Ferill 180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 180 . mál.


431. Nefndarálit


um frv. til l. um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steingrím Ara Arason og Indriða H. Þorláksson frá fjármálaráðuneyti, Hauk Hafsteinsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Björn Arnórsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Mörthu H. Hjálmarsdóttur og Birgi Björn Sigurjónsson frá Bandalagi háskólamanna, Ástu Möller og Vigdísi Jónsdóttur frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Eirík Jónsson frá Kennarasambandi Íslands, Grétar Þorsteinsson, Gylfa Arnbjörnsson og Ástráð Haraldsson frá Alþýðusambandi Íslands og Þórarin V. Þórarinsson, Hannes G. Sigurðsson, Magnús Ólafsson, Víglund Þorsteinsson og Ólaf B. Ólafsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Einnig mættu á fund Benedikt Jóhannesson og Vigfús Ásgeirsson frá Talnakönnun hf. sem nefndin hafði fengið til að reikna út svör við ýmsum spurningum sem vöknuðu við skoðun málsins. Nefndin fékk einnig sendar umsagnir um málið frá ASÍ, BSRB, BHM, KÍ, VSÍ, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, Starfsmannafélagi Akureyrarbæjar, Félagi starfsmanna Stjórnarráðsins, Læknafélagi Íslands, Tollvarðafélagi Íslands, Röntgentæknafélagi Íslands, Ljósmæðrafélagi Íslands, Starfsmannafélagi ríkisstofnana, Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Starfsmannafélagi Garðabæjar, Félagi íslenskra flugumferðarstjóra, Félagi íslenskra leikskólakennara, Félagi íslenskra fræða, Félagi flugmálastarfsmanna ríkisins, Starfsmannafélagi Vestmannaeyjakaupstaðar, Útgarði – félagi háskólamanna, Vinnumálasambandinu, Dýralæknafélagi Íslands, Kennarafélagi KHÍ, Stéttarfélagi lögfræðinga, Meinatæknafélagi Íslands, Seðlabanka Íslands, Starfsmannafélagi Seltjarnarness, Félagi opinberra starfsmanna á Austurlandi, Starfsmannafélagi Neskaupstaðar, Starfsmannafélagi Húsavíkur, Starfsmannafélagi Sauðárkróks, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Starfsmannafélagi Ríkisútvarps, Kennarasambandi Íslands, Hinu íslenska kennarafélagi, Félagi eldri borgara, Lögmannafélagi Íslands, Félagi opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Verslunarráði Íslands, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, Félagi opinberra starfsmanna á Suðurlandi, Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellsnessýslu, Starfsmannafélagi Sjónvarpsins, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Starfsmannafélagi Siglufjarðarbæjar, Félagi háskólakennara við HÍ, Reykjavíkurborg, Starfsmannafélagi Reykjanesbæjar, Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga, Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og Sambandi almennra lífeyrissjóða.
    Við samningu frumvarpsins er gengið út frá þeirri meginforsendu að kostnaður ríkissjóðs við hið nýja lífeyriskerfi verði jafnmikill og kostnaður við núverandi kerfi. Kostnaður af myndun lífeyrisskuldbindinga er nú færður sérstaklega til gjalda í ríkisreikningi, sbr. lög nr. 52/1966. Þessar skuldbindingar koma því ekki fram í fjárlögum hvers árs. Samkvæmt frumvarpi til laga um fjárreiður ríkisins, sem nú liggur fyrir Alþingi, er gert ráð fyrir að gjöld ríkisins verði sýnd á rekstrargrunni á fjárlögum. Áfallnar lífeyrisskuldbindingar ríkisins munu því, ef fjárreiðufrumvarpið verður lögfest, koma fram á fjárlögum og hækka gjöld ríkissjóðs. Raunverulegur kostnaður ríkissjóðs af núverandi lífeyriskerfi mun því verða sýnilegur og iðgjaldaþörf liggja fyrir á hverjum tíma. Það munu verða næstu verkefni í endurskipulagningu lífeyrismála ríkisins að ganga frá formlegum skilum ríkissjóðs til LSR vegna árlegrar myndunar skuldbindinga og áfallinna eldri skuldbindinga.
    Nefndin fjallaði ítarlega um 3. gr. frumvarpsins með tilliti til þeirra athugasemda sem fram höfðu komið þess efnis að 4. mgr. hennar kynni að opna fyrir víðtækari aðild að sjóðnum fyrir starfsmenn sem ekki eru í stéttarfélögum opinberra starfsmanna en nú. Samkvæmt því sem fram hefur komið og upplýst hefur verið er megintilgangur 4. mgr. fyrst og fremst sá að tryggja ýmsum þeim áframhaldandi aðild að sjóðnum sem nú greiða til hans en eru ekki í stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Er þar m.a. um að ræða ýmsa starfsmenn ríkisins og ríkisstofnana sem hafa ákveðið að vera utan stéttarfélaga og hafa á grundvelli ákvæða í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna selt það í hendur fjármálaráðherra að ákveða launakjör sín. Falla þeir því hvorki undir 1. né 3. mgr. 3. gr. Enn fremur er þessu ákvæði ætlað að taka til starfsmanna ýmissa aðila, hálfopinberra stofnana og samtaka, sem skv. 4. gr. núgildandi laga hafa fengið heimild til að vera í LSR. Núverandi starfsmönnum þessara aðila er tryggð áframhaldandi aðild að B-deild sjóðsins með 5. mgr. 4. gr. og þeir sem eru innan opinberu stéttarfélaganna eiga kost á aðild að A-deildinni skv. 3. mgr. 3. gr. Hluti starfsmanna þessara aðila er hins vegar utan opinberu stéttarfélaganna og ætti því ekki kost á að færa sig í A-deild sjóðsins.
    Tilgangur ákvæðis 4. mgr. 3. gr. er þannig fyrst og fremst að tryggja sömu aðild að sjóðnum og áður var og koma í veg fyrir misræmi innan stofnana sem verið hafa aðilar að sjóðnum. Þær takmarkanir sem málsgreinin setur gera það að verkum að ekki á að vera hætta á að skörun verði á aðildarrétti gagnvart lífeyrissjóðum almennu stéttarfélaganna. Samkvæmt lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, er félögum í þeim skylt að vera í lífeyrissjóði innan sinnar starfsstéttar. Útilokar málsgreinin þannig aðild að LSR fyrir einstaklinga úr stéttarfélögum með lögbundna lífeyrissjóðsaðild. Þá áskilur greinin samþykki viðkomandi launagreiðanda. Má því telja ljóst að málsgrein þessi breytir ekki núverandi aðildarrétti að neinu marki.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 3. gr. frumvarpsins.
         
    
    Á 1. mgr. verði gerðar tvær orðalagsbreytingar. Sú fyrri er árétting á því að greinin eigi ekki við um þá sem eiga aðild að B-deild sjóðsins skv. 4. og 5. gr. Með seinni breytingunni er orðið „launaákvarðanir“ fært til í þeim tilgangi að taka af öll tvímæli um að það eigi samkvæmt efni greinarinnar einungis við um ákvarðanir Kjaradóms eða kjaranefndar. Samkvæmt þessari breytingu eiga þeir einir rétt á aðild að A-deild sjóðsins á grundvelli 1. mgr. 3. gr. sem fá greidd laun á grundvelli kjarasamninga sem gerðir eru samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, eða á grundvelli launaákvarðana samkvæmt lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.
         
    
    Þá er lagt til að sú breyting verði á 2. mgr. að orðið „jafnan“ falli út. Eftir að val sjóðfélaga um færslu úr B-deild sjóðsins í A-deild hans hefur verið takmarkað við ákveðinn tíma, sbr. breytingartillögur við 4. gr., er orðinu ofaukið.
         
    
    Við 3. mgr. er lagt til í nýjum málslið að nánari ákvæði um aðild þeirra sem heyra undir ákvæði málsgreinarinnar skuli vera í samþykktum sjóðsins. Í þessu sambandi er m.a. haft í huga að í samþykktum sjóðsins verði nánari ákvæði um skilyrði til aðildar að sjóðnum fyrir félagsmenn í aðildarfélögum þeirra bandalaga, sem tilgreind eru í málsgreininni, og með hvaða fyrirvara einstakir launagreiðendur geti sagt upp aðild sinni að sjóðnum.
         
    
    Breyting á 5. mgr. lýtur einungis að orðalagi greinarinnar og er ætlað að gera hana skýrari.
    Með breytingum á 4. og 5. mgr. 4. gr. er lagt til að vilji sjóðfélagar í B-deild sjóðsins flytja sig yfir í A-deild hans þurfi þeir að hafa tilkynnt sjóðnum um þá ákvörðun sína fyrir 1. desember 1997. Sjóðfélagar í B-deild sjóðsins, sem ekki hafa tilkynnt sjóðnum þá ákvörðun sína að skipta um deild fyrir 1. desember 1997, geta einungis hafið greiðslu til A-deildarinnar ef þeir skipta um starf og nýja starfið uppfyllir aðildarskilyrði að sjóðnum, eða ef iðgjaldagreiðslur hafa fallið niður af öðrum ástæðum í tólf mánuði eða lengur.
    Með þeirri breytingu sem lögð er til við 7. gr. er nýjum málslið bætt inn í 1. mgr. sem fjallar um verksvið og skyldur stjórnar lífeyrissjóðsins. Samkvæmt þessari breytingu verður skýrt kveðið á um það í lögum sjóðsins að stjórn lífeyrissjóðsins skuli móta fjárfestingarstefnu hans og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu.
    Með breytingartillögu við 12. gr. er tveimur greinum bætt við upptalningu á greinum sem fella á brott, en láðst hafði að tilgreina í 12. gr. Þessar greinar eru 26. gr. laga sjóðsins, nr. 29/1963, en hún fjallar um gildistöku þeirra laga, og lög nr. 156/1995 sem aðeins eru ein grein sem hefur að geyma bráðabirgðaákvæði um aðild að sjóðnum fyrir starfsmenn Sjúkrahúss Reykjavíkur sem áður störfuðu hjá St. Jósefsspítala í Reykjavík. Fyrrgreinda greinin er eðli málsins samkvæmt úrelt. Efni seinni greinarinnar hefur hins vegar verið fellt inn í ákvæði 3. og 4. gr. frumvarpsins.
    Sú breyting, sem lögð er til á 25. gr., felur ekki í sér efnisbreytingar á frumvarpinu en er gerð til að taka af öll tvímæli um að launagreiðendur bera ekki ábyrgð á skuldbindingum A-deildar sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum. Skv. 4. og 5. mgr. 25. gr. frumvarpsins skal iðgjald launagreiðenda vera breytilegt og við það miðað að A-deild sjóðsins eigi jafnan fyrir skuldbindingum sínum. Ábyrgð ríkissjóðs á greiðslu lífeyris samkvæmt lögunum, eins og hún er nú skv. 20. gr. gildandi laga sjóðsins, nær hins vegar ekki til A-deildar sjóðsins. Komi þannig til þess að deildinni verði lokað einhvern tíma í framtíðinni og frekari iðgjaldagreiðslum til hennar hætt bera launagreiðendur enga ábyrgð á skuldbindingum hennar. Ef eignir deildarinnar dygðu ekki fyrir skuldbindingum hennar eftir slíka lokun yrði að aðlaga réttindi sjóðfélaga að eignunum. Á sama hátt gætu launagreiðendur ekki eftir slíka lokun gert tilkall til eigna deildarinnar þó svo að þær reyndust, vegna breyttra forsenda, meiri en nauðsynlegt væri til þess að standa undir skuldbindingum.
    Með breytingu á 27. gr. er lagt til að hækkunarprósenta sú, sem tilgreind er í 4. mgr. 27. gr., verði lækkuð úr 0,8% í 0,5%. Til nánari útskýringa á þessari breytingu vísast til bráðabirgðaákvæðis III í b-lið 8. tölul. breytingartillagnanna og til skýringa með því ákvæði í 9. lið hér að aftan.
    Með breytingartillögum við 28. gr. eru leiðréttar tvær villur. Annars vegar er orðinu „ekki“ ofaukið í 2. mgr. og hins vegar vantaði tilvísun í 10. mgr. í 12. mgr. greinarinnar.
    Með breytingartillögu við ákvæði til bráðabirgða II er lagt til að 11,5% iðgjald launagreiðenda verði fast fyrstu þrjú árin eftir gildistöku þessara laga í stað þess að það gildi einungis fyrir árið 1997. Iðgjald launagreiðenda skv. 4. og 5. mgr. 13. gr. laganna (sbr. 25. gr. frumvarpsins) gæti tekið allnokkrum breytingum fyrstu árin sem A-deildin starfaði. Þær breytingar mundu ekki hvað síst ráðast af samsetningu þess hóps sem færir sig úr B-deild sjóðsins í A-deildina. Því þykir heppilegra að festa iðgjaldið fyrstu þrjú árin meðan meiri stöðugleiki fæst í samsetningu sjóðfélaga hjá deildinni og betri reynsla fæst þannig á það hvert nauðsynlegt iðgjald er.
    Lagt er til að við bætist nýtt bráðabirgðaákvæði (III). Við samningu frumvarps til laga um breytingu á lífeyrisréttindum starfsmanna ríkisins var gengið út frá þeirri meginforsendu að verðmæti í nýju lífeyriskerfi væru jafnverðmæt og lífeyrisréttindi samkvæmt gildandi lögum. Í þessu mati er nokkur óvissa fólgin varðandi það hversu margir munu flytja sig úr eldra kerfi í nýtt. Til að mæta þessari óvissu er lagt til að hækkunarprósenta skv. 4. mgr. 15. gr. laganna (sbr. 27. gr. frumvarpsins) verði endurskoðuð eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þessara laga.
    Lagt er til að samhljóða breyting verði gerð á 41. gr., sem fjallar um verksvið og ábyrgð stjórnar Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga, og lögð er til á 7. gr. um stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sbr. 3. lið hér að framan.
    Með breytingartillögu við 55. gr. frumvarpsins er lögð til sams konar breyting á frumvarpinu að því er Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna varðar og lagt er til að gerð verði á 3. gr. og varðar Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Vísast því til skýringa við 2. lið hér að framan.
    Ágúst Einarsson og Jón Baldvin Hannibalsson skrifa undir þetta álit með fyrirvara sem lýtur að því að þeir telja lögfestingu frumvarpsins í þessu formi fela í sér skyldu stjórnvalda að sjá svo um að starfsmenn ríkisins sem eru í stéttarfélögum ASÍ fái sömu lífeyrisréttindi og öðrum ríkisstarfsmönnum eru tryggð með frumvarpinu. Einar Oddur Kristjánsson ritar einnig undir álitið með fyrirvara og mun styðja efnislega boðaðar breytingartillögur minni hlutans við málið.

Alþingi, 19. des. 1996.


Vilhjálmur Egilsson,

Ágúst Einarsson,

Gunnlaugur M. Sigmundsson.

form., frsm.

með fyrirvara.


Steingrímur J. Sigfússon.

Valgerður Sverrisdóttir.

Jón Baldvin Hannibalsson,

með fyrirvara.


Einar Oddur Kristjánsson,

Árni R. Árnason.

með fyrirvara.