Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 150 . mál.


372. Nefndarálit



um frv. til l. um fjarskipti.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, skrifstofustjóra í samgönguráðuneyti. Þá komu til fundar frá Samkeppnisstofnun Guðmundur Sigurðsson, forstöðumaður samkeppnissviðs, og Ásgeir Einarsson lögfræðingur, Guðmundur Björnsson aðstoðarpóst- og símamálastjóri, Pétur Reimarsson, formaður undirbúningsnefndar um stofnun Pósts og síma hf., Jónas Fr. Jónsson aðstoðarframkvæmdastjóri og Birgir Ármannsson lögfræðingur frá Verslunarráði, Jón Jarl Þormóðsson, Eggert Þormóðsson og Hjörtur Bragi Sverrisson frá Póstdreifingu ehf. og Helgi Jónsson og Maríus Ólafsson frá Interneti á Íslandi hf. Nefndinni bárust umsagnir frá Verslunarráði og Interneti á Íslandi hf.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagðar eru til breytingar á 6. og 11. gr. sem miða að því að skilgreina nánar skilyrði þau sem Póst- og fjarskiptastofnun setur fyrir veitingu rekstrarleyfis og afskipti stofnunarinnar. Miðað er við að skilyrði fyrir leyfisveitingu skuli ekki einungis vera skýr og að gæta verði jafnræðis meðal umsækjanda og leyfishafa heldur þykir rétt að taka fram að skilyrðin skuli einnig vera hlutlæg, sbr. 1. mgr. 6. gr. Þá er lagt til að í stað þess að miða við að eitt af skilyrðum fyrir rekstrarleyfi geti verið að viðskiptaskilmálar rekstrarleyfishafa í almennri fjarskiptaþjónustu séu háðir samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar verði miðað við að viðskiptaskilmálar rekstrarleyfishafa í alþjónustu verði háðir slíku samþykki, sbr. g-lið 2. mgr. 6. gr. Þá eru lagðar til breytingar á 11. gr. sem miða að því að takmarka afskipti Póst- og fjarskiptastofnunar við tiltekna þætti sem varða tengingar neytenda við fjarskiptanet og lágmarksbilanaþjónustu. Hér er fyrst og fremst um tæknilegar kröfur að ræða fyrir tengingar og þess háttar.
    Lagt er til að í 15. gr. verði kveðið sérstaklega á um að jöfnunargjaldið, sem innheimta skal af rekstrarleyfishöfum innan viðkomandi þjónustusviðs skv. VIII. kafla frumvarpsins, verði ákveðið árlega með lögum, í fyrsta skipti fyrir gjaldárið 1998, og felld verði niður heimild ráðherra í 6. mgr. til að setja nánari fyrirmæli um álagningu gjaldsins.
    Loks er lagt til að sett verði inn ákvæði svipað 24. gr. gildandi fjarskiptalaga, sbr. 13. gr. laga nr. 99/1996. Hér er hins vegar kveðið á um að notkunargjald fyrir talsímaþjónustu hjá hverjum rekstrarleyfishafa fyrir sig skuli vera hið sama alls staðar         á landinu eigi síðar en 1. júlí 1998 og skuli þá innheimta sérstaks álags vegna langlínusamtala óheimil.

Alþingi, 16. des. 1996.



Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Egill Jónsson.


form., frsm.



Kristján Pálsson.

Stefán Guðmundsson.

Árni Johnsen.