Ferill 149. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 149 . mál.


374. Nefndarálit



um frv. til l. um Póst- og fjarskiptastofnun.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, skrifstofustjóra í samgönguráðuneyti. Þá komu til fundar frá Samkeppnisstofnun Guðmundur Sigurðsson, forstöðumaður samkeppnissviðs, og Ásgeir Einarsson lögfræðingur, Guðmundur Björnsson aðstoðarpóst- og símamálastjóri, Pétur Reimarsson, formaður undirbúningsnefndar um stofnun Pósts og síma hf., Jónas Fr. Jónsson aðstoðarframkvæmdastjóri og Birgir Ármannsson lögfræðingur frá Verslunarráði, Jón Jarl Þormóðsson, Eggert Þormóðsson og Hjörtur Bragi Sverrisson frá Póstdreifingu ehf. og Helgi Jónsson og Maríus Ólafsson frá Interneti á Íslandi hf. Nefndinni bárust umsagnir frá Samkeppnisstofnun, Verslunarráði og hagdeild Póst- og símamálastofnunar.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að ákvæði 7. gr., sem kveður á um að notandi fjarskipta- eða póstþjónustu geti beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar vegna reikninga sem gefnir eru út vegna almennrar fjarskiptaþjónustu, verði fellt brott. Þetta er gert með hliðsjón af þeim breytingum sem lagðar eru til á frumvarpi til laga um fjarskipti og miða að því að takmarka afskipti Póst- og fjarskiptastofnunar af þeim hluta fjarskiptaþjónustu sem ekki varðar sérstaklega tæknileg atriði eða skilyrði rekstrarleyfa.
    Þá er lagt til að þau hæfisskilyrði 8. gr. að aðrir nefndarmenn en formaður og varaformaður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála skuli hafa faglega kunnáttu eða reynslu á sviði fjarskipta- og póstmála verði felld brott. Ástæða þessa er að erfitt gæti reynst að finna nægilega marga aðila sem uppfylltu þessi skilyrði án þess að þeir tengdust Pósti og síma með beinum eða óbeinum hætti.

Alþingi, 16. des. 1996.



Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Egill Jónsson.


form., frsm.



Árni Johnsen.

Stefán Guðmundsson.

Kristján Pálsson.