Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 263 . mál.


498. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum.

Flm.: Ágúst Einarsson, Gísli S. Einarsson, Jón Baldvin Hannibalsson,


Lúðvík Bergvinsson, Sighvatur Björgvinsson, Svanfríður Jónasdóttir.




1. gr.


    6. mgr. 10. gr. laganna fellur brott.

2. gr.


    Á eftir 10. gr. laganna bætast við tvær nýjar greinar er orðast svo og breytist númeraröð annarra greina í samræmi við það:

    (11. gr.)
                  Þorskur og ufsi styttri en 50 cm, ýsa styttri en 45 cm og karfi styttri en 33 cm teljast ekki til aflamarks, enda fari afli tegunda samkvæmt þessari málsgrein ekki yfir 10% af viðkomandi tegund í veiðiferð. Heimild samkvæmt þessari málsgrein er bundin þeim skilyrðum að afla undir tilgreindum stærðum, sbr. 1. málsl., sé haldið aðgreindum frá öðrum afla um borð í veiðiskipi og hann veginn sérstaklega af löggiltum vigtarmanni sem annast endanlega vigtun aflans innan lands. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda ekki um afla sem frystur er um borð í veiðiskipi nema um heilfrystan fisk sé að ræða.

    (12. gr.)
                  Landaðan afla skv. 11. gr. skal selja á viðurkenndum fiskmarkaði hérlendis og skal söluandvirði aflans að frátöldum kostnaði við sölu ráðstafað þannig að fjórðungur þess bætist við skiptaverðmæti viðkomandi veiðiferðar, fjórðungur renni til slysavarna sjómanna, fjórðungur til hafrannsókna og fjórðungur til stéttarfélaga sjómanna sem ráðstafi honum til orlofsaðstöðu sjómanna.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Undanfarin missiri hefur verið mikil umræða um brottkast fisks, þ.e. að fiski sé hent útbyrðis af fiskiskipum. Erfitt er að henda reiður á því að hve miklu leyti slíkar sögur eiga við rök að styðjast, en það er afdráttarlaust bannað með lögum að henda fiski. Íslensk lög gera ráð fyrir að allur fiskur skuli koma að landi eða vera unninn um borð, ef um vinnsluskip er að ræða.

Ástæður brottkasts og fiskveiðistjórnunarkerfi.

    Ástæður þess að fiski er hent geta verið ýmsar:
—    Í fyrsta lagi að fiskur sé mjög smár og sjómönnum finnist ekki borga sig að ganga frá slíku smælki og koma með það að landi.
—    Í öðru lagi að ekki sé til kvóti fyrir þeim tegundum sem koma með öðrum í veiðarfæri og til þess að komast hjá upptöku afla og sektum sé aflanum einfaldlega hent.
—    Í þriðja lagi að fiskurinn sé tiltölulega smár og þar með verðminni en stærri fiskur. Sjómenn og útgerðarmenn vilja nýta kvóta sinn sem best og henda þá frekar smáa fiskinum til að veiða stærri fisk upp í kvótann.
—    Í fjórða lagi að smærri fiski sé hent þegar gerðir eru samningar um veiði, t.d. að aðili lætur skip hafa kvóta en áskilur að fiskurinn sé yfir t.d. 6 kg og kaupir einungis þann fisk.
    Ástæða er til að velta því fyrir sér að hve miklu leyti fiskveiðistjórnunarkerfi hafa áhrif á brottkast. Aflamarkskerfi sem miðar við úthlutun í tonnum stuðlar að því að útgerðarmenn og sjómenn nýti kvóta sinn sem best og þar sem yfirleitt fæst hærra verð fyrir stærri fisk er betra að koma með einn 6 kg fisk að landi en þrjá 2 kg. Þetta getur leitt til brottkasts í einhverjum mæli, enda tilgreint sem ein af ástæðum þess hér að framan.
    Ef úthlutun kvóta fer ekki eftir tonnum eða þyngd heldur eftir fjölda, þ.e. nokkurs konar sporðakvóti, leiðir það til þess að reynt verður að veiða sem stærsta fiska. Þá er ekki úthlutað 10 tonnum af þorski heldur t.d. 2,5 milljónum fiska! Þetta væri vafalítið góð aðferð til að minnka sókn í smáfisk og auka sókn í stærri fisk en hætt er við að smærri fiski yrði hent í auknum mæli.
    Sóknarmark sem byggist á því að úthlutað er sóknardögum, oft með aflahámarki, leiðir einnig til viðleitni til að láta smærri fisk fyrir borð vegna verðmunar á stórum fiski og smáum, en þar sem miðað er við sóknardaga geta áhrifin verið önnur en í aflamarkskerfi.


Notkun smáfiskaskilju og eftirlit með veiðum.

    Þar sem þegar er bannað að henda fiski hafa stjórnvöld ekki mörg úrræði til að hindra slík lögbrot. Almennt eru aðferðir við að stemma stigu við lögbrotum þrjár, þ.e. að herða refsingar, herða eftirlit og breyta lögum þannig að minna verður um þau brot sem um ræðir. Refsingar mættu vafalítið vera strangari við brottkasti afla þótt það sé ekki lagt til í frumvarpinu.
    Verndun smáfisks er eitt mikilvægasta verkefnið í íslenskum sjávarútvegi. Ýmsar leiðir eru mögulegar í þeim efnum. Hér ber hæst smáfiskaskilju, en unnið hefur verið að því undanfarið að innleiða notkun hennar. Smáfiskaskilja skilur smáfisk frá öðrum fiski við veiðar þannig að honum er sleppt aftur lifandi í sjóinn. Þessi aðferð er notuð t.d. við rækjuveiðar og hægt er að beita henni við aðrar veiðar. Flutningsmenn binda miklar vonir við slíkt tæki, en brýnt er að allra leiða sé leitað til að vernda smáfisk.
    Eftirlit með veiðum mætti hins vegar vera mun betra. Nú er algengast að fylgst sé með löndun og öðru hvoru eru eftirlitsmenn um borð í fiskiskipum. Vitanlega er ekki hægt að hafa opinberan eftirlitsmann um borð í hverju veiðiskipi en það er þó hugsanlegt.
    Hins vegar er mögulegt að beita nýrri tækni við eftirlit. Þannig má gera myndbandsupptöku af því þegar veiðarfæri er innbyrt og hægt er að reikna mjög nákvæmlega út frá slíkum myndum hve mikill aflinn er og bera saman við landaðan afla.
    Einnig er hugsanlegt að mæla álag á vírum og reikna þannig út aflamagn, t.d. í trolli, eða að mæla þyngd skipa mjög nákvæmlega, fylgjast með henni reglubundið og finna út hvort afla sé hent um borð. Nýjustu vísindi og tækni bjóða upp á fjölmarga möguleika til stöðugs og sjálfvirks eftirlits um borð í fiskiskipum.
    Nokkuð af þessu hefur verið reynt erlendis en hér skortir umræðu um þennan þátt. Hafa ber í huga að með nýjustu aðferðum er hægt að reikna út brottkast svo aðeins skakki örfáum kílóum. Að öllum líkindum verður innan örfárra áratuga komið sjálfvirkt eftirlitskerfi til að hindra brottkast í öll fiskiskip í heiminum.

Meginþættir frumvarpsins.

    Frumvarpið tekur á einum þætti brottkasts, þ.e. þegar smáfiski eða undirmáli er hent. Vissulega eru önnur vandamál tengd brottkasti, einkum þegar fullvaxta fiski er hent, t.d. vegna þess að hann er of lítill miðað við samninga sem oft eru gerðir um ráðstöfun kvóta. Brýnt er að tekið verði á þeim þáttum og vinnur þingflokkur jafnaðarmanna að útfærslu hugmynda um þá. Hins vegar er skynsamlegt að taka þegar á brottkasti undirmáls, eins og gert er í frumvarpinu, og hefja þannig skipulega umfjöllun um málið út frá raunhæfum hugmyndum.
    Í lögum um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi er kveðið á um að komið skuli með undirmálsfisk að landi, hann aðgreindur sérstaklega og teljist að hálfu leyti til kvóta. Á árum áður var undirmálsfiskur undanskilinn kvóta en það leiddi til misnotkunar þannig að fiskur sem ekki var undirmálsfiskur var skráður sem slíkur og eftirlit við löndun og vinnslu var lítið.
    Vitaskuld er ekki gott að undirmálsfiskur teljist til kvóta. Hann er yfirleitt nokkuð verðlítill miðað við stærri fisk og því óhagkvæmt fyrir útgerðarmenn og sjómenn að nýta takmarkaðan kvóta sinn fyrir undirmálsfisk. Líklega er stærsta vandamálið við brottkast að undirmálsfiski er hent. Frumvarpinu er ætlað að taka á því og eftirfarandi atriði eru lögð til grundvallar:
    Undirmál verður allt utan kvóta. Þar að auki, sem er mjög mikilvægt, verður undirmál í hverri tegund að vera innan við 10% af afla þeirrar tegundar í hverri veiðiferð.
    Smábátum verður heimilt að koma með undirmál utan kvóta að landi eins og öðrum skipum.
    Undirmáli verður haldið sér um borð í veiðiskipi og það selt á fiskmarkaði sem m.a. tryggir eftirlit.
    Söluandvirði undirmáls kemur aðeins að fjórðungi til skipta en rennur að öðru leyti til verðugra málefna, þ.e. fjórðungur til slysavarna sjómanna, fjórðungur til hafrannsókna og fjórðungur til orlofsmála sjómanna.
    Núgildandi lög og reglugerðir mæla fyrir um að undirmál teljist að hálfu leyti til kvóta en þó telst allur afli smábáta til kvóta. Frumvarpið gerir ráð fyrir að undirmál sé allt utan kvóta. Með því hafa útgerðarmenn og sjómenn nær engan hag af því að henda smáfiski.
    Undirmál kemur sérstaklega aðgreint að landi, en í stað þess að útgerðarmenn geti ráðstafað því að vild, t.d. í beinum viðskiptum eða til eigin vinnslu, verður skylt að selja það á viðurkenndum fiskmarkaði sem tryggir gott eftirlit. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að fullvaxta fiskur sé kallaður undirmál. Slík misnotkun var algeng áður fyrr og ekki mögulegt að fylgjast með því þegar bein viðskipti með fisk áttu sér stað.
    Fiskmarkaðir starfa mjög víða um land en ekki alls staðar. Flutningsmenn telja þó að ekki skapist vandræði við þá skyldu að undirmál seljist á viðurkenndum fiskmarkaði. Í langflestum aðalhöfnum eru fiskmarkaðir. Þjónusta, umfang og útbreiðsla markaðanna, sem starfa allir með opinberu leyfi og undir eftirliti, hefur aukist verulega undanfarin ár.
    Jafnframt verður kveðið á um að undirmál megi ekki vera meira en 10% afla af hverri tegund í hverri veiðiferð, en það er mjög mikilvægt ákvæði.

Ráðstöfun andvirðis undirmáls.

    Þar sem undirmál mun ekki teljast til kvóta eiga tekjur af því ekki að koma útgerð og sjómönnum jafnt til góða og söluverðmæti annars afla. Það á alls ekki að hvetja til veiða á undirmálsfiski. Hins vegar er eðlilegt að menn verði ekki fyrir útgjöldum við að koma með undirmál að landi. Þess vegna er lagt til í frumvarpinu að einungis fjórðungur söluverðmætis undirmáls á fiskmarkaði, að frádregnum kostnaði við sölu, komi til skipta. Hinir þrír fjórðu hlutarnir renni hins vegar til verðugra málefna sem tengjast sjávarútvegi, þ.e. til að efla slysavarnir sjómanna, hafrannsóknir og orlofsmál sjómanna.
    Með þessu helst andvirði undirmálsaflans innan sjávarútvegsins og styrkir mikilvæga þætti. Flutningsmenn telja að slysavörnum sjómanna sé aldrei of vel sinnt og þar eru ýmis verkefni brýn. Jafnframt er við hæfi að láta hluta þessa renna til hafrannsókna, en frekari rannsóknir á lífríki sjávar koma sjómönnum, útgerðarmönnum og öllum landsmönnum til góða.
    Þá má telja sanngjarnt að hluti andvirðisins renni sérstaklega til sjómanna á óbeinan hátt, þ.e. til stéttarfélaga þeirra sem ráðstafi honum til orlofsmála sjómanna. Sjómenn eru oft lengi fjarri heimilum sínum og orlof þeirra eru mikilvægari en hjá flestum öðrum starfsstéttum þessa lands.
    Með þessu frumvarpi er tekið á brottkasti smáfisks. Stuðlað er að því að undirmálsfiski verði ekki hent heldur komið með hann að landi og þannig hvatt til þess að meiri virðing sé borin fyrir auðlindum sjávar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Eftirfarandi ákvæði laganna fellur brott: „Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að fiskur undir tiltekinni stærð teljist aðeins að hluta með í aflamarki.“ Með frumvarpinu eru ákvæði um meðferð undirmáls felld inn í lög um stjórn fiskveiða en það var áður reglugerðarákvæði.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. er bætt við tveimur nýjum greinum. Í fyrri greininni, 1. málsl., er undirmál skilgreint á sama hátt og í núverandi reglugerð og kveðið á um að það megi ekki vera yfir 10% af afla í hverri veiðiferð. Í núgildandi reglugerð er miðað við 10% fyrir allar tegundir nema fyrir þorsk sem má ekki vera yfir 7%. 2. og 3. málsl. greinarinnar eru samhljóða ákvæðum núgildandi reglugerðar.
    Síðari greinin er algert nýmæli. Þar er kveðið á um að allan undirmálsafla skuli selja á fiskmarkaði og skipta andvirðinu að frátöldum kostnaði í fjóra jafna hluti og er þeim ráðstafað til skipta, slysavarna sjómanna, hafrannsókna og orlofsaðstöðu sjómanna.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.