Ferill 180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 180 . mál.


485. Framhaldsnefndarálit



við frv. til l. um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin tók málið aftur fyrir að lokinni 2. umræðu og fékk til sín Indriða H. Þorláksson frá fjármálaráðuneytinu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið, eins og það stendur nú, verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:



    Við 22. gr. Við c-lið bætist ný efnismálsgrein sem orðist svo:
                  Stjórn sjóðsins er heimilt að fengnu samþykki fjármálaráðuneytisins að taka við skuldabréfi til greiðslu á áföllnum skuldbindingum annarra launagreiðenda en ríkissjóðs skv. 1. mgr. þessarar greinar enda sé skuldin tryggð með fullnægjandi hætti. Skuldbindingin sem gerð er upp skal byggð á tryggingafræðilegu mati miðað við uppgjörsdag. Launagreiðandi, sem gert hefur upp skuldbindingu sína með útgáfu skuldabréfs samkvæmt þessari málsgrein, ber ekki frekari ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins vegna þess tímabils og þeirra starfsmanna sem uppgjörið tekur til.
    Við I. kafla bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Þeir starfsmenn Ríkisspítala, sem aðild eiga að sjóðnum í árslok 1996 og eru í störfum sem flytjast til Sjúkrahúss Reykjavíkur og halda þeim áfram, skulu eiga rétt til áframhaldandi aðildar að B-deild sjóðsins með óslitinni réttindaávinnslu.

    Fyrri tillagan er um að heimila Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að taka við skuldabréfum til lúkningar áföllnum skuldbindingum annarra en ríkisins. Tillagan miðast við að heimildin verði ekki notuð nema með samþykki fjármálaráðuneytis og með þeim skilmálum sem það ákveður. Líklegt er að ýmsir launagreiðendur sem flytja starfsmenn sína í A-deild sjóðsins vilji um leið gera upp fortíðarskuldbindingu sína, enda getur slíkt uppgjör verið forsenda þess að flutningur sé mögulegur. Síðari tillagan skýrir sig sjálf, en þar er farin sambærileg leið og með starfsmenn Landakots þegar þeir fluttust yfir.

Alþingi, 20. des. 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Ágúst Einarsson.

Gunnlaugur M. Sigmundsson.


form., frsm.



Jón Baldvin Hannibalsson.

Valgerður Sverrisdóttir.

Einar Oddur Kristjánsson.



Steingrímur J. Sigfússon.

Árni R. Árnason.





Prentað upp.