Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 250 . mál.


447. Breytingartillaga


við frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, nr. 117/1993, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Frá Ágústi Einarssyni, Jóni Baldvini Hannibalssyni,

Steingrími J. Sigfússyni og Kristínu Ástgeirsdóttur.


    Á eftir 1. gr. komi ný grein sem orðist svo:
    Ákvæði til bráðabirgða 6 í lögunum, sbr. 34. gr. laga nr. 144/1995, fellur brott.

Greinargerð.

    Með þessari breytingartillögu er ætlunin að láta bætur úr almannatryggingakerfinu, þ.e. ellilífeyri, örorkulífeyri, tekjutryggingu, barnalífeyri, bætur í fæðingarorlofi, slysatryggingar og sjúkratryggingar, taka mið af breytingum sem verða á launum yfirstandandi árs. Ríkisstjórnin afnam þessa viðmiðun við launabreytingar með bráðabirgðaákvæði í fyrra og ákvað að hækkanir þessara þátta kæmu fram á fjárlögum hverju sinni. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að hækka þessa bótaliði um 2% á næsta ári þótt líklegt sé að launabreytingar verði meiri. Fullyrt var að ekki stæði til að nota þessa kerfisbreytingu til að skerða bætur en nú er annað að koma á daginn. Því er þessi tillaga flutt.