Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 175 . mál.


467. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt á l. nr. 42/1983, um Landsvirkjun.

Frá 1. minni hluta iðnaðarnefndar.



    Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um Landsvirkjun eru um margt jákvæðar, ekki síst fyrir eigendurna, ríkissjóð, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ. Í umfjöllun nefndarinnar um málið hafa þó komið fram verulegar athugasemdir og gagnrýni, einkum varðandi þrjá meginþætti, þ.e. arðgjafar-, gjaldskrár- og arðgreiðslumarkmiðin, jöfnun orkuverðs og hvernig eigendaframlögin hafa myndast.
    Efasemdir eru uppi um hvernig hægt sé að ná fram gjaldskrármarkmiðum samningsins sem gerður var milli eigenda. Þar eru óvissuþættirnir margir og ýmsir telja að þar vanti traustari og skýrari markmið varðandi lækkun orkuverðs. Megináherslan virðist lögð á arðgreiðslurnar, en í niðurstöðu viðræðunefndar eigenda Landsvirkjunar um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki Landsvirkjunar kemur fram að fyrir liggi áætlanir um rekstur Landsvirkjunar, byggðar á ákveðnum forsendum, þar á meðal að gjaldskrárverð Landsvirkjunar verði óbreytt að raungildi til ársins 2000 og lækki síðan árlega um 2–3% á árunum 2001–2010. Þar kemur einnig fram að þær kunni þó að breytast sem gæti haft í för með sér röskun á fyrrgreindum forsendum um þróun gjaldskrár. Hér er því verið að festa í sessi að gjaldskrá Landsvirkjunar til almenningsrafveitna verði í meginatriðum óbreytt að raungildi til ársins 2000 og óvissa ríkir um framhaldið. Ekki liggur fyrir í samningum, ef forsendur um arðgreiðslu- og gjaldskrármarkmið ganga ekki upp, hvort þeirra eigi að vera víkjandi. Fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans að það er skilningur hans og iðnaðarráðherra að arðgreiðslumarkmiðin eigi að vera víkjandi fyrir gjaldskrármarkmiðunum. Eðlilegra hefði þó verið að um slíkt yrði kveðið á í samningnum eða 2. gr. frumvarpsins sem fjallar um eigendaframlögin og arðgreiðslurnar.
    Framlög eigenda Landsvirkjunar til fyrirtækisins eru endurmetin og mynda endurmetin eigendaframlög nýjan stofn til arðgreiðslu. Gagnrýni kom fram frá ýmsum sem komu á fund nefndarinnar um hvernig stofnframlög eigenda til útreiknings arðsgreiðslna væru tilkomin, þ.e. að hve miklu leyti eigendaframlögin byggðust á framlögum eigenda, lánum eða ábyrgðum frá ríkissjóði eða háu raforkuverði. Eðlilegt hefði verið að ítarleg úttekt hefði legið fyrir á því hvernig eigendaframlög, sem mynda stofn til útreiknings arðs, eru tilkomin, en til þess gafst ekki tími í umfjöllun nefndarinnar um málið. Eftir að nefndarstarfinu lauk barst þó ítarleg greinargerð frá borgarstjóranum í Reykjavík um eignarmyndun Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun sem skýrir málið af hálfu borgarinnar og fylgir með álitinu sem fylgiskjal.
    Frumvarpið kveður einnig á um að lögfesta heimild Landsvirkjunar til að hagnýta þá sérþekkingu sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála, auk þess sem ýmis ákvæði er lúta að rekstri fyrirtækisins eru löguð að ákvæðum hlutafélagalaga.
    1. minni hluti gerir þó athugasemdir við tvö mikilvæg atriði og flytur um þau breytingartillögur.
    1. Í 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um að stjórn Landsvirkjunar setji gjaldskrá fyrir Landsvirkjun, en áður gerði Þjóðhagsstofnun tillögu áður en gjaldskrá var sett. Mjög óeðlilegt er að einokunarfyrirtæki eins og Landsvirkjun skuli ekki búa við neitt eftirlit með verðlagningu. Telur 1. minni hluti að það eftirlitshlutverk eigi að vera í höndum Samkeppnisstofnunar og að starfsemi Landsvirkjunar falli undir samkeppnislög og mun flytja um það breytingartillögu.
    2. Í áliti Ríkisendurskoðunar um málið er bent á að ákvæði 7. gr. frumvarpsins skerði beina eftirlitsmöguleika eignaraðila með fyrirtækinu. Fram kemur í álitinu að eftir þessa breytingu blasi við að endurskoðunar- og eftirlitsheimildir Ríkisendurskoðunar gagnvart fyrirtækinu verði mun þrengri en t.d. gagnvart öðrum stofnunum, sjóðum eða fyrirtækjum sem ríkið á að hálfu eða meira þótt fjárhagslegir hagsmunir sem í húfi eru sé að jafnaði margfalt minni í þessum fyrirtækjum en Landsvirkjun. Orðrétt segir í áliti Ríkisendurskoðunar: „Litið hefur verið svo á að þar sem sérákvæðum Landsvirkjunarlaga um að stjórn Landsvirkjunar skuli ráða endurskoðendur voru ekki sérstaklega felld úr gildi við gildistöku laganna um Ríkisendurskoðun á sínum tíma, líkt og gert var vegna annarra fyrirtækja og sjóða í eigu ríkisins sem féllu undir endurskoðunarumboð stofnunarinnar, ber Ríkisendurskoðun ekki að endurskoða fyrirtækið. Ekki hefur fengist skýring á því hvers vegna sameignarfélög voru undanskilin þessari ákvörðun. Hitt er að þessi skipan er andstæð þeirri meginreglu 6. gr. laganna um Ríkisendurskoðun að stofnunin skuli annast endurskoðun ársreikninga allra fyrirtækja sem eru í eigu ríkisins að hálfu eða meira. Í ljósi hinna gífurlegu hagsmuna sem ríkið á í húfi í fyrirtækinu verður ekki í fljótu bragði komið auga á þau sjónarmið sem réttlæta að Ríkisendurskoðun skuli hafa minni endurskoðunar- og eftirlitsmöguleika gagnvart fyrirtækinu en öðrum fyrirtækjum sem ríkið á að hálfu eða meira.“
    Ríkisendurskoðun bendir á að enn séu heimildir til eftirlits með Landsvirkjun þrengdar verulega með því að felld er niður heimild eigenda til þess að tilnefna sérstakan endurskoðanda til að endurskoða reikninga fyrirtækisins ásamt hinum ráðna endurskoðanda.
    Í lok álitsins segir Ríkisendurskoðun orðrétt: „Það er skoðun Ríkisendurskoðunar að ákvæði laga um stofnunina eigi að gilda um Landsvirkjun eins og önnur fyritæki í meirihlutaeigu ríkissjóðs. Í tilviki Landsvirkjunar kæmi til álita að stofnunin hefði samráð við Borgarendurskoðun um skipan fjárhagsendurskoðunar á hverjum tíma þar sem Borgarsjóður á rúmlega 40% eignaraðild að Landsvirkjun.“
    Í ljósi framangreinds mun 1. minni hluti flytja breytingartillögu þess efnis að um endurskoðun ársreikninga Landsvirkjunar skuli fara að lögum um Ríkisendurskoðun. Slíkt ákvæði tryggir að ákvæði laga um Ríkisendurskoðun gildi um Landsvirkjun eins og önnur fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkissjóðs. Eðlilegt er að endurskoðunin verði unnin í samráði við Borgarendurskoðun og endurskoðendur Akureyrarbæjar.
    Varðandi framtíðarskipan orkumála leggur 1. minni hluti áherslu á að brýnt sé að mótuð verði stefna um nýtingu auðlinda, sem og aðskilnað vinnslu flutnings, dreifingar og sölu á raforku sem er forsenda fyrir samkepppni, sbr. niðurstöðu orkulaganefndar sem iðnaðarráðherra skipaði. Jafnframt verði tryggt að arður af nýtingu náttúruauðlinda renni til almennings í landinu. Þegar þarf að hefja undirbúning að stofnun raforkuflutningsfyrirtækis, Landsnets, í samráði við sveitarfélögin og orkuveitur í landinu. Stefnt verði að því að Landsnetið yfirtaki flutningskerfi Landsvirkjunar og þann hluta af flutningskerfi Rariks sem þarf til að allar rafveitur eigi beinan aðgang að landsnetinu.
    1. minni hluti leggur áherslu á að þegar í stað verði hafinn sá undirbúningur á skipan raforkumála sem að framan greinir.
    Að lokum skal tekið fram að 1. minni hluti lagði sig mjög fram um það að samstaða næðist í nefndinni um frumvarpið. Lagði 1. minni hluti áherslu á að meiri hlutinn kæmi til móts við fyrrgreind sjónarmið:
—    að skerða ekki eftirlitsmöguleika Ríkisendurskoðunar,
—    að eftirlit með gjaldskrá Landsvirkjunar vegna einokunaraðstöðu þess yrði tryggt hjá Samkeppnisstofnun,
—    að skýrt yrði kveðið á í nefndaráliti um jöfnun orkuverðs,
—    að arðgreiðslumarkmið yrðu víkjandi fyrir gjaldskrármarkmiðum,
—    að þegar í stað yrði hafinn undirbúningur að stofnun raforkuflutningsfyrirtækis, Landsnets, í samráði við sveitarfélögin og orkuveitur í landinu.
    Meiri hlutinn hafði góð orð um að koma til móts við þessi sjónarmið 1. minni hluta þannig að nefndin stæði öll að einu nefndaráliti. Á lokafundi nefndarinnar kom þó í ljós að ekki var vilji af hálfu meiri hlutans til að hafa samráð um sameiginlega niðurstöðu nefndarinnar í málinu. Því er 1. minni hluta gert ókleift að standa að áliti meiri hlutans.
    1. minni hluti styður í megindráttum það samkomulag sem gert hefur verið milli ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar en skilar séráliti í ljósi framangreinds og flytur þær breytingartillögur sem að framan er lýst.
    Guðný Guðbjörnsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er sammála áliti þessu.

Alþingi, 20. des. 1996.



Jóhanna Sigurðardóttir,

Sighvatur Björgvinsson.


frsm.


Fylgiskjal.


Bréf borgarstjórans í Reykjavík til iðnaðarnefndar.


(18. desember 1996.)





(3 síður)




Fskj.

Rafmagnsveita Reykjavíkur,
Hagdeild:






(4 síður myndaðar.)