Ferill 262. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 262 . mál.


497. Frumvarp til lagaum Ríkisendurskoðun.

Flm.: Ólafur G. Einarsson, Ragnar Arnalds, Sturla Böðvarsson,


Guðni Ágústsson, Guðmundur Árni Stefánsson.1. gr.

    Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis. Hún skal endurskoða ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur og fjárvörslu á vegum ríkisins, sbr. 43. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 33/1944. Þá getur hún framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun skv. 9. gr. þessara laga. Enn fremur skal hún annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga og vera þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins.
    Ríkisendurskoðun er engum háð í störfum sínum.

2. gr.

    Forsætisnefnd Alþingis ræður forstöðumann stofnunarinnar til sex ára í senn og nefnist hann ríkisendurskoðandi. Ríkisendurskoðandi skal hafa löggildingu sem endurskoðandi. Launakjör hans skulu ákveðin af forsætisnefnd Alþingis. Ríkisendurskoðandi er starfsmaður Alþingis og ber ábyrgð gagnvart því. Forsætisnefnd Alþingis getur, að fengnu samþykki Alþingis, vikið ríkisendurskoðanda úr starfi.

3. gr.

    Ríkisendurskoðandi nýtur sjálfstæðis í starfi sínu og er ekki bundinn af fyrirmælum um einstaka þætti þess. Forsætisnefnd getur þó, ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna, krafið hann skýrslna um einstök mál er falla undir starfsemi Ríkisendurskoðunar.
    Ríkisendurskoðandi stjórnar Ríkisendurskoðun. Hann ræður starfsmenn sem skulu hafa staðgóða menntun og þekkingu og séu í einu og öllu óháðir ráðuneytum og stofnunum sem þeir vinna að endurskoðun hjá.

4. gr.

    Ríkisendurskoðun er heimilt að fela löggiltum endurskoðendum eða öðrum sérfræðingum á viðkomandi sviði að vinna að einstökum verkefnum sem stofnuninni eru falin í lögum þessum eða öðrum lögum.

5. gr.

    Reikningar Ríkisendurskoðunar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda sem tilnefndur er af forsætisnefnd Alþingis.
    Reikningsskil Ríkisendurskoðunar skulu birt í ríkisreikningi.

6. gr.

    Ríkisendurskoðun skal annast endurskoðun ríkisreiknings og reikninga stofnana, sjóða og annarra aðila þar sem kostnaður eða reikningslegt tap er greitt af ríkissjóði samkvæmt fjárlögum eða af öðrum tekjum samkvæmt sérstökum lögum.
    Enn fremur skal Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga fyrirtækja, félaga og stofnana sem rekin eru á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á að hálfu eða meira, þar með talin hlutafélög, sameignarfélög, viðskiptabankar og sjóðir. Jafnframt skal Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga vegna samninga um rekstur sem ríkið kann að gera við sveitarfélög eða einkaaðila og fela í sér að þeir annist lögboðna þjónustu er ríkissjóði ber að greiða fyrir.

7. gr.

    Ríkisendurskoðun getur krafist reikningsskila af stofnunum, samtökum, sjóðum og öðrum aðilum sem fá fé eða ábyrgðir frá ríkinu og ber þeim þá skylda til að afhenda Ríkisendurskoðun umbeðin gögn. Þá er Ríkisendurskoðun heimill aðgangur að og skoðun á grundvallargögnum eða skýrslum sem færðar eru samhliða reikningsgerð á hendur ríkinu eða ríkisstofnunum fyrir vinnu eða þjónustu, sem greiðsluskyld er að öllu leyti eða að verulegum hluta úr ríkissjóði á grundvelli laga, verksamninga eða gjaldskrársamninga við einstaklinga, félög eða stofnanir, til að sannreyna efni innsendra reikninga og greiðsluskyldu ríkissjóðs.
    Ríkisendurskoðun getur rannsakað reikningsskil sveitarfélaga að því leyti sem þau varða sameiginlega starfsemi ríkisins og sveitarfélaga. Enn fremur getur hún rannsakað reikningsskil þeirra stofnana og félaga sem ríkissjóður á hlut í.
    Nú verður ágreiningur um skoðunarheimild Ríkisendurskoðunar samkvæmt þessari grein og getur þá ríkisendurskoðandi leitað úrskurðar héraðsdóms um hann.

8. gr.

    Fjárhagsendurskoðun skal á hverjum tíma einkum miða að eftirfarandi:
    Að reikningsskil gefi glögga mynd af rekstri og efnahag í samræmi við góðar reikningsskilavenjur.
    Að kanna innra eftirlit og hvort það tryggir viðunandi árangur.
    Að reikningar séu í samræmi við heimildir fjárlaga, fjáraukalaga og annarra laga, lögmæt fyrirmæli, starfsvenjur og þjónustusamninga þar sem það á við.
    Að kanna og votta áreiðanleika kennitalna um umsvif og árangur af starfsemi stofnana birtist þær með ársreikningi.

9. gr.

    Ríkisendurskoðun getur framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun hjá þeim stofnunum, sjóðum, félögum og fyrirtækjum sem um ræðir í 6. gr. Einnig getur Ríkisendurskoðun framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun á starfsemi eða þjónustu sem ríkinu ber að greiða fyrir en sveitarfélög eða einkaaðilar annast samkvæmt sérstökum samningum við ríkið. Stjórnsýsluendurskoðun felst í því að kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort gildandi lagafyrirmælum sé framfylgt í þessu sambandi.
    Ríkisendurskoðun er heimilt að kalla eftir greinargerðum um ráðstöfun styrkja og annarra framlaga af ríkisfé og meta hvort þau hafi skilað þeim árangri sem að var stefnt. Þá getur hún kannað hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála.
    Ríkisendurskoðun skal gera hlutaðeigandi stjórnvöldum grein fyrir niðurstöðum sínum í könnunum samkvæmt þessari grein, vekja athygli þeirra á því sem hún telur að úrskeiðis hafi farið í rekstri og benda þeim á þau atriði sem hún telur að athuga þurfi með tilliti til úrbóta.

10. gr.

    Í störfum sínum skv. 6. og 9. gr. hefur Ríkisendurskoðun aðgang að öllum gögnum sem máli skipta, þar á meðal fylgiskjölum, skýrslum, bókum og bréfum. Þá getur Ríkisendurskoðun krafist upplýsinga og gagna sem geta haft þýðingu við störf hennar skv. 7. gr.
    Ríkisendurskoðun ákveður hvar og hvenær endurskoðað er. Þegar ákveðið er að endurskoðun fari fram í skrifstofu stofnunar eða ríkisfyrirtækis er þeirri stofnun skylt að veita alla nauðsynlega aðstöðu til að unnt sé að endurskoða þar.
    Ríkisendurskoðun getur kveðið á um hæfilegan frest þeim til handa sem standa eiga skil á gögnum til endurskoðunar, svo og frest til þess að svara athugasemdum sem gerðar hafa verið við bókhald, fjárvörslu og rekstur.

11. gr.

    Nú ákveður ríkisendurskoðandi að beita skoðunarheimildum skv. 7. og 9. gr. og skal hann þá gera fjárlaganefnd og þeim þingnefndum, sem viðkomandi málaflokkur fellur undir, grein fyrir niðurstöðum sínum. Fjárlaganefnd getur og haft frumkvæði að athugunum samkvæmt þessum lagaákvæðum.

12. gr.

    Árlega skal samin heildarskýrsla um störf Ríkisendurskoðunar á liðnu almanaksári. Skal hún lögð fyrir Alþingi.

13. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997 og um leið falla úr gildi lög nr. 12/1986, um ríkisendurskoðun, með síðari breytingum.

Greinargerð.


    Frumvarpi þessu er ætlað að koma í stað gildandi laga um Ríkisendurskoðun, nr. 12/1986, með breytingum samkvæmt lögum nr. 35/1988. Breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér eru að efni til ekki mjög veigamiklar. Segja má að annars vegar feli tillögurnar í sér fyllri lýsingu á almennu hlutverki Ríkisendurskoðunar auk þess að fela í sér nokkru víðtækari og nákvæmari lýsingu á heimildum hennar til þess að framkvæma stjórnsýsluendurskoðun hjá stofnunum, sjóðum, félögum og fyrirtækjum í eigu ríkissjóðs. Hins vegar eru lagðar til ýmsar orðalagsbreytingar í ljósi breytinga er orðið hafa á ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins á liðnum árum. Hér er um að ræða breytingar er varða bæði skipulag og stjórn Alþingis, og hvernig standa skuli að endurskoðun á fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja. Í ljósi þess hve breytingarnar sem nú eru lagðar til snerta margar greinar laganna þykir eðlilegt að leggja fram heildstætt frumvarp um stofnunina. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við einstakar greinar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. gr. gildandi laga er að finna almenna lýsingu á hlutverki og verksviði stofnunarinnar. Þar er ekki vikið að hlutverki því sem henni er falið í 9. gr. og lýtur að hinni svokölluðu stjórnsýsluendurskoðun. Í ljósi þess hve mikilvægur og veigamikill þessi þáttur er í starfi stofnunarinnar þykir eðlilegt að geta þessa hlutverks sérstaklega í 1. gr. jafnframt því sem gerð er tillaga um að heimildir í þessu efni verði skýrari en þær eru í gildandi lögum, sbr. nánar 9. gr. frumvarpsins. Jafnframt felur breytingin í sér að felld eru niður ákvæði sem eru í 1. gr. laga nr. 12/1986 um að stofnunin skuli vera yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings til aðstoðar við störf sín, enda heyra þeir nú sögunni til, sbr. breytingar sem gerðar voru sl. vor á ákvæðum 43. gr. stjórnarskrárinnar.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er lagt til að forsætisnefnd ráði ríkisendurskoðanda en ekki forseti Alþingis eins og gildandi lög mæla fyrir um. Þá er lagt til að forsætisnefnd Alþingis en ekki Kjaradómur ákveði launakjör ríkisendurskoðanda. Í þessu sambandi er þess að geta að forsætisnefndin semur við aðra starfsmenn Alþingis um launakjör og þykir því eðlilegt að hún ákveði launakjör ríkisendurskoðanda.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er ekki að finna neinar efnisbreytingar frá gildandi lögum heldur er aðeins um orðalagsbreytingar að ræða í ljósi breytinga er orðið hafa á skipulagi og stjórn Alþingis, þ.e. í stað „forsetar Alþingis“ í 2. málsl. 3. gr. gildandi laga kemur „forsætisnefnd Alþingis“. Þá er til skýringar og til þess að eyða vafa, sem upp kann að koma, mælt sérstaklega fyrir um að forseti geti einungis krafið ríkisendurskoðanda um skýrslu um einstök mál er falla undir lögbundna starfsemi stofnunarinnar. Í gildandi lögum er mælt fyrir um að hann megi krefja um skýrslur um einstök mál. Þá er lagfært orðalag sem lýtur að starfsmönnum stofnunarinnar.

Um 4. gr.

    Grein þessi er óbreytt frá ákvæðum 4. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að í stað þess að mæla fyrir um „óháða“ löggilta endurskoðendur er látið nægja að mæla fyrir um löggilta endurskoðendur. Óþarft er að mæla sérstaklega fyrir um að löggiltir endurskoðendur skuli vera óháðir þeim er þeir endurskoða í ljósi ákvæða 11. gr. laga nr. 67/1976, um löggilta endurskoðendur, en þar er fjallað sérstaklega um hvenær þeir teljast vanhæfir til meðferðar máls. Jafnframt er mælt fyrir um að stofnuninni sé heimilt að fela öðrum sérfræðingum að vinna að verkefnum á viðkomandi sviði sé þörf talin á slíkri aðstoð.

Um 5. gr.

    Grein þessi er óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að í stað „forsetar“ í 1. mgr. 5. gr. gildandi laga er lagt til að komi „forsætisnefnd“. Þá er á sama hátt og í 4. gr. lagt til að í stað orðanna „óháður löggiltur endurskoðandi“ verði aðeins mælt fyrir um löggiltan endurskoðanda. Að sjálfsögðu er með vísan til 11. gr. laga 67/1976, um löggilta endurskoðendur, gengið út frá því að sá löggilti endurskoðandi, sem tilnefndur er til endurskoðunar á reikningum stofnunarinnar, sinni ekki jafnframt verkefnum fyrir hana skv. 4. gr.

Um 6. gr.

    Í þessari grein er reynt að mæla með skýrari hætti fyrir um til hverra endurskoðunarskylda stofnunarinnar nær. 1. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum en í 2. mgr. er sérstaklega tekið fram að endurskoðunarskylda stofnunarinnar nái til allra félaga sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkisins. Í gildandi lögum er aðeins minnst á hlutafélög. Þá þykir eðlilegra að nota hugtakið viðskiptabanki í þessari málsgrein í stað ríkisbanka. Ekki er hér um efnisbreytingu að ræða frá því sem nú gildir en rétt þykir að kveða skýrt á um þetta atriði.
    Loks er mælt fyrir um að stofnunin skuli endurskoða reikninga vegna samninga um rekstur, sem ríkið kann að gera við sveitarfélög eða einkaaðila, er fela í sér að þessir aðilar annist lögboðna þjónustu sem ríkissjóði ber að greiða fyrir. Hér er m.a. um að ræða svokallaða þjónustusamninga sem hafa verið að ryðja sér til rúms á undanförnum missirum. Ekki hefur legið fullljóst fyrir hvernig endurskoðunar- og eftirlitshlutverki með aðilum sem ríkið semur við með þessum hætti sé háttað. Til þess að eyða öllum vafa í þessu efni er lagt til að Ríkisendurskoðun gegni sama hlutverki gagnvart þessum aðilum að því er varðar starfsemi samkvæmt þjónustusamningum og hún gerir gagnvart ríkisaðilum. Með vísan til þessa, sbr. og. 9. gr. frumvarpsins, gæti Ríkisendurskoðun gert hefðbundna fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun hjá samningsaðilum í því skyni að kanna hvernig fjármunum ríkissjóðs er eða hefur verið varið, hvernig samningsaðilinn rækir skyldur sínar samkvæmt þjónustusamningi og hver hefur orðið árangur af starfi hans. Þá hefur stofnunin sama aðgang að upplýsingum og gögnum aðila er tekur að sér að veita þjónustu á grundvelli þjónustusamnings og stofnunin hefur gagnvart ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum.

Um 7. gr.

    Greinin er óbreytt frá því sem hún er í gildandi lögum að öðru leyti en því að lagt er til í ljósi þeirra breytinga sem tillaga er gerð um í 9. gr. frumvarpsins að flytja ákvæði um heimild stofnunarinnar um að kalla eftir greinargerðum um ráðstöfun styrkja og annarra framlaga af ríkisfé yfir í þá grein. Þykir það leiða til meira samræmis en að öðru leyti er vísað um þetta efni til athugasemda við 9. gr.

Um 8. gr.

    Í grein þessari er kveðið á um að hverju fjárhagsendurskoðun stofnunarinnar skuli miða. Lagt er til að tveimur nýjum töluliðum, 2. og 4. tölul., verði bætt við gildandi lagaákvæði í þeim tilgangi að gera það fyllra og skýrara. Af þessum sökum er lagt til að við greinina bætist nýr töluliður, er verði 2. tölul., þar sem sérstaklega er tekið fram að í endurskoðun á hverjum tíma felist að kanna innra eftirlit og hvort það tryggi viðunandi árangur. Tillaga þessi er í samræmi við ákvæði alþjóðlegra staðla er lúta að endurskoðun hjá hinu opinbera.
    Í 4. tölul. er lagt til að Ríkisendurskoðun skuli kanna og votta áreiðanleika kennitalna um umsvif og árangur af starfsemi stofnana að svo miklu leyti sem þær birtast með ársreikningum þeirra. Nánar er hér um að ræða hina svokölluðu verkefnavísa sem nú eru að ryðja sér rúm í reikningsskilum og miða að því að kanna hvort tilteknar upplýsingar eru réttar án þess að mat sé lagt á hvort þær eru eðlilegar. Fjármálaráðuneytið hefur á síðastliðnum árum kynnt og í auknum mæli gert kröfur um að úr reikningum ríkisins megi, auk upplýsinga um fjárreiður, lesa upplýsingar um þá þjónustu sem stofnanir veita og árangur af rekstri þeirra. Búast má við því að upplýsingagjöf af þessu tagi muni aukast verulega nái fyrirliggjandi frumvarp um fjárreiður ríkisins fram að ganga en þar er gerð tillaga um lögfestingu hennar. Verkefnavísum er, eftir því sem við á í hverju tilviki, ætlað að geyma hnitmiðaðar upplýsingar um verkefni viðkomandi stofnunar, skiptingu heildarkostnaðar á einstök verkefni og tölulegar upplýsingar um bæði magn og gæði þeirrar þjónustu sem stofnunin veitir. Upplýsingarnar koma einkum að notum við samanburð á milli ára og eru vel til þessar fallnar að auðvelda mönnum að greina mikilvægi verkefna og forgangsraða þeim. Tekið skal fram að gerð verkefnavísanna er enn á tilraunastigi og ljóst að allnokkur ár tekur að þróa þá. Hins vegar þykir eðlilegt að mæla fyrir um skyldur Ríkisendurskoðunar í þessum efnum þar sem þessar upplýsingar verða væntanlega óaðskiljanlegur hluti af ársreikningum viðkomandi stofnana.

Um 9. gr.

    Ákvæði 9. gr. gildandi laga um heimild Ríkisendurskoðunar til stjórnsýsluendurskoðunar á ríkisfyrirtækjum og ríkisstofnunum voru nýmæli á sínum tíma. Með því að veita stofnun sem heyrir undir Alþingi heimild af þessu tagi var verið að styrkja mjög fjárhagslegt eftirlit þingsins með ríkisrekstri. Tilgangur þess var sá „að efla frumkvæði löggjafans til afskipta af framkvæmd fjárlaga og rekstri stofnana og fyrirtækja ríkisins með framkvæmd svonefndrar stjórnsýsluendurskoðunar“ eins og orðrétt sagði í athugsemdum með greininni í frumvarpi að lögum nr. 12/1986. Ákvæðið átti sér m.a. fyrirmynd úr löggjöf um systurstofnanir Ríkisendurskoðunar á Norðurlöndum.
    Í nágrannalöndum okkar er talið að hugmyndin að baki stjórnsýsluendurskoðun sé að auka hagkvæmni, bæta vinnuframlag og stjórnun með ákveðnum rannsóknaraðferðum og mati á þeim niðurstöðum sem rannsóknin leiðir í ljós. Einn grundvallarþáttur stjórnsýsluendurskoðunar í þessum ríkjum hefur hin síðari ár m.a. verið talinn felast í því að kanna hvort lögum, reglugerðum og öðrum reglum sem gilda á viðkomandi sviði er framfylgt með tilliti til þeirra fjármuna sem ríkið leggur af mörkum í viðkomandi starfsemi. Einnig hefur það verið talið hlutverk ríkisendurskoðana í nágrannalöndum okkar að leggja til breytingar á lögum, reglugerðum eða verklagi ef fjárhagslegum hagsmunum ríkisins telst þannig betur borgið. Með tilliti til þróunar á þessu sviði er hér lagt til að Ríkisendurskoðun hafi heimildir til að benda hlutaðeigandi stjórnvöldum eða öðrum sem hlut eiga að máli á það ef gildandi lögum og reglum er ekki framfylgt og einnig að benda Alþingi og stjórnvöldum á þau tilvik þar sem efni er til að íhuga laga- og reglugerðabreytingar. Lögð er áhersla á að þær kröfur sem gerðar eru á þessu sviði eru síbreytilegar og vaxandi og er því nauðsynlegt að Ríkisendurskoðun hafi þær heimildir sem hér eru lagðar til þannig að stofnunin geti uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til hennar á hverjum tíma.
    Í ljósi þess sem að framan greinir svo og þeirrar reynslu sem fengist hefur af framkvæmd þessarar heimildar hér á landi sl. tíu ár er lagt til að skýrar verði kveðið á um en áður við hvað sé átt með hugtakinu „stjórnsýsluendurskoðun“. Tilgangur þessa er að eyða þeim vafa sem upp hefur komið um hver mörk skoðunarheimilda Ríkisendurskoðunar í þessu efni eru. Í framkvæmd hefur heimildin verið túlkuð rúmt, þ.e. að í henni hefur verið talin felast heimild til að kanna meðferð og nýtingu á ríkisfé sem og að meta hvort hagkvæmni gæti í rekstri viðkomandi stofnana og fyrirtækja ríkisins. Með hagkvæmni í þessu sambandi er átt við hvort hagsýni (economy), skilvirkni (efficiency) og markvirkni (effectiveness) hafi verið gætt í rekstrinum. Lagt er til að þessi skilgreining verði áréttuð í lagagreininni sjálfri. Til nánari skýringar er rétt að taka fram að með hagsýni í þessu sambandi er fyrst og fremst átt við að sparnaðar og ráðdeildar sé gætt í rekstri. Þá er með hugtakinu skilvirkni átt við að framleiðni og afköst á tilteknu tímabili í viðkomandi rekstri séu nægjanleg eða viðunandi. Loks er með hugtakinu markvirkni í þessu sambandi átt við þau markmið og þann árangur sem að er stefnt með rekstrinum. Stjórnsýsluendurskoðun nær ekki aðeins til einstakra þátta stjórnunar heldur einnig til stjórnunar í heild sinni, þar á meðal skipulags og stjórnkerfis. Rétt er að leggja áherslu á að heimildir til stjórnsýsluendurskoðunar ná einungis til rekstrarlegra þátta en ekki á neinn hátt til ákvarðana, árangurs eða markmiða stjórnmálalegs eðlis.
    Í 1. mgr. er á skýrari og einfaldari hátt en gert er í gildandi lögum mælt fyrir um til hverra stjórnsýsluendurskoðunarheimild stofnunarinnar nær en lagt er til að hún taki til sömu aðila og stofnunin skal endurskoða, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Þá er jafnframt mælt fyrir um að framkvæma megi stjórnsýsluendurskoðun á þeirri starfsemi eða þjónustu sem sveitarfélög eða einkaaðilar inna af hendi á kostnað ríkisins samkvæmt svokölluðum þjónustusamningum sem mjög eru að ryðja sér til rúms. Rétt er að minna á í þessu sambandi að hér er um að ræða þjónustu sem ríkinu er lögskylt að veita og greiða fyrir. Í þeim tilvikum sem ríkið innir þessa þjónustu sjálft af hendi ber Ríkisendurskoðun að endurskoða reikninga þeirrar starfsemi. Umfang eða eðli endurskoðunarinnar breytist ekki þó að þjónustusamningur sé gerður við einkaaðila eða sveitarfélög um að sinna þjónustunni. Með frumvarpinu er því í raun ekki verið að leggja Ríkisendurskoðun nýjar skyldur á herðar. Því til viðbótar má geta þess að þar sem engin löggjöf er til um þjónustusamninga eru réttindi og skyldur þeirra sem taka að sér þessi verkefni afar óljós, og réttarstaðan að öðru leyti óviss. Til að tryggja hagsmuni skattborgaranna og ríkissjóðs, sem inna af hendi greiðslur til þessara aðila og til að veita þeim lágmarksaðhald, er mikilvægt að Ríkisendurskoðun annist endurskoðun reikninga þessara aðila og geri Alþingi grein fyrir niðurstöðunum.
    Í 2. mgr. er lagt til að stofnunin geti kallað eftir greinargerðum um ráðstöfun styrkja og annarra framlaga af ríkisfé og metið hvort þau hafi skilað þeim árangri sem að var stefnt. Í 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. gildandi laga er að finna heimild fyrir stofnunina til þess að kalla eftir greinargerðum um ráðstöfun styrkja og annarra framlaga af ríkisfé. Eðlilegra þykir að mæla fyrir um þessa heimild í 9. gr. jafnframt því sem gerð er tillaga um að stofnuninni verði til viðbótar heimilt að meta árangur af umræddum fjárframlögum. Í 9. gr. er einnig heimild til þess að kalla eftir greinargerðum og meta árangur af hvers konar styrkjum og framlögum úr ríkissjóði, þar á meðal á sviði umhverfismála. Að baki þessari heimild býr sama hugsun og að baki heimildum stofnunarinnar til þess að meta árangur af starfi ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, sbr. 1. mgr. greinarinnar. Hér er verið að bregðast við örri þróun nýrrar greinar á sviði endurskoðunar, hinnar svokölluðu umhverfisendurskoðunar. Segja má að umhverfisendurskoðun felist í því að endurskoða og kanna áhrifin af starfsemi, stefnu og rekstri stofnana og fyrirtækja á umhverfið, reyna að meta fjárhagsleg áhrif þessara aðila á umhverfið og að fylgjast með því hvort einkaréttarlegir aðilar og opinberir aðilar framfylgja lögum og reglugerðum, svo og reglum og alþjóðasamningum á sviði umhverfismála. Brýnt er talið að Ísland dragist ekki aftur úr í hraðri þróun umhverfismála, þar með talinni umhverfisendurskoðun, og þess vegna lagt til að Ríkisendurskoðun hafi þær heimildir sem nauðsynlegar eru til að starfa að þessum mikilvæga málaflokki.
    Í lok greinarinnar er kveðið skýrar á um það en samkvæmt núgildandi lögum að Ríkisendurskoðun skuli gera hlutaðeigandi stjórnvöldum grein fyrir niðurstöðum stjórnsýsluendurskoðana og jafnframt benda þeim á þau atriði sem hún telur þurfa að athuga og bæta úr.

Um 10. gr.

    Þessi grein er óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að í 1. málsl. 1. mgr. er á skýran hátt mælt fyrir um að stofnunin hafi aðgang að öllum gögnum sem máli skipta er hún sinnir verkefnum skv. 9. gr. Þá er í 3. mgr. lagt til að ríkisendurskoðandi geti kveðið á um hæfilegan frest þeim til handa sem standa eiga skil á gögnum til endurskoðunar, svo og frest til þess að svara athugasemdum sem gerðar hafa verið. Hér er í raun ekki um neina efnisbreytingu að ræða því að andmælaréttur þeirra sem skoðaðir hafa verið skv. 9. gr. hefur undantekningarlaust verið virtur. Rétt þykir engu að síður að mæla sérstaklega fyrir um þennan mikilvæga rétt í lagatextanum sjálfum.

Um 11. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum ber ríkisendurskoðanda að gera fjárveitinganefnd grein fyrir ákvörðunum um athuganir sem hún hyggst gera á grundvelli 7. og 9. gr. laganna. Hér er lagt til að breyta greininni á þá lund að í stað „fjárveitinganefnd“ komi „fjárlaganefnd“ til samræmis við ákvæði þingskapalaga og að í stað þess að gera eigi nefndinni grein fyrir ákvörðunum um að láta slíkar athuganir fara fram skuli gera henni grein fyrir niðurstöðum þeirra. Þá er lagt til að ríkisendurskoðanda beri einnig að gera viðkomandi þingnefndum grein fyrir þeim. Að öðru leyti er greinin óbreytt.

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.