Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 253 . mál.


443. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín Ástgeirsdóttir,


Bryndís Hlöðversdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir.



I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt,

með síðari breytingum.

1. gr.

    Á eftir 2. mgr. A-liðar 68. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Nú heldur maður heimili með og framfærir barn sitt á aldrinum 16–19 ára, að báðum árum meðtöldum, og á ekki rétt á millifæranlegum persónuafslætti skv. 2. mgr., og skal honum þá heimil nýting 80% óráðstafaðs persónuafsláttar barnsins og skulu ákvæði 2. mgr. gilda um ráðstöfun persónuafsláttarins hjá framfæranda. Sækja ber um slíka meðferð til ríkisskattstjóra.
    

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,

með síðari breytingum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
    Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvæði þessarar greinar skulu gilda um meðferð og millifærslu á persónuafslætti barna á aldrinum 16–19 ára, að báðum árum meðtöldum, sem eru á framfæri foreldra sinna.
    Fyrirsögn greinarinnar verður: Skattkort maka og barna.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var flutt á 118. löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga. Með því er lögð til breyting á reglum skattalaga um persónuafslátt. Lagt er til að einstæðum foreldrum sem hafa á framfæri sínu barn á aldrinum 16–19 ára sé heimilt að nýta 80% óráðstafaðs persónuafsláttar barnsins.
    Í núgildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt eru ákvæði sem heimila hjónum eða sambýlisfólki að nýta 80% af óráðstöfuðum persónuafslætti þess sem lægri tekjur hefur. Engar slíkar heimildir eru fyrir hendi um nýtingu óráðstafaðs persónuafsláttar barna. Verður að telja að í því felist mikið óréttlæti þegar í hlut eiga einstæðir foreldrar.
    Breyttar þjóðfélagsaðstæður, sem felast m.a. í auknum menntunarkröfum, leiða til þess að börn dveljast lengur í foreldrahúsum en áður og þurfa lengur á framfærslu foreldra sinna að halda. Reyndar er það svo að framfærsla foreldranna er oftast forsenda þess að ungmennið fái tækifæri til að mennta sig. Núna búa 80–90% ungmenna á aldrinum 16–18 ára í foreldrahúsum. Aukið atvinnuleysi hin síðari ár hefur og haft áhrif á möguleika ungmenna til að létta framfærslubyrðina og hefur fjöldi þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá á aldrinum 15–19 ára rúmlega tífaldast á árunum 1987–94.
    Framfærslukostnaður vegna barna 16 ára og eldri er mjög mikill. Samkvæmt könnun sem Félag einstæðra foreldra gerði árið 1991 á framfærslukostnaði barna á aldrinum 13–15 ára var hann áætlaður um 500 þús. kr. árlega. Hér er um mjög mikil útgjöld að ræða, ekki síst í ljósi þess að ætla má að mikill hluti einstæðra foreldra þurfi að framfleyta sér á lágmarkslaunum og þeir þurfi að verulegu leyti einnig að sjá um kostnað af menntun og uppeldi barna. Í sömu könnun kom fram að hlutfall meðlags í þeim kostnaði er aðeins u.þ.b. 1 / 8 . Búast má við að hjá mörgum foreldrum sé framfærslukostnaður barna á aldrinum 16–19 ára jafnvel meiri en þetta.
    Í skýrslu félagsmálaráðuneytisins frá 1995, um rannsókn á högum foreldra og barna á Íslandi, kemur fram að konur fara með forsjá barna sinna í yfir 90% skilnaðartilvika og eru einar um umönnun og framfærslu þeirra. Fastar meðlagsgreiðslur miðast við leikskólakostnað og vega því lágt í heildarframfærslunni. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að börn einstæðra foreldra standi félagslega og efnalega verr að vígi en börn í fjölskyldum þar sem báðir foreldrar sjá um framfærsluna. Konurnar vinni mikið eftir skilnað, bæði heima og heiman, og veik fjárhagsstaða kvenna bitni á lífsskilyrðum barnanna.
    Lök fjárhagsstaða einstæðra foreldra kemur fram í lágum ráðstöfunartekjum. Samkvæmt niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar eru meðaltekjur einstæðra foreldra þrefalt lægri en meðaltekjur hjóna. Samanlagðar meðaltekjur hjóna fyrir árin 1994 og 1995 voru 2.899 þús. kr. en meðaltekjur einstæðra foreldra voru á sama tímabili 999 þús. kr. Í sömu niðurstöðu kom fram að breyting tekna milli áranna voru 6,2% hækkun tekna hjónafólks en 3,3% hækkun tekna einstæðra foreldra.
    Í úttekt Félagsvísindastofnunar, sem gerð var í mars 1995 undir heitinu „Skuldastaða heimilanna“, kemur fram að einstæðir foreldrar skulda einna mest allra eða um 4,5 millj. kr. og þeir greiða einna mest í afborganir, eða um 35% tekna. Hjón með tvö eða fleiri börn koma næst á eftir einstæðum foreldrum, skulda um 3,8 millj. kr. og greiða 18–24% af tekjum sínum í afborganir vegna húsnæðisskulda. Þar kemur einnig fram að einstæðir foreldrar og fólk með heimilistekjur undir 70 þús. kr. á mánuði greiða hlutfallslega hæstu mánaðargreiðslur vegna húnæðiskaupa. Einstæðir foreldrar greiða liðlega 31% af heimilistekjum sínum, hjón eða sambúðarfólk með tekjur undir 70 þús. kr. á mánuði greiða tæp 22%. Á sama tíma nema hámarksvaxtabætur til hjóna og sambúðarfólks 233 þús. kr. en 181 þús. kr. til einstæðra foreldra.
    Húsnæðisstaða einstæðra foreldra er mun bágbornari en hjóna eða sambúðarfólks. Möguleikar einstæðra foreldra til að eignast eigið húsnæði eru minni en þeirra sem sjá tveir um framfærsluna. Um 84% Íslendinga á aldrinum 25–75 ára búa í eigin húsnæði en um 60% einstæðra foreldra og samkvæmt upplýsingum Félagsmálastofnun Reykjavíkur eru einstæðir foreldrar stærsti hluti þeirra húsaleigubótaþega sem eiga börn undir 18 ára aldri, eða 58%.
    1. janúar sl. voru mæðralaun með fyrsta barni felld niður og mæðralaun með öðru og þriðja barni lækkuð. Fyrirheit um hækkun barnabóta gekk ekki eftir og hækkun barnabótaauka nam ekki mæðralaunum með einu barni hjá þeim lægstlaunuðu. Barnabætur og barnabótaauki greiðast aðeins með börnum til 16 ára aldurs þannig að endurdreifing gegnum skatta- og bótakerfið til jöfnunar lífskjara hefur minnkað og hættir alveg við 16 ára aldur.
    Öll sanngirni mælir með því að einstæðum foreldrum sé heimilt að nýta ónýttan persónuafslátt barna með sama hætti og nú er mögulegt milli hjóna og sambýlisfólks.
    Samkvæmt upplýsingum úr álagningargögnum fyrir árið 1996 vegna tekna á árinu 1995 er ónýttur skattafsláttur þeira sem eru fæddir á árunum 1976–1979, að báðum árum meðtöldum, um 2,3 milljarðar kr. og þeir eru 13.994 talsins. Aðeins um 30% barna 16–19 ára hafa verið á vinnumarkaði undanfarin ár. Mikill meiri hluti barna á þessum aldri, eða um 70%, hefur hins vegar farið í framhaldsskóla. Ljóst er að þau börn sem eru í skóla afla sér svo lítilla tekna að skattafslátturinn er langt frá því að nýtast að fullu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæðið gerir ráð fyrir að einstæðir foreldrar, sem ekki eiga rétt á millifæranlegum persónuafslætti skv. 2. mgr. A-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, geti sótt um að fá að nýta 80% af óráðstöfuðum persónuafslætti barna sinna á aldrinum 16–19 ára. Það er þó skilyrði að barnið búi á heimili foreldis og sé á framfæri þess.

Um 2. gr.

    Nauðsynlegt er að laga ákvæði staðgreiðslulaganna um skattkort til samræmis við I. kafla frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.