Ferill 266. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 266 . mál.


518. Frumvarp til lagaum breyting á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994.

Flm.: Gunnlaugur M. Sigmundsson.1. gr.


    Við 1. mgr. 11. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar er jarðeiganda heimilt að stunda veiðar á villtum dýrum samkvæmt lögum þessum á eigin jarðnæði án þess að veiðikort þurfi til. Honum ber þó að skila veiðistjóra skýrslu um veiðar hvers árs. Sama gildir um ábúendur jarða.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Hér er lagt til að jarðeigendum og ábúendum sé heimilt að stunda veiðar villtra dýra á jörðum sínum án þess að þurfa til þess veiðikort. Með lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, var jarðeigendum gert skylt að greiða gjald í ríkissjóð fyrir leyfi til að stunda veiðar á jörðum sínum. Gjaldtaka þessi er í formi greiðslu fyrir útgáfu veiðikorts en veiðikort eru samkvæmt áður nefndum lögum forsenda þess að veiðimanni sé heimilt að stunda veiðar. Það er mat margra að með slíkri gjaldtöku sé höggvið nálægt friðhelgi eignarréttarins, enda hefð frá því að land byggðist að landeigandi eða ábúandi geti haft þau hlunnindi af jörðum sínum sem þar er að finna án þess að gjald komi fyrir í ríkissjóð. Jarðeiganda sem ekki getur fellt sig við að þurfa að greiða gjald fyrir að stunda veiðar sem hann hefur áður gert óhindrað er nú meinað með lögum að nytja eigið land. Eignarréttur er friðhelgur skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar en með skyldu landeiganda til að greiða ríkissjóði gjald fyrir veiðileyfi er hið opinbera að seilast í eignarréttinn þótt ekki sé unnt að fullyrða að um brot á eignarrétti sé að ræða. Skiptar skoðanir kunna að vera á því hvort sú gjaldtaka sem hér um ræðir gangi í berhögg við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar en afnám gjaldtöku af landeigendum fyrir veiðar á eigin landi hlýtur engu síður að teljast sanngirnismál.
    Verði frumvarpið að lögum er þeim aðilum sem undanþegnir verða greiðslu fyrir veiðikort samt sem áður gert að skila veiðistjóra skýrslu um veiðar hvers árs. Samkvæmt gildandi lögum er það forsenda þess að veiðikort séu endurnýjuð að veiðimaður hafi skilað skýrslu til veiðistjóra um veiðar liðins árs. Af samþykkt frumvarpsins leiðir að veiðistjóri missir þann rétt að geta neitað landeiganda eða ábúanda um að stunda veiðar skili viðkomandi ekki veiðiskýrslu. Engu síður er tryggt að sú lagaskylda hvílir áfram á þessum aðilum að skila árlega veiðiskýrslu þótt framkvæmdin verði önnur en verið hefur. Samþykkt frumvarpsins kemur í veg fyrir að höggvið sé nærri hefðbundnum nýtingarrétti landeigenda og rétthafa og að höft séu lögð á eðlileg samskipti bænda og búaliðs við náttúru landsins.