Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 150 . mál.


384. Nefndarálitum frv. til l. um fjarskipti.

Frá minni hluta samgöngunefndar.    Í frumvarpi þessu er lagt til að lögbundinn einkaréttur ríkisins verði afnuminn og þeir sem fullnægja ákveðnum skilyrðum fái leyfi til að veita fjarskiptaþjónustu. Samhliða afnámi einkaréttarins eru settar reglur um frelsi í fjarskiptum og samkeppni á þessu sviði. Í athugasemdum við frumvarpið er sagt að markmið með slíkum reglum sé annars vegar að tryggja aðgang nýrra aðila að markaðinum, m.a. aðgang að þeim fjarskiptanetum sem komið hefur verið upp, og hins vegar tryggja að fjarskiptaþjónustu verði haldið uppi. Er í síðara tilvikinu talið mikilvægt að öllum landsmönnum sé tryggður aðgangur að tiltekinni þjónustu (e. universal service). Í athugasemdum er einnig sagt að frumvarpinu sé ætlað að færa íslensk fjarskiptalög til samræmis við breytingar sem orðnar eru og sem boðaðar hafa verið í fjarskiptamálum í Evrópu. Rekja má þessar breytingar að hluta til tilskipana ESB í þessum efnum. Upphaflega var gert ráð fyrir að frá og með 1. janúar 1998 yrði einkaleyfishafa gert að hleypa samkeppnisaðilum inn á grunnnetið en síðan hefur verið gengið skrefi lengra og mun áformað að öllum sé heimilt að setja upp og reka eigið grunnnet. Þetta þýðir einnig að afnám einkaleyfis og sérréttinda í talsímaþjónustu gerir það að verkum að fjarskiptafyrirtæki innan ríkja Evrópusambandsins getur frá 1. janúar 1998 veitt þjónustu sína óhindrað í öðru ríki sambandsins. Það sama á við um ríki EES.
    Þetta segir með öðrum orðum að þessi nýju lög eru þannig úr garði gerð að allt er heimilt nema það sé sérstaklega bannað eða því séu settar takmarkanir í frumvarpinu.
    Hins vegar er það á valdi Póst- og fjarskiptastofnunar að veita leyfi til fjarskiptaþjónustu og til þess að reka almennt fjarskiptanet samkvæmt fyrirskrifuðum og óskrifuðum skilyrðum sem er að finna í frumvarpinu og einnig í frumvarpi til laga um Póst- og símamálastofnun og hins vegar í nánari útfærslu stofnunarinnar og samgönguráðherra þegar tímar líða fram. Eigi færri en fimmtán skilyrði eru tíunduð í frumvarpinu sem grundvöllur fyrir veitingu rekstrarleyfis. Þau geta verið aðeins eitt af þessum fimmtán eða fleiri allt háð ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Þarna er þó að finna það lykilatriði sem nefnt hefur verið alþjónusta en samkvæmt frumvarpinu er hún skilgreind á eftirfarandi hátt: „Afmarkaðir þættir fjarskipta, sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Nánar skal mælt fyrir um í reglugerð sem samgönguráðherra setur hvaða þættir fjarskiptaþjónustu falli undir alþjónustu.“ Og enn fremur segir í 7. gr. um skylduna til að veita alþjónustu:
    „Við útgáfu rekstrarleyfa til þeirra sem veita fjarskiptaþjónustu á almennum fjarskiptanetum getur Póst- og fjarskiptastofnun mælt svo fyrir að auk þess að uppfylla skilyrði skv. 6. gr. [sem eru þau fimmtán skilyrði fyrir rekstrarleyfi sem þar eru tíunduð] skuli rekstrarleyfishafa skylt að veita alþjónustu af starfssvæði sínu.“
    Þó er jafnharðan dregið úr þessu skilyrði með eftirfarandi ákvæði frumvarpsins:
    „Sjái rekstrarleyfishafi sér ekki fært að veita tilteknum aðila alþjónustu skv. 1. mgr., svo sem vegna fjarlægðar, kostnaðar eða annars óhagræðis, skal ágreiningur vegna synjunar borinn undir Póst- og fjarskiptastofnun til úrskurðar.“
    Þetta segir með öðrum orðum að þessi skylda til að veita alþjónustu er háð undantekningum. Enn fremur er ekki skilgreint nákvæmlega hver alþjónustan skuli verða. Þetta gefur til kynna að frá þessum skyldum um að veita alþjónustu megi víkja vegna fjarlægðar eða kostnaðar sem þýðir að það er skilið eftir algjörlega opið hvaða þjónusta teljist til alþjónustu og þar með hvaða almennar kröfur skuli gerðar til þjónustu þeirra aðila sem rekstrarleyfi fá. Það sem meira er, þessi skilyrði skal samgönguráðherra setja sem samkvæmt frumvarpinu hefur heimild til að setja reglugerð um þá þætti fjarskiptaþjónustu sem á hverjum tíma teljast til alþjónustu. Fyrir liggur að ráðherra hefur hagsmuna að gæta í þessum málaflokki þar sem hann fer með 100% eignaraðild ríkisins að Pósti og síma hf. sem er einn meðal fjölda annarra væntanlegra rekstrarleyfishafa og þar með samkeppnisaðili.
    Meðal nýmæla í frumvarpinu eru ákvæði 9. gr. þar sem kveðið er á um að Póst- og fjarskiptastofnun geti ákveðið að rekstrarleyfi þar sem takmarka á fjölda rekstrarleyfishafa á einstökum þjónustusviðum skuli veitt að undangengnu útboði. Er þess getið að útboð skuli að jafnaði vera opið og Póst- og fjarskiptastofnun semji útboðsskilmála þar sem m.a. skuli mælt fyrir um þá þjónustu sem boðin er út og um lágmarksboð. Á hinn bóginn er þess getið í 9. gr. að ekki sé eingöngu ætlunin að miða við upphæðir í krónum og aurum heldur verði einnig tekið tillit til útbreiðslu kerfa sem boðin yrðu eða eins og það er orðað í athugasemd með frumvarpinu: „fyrirsjáanlegra gæða þjónustunnar“. Bætt er við í athugasemdunum að ekki væri þannig víst að t.d. tilboð í sérstakt rekstrarleyfisgjald yrði látið ráða úrslitum og vísað til útboða á GSM-þjónustu í Þýskalandi þar sem að sögn frumvarpshöfunda var fyrst og fremst lögð áhersla á útbreiðslu kerfanna.
    Mikilvægt er í þessu sambandi að allar þessar leikreglur séu fyrirliggjandi áður en af afgreiðslu frumvarpsins verður þannig að löggjafarvaldið geri það alveg skýrt gagnvart hagsmunaaðilum og væntanlegum umsækjendum um rekstrarleyfi hvaða reglur skuli gilda á þessum markaði.
    Af þessu leiðir það álit minni hlutans að málið sé ekki tækt til afgreiðslu á þessu stigi og skuli vísað til nánari umfjöllunar nefndarinnar þar sem m.a. sé unnin nákvæm skilgreining á alþjónustu, fyrirkomulag útboða og vals á rekstrarleyfishöfum skuli gert nákvæmara og gleggra og að hlutverk samgönguráðherra í þessu ferli öllu sé endurmetið og skoðað sérstaklega í ljósi almennra hæfisreglna.
    Þá ber að geta breytingartillögu sem fram er komin á síðustu stigum málsins frá meiri hlutanum sem kveður á um eina gjaldskrá á landinu öllu. Það þýðir að rekstrarleyfishafi á vettvangi talsímaþjónustu þarf að geta boðið sömu gjaldskrá hvort heldur er í Reykjavík eða Raufarhöfn, Hornafirði eða Hafnarfirði, Seltjarnarnesi eða Suðureyri. Í umsögn Samkeppnisstofnunar um þetta ákvæði koma fram ákveðin varnaðarorð. Umsögnin fylgir nefndarálitinu.
    Á hinn bóginn svarar frumvarpið því ekki hvort rekstrarleyfishafi, sem er gert skylt að hafa sama verð á talsímaþjónustu hvar sem er á landinu, þurfi þegar til kastanna kemur að bjóða slíka þjónustu um land allt. Því er haldið opnu og raunar gefið til kynna að ekki sé útilokað að sumir rekstrarleyfishafar geti og ætli sér aðeins að bjóða þjónustu sína á þessu sviði á höfuðborgarsvæðinu þar sem leiða má rök að því að það gefi mest í aðra hönd. Má ætla að slíkir rekstrarleyfishafar gætu veitt þjónustuna á lægra verði ef þeir veittu hana aðeins í þéttbýli. Það þýðir í raun að eftir sem áður er um að ræða tvenns konar gjaldskrá. Annars vegar þeirra sem þjónusta landið allt og hins vegar þeirra sem veita talsímaþjónustu á suðvesturhorni landsins. Að vísu er ekkert hægt að fullyrða um þessa þróun því að frumvarpið svarar ekki álitamálum í þessa veru.
    Ekki er eingöngu um það að ræða að rekstrarleyfishafar greiði fyrir möguleika til þess að veita þessa þjónustu heldur er og gert ráð fyrir því að innheimt skuli sérstakt jöfnunargjald sem lagt skal á rekstrarleyfishafa innan viðkomandi þjónustusviðs í hlutfalli við bókfærða veltu á því sviði og þetta gjald megi síðan nýta til þess að greiða einstökum rekstrarleyfishöfum til þess að tryggja tiltekna þjónusta sem er hugsanlega rekin með tapi eða er af einhverjum ástæðum óarðbær. Hér er því um að ræða opinberan stuðning til einstakra rekstrarleyfishafa á tilteknum afmörkuðum þáttum þjónustunnar. Enn er það samgönguráðherra sem setur með reglugerð nánari fyrirmæli um fjárframlög og jöfnunargjöld í fjarskiptaþjónustunni. Enn og aftur er það sá aðili sem fer með stjórn mála hjá langstærsta aðilanum á þessum markaði, Pósti og síma hf. sem gegnir lykilhlutverki hvað varðar gerð leikreglna á þessum vettvangi. Því þarf löggjafarvaldið auðvitað að kveða skýrar á um fyrirkomulag þessara mála.
    Minni hlutinn tekur skýrt fram að jafna þurfi aðstöðu þéttbýlis og dreifbýlis í þessum efnum og minnir í því sambandi á tillögu undirritaðra um samræmingu gjaldskrár á landinu öllu sem lögð var fram síðastliðið vor og var ætlað að taka gildi þá þegar. Hér er því fyrst og síðast verið að vísa til ákveðinna vankanta á þessari málsmeðferð meiri hlutans og frumvarpshöfunda en minni hlutinn mun eftir sem áður styðja þetta ákvæði frumvarpsins í trausti þess að það standist alþjóðaskuldbindingar og samkeppnislög eins og meiri hlutinn fullyrðir. Hér verður ekki vikið að fleiri þáttum þessa viðamikla frumvarps í þessu minnihlutaáliti, en nánar um það fjallað við 2. og 3. umræðu um frumvarpið.
    Minni hlutinn leggur eindregið til að nefndinni verði falið að gaumgæfa mun betur ýmis þau álitamál sem ekki finnast svör við í frumvarpinu og bent hefur verið á í þessu nefndaráliti. Til þess gefst ekki tóm eða tími á þeim örfáu dögum sem eftir eru af þinghaldi fyrir jólahlé. Þess vegna er það tillaga minni hlutans að málið verði skoðað miklu mun betur á nýju ári og þess freistað að ljúka umfjöllun og ná fram afgreiðslu þess á vorþingi.
    Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 17. des. 1996.Guðmundur Árni Stefánsson,

Ragnar Arnalds.

Ásta R. Jóhannesdóttir.


frsm.
Fylgiskjal I.


Álit Samkeppnisstofnunar.


(16. desember 1996.)    Af hálfu samgöngunefndar hefur þess verið farið á leit við Samkeppnisstofnun að gefin verði umsögn um eftirfarandi drög að breytingartillögu við frumvarp til laga um fjarskipti:
     „Á eftir 38. gr. komi ný grein er orðist svo:
    Eigi síðar en 1. júlí 1998 skal notkunargjald fyrir talsímaþjónustu vera hið sama alls staðar á landinu og skal innheimta sérstaks álags vegna langlínusamtala óheimil.“
    Niðurstaða Samkeppnisstofnunar er sú að verði ofangreint ákvæði að lögum muni það stríða gegn markmiði samkeppnislaga og torvelda frjálsa samkeppni í viðskiptum. Jafnframt er það niðurstaða stofnunarinnar að ofangreint ákvæði sé óþarft og í ósamræmi við ákvæði frumvarps til laga um fjarskipti. Rök Samkeppnisstofnunar eru eftirfarandi:

I.

    Samkvæmt núgildandi lögum hefur íslenska ríkið einkarétt til þess að veita talsímaþjónustu og er Póst- og símamálastofnun falið að annast framkvæmd þessa einkaréttar ríkisins. Verði frumvarp til laga um fjarskipti að lögum mun einkarétturinn falla niður eigi síðar en 1. janúar 1998 og munu lög þá ekki lengur girða fyrir aðgang nýrra aðila að markaðnum fyrir talsímaþjónustu. Er við þetta miðað í umsögn þessari.
    Í ofangreindri breytingartillögu við frumvarp til laga um fjarskipti kemur fram að „[e] igi síðar en 1. júlí 1998 skal notkunargjald fyrir talsímaþjónustu vera hið sama alls staðar á landinu . . .  “ Þetta orðlag er skýrt og afdráttarlaust og felur í sér að mati Samkeppnisstofnunar að eftir 1. júlí 1998 verði þau fyrirtæki sem þá kunna að veita talsímaþjónustu að selja þá þjónustu á sama verði um allt land, þ.e. að keppinautar yrðu að hafa sama verð. Verði þetta ákvæði að lögum yrði þannig með öllu girt fyrir verðsamkeppni á milli fyrirtækja á þessu sviði. Nýjum fyrirtækjum yrði með öllu ókleift að reyna að afla sér markaðshlutdeildar með því bjóða lægri verð en keppinautar eða með því að veita ákveðnum hópum viðskiptavina sérstök kjör.
    Samkvæmt 1. gr. samkeppnislaga er markmið þeirra að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmari nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Segja má að með setningu samkeppnislaga hafi löggjafinn sett fram þá grunnreglu að í viðskiptum skuli samkeppni vera ríkjandi. Markmiði samkeppnislaga skal skv. 1. gr. ná með því að:
    vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,
    vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,
    auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.
    Einn mikilvægasti þáttur virkrar samkeppni er verðsamkeppnin. Í samkeppnisfræðum er litið svo á að virk samkeppni milli fyrirtækja í verði tryggi neytendum lægsta verðið og stuðli að hagkvæmni. Til að efla verðsamkeppni er í 10. gr. samkeppnislaga lagt bann við hvers konar hömlum á milli fyrirtækja sem raskað getað þessari samkeppni. Eftirfarandi ummæli í athugasemdum með frumvarpi til samkeppnislaga eru til marks um þá áherslu sem lögð er á verðsamkeppni í lögunum:
    „Ljóst er að vart er að finna alvarlegri samkeppnistakmarkanir en þegar fyrirtæki koma sér saman um verð, álagningu eða hvaða afslætti skuli veita.“
    Með vísan til þess sem að framan greinir er það mat Samkeppnisstofnunar að verði umrædd breytingartillaga að lögum muni ákvæðið fara gegn markmiði samkeppnislaga. Ákvæðið mun girða fyrir verðsamkeppni á mjög mikilvægum markaði. Hætta er á því að sú röskun á samkeppni sem mundi stafa af ákvæðinu hafi þau áhrif að neytendur greiði hærra verð en ella fyrir talsímaþjónustu þegar horft er til lengri tíma. Jafnframt er hætta á því að umrædd lagabreyting mundi stuðla að óhagkvæmari rekstri fyrirtækja á þessum markaði þar sem ákvæðið mundi draga úr því aðhaldi og þeirri hvatningu til hagræðingar sem almennt er talið leiða af virkri verðsamkeppni. Einnig þykir ljóst að nefnt ákvæði mundi takmarka aðgang nýrra keppinauta að markaðnum fyrir talsímaþjónustu. Þannig yrði nýju fyrirtæki ókleift að ná til sín viðskiptum með lægra verði á þeim svæðum þar sem kostnaður fyrirtækisins er lægstur. Ákvæðið yrði því í andstöðu við anda og tilgang c-liðar 1. gr. samkeppnislaga.
    Samkeppnisstofnun telur nauðsynlegt að benda á að jafnvel þótt umræddu ákvæði yrði breytt á þá lund að í stað þess að sama verð skuli vera hjá öllum veitendum talsímaþjónustu yrði heimilt að hafa mismunandi verð á milli fyrirtækja svo fremi sem verðið væri hið sama á öllu landinu hjá hverjum og einum, yrði eftir sem áður að telja að ákvæðið færi gegn markmiðum samkeppnislaga. Það mundi draga úr verðsamkeppni og takmarka aðgang nýrra aðila að markaðnum þar sem svigrúm við verðlagningu á talsímaþjónustu væri minnkað. Í þessu sambandi má benda á að í 4. gr. laga nr. 81/1985, um flutningsjöfnunarsjóð og innkaupajöfnun olíu og bensíns, sagði:
     „Söluverð á ofangreindum olíuvörum skal vera hið sama til sömu nota hjá hverjum innflytjanda og útsölumönnum hans hvar sem er á landinu.“
    Með lögum nr. 103/1994 var ofangreint ákvæði fellt úr gildi. Í greinargerð kemur fram að rökin fyrir þessu hafi verið eftirfarandi:
     „Lagt er til að afnumið skuli ákvæði í gildandi lögum um að söluverð á olíuvörum skuli vera hið sama til sömu nota hjá hverjum innflytjanda og útsölumönnum hans hvar sem er á landinu. Þetta ákvæði hefur hindrað að sjálfstæðir smásalar með olíuvörur hafi náð fótfestu hér á landi eins og í öðrum nágrannalöndum okkar. Verðlagning dreifingaraðila olíufélaganna hefur verið háð verðlagningu olíufélaganna og þau í raun skammtað þeim álagningu eftir geðþótta, óháð þjónustu og tilkostnaði við smásöluna á hverjum stað. . . . 
    Samkeppnisstofnun telur að sömu sjónarmið og lágu til grundvallar ofangreindri lagabreytingu eigi við að breyttu breytanda um samræmda verðlagningu á talsímaþjónustu og ítrekar þá skoðun sína að ákvæði í lögum sem skylda fyrirtæki til að hafa sama verð á þjónustu sinni um land allt eru ekki í samræmi við nútímaviðhorf og ganga gegn markmiði samkeppnislaga. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að unnt er ná fram markmiðum sem ákvæði um samræmda verðlagningu byggja á með aðferðum sem síður raska virkri samkeppni, sbr. kafla II hér á eftir.

II.

    Að mati Samkeppnisstofnunar hlýtur tilgangur umræddrar breytingartillögu að vera sá að tryggja jafna stöðu allra landsmanna hvað talsímaþjónustu áhrærir. Það er hins vegar skoðun stofnunarinnar að frumvarp til laga um fjarskipti stefni að þessu markmiði og því sé breytingartillagan óþörf. Jafnframt verður að líta svo á að breytingartillagan sé í ósamræmi við ákvæði frumvarpsins.
    Segja má að einn megintilgangurinn með fjarskiptafrumvarpinu sé að breyta íslenskri fjarskiptalöggjöf til samræmis við þær breytingar sem orðnar eru og boðaðar hafa verið í fjarskiptamálum í Evrópu. Er þetta gert í samræmi við núverandi og væntanlegar skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.
    Ráðherraráð ESB hefur samþykkt að komið skuli á samkeppni í talsímaþjónustu eigi síðar en 1. janúar 1998. Það er hins vegar grundvallaratriði í Evrópuréttinum á þessu sviði að samfara frjálsri samkeppni í fjarskiptum sé tryggt að öllum þegnum viðkomandi ríkis standi til boða ákveðin grunnþjónusta, þ.m.t. talsímaþjónusta, á sanngjörnu verði. Í frumvarpi til laga um fjarskipti er þetta nefnt alþjónusta (Universal service). Kjarni þessa sjónarmiða um alþjónustu kemur fram í eftirfarandi ályktun Evrópska þingsins:
     „the central importance of universal service principles, in order to ensure the complementarity between economic and social goals ... and the balance between liberalisation and the need to maintain basic, affordable services for all consumers“.
    Til þess að tryggja að alþjónusta verði innt af hendi eftir að samkeppni er komið á er á því byggt í Evrópuréttinum að aðildarríki geti lagt þá kvöð á eitt eða fleiri þeirra fyrirtækja sem veita fjarskiptaþjónustu, að þjónustan nái til allra þegna viðkomandi ríkis. Er gert ráð fyrir þessu í b-lið 6. gr. frumvarps til fjarskiptalaga. Ljóst er að veiting alþjónustu er ekki í öllum tilvikum arðbær. Því er við það miðað að kostnaður við tiltekna óarðbæra alþjónustu sé greiddur af öllum fyrirtækjum sem veita sömu þjónustu. Þannig er í 14. gr. fjarskiptafrumvarpsins lagt til að telji rekstrarleyfishafi að alþjónusta sem honum er gert skylt að veita sé rekin með tapi eða sé óarðbær geti hann óskað eftir því við Póst- og fjarskiptastofnun að honum verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá starfsemi sem um ræðir. Til þess að standa straum af greiðslu þessara fjárframlaga skal innheimt jöfnunargjald af rekstrarleyfishöfum innan viðkomandi þjónustusviðs, sbr. 15. gr. frumvarpsins. Í athugasemdum við 14. gr. frumvarpsins segir:
     „Til þess að standa undir greiðslu fjárframlaga skv. 14. gr. er heimilað að leggja á rekstrarleyfishafa sérstakt gjald, svokallað jöfnunargjald. . . .  Þannig yrði meginreglan að þeir sem leyfi hafa til fjarskiptareksturs á þéttbýlissvæðum greiddu jöfnunargjald í samræmi við rekstrartekjur af starfseminni, gjaldið yrði síðan eftir atvikum notað til að tryggja sambærilega þjónustu í tilteknum, afmörkuðum byggðum.“
    Þegar ofangreint er virt telur Samkeppnisstofnun að frumvarp til laga um fjarskipti í núverandi búningi miði að því að landsmenn allir njóti talsímaþjónustu á sanngjörnu verði eftir 1. janúar 1998. Það er því skoðun stofnunarinnar að ekki sé þörf á ákvæði um samræmda verðlagningu á talsímaþjónustu til þess að tryggja þessa alþjónustu. Jafnframt ber að hafa í huga að sú leið sem valin er í frumvarpinu til þess að stuðla að jafnari stöðu landsmanna varðandi talsímaþjónustu virðist ekki vera í ósamræmi við markmið samkeppnislaga. Ákvæði um samræmda verðlagningu á þessari þjónustu fer hins vegar eins og áður sagði gegn markmiði samkeppnislaga.
    Í 13. gr. laga nr. 99/1996, um breytingu á lögum um fjarskipti, er sams konar ákvæði um samræmda verðlagningu á talsímaþjónustu og nú er lagt til að bætist inn í frumvarp til laga um fjarskipti. Hafa ber í huga að aðstæður hafa breyst frá því að þessi lög voru sett. Eins og áður sagði er nú gert ráð fyrir því í nefndu frumvarpi að grunnfjarskiptaþjónusta verði tryggð með ákvæðum um skyldu til alþjónustu og innheimtu jöfnunargjalds. Verði frumvarpið samþykkt er því ekki lengur ástæða til þess að hafa ákvæði í lögum um að notkunargjald á talsímaþjónustu skuli vera hið sama.
    Samkeppnisstofnun telur að fyrrgreind breytingartillaga sé í ósamræmi við ákvæði frumvarps til fjarskiptalaga. Í því sambandi má benda á að frumvarpið byggir á því að verðlagning á alþjónustu ráðist af samkeppni á markaði en unnt sé að mæla fyrir um hámarksverð á slíkri þjónustu, aðallega ef alþjónusta teldist vera orðin dýrari á Íslandi en í löndum sem sambærileg teljast, sbr. 11. gr. og athugasemdir við hana. Breytingartillagan mundi hins vegar girða fyrir alla verðsamkeppni.

III.

    Samkeppnisstofnun tekur ekki afstöðu til þess hvort umrædd breytingartillaga, verði hún að lögum, brjóti í bága við EES-samninginn. Stofnunin telur hins vegar nauðsynlegt að geta þess að þau gögn sem hún hefur undir höndum virðast benda til þess að ætlunin sé sú að fyrirtæki á sviði fjarskiptaþjónustu hafi ákveðið frelsi til þess að verðleggja þjónustu sína og að beitt verði sértækum aðgerðum til þess að tryggja alþjónustu á sanngjörnu verði, sbr. eftirfarandi ummæli í aðfararorðum draga að tilskipun um talsímaþjónustu sem koma mun í stað tilskipunar nr. 95/62/EC:
     „Whereas price caps and similar schemes may be used to ensure that the necessary re-balancing does not affect users adversely, and that the differences between prices in high cost areas and prices in low cost areas do not endanger the affordability of telephone services.“

IV.

    Niðurstaða Samkeppnisstofnunar er að verði drög að margnefndri breytingartillögu við frumvarp til laga um fjarskipti að lögum mundi það ákvæði fara gegn markmiði samkeppnislaga og torvelda frjálsa samkeppni í viðskiptum. Það er einnig skoðun Samkeppnisstofnunar að tillagan sé óþörf þar sem ákvæði frumvarpsins í núverandi mynd miði að því að tryggja landsmönnum öllum talsímaþjónustu á sanngjörnu verði.

Virðingarfyllst,


f.h. Samkeppnisstofnunar,Ásgeir Einarsson.
Fylgiskjal II.

Samgönguráðuneyti:


Skilgreining alþjónustu (Universal Service).1. Skilgreining.
    Samkvæmt 7. gr. frumvarps til laga um fjarskipti getur Póst- og fjarskiptastofnun gert rekstrarleyfishafa skylt að veita alþjónustu á starfssvæði sínu.
    Alþjónusta er skilgreind í 2. gr. sem afmarkaðir þættir fjarskipta sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Lagt er til að samgönguráðherra skilgreini í reglugerð hvaða þættir fjarskiptaþjónustu falli undir alþjónustu. Af 3. mgr. 1. gr. er ljóst að talsímaþjónusta falli hér undir.

2. Afmörkun alþjónustu.
    Hugtakið alþjónusta og ákvörðun á því hvaða þjónusta skuli teljast alþjónusta er hápólitísk.
    Hingað til hafa ríkisreknar símastjórnir haft einkarétt og yfirburðastöðu á markaðnum og jafnframt verið skylt að annast ýmsa óarðbæra þjónustu, sem var greidd af tekjum sem þær höfðu af annarri þjónustu. Raunverulegur kostnaður við þjónustuna var ekki ljós. Breyttar reglur í fjarskiptum hafa kallað á grundvallarbreytingu á alþjónustu og fjármögnun hennar. Um þetta er mikið rætt innan ESB og gefnar hafa verið út leiðbeiningar um málið. Samkvæmt þeim teljast a.m.k. eftirtaldar þjónustur til alþjónustu (universal):
—    talsímaþjónusta, þ.m.t. þjónusta sem veitt er á símanetinu, svo sem fax;
—    aðgangur að neyðarþjónustu;
—    aðgangur að upplýsingum um símanúmer;
—    almenningssímar.
    Önnur þjónusta eins og ISDN og leigulínur koma einnig mjög til greina sem alþjónusta og að sjálfsögðu ýmis félagsleg þjónusta, svo sem niðurfelling á fastagjaldi til elli- og örorkulífeyrisþega.
    Það er ljóst að skilgreining á alþjónustu mun taka breytingum eftir því sem tækniframfarir og ný þjónusta kemur fram enda er aðgangur að upplýsingum um fjarskiptanet einn af hornsteinum upplýsingaþjóðfélagsins.
    Af þeim orsökum var ekki talið rétt að telja upp í frumvarpinu þær þjónustur sem skuli falla undir alþjónustu. Ráðherra er því heimilað að ákveða hvaða þættir falla undir alþjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun mun síðan útfæra nánar þessa þjónustu, t.d. hvort fleiri en einn aðili skuli annast alþjónustu, hvort hún eigi að ná til alls landsins eða einstakra landshluta.
Neðanmálsgrein: 1
Sjá Communication from the Commission to the Council, the European Parliament, the Economic and Social Committee and the Committee of the Regions; Universal service for Telecommunications in the perspective of a fully liberalised environment. COM(96) 73 final, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 2
Proposal for a European Parliament and Council Directive on the application of open network provisions (ONP) to voice telephony and on universal service for telecommunications in a competitive environment. COM(96) 11. september 1996.