Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 241 . mál.


370. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, nr. 62 17. maí 1990 (starfsþjálfun guðfræðikandídata).

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    1. málsl. 3. tölul. 16. gr. laganna orðast svo: Áður en kandídat hlýtur vígslu skal hann hafa starfað með sóknarpresti eigi skemur en tvo mánuði undir eftirliti prófasts.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu árið 1989 sagði um 3. tölul. 16. gr. að starfsþjálfun guðfræðikandídata væri nýmæli. Oft hefðu kirkjunnar menn bent á nauðsyn slíkrar starfsþjálfunar og þessu máli hefði m.a. verið hreyft á kirkjuþingi. Eftir sem áður væri ráð fyrir því gert að guðfræðinemar hlytu fræðslu í kennimannlegri guðfræði við guðfræðideild Háskóla Íslands. Talið var að lágmarkstími starfsþjálfunar þyrfti að vera fjórir mánuðir. Nánari ákvæði skyldi setja í reglugerð.
    Á grundvelli framangreinds 3. tölul. 16. gr. setti kirkjumálaráðherra reglugerð nr. 89/1991 12. febrúar 1991. Þar er tekið fram að þjálfunartími skuli vera fjórir mánuðir og að öðru leyti kveðið á um í hverju starfsþjálfunin skuli vera fólgin, hvernig hún skuli skipulögð o.fl.
    Í ljós hefur komið að kostnaður við starfsþjálfun eins guðfræðikandídats í fjóra mánuði nemur nærri 500 þús. kr., og er þar um að ræða greiðslur til kandídatsins og þeirra presta sem hann er í starfsþjálfun hjá.
    Í október 1995 var skipuð nefnd til að endurskoða starfsþjálfunina og gera tillögur um nýja skipan. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Hún telur starfsþjálfunina hafa verið mikið framfaraspor á sínum tíma, en í ljós hafi komið ýmsir vankantar. Vegna verulegrar fjölgunar kandídata og þröngs peningaramma hefur nefndin lagt til að þjálfunartíminn verði styttur um helming uns framtíðarskipan hefur verið ákvörðuð.
    Á nýafstöðnu kirkjuþingi flutti kirkjuráð tillögu þess efnis að starfsþjálfun guðfræðikandídata skuli vera tveir mánuðir í stað fjögurra þar til endurskoðun verði lokið og nýrri skipan komið á. Var tillagan samþykkt á kirkjuþingi og erindi sent kirkjumálaráðherra um að hann beiti sér fyrir nauðsynlegri lagabreytingu til þess að svo geti orðið.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 62/1990,


um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands.


    Í núgildandi lögum er kveðið á um að til að hljóta vígslu skuli kandídat hafa starfað með sóknarpresti eigi skemur en fjóra mánuði undir eftirliti prófasts. Í frumvarpinu er lagt til að stytta þann tíma um tvo mánuði. Gera má ráð fyrir að útgjöld minnki um helming en kostnaður fyrir hvern kandídat er nú 400–500 þús. kr. og fara heildarútgjöld eftir fjölda kandídata hverju sinni. Kostnaður vegna þessa er greiddur úr kirkjumálasjóði og hefur væntanlegur sparnaður því ekki áhrif á ríkissjóð.