Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 265 . mál.


517. Tillaga til þingsályktunar



um háskólaþing.

Flm.: Ágúst Einarsson, Össur Skarphéðinsson, Jón Baldvin Hannibalsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að kalla saman háskólaþing haustið 1997. Á háskólaþingi verði m.a. rædd málefni kennslu, rannsókna og náms á háskólastigi hérlendis með þátttöku kennara, nemenda og starfsmanna háskólastigsins og annarra sérfróðra aðila. Kostnaður við þingið greiðist úr ríkissjóði.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur þeirri hugmynd oft verið varpað fram að skynsamlegt gæti verið að efna til sérstaks þings um málefni háskóla. Fyrirmyndir að slíku þingi eru að hluta sóttar til útlanda en hérlendis hafa verið haldin fiskiþing um málefni sjávarútvegs og búnaðarþing þar sem málefni landbúnaðar eru rædd.
    Þing atvinnuveganna hafa verið haldin í áratugi og hafa að ýmsu leyti lögverndaða stöðu innan stjórnkerfisins. Á þessi þing eru kosnir sérfróðir aðilar úr atvinnugreinunum og funda þeir í tvo til fimm daga og afgreiða ályktanir og umsagnir og vinna að stefnumótun. Fiskiþing og búnaðarþing eru haldin árlega.
    Mjög brýnt er að skapaður sé vettvangur fyrir umræðu um háskólamálefni. Mál sem ræða þarf á slíkum þingum eru m.a.: samstarf skóla á háskólastigi hérlendis, áhrif alþjóðlegra upplýsinga á háskólastarf, sjálfstæði háskóla, nýjungar í háskólakennslu, samskipti við stjórnvöld, alþjóðleg samvinna, tengsl háskóla og atvinnulífs, löggjöf um háskólastigið, rannsóknar- og þróunarvinna í fyrirtækjum og stofnunum, rannsóknartengt framhaldsnám, málefni bókasafna, skipulag háskólastarfs, fjárhagsleg staða háskóla, áhrif háskólastarfs á menningu, kröfur um undirbúningsnám, gerð kennsluefnis, staða og fyrirkomulag rannsókna innan og utan háskóla, samstarf við erlenda rannsóknaraðila, skipulag námslána, styrkjakerfi til náms og rannsókna, fjárhagsleg staða nemenda, útgáfumál, endurmenntun, atvinnuhorfur háskólafólks og háskólasjónvarp.
    Nú eru sex skólar hérlendis sem bjóða upp á nám til háskólagráðu en þeir eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Kennaraháskóli Íslands, Samvinnuháskólinn, Tækniskóli Íslands og Bændaskólinn á Hvanneyri. Auk þessara skóla eru sjö aðrir skólar sem bjóða upp á mjög sérhæft nám á háskólastigi, þ.e. krefjast stúdentsprófs til inngöngu. Þessir skólar eru Íþróttakennaraskóli Íslands, Fósturskóli Íslands, Þroskaþjálfaskóli Íslands, sérdeildir Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Leiklistarskóli Íslands, Tölvuháskóli Verslunarskóla Íslands og sérdeildir Tónlistarskólans í Reykjavík. Samkvæmt tölfræðihandbók menntamálaráðuneytis frá árinu 1996 eru nemendur á háskólastigi hérlendis um 7.400 og fastráðnir kennarar um 600. Á 15 ára tímabili frá árinu 1976 hefur nemendum fjölgað um tæp 70%. Jafnframt stunda yfir 7.000 manns nám við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.
    Að áliti flutningsmanna er háskólaþing ekki ráðstefna um háskólamálefni heldur reglubundinn fundur í nokkra daga einu sinni á ári eða jafnvel á tveggja ára fresti þar sem kjörnir fulltrúar mæta til stefnumótunar í víðum skilningi í málefnum sem tengjast háskólum. Í þingsályktuninni er menntamálaráðherra falið frumkvæði við boðun háskólaþings. Færsælast yrði að hann hefði samráð við skóla á háskólastigi og aðra um hvernig kosið yrði til þingsins. Fulltrúar á háskólaþingi væru m.a. úr hópi kennara, starfsmanna og nemenda skóla á háskólastigi. Hægt er að leita fyrirmynda í fyrirkomulagi háskólaþinga erlendis, t.d. í Bandaríkjunum, en þing þar geta orðið nokkuð fjölmenn.
    Mikilvægt er að fulltrúar á háskólaþingi sæki umboð sitt til breiðs hóps og sérhæfðra sjónarmiða. Háskólaþing setur sér sjálft starfsreglur, en eðlilegt er að sérhver þingfulltrúi hafi eitt atkvæði, afl atkvæða ráði niðurstöðum og að kosinn sé forseti þingsins, t.d. til tveggja þinga.
    Menntamálaráðherra á vitaskuld að fá tækifæri til að ræða málefni háskólastigsins ítarlega á háskólaþingi ásamt helstu samstarfsmönnum sínum. Til greina kemur að ráðherra tilnefni aðila úr ráðuneytinu á þingið og hafi forgöngu um að samtök úr atvinnulífinu kjósi fulltrúa á þingið.
    Gera má ráð fyrir að þingið fjalli um afmörkuð mál og kalli til fyrirlesara, t.d. þingfulltrúa, en ekki síður aðra, til að skerpa áherslur í einstökum málaflokkum. Sérhvert háskólaþing gæti hafist á því að gerð sé grein fyrir þróun frá síðasta þingi og afdrifum ályktana og stefnumörkunar þess. Líklegt er að samþykktir, fyrirlestrar og jafnvel umræður verði gefnar út á vegum háskólaþings. Mikilvægt er að gefa öðrum aðilum möguleika á að sækja þingið, t.d. menntamálanefnd Alþingis og fleiri sérfróðum aðilum um menntamál.
    Í tillögunni er lagt til að ríkissjóður beri kostnað við þingið og felst í samþykkt tillögunnar afstaða fjárveitingavaldsins. Kostnaður við þingið er nokkur, þ.e. leiga á fundarsal í u.þ.b. fjóra daga, kostnaður vegna ferðalaga og gistingar þingfulltrúa og ýmis prent- og undirbúningskostnaður. Þar sem hér er um nýlundu að ræða er eðlilegt að ríkisvaldið kosti upphaf málsins, en síðar mundu einstakir skólar bera hluta af kostnaðinum.
    Það er von flutningsmanna að um þessa tillögu skapist breið samstaða vegna þess að vettvang vantar fyrir markvissa umræðu um kennslu, nám, rannsóknir og önnur málefni háskóla hérlendis. Háskólaþing getur orðið slíkur vettvangur.