Ferill 24. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 24 . mál.


400. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1997.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Þótt efnahagsþróunin á yfirstandandi ári og horfur fyrir komandi ár séu vissulega um margt jákvæðar er þar einnig ýmis alvarleg áhyggjuefni að finna. Þar stendur upp úr áframhaldandi hrikaleg skuldasöfnun heimilanna en heimilin hafa haldið áfram að stórauka skuldir sínar á þessu ári. Frá miðju ári 1995 til jafnlengdar á yfirstandandi ári hafa lántökur heimilanna aukist um 11,5%. Talið er að skuldaauking heimilanna á árinu 1996 verði nálægt 30 milljarðar kr. Ríkissjóður heldur sömuleiðis áfram að auka við skuldir sínar þótt nokkuð hafi dregið úr skuldaaukningunni. Ánægjulegt er á hinn bóginn að sveitarfélögin virðast nú loksins vera að komast fyrir hallareksturinn og skuldir þeirra eru hættar að aukast.
    Ýmislegt fleira mætti nefna sem vekur áhyggjur eins og raunvaxtahækkun undanfarna mánuði, en ljóst er að eitt helsta og nánast eina úrræðið sem Seðlabankinn hefur valið að beita til að sporna gegn þennslu og viðskiptahalla er að hækka vexti. Raunvextir hafa því farið hækkandi á Íslandi á sama tíma og þeir hafa yfirleitt verið að lækka í nágrannalöndunum.
    Í heildina tekið fer lítið fyrir samræmdri hagstjórn og efnahagsstjórn þar sem seðlabanki og ríkisvald vinna saman eins og vera ætti. Ekkert er gert varðandi afmörkuð en stóralvarleg vandamál eins og slæma afkomu fiskvinnslunnar.
    Horfur á stórauknum viðskiptahalla á næsta ári kalla á að á þeim málum sé tekið. Ríkisstjórnin virðist fyrst og fremst hugsa sér að fleyta sér inn í nýtt ár á grundvelli tekjuaukningar ríkissjóðs vegna aukinnar eyðslu í þjóðfélaginu. Ekki er fyrir að fara neinni markvissri eða samræmdri heildarstefnu sem birtist með skýrum hætti við afgreiðslu fjárlaga, lánsfjárlaga og tengdra frumvarpa.
    Minni hluti nefndarinnar sér ekki ástæðu til að endurtaka eða rekja í löngu máli gagnrýni sína á efnahags- og skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Það hefur verið gert í umræðum og í ítarlegu nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1997 koma áherslur stjórnarandstöðunnar í ríkisfjármálum fram.
    Hvað varðar efni þessa frumvarps verður eingöngu staldrað við fáeina þætti.
     Í fyrsta lagi skýtur skökku við að ein af breytingartillögum meiri hlutans við frumvarp til lánsfjárlaga er að lækka lánsheimild til Lánasjóðs íslenskra námsmanna um 170 millj. kr. Þetta er að sögn gert á grundvelli endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar sjóðsins en er mjög á skjön við það að stjórnarflokkarnir telja sig hafa náð lendingu í málefnum Lánasjóðsins og ætla heilar 100 millj. kr. til að efna þá niðurstöðu. Ljóst er að 100 millj. kr. duga engan veginn til þess að koma á fullnægjandi hátt til móts við réttmætar kröfur námsmanna um lagfæringar á málefnum Lánasjóðsins, einkum og sér í lagi að taka upp samtímagreiðslur námsmanna og draga úr hinni óhóflega þungu endurgreiðslubyrði.
     Í öðru lagi er rétt að nefna málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, en þar er flutt tillaga um að lækka lántökuheimild um 530 millj. kr. þar sem ákveðið hafði verið að fresta fyrirhugaðri stækkun í Keflavík. Minni hlutinn bendir á að eftir sem áður eru málefni Flugstöðvarinnar í hinu megnasta uppnámi og árleg heimild til lánalenginga án þess að tekið sé í heild á vanda stöðvarinnar er til vansa.
     Í þriðja lagi má nefna málefni Landsvirkjunar og tengd mál, þ.e. það sem lýtur að fyrirhuguðum stóriðjuframkvæmdum og virkjunum í sambandi við þær. Þar er í fyrsta lagi lagt til að lánsheimild Landsvirkjunar skv. 4. gr. hækki um 4.200 millj. kr. eða í litla 9 milljarða kr. Í öðru lagi er lagt til að við 3. gr. bætist nýr liður upp á 500 millj. kr. sem tengist heimild ráðherra til að endurlána allt að þeirri fjárhæð til lóðaframkvæmda við iðnaðarsvæðið á Grundatanga vegna fyrirhugaðs álvers Columbia Ventures Coorporation.
     Í fjórða og síðasta lagi er svo flutt tillaga um að heimilt verði að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántökur hafnarsjóðs Grundartangahafnar allt að 200 millj. kr. til hafnarframkvæmda vegna hins fyrirhugaða álvers. Samtals eru því lánveitngar með ábyrgð ríkisins í þessu sambandi upp á 4.900 millj. kr.
    Nefndin taldi að sjálfsögðu óhjákvæmilegt að kynna sér bakgrunn þessa máls þar sem um svo háar tölur var að ræða sem raun ber vitni og reyndi m.a. að afla upplýsinga um fyrirhugaðan eiganda og rekstraraðila álversins, fyrirtækið Columbia Ventures Coorporation. Greip nefndin m.a. til þess ráðs að leita til amerísks fyrirtækis sem sérhæfir sig í að veita upplýsingar úr viðskiptalífinu eftir frekari upplýsingum um stöðu og styrk hins væntanlega samstarfsaðila Íslendinga.
    Nefndin var sammála um að ónógar upplýsingar lægju fyrir á þessu stigi málsins hvað varðaði fjárhagsstöðu fyrirtækisins og óhjákvæmilegt væri að þau mál skýrðust, sem og að fullnægjandi og endanlegar ábyrgðir lægju fyrir, áður en framkvæmdir hæfust á grundvelli þeirra lánsheimilda til Landsvirkjunar og lánsheimildaábyrgðar til fleiri aðila sem nefndin hafði til umfjöllunar.
    Minni hlutinn tekur undir þau varnaðarorð sem að þessu leyti til eru í nefndaráliti meiri hlutans. Minni hlutinn telur hins vegar að eðlilegast væri við þessar aðstæður að fresta afgreiðslu á hækkuðum lánsheimildum til Landsvirkjunar og vegna lóðaframkvæmda og hafnargerðar og taka þau mál fyrir á nýjan leik í nefndinni og á Alþingi eftir áramót þegar málin lægju endanlega og ljóst fyrir. Eftir stendur að í nefndinni er algjör samstaða um að hún hljóti að taka málið til umfjöllunar á nýjan leik þegar fjármögnunarvinnu Columbia Ventures Coorporation er lokið og leggja mat á stöðu málsins áður en Landsvirkjun hefur framkvæmdir og tekur lán til þeirra. Í raun er því eingöngu verið að ganga frá heimildunum í lögum án þess að Alþingi sé í reynd að leggja blessun sína yfir að þær verði nýttar fyrr en nefndin hefur tekið málið fyrir á nýjan leik í kjölfar endanlegra samninga og niðurstöðu um fjármögnun.
    Að lokum er rétt að minna á að ýmis mikilsverð mál, sem varða afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga fyrir komandi ár, eru enn óafgreidd af hálfu ríkisstjórnarinnar og ber þar hæst málefni sjúkrahúsanna og ýmis útgjöld til heilbrigðismála og reyndar fleiri veigamikil atriði. Ósamkomulag milli stjórnarflokkanna og togstreita af ýmsu tagi, m.a. um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna, hafa tafið alla vinnu Alþingis við fjárlagagerð og lánsfjárlög og skattafrumvörp og valda því að mikil óvissa ríkir um afgreiðslu þessara mikilsverðu mála fram á síðustu starfsdaga þingsins fyrir jólaleyfi. Hlýtur það að teljast ámælisvert, ekki síst í ljósi þess að Alþingi hefur gert sérstakar ráðstafanir og breytt starfsháttum sínum, m.a. með því að auka svigrúm fyrir nefndastörf þegar mesta annríkið er hjá fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og öðrum þingnefndum sem samkvæmt venju eru sérstaklega uppteknar á þessum árstíma. Slík viðleitni af hálfu Alþingis til að betrumbæta vinnubrögð er að sjálfsögðu til lítils ef ósamkomuleg innan ríkisstjórnarinnar og sleifarlag af hennar hálfu veldur því að mál berast seint og illa til þingsins.
    Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi fyrir Samtök um kvennalista og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 17. des. 1996.



Steingrímur J. Sigfússon,

Ágúst Einarsson.

Jón Baldvin Hannibalsson.


frsm.