Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 240 . mál.


367. Frumvarp til lagaum breytingu á skipulagslögum, nr. 19/1964.

Frá umhverfisnefnd.1. gr.


    2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Ráðuneytinu til aðstoðar eru skipulagsstjórn ríkisins og skipulagsstjóri. Í skipulagsstjórn eiga sæti fimm menn: vegamálastjóri, forstjóri Siglingastofnunar og þrír menn skipaðir af ráðherra til fjögurra ára eftir almennar sveitarstjórnarkosningar, einn eftir tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, einn eftir tilnefningu forsætisráðherra og einn án tilnefningar. Varamenn hinna þriggja síðasttöldu skulu skipaðir á sama hátt. Stjórnin kýs sér sjálf formann, varaformann og ritara.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997.

Greinargerð.


    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. gildandi skipulagslaga eiga húsameistari ríkisins og vita- og hafnamálastjóri lögbundinn seturétt í skipulagsstjórn ríkisins. Embætti húsameistara ríkisins verður lagt niður frá og með 1. janúar 1997. Embætti vita- og hafnamálastjóra og siglingamálastjóra sameinuðust í embætti forstjóra Siglingastofnunar fyrr á þessu ári í samræmi við breytt lög. Því er nauðsynlegt að breyta þessu lagaákvæði þannig að í stað vita- og hafnamálastjóra komi forstjóri Siglingastofnunar og í stað húsameistara ríkisins skipi ráðherra einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra, en málefni húsameistara ríkisins heyra undir hann. Að öðru leyti er ekki um breytingar að ræða.
    Þess má geta að í frumvarpi til skipulags- og byggingarlaga, sem nú er til meðferðar á Alþingi, er m.a. lagt til að skipulagsstjórn verði lögð niður. Er hér um að ræða bráðabirgðaráðstöfun sem gripið er til vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa við breytingar á embætti húsameistara ríkisins og vita- og hafnamálastjóra.