um borð.
    Sé á grundvelli 1. mgr. ákveðið að tiltekin skip skuli búin staðsetningar- og sendingarbúnaði sem veitir sjálfvirkt upplýsingar um staðsetningu þeirra til stöðvar í landi skulu viðkomandi útgerðir greiða kostnað sem af slíku eftirliti hlýst, þar með talin hlutdeild í yfirstjórn.
    Þá skulu íslensk skip er stunda veiðar utan lögsögu Íslands fullnægja öllum sömu ákvæðum um skil á aflaskýrslum og gilda um veiðar innan lögsögunnar. Að auki skal ráðherra með reglugerð gera íslenskum skipum að fullnægja ákvæðum samninga sem Ísland er aðili að um tilkynningarskyldu og upplýsingagjöf til erlendra stjórnvalda eða alþjóðastofnana.

9. gr.

    Íslensk lög og reglur settar samkvæmt þeim varðandi hreinlæti, búnað og innra eftirlit sem og um meðferð og nýtingu afla, sem gilda um veiðar íslenskra skipa innan lögsögu Íslands, skulu jafnframt gilda um veiðar þeirra utan hennar. Ráðherra er þó heimilt að veita undanþágur varðandi aflanýtingu við veiðar utan lögsögunnar ef fjarlægð frá landi, lengd veiðiferða eða aðrar aðstæður gera slíkt nauðsynlegt.

II. KAFLI

Fiskveiðar erlendra skipa.

10. gr.

    Óheimilt er að landa afla erlendra fiskiskipa í íslenskum höfnum ef veiðarnar brjóta í bága við samninga um nýtingu og varðveislu lifandi auðlinda hafsins sem Ísland er aðili að. Í þessum tilvikum er einnig óheimilt að veita viðkomandi skipum þjónustu innan íslenskrar landhelgi eða frá íslenskum höfnum. Þessar takmarkanir koma til viðbótar ákvæðum 3. gr. laga um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands.
    Þá getur ráðherra ákveðið að 1. mgr. skuli beitt gagnvart skipum ef ætla má vegna veiða þeirra úr tilteknum stofni að slíkt sé nauðsynlegt til verndunar lifandi auðlinda hafsins eða ef viðkomandi skip er skráð undir hentifána og ætla má að það sé gert til að forðast stjórnun fiskveiða á viðkomandi hafsvæði.
    Ákvæði þessarar greinar takmarka ekki rétt erlendra skipa til löndunar eða þjónustu hér á landi samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að eða gildandi þjóðarétti. Þá skerða ákvæðin ekki rétt erlendra skipa til að koma til hafna þurfi þau á neyðarþjónustu að halda.

11. gr.

    Íslenskum stjórnvöldum er heimilt að gera aðrar þær ráðstafanir gagnvart erlendum skipum vegna veiða þeirra á úthafinu sem nauðsynlegar eru til að framfylgja samningum sem Ísland er aðili að.

III. KAFLI

Viðurlög.

12. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim varða viðurlögum skv. 13.–14. gr., hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau þar að auki varða varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum.
    Beita skal ákvæðum laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla við brot á lögum þessum eftir því sem við á.

13. gr.

    Við brotum gegn 2. málsl. 7. gr. laga þessara skal sekt ekki nema lægri fjárhæð en 600.000 kr. og ekki hærri fjárhæð en 6.000.000 kr. eftir eðli og umfangi brots.
    Brot samkvæmt framansögðu skulu, auk refsingar, varða upptöku á þeim veiðarfærum skipsins sem notuð hafa verið við hinar ólögmætu veiðar, þar með töldum dragstrengjum, svo og afla þess, enda sé sennilegt að aflinn hafi fengist með ólögmætum hætti. Upptöku má framkvæma án tillits til þess hvort jafnframt er krafist refsingar.
    Í stað þess að gera afla og veiðarfæri upptæk skv. 2. mgr. er heimilt að gera upptæka fjárhæð sem svarar til andvirðis afla og veiðarfæra samkvæmt mati dómkvaddra kunnáttumanna.

14. gr.

    Brot gegn öðrum ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt lögum þessum eða ákvæðum leyfisbréfa varða sektum sem eigi skulu nema lægri fjárhæð en 400.000 kr. og ekki hærri fjárhæð en 4.000.000 kr. eftir eðli og umfangi brots.
    Fiskistofa skal svipta lögaðila leyfi til veiða fyrir brot á þessum lögum eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar.

15. gr.

    Sektir má jafnt gera lögaðila sem einstaklingi. Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. má ákvarða lögaðila sekt þótt sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn, starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga er í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Með sama skilorði má einnig gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans, eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa, hafa gerst sekir um brot.
    Tilraun og hlutdeild í brotum gegn lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

16. gr.

    Heimilt er að leggja löghald á skip sem fært er til hafnar vegna brota gegn lögum þessum. Sé það gert er dómara heimilt að láta það laust ef sett er bankatrygging eða önnur jafngild trygging, að hans mati, fyrir greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku skv. 3. mgr. 13. gr.
    Til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku skal vera lögveð í skipinu.
    Mál út af brotum gegn lögum þessum skulu sæta meðferð opinberra mála.
    Sektarfé samkvæmt lögum þessum, svo og andvirði upptæks afla og veiðarfæra, skal renna í Landhelgissjóð Íslands.

17. gr.

    Ólögleg veiðarfæri skulu gerð upptæk. Ólögleg eru þau veiðarfæri eða hluti veiðarfæra sem ekki eru í samræmi við þær reglur sem settar eru um veiðarfæri með stoð í lögum þessum.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

18. gr.

    Hafi íslensk stjórnvöld á grundvelli milliríkjasamnings veitt heimild til þess að eftirlitsaðilar erlends ríkis fari til eftirlitsstarfa um borð í íslensk fiskiskip utan lögsögu Íslands skal ráðherra með reglugerð kveða nánar á um eftirlit þetta.
    Í reglugerðinni skal m.a. kveða á um heimildir eftirlitsaðilanna til þess að rannsaka meint brot gegn veiðistjórnunarreglum á viðkomandi hafsvæði og um réttarvernd þeirra í samræmi við viðkomandi samning. Einnig skal kveðið á um skyldur skipverja á íslenskum skipum m.a. til þess að ljá atbeina sinn við eftirlitið þegar uppganga fer fram.

19. gr.

    Ráðherra kveður nánar á um framkvæmd laga þessara með reglugerð.

20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 34/1976, um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands, og lög nr. 88/1996, um eftirlit með fiskveiðum utan lögsögu Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Gjald skv. 6. mgr. 1. gr. laga nr. 88/1996, um eftirlit með fiskveiðum utan lögsögu Íslands, vegna starfa eftirlitsmanna um borð í veiðiskipum á tímabilinu 1. ágúst 1996 til gildistöku laga þessara fellur í gjalddaga einum mánuði eftir gildistöku þeirra.