Ferill 256. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 256 . mál.


487. Frumvarp til lagaum varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)


    

1. gr.

    Vinna skal að vörnum gegn tjóni og slysum af völdum snjóflóða og skriðufalla svo sem fyrir er mælt í lögum þessum.
    Samheitið ofanflóð er hér eftir notað um snjóflóð og skriðuföll.
    

2. gr.

    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn þeirra málefna sem lög þessi taka til, nema þau séu sérstaklega falin öðrum ráðherrum.
    

3. gr.

    Veðurstofa Íslands aflar gagna um snjóflóð og snjóflóðahættu og vinnur úr þeim. Hún annast mælingar á snjóalögum og rannsóknir á þeim með sérstöku tilliti til snjóflóðahættu og gefur út viðvörun um hana, sbr. 6. gr.
    Náttúrufræðistofnun Íslands aflar gagna um skriðuföll og hættu af þeirra völdum í samstarfi við Veðurstofuna.
    Veðurstofan skal ráða sérstaka eftirlitsmenn til að kanna og fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af ofanflóðum í þeim sveitarfélögum þar sem þörf er á slíkum athugunum samkvæmt ákvörðun ráðherra.
    Veðurstofan skal hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórn um ráðningu eftirlitsmanns. Skal sveitarstjórn leggja honum til nauðsynlega vinnuaðstöðu og almennan búnað, svo og sjá um rekstur á tækjum og búnaði, endurgjaldslaust.
    Laun eftirlitsmanna skulu greidd úr ríkissjóði.
    

4. gr.

    Meta skal hættu á ofanflóðum í þeim sveitarfélögum þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku. Skal hættumat fyrst og fremst ná til þéttbýlis og svæða þar sem þétt byggð er fyrirhuguð.
    Veðurstofa Íslands annast gerð hættumats á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum ofanflóða, samkvæmt beiðni hlutaðeigandi sveitarfélags.
    Hættumat skal fela í sér mat á þeirri hættu sem lífi fólks er búin vegna ofanflóða á byggð svæði. Við matið skal tekið tillit til varnarvirkja sem reist hafa verið.
    Hættumat öðlast gildi þegar ráðherra hefur staðfest það. Taka skal fullt tillit til hættumats við alla skipulagsgerð og skal það lagt fram sem fylgiskjal með skipulagstillögu.
    Reglur um gerð og notkun hættumats, flokkun hættusvæða og nýtingu þeirra skulu settar af ráðherra.

5. gr.

    Almannavarnir ríkisins skulu, undir yfirstjórn dómsmálaráðherra, annast gerð neyðaráætlana, svo og sjá um leiðbeiningar og almannafræðslu um hættu af ofanflóðum í samvinnu við Veðurstofu Íslands.
    Almannavarnir skulu skipuleggja og annast björgunar- og hjálparstörf vegna hættu eða tjóns, sem skapast hefur vegna ofanflóða eftir því sem fyrir er mælt í lögum um almannavarnir og 6. og 7. gr. laga þessara.
    

6. gr.

    Þegar Veðurstofa Íslands, að höfðu samráði við lögreglustjóra og almannavarnanefnd, gefur út viðvörun um staðbundna snjóflóðahættu og lýsir yfir hættuástandi skal fólk flytja eða það flutt á brott úr öllu húsnæði á svæði eða svæðum, sem tilgreind skulu í viðvörun Veðurstofunnar, í samræmi við gildandi neyðaráætlun. Svæði þessi skulu afmörkuð á sérstökum uppdráttum sem Veðurstofan skal sjá um að gera á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum snjóflóða. Skulu uppdrættirnir staðfestir af umhverfisráðherra og kynntir Almannavörnum ríkisins og hlutaðeigandi almannavarnanefndum.
    Lögreglustjóri og almannavarnanefnd sjá um að rýma húsnæði skv. 1. mgr. og má beita valdi í því skyni ef þörf krefur. Á meðan hættuástand varir er öll umferð bönnuð um það svæði, sem rýmt hefur verið, nema með sérstöku leyfi lögreglustjóra.
    Veðurstofan tekur ákvörðun um það hvenær hættuástandi skuli aflétt, að höfðu samráði við lögreglustjóra og almannavarnanefnd.
    Uppdrættir skv. 1. mgr. skulu endurskoðaðir í ljósi nýrrar þekkingar á eðli og afleiðingum snjóflóða og breyttra aðstæðna, svo sem vegna þess að reist hafa verið varanleg varnarvirki.

7. gr.

    Lögreglustjóri getur hvenær sem er, í samráði við almannavarnanefnd, ákveðið að rýma húsnæði vegna hættu á ofanflóðum, þótt hættuástandi hafi ekki verið lýst yfir skv. 6. gr. Að auki er heimilt að fyrirskipa að húsnæði skuli rýmt á stærra svæði eða svæðum en gert er ráð fyrir á uppdráttum Veðurstofu Íslands, þar á meðal á stöðum sem 6. gr. tekur ekki til. Má beita valdi til þess að rýma þannig húsnæði ef þörf krefur.
    Þá er lögreglustjóra heimilt að banna umferð um tilteknar götur og vegi vegna hættu á ofanflóðum utan svæða sem rýmd hafa verið skv. 6. gr. Í sama skyni er heimilt að banna fólki aðgang að skíðasvæðum og öðrum útivistarsvæðum.
    

8. gr.

    Í hvert sinn, sem manntjón verður í byggð af völdum ofanflóðs, skal skipa sérstaka nefnd til að rannsaka orsakir ofanflóðsins og afleiðingar þess. Ennfremur er heimilt að skipa slíka nefnd í öðrum tilvikum ef manntjón eða verulegt eignatjón hefur hlotist af ofanflóði.
    Forsætisráðherra skipar hverju sinni þrjá sérfróða menn í nefndina. Formaður nefndarinnar, sem uppfylla skal starfsgengisskilyrði héraðsdómara, skal skipaður án tilnefningar, en aðrir nefndarmenn samkvæmt tilnefningu dómsmálaráðherra og umhverfisráðherra.
    Rannsókn nefndarinnar skal einvörðungu miða að því að draga úr hættu af völdum ofanflóða. Nefndin starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum. Henni er heimilt að krefjast framlagningar á skjölum og öðrum gögnum er varða ofanflóð og taka skýrslur af hverjum þeim sem ætla má að kunni að geta veitt upplýsingar er að gagni mega koma við rannsóknina.
    Forsætisráðherra getur sett nánari reglur um störf nefndarinnar.
    Um rannsókn á ætlaðri refsiverðri háttsemi í tengslum við ofanflóð fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála og er slík rannsókn óháð rannsókn samkvæmt þessari grein.
    

9. gr.

    Ráðherra skipar þriggja manna nefnd, ofanflóðanefnd, til að annast þau verkefni sem greinir í 2. mgr. Formaður nefndarinnar skal skipaður án tilnefningar, en aðrir nefndarmenn samkvæmt tilnefningu félagsmálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Verkefni ofanflóðanefndar eru:
    Að fjalla um og taka afstöðu til tillagna sveitarstjórnar skv. 10. og 11. gr.
    Að ráðstafa fé úr ofanflóðasjóði skv. 13. gr.
    Ákvarðanir ofanflóðanefndar skv. 2. mgr. öðlast fyrst gildi þegar ráðherra hefur staðfest þær. Ráðherra getur sett nánari reglur um störf nefndarinnar.
    

10. gr.

    Sveitarstjórn gerir tillögu til ofanflóðanefndar að varnarvirkjum fyrir hættusvæði sem byggð eru eða byggð verða samkvæmt aðalskipulagi.
    Sveitarstjórn skal annast framkvæmdir við varnarvirki í samræmi við ákvörðun ofanflóðanefndar skv. 2. og 3. mgr. 9. gr. Framkvæmdir skulu unnar á grundvelli útboða þar sem því verður við komið.
    Sveitarstjórn ber ábyrgð á viðhaldi varnarvirkja.
    

11. gr.

    Ef hagkvæmara er talið, til að tryggja öryggi fólks gagnvart ofanflóðum, er sveitarstjórn heimilt að gera tillögu til ofanflóðanefndar um kaup eða flutning á húseignum í stað þess að reisa varnarvirki eða beita öðrum varnaraðgerðum. Auk húseigna getur sveitarstjórn í sama skyni gert tillögu um kaup á lóðum eða öðrum fasteignum.
    Sveitarstjórn skal sjá um að kaupa eignir eða flytja þær í samræmi við ákvörðun ofanflóðanefndar skv. 2. og 3. mgr. 9. gr.
    Sveitarfélag verður eigandi eigna, sem keyptar eru samkvæmt þessari grein, en nýting þeirra er háð samþykki ráðherra.
    Náist ekki samkomulag um kaup á húseign er sveitarstjórn heimilt að taka eignina eignarnámi. Um eignarnám fer samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
    

12. gr.

    Sérstakur sjóður ríkisins, ofanflóðasjóður, er í vörslu umhverfisráðuneytisins.
    Tekjur sjóðsins eru:
    Árlegt gjald, sem lagt er á allar brunatryggðar húseignir og nemur 0,3‰ af vátryggingarverðmæti. Gjaldið skal innheimt ásamt iðgjaldi til Viðlagatryggingar Íslands og fer um innheimtu þess samkvæmt lögum um viðlagatryggingu, þar á meðal skal gjaldið njóta lögtaksréttar og lögveðréttar í vátryggðri eign. Álagning gjalds þessa skal ekki hafa áhrif til hækkunar á innheimtuþóknun til vátryggingafélaga samkvæmt lögum um viðlagatryggingu.
    Árlegt framlag á fjárlögum í samræmi við framkvæmdaáætlun sem lögð skal fram við gerð fjárlaga hverju sinni.
    Vaxtatekjur, sbr. 13. gr.
    Aðrar tekjur.
    Lán til starfsemi sjóðsins, sem eru með ábyrgð ríkissjóðs, skulu háð samþykki fjármálaráðherra.

13. gr.

    Fé ofanflóðasjóðs, sbr. 12. gr., skal notað til að greiða kostnað við rekstur sjóðsins og ofanflóðanefndar, svo og kostnað við varnir gegn ofanflóðum sem hér segir:
    Greiða skal allan kostnað við gerð hættumats skv. 4. gr. og uppdrátta skv. 6. gr.
    Greiða skal allan kostnað við kaup og uppsetningu á tækjum og búnaði sem sérstaklega er aflað til rannsókna og eftirlits með ofanflóðahættu. Sama gildir um kostnað við rannsóknir sem miða að því að bæta hættumat og hönnun varnarvirkja.
    Greiða má allt að 90% af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki skv. 1. og 2. mgr. 10. gr.
    Greiða má allt að 60% af kostnaði við viðhald varnarvirkja skv. 3. mgr. 10. gr.
    Greiða má allt að 90% af kostnaði við kaup eða eignarnám á húseignum, lóðum eða öðrum fasteignum, svo og af kostnaði við flutning húseigna, skv. 1., 2. og 4. mgr. 11. gr., eftir því sem nánar er fyrir mælt í 14. gr.
    Heimilt er að veita sveitarfélagi lán úr ofanflóðasjóði sem nemur kostnaðarhlut þess skv. 3. og 5. tölul. 1. mgr., enda sé því fjárhagslega ofviða að leggja fram sinn kostnaðarhlut. Lán skal veitt til 15 ára með sambærilegum kjörum og ofanflóðasjóði standa til boða. Þó skal endurgreiðsla af láninu, þar með taldir vextir og verðbætur, aldrei nema hærri fjárhæð á ári hverju en nemur 1% af höfuðstól lánsins, ásamt vöxtum og verðbótum, að viðbættum 0,15‰ af álagningarstofni fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og 50% af hreinum tekjum sveitarfélags vegna sölu eða leigu á eignum sem það hefur eignast skv. 3. mgr. 11. gr. Það sem eftir kann að standa af láninu að liðnum lánstíma skal falla niður.

14. gr.

    Ef ákveðið er að ofanflóðasjóður taki þátt í hluta af kostnaði við kaup eða eignarnám á eignum eða flutning á húseignum skv. 5. tölul. 13. gr. skal greiðsla úr sjóðnum miðast að hámarki við staðgreiðslumarkaðsverð sambærilegra húseigna í sveitarfélaginu utan hættusvæða. Við ákvörðun þess skal ekki tekið tillit til hækkunar á markaðsverði sem rekja má til ákvörðunar um kaup á húseignum á hættusvæði.
    Heimilt er að miða greiðslu úr sjóðnum við framreiknað kaupverð húseignar, sem keypt hefur verið á síðustu árum, ásamt mati á kostnaði núverandi eiganda af endurbótum hennar, ef fyrir liggur að staðsetning húseignar á hættusvæði eða í námunda við það hefur haft áhrif til lækkunar markaðsverðs.
    Sjóðurinn greiðir ekki fyrir kaup á húseign, sem unnt er að flytja, nema heildarkostnaður við flutning sé hærri en viðmiðunarverð skv. 1. og 2. mgr.

15. gr.

    Fella skal niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og virðisaukaskatt af efni og tækjum sem flutt eru hingað til lands eða framleidd eru hér á landi til varna gegn ofanflóðum.

16. gr.

    Umhverfisráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    

17. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla brott lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985, ásamt síðari breytingum.
    Ef hættumat hefur verið staðfest fyrir 1. janúar 1996 fellur það sjálfkrafa úr gildi við gildistöku laganna.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Umhverfisráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Skipulags ríkisins og Veðurstofu Íslands, að setja reglur um skipulag nýrrar byggðar og nýbyggingar í sveitarfélögum sem búa við snjóflóðahættu. Skal styðjast við þær reglur uns hættumat hefur verið staðfest fyrir hlutaðeigandi sveitarfélag.

II.


    Ofanflóðasjóður skal á árinu 1997 greiða laun eftirlitsmanna skv. 3. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Frá því að núgildandi lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985, voru sett hefur þeim þrívegis verið breytt, með lögum nr. 50/1995, nr. 151/1995 og nr. 62/1996. Þessar breytingar áttu allar rætur að rekja til snjóflóðanna í Súðavík og á Flateyri á síðasta ári sem kostuðu fjölda mannslífa og eru öllum landsmönnum í fersku minni. Vegna þess að brýn þörf var á að bregðast strax við þessum náttúruhamförum og afleiðingum þeirra með breytingum á lögunum gafst enginn tími til að taka þau til endurskoðunar í heild sinni. Þess í stað var afráðið að endurskoða lögin þegar betra tóm gæfist til með það fyrir augum að frumvarp til nýrra laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum yrði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en í desembermánuði 1996, svo sem fram kemur í 14. gr. núgildandi laga, sbr. 10. gr. laga nr. 151/1995.
    Í samræmi við þetta markmið var nefnd, sem forsætisráðherra hafði upphaflega skipað 25. september 1995, falið að semja nýtt frumvarp til laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Nefndin hafði á sínum tíma unnið að samningu frumvarps til laga um breytingu á núgildandi lögum sem síðar varð, nokkuð breytt, að lögum nr. 151/1995. Í nefndinni hafa átt sæti: Eiríkur Tómasson prófessor, formaður, Húnbogi Þorsteinsson ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu, en hann hefur tekið sæti í nefndinni meðan Berglind Ásgeirsdóttir er í leyfi frá embætti ráðuneytisstjóra, Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ritari nefndarinnar hefur verið Kristján Andri Stefánsson deildarstjóri í forsætisráðuneytinu.
    Við undirbúning að frumvarpinu hefur nefndin m.a. haft samráð við veðurstofustjóra, formann almannavarnaráðs og framkvæmdastjóra Almannavarna ríkisins, svo og sýslumenn og sveitarstjórnarmenn á þeim stöðum þar sem einkum er talin hætta á snjóflóðum og skriðuföllum, auk sérfræðinga á sviði snjóflóðavarna. Hefur nefndin eins og kostur er farið eftir ábendingum og athugasemdum þessara aðila við samningu frumvarpsins. Að auki hefur hún haft hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um eðli og afleiðingar ofanflóða, einkum snjóflóða, svo og áætlaða þörf fyrir snjóflóðavarnarvirki hér á landi og mat á kostnaði við þau. Á þessu ári var að beiðni umhverfisráðuneytisins gerð úttekt á mögulegum varnarkostum í þeim sveitarfélögum sem talið er að búi við snjóflóðahættu. Skýrsla um þessa úttekt var gefin út af Veðurstofu Íslands í októbermánuði sl. og mun henni verða útbýtt til alþingismanna samhliða frumvarpi þessu.

II.


    Þótt bryddað sé upp á nokkrum nýmælum í frumvarpinu er það í meginatriðum byggt á núgildandi lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Vegna þess að efnisskipan laganna hefur nokkuð raskast við þær breytingar, sem á þeim hafa verið gerðar, varð það hins vegar að ráði að setja frumvarpið fram sem nýtt, sjálfstætt lagafrumvarp með það fyrir augum að gera lögin í senn aðgengilegri og heilsteyptari en þau eru nú. Þá hefur orðalagi verið breytt á nokkrum stöðum, m.a. til þess að samræmis gæti í orðanotkun milli einstakra ákvæða í lögunum og í samanburði við ákvæði í öðrum lögum.
    Aðalmarkmiðið með lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum hlýtur að vera að aftra því að manntjón hljótist af ofanflóðum, jafnt snjóflóðum sem skriðuföllum, sér í lagi að forða því svo sem kostur er að fólk láti lífið eða slasist á heimilum sínum. Þess vegna er í frumvarpinu, eins og í núgildandi lögum, gengið út frá því að húsnæði verði skilyrðislaust rýmt á tilteknum hættusvæðum þegar staðbundin hætta er á snjóflóðum, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Því til viðbótar er almannavarnayfirvöldum í 7. gr. veitt heimild til að rýma húsnæði í öðrum tilvikum þegar hætta er á ofanflóðum, snjóflóðum eða skriðuföllum. Ennfremur er í 4. gr. frumvarpsins gengið út frá því, eins og nú er gert, að stuðst verði við vandað hættumat við skipulag og uppbyggingu byggðar í framtíðinni á stöðum þar sem sérstök hætta er á ofanflóðum, auk þess sem áhersla er lögð á það að reist verði varnarvirki til að verja núverandi byggð fyrir slíkum flóðum. Framkvæmdir við uppbyggingu varnarvirkja munu hins vegar taka langan tíma og kosta mikla fjármuni, svo sem gerð verður grein fyrir hér á eftir.
    

III.


    Helstu breytingar á núgildandi lögum, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, eru þessar:
    1. Reglum um svonefnt hættumat er breytt í nokkrum atriðum, sbr. einkum 1. og 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Vegna þess hve vinna við hættumat er tímafrek og kostnaðarsöm er lagt til að slíkt mat nái fyrst og fremst til þéttbýlis og svæða þar sem þétt byggð er fyrirhuguð. Þá er skilgreint hvað eigi að felast í hættumati en þá skilgreiningu er ekki að finna í gildandi lögum. Er gengið út frá því að ákveðin verði sú hætta af völdum ofanflóða, sem ásættanlegt getur talist að fólk á byggðum svæðum búi við, með hliðsjón af annarri almannahættu sem fyrir hendi er í nútímaþjóðfélagi. Í 17. gr. frumvarpsins er ráð fyrir því gert að hafi hættumat verið staðfest á árinu 1995 eða fyrr falli það sjálfkrafa út gildi ef frumvarpið verður að lögum. Þær aðferðir, sem notaðar voru á árum áður við gerð hættumats, hafa í ljósi reynslunnar reynst ófullnægjandi. Þess vegna er eðilegt og eyðir um leið réttaróvissu að eldra hættumat sé fellt úr gildi enda þótt ljóst sé að nokkur tími muni líða uns hægt verður að staðfesta fyrsta hættumatið sem byggt er á nýrri þekkingu og reynslu. Þangað til það gerist er gert ráð fyrir því í ákvæði til bráðabirgða að umhverfisráðherra geti sett bráðabirgðareglur um skipulag nýrrar byggðar og nýbyggingar í þeim sveitarfélögum sem búa við snjóflóðahættu, svo að þróun og uppbygging byggðar stöðvist ekki algjörlega á þeim stöðum. Verður þó að gera ráð fyrir að á meðan ekki liggur fyrir vandað hættumat verði mörkin fyrir örugg byggingarsvæði dregin þröngt vegna varfærnissjónarmiða.
    2. Eins og fyrr segir er í 6. gr. frumvarpsins byggt áfram á þeirri tilhögun, sem tekin var upp með 3. gr. laga nr. 151/1995, sbr. 4. gr. núgildandi laga, að Veðurstofa Íslands skuli gefa út viðvörun um staðbundna snjóflóðahættu og lýsa yfir hættuástandi sem lögreglustjóra og almannavarnanefnd er skylt að bregðast við með þeim hætti að rýma húsnæði á tilteknum svæðum. Vegna ábendinga, einkum frá lögreglustjórum, er ráð fyrir því gert í 7. gr. frumvarpsins að lögreglustjóri geti hvenær sem er, í samráði við almannavarnanefnd, ákveðið að rýma húsnæði þótt hættuástandi hafi ekki verið lýst yfir af hálfu Veðurstofunnar, auk þess sem heimilt er að fyrirskipa rýmingu á öðrum og stærri svæðum en fram koma á rýmingaruppdráttum Veðurstofunnar.
    3. Í kjölfar hinna mannskæðu snjóflóða, sem féllu á Vestfjörðum á síðasta ári, hefur verið bent á það að æskilegt sé að fram fari hlutlæg og óháð rannsókn á orsökum og afleiðingum ofanflóðs í hvert sinn sem manntjón hefur orðið. Í samræmi við þetta er í 8. gr. frumvarpsins svo fyrir mælt að í hvert sinn, sem manntjón verður af völdum ofanflóðs í byggð, skuli skipa sérstaka rannsóknarnefnd til að framkvæma slíka rannsókn. Ennfremur verði heimilt að skipa rannsóknarnefnd í öðrum tilvikum ef manntjón eða verulegt eignartjón hefur hlotist af ofanflóði. Rannsókn sem þessari er eingöngu ætlað að hafa það markmið að draga úr hættu af völdum ofanflóða á sama hátt og rannsókn á flug- og sjóslysum. Rétt er hins vegar að vekja athygli á því að hér er ekki um lögreglurannsókn að ræða, svo sem berum orðum er tekið fram í niðurlagi 8. gr.
    4. Í 9. gr. frumvarpsins eru settar skýrari reglur um skipun og verkefni svonefndrar ofanflóðanefndar. Jafnframt er lagt til að hlutverk nefndarinnar verði nokkru víðtækara en nú er, þar á meðal verði henni falið að taka ákvarðanir um ráðstöfun á fé úr ofanflóðasjóði í stað umhverfisráðherra. Þær ákvarðanir nefndarinnar verði þó, eins og aðrar ákvarðanir hennar, háðar staðfestingu umhverfisráðherra, sbr. 3. mgr. 9. gr.
    5. Niðurstaðan í skýrslu Veðurstofunnar um þörf fyrir snjóflóðavarnarvirki hér á landi er sú að almennt sé hagkvæmara að reisa varanleg varnarvirki til þess að draga úr hættu og tjóni af völdum ofanflóða, heldur en að kaupa eða flytja húseignir í því sama skyni. Í samræmi við þessa meginniðurstöðu er í 10. og 11. gr. frumvarpsins gengið út frá því sem aðalreglu að varnarvirki verði reist með stuðningi ofanflóðasjóðs á þeim stöðum þar sem hætta er á ofanflóðum, einkum snjóflóðum, en húseignir verði aðeins keyptar eða fluttar á brott í undantekningartilvikum. Ef sá kostur er talinn hagkvæmari er kveðið skýrt á um það í 2. mgr. 11. gr. að það sé hlutverk sveitarstjórnar að kaupa eignir eða flytja þær í samræmi við ákvörðun ofanflóðanefndar. Taki ofanflóðasjóður þátt í hluta af kostnaði við kaup á eignum eða flutning á þeim leiðir af 14. gr. frumvarpsins að miða skal að hámarki við staðgreiðslumarkaðsverð eða framreiknað kaupverð húseignar ásamt kostnaði eiganda af endurbótum á henni. Með frumvarpinu er með öðrum orðum gerð tillaga um að heimild til að miða greiðslur úr ofanflóðasjóði við brunabótamat eða endurstofnverð, sem er að finna í 5. mgr. 7. gr. og ákvæðum til bráðabirgða í núgildandi lögum, verði felld á brott úr lögum.
    6. Í 12. gr. frumvarpsins er að finna breytingar á reglum um svonefndan ofanflóðasjóð. Lagt er til að sjóðurinn verði framvegis í vörslu umhverfisráðuneytisins en helsti tekjustofn hans verði eftir sem áður árlegt gjald sem lagt verði á allar brunatryggðar húseignir í landinu og innheimt ásamt iðgjaldi til Viðlagatryggingar Íslands. Gerð er tillaga um að gjaldið hækki úr 0,2‰ af vátryggingaverðmæti í 0,3‰ en á móti falli niður hlutdeild ofanflóðasjóðs í iðgjaldatekjum viðlagatryggingar og aukaálag á iðgjaldið. Með þessu móti vinnst tvennt: Í fyrsta lagi eru ofanflóðasjóði tryggðar nægar tekjur til þess að hann geti staðið undir uppbyggingu á nauðsynlegum varnarvirkjum og í öðru lagi eru gerð skýr skil á milli ofanflóðasjóðs annars vegar og viðlagatryggingar hins vegar. Sá háttur að greiða hluta af iðgjöldum viðlagatryggingar til sjóðsins stenst heldur varla þegar til lengri tíma er litið enda hefur hann verið gagnrýndur, m.a. af endurtryggjendum viðlagatryggingar.
    7. Fyrirsjáanlegt er að kostnaður við gerð og uppbyggingu varnarvirkja verður mjög mikill í þeim sveitarfélögum þar sem helst er talin hætta á ofanflóðum. Miðað við veika fjárhagsstöðu flestra, ef ekki allra, þessara sveitarfélaga telja fyrirsvarsmenn þeirra sig ekki geta tekið þátt í þeim 10% af þessum kostnaði sem núgildandi lög gera ráð fyrir. Hafa þeir því sett fram þá kröfu að ríkisvaldið, þ.e. ofanflóðasjóður, beri allan kostnað við uppbyggingu varnarvirkja. Það væri hins vegar mikið óráð að færa forræði á hönnun og framkvæmdum við varnarvirkin að öllu leyti úr höndum heimamanna. Þessi mannvirki munu óhjákvæmilega tengjast skipulagi og uppbyggingu byggðar í hlutaðeigandi sveitarfélagi, auk þess sem þau eiga eftir að setja mikinn svip á umhverfið. Af þessum sökum er enn sem fyrr gengið út frá því í 13. gr. frumvarpsins að sveitarstjórnir hafi frumkvæði að gerð varnarvirkja og fjármagni þær jafnframt að 1 / 10 hluta. Hins vegar er komið til móts við sjónarmið sveitarstjórnarmanna með því að heimila ofanflóðasjóði í 2. mgr. 13. gr. að veita þeim sveitarfélögum sem er fjárhagslega ofviða að standa straum af umræddri kostnaðarhlutdeild lán en um greiðslur af slíkum lánum fer eftir sérstökum reglum sem gerð er grein fyrir í athugasemdum við 13. gr. hér á eftir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er tekin óbreytt úr núgildandi lögum. Samheitið „ofanflóð“ er áfram látið ná til snjóflóða og skriðufalla. Ákvæði frumvarpsins eiga jafnt við snjóflóð og skriðuföll, að 6. gr. undanskilinni sem eingöngu tekur til snjóflóða.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er áréttuð sú skipan, sem tekin var upp með lögum nr. 151/1995, að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn þeirra málefna sem lúta að vörnum gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Í 1. mgr. 5. gr. og 8. gr. frumvarpsins er að finna undantekningar frá þessari reglu þar sem segir að almannavarnir lúti yfirstjórn dómsmálaráðherra, sbr. lög nr. 94/1962, um almannavarnir, og forsætisráðherra skipi sérstaka nefnd til að rannsaka orsakir ofanflóða og afleiðingar þeirra.

Um 3. gr.


    Greinin er að mestu leyti sama efnis og 5. og 6. gr. núgildandi laga. Í 1. mgr. er hlutverk Veðurstofunnar þó einskorðað við að afla gagna um snjóflóð og snjóflóðahættu og vinna úr þeim gögnum því að í 2. mgr., sem er nýmæli, segir að Náttúrufræðistofnun afli gagna um skriðuföll og hættu af þeirra völdum í samstarfi við Veðurstofuna. Þetta síðastnefnda ákvæði á rót að rekja til þess að á undanförnum árum hefur Náttúrufræðistofnun aflað gagna um skriðuföll og hefur það verið liður í rannsóknum stofnunarinnar á jarðgrunni landsins. Er hér lagt til að stofnunin annist þessa gagnaöflun áfram, í nánu samstarfi við Veðurstofuna sem vinnur úr gögnunum, m.a. í því skyni að meta hættu á skriðuföllum skv. 4. gr. frumvarpsins.
    Í 4. mgr. 3. gr. er gerð tillaga um að Veðurstofan hafi samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórn um ráðningu eftirlitsmanns með ofanflóðum enda er gert ráð fyrir að sveitarstjórn leggi honum til nauðsynlega vinnuaðstöðu og almennan búnað og sjái að auki um rekstur á tækjum og búnaði, án þess að ríkið endurgreiði þann kostnað. Þessi kvöð ætti ekki að vera mjög íþyngjandi fyrir sveitarfélögin vegna þess að með almennum búnaði er átt við búnað sem eftirlitsmaður getur samnýtt með starfsmönnum sveitarfélags, en er ekki sérstaklega ætlaður honum. Slíkan búnað á Veðurstofan að leggja til en hann yrði væntanlega greiddur úr ofanflóðasjóði skv. 2. tölul. 13. gr. frumvarpsins.
    Vegna þess að 1. tölul. 11. gr. gildandi laga er ekki tekinn upp í 13. gr. frumvarpsins er nauðsynlegt að mæla svo fyrir í 5. mgr. 3. gr. að laun eftirlitsmanna skuli greidd úr ríkissjóði.

Um 4. gr.


    Hér eftir sem hingað til er gert ráð fyrir því að gert verði hættumat í öllum þeim sveitarfélögum þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku, sbr. 1. mgr. 2. gr. núgildandi laga. Í 2. mgr. 2. gr. segir enn fremur að hættumat skuli ná til „byggðra svæða, svo og annarra svæða sem skipuleggja skal“. Þar eð skipulagsskylda er nú orðin almenn á landinu öllu felst nær engin afmörkun í þessu orðalagi. Er því lögð til sú breyting að hættumat verði fyrst og fremst látið ná til þéttbýlis og svæða þar sem þétt byggð er fyrirhuguð. Með þessu móti er lögð áhersla á að vinna við hættumat á þéttbýlisstöðum skuli hafa forgang en alls ekki er útilokað að í framtíðinni verði slíkt mat jafnframt látið ná til dreifbýlla svæða.
    Í samræmi við 1. mgr. 3. gr. gildandi laga er lagt til að Veðurstofan annist gerð hættumats en það verði unnið samkvæmt beiðni hlutaðeigandi sveitarfélags. Sem fyrr segir er það nýmæli að skilgreint sé hvað hættumat skuli fela í sér, þ.e. hvert skuli vera markmiðið með gerð þess. Gert er ráð fyrir að í því skuli fólgið mat á þeirri hættu sem lífi fólks, sem býr eða mun fyrirsjáanlega búa á tilteknu svæði, er sérstaklega búin vegna hættu á ofanflóðum á það svæði. Að sjálfsögðu skal við matið tekið tillit til varnarvirkja sem reist hafa verið til þess að verja svæðið fyrir ofanflóðum. Með því að skilgreina ásættanlega hættu munu aðgerðir til varnar byggð taka mið af því mati.
    Í 4. mgr. 4. gr. segir að hættumat öðlist gildi við staðfestingu umhverfisráðherra. Taka skal fullt tillit til hættumats við alla skipulagsgerð og skal matið lagt fram sem fylgiskjal með skipulagstillögu, hvort sem um er að ræða tillögu um aðal- eða deiliskipulag, sbr. 3. mgr. 2. gr. gildandi laga.
    Ákvæði 2. mgr. 3. gr. gildandi laga hefur loks verið tekið upp í 5. mgr. 4. gr. örlítið breytt.

Um 5. gr.


    Upphaf greinarinnar er tekið úr 3. mgr. 3. gr. núgildandi laga.
    Í síðari hluta hennar er tekið af skarið um það, til að fyrirbyggja misskilning, að almannavarnir skuli skipuleggja og annast björgunar- og hjálparstörf vegna hættu eða tjóns sem skapast hefur vegna ofanflóða, samkvæmt lögum um almannavarnir, nr. 94/1962, svo og 6. og 7. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.


    Þessi grein er, eins og fyrr segir, tekin svo til orðrétt úr 4. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að bætt hefur verið við ákvæðinu í 4. mgr. 6. gr. sem skýrir sig sjálft. Þarfnast hún því ekki skýringa.

Um 7. gr.


    Í greininni er mælt svo fyrir, til þess að taka af allan vafa, að lögreglustjóri geti, í samráði við almannavarnanefnd, ákveðið að rýma húsnæði vegna hættu á ofanflóðum í öðrum tilvikum en þeim sem fjallað er um í 6. gr. frumvarpsins, þ. á m. þegar um er að ræða hættu á skriðuföllum. Jafnframt er gert ráð fyrir að lögreglustjóri geti bannað umferð um tiltekna götu og vegi, þ.m.t. vegi á heiðum uppi og í óbyggðum, svo og bannað fólki aðgang að skíðasvæðum og öðrum útivistarsvæðum vegna hættu á ofanflóðum.

Um 8. gr.


    Hér er að finna ákvæði um sérstaka rannsóknarnefnd sem gerð er grein fyrir í almennum athugasemdum hér að framan.
    Lagt er til að ekki verði um fasta nefnd að ræða heldur segir í 2. mgr. 8. gr. að forsætisráðherra skipi hverju sinni þrjá menn í nefndina með sérþekkingu á rannsókn mála og/eða eðli og afleiðingum ofanflóða. Eðlilegt er að forsætisráðherra skipi nefndina enda tekur rannsókn hennar til þátta sem heyra undir fleiri en einn ráðherra.
    Við samningu þessa ákvæðis hefur annars verið höfð hliðsjón af lögum nr. 59/1996, um rannsókn flugslysa. Segir þannig að rannsóknin skuli einvörðungu miða að því, eins og rannsókn á vegum rannsóknarnefndar flugslysa, að draga úr hættu af völdum ofanflóða og koma í veg fyrir að hliðstæðir atburðir endurtaki sig. Mikilvægt er að nefndin starfi sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum og er lagt til að henni verði heimilt að krefjast framlagningar á gögnum og taka skýrslur eftir því sem nánar er fyrir mælt í greininni. Að öðru leyti er ekki mælt fyrir um störf nefndarinnar en gert er ráð fyrir að forsætisráðherra geti sett nánari reglur um störf hennar.
    Í 5. mgr. 8. gr. er sérstaklega tekið fram, eins og í lögum um rannsókn flugslysa, að rannsókn lögreglu á áætlaðri refsiverðri háttsemi í tengslum við ofanflóð sé óháð rannsókn samkvæmt greininni. Lögreglurannsókn fari fram með venjulegum hætti samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

Um 9. gr.


    Í greininni er kveðið á um skipun og störf ofanflóðanefndar og er samsvarandi ákvæði að finna í 8. gr., sbr. 1. mgr. 7. gr. núgildandi laga. Að öðru leyti vísast um skýringar á greininni til almennra athugasemda hér að framan.

Um 10. gr.


    Greinin er sama efnis og 1. mgr. 7. gr. og 9. gr. núgildandi laga. Þarfnast hún ekki frekari skýringa.

Um 11. gr.


    Segja má að greinin eigi sér fyrirmynd í 2., 6. og 7. mgr. 7. gr. núgildandi laga. Skýrt er kveðið á um það að auk húseigna geti sveitarstjórn, í því skyni að tryggja öryggi fólks gagnvart ofanflóðum, gert tillögu um kaup á lóðum eða öðrum fasteingum en ráðagerð um það er að finna í 4. tölul. 11. gr. gildandi laga.
    Þá er tekið af skarið um að það sé hlutverk sveitarstjórnar að sjá um að kaupa eignir eða flytja þær í samræmi við ákvörðun ofanflóðanefndar. Gert er ráð fyrir því, eins og nú er, að sveitarfélag verði eigandi eigna sem keyptar eru samkvæmt greininni. Á hinn bóginn er lagt til að nýting þeirra verði háð samþykki umhverfisráðherra, svo að t.d. verði komið í veg fyrir fasta búsetu allt árið í húsnæði sem staðsett er á hættusvæðum.
    Í 4. mgr. 11. gr. er svo fyrir mælt að ákveði sveitarstjórn að taka húseign eignarnámi fari um eignarnámið samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.

Um 12. gr.


    Í upphafi greinarinnar er gerð sú tillaga að ofanflóðasjóður verði framvegis í vörslu umhverfisráðuneytisins, en ekki Viðlagatryggingar Íslands, sbr. 1. mgr. 10. gr. núgildandi laga.
    Í greininni er annars mælt fyrir um tekjur ofanflóðasjóðs og er ráð fyrir því gert að helsti tekjufstofn hans verði árlegt gjald sem lagt verði á allar brunatryggðar húseignir í landinu og nemi 0,3‰ af vátryggingarverðmæti þeirra. Áætlað er að þetta gjald muni færa sjóðnum varanlega u.þ.b. 500 milljón krónur á ári sem er u.þ.b. 80 milljónum króna lægri upphæð en sjóðnum er tryggð tímabundið í núgildandi lögum, þ.e. í 1.–4. tölul. 10. gr. þeirra. Hið sérstaka gjald skal innheimt ásamt iðgjaldi til Viðlagatryggingar Íslands og fer um innheimtu þess samkvæmt þeim lögum, sem um viðlagatryggingu gilda hverju sinni, nú lögum nr. 55/1992. Í 5. mgr. 11. gr. þeirra laga er tekið fram að iðgjöld af viðlagatryggingu njóti lögtaksréttar og lögveðréttar í vátryggðri eign og hefur efni þess ákvæðis verið tekið upp í 1. tölul. 12. gr., til áréttingar. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 55/1992 skulu vátryggingafélög innheimta iðgjöld viðlagatryggingar ásamt brunatryggingariðgjöldum og semur stjórn Viðlagatryggingar Íslands við vátryggingarfélögin, þar á meðal um þóknun fyrir innheimtu iðgjaldanna. Í 1. tölul. 12. gr. er berum orðum tekið fram, eins og í 1. tölul. 10. gr. gildandi laga, að álagning hins sérstaka gjalds skuli ekki hafa áhrif til hækkunar á umrædda innheimtuþóknun til vátryggingafélaga.
    Um frekari skýringar á greininni vísast til almennra athugasemda hér að framan.

Um 13. gr.


    Greinin er að stórum hluta sama efnis og 11. gr. núgildandi laga. Í 1. mgr. hefur 1. tölul. 11. gr. þó verið felldur brott því að framvegis er ráð fyrir því gert að laun og launatengd gjöld eftirlitsmanna skv. 3. gr. verði greidd af fjárveitingum Veðurstofunnar á fjárlögum. Vegna þess að fjárlög fyrir árið 1997 liggja fyrir þegar frumvarp þetta kemur til afgreiðslu er þó óhjákvæmilegt að laun og launatengd gjöld eftirlitsmanna verði greidd úr ofanflóðasjóði, sbr. ákvæði til bráðabirgða.
    Tekið er af skarið um það í 5. tölul. að greiða megi allt að 90% af kostnaði við kaup eða eignarnám á húseignum, lóðum eða öðrum fasteingum, svo og af kostnaði við flutning húseigna, eftir því sem nánar er fyrir mælt í 14. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. 13. gr. segir, eins og í 2. mgr. 11. gr. núgildandi laga, að heimilt sé að veita sveitarfélagi lán úr ofanflóðasjóði sem nemur kostnaðarhlut þess vegna undirbúnings eða framkvæmda við varnarvirki eða kostnaði við kaup, eignarnám eða flutning á eignum, enda sé því fjárhagslega ofviða að leggja fram sinn kostnaðarhlut, t.d. vegna þess að svigrúm til verklegra framkvæmda sé mjög lítið og/eða greiðslubyrði lána mjög þung. Gengið er út frá því að lánin verði veitt til 15 ára með sambærilegum lánskjörum og ofanflóðasjóði standa til boða á lánamarkaði, hvort sem er hér innanlands eða erlendis, en búast má við að þau kjör verði hagstæðari en almenn lánskjör. Tekið er fram að árleg endurgreiðsla af láninu, þ.m.t. vextir og verðbætur af því, skuli aldrei nema hærri fjárhæð en 1% af uppfærðum höfuðstól lánsins, þ.e. að meðtöldum vöxtum og verðbótum. Við þá fjárhæð bætist 0,15‰ af álagningarstofni fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og 50% af hreinum tekjum sveitarfélagsins vegna sölu eða leigu á eignum sem það hefur eignast skv. 3. mgr. 11. gr. frumvarpsins. Með þessu móti er tryggt að umtalsverður hluti lánsins verður endurgreiddur en í niðurlagi 2. mgr. 11. gr. er mælt svo fyrir að það sem eftir kunni að standa af því að liðnum lánstímanum skuli niður falla.

Um 14. gr.


    Í þessari grein er að finna reglur um tiltekið hámarksverð sem miða skal við ef ofanflóðasjóður tekur þátt í hluta af kostnaði við kaup, eignarnám eða flutning á eignum skv. 5. tölul. 13. gr. frumvarpsins. Er hér um að ræða sömu reglur og er að finna í 3., 4. og 6. mgr. 7. gr. núgildandi laga. Um frekari skýringar á greininni vísast til þess sem segir í almennum athugasemdum hér að framan.

Um 15. gr.


    Í 12. gr. núgildandi laga segir að fella skuli niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og sölugjald af efni og tækjum sem flutt eru sérstaklega hingað til lands til varna gegn ofanflóðum. Gerð er tillaga um að orðið „virðisaukaskatt“ komi í stað orðsins „sölugjald“ og jafnframt gildi sama regla framvegis, eftir því sem við á, um efni og tæki sem framleidd eru hér á landi.

Um 16. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.


    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa en fram koma í almennum athugasemdum hér að framan.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um


varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.


    Með frumvarpi þessu er sett fram tillaga um heildarlöggjöf um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, en ekki vannst tími til þess á síðasta ári að vinna slíka löggjöf að fullu þar sem gera þurfti ráðstafanir þegar í stað til að fjármagna framkvæmdir til varna gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Frumvarp þetta felur í sér heildarendurskoðun á fyrri lögum.
    Frumvarpið er í meginatriðum byggt á núgildandi lögum. Helstu breytingar er varða tekjur og kostnað eru sem hér segir:
    Í núgildandi lögum (1. gr. laga nr. 62/1996) er gert ráð fyrir að ofanflóðasjóði séu tryggðar sérstakar tekjur sem samkvæmt kostnaðarumsögn er fylgdu frumvarpi til þeirra laga — og samþykkt var óbreytt hvað varðar tekjustofna — er gert ráð fyrir að tekjur sjóðsins nemi um 650 m.kr. á árinu 1996 auk þess sem sjóðnum var heimilað að taka lán að fjárhæð allt að 800 m.kr. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir (12. gr.) að í stað núverandi tekjuákvæða komi sérstakt gjald sem lagt er á allar brunatryggðar húseignir og nemi 0,3‰ af vátryggingarverðmæti. Tekjur af þessu gjaldi eru taldar nema um 500 m.kr. á ári sem er um 150 m.kr. lægra en í núgildandi lögum. Þó eru þær taldar nema 560 m.kr. á greiðslugrunni á árinu 1997.
    Samkvæmt 3. gr. skal Veðurstofan afla gagna um snjóflóð og snjóflóðhættu og vinna úr þeim. Hún annist mælingar á snjóalögum og rannsóknir á þeim með sérstöku tilliti til snjóflóðahættu. Þá skal Náttúrufræðistofnun afla gagna um skriðuföll. Skal Veðurstofan ráða sérstaka eftirlitsmenn til að fylgjast með hættu af ofanflóðum. Til þessa hafa laun eftirlitsmannanna verið greidd af ofanflóðasjóði, en frá ársbyrjun 1998 er gert ráð fyrir að þau verði greidd af Veðurstofunni með fjárveitingu úr ríkissjóði. Hér er um sjö aðalmenn og átta varamenn að ræða og er launakostnaður við þá vinnu talinn vera um 15–16 m.kr. Aðrar kostnaðarbreytingar verða ekki sökum þessarar lagagreinar.
    Í 4. gr. er gert ráð fyrir að Veðurstofan geri hættumat samkvæmt beiðni sveitarfélaga. Þessi starfsemi er þegar hluti af starfi Veðurstofu og samþykkt lagagreinarinnar veldur ekki sérstökum kostnaðarauka.
    Gerð neyðaráætlana skal skv. 5. gr. vera á vegum Almannavarna ríkisins. Er það ákvæði samhljóða gildandi lögum og hefur ekki kostnaðarauka í för með sér.
    Í 8. gr. er kveðið svo á að í hvert sinn sem manntjón verður í byggð af völdum ofanflóðs skuli skipa sérstaka nefnd til að rannsaka orsakir ofanflóðsins. Er það nefnd þriggja manna sem starfar sjálfstætt, óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum. Ekki er unnt að meta kostnað við starf slíkra nefnda, enda fer það eftir því hve oft þær eru skipaðar og hvert umfang verkefna þeirra er hverju sinni.
    Í 9. gr. er kveðið á um ofanflóðanefnd og er sú nefnd starfandi nú þegar, þannig að starf hennar hefur ekki kostnaðarauka í för með sér.
    Í 2. mgr. 13. gr. er lagt til að heimilt verði að veita sveitarfélagi lán úr ofanflóðasjóði fyrir kostnaðarhlut þess í varnarvirkjum og við kaup eða flutning á eignum. Gengið er út frá að lánin verði til 15 ára, en endurgreiðsla verði bundin þeirri kvöð að samanlögð endurgreiðslufjárhæð, þ.e. afborgun af höfuðstól, vextir og verðbætur, fari aldrei yfir tiltekna fjárhæð og að það sem eftir kann að standa að liðnum lánstíma skuli falla niður. Þessi takmörkun á endurgreiðslu er slík að erfitt er að meta hversu stór hluti af umræddu láni endurgreiðist. Ljóst er þó að lítil sveitarfélög munu einungis endurgreiða lítinn hluta lánsins.
    Í 15. gr. er lagt til að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og virðisaukaskatt af efni og tækjum sem flutt eru sérstaklega hingað til lands til varna gegn ofanflóðum. Grein þessi er nær samhljóða gildandi lagaákvæðum, nema hvað orðið „virðisaukaskattur“ kemur í stað sölugjalds.