Ferill 254. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 254 . mál.


474. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, með áorðnum breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna orðast svo: Sveitarstjórnir skulu greiða upphæð er svarar til 1,3% af dagvinnulaunum kennara og skólastjóra í sveitarfélaginu í sérstakan sjóð er Samband íslenskra sveitarfélaga annast rekstur á og varðveitir.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt að ósk stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skv. 25. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla, greiða sveitarfélög framlag í sérstakan sjóð til þess að standa straum af launum kennara og skólastjóra við grunnskóla vegna námsleyfa allt að einu ári.
    Í lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, og í samningum milli ríkis og sveitarfélaga um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna var gert ráð fyrir að halda óbreyttum möguleikum kennara og skólastjórnenda til námsleyfa vegna viðbótarnáms og endurmenntunar. Að jafnaði hefur verið unnt að veita um 30 námsleyfi á ári, en umsóknir hafa yfirleitt verið þrefalt til fjórfalt fleiri. Í sama mund og sveitarfélög tóku við grunnskólum, 1. ágúst 1996, hófu 30 kennarar og skólastjórar námsleyfi sem veitt voru í lok árs 1995.
    Við setningu grunnskólalaganna var miðað við að 1% af dagvinnulaunum dygði til að halda fjölda námsleyfa óbreyttum eftir flutning grunnskólans eða um 30 námsleyfi á ári. Komið hefur í ljós að þessi viðmiðun er of lág. Til að halda óbreyttum fjölda námsleyfa á ári eftir flutning grunnskólans til sveitarfélaganna þarf viðmiðunartalan að vera 1,3%. Af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga er viðurkennt að við ákvörðun um tekjustofna vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaganna hafi verið reiknað með 30 námsleyfum. Breytingin sem hér er lögð til á 25. gr. grunnskólalaganna leiðir því ekki til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð heldur er um að ræða leiðréttingu til að tryggja lagagrundvöll fyrir námsleyfasjóð á vegum sveitarfélaga.
    Í 1. gr. er lagt til að viðmiðunartala fyrir framlag sveitarfélaga í námsleyfasjóð verði hækkuð úr 1% af dagvinnulaunum kennara og skólastjóra í 1,3%.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
nr. 66/1995, um grunnskóla, með áorðnum breytingum.

    Í frumvarpinu, sem flutt er að ósk stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, er lagt til að sveitarstjórnir greiði 1,3% af dagvinnulaunum í námslaunasjóð kennara í stað 1% samkvæmt gildandi lögum.
    Við flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga var samið um kostnað og breytingu á tekjustofnum, m.a. vegna námslauna kennara. Frumvarpið mun því ekki hafa áhrif á kostnað ríkissjóðs.