Ferill 248. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 248 . mál.


458. Nefndarálitum till. til þál. um staðfestingu samninga um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1997.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.    Nefndin hefur í umfjöllun sinni um samninginn fengið á sinn fund Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, Jóhann Sigurjónsson, formann íslensku samninganefndarinnar, Helga Ágústsson, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra sjávarútvegsráðuneytisins, Albert Jónsson, deildarstjóra í forsætisráðuneytinu, og Tómas H. Heiðar, aðstoðarþjóðréttarfræðing utanríkisráðuneytisins. Þá óskaði nefndin eftir umsögn sjávarútvegsnefndar um málið og er hún birt sem fylgiskjal með álitinu, ásamt eldri umsögn nefndarinnar um 527. mál á 120. löggjafarþingi.
    Með samningum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum fyrr á þessu ári náðist mikilvæg samstaða með hinum svonefndum strandríkjum, Íslandi, Færeyjum, Noregi og Rússlandi. Jafnframt náðist það markmið Íslendinga að ekki er miðað við núverandi dreifingu síldarinnar innan lögsögu heldur byggt á sögulegum rétti þótt ekki hafi verið fallist á ýtrustu kröfur Íslendinga.
    Mikilvægri samstöðu strandríkjanna fjögurra hefði verið stefnt í hættu ef ekki hefðu náðst samningar þeirra og ESB um veiðar úr síldarstofninum. Sú staða hefði getað komið upp að Íslendingar stæðu einir utan við samninginn, án veiðimöguleika annars staðar en á alþjóðlegu hafsvæði (Síldarsmugunni) og í eigin lögsögu. Sá möguleiki var lítt eftirsóknarverður.
    Samningar hafa nú náðst um heildarstjórnun veiða og verður hlutur ESB minni á næsta ári en hann var í raun á þessu ári. Heildarstjórn á veiði úr síldarstofninum stuðlar að því meginmarkmiði Íslendinga að hann taki aftur upp fyrra göngumynstur og komi í ríkari mæli inn í lögsögu okkar.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 19. des. 1996.Geir H. Haarde,

Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Árni R. Árnason.


form., frsm.Tómas Ingi Olrich.

Hjálmar Árnason.

Vilhjálmur Egilsson.Fylgiskjal I.


Umsögn sjávarútvegsnefndar.


(19. desember 1996.)    Sjávarútvegsnefnd tók á fundi sínum í dag fyrir bréf utanríkismálanefndar, dags. 18. desember sl., þar sem óskað var eftir áliti á 248. máli, tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samninga um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1997. Fékk nefndin á sinn fund Jóhann Sigurjónsson, sendiherra og formann samninganefndar Íslands, og Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra í sjávarútvegsráðuneyti, til að fara yfir efni málsins. Þá mætti einnig á fund nefndarinnar Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna.
    Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Meiri hlutinn gerir ekki athugasemdir við afgreiðslu þess. Minni hlutinn, skipaður Steingrími J. Sigfússyni, Lúðvík Bergvinssyni og Sighvati Björgvinssyni, leggst ekki gegn afgreiðslu málsins. Hann vísar hins vegar til umsagnar sinnar til utanríkismálanefndar frá 29. maí 1996 um 527. og 470. þingmál (á 120. löggjafarþingi). Eina breytingin sem verður með þessum samningi er að strandríkjunum tekst á grundvelli hans að koma að einhverju leyti böndum á veiði Evrópusambandsins með því að það gerist aðili að samningnum. Það sem í þess hlut kemur er samt alltof mikið og á fundi nefndarinnar kom fram gagnrýni á það frá fulltrúa LÍÚ. Það veldur svo því að hin lága upphafsprósenta sem samið var um í maí sl., 17,2%, lækkar nú í 15,6% eða 15,7% eftir því hvort óveidd 12 þús. tonn Rússa teljast með eða ekki. Að öðru leyti stendur óhögguð sú gagnrýni sem minni hlutinn setti fram sl. vor og hefur reyndar styrkst í ljósi reynslunnar, sbr. það fordæmisgildi sem sá samningur er þegar farinn að hafa. Guðný Guðbjörnsdóttir, sem sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi, tekur undir álit minni hluta nefndarinnar.

F.h. sjávarútvegsnefndar,Steingrímur J. Sigfússon, formaður.
Fylgiskjal II.


Umsögn sjávarútvegsnefndar.


(29. maí 1996.)    Vísað er til bréfs utanríkismálanefndar frá 24. maí sl. þar sem óskað er eftir umsögn sjávarútvegsnefndar um tvær tillögur til þingsályktunar, 527. mál, um staðfestingu þriggja samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, og 470. mál, um staðfestingu tveggja samninga við Færeyjar um fiskveiðimál.
    Sjávarútvegsnefnd fékk Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra í sjávarútvegsráðuneytinu, og Jakob Jakobsson, forstöðumann Hafrannsóknastofnunar, til að fara yfir málin með sér á fundi sínum í morgun.
    Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til þessa máls en kýs að birta hér álit meiri og minni hlutans saman. Varðandi málsmeðferð vill nefndin í heild taka fram að hún hefði kosið að meira samráð hefði verið haft við hana á lokastigum málsins.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki athugasemdir við afgreiðslu málsins.
    Minni hluti nefndarinnar, þau Steingrímur J. Sigfússon, Svanfríður Jónasdóttir og Sighvatur Björgvinsson, fagnar því samstarfi sem verið hefur milli Íslendinga og Færeyinga á sviði sjávarútvegsmála og mælir með samþykkt fyrrgreindrar þingsályktunartillögu um staðfestingu fiskveiðisaminga við Færeyjar. Um hina tillöguna, er varðar staðfestingu samninga um nýtingu og stjórnun veiða á norsk-íslenska síldarstofninum, vill minni hlutinn taka eftirfarandi fram:
    Minni hlutinn gagnrýnir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í aðdraganda samningsgerðarinnar. Ekkert samráð var haft við Alþingi og hagsmunaaðila fyrr en gengið hafði verið frá efnisatriðum samkomulags við Norðmenn í öllum aðalatriðum á leynifundi í London. Alls ekkert samráð var haft við sjávarútvegsnefnd.
    Samkomulagið byggist fyrst og fremst á mikilli tilslökun af hálfu Íslands og Færeyja frá því sem þjóðirnar höfðu einhliða ákveðið. Eftirgjöf Norðmanna er óveruleg og Rússar auka sinn hlut með samkomulaginu.
    Gagnrýnisvert er að Íslendingar opna landhelgi sína fyrir Norðmönnum og Rússum, án þess að fá rétt til veiða í lögsögum þeirra ríkja á móti. Er þá undanskilinn rétturinn til veiða við Jan Mayen, enda hafa Íslendingar sjálfstæðan rétt til veiða þar samkvæmt Jan Mayen samningnum.
    Samkomulagið felur í sér að hlutdeild Íslendinga til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum nemur aðeins 17,2%. Þetta lága hlutfall er háskalegt í ljósi þess að eðlileg hlutdeild Íslendinga til veiða á fullorðinni síld, studd sögulegum og líffræðilegum rökum, er á bilinu 30–40%.
    Ástæða er til að hafa áhyggjur af orðalagi greinar 6.2. í bókun um verndun, skynsamlega nýtingu og stjórnun veiða á norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi. Orðalag ákvæðisins þar sem talað er um „hugsanlegar breytingar“ á leyfilegum heildarafla og aflahlutdeild aðila er óljóst. Ekki verður séð að það tryggi rétt Íslendinga til aukinnar hlutdeildar ef göngumynstur síldarinnar breytist, eins og haldið hefur verið fram.
    Ljóst er að ekki hefur, þrátt fyrir þetta samkomulag, komist á heildarstjórnun veiða úr stofninum þar sem Evrópusambandið er ekki aðili að samkomulaginu.

Virðingarfyllst,Steingrímur J. Sigfússon,


formaður sjávarútvegsnefndar.