Ferill 278. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 278 . mál.


532. Skýrslasamstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 1996.

1. Inngangur.


    Starfsárið 1996 einkenndist af framkvæmdum þeirra umbóta og endurskipulagningar sem ákveðnar voru 1995 í kjölfar skýrslunnar „Nýir tímar í norrænni samvinnu“.
    Starfsemi allra norrænu stofnananna var metin á árinu 1995, og sú hagræðing sem ákveðin var af því tilefni framkvæmd að mestu á árinu 1996, þannig að frá ársbyrjun 1997 er starfsemi flestra stofnananna komin í það horf, sem ákveðið var og í betra samræmi við þau pólitísku markmið sem sett voru um að samnorræn starfsemi skyldi hafa í för með sér gagn fyrir norræna borgara.
    Verið er að meta norræna verkefnastarfið með sama hætti í því skyni að auka norrænt notagildi starfsins, hagræða og koma í veg fyrir tvíverknað.
Til umfjöllunar eru nú drög að samnorrænni áætlun um markmið og stefnu í rannsóknum og vísindum sem áætlað er að taki gildi á árinu 1997 eftir umfjöllun í Norðurlandaráði. Nýmæli í þessari áætlun er að hún tekur til allra rannsókna- og vísindastarfa á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og gefur því betri heildarsýn og auðveldar forgangsröðun.
    Aðalskrifstofa Norðurlandaráðs var flutt á árinu til Kaupmannahafnar og er nú staðsett í sama húsnæði og aðalskrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar. Ljóst er að af þessum flutningi leiðir margs konar hagræðing, ekki síst til lengri tíma litið, auk þess sem upplýsingaflæði milli samstarfsins á vegum ríkisstjórnanna og þjóðþinganna batnar.
    Heildarmarkmið skipulagsbreytinganna er að nýta samnorræna fjármuni betur og auka hæfni skrifstofanna og stofnananna til að framkvæma þær pólitísku ákvarðanir sem teknar eru.
    Samstarfinu er nú beint að þremur meginsviðum, innra samstarfi Norðurlanda, samvinnu Norðurlanda um Evrópumál og samvinnu Norðurlanda við grannsvæði þeirra. Þessi þrískipting endurspeglast nú í starfsáætlun ráðherranefndarinnar (C2). Við uppsetningu Norrænu fjárlaganna er hins vegar ennþá stuðst við þá skiptingu verkefna milli fagráðherranefnda, sem í gildi hefur verið. Það er m.a. stutt þeim rökum að bæði Evrópumál og málefni grannsvæðanna fléttast inn í mál sem heyra undir allar fagráðherranefndirnar og því erfitt að sundurgreina þau, hvað varðar fjárveitingar.
    Norræn fjárlög ársins 1996 voru 707,4 millj. danskra króna, 11 millj. danskra króna lægri en árið áður og norræn fjárlög ársins 1997 eru 687,4 millj. danskra króna. Þannig hafa fjárveitingar til norræns samstarfs nú lækkað tvö ár í röð vegna eindreginna krafna frá Svíþjóð um aukinn sparnað og hagræðingu. Bæði Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkis- og samstarfsráðherra hafa ásamt fleirum beitt sér gegn þessum niðurskurði.
    Hvað varðar innra samstarf Norðurlanda njóta, sem undanfarin ár, samstarfssviðin menning, menntun og vísindi forgangs, en tæpur helmingur norrænu fjárlaganna rennur til þessara sviða. Á sviði rannsókna hófst á árinu 1996 þverfagleg rannsóknaáætlun nefnd „Norðurlönd og Evrópa“, sem á að standa til ársins 2000. Hún tekur til margra sviða og þar er m.a. fjallað um norræna samsemd í ljósi samrunaþróunarinnar í Evrópu. Áætlað heildarfjármagn er 35 millj. danskra króna.
    Áhersla er lögð á norrænt tungumálasamstarf og hreyfanleika og tengsl til að efla áhuga ungs fólks á norrænu grannþjóðunum. NORDMÅL-áætlunin er víðtæk áætlun um norrænt tungumálasamstarf sem gildir til ársins 2000. Á vegum samstarfsráðherra Norðurlanda var lögð fram um mitt ár 1996 skýrslan „Det umistelige“ þar sem norræn málakunnátta var metin og kom þar margt fram sem betur mætti fara á því sviði. Skýrslunni sem inniheldur ýmsar tillögur um úrbætur hefur verið vísað til menntamálaráðherra landanna.
    Sumarið 1996 hélt Norræna ráðherranefndin ráðstefnu í Reykjavík undir yfirskriftinni „Velferðarþjóðfélag morgundagsins“. Ráðstefnan var þverfagleg og hana sóttu norrænir ráðherrar og aðrir forustumenn á sviði félagsmála, heilbrigðismála og atvinnumála. Pádraig Flynn sat sem fulltrúi Evrópusambandsins, en hann á sæti í framkvæmdastjórn þess, og fjallaði hann um Evrópusambandið og velferðina. Þeim fjölmörgu hugmyndum sem fram komu á ráðstefnunni verður fylgt eftir og hafa samstarfsráðherrar Norðurlanda skipað vinnuhóp sem tekur upp þráðinn þar sem ráðstefnunni lauk. Evrópusambandið á einnig fulltrúa í hópnum.
    Á sviði sjávarútvegsmála var á árinu samþykkt samstarfsáætlun fyrir árin 1996–2000, þar sem lögð er höfuðáhersla á verndun auðlinda sjávar og skynsamlega nýtingu þeirra og á árinu 1995 hafði verið efnt til samstarfs milli umhverfis- og sjávarútvegsgeirans um að leita leiða til að bæta umgengni og stuðla að sjálfbærri þróun og nýtingu sjávarauðlinda. Síðarnefnda áætlunin gildir til 1998.
    Vestnorrænt samstarf var í brennidepli á árinu. Unnið hefur verið að gagngerum breytingum á samstarfi hinna vestlægu Norðurlanda í byggðamálum. Samstarfsnefnd Vestur-Norðurlanda sem um 15 ára skeið var vettvangur samstarfs Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga var lögð niður 1995 og við tók ný nefnd, Norræna Atlantsnefndin sem Norðmenn eiga aðild að auk framangreindra landa. Með aðild Noregs eru væntanlegar nokkrar áherslubreytingar og vonast er til að fyrir íslenska aðila gefist ný tækifæri til samstarfs milli mennta- og rannsóknastofnana og fyrirtækja á sviði auðlinda- og sjávarumhverfismála, ferðaþjónustu og samgangna, viðskipta og landbúnaðar.
    Starfsemi Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda var endurskoðuð og tillaga um nýtt skipulag sjóðsins lögð fyrir þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 1996. Endanleg ákvörðun um framtíðarskipulag sjóðsins hefur ekki verið tekin.
    Eftir snjóflóðið í Súðavík veitti Norræna ráðherranefndin styrk til norsk-íslensks samvinnuverkefnis um snjóflóðavarnir. Af hálfu Íslands eiga Háskóli Íslands og Veðurstofa aðild að verkefninu. Verkefnið er til þriggja ára.
    Á árinu var grannsvæðasamstarfið yfirfarið í því skyni að kanna möguleika þess að marka samstarfi Norðurlanda við grannsvæðin heildarstefnu og hagnýta þannig sem best þá fjármuni sem til samstarfs og aðstoðar við þessi svæði er varið. Forsætisráðherrum og samstarfsráðherrum var kynnt sú skýrsla sem gerð var á vegum utanríkisráðuneytanna um málið og féllust þeir á meginniðurstöður skýrslunnar. Þær voru síðan lagðar til grundvallar starfsáætlun um grannsvæðasamstarfið fyrir 1997. Á grundvelli skýrslunnar er nú lögð ríkari áhersla en fyrr á stærri og sýnilegri verkefni og verkefnaheildir. Áherslusviðin verða m.a. velferðarmál, mál sem varða grundvallarreglur réttarríkisins og aðila vinnumarkaðarins, réttindi minnihlutahópa og jafnréttismál. Jafnframt var ákveðið að þeir aðilar í utanríkisráðuneytum landanna sem eru í forsvari samstarfs á vegum þeirra við Austur-Evrópu styrktu samstarf sitt og miðluðu upplýsingum milli landanna um aðstoð við þau ríki. Jafnframt munu viðkomandi aðilar hjá ráðherranefndinni fá aukna innsýn í mál þessi.
    Norðurskautsráðið var stofnað formlega í september 1996 með aðild Norðurlanda, Kanada, Bandaríkjanna og Rússlands. Íslendingar fagna stofnun ráðsins og leggja áherslu á að það verði heildarrammi fyrir samstarf um þau mál sem snerta sérstaklega hagsmuni þjóða á norðurslóðum. Samþykkt var norræn samstarfsáætlun um málefni Norðurskautssvæðisins 1995, en sú óvissa sem ríkt hefur um stofnun Norðurskautsráðsins hefur hamlað starf samkvæmt áætluninni. Nú er þeirri óvissu rutt úr vegi og verið er að leggja síðustu hönd á verkefnaáætlun næsta árs fyrir Norðurskautssamstarfið.
    Utanríkisráðherrar Norðurlanda halda reglulega samráðsfundi þar sem Evrópumál, í víðum skilningi, eru meginefni fundanna. Að frumkvæði Halldórs Ásgrímssonar utanríkis- og samstarfsráðherra hefur það verið tekið til umfjöllunar á fundum samstarfsráðherranna og víðar, hvernig styrkja megi tengsl norrænu utanríkis-, varnarmála- og þróunarmálaráðherranna við Norðurlandaráð og Norrænu ráðherranefndina en hvorki utanríkis-, varnarmála- né þróunarmálaráðherrarnir starfa sem kunnugt er formlega innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar þó umræða um þau mál hafi aukist í norrænu samstarfi og utanríkismál sitji í fyrirrúmi á þingum Norðurlandaráðs. Öryggis- og varnarmál eru vaxandi umræðuefni á vettvangi Norðurlandasamstarfsins og tengist það ekki síst fyrirhugaðri stækkun Atlantshafsbandalagsins.
    Rík áhersla hefur undanfarin ár verið lögð á að umfjöllun um Evrópumál verði aukin á norrænum vettvangi og hún verði markviss og vel undirbúin. Til þess að svo geti orðið þarf góðan farveg fyrir upplýsingar frá aðilum sem fylgjast með gangi mála innan Evrópusambandsins frá degi til dags um þau Evrópumál sem skipta Norðurlönd sérstöku máli. Miklu skiptir að nýta hinn norræna vettvang fyrir Evrópumálin, bæði vegna þess að hann er eini sameiginlegi vettvangur norrænu þjóðþinganna og ríkisstjórnanna, en einnig vegna þess að Evrópumál eru orðin svo snar þáttur í allri pólitískri umræðu að þau verða tæplega skilin frá henni.
    Á árinu 1996 náðist ákveðinn árangur í því að dýpka Evrópuumræðuna í Norrænu ráðherranefndinni bæði á fundum ráðherranna og annars staðar. Einnig voru Evrópumál til umræðu á þemaráðstefnu Norðurlandaráðs vorið 1996. Samt er ljóst að eitt allra mikilvægasta mál næsta starfsárs er að styrkja þá skipulögðu upplýsingaöflun sem til þarf til að Evrópumálin fái þá umfjöllun sem æskileg er á norrænum vettvangi.

2. Samstarf forsætisráðherra Norðurlanda.


    Forsætisráðherrar Norðurlanda hafa með höndum pólitíska stefnumörkun í samstarfi ríkisstjórna Norðurlanda samkvæmt Helsingforssamningnum. Þeir héldu tvo fundi á árinu og áttu auk þess fund með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og með forsætisráðherrum Eystrasaltsríkjanna.
    Umræður um málefni Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins eru fastir liðir á fundunum og þýðing og umfang þessara óformlegu viðræðna hefur aukist undanfarin ár. Málefni ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins og Evrópska myntsambandið sátu í fyrirrúmi þetta ár.
    Norrænt samstarf á alþjóðavettvangi var rætt, ekki síst hvað varðar Sameinuðu þjóðirnar. Það kom fram að þrátt fyrir ýmsar óhjákvæmilegar breytingar vegna aðildar fleiri Norðurlanda að ESB ætti sér áfram stað náið norrænt samstarf og samráð í Sameinuðu þjóðunum, þótt dregið hafi úr sameiginlegum málflutningi landanna þar.
    Forsætisráðherrarnir ræddu á fundum sínum tillögur um heildarstefnu fyrir samstarf Norðurlanda við grannsvæðin og töldu skýrslu þá sem gerð hafði verið um málið góðan grundvöll fyrir samnorrænar aðgerðir. Þó var bent á að ekki væri rétt að draga úr samnorrænum aðgerðum á sviði umhverfismála á grannsvæðunum. Forsætisráðherrarnir lýstu jafnframt stuðningi við þá nýju fjárfestingaráætlun á sviði umhverfismála á grannsvæðum Norðurlanda sem nú hefur verið ákveðið að koma á hjá Norræna fjárfestingarbankanum. Ákveðið var að halda að jafnaði fund með forsætisráðherrum Eystrasaltsríkjanna á árlegum þingum Norðurlandaráðs.
    Forsætisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna lýstu á sameiginlegum fundi sínum því áliti að öll lönd sem sæktu um aðild að Evrópusambandinu ættu að njóta jafnræðis þannig að viðræður við þau um aðild hefðust samtímis.
    Af hálfu Eystrasaltsríkjanna var skýrt frá samstarfi þeirra innbyrðis, áformum um tollabandalag þeirra 1998 og fríverslunarsamningi sem nú tæki til landbúnaðarvara auk annarra vara. Einnig var skýrt frá óskum þeirra um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Af hálfu Norðurlanda kynnti utanríkisráðherra Finnlands stefnumótun um samstarf Norðurlanda við grannsvæðin.
    Forsætisráðherrarnir ræddu störf Eystrasaltsráðsins og leiðtogafund þess í Visby á Gotlandi í maí mánuði sl. og lögðu áherslu á mikilvægi ráðsins fyrir samstarf ríkja á þessu svæði.
    Forsætisráðherrarnir ræddu við oddvita heimastjórna Færeyja, Grænlands og Álandseyja um málefni Norðurskautsins. Einnig var stofnun Norðurskautsráðsins rædd og þau jákvæðu áhrif sem ráðið gæti haft fyrir þjóðir sem byggja ríki á norðlægum slóðum.
    Forsætisráðherrunum var gefin skýrsla um framkvæmd endurskipulagningarinnar í kjölfar skýrslunnar „Nýir tímar í norrænni samvinnu“ frá 1995. Þeim var og kynnt staða mála hvað varðaði þá hagræðingu í rekstri norrænu stofnananna sem framkvæmd var á árinu 1996 og skýrsla um norræna málakunnáttu og aðgerðir til að bæta hana.
    Forsætisráðherrarnir ræddu hugmynd þá sem Göran Persson forsætisráðherra Svía hafði kynnt Davíð Oddsyni forsætisráðherra í opinberri heimsókn sinni til Íslands um norrænt samstarf um það hvernig varðveita mætti norræna velferðarkerfið án þess að það ylli verðbólgu nú þegar ríkin væru að komast upp úr þeirri efnahagslægð sem þau hefðu öll að Noregi undanskildu verið í undanfarin ár. Á vegum fjármálaráðherra er nú unnið að þessu verkefni.
    

3. Samstarf samstarfsráðherra Norðurlanda.


    Samstarfsráðherrarnir hafa það hlutverk samkvæmt Helsingforssamningnum að stuðla að aukningu samstarfsins og samræmingu þess milli hinna ýmsu samstarfssviða og taka ákvarðanir um skipulag sem nær til margra samstarfssviða, bera ábyrgð á upplýsingamiðlun ráðherranefndarinnar og ákveða norrænu fjárlögin. Þeir hafa samráð við fagráðherranefndirnar eftir því sem við á.
    Helstu mál sem samstarfsráðherrarnir fjölluðu um á starfsárinu eru: fjárlög ársins 1997, sem afgreitt voru til Norðurlandaráðs í byrjun júlí; framkvæmd aðgerða í kjölfar úttektarinnar „Norrænt notagildi“ á norrænu stofnununum; skýrsla sú um norræna málakunnáttu „Det umistelige“ sem samstarfsráðherrarnir höfðu látið gera; stefnumótun um samnorrænar rannsóknir; norræna samstarfsáætlunin um málefni Norðurskautsins; norræna átakið gegn útlendingaandúð; Lánasjóður Vestur-Norðurlanda; Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn (Nopef); Norræni þróunarsjóðurinn (NDF); grannsvæðasamstarfið, stefnumótun þess og samráð við samstarfsráðherra Eystrasaltsríkjanna; Evrópumál; styrkumsókn til norrænnar menningarmiðstöðvar í New York; upplýsingamál og ýmis mál tengd rekstri og stjórnun ráðherranefndarskrifstofunnar, en við áramót hætti framkvæmdastjóri skrifstofunnar, Finninn Pär Stenbäck, og Daninn Søren Christensen tók við.
    Samstarfsráðherrarnir héldu átta fundi á starfsárinu auk fundar með samstarfsráðherrum Eystrasaltsríkjanna. Formaður samstarfsráðherranna, Ole Norrback átti auk þess fund með forseta Norðurlandaráðs Knud Enggaard.
    Á starfsárinu fólu samstarfsráðherrarnir nefnd á vegum utanríkisráðherranna að gera yfirlit yfir samnorrænt og tvíhliða samstarf og stuðning Norðurlanda við grannsvæðin við Eystrasalt og í Norðvestur-Rússlandi og kanna möguleika þess að löndin sameinuðust um stefnumótun í því samstarfi. Á grundvelli skýrslunnar ákváðu samstarfsráðherrarnir hver yrðu forgangsverkefni í samstarfi á vegum ráðherranefndarinnar við grannsvæðin. Vegna upplýsinga sem fram komu í skýrslunni var unnt að draga úr áherslu á þeim sviðum þar sem víðtækt tvíhliða eða annað alþjóðlegt samstarf var fyrir hendi, en aukið hana að sama skapi þar sem þörfin var talin brýnni.
    Norrænar upplýsingarskrifstofur eru reknar í Tallinn, Ríga, Vilníus og Pétursborg. Samningar náðust í lok ársins 1996 um formlegan grundvöll fyrir rekstur skrifstofunnar í Pétursborg og var þá hafist handa um tengsl á vegum skrifstofunnar við Petrozavodsk, Arkhangelsk og Murmansk.
    Samstarfsráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna áttu einn fund á árinu þar sem m.a. var rætt um áherslur í samstarfi Norrænu og Baltnesku ráðherranefndanna.
    Á árinu 1996 var hafin útgáfa norræns upplýsingablaðs „Norðurlönd í vikunni“, sem kemur út á íslensku auk skandinavísku og finnsku. Kemur það út vikulega og er dreift á faxi til lykilaðila í norrænu samstarfi auk fjölmiðla.
    Í tengslum við flutning aðalskrifstofu Norðurlandaráðs til Kaupmannahafnar var gerður samningur milli skrifstofa Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar um upplýsingamál. Á grundvelli hans er nú hafin útgáfa veglegs sameiginlegs blaðs í dagblaðsformi, „Politik i Norden“ sem áætlað er að komi út 6–7 sinnum á ári. Eitt tölublað kom út til reynslu árið 1996 og innihélt það úrdrátt á íslensku. Blaði þessu er að nokkru ætlað að koma í stað tímaritsins „Nordisk Kontakt“, en útgáfu þess hefur verið hætt.
    Samstarfið um málefni Norðurskautsins heyrir á vettangi Norrænu ráðherranefndarinnar undir samstarfsráðherrana, þar eð það tekur til fjölmargra samstarfssviða. Vegna þeirrar óvissu sem lengst af ríkti varðandi stofnun Norðurskautsráðsins, dróst ákvörðun um verkefnaval innan norrænu samstarfsáætlunarinnar fyrir Norðurskautssvæðið fram eftir ári, en ákvörðun um verkefnaáætlun ársins 1997 verður væntanlega tekin á fundi samstarfsráðherranna í mars nk.
    Evrópumál voru til umræðu á öllum fundum samstarfsráðherranna á grundvelli munnlegrar skýrslu sem formaður gaf. Starfssvið samstarfsráðherra er að því leyti annars eðlis en fagráðherranefndanna að samstarfsráðherrar hafa ekki afmarkað fagsvið sem á sér hliðstæðu innan Evrópusambandsins. Skýrsla formanns er því yfirleitt byggð á eigin reynslu af öðrum sviðum, en núverandi formaður Ole Norrback er Evrópuráðherra og utanríkisviðskiptaráðherra, svo reynsla hans er víðtæk.
    Að frumkvæði Halldórs Ásgrímssonar ræddu samstarfsráðherrarnir erindi forráðamanna samtakanna „American Scandinavian Foundation“ í Bandaríkjunum þess efnis að norrænu ríkin hvert um sig og Norræna ráðherranefndin styddu með fjárframlögum kaup og endurbætur á tilteknu húsnæði fyrir norræna menningarmiðstöð í New York. Samtökin „American Scandinavian Foundation“ mundu síðan standa sjálf undir kostnaði við reksturinn. Samstarfsráðherrarnir tóku vel í hugmyndirnar, sem einnig höfðu verið ræddar í hópi utanríkisráðherranna, en ákvörðun um fjárframlög hefur ekki verið tekin.
    Starfsáætlun ráðherranefndarinnar fyrir árið 1997 (C2) hefur verið þýdd á íslensku og er fáanleg á Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins. Sama máli gegnir um ráðherranefndartillögu að nýrri samstarfsáætlun um norrænt löggjafarsamstarf og ráðherranefndartillögu um framtíð Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda.

4. Samstarf utanríkisráðherra Norðurlanda og


norrænt samstarf á alþjóðavettvangi.


1. Fundir utanríkisráðherra Norðurlanda.
    Utanríkisráðherrar Norðurlanda halda nú þrjá reglulega samráðsfundi á hverju ári. Auk þess hittust utanríkisráðherrarnir nokkrum sinnum óformlega á árinu vegna annarra utanríkisráðherrafunda, til dæmis í Eystrasaltsráðinu, Evrópuráðinu, OECD, Barentsráðinu, Norðurlandaráði og á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

a. Utanríkisráðherrafundur Norðurlanda í Helsinki 22.–23. janúar 1996.
    Meginefni fundarins voru Evrópumálefni, ástand mála í fyrrum Júgóslavíu og svæðisbundið samstarf í Norður-Evrópu.
    Ráðherrarnir áréttuðu mikilvægi fyrirhugaðrar ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins og minntu á ákvörðun leiðtogafundar ESB í Madrid um að EFTA-ríkin yrðu upplýst um gang mála á ríkjaráðstefnunni. Ráðherrarnir staðfestu einnig áherslur um mikilvægi samnorrænna hagsmuna gagnvart Evrópusambandinu og innbyrðis upplýsingamiðlun á milli Norðurlanda um málefni Evrópusambandsins.
    Ráðherrarnir minntu einnig á mikilvægi þess fyrir Evrópuríki að efla tengslin yfir Norður-Atlantshaf, og sérstaka þýðingu þess fyrir Noreg og Ísland.
    Ráðherrarnir lögðu áherslu á þátt Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu við kosningaeftirlit í fyrrum Júgóslavíu og að leitað yrði allra leiða til að styrkja friðarferlið. Einnig var ítrekaður stuðningur við starf Carls Bildts, aðalsamningamanns ESB.
    Ráðherrarnir voru sammála um að svæðisbundið samstarf efldi hefðbundið samstarf Norðurlanda og því væri eðlilegt að styrkja það til muna. Þeir fjölluðu um fyrirhugaðan leiðtogafund Eystrasaltsráðsins í Visby á Gotlandi og sameiginleg markmið og áherslur Norðurlanda í málefnum grannsvæða.
    Voru ráðherrarnir sammála um mikilvægi þess að efla til muna samstarf á norðurslóðum, bæði gagnvart Norðvestur-Rússlandi og á heimskautasvæðum. Einnig var minnt á frumkvæði Norðurlandaráðs í þessu sambandi og fyrirhugaða stofnun Norðurskautsráðsins síðar á árinu.
    Jafnframt voru umræður um öryggismál í Evrópu, Sameinuðu þjóðirnar í ljósi 50. allsherjarþingsins og mannréttindamál í Mjanmar, Búrúndí, Nígeríu, Írak, Íran, Tyrklandi og Kína.
    
b. Utanríkisráðherrafundur Norðurlanda í Maríuhöfn á Álandseyjum 28.–29. maí 1996.
    Á fundinum voru málefni Evrópu í öndvegi, einkum stækkun Evrópusambandsins, ríkjaráðstefna sambandsins, auk málefna Atlantshafsbandalagsins og ástand mála í gömlu Júgóslavíu. Einnig ræddu ráðherrarnir samstarf Norðurlanda á grannsvæðum, mannréttindi í Írak og Tyrklandi, stöðu mála í Mið-Austurlöndum og málefni Sameinuðu þjóðanna, þar með talið sameiginleg norræn framboð.
    Utanríkisráðherrarnir voru sammála um að framtíðarþróun Evrópusambandsins væri mikilvæg fyrir öll Norðurlöndin, ekki síður Ísland og Noreg, en fyrir ESB aðildarríkin Finnland, Svíþjóð og Danmörku. Ráðherrarnir lögðu áherslu á að stækkun ESB í austurátt, ekki síst með aðild Eystrasaltsríkjanna, hefði í för með sér aukinn stöðugleika í álfunni, bæði í efnahagslegu tilliti og út frá öryggissjónarmiðum. Enn fremur vísuðu ráðherrarnir til yfirlýsingar leiðtogafundar Eystrasaltsráðsins í Visby er haldinn var skömmu áður og fögnuðu ásetningi aðildarríkja Eystrasaltsráðsins um að efla til muna svæðisbundið samstarf. Jafnframt áréttuðu ráðherrarnir mikilvægi svæðisbundis samstarfs á grannsvæðum fyrir norræna samvinnu í framtíðinni og minntu á fyrirhugaða stofnun Norðurskautsráðsins í því sambandi.
    Ráðherrarnir lögðu áherslu á að staðið yrði við skuldbindingar Dayton-samkomulagsins um frjálsar kosningar í Bosníu-Hersegóvínu og að meintir stríðsglæpamenn yrðu færðir fyrir alþjóðlegan stríðsglæpadómstól. Ráðherrarnir fögnuðu enn fremur vopnahléssamkomulagi í Téténíu og minntu á mikilvægi fyrirhugaðra forsetakosninga í Rússlandi fyrir áframhaldandi lýðræðisþróun í landinu.

c. Utanríkisráðherrafundur Norðurlanda í Borgå í Finnlandi, 20.–21. ágúst 1996.
    Á fundinum ræddu ráðherrarnir meðal annars um Evrópumálefni, svæðisbundið samstarf í Norður-Evrópu, öryggismál, stöðu mála í gömlu Júgóslavíu, ástandið í Mið-Austurlöndum og komandi allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
    Utanríkisráðherrarnir voru sammála um mikilvægi pólitísks samráðs er fram fer innan ramma EES-samningsins, og ítrekuðu áherslur um enn frekari þátttöku EES-ríkja í sameiginlegum málflutningi og yfirlýsingum ESB. Einnig ræddu ráðherrarnir viðfangsefni ríkjaráðstefnunnar og áherslur Norðurlanda í því sambandi. Ráðherrarnir fjölluðu um þróun utanríkis- og öryggismála í ljósi ríkjaráðstefnunnar og framtíðarhlutverk Vestur-Evrópusambandsins í nýju öryggiskerfi Evrópu. Í því sambandi lagði utanríkisráðherra Íslands áherslu á að Vestur-Evrópusambandið héldi sjálfstæði sínu og yrði ekki innlimað í Evrópusambandið.
    Utanríkisráðherrarnir ræddu einnig mikilvægi grannsvæðasamstarfs Norðurlanda, einkanlega í Eystrasaltsráðinu, Barentsráðinu og Norðurskautsráðinu, sem stofnað var í Kanada 19. september 1996. Í því sambandi var fagnað skýrum markmiðum á grundvelli ályktana leiðtogafundar Eystrasaltsráðsins í Visby 3.–4. maí 1996 og utanríkisráðherrafundar Eystrasaltsráðsins í Kalmar, 2.–3. júlí 1996. Utanríkisráðherrarnir áréttuðu að samstarf Norðurlanda í málefnum grannsvæða stuðlaði að eflingu öryggis og stöðugleika í Evrópu.
    Utanríkisráðherrarnir fjölluðu jafnframt um fyrirhugaða stækkun Atlantshafsbandalagsins og áherslur Eystrasaltsríkjanna um aðild. Einnig var minnt á mikilvægi forsetakosninganna í Rússlandi fyrir áframhaldandi lýðræðisþróun í landinu.
    
d. Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna í Ríga 20. ágúst 1996.
    Hefð er nú orðin fyrir því að í tengslum við reglubundinn haustfund utanríkisráðherra Norðurlanda hitti utanríkisráðherrarnir starfsbræður sína frá Eystrasaltsríkjunum á sérstökum fundi. Var slíkur fundur nú haldinn í fjórða sinn. Ráðherrarnir ræddu einkum svæðisbundið samstarf við Eystrasalt, öryggismál í Evrópu og samrunaþróunina í Evrópu. Ráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi svæðisbundins samstarfs, annars vegar á milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna þriggja og hins vegar innan Eystrasaltsráðsins. Voru ráðherrarnir sammála um að aukið samstarf á sviði efnahagsmála, viðskipta, umhverfismála og löggæslu stuðlaði að öryggi og auknum stöðugleika í Evrópu. Á fundinum ítrekaði utanríkisráðherra Íslands stuðning við umsókn Eystrasaltsríkjanna um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Einnig ítrekuðu ráðherrarnir stuðning Norðurlanda við umsóknir Eistlands, Lettlands og Litáens að Evrópusambandinu.
    Á fundinum undirritaði Halldór Ásgrímsson, sem samstarfsráðherra Norðurlanda, samning milli Norrænu ráðherranefndarinnar og Lettlands um rekstur upplýsingaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Ríga.
    Samskipti Íslands og Lettlands voru í öndvegi á síðastliðnu hausti í ljósi opinberra heimsókna Andris Skéle, forsætisráðherra Lettlands til Íslands í september og Valdis Birkavs, utanríkisráðherra Lettlands, mánuði síðar.

2. Samstarf Norðurlanda um Evrópumál.
a. Samstarf tengt Evrópusambandinu og EES.
    Í samræmi við breyttar áherslur í hefðbundnu samstarfi Norðurlanda er staðfestar voru með breytingum á Helsingforssamningnum á aukaþingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í september 1995 og tóku gildi í byrjun árs 1996, er samstarf Norðurlanda um Evrópumál nú ein af þremur grundvallarstoðum norræns samstarfs. Hinar stoðirnar eru sem kunnugt er samstarf innan Norðurlanda og samstarf Norðurlanda við grannsvæði.
    Á þessum grunni skuldbinda Norðurlönd sig til samstarfs í málaflokkum sem eru mikilvægir á grundvelli EES-samningsins og Evrópusambandsins, þar sem hagsmunir og gildismat Norðurlanda fara saman. Einnig er lögð áhersla á að norræn samvinna geti orðið grundvöllur frumkvæðis Norðurlanda í málaflokkum sem þau leggja áherslu á í evrópsku samhengi. Málefni Evrópusambandsins og EES eru nánast orðin fastur liður á norrænum samráðsfundum um utanríkismál, hvort heldur er um að ræða ráðherrafundi eða fundi embættismanna.
    Á árinu fór Ísland með formennsku í EES-samstarfinu. Á grundvelli sameiginlegrar yfirlýsingar um pólitísk skoðanaskipti, er samþykkt var í EES-ráðinu 30. maí 1995, voru haldnir tveir fundir utanríkisráðherra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandsins í Brussel, þann 11. júní og 6. desember sl. Jafnframt áttu forsætisráðherrar Íslands og Noregs og utanríkisráðherra Liechtenstein fundi með forsætisráðherra Ítalíu og forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Visby í maí 1996 og fund með forsætisráðherra Írlands og utanríkismálastjóra Evrópusambandsins í Lissabon 2. desember sl. Áhersla hefur verið lögð á að þróa nánar norrænt samráð með tilliti til samstarfs innan EES og tengsla við Evrópusambandið.
    Fundur utanríkisviðskiptaráðherra Norðurlanda var haldinn í Kaupmannahöfn 11. nóvember sl. Þar var einkum rætt samstarf á grundvelli EES-samningsins, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, OECD, Eystrasaltsráðsins, Barentsráðsins og um norrænt samstarf almennt. Í tengslum við ráðherrafund Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Singapore héldu norrænu ráðherrarnir samráðsfund um málefni stofnunarinnar. Utanríkisviðskiptaráðherrarnir voru sammála um að EFTA/EES-ríkin þyrftu að fá aukin tækifæri til að taka þátt í mótun reglugerða Evrópusambandsins.
    Mikilvægt samráð á sér stað á meðal embættismanna Norðurlanda í fastanefndum þeirra hjá Evrópusambandinu um pólitísk stefnumál Evrópusambandsins sem mikilvægt er að ræða á norrænum vettvangi. Á vegum Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar og fastanefnda Norðurlanda hjá Evrópusambandinu er nú unnið að því að efla frekar innbyrðis samráð Norðurlanda um málefni sambandsins og að koma á skilvirkri upplýsingamiðlun á milli Evrópusambandsins og stofnana norrænnar samvinnu.
    
b. Schengen-vegabréfasamkomulagið.
    Norðurlöndin urðu áheyrnaraðilar að Schengen-vegabréfasamkomulaginu frá og með 1. maí 1996. Evrópusambandsríkin Danmörk, Svíþjóð og Finnland verða fullgild aðildarríki Schengen-samkomulagsins, en ekki verður um fulla aðild Íslands og Noregs að ræða. Samstarfssamningur Íslands og Noregs við aðildarríki samkomulagsins var undirritaður 19. desember 1996, með fyrirvara um samþykki Alþingis. Nú er stefnt að gildistöku samningsins á fyrrihluta árs 1999.
    Norðurlönd hafa lagt ríka áherslu á að tengjast vegabréfasamkomulagi Schengen-ríkjanna og að viðhalda þannig um leið grundvallarþáttum norræna vegabréfasamkomulagsins.
    
c. Evrópuráðið.
    Samráð Norðurlanda á vettvangi Evrópuráðsins er allumfangsmikið. Fastafulltrúar Norðurlanda hittast mánaðarlega í Strassborg, ásamt varafastafulltrúum. Á þeim fundum er sérstök dagskrá og tekur hvert ríki að sér að hafa framsögu um einstaka dagskrárliði. Norðurlönd koma sjaldan sameiginlega með tillögur á fundum ráðherranefndarinnar, en hins vegar kemur oft fyrir að samráð hefur verið haft um afstöðu til einstakra mála, þannig að hvert Norðurlanda fyrir sig lýsir sömu afstöðu til mikilvægra málefna.
    Tvisvar á ári eru haldnir sérstakir samráðsfundir í höfuðborgum Norðurlanda þar sem mæta fastafulltrúar og sérfræðingar í utanríkisráðuneytum er fara með málefni Evrópuráðsins. Þessir fundir eru haldnir þremur til fjórum vikum fyrir ráðherrafund, þannig að sem best yfirsýn fáist yfir einstök málefni. Slíkur samráðsfundur var haldinn á Íslandi í október sl.
    
3. Samstarf Norðurlanda á grannsvæðum.
    Utanríkisráðherrar Norðurlanda skipuðu nefnd þann 13. febrúar 1996, í samræmi við breyttar áherslur í norrænu samstarfi og breytingar á Helsingforssamningnum, er falið var að vinna að stefnumótun varðandi grannsvæði Norðurlanda. Nefndin skilaði skýrslu fyrir fund samstarfsráðherra Norðurlanda 26. júní 1996.
    Í tillögum nefndarinnar er meðal annars lagt til að reynt verði að samræma margvíslegan stuðning Norðurlanda gagnvart Eystrasaltsríkjunum, til dæmis með því að auka upplýsingaflæði um stuðningsaðgerðir einstakra ríkja. Einnig er lögð áhersla á að gera stuðninginn markvissari, með áherslu á Eystrasaltsríkin þrjú, Norðvestur-Rússland og heimskautasvæðin. Einnig er lögð áhersla á að efla stuðning á þeim sviðum þar sem framlag Norðurlanda getur orðið að mestu liði, til dæmis á sviði félags- og atvinnumála, á sviði frjálsra félagasamtaka og varðandi réttindi minnihlutahópa. Enn fremur er lögð áhersla á gott samstarf við norrænar fjárfestingarstofnanir og Evrópusambandið og að efla eins og kostur er samstarf á vettvangi Eystrasaltsráðsins, Barentsráðsins og Norðurskautsráðsins.
    
a. Eystrasaltsráðið.
    Á utanríkisráðherrafundi Eystrasaltsráðsins í Kalmar í Svíþjóð 2.–3. júlí 1996 var fagnað skýrri stefnumörkun Eystrasaltsráðsins er kom fram í nýrri framkvæmdaáætlun ráðsins er samþykkt var á leiðtogafundi Eystrasaltsráðsins í Visby 3.–4. maí 1996. Ráðherrarnir vöktu einnig athygli á margvíslegum nýjum samstarfsmöguleikum á vettvangi ráðsins er meðal annars fælust í auknum tengslum við ESB á grundvelli aðildarumsókna Eistlands, Lettlands, Litáens og Póllands og nýjum samstarfssamningi Rússlands og ESB og í auknu samstarfi þingmanna, sérfræðinga og fulltrúa hagsmunaaðila. Norðurlönd hafa veigamiklu hlutverki að gegna á vettvangi Eystrasaltsráðsins við þróun og uppbyggingu lýðræðislegra stofnana, við eflingu efnahags- og viðskiptalífs með því að bæta viðskiptaumhverfi og á sviði umhverfismála. Á vettvangi umhverfismála ber hæst eftirlit með kjarnorkuverum og geislavirkum úrgangi. Einnig leggja Norðurlönd áherslu á aukin efnahagsleg og félagsleg tengsl við grannríki, þar á meðal í ferðaþjónustu. Norðurlönd vinna nú markvisst að því að koma á samningum við Eystrasaltsríkin um gagnkvæmt afnám vegabréfsáritana. Í lok október sl. samþykkti ríkisstjórn Íslands tillögu utanríkisráðherra um að hefja formlegar samningaviðræður við Eistland, Lettland og Litáen um gagnkvæmt afnám vegabréfsáritana.
    
b. Barentsráðið.
    Starfsemi Barentsráðsins er nú að verða fastmótaðri, en meginhlutverk ráðsins er að efla hvers konar samstarf á svæði Barentshafsins, einkum varðandi umhverfismál, viðskipta- og efnahagssamvinnu, samgöngumál og á sviði vísinda- og tæknisamvinnu.
    Á fjórða utanríkisráðherrafundi Barentsráðsins er haldinn var 5.–6. nóvember 1996 í Petrozavodsk í Rússlandi, ræddu utanríkisráðherrarnir samstarf aðildarríkja Barentsráðsins og þróun þess. Ráðherrarnir lýstu sérstakri ánægju með þróun samstarfsins og verulegan árangur er þegar hefði náðst á ýmsum sviðum. Af hálfu Norðurlanda hefur verið lögð áhersla á að ná fram úrbótum á sviði umhverfismála og einnig að efla hvers konar efnahags- og viðskiptasamvinnu við Norðvestur-Rússland.

c. Norðurskautsráðið.
    Mikilvægt skref var stigið 19. september 1996 þegar Norðurskautsráðið, nýr samstarfsvettvangur um málefni norðurslóða, var formlega stofnsett í Ottawa í Kanada. Stofnríki ráðsins eru Norðurlöndin, ásamt Kanada, Bandaríkjunum og Rússlandi. Mikið er í húfi að vel takist til og Norðurskautsráðið verði heildarrammi samstarfs þjóða á norðurslóðum. Með tíð og tíma er æskilegt að ráðið hljóti varanlegt aðsetur og eru íslensk stjórnvöld reiðubúin að hýsa skrifstofur þess.
    
4. Norrænt samstarf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annað samstarf á alþjóðavettvangi.
a. Sameinuðu þjóðirnar.
    Norrænt samráð um málefni Sameinuðu þjóðanna fer víða fram. Forsætis- og utanríkisráðherrar landanna ræða málefni samtakanna reglulega á fundum sínum, auk margvíslegra umræðna, sem fram fara á vettvangi Norðurlandaráðs, beinna samskipta ráðuneyta og stjórnarstofnana. Embættismenn í utanríkisráðuneytum Norðurlandanna ræða málefni Sameinuðu þjóðanna reglulega á fundum sínum.
    Sem kunnugt er hefur norrænt samstarf innan Sameinuðu þjóðanna tekið nokkrum breytingum á undanförnum tveimur árum og dregið hefur úr sameiginlegum málflutningi Norðurlanda vegna aðildar þriggja þeirra að Evrópusambandinu. Ólíklegt er hins vegar að norrænt samstarf innan Sameinuðu þjóðanna dragist saman frekar en orðið er. Þvert á móti gæti aðild þriggja Norðurlandanna að Evrópusambandinu orðið til að efla ákveðna þætti í samstarfinu þegar tímar líða, einkum um samnorrænar áherslur innan sambandsins. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eiga Norðurlönd sífellt oftar samleið með Evrópusambandinu á sviði yfirlýsinga um utanríkismál og í ræðuflutningi.
    Norðurlöndin hafa unnið sameiginlega að tillögum um endurbætur á efnahags- og félagsmálastarfi samtakanna. Haldnir eru reglulegir samráðsfundir um þróunaraðstoð, m.a. í tengslum við starfsemi stofnana Sameinuðu þjóðanna
    Reglulegt samráð var á milli Norðurlandanna um þátttöku og málflutning á II. Byggðaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Istanbúl í júní 1996.
    Á reglulegum samráðsfundum Norðurlandanna í New York gefst áfram kostur á gagnlegri upplýsingamiðlun og skoðanaskiptum. Á vikulegum fundum hafa fastafulltrúar m.a. sammælst um sameiginlegan málflutning í starfshópi allsherjarþingsins um breytingar á öryggisráðinu.
    Á yfirstandandi allsherjarþingi hefur vikulegt norrænt samráð enn fremur verið með ágætum í tveimur undirnefnda allsherjarþingsins, fyrstu nefnd, sem fjallar um afvopnunar- og öryggismál, og fimmtu nefnd, sem fjallar um fjármögnun og stjórnunarmál. Enginn sameiginlegur málflutningur hefur þó átt sér stað í nefndum þessum. Í annarri nefnd, sem fjallar um félags- og mannréttindamál, hafa Norðurlöndin átt gott samstarf og ráðið ráðum sínum á hálfsmánaðar fresti. Í sjöttu nefnd, sem fjallar um þjóðréttarmál, hafa Norðurlöndin nokkrum sinnum komið sér saman um sameiginlegan málflutning. Ekkert norrænt samráð hefur farið fram í sérstöku stjórnmála- og nýlendunefndinni.
    Norrænt samstarf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í Genf heldur áfram, en dregur æ meira að taka mið af þátttöku þriggja þeirra í ESB.
    Náið samstarf er á milli Norðurlanda innan UNESCO og mótuð sameiginleg norræn afstaða til helstu mála. Einnig er staðið sameiginlega að framboðum í framkvæmdaráð, en Norðurlönd hafa ýmist haft einn eða tvo fulltrúa þar. Jafnframt hafa fastafulltrúar og/eða varafastafulltrúar hist með reglulegu millibili til að bera saman bækur sínar um einstök málefni.
    Árlega eru haldnir sameiginlegir fundir UNESCO-nefnda Norðurlandanna, fastafulltrúa og fulltrúa úr ráðuneytum. Ísland bauð til slíks fundar á Kirkjubæjarklaustri haustið 1996.
    
b. Alþjóðabankinn.
    Utanríkisráðuneytið tók við fyrirsvari gagnvart Alþjóðabankanum af iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu 12. ágúst 1996. Víðtækt norrænt samstarf á sér stað innan vébanda bankans, sem samræmt er af sameiginlegri skrifstofu Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Utanríkisráðherra tók í október sl. við formennsku til tveggja ára, fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna, í þróunarmálanefnd Alþjóðabankans, er mótar stefnu bankans í þeim málaflokki.
    
c. Aðrar alþjóðastofnanir.
    Reglubundið norrænt samráð á sér einnig stað innan annarra alþjóðastofnana sem Norðurlönd eiga aðild að. Þar má nefna Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO), Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunina (OECD) og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Haldnir eru reglubundnir samráðsfundir í höfuðborgum Norðurlanda um málefni Öryggis- og samvinnustofnunarinnar.
    
d. Sendiráð Norðurlanda í Berlín.
    Samstarfssamningur Norðurlanda, er undirritaður var 4. ágúst 1995, um sendiráðsverkefni á sameiginlegri sendiráðslóð Norðurlanda í Berlín gengur samkvæmt áætlun. Efnt var til alþjóðlegrar samkeppni meðal arkitekta um skipulag svæðisins, heildarskipulag bygginganna og byggingu fyrir sameiginlega starfsemi sendiráðanna. Alls bárust 222 tillögur og var lausn austurrískra og finnskra arkitekta valin til útfærslu. Í kjölfar alþjóðlegu samkeppninnar var efnt til samkeppni á einstökum Norðurlöndum um sendiráðsbyggingar viðkomandi ríkja. Byggingarnefnd sendiráðs Íslands í Berlín efndi til opinnar arkitektasamkeppni um hönnun byggingar fyrir sendiráð Íslands í Berlín. Leitað var að hugmynd að sjálfstæðri og hagkvæmri byggingu er drægi fram íslensk einkenni og hæfði þeirri starfsemi er þar ætti að fara fram.
    Alls bárust 43 tillögur, og var tillaga Pálmars Kristmundssonar, arkitekts, valin besta tillagan. Gert er ráð fyrir því að byggingar fyrir norrænu sendiráðin verði fullgerðar árið 1999.
    
e. Norræn menningarmiðstöð í New York.
    Samstarfsráðherrum Norðurlanda voru í haust kynntar hugmyndir forráðamanna samtakanna American Scandinavian Foundation í Bandaríkjunum um kaup á húsnæði í New York þar sem komið yrði á laggirnar norrænni menningarmiðstöð í borginni. Tillögurnar gera ráð fyrir fjárframlagi frá hverju Norðurlanda fyrir sig er varið yrði til kaupa á húsnæði miðsvæðis í New York, en American Scandinavian Foundation myndi alfarið sjá um rekstur menningarmiðstöðvarinnar. Samstarfsráðherrar Norðurlanda tóku vel í framkomnar hugmyndir og er málið nú til nánari skoðunar í höfuðborgum Norðurlanda.

5. Norrænu fjárlögin 1997.


    Fjárlög ráðherranefndarinnar fyrir árið 1997 eru lögð fram á verðlagi ársins 1997. Upphæð þeirra er 702,6 millj. danskra króna.
    
Endurskoðun á starfsemi norrænu stofnananna — Norrænt notagildi.
    Fjárlög ársins 1997 einkennast af niðurstöðum þeirrar endurskoðunar sem gerð var á árinu 1995 á starfsemi norrænu stofnananna. En sú endurskoðun var gerð á grundvelli þeirrar sameiginlegu endurskoðunar sem Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin gerðu og sem nefnd var „Nýir tímar í norrænni samvinnu“. Sérfræðinganefnd sú sem skipuð var til þess starfs lagði tillögur sínar fram fyrir Norrænu ráðherranefndina — samstarfsráðherrana. Á grundvelli þeirra tillagna og umsagna frá Norðurlandaráði og fagráðherranefndunum ákváðu samstarfsráðherrarnir hinn 10. apríl 1996 að leggja niður 13 stofnanir að þrem stofnunum verði fengið nýtt verksvið og þrem nýjum stofnunum verði komið á fót. Markmið þessarar nýju uppbyggingar stofnananna hefur í för með sér að samstarfi á þeim sviðum sem gagnast Norðurlandabúum best og þar sem þróunin er skilvirkust verði gefinn aukinn forgangur.
    Á árinu var Norræna rannsóknaráðinu (NFR) falið að leggja grunn að stefnumörkun fyrir öll rannsókna- og vísindastörf á vegum ráðherranefndarinnar og er þetta gert til þess að stuðla að sameiginlegri forgangsröðun og hagkvæmri verkaskiptingu í samnorrænum rannsóknum.
    Á árinu var mörkuð ný stefna um þau verkefni sem fjármögnuð eru með norrænum fjárlögum. Sú stefna hefur í för með sér að lögð verður ríkari áhersla á það en áður að þau verkefni sem þannig eru fjármögnuð fullnægi skilyrðunum um norrænt notagildi.
    
Sérstök áherslusvið í fjárlögunum.
    Á árinu 1997 verða menningarmál, menntun og rannsóknir, umhverfismál, grannsvæðasamstarf og samvinna um málefni Norðurskautssvæðisins forgangsverkefni í norrænu samstarfi.
    Hlutur menningar-, mennta- og rannsóknamála er 47,9% af fjárlögunum. Hlutur þessara sviða hefur minnkað nokkuð en það stafar fyrst og fremst af áðurnefndri endurskoðun á starfseminni. Á ýmsum sviðum verða gerðar tilteknar áherslubreytingar í þeim tilgangi m.a. að auka fjárveitingar til rannsóknarverkefnisins Norðurlönd og Evrópa en til þess verkefnis á að verja 35 millj. danskra króna á árunum 1996–2000.
    Framlög til umhverfismála verða aukin og stofnaður hefur verið sérstakur styrktarsjóður vegna framkvæmda í umhverfismálum á grannsvæðunum („mjukgöringsfaciliteten“) á vegum Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins (NEFCO). Í fjárlögunum er gert ráð fyrir 6 millj. danskra króna framlagi til viðbótar þeim 25 millj. danskra króna sem Norðurlönd hyggjast leggja fram utan norrænu fjárlaganna.
    Hvað varðar framlög til samstarfs um málefni Norðurskautssvæðisins er gert ráð fyrir 2 millj. danskra króna framlagi. Markmið starfsins er fyrst og fremst að samræma aðgerðir Norðurlanda á Norðurskautssvæðinu.
    Samnorrænt samstarf á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar við grannsvæðin tekur bæði til þeirra verkefna sem samstarfsráðherrarnir taka ákvörðun um innan grannsvæðafjárveitingarinnar, sem er 51 millj. danskra króna, og verkefna sem fjármögnuð eru af verkefnafé hinna sviðanna.
    Í febrúar 1996 ákvað Norræna ráðherranefndin, í samræmi við tillögur skýrslunnar „Nýir tímar í norrænni samvinnu“ að stofna starfshóp til að leggja fram tillögur um það hvernig samræma mætti tvíhliða samstarf landanna, norrænt og alþjóðlegt samstarf við grannsvæði Norðurlanda. Að ráði skýrsluhöfunda er í fjárveitingunum til grannsvæðasamstarfsins 1997 lögð áhersla á þau svið sem talin eru hafa í för með sér norrænt notagildi.
    
Þróun fjárlaganna á árunum 1993–1997.
    

(Súlurit myndað.)

    
    * Ath.: Engin uppfærsla vegna verðlagsbreytinga á árinu í fjárlögum 1996.


Rekstrarafgangur.
    Meginreglan er sú að rekstrarafgangi fyrra árs sé skilað til landanna (skv. 21. gr. þeirra reglna sem settar hafa verið um fjármál ráðherranefndarskrifstofunnar). Ráðherranefndinni er þó heimilt að ráðstafa afgangnum. Í töflunni hér á eftir er sýnt hvernig rekstrarafgangi áranna 1991–1995 var ráðstafað.


1993

1994

1995

1996

1997


Þús. d. kr.

Þús. d. kr.

Þús. d. kr.

Þús. d. kr.

Þús. d. kr.Afgangur     
27.444 frá 1991
31.331 frá 1992 17.689 frá 1993 5.900 frá 1994 2.500 frá 1995
þar af:

Endurgreitt til landanna     
0
0 0 2.000 0
Ráðherranefnd til ráðst.     
27.444
31.331 17.689 3.900 2.500
Fjárlög     
650.670
655.886 718.925 707.474 702.636
Samtals ráðstöfunarfé     
678.114
687.217 736.614 711.374 705.136


Skipting fjárlaganna 1997 miðað við hina ýmsu verkefnaflokka.(Kökurit - myndað)    Hluti menningar-, mennta- og rannsóknamála nemur 47,9% af fjárlögunum. Fjárlögin deilast sem hér segir:
    — verkefnafé og almennir styrkir: 58%.
    — stofnanir: 42% (þar af 8% til skrifstofu ráðherranefndarinnar).
    Árið 1991 var tekið í notkun kerfi byggt á rammasamningum fyrir þrjár norrænar stofnanir. Alls er um að ræða 47 stofnanir og langtímaverkefni í norrænu samstarfi samkvæmt samningum gerðum til nokkurra ára. Ætlunin er að á árinu 1997 nái kerfið til allra norrænu stofnananna og nokkurra verkefna.
    Tvö atriði einkenna rammasamningskerfið öðrum fremur. Þau eru samningur um inntak verkefna stofnunarinnar og fjárveitingu og kerfisbundin greinargerð þar sem árangur er metinn í samræmi við skuldbindingar og fjárveitingar að verki loknu. Slík greinargerð er gefin á hverju ári og gefur ráðherranefndin Norðurlandaráði skýrslu um hugsanleg frávik.
    Í öllum samningunum eru ákvæði sem heimila endurskoðun ef breytingar verða á pólit-ískri forgangsröðun eða ákveðið verður að grípa til sparnaðar. Vegna sparnaðar á árunum 1996 og 1997 verða nokkrir samningar endurskoðaðir og starfsemin aðlöguð fjárveitingunum eins og þær eru orðnar.
    
Tekjuhlið fjárlaganna.
    Starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar er að mestu fjármögnuð með beinum framlögum frá löndunum en skipting þeirra er ákveðin samkvæmt sérstakri skiptireglu. Skiptireglan miðast við hlutdeild hlutaðeigandi lands í vergum þjóðartekjum á Norðurlöndum miðað við framleiðsluverð tveggja síðustu ára sem upplýsingar liggja fyrir um, sem nú eru 1993 og 1994.
    Norrænir ráðherrar mennta-, rannsókna- og vísindamála (MR-U) hafa samið um aðgengi að æðri menntun. Lagt er til að greiðslufyrirkomulagið og sjálfar greiðslurnar fari í gegnum fjárlög ráðherranefndarinnar. Hvað varðar greiðslur gildir kerfið fyrir Svíþjóð, Finnland, Noreg og Danmörku, en Ísland, Grænland, Færeyjar og Álandseyjar taka ekki þátt í því. Tekið er tillit til gagnkvæmra framlaga landanna hvað varðar endanleg framlög en þau hafa aðeins áhrif á innri skiptingu milli landanna (Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar).

(tafla - mynduð)
Athugasemdir:
    Launatengd gjöld eru greidd af gjaldskyldum heildarlaunum starfsmanna á skrifstofu ráðherranefndarinnar.
Vaxtatekjur.
    Fjárhæð vaxtatekna ræðst af lausafjárstöðunni á árinu og þróun vaxtamála. Áætlaðar vaxtatekjur 1997 eru minni en 1996 og 1995 vegna þess að nú er komið á jafnvægi í vaxtamálum eftir vaxtalækkunina vorið 1994. Auk þess eru engar vísbendingar um það að vextir hækki að ráði á næstunni.
Aðrar tekjur.
    Í þessum tekjulið er gerð grein fyrir endurgreiðslum framlaga til verkefna frá hinum ýmsu stofnunum sem tekið hafa að sér fjárvörslu fyrir þau og ónotuðum framlögum til stofnana frá fyrri árum.

Gjöld.

Fast verðlag í þús. danskra kr.

1997

1997

1996

1996

Mismunur


í þús. d. kr.

%

í þús. d. kr.

%

1996/1997
1 Menningarsamstarf     
138.041
145.588 -7.547

Fé til verkefna og almenn styrkjakerfi     
94.895
69 100.154 69
Stofnanir     
43.146
31 45.434 31

2 Menntun/rannsóknir     
198.270
203.689 -5.420
Fé til verkefna og almenn styrkjakerfi     
142.455
72 142.343 70
Stofnanir     
55.815
28 61.346 30

3 Umhverfismál     
33.660
30.500 3.160
Fé til verkefna og almenn styrkjakerfi     
33.669
100 30.500 100

4 Efnahags- og atvinnumál     
129.546
130.454 -924
Fé til verkefna og almenn styrkjakerfi     
42.615
33 44.878 34
Stofnanir     
86.931
67 85.576 66

5 Réttindi þegnanna     
62.428
64.298 -1.870
Fé til verkefna og almenn styrkjakerfi     
29.102
47 28.767 45
Stofnanir     
33.326
53 35.531 55

6 Samstarf við grannsvæði     
51.000
50.000 1.000
Fé til verkefna og almenn styrkjakerfi     
41.922
82 41.580 83
Stofnanir     
9.078
18 8.420 17

7 Önnur starfsemi     
89.691
82.945 6.746
Fé til verkefna og almenn styrkjakerfi     
25.307
28 16.925 20
Stofnanir     
64.384
72 66.020 80

Samtals     
702.636
707.474 -4.855
Fé til verkefna     
409.956
58 405.147 57
Stofnanir     
292.680
42 302.327 43


     Aths.: Vegna endurskoðunar á starfseminni hafa eftirfarandi breytingar verið gerðar fyrir árið 1997.
     —    Á ýmsum sviðum hefur uppbyggingu verið breytt til að veita betri upplýsingar um starfsemi ýmissa efnisflokka.
     —     Kostnaður við að leggja niður stofnanir er færður undir liðinn önnur starfsemi.
     —    Nýrri stofnun, NORDREGIO (sem tekur við af NORDPLAN og NORDREFO), hefur verið fundinn staður undir liðnum samstarf um byggðamál.
    

6. Menningarmál.


    Sú stefnumörkun um áherslusvið í norrænu menningarsamstarfi sem ákveðin var 1993 tók í megindráttum til tímabilsins 1994–1996. Á árinu 1996 var á vegum ráðherranefndar menningarmála tekin saman ítarleg skýrsla um framkvæmd þessa „átaks“ eins og það var nefnt og jafnframt lögð fram greinargerð um forgangsmál í samvinnunni á menningarsviðinu næstu árin. Að verulegu leyti eru áhersluþættirnir hinir sömu og undanfarin ár en fáeinir nýir bætast við. Tilgreind eru eftirfarandi svið sem samstarfið skal einkum beinast að:
    Verkefni í þágu barna og ungmenna.
    Kvikmyndir og fjölmiðlar.
    Listasviðið.
    Norræn menningararfleifð.
    Kynning á norrænni menningu utan Norðurlanda.
    Norrænar bókmenntir — norrænn málskilningur.
    Verkefni sem taka til fleiri samstarfssviða en eins.
    Menning og upplýsingatækni.
    Norræn fjölmenning.
    Norræni menningarsjóðurinn.
    Þær breytingar á norrænum samstarfsstofnunum sem ákveðnar voru snemma árs 1996 í kjölfar skýrslunnar „Norrænt notagildi“ (Nordisk Nytte) tóku á menningarsviðinu einkum til tveggja stofnana: Norrænu listamiðstöðvarinnar í Helsingfors og Norrænu blaðamanna-miðstöðvarinnar í Árósum. Fyrrnefnda stofnunin var lögð niður en ný reist á grunni hennar. Nýja stofnunin nefnist Norræn stofnun um samtímalist og er ætlað svipað hlutverk og hinni fyrri, en þó með nokkrum áherslubreytingum. Mikilvægur þáttur í starfi hennar verður að beita sér fyrir og samhæfa samstarf milli myndlistarstofnana á Norðurlöndum og að vera upplýsingamiðstöð um norræna myndlist.
    Starfsskipulagi Norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar er breytt, m.a. í átt til aukins sveigjanleika og fjölþættara námskeiðahalds.
    Að norrænu samstarfi á sviði barna- og æskulýðsmenningar er nú unnið á grundvelli framkvæmdaáætlunar fyrir tímabilið 1996–2000, en hún var staðfest í árslok 1995. Sett hefur verið á laggirnar stjórnarnefnd sem m.a. fjallar um fjárframlög til samstarfsverkefna er lúta að barnamenningu. Jafnframt er ætlast til þess að allar samstarfsnefndir og stofnanir á vegum ráðherranefndar menningarmála gefi sérstakan gaum að þörfum barna og ungmenna, hver á sínu sviði. Lögð er áhersla á tengsl skóla og menningarlífs í þessu sambandi. Dæmi um samstarfsverkefni af því tagi er norræna lestrarkeppnin „Mímir“, sem efnt var til haustið 1996. Íslensk börn og unglingar hafa tekið þátt í mörgum öðrum norrænum samstarfsverkefnum á árinu, m.a. á sviði myndlistar og upplýsingatækni. Nefna má að sérstakt framlag, jafnvirði um 200 þús. íslenskra króna, var veitt til barnamenningarstarfs í Norræna húsinu í Reykjavík, auk þess sem haldið er áfram að styrkja verkefnið „Vestnorrænar fjölmiðlasmiðjur“, sem Norræna húsið á hlut að og tekur til unglinga á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi.
    Unnið er að því að virkja hina nýju upplýsingatækni í þágu norræns menningarsamstarfs. Nefnd er að störfum til að kanna hvernig koma megi á norrænu „menningarneti“ með því að tengja slík upplýsinganet sem verið er að þróa í einstökum löndum. Samþykkt hefur verið að verja jafnvirði um 10 millj. íslenskra króna af fjárveitingu 1996 til samstarfs á sviði kvikmynda og fjölmiðla til þess að þróa norræn verkefni sem styðjast við nýja tækni og beinast einkum að börnum og ungmennum. Af fjárveitingu næsta árs, 1997, er ráðgert að jafnvirði um 20 millj. íslenskra króna renni til verkefna sem lúta að margmiðlun og nettengdum samskiptum, með áherslu á að ná til barna og unglinga.
    Norrænt bókmenntasamstarf hefur verið til sérstakrar athugunar á árinu á vegum ráðherranefndar menningarmála. Finnskum manni, Stig-Björn Nyberg að nafni, var falið að kanna ýmsa þætti þessa samstarfs og benda á leiðir til þess að stuðla að sameiginlegum bókamarkaði á Norðurlöndum eins og löngum hefur verið rætt um. Hann skilaði skýrslu sinni í nóvember 1996. Skýrslan var kynnt á fundi ráðherranefndarinnar í desember, en ráðgert er að efnisleg umfjöllun um þær tillögur sem þar eru gerðar fari fram af hálfu ráðherranefndarinnar snemma árs 1997 að lokinni umsagnarmeðferð.
    Skýrsluhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að orsök þess hversu samnorrænn bóka-markaður hefur átt erfitt uppdráttar sé ekki viðskiptahindranir, nema þá helst bankakostnaður við gjaldeyrisyfirfærslur og póstburðargjöld. Fyrst og fremst sé um að kenna áhugaleysi almennra lesenda á bókmenntum annarra Norðurlandaþjóða. Einkum séu menn mjög lítið hneigðir fyrir að lesa norrænar bækur á frummálinu. Því telur hann vænlegast, ef menn vilja auka dreifingu norrænna bóka, að leggja áherslu á þýðingar og efla norrænan stuðning við þá starfsemi, með sérstöku tilliti til Finnlands og hinna minni málsvæða.
    Í ársbyrjun 1996 var skipaður starfshópur með fulltrúum norrænu menningarmála-ráðuneytanna til að undirbúa áætlun um menningarsamstarf við grannsvæði Norðurlanda, þ.e. einkum Eystrasaltsríkin og norðvesturhéruð Rússlands. Skýrsla starfshópsins liggur nú fyrir og mun ráðherranefnd menningarmála fjalla um tillögurnar snemma á árinu 1997, að lokinni umsagnarmeðferð.
    Íslendingar hafa á liðnu ári sem fyrr notið góðs af starfsemi Norræna menningarsjóðsins (sjá nánar kafla 15.7). Meðal viðamikilla verkefna hér á landi sem sjóðurinn styrkti á árinu má nefna útgáfu Íslendingasagna í enskri þýðingu á vegum Bókaútgáfu Leifs Eiríkssonar og sýningu á verkum Edwards Munch, „Á vængjum vinnunnar“, í Listasafni Íslands.
    Kaupmannahöfn var eins og kunnugt er „menningarborg Evrópu“ 1996. Ýmis af þeim fjölmörgu dagskráratriðum sem efnt var til í því samhengi voru styrkt af norrænu fé. Íslenskir listamenn komu við sögu í allmörgum menningarviðburðum borgarinnar. Nefna má t.d. að Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt tónleika í Tívolí, leikflokkurinn Bandamenn frumsýndi „Amlóða sögu“ á Helsingjaeyri og sýndi einnig í Kaupmannahöfn og söngleikurinn „Guðrúnarkviða fjórða“ með tónlist Hauks Tómassonar þótti sæta sérstökum tíðindum. Ótalin er m.a. þátttaka í myndlistarsýningum og að stór hópur íslenskra unglinga átti hlut að fjöllistaverkefninu „Ný öld — norræn framtíðarsýn“.
    

7. Menntamál og vísindi.


    Á Norðurlandaráðsþingi 1995 var ákveðið að leggja einkum áherslu á eftirfarandi:
          — Samstarf milli Norðurlandanna.
          — Norðurlönd og Evrópu /ESB/EES.
          — Norðurlönd og grannsvæðin.

    Samstarf á sviði menntamála og vísinda hefur einnig beinst að fyrrgreindum þáttum í því augnamiði að styrkja enn frekar norræna samkennd. Þátttaka Norðurlanda í Evrópusamstarfi mun stuðla að þróun í alþjóðasamvinnu bæði hvað varðar ESB og aðrar stofnanir, jafnframt því að gera þeim kleift að halda norrænu svipmóti sínu.
    Stefnt er að því að styrkja og þróa samstarf á sviði menntamála og vísinda. Markmiðið er að jafn auðvelt verði að mynda tengsl, skiptast á hugmyndum og flytjast frá einu fræðslu- og rannsóknarumhverfi til annars á Norðurlöndum og í eigin landi.
    Lögð verður áhersla á að styrkja norræn viðhorf í alþjóðasamstarfi og gera starfsemina skilvirkari. Í starfsáætlunum verður lögð sérstök áhersla á að styrkja tengslin milli hinna vestlægu Norðurlanda og annarra ríkja Norðurlanda.
     NORDMÅL-áætlunin (1996–2000) tekur til tungumálasamstarfs Norðurlandaþjóðanna og var hún staðfest af Norrænu ráðherranefndinni í mars 1995. Stefnt er að því að styrkja tungumálasamstarfið enn frekar á komandi árum. NORDMÅL-áætluninni er ætlað að styrkja norrænt tungumálasamfélag og tekur til námskeiðahalds, framleiðslu kennsluefnis, orðabókargerðar, rannsókna, upplýsingastarfsemi og fleiri verkefna.
    Margar stofnanir koma að NORDMÅL-áætluninni svo sem norrænar málastofnanir en enn fremur stuðla norræn námskeið og önnur samskipti innan NORDPLUS að því að styrkja norrænt tungumálasamfélag og um leið þau markmið sem lýst er í NORDMÅL áætluninni.
    Á vegum NORDMÅL hafa verið haldin fjölmörg námskeið fyrir kennara og túlka, gefnar út námsbækur sem þýddar hafa verið á finnsku, íslensku og færeysku og unnið er að orðabókarsmíði. Fulltrúar frá Félagi dönskukennara og Samtökum móðurmálskennara eru virkir í NORDMÅL.
    Áætlun ráðherranefndarinnar um hreyfanleika og tengsl snýr sérstaklega að ungu fólki. Nauðsynlegt er að ungt fólk á Norðurlöndum fái tilfinningu bæði fyrir því sem líkt er og ólíkt með þeim þjóðum sem þar búa. Mikilvægt er að ungt fólk kynnist tungumálum grannlandanna frá skólaaldri og fái tækifæri til að kynnast menningu þeirra, lifnaðarháttum og gildismati.
    Verkefnið NORDPLUS-junior er sniðið fyrir ungt fólk á aldrinum 16–19 ára og á áfram að skipa veglegan sess í norrænu skólasamstarfi. Verkefninu er m.a. ætlað að styrkja sambandið við Vestur-Norðurlönd og skapa jákvætt viðhorf til norræns menntunarumhverfis. Með nemendaskiptum mun vestnorræna starfsáætlunin rækta sérstaklega sambandið milli Íslands, Grænlands og Færeyja og hinna ríkja Norðurlandannna.
    Norrænu tölvusamskiptaneti fyrir skóla, Óðni (Norræna skólanetinu), var komið á laggirnar í mars 1994. Tölvunet þetta á að auðvelda öll samskipti milli skóla og annarra menntastofnana á Norðurlöndum og er enn fremur ætlað að verða upplýsingabanki. Netið tengist alþjóðlega tölvunetinu INTERNET. Norræna skólanetið á að hafa alla burði til þess að styrkja tengsl skólastofnana á Norðurlöndum og auðvelda samstarf bæði nemenda og kennara á Norðurlöndum. Langflestir grunn- og framhaldsskólar á Íslandi hafa aðgang að netinu.
    Ráðherranefndin hleypti af stokkunum nýrri samstarfsáætlun um samvinnu um notkun upplýsingatækni í kennslu, IDUN, á árinu 1995. Gera á úttekt á upphafsþætti verkefnisins á árinu 1996 og þá verður tekin ákvörðun um framhald áætlunarinnar.
    Á háskóla- og vísindasviðinu hefur tölvusamskiptanetið NORDUnet gegnt svipuðu hlutverki og Óðinn. Samkomulag er um að styðja NORDUnet enn frekar svo það geti betur sinnt hlutverki sínu í framtíðinni.
    Styrkveitingum á vegum NORDPLUS hefur verið haldið áfram bæði á háskólastigi og framhaldsskólastigi.
    NORDPLUS-áætlunin á stóran þátt í því að uppfylla þau markmið sem liggja til grundvallar áframhaldandi samvinnu á sviði menntunar á Norðurlöndum en henni er ætlað að stuðla að auknu samstarfi milli háskóla á Norðurlöndum.
    Á hverju ári taka alls um 5000 nemendur og kennarar á Norðurlöndum þátt í áætluninni. Í NORDPLUS gefst námsmönnum tækifæri til að stunda hluta af námi sínu, allt að eitt ár, við háskóla annars staðar á Norðurlöndum og fá námið metið að fullu til eininga í heimalandi sínu. Þá er gefinn kostur á kennaraskiptum og fleiru er lýtur að kennslustarfi. Þátttaka háskólanema í NORDPLUS hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum en ein meginforsendan fyrir þátttöku í NORDPLUS er gagnkvæmni í nemendaskiptum. Á ráðherrafundi menntamálaráðherra Norðurlanda í desember 1995 var ákveðið að halda þessu verkefni áfram en upphaflega átti því að ljúka 1996. Íslendingar taka virkan þátt í þessu samstarfi og tekur Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins við umsóknum um styrkina og veitir upplýsingar þar að lútandi.
     Norrænn samningur um jafnan aðgang að háskólum var undirritaður í Kaupmannahöfn 3. september 1996. Miðað er við að samningurinn gildi í þrjú ár frá 1. janúar 1997. Samningur þessi kemur í stað fyrri samnings um sama efni sem gerður var til tveggja ára 1994.
    Meginatriði samningsins er að allir norrænir stúdentar hafi jafnan aðgang að öllum háskólum á Norðurlöndum. Í samningnum eru ákvæði um greiðslukerfi sem Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð munu taka upp sín á milli. Samkvæmt þessu kerfi skulu þau ríki sem senda frá sér fleiri stúdenta en þau taka á móti greiða ákveðið gjald fyrir mismuninn. Ísland verður undanþegið þessum ákvæðum.
    Á gildistíma samningsins næstu þrjú ár verður metið hvort hagsmunum Íslands af samningnum yrði betur borgið með þátttöku okkar í greiðslukerfinu.
    Norræna ráðherranefndin hefur í hyggju að örva samvinnu milli alþýðustofnana, frjálsra félagasamtaka, lýðháskóla, samtaka í atvinnulífi og annarra samtaka og stofnana sem sinna fræðslu. Stefnt er að því að örva þverfagleg verkefni innan fullorðinsfræðslunnar.
    Stefnt er að því að skapa virkt norrænt vísindasamfélag sem stuðlað getur að því að styrkja stöðu norrænna vísindarannsókna. Norrænu samstarfi er enn fremur ætlað að vera fyrirmynd að nytsamlegu og skilvirku samstarfi á vettvangi Evrópusamstarfsins. Haldið verður áfram að örva háskóla og aðrar æðri menntastofnanir til þess að leita leiða til verkaskiptingar og sérhæfingar með skipulegum og virkum hætti. NORDPLUS-áætlunin og styrkjakerfi það sem er á vegum NorFA eru mikilvæg í þessu samhengi. Myndun samskiptanets norrænna vísindamanna verður áfram einn af hornsteinum norrænnar samvinnu. Áætlunum um umhverfisrannsóknir og rannsóknir á skilyrðum góðs mannlífs á norðurslóð verður haldið áfram en þessar áætlanir ná yfir árin 1993–1997. Enn fremur verður tekin afstaða til þess hvernig norrænni samvinnu á sviði líftækni verður háttað.
    Krafan um norrænt notagildi hinna sameiginlegu fræðslu- og rannsóknarstofnana verður höfð að leiðarljósi með breytingu á samþykktum í krafti þess að nýjar samræmdar samþykktir um norrænar stofnanir verða látnar taka gildi.
    Ráðherranefndin hefur í hyggju að styrkja þann hluta rannsóknarstarfseminnar sem beinist að hreinum norrænum verkefnum á sviði menningarmála og þjóðfélagsmála.
    Vinna er hafin að nýju samnorrænu rannsóknarverkefni á sviði hugvísinda og félagsvísinda og á það að standa til ársins 2000.
    Á fundi menntamálaráðherra Norðurlanda í desember 1996 var samþykkt að senda tillögu Norræna vísindaráðsins (FPR) um breytingu á skipan norræns vísindasamstarfs til samstarfsráðherranna. Tillagan felur í sér að litið er á alla samvinnu landanna á þessu sviði sem eina heildaráætlun.
    
Norræn lífsiðfræðinefnd.
    Nefnd á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, er fjalla á um siðfræðileg álitamál sem tengjast líftækni, hefur starfað frá 1988. Nefndin, sem nú heitir Norræn lífsiðfræðinefnd (Nordisk komité for bioetik), var endurskipuð til þriggja ára frá 1. janúar 1996. Fulltrúar Íslands í nefndinni eru prófessor Erlendur Jónsson, heimspekingur, og dr. Jórunn Erla Eyfjörð erfðafræðingur. Formenn nefndarinnar á árinu 1996 voru dr. Nils Axelsen, deildarstjóri við Statens Seruminstitut í Kaupmannahöfn, og prófessor Marja Sorsa, skrifstofustjóri í finnska menntamálaráðuneytinu, sem tók við formennsku í maí 1996.
    Nefndin hélt fjóra starfsfundi á árinu 1996, í febrúar í Ósló, í apríl í Helsinki, í september í Uppsölum og í desember í Kaupmannahöfn. Dagana 18.–19. apríl sl. var á vegum nefndarinnar haldið málþing um genbreytt dýr í Hanaholmen fyrir utan Helsinki í Finnlandi. Málþingið sóttu vísindamenn, lögfræðingar, rithöfundar, stjórnmálamenn, guðfræðingar og heimspekingar frá öllum Norðurlöndunum, alls 44. Fulltrúar Íslands voru dr. Erlendur Jónsson, heimspekingur, og dr. Skúli Skúlason, líffræðingur.
    Með genbreyttu dýri er átt við dýr sem hefur fengið „nýjan“ erfðavísi, þ.e. utanaðkomandi erfðavísir hefur verið settur inn í kynfrumur dýrsins með erfðatækni, þannig að hann verður arfgengur. Markmiðin með slíkum dýrum eru margvísleg og var fjallað um genbreytta fiska, mýs, nautgripi og svín. Einnig var rætt um lagalegar, hagfræðilegar og siðfræðilegar hliðar genbreytinga á dýrum.
    Meðal fyrirlesara voru Jan Ottesen, dýralæknir, sem fjallaði um notkun músa og annarra nagdýra í rannsóknum. Prófessor Peter Aleström við dýralæknaháskólann í Ósló ræddi um genbreytta fiska, sem geta haft efnahagslega þýðingu í framtíðinni, vegna þess að með genbreytingum má auka vaxtarhraða sumra tegunda allt að þrjátíufalt. Carl Gustav Groth, prófessor við líffæraígræðsludeild Karolínsku stofnunarinnar í Svíþjóð, fjallaði um genbreytingu á svínum sem gerir það mögulegt að nota svínshjörtu til ígræðslu í menn án þess að ofnæmisviðbrögð geri vart við sig. Ýmsir aðrir vísindamenn fluttu fyrirlestra og í lokin voru almennar umræður undir stjórn sænska rithöfundarins Peter Sylwan, sem skrifað hefur margar bækur um lífsiðfræði. Töluverðar umræður urðu um siðfræðilegt réttmæti þess að breyta genum dýra. Einnig var haldinn blaðamannafundur í upphafi málþingsins og í tengslum við málþingið flutti prófessor Juhani Jänne opinberan fyrirlestur í háskólanum í Helsinki um genbreytt dýr í lífefnaiðnaði. Menn voru á einu máli um að málþingið hefði tekist mjög vel.
    Greinar birtust í mörgum dagblöðum á Norðurlöndum um málþingið og þau mál sem þar var fjallað um.
    Á vegum nefndarinnar kom á árinu 1996 út ritið „Genterapi på människa“ með fyrirlestrum, sem fluttir voru á málþingi um genalækningar vorið 1995. Haldið var áfram að vinna að bæklingi er veitir yfirlit yfir hinar ýmsu siðanefndir á sviði lækninga og líffræði svo og lög og reglugerðir þar að lútandi á öllum Norðurlöndunum. Er hér um mjög þarft rit að ræða. Kaflann um íslenskar nefndir sömdu Erlendur Jónsson og Örn Bjarnason, yfirlæknir. Enn fremur er nú unnið að útgáfu rits með fyrirlestrum frá framangreindu málþingi í Hanaholmen.
    Næsta málþing á vegum nefndarinnar verður haldið í Reykjavík í maí 1997 og vinnur nefndin nú að skipulagninu þess. Þar verður fjallað um lífsýnabanka (biobanks) frá ýmsum hliðum í því skyni að varpa ljósi á siðfræðilegar spurningar er þessu málefni tengjast. Um 50 fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum munu sækja málþingið. Nefndin hefur nú fengið sitt eigið merki og heimasíðu á alnetinu, Nordbioetik@fil.lu.se.
    

8. Umhverfismál.


    Samstarf Norðurlandanna á sviði umhverfismála byggir á norrænni umhverfisáætlun sem samþykkt var snemma á síðasta ári. Gildir hún fyrir tímabilið 1996–2000.
    Í áætlunni er fjallað um samvinnu innan Norðurlandanna á sviði umhverfismála jafnframt því sem áætlunin tekur einnig til samvinnu Norðurlandanna á öðrum vettvangi, svo sem á grannsvæðunum, Norðurskautinu, innan Evrópska efnahagssvæðisis og annars staðar á alþjóðlegum vettvangi.
    Á síðasta ári voru einnig samþykktar í samvinnu við viðkomandi fagráðherra sérstakar samstarfsáætlanir fyrir landbúnað og skógarnýtingu og enn fremur fyrir fiskveiðar.
    Árið 1996 varði Norræna ráðherranefndin 27,9 millj. danskra króna til umhverfisstarfs og fór mestur hluti þeirrar fjárhæðar til starfsemi þeirra fimm fastanefnda sem starfræktar eru innan umhverfisgeirans. Auk þess voru til ráðstöfunar 5 millj. danskra króna til umhverfismála á grannsvæðunum.
    Umhverfisráðherrar héldu þrjá ráðherranefndarfundi á árinu. Sú nýbreytni var tekin upp á árinu að umhverfisráðherrar Norðurlanda halda óformlegan fund um málefni Evrópusamsambansins í tengslum við ráðsfundi umhverfisráðherra ESB.
    
Nýr sjóður innan Norræna umhverfisfjármögnunarsjóðsins (NEFCO).
    Sl. ár var stofnaður nýr sjóður innan NEFCO, styrktarsjóður vegna framkvæmda í umhverfismálum á grannsvæðunum (sjá nánar kafla 15.5.)
    
Samstarfsáætlun í umhverfis- og sjávarútvegsmálum.
    Í febrúar 1995 samþykkti Norræna ráðherranefndin, umhverfisráðherrar og sjávarútvegsráðherrar Norðurlanda samstarfsáætlun í umhverfis- og sjávarútvegsmálum fyrir tímabilið 1995–1998. Í kjölfarið var skipuð samstarfsnefnd fyrir samstarfsáætlunina og tók hún til starfa sama ár. Fyrstu tvö árin veitti Ísland nefndinni forgöngu, þ.e. til ársloka 1996 en þá tóku Norðmenn við formennsku í nefndinni. Samstarfsnefndin er skipuð tveimur fulltrúum frá hverju Norðurlandanna, einum frá umhverfisyfirvöldum og einum frá sjávarútvegsyfirvöldum.
    Samstarfsáætlunin tekur til hafsins, auðlinda þess og strandsvæða. Tilgangur þessa samstarfs er að stuðla að því að að sjávarútvegurinn taki aukið tillit til umhverfisins og að finna leiðir til þess að bæta umgengni og stuðla að sjálfbærri þróun og nýtingu sjávarauðlinda.
    Í samstarfsáætluninni eru afmarkaðir nokkrir meginþættir sem taldir eru skipta mestu máli fyrir verndun hafsins og auðlinda þess á næstu 3–4 árum. Þessir þættir eru sjálfbær þróun og sjálfbær nýting auðlinda hafsins, auðlindavernd, umhverfi hafsins og verndun strand- og sjávarsvæða. Innan þessara fjögurra meginþátta eru síðan skilgreindir nánar 14 undirþættir sem talið er brýnt að vinna að á þessu tímabili.
    Fyrst í stað var ákveðið að beina kröftunum aðeins að sjö undirþáttum og hefur samstarfsnefndin unnið að því að koma í gang rannsóknar- og samstarfsverkefnum sem falla innan og uppfylla þessa undirþætti. Þegar hafa 10 verkefni verið styrkt og má þar nefna m.a. verkefni á sviði líffræðilegrar fjölbreytni, aukaafla, mengunar, betri veiðiaðferða og markvissari veiðarfæra. Rétt er að geta þess að eitt af þessum verkefnum er að hluta til framkvæmt hér á landi þ.e. vöktunarverkefni á strandsvæðum, sem er samstarfsverkefni milli Íslands, Færeyja og Noregs og er Breiðafjörður vöktunarstaður á Íslandi.
    
8.1. Störf vinnunefnda árið 1996.
Vinnunefnd um umhverfi hafs og lofts.
    Viðfangsefni nefndarinnar er að vera stjórnvöldum til ráðgjafar og móta tillögur að aðgerðum á alþjóðavettvangi og heima fyrir. Enn fremur skal nýta það fé sem nefndinni er ætlað til að styrkja hinn vísindalega grundvöll þessa starfs. Haldnir voru tveir fundir á árinu þar sem stefnumótun fór fram og styrkir veittir. Tveir vinnuhópar hafa starfað á vegum nefndarinnar.
    Niðurskurður fjárveitinga fyrir árið 1996 hafði veruleg áhrif á starfsemina þannig að styrkir til nýrra verkefna var lítill. Áframhaldandi niðurskurður fyrir 1997 hafði það í för með sér að skipulagsmál voru mikið rædd. Ákveðið var að draga úr kostnaði við nefndarstörf og því ákveðið að leggja niður þá hálfu stöðu ritara sem merkt var hafverkefnum og hefur verið á Hafrannsóknarstofnun. Enn fremur var ákveðið að leggja niður undirnefndirnar og mynda eina sameiginlega undirnefnd með sameiginlegum ritara við aðalnefndina. Formennskan í vinnunefndinni verður í höndum Dana árið 1997.
    Nú liggur fyrir alþjóðleg bókun um takmörkun brennisteinsmengunar og því er unnið á vegum nefndarinnar að svipuðu samkomulagi er varðar köfnunarefnissambönd. Enn fremur er unnið af miklum krafti að rannsóknum sem nýta má í samningaviðræðum um alþjóðasamning um þrávirk lífræn efni og þungmálma, en margt er enn óþekkt um hegðun þeirra, sérstaklega á norðurslóðum. Þessar rannsóknir eru mjög dýrar og því nauðsynlegt að vinna skipulega að þeim. Ákveðið var að styrkja norrænt starf til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að ýta undir rannsóknir þar að lútandi.
    Árið 1996 veitti nefndin um 2,5 millj. kr. til verkefna í íslenskri umsjón en íslensk þátttaka var í nokkrum verkefnum til viðbótar. Stefnumörkun ráðherranefndarinnar gerir það að verkum að nánast er ógerningur að fá fjármagn til annarra verkefna en þeirra sem ljóslega styrkja reglugerðarvinnu og stefnumörkun.
    
Vinnunefnd um hreinni tækni.
    Verkefni nefndarinnar er að vinna að samræmingu og skilgreina sameiginleg verkefni á sviði hreinni framleiðslutækni og sorphirðu. Við vinnu sína hefur nefndin lagt áherslu á þær meginreglur sem gilda á sviði umhverfismála, þar með talið mengunarbótaregluna, ábyrgð framleiðenda, varúðarregluna, líftímagreiningu (frá vöggu til grafar) og sjálfbæra þróun. Í störfum sínum tekur vinnunefndin um hreinni tækni mið af norrænu umhverfisáætluninni.
    Þau verkefnasvið sem nefndin um hreinni tækni fékkst við árið 1996 eru þessi:
    —    Hreinni framleiðslutækni, þar með talið besta fáanlega tækni (BAT) og líftímagreining (LCA).
    —     Sorphirðumál, þar með talið meðhöndlun úrgangs og úrvinnsla.
    —     Stjórntæki innnan sorphirðu og mengunarmála, m.a. ábyrgð framleiðenda.
    —     Sjálfbær framleiðsla og neysla.
    Vinnan í nefndinni um hreinni tækni og undirhópum hans er að miklu leyti tengd starfi vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta á bæði við um undirbúning og framkvæmd á nýjum EES-gerðum. Á árinu hefur m.a. verið fjallað um framkvæmd rammatilskipunar um spilliefnalista, tilskipun um umbúðir og umbúðaúrgang, umhverfisstjórnun í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, reglugerð um flutning spilliefna og tilskipanir um urðun úrgangs, sorpbrennslu og brennslu spilliefna.
    Nefndin á að stuðla að samvinnu um meðhöndlun spilliefna. Á árinu 1996 lagði nefndin áherslu á vinnu við stefnumörkun í sambandi við meðhöndlun á úrgangi sem inniheldur kvikasilfur. Hrint var af stað verkefni til að leita norrænna lausna á þessu sviði. Nefndin hélt námstefnu haustið 1996 um rafmagnsúrgang, þar sem fjallað var um samræmdar kröfur, kerfi og lausnir. Vinna á sviði spilliefna er tengd tilmælum Norðurlandaráðs nr. 2/1994: Meðhöndlun spilliefna (A 1035/m).
    Á árinu setti nefndin á laggirnar tengiliðahóp til að fjalla um sorpbrennslu, sérstaklega með tilliti til orkunýtingar, umhverfiskrafna og flokkun úrgangs. Enn fremur var settur á laggirnar hópur til að fjalla um ábyrgð framleiðenda. Nefndin um hreinni tækni hefur haldið áfram með vinnu á sviði „bestu fáanlegrar tækni“ — BAT. Lokið var við verkefni um bestu fáanlegu tækni í fiskiðnaði og út komu skýrslur um bestu fáanlegu tækni við bílalökkun og í slippum. Sett voru af stað verkefni um bestu fáanlegu tækni í málmiðnaði og í rafmagnsiðnaði. Verið er að skoða norræna BAT-vinnu með hliðsjón af vinnu á þessu sviði innan ESB.
    Á árinu kom út skýrsla sem fjallar um útflutning á umhverfisskaðlegri tækni og unnin var fyrir nefndina. Einnig hefur nefndin haldið áfram að vinna með framkvæmdaáætlanir um sorphirðumál dreifðra byggða. Á því sviði var í apríl lokið við verkefni um heimajarðgerð á Íslandi og í Færeyjum. Útbúnir voru fræðslubæklingar fyrir sveitarfélög og heimili og hefur umhverfisráðuneytið á Íslandi gefið þessa bæklinga út á íslensku. Verið er að ljúka við gerð fræðslubæklings um hreinni framleiðslutækni fyrir lítil fyrirtæki og loks er unnið að verkefni í Færeyjum og á Íslandi um umhverfisáætlanir sveitarfélaga. Varðandi sjálfbæra framleiðslu og neyslu var settur á laggirnar tengiliðahópur um framleiðsluháða umhverfisstefnu. Markmið með þessari vinnu er að fylgja eftir Ríóráðstefnunni 1992.
    
Vinnunefnd um umhverfisvöktun og meðferð gagna (NMD).
    Árið 1996 var lögð töluverð vinna í að aðlaga starfsemi nefndarinnar að nýrri norrænni umhverfisáætlun sem gildir fyrir árin 1996–2000. Þetta hafði þó ekki veruleg áhrif á verkefni sem nefndin styrkti árið 1996 þar sem búið var að ákveða þau í árslok 1995.
    Áhrif inngöngu Finna og Svía í Evrópusambandið voru minni en búist var við og má það væntanlega skýra út með að Norðurlöndin standa á nokkuð gömlum og traustum merg hvað vöktun umhverfisins og meðferð umhverfisgagna varðar.
    Það verkefni sem hæst ber er útgáfa á skýrslu um ástand í umhverfismálum á þeim svæðum Norðurlandanna sem tengjast norðurheimskautinu. Þessi skýrsla kom út í lok 1996 og er gefin út á 5 tungumálum þar á meðal á íslensku. Hluti af starfsemi vinnunefndarinnar er að hafa umsjón með verkefnum á grannsvæðunum og þá einkum að koma á vöktun og stuðla að góðri meðferð á gögnum í Eystrasaltsríkjunum. Af helstu verkefnum á vegum vinnunefndarinnar árið 1996 sem snertu Ísland má nefna: Framhald á vöktunarverkefni á strandsvæðum sem er samstarfsverkefni milli Íslands, Færeyja og Noregs og er Breiðafjörður vöktunarstaður á Íslandi, lok áðurnefndrar skýrslu um ástand umhverfisins í þeim hluta Norðurlanda sem eru í eða teljast til heimskautasvæðisins, styrkur til að setja upp vöktunarstöð á landi til að mæla gegnumstreymi efna með vatni í gegnum jarðveg, útgáfa á skýrslu um vísa („indikatora“) til nota í sambandi við stefnumótun í umhverfismálum og byrjun á nýrri skýrslu um fjölbreytni náttúrunnar. Formennska í þessari vinnunefnd verður í höndum Íslands til ársloka 1997.
    
Vinnunefnd um náttúruvernd og útivistarmál.
    Nefndin hefur það hlutverk að skilgreina samnorræn markmið og leiðir í náttúruvernd, útivist og verndun menningarlandslags. Verksvið nefndarinnar spannar allt sviðið frá faglegri stefnumótun til tillagna um framkvæmd og stjórnsýslulegar aðgerðir varðandi náttúruvernd, útivist og skipulagsmál í samræmi við norræna stefnu í umhverfismálum. Á árinu 1996 var lögð áhersla á verkefni er snerta náttúruvernd, einkum verndun líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbæra þróun, útivistarmál og menningarlandslag. Á vegum nefndarinnar var veitt fé til u.þ.b. 18 verkefna á árinu 1996.
    Á sviði náttúruverndar og verndunar líffræðilegrar fjölbreytni voru gefnar út tvær skýrslur á árinu, „Nordisk naturvård — möjligheter och problem“ og „Marina reservater í Norden — Del II“. Fyrri skýrslan fjallar um markmið og leiðir í náttúruvernd og nýtingu auðlinda með sjálfbæra þróun að leiðarljósi en sú seinni bendir á og lýsir hafsvæðum sem ber að vernda en skýrsluna má nýta sem grundvöll fyrir stefnu yfirvalda í verndun hafsvæða. Lokið verður við nokkur önnur verkefni á árinu svo sem verkefni um þá hættu sem vistkerfum getur stafað af sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera og verkefni um stofnstærðir fugla á Norðurlöndum og framtíðarhorfur á því sviði. Einnig var áfram unnið að úttekt á hvernig tekist hefur að fylgja eftir samningi um líffræðilega fjölbreytni á Norðurlöndunum og þá sérstaklega hjá sveitafélögum. Samantektinni er einnig ætlað að vera einskonar hugmyndabanki um hvernig megi leysa þau vandamál sem koma upp við ólíkar aðstæður.
    Á sviði útivistar var lokið við verkefni um almannarétt, sem er samantekt á þeim reglum sem gilda um almannarétt á Norðurlöndum og mismun þar á. Einnig var lokið við skýrslu um útivist og rými. Þar er fjallað um nauðsyn þess að móta stefnu í skipulagsmálum hvað varðar útivist í nánd við þéttbýli sérstaklega með tilliti til þess að taka frá svæði til þeirrar notkunar.
    Á sviði landslagsverndar var lokið við endurskoðun á svonefndum „World Heritage“ lista á Norðurlöndum (einnig Grænlandi) þar sem markmiðið var að samþætta verndun svæða vegna náttúru og menningarminja. Einnig var lokið við verkefnið „Israndslinier i Norden“ sem lýsir jarðsögu Norðurlanda eftir síðasta jökulskeið (ekki á Íslandi).
    Á sviði menningar og umhverfismála var lokið við skýrslu um tengsl landslags og menningarverðmæta og hvernig megi best standa að áframhaldandi þróun og verndun menningarverðmæta í tengslum við t.d. landbúnað, ferðamennsku, skipulagsáætlanir (þar með talið mat á umhverfisáhrifum) o.s.frv.
    Þar sem verkefnin byggjast á þátttöku allra Norðurlanda hafa Íslendingar verið með í nær öllum verkefnum sem unnin hafa verið á vegum nefndarinnar árið 1996.
    Áhersla hefur verið lögð á að auka samvinnu við önnur svið eins og sjávarútveg, landbúnað og skógrækt. Jafnframt mun á næstu árum verða lögð mun meiri áhersla á að verndun heimskautasvæða Norðurlandanna verði með sama móti og annarra svæða innan þeirra. Einnig er samvinna við Eystrasaltsríkin sífellt að aukast.
    
Efnavörunefndin.
    Vinnunefndin um efnavörur (NKG) er í forsvari fyrir norrænu samstarfi á sviði eiturefna og hættulegra efna. Nefndin er stjórnvöldum til ráðgjafar við stefnumótun og við mótun tillagna að aðgerðum heimafyrir, í Evrópusamstarfi og á alþjóðavettvangi. Hún stuðlar að samvinnu stjórnvalda og að samræmingu verkefna þannig að tiltækt fjármagn nýtist sem best. Nefndin hefur á síðari árum í vaxandi mæli beint starfi sínu að verkefnum sem nýtast í alþjóðlegri samvinnu þar sem unnið er að takmörkun á notkun eiturefna og að því að draga úr áhættu við notkun og meðferð eiturefna og hættulegra efna. Einnig hafa verkefni er nýtast Norðurlandaþjóðunum vegna aðildar þeirra að Evrópusambandinu og Samningnum um Evrópska efnahagssvæðið fengið aukið vægi. Ísland hefur tekið þátt í starfi efnavörunefndarinnar frá því árið 1989. Á árinu voru haldnir 3 fundir í nefndinni.
    Verkefni sem unnið hefur verið að á árinu eiga sér stoð í norrænu umhverfisverndaráætluninni fyrir árin 1994–1996 svo og umhverfisverndaráætluninni fyrir árin 1996–2000. Í grófum dráttum skiptast verkefni vinnunefndarinnar í fjóra flokka, þ.e. skilgreiningu á áhættu vegna efnanotkunar, flokkun hættulegra efna, áhættumat og takmörkun áhættu. Meðal þeirra verkefna sem unnið hefur verið að á árinu 1996 má nefna eftirfarandi:
    Þróun aðferða til að meta áhættu, söfnun upplýsinga og skipulögð samvinna þeirra rannsóknastofnana á Norðurlöndunum sem geta komið að slíkum verkefnum. Á vegum þessa verkefnis hafa verið gefnar út skýrslurnar: „Nordic Toxicological and Ecotoxicological Laboratories“ og „Proceedings of first Network Meeting — Development of (eco)toxicity tests“. Meðal verkefna sem þessu tengjast má nefna könnun á bindingu varnarefna í ólíkum tegundum af jarðvegi, könnun á aðferðum til að meta hvort efni eru krabbameinsvaldandi og verkefni varðandi efni sem hafa svipuð áhrif og hormónar. Í því sambandi hefur verið gefin út skýrslan „Chemicals with Estrogen-like Effects“. Einnig hefur verið unnið að verkefnum varðandi ofnæmisvaldandi efni og gefin út skýrslan „Potency Evaluation of Contact Allergens II“.
    Unnið hefur verið að verkefnum um flokkun hættulegra efna hvað varðar áhrif á umhverfi og/eða heilsu manna. Þessar upplýsingar hafa verið mikilvægt framlag í samstarf við þjóðir Evrópusambandsins. Gefnar hafa verið út skýrslurnar „Classification of Chemical Preparations — consequences of different criteria for environmental danger“, „Neurotoxicity Testing of Organic Solvents in Laboratory Animals — Proceedings of a workshop in Copenhagen June 8–9 1995“ og „Kriterier og Testmetoder til vurdering af neurotoksiske stoffer og produkter med særlig vægt på organiske opløsningsmidler“. Verkefni tengd áhættumati og aðferðafræði í því sambandi. Þetta verkefni tengist tilskipunum ESB um þetta málefni og vinnu innan ESB og mati á þeirri vinnu sem þar fer fram. Könnun á útbreiðslu skaðlegra efna svo sem ósoneyðandi efna og samræmdar áætlanir og aðgerðir til að draga úr magni hættulegra efna í umhverfinu. Öflun upplýsinga um eiturefna- og umhverfiseiturefnafræðilega eiginleika varnarefna svo og samvinna varðandi eftirlit með notkun slíkra efna. Í því sambandi má nefna skýrsluna „Comparison of Predictive Models for Pesticide Operator Exposure“.
    Undir vinnunefndinni starfa ráðgefandi verkefnahópar og á Ísland fulltrúa í sjö þeirra, þ.e. nefnd sem fjallar um takmörkun á notkun þungmálma, nefnd um varnarefni, nefnd sem vinnur að takmörkun á notkun ósoneyðandi efna, nefnd sem fjallar um efni sem geta valdið skaða á taugakerfi, nefnd sem fjallar um efni sem geta verið hættuleg heilsu fólks, nefnd sem vinnur að hættuflokkun umhverfisskaðlegra efna og nefnd sem skoðar aðferðir við mat á áhættu af efnanotkun.
    Haldin var ráðstefna um áætlun og aðferðir sem miða að því að draga úr áhættu af notkun hættulegra efna.
    Eitt verkefni var unnið á Íslandi á árinu. Það varðar aðferðir til að mæla hugsanleg áhrif af notkun leysiefna á fólk sem hefur unnið með slík efni.
    Formennska í þessari nefnd verður í höndum Íslendinga á árunum 1997 og 1998.
    
Vinnuhópur um mat á umhverfisáhrifum (MKB ad-hoc).
    Umhverfisráðuneytið hefur á árunum 1994–1996 tekið þátt í starfi norræns vinnuhóps um mat á umhverfisáhrifum (MKB ad-hoc). Á þessum árum hefur tilskipun Evrópusambandsins (85/337ES) um mat á umhverfisáhrifum stakra framkvæmda verið innleidd í löggjöf Norðurlanda og hefur hópurinn verið vettvangur til samanburðar á fenginni reynslu.
    Á vegum ESB hefur ný tilskipun um umhverfismat áætlana verið í smíðum undanfarin ár og hefur vinnuhópurinn ýtt úr vör verkefnum af þeim toga. Þátttakendur af Íslands hálfu í einu slíku verkefni um mat á skipulagsáætlunum sveitarfélaga voru á þessu ári Skipulag ríkisins og Akureyrarbær. Eftirfarandi verkefnaskýrslur hafa verið gefnar út á árinu á vegum ráðherranefndarinnar fyrir tilstuðlan vinnuhópsins:
     —     Forstudie om strategisk miljövurdering (TemaNord 1996:538)
     —    Miljökonsekvensvurderinger og fysisk planering på kommunenivå (TemaNord 1996:581, júní 1996)
     —    Allmänhetens deltagande i MKB-processen i de nordiska länderna (TemaNord 1996: 588)
     —    Programmatic and Strategic Environmental Impact Assessments (TemaNord 1996:589)
     —     MKB-kvalitet, — ett nordiskt förslag till kvalitetskriterier (TemaNord 1996:590)
     —     Miljövurdering af regionplaner (TemaNord 1996:602)
    Yfirlitsráðstefna um starf vinnuhópsins, þar sem m.a voru kynntar niðurstöður einstakra verkefna, var haldin í Helsingør í október 1996.
    Embættismannanefnd umhverfismála hefur framlengt starfstíma vinnuhópsins til ársloka 1998.
    
8.2. Samstarfsverkefni Noregs og Íslands um snjóflóð.
    Eftir snjóflóðið á Súðavík í mars sl. sótti Jarðtæknistofnun Noregs (Norges Geotekniske Institut, NGI) um styrk frá Norrænu ráðherranefndinni til verkefnis sem mundi fela í sér samvinnu milli Norðmanna og Íslendinga og verða til þess að auka öryggi fólks sem býr við snjóflóðahættu. Veittur var styrkur að upphæð 1 millj. norskra króna 1995 og 1,25 millj. norskra króna 1996. Sótt hefur verið um styrk fyrir 1997 að upphæð 1,25 millj. norskra króna NGI hefur tekið þátt í verkefninu af hálfu Norðmanna, en af hálfu Íslendinga hafa Háskóli Íslands (HÍ) og Veðurstofa Íslands (VÍ) verið þátttakendur. Verkefnisstjóri alls verkefnisins og norska hlutans er Karstein Lied (NGI) og á Íslandi er verkefninu stýrt af Kristjáni Jónassyni (VÍ). Styrkjum áranna 1995 og 1996 var skipt jafnt milli Norðmanna og Íslendinga.
    Á árinu 1996 hefur verið unnið að eftirfarandi undirverkefnum. Sum verkefnin eru að hluta greidd með öðru fé en styrkjum frá Norrænu ráðherranefndinni.
    
1. Hættuboðar ofanflóða.
     Skýrsla um snjóflóðaaðvaranir. Magnús M. Magnússon (VÍ) og Krister Kristensen (NGI) rituðu skýrslu um staðbundnar snjóflóðaaðvaranir [1].
     Ráðstefna í Kanada. Krister Kristensen og Magnús Már Magnússon fóru til Banff í Kanada í október og tóku þátt í ráðstefnunni ISSW '96. Þeir héldu fyrirlestur um viðvaranir við snjóflóðum í Noregi og á Íslandi og hvernig snjóflóðavarnir hafa verið skipulagðar á Íslandi eftir tvö stór snjóflóð.
     Þróun hættuboða. Kannað var hvernig nota mætti upplýsingar um veður og snjóalög á hverjum stað með „nearest neighbour“-aðferð.
    
2. Líkangerð til að skýra skriðlengd snjóflóða.
     Yfirlit um eðlisfræðileg líkön af snjóflóðum. Carl Harbitz á NGI safnaði upplýsingum um flest eðlisfræðilíkön af snjóflóðum sem eru notuð í heiminum og ritaði skýrsluna [4]. Hefur skýrsla hans komið að góðum notum í „háskólaverkefninu“ sem sagt er frá hér að neðan.
     Aframhaldandi þróun NIS-líkans. Frestað til 1997.
    Söfnun upplýsinga um löng snjóflóð. Kristján Jónasson (HÍ) fór ásamt Sven Sigurðssyni (HÍ) til Ósló í júlí. Þeir fóru í gegn um gagnasöfn NGI til þess að afla gagna um löng norsk snjóflóð. Ferðin var hluti af verkefni þeirra við HÍ, sem snýst um að þróa aðferðir til hættumats vegna snjóflóða og er lýst hér að neðan.
     Þróun staðfræðilíkans fyrir íslensk snjóflóð. Unnið var að þessu í samvinnu Tómasar Jóhannessonar (VÍ) og Kristjáns Jónassonar og Kristínar Friðgeirsdóttur (HÍ). Líkanið er svokallað alfa-beta líkan og var meðal annars notað við gerð rýmingarkorta [3].
     Þróun aðferðar til að meta hættu af snjóflóðum. Unnið hefur verið að þessu verkefni við HÍ af Kristjáni Jónassyni, Sven Sigurðssyni, Gunnari G. Tómassyni og Kristínu Frið-geirsdóttur. Nefna má að einungis Sven starfar enn við HÍ, en Kristján er nú aðstoðarsviðsstjóri úrvinnslu- og rannsóknasviðs VÍ og heyra snjóflóðamál undir hann. Heildarútgjöld vegna verkefnisins hafa verið um 800 þús. norskra króna. Verkefnið hefur að hluta verið fjármagnað af norræna verkefninu með u.þ.b. 150 þús. norskra króna árið 1995 og 50 þús. norskra króna árið 1996. Hluti af háskólaverkefninu var ritun skýrslnanna [2] og [3]. Unnið er að lokaskýrslu vegna verkefnisins.
    
3. Mat á hættusvæðum.
     Heimsókn tveggja Íslendinga til Noregs. Svanbjörg Haraldsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson (VÍ) heimsóttu NGI í apríl og kynntu sér hvernig NGI kortleggur hættusvæði og norskar aðferðir til mats á hættusvæðum. Þau ferðuðust einnig til Vestur-Noregs og heimsóttu rannsóknarstöð NGI í Stryn og skoðuðu snjóflóðasvæði í nágrenni hennar í fylgd Ulrik Domaas og Kristers Kristensen hjá NGI. Skrifuð var skýrsla um ferðina [5].
     Kort sem sýnir hættu af ofanflóðum á Ólafsfirði. Magnús M. Magnússon (VÍ) hefur undirbúið úrvinnslu hættukorts af Ólafsfirði og nágrenni hans. Kortið verður gert í Ósló með aðferðum sem NGI hefur notað við gerð norskra hættukorta í mælikvarðanum 1:50000.

4. Varnarvirki.
     Áform um byggingu varnarvirkja. NGI hefur gefið ráð og tekið þátt í umræðum um fyrirhuguð varnarvirki í Súðavík, á Flateyri og Ísafirði.
     Kynnisferð til að skoða varnarvirki. Kristján Jónasson og Tómas Jóhannesson (VÍ) heimsóttu nokkra bæi í Vestur-Noregi og skoðuðu varnargarða og -veggi. Þeir heimsóttu einnig rannsóknarstöðina í Stryn, héldu fundi með Karstein Lied um norræna verkefnið og tóku þátt í málstofu á NGI þar sem Carl Harbitz hafði framsögu um hversu háir leiðigarðar ættu að vera.
     Þörf fyrir snjóflóðavarnarvirki á Íslandi — Yfirlit og mat á kostnaði. Heildarkostnaður við verkefnið var u.þ.b. 500 þús. norskra króna og var stærstur hluti þess unninn af Tómasi Jóhannessyni (VÍ), Frode Sandersen (NGI), Karstein Lied (NGI) og Stefan Margeth (Snjóflóðastofnun Sviss). Þeir sóttu heim bæi á Íslandi sem taldir eru í snjóflóðahættu og könnuðu hvað unnt væri að gera til að verjast snjóflóðum og hvað það kæmi til með að kosta. Stærstur hluti kostnaðarins var greiddur af Ofanflóðasjóði, en u.þ.b. fimmtungur var greiddur af norræna verkefninu. Niðurstöðurnar voru settar fram í skýrslu [6].
     Útreikningur á hraða í snjóflóðinu á Flateyri í október 1995. Tilgangur þessa útreiknings var að kanna hversu mikið öryggi varnargarðarnir sem nú er verið að byggja á Flateyri veita. Þessi vinna var í framhaldi af skýrslunni [7].
    
         Skrá yfir greinargerðir:
    Magnús Már Magnússon og Krister Kristensen, Proposal of guidelines for implementation and operation of local avalanche forecasting, NGI skýrsla 581250, janúar 1996.
    Gunnar Guðni Tómasson, Kristín Friðgeirsdóttir, Kristján Jónasson og Sven Þ. Sigurðsson, Mat á meðaltíðni snjóflóða — Áfangaskýrsla, Háskóli Íslands, október 1995.
    Erlendur Smári Þorsteinsson, Gunnar G. Tómasson, Kristín Friðgeirsdóttir, Kristján Jónasson og Sven Þ. Sigurðsson, Bráðabirgðarennslisstig — Greinargerð um útreikning rennslisstiga og gerð rennslisstigakorta, Háskóli Íslands, febrúar 1996.
    Carl Harbitz, Comutational models for dense snow avalanche motion, NGI skýrsla 581250-3, apríl 1996.
    Svanbjörg Helga Haraldsdóttir, Noregsferð 22. apríl – 1. maí 1996, VÍ greinargerð VÍ-G96022-ÚR21, júní 1996.
    Tómas Jóhannesson, Karstein Lied, Stefan Margreth og Frode Sandersen, Þörf fyrir snjóflóðavarnarvirki á Íslandi. Yfirlit og mat á kostnaði. Athugun gerð fyrir umhverfisráðuneytið og sveitarstjórnir á snjóflóðahættusvæðum, VÍ VÍ-R96004-ÚR03, október 1996.
    Carl Harbitz, Norge–Island. Flateyri — Efterberegning av skredet 26. oktober 1996, NGI skýrsla 581250-1, nóvember 1995.
    

9. Réttindi þegnanna.


9.1 Heilbrigðis- og félagsmál.
Ráðherrafundur.
    Norrænu heilbrigðis- og félagsmálaráðherrarnir héldu sumarfund sinn á árinu 1996 á Akranesi þann 10. júní. Á fundinum var gerð grein fyrir hvaða afleiðingar ákvörðun norrænu samstarfsráðherranna um breytingar á skipulagi norrænna stofnana kæmi til með að hafa á samvinnuna innan heilbrigðis- og félagsmálageirans. Jafnframt var gerð grein fyrir svonefndri Lindroos-skýrslu sem fjallar nánar um framhald samvinnunar í heilbrigðis- og félagsmálum. Helsta umræðuefni fundarins var hins vegar tengsl Norðurlanda við Evrópusambandið og samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hjá danska félagsmálaráðherranum kom fram að ESB er ekki tilbúið til þess að þróa mjög víðtækt samstarf á sviði félagsmála á næstu árum.
    Daginn eftir ráðherrafundinn var í Reykjavík haldin norræn ráðstefna um velferðarsamfélag framtíðarinnar þar sem þeir ráðherrar sem sóttu sumarfundinn töluðu, auk sérfræðinga, um ástand og horfur í velferðarmálum á Norðurlöndum. Ástandið í atvinnumálum, atvinnuleysið og afleiðingar þess var það mál sem hæst bar á ráðstefnunni.
    
Embættismannanefndin.
    Norræna embættismannanefndin um heilbrigðis- og félagsmál (EK-S) hélt þrjá fundi á árinu, þar af einn í tengslum við ráðherrafundinn á Akranesi. Á fundi embættismannanefndarinnar í Ósló í mars var skýrsla Lindroos-nefndarinnar helsta umræðuefnið. Fundurinn á Akranesi snerti einkum undirbúning ráðherrafundarins, en nýjar starfsreglur Norræna heilbrigðisháskólans voru einnig til umfjöllunar. Á haustfundi embættismannanefndarinnar í Helsingfors í lok október bar hæst úttekt á starfsemi Norrænu stofnunarinnar til prófunar efna til tannlækninga (NIOM), tillögur um meðhöndlun umsókna um styrki til rannsóknarverkefna og þau málefni sem eru efst á baugi innan Evrópusambandsins. Í tengslum við fundinn var haldin þemaráðstefna um lífeyrisaldur og lífeyristryggingar á Norðurlöndum. Þar vakti sérstaka athygli hvað Íslendingar eru í reynd mun eldri en aðrir Norðurlandabúar þegar þeir láta af störfum og fara á eftirlaun, enda er atvinnuástandið á Íslandi hagstæðara en í hinum löndunum. Í Finnlandi og Svíþjóð er til að mynda meðalaldur þeirra sem fara á eftirlaun orðinn lægri en 60 ár á meðan meðalaldurinn hér á landi er nálægt 70 ár.

9.1.1. Norræni heilbrigðisfræðaháskólinn (NHV).
    Nordiska hälsovårdshögskolan í Gautaborg í Svíþjóð er samnorræn menntastofnun fyrir æðri menntun og rannsóknir innan heilbrigðisfræðinnar. Skólinn hefur starfað frá árinu 1953.
    Þáttur Íslendinga í starfi skólans var mjög mikill á árinu 1996. Davíð Á. Gunnarsson var formaður stjórnar fyrstu þrjá mánuði ársins. Dr. med. Guðjón Magnússon var ráðinn sem rektor skólans frá 1. janúar 1996. Á annan tug Íslendinga stunduðu nám við skólann. Einn Íslendingur varði doktorsritgerð sína við skólann, annar lauk námi til meistaragráðu og sjö stunduðu nám á einstökum námskeiðum.
     Stjórnun. Norræna ráðherranefndin setti skólanum nýjar starfsreglur á árinu. Þar er m.a. kveðið nánar á um verksvið rektors, stjórnar skólans og Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Nýtt stjórnskipurit sem var sett fyrir innra starf skólans 1995 fól í sér tilflutning á verkefnum og ábyrgð. Meginbreytingin var sú að settir voru þrír millistjórnendur, þ.e. yfirmaður kennslusviðs, yfirmaður rannsóknasviðs og yfirmaður stjórnunarsviðs en sá aðili hefur með fjármál og starfsmannamál að gera. Ekki hafa allir starfsmenn skólans verið á einu máli um ágæti þessa stjórnunarfyrirkomulags og því hefur það verið til endurskoðunar á árinu.
    Stjórn skólans ákvað á árinu að láta samnorrænar reglur varðandi tímamörk ráðningar starfsmanna við norrænar stofnanir taka gildi, en þeim ákvæðum hafði ekki áður verið beitt varðandi ráðningu starfsfólks.
     Kennsla. Námið við Nordiska hälsovårdshögskolan er byggt upp í formi námskeiða og að loknu átta mánaða námi hlýtur viðkomandi viðurkenningu eða diplom í heilbrigðisfræði. Þeir sem stunda rannsóknir í framhaldi af slíku námi og fá þær metnar sem fullnægjandi öðlast meistaragráðu í heilbrigðisfræði og þeir sem stunda enn víðtækari vísindastörf geta hlotið doktorsgráðu frá skólanum.
    Við skólann er einnig mikið framboð af einstökum stuttum námskeiðum fyrir starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar á Norðurlöndum og umfangsmikið fræðslustarf er á vegum skólans fyrir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar í Eystrasaltslöndunum.
    Á árinu reyndi í fyrsta sinn á nýbreytni í uppbyggingu náms og námskeiða skólans sem tekin var upp árið 1995. Nýbreytnin hafði það að markmiði að auka hagkvæmni, árangur og gæði kennslunnar. Meginbreytingin fólst í því að tengsl milli námskeiða voru aukin og reynt að koma í veg fyrir skörun námsefnis. Við breytingarnar var tekið mið af uppbyggingu náms í öðrum hliðstæðum skólum og af auknu samstarfi við aðra skóla bæði á Norðurlöndum og annars staðar í heiminum. Breytingarnar eru ekki að fullu komnar til framkvæmda. Gagnrýnt hefur verið að breytingarnar hafi leitt til þess að nemendur eigi erfiðara með að finna hvaða námskeið hentar þeim best.
    Á árinu 1996 lauk einn Íslendingur meistaragráðu frá skólanum og er það fjórði Íslendingurinn sem lýkur slíku námi frá skólanum. Annar Íslendingur varði doktorsritgerð sína við skólann, fyrstur Íslendinga. Það er þrettánda doktorsgráðan sem veitt er frá skólanum. Báðir þessir einstaklingar eru hjúkrunarfræðingar.
    Þá hófst á árinu samstarf skólans við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands um þriggja missera nám í stjórnun og rekstri heilbrigðisstofnana og er það nýjung.
     Rannsóknir. Þrátt fyrir mikið kennsluálag stunda allir kennarar skólans einhverja rannsóknarvinnu, hver á sínu sérsviði og þeir sem vinna að doktorsritgerð leggja allir að mörkum umfangsmikið vísindastarf. Birtar vísindagreinar kennara voru 70 á árinu.
    Af rannsóknarverkefnum sem Ísland tekur þátt í má nefna rannsókn á heilsufari norrænna barna og samanburðarrannsókn á þróun hjartasjúkdómatíðni á Norðurlöndum.
    Nordiska hälsovårdshögskolan hefur að mati stjórnar skólans allar forsendur til að gera samnorrænar rannsóknir er varða heilbrigðismál. Hins vegar hefur sá möguleiki, að mati stjórnar skólans, ekki verið nýttur sem skyldi af heilbrigðisyfirvöldum og stofnunum á Norðurlöndum.
     Nemendur. Heildarfjöldi nemenda við skólann árið 1996 var á áttunda hundrað. Nemendurnir voru frá öllum norrænu löndunum og hefur hvert land ákveðið fyrirfram hve mörg námskeið það ætlar að greiða fyrir. Ísland ákvað fyrir nokkrum árum að standa straum af kostnaði fyrir sem svarar til 13 námskeiða á ári. Þau námspláss voru öll notuð á árinu 1996. Sjö Íslendingar stunduðu nám við skólann, þ.e. tveir læknar, tveir hjúkrunarfræðingar, einn heilbrigðisfulltrúi, einn félagsráðgjafi og einn manneldisfræðingur.
    Heildarfjöldi umsækjenda um nám í skólanum var yfir 3000 manns sem er langt umfram þann fjölda sem skólinn getur annað.
    Nokkur fækkun varð á fjölda umsækjenda á árinu 1996 miðað við næstu ár á undan. Ástæðurnar eru nokkrar. Meginástæðan er aukið framboð á námi í heilbrigðisfræði við aðra háskóla á Norðurlöndum, en einnig minni möguleikar heilbrigðisstarfsfólks að fá frí frá störfum til að stunda nám svo og hert inntökuskilyrði til náms við skólann.
     Fulltrúar Íslands í stjórn skólans árið 1996: Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Vilborg Ingólfsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur við landlæknisembættið, varamaður og Magnús Guðjónsson, heilbrigðisfulltrúi á Suðurnesjum, fulltrúi nemenda.
    Fulltrúar í námsráði skólans árið 1996: Dögg Pálsdóttir lögfræðingur (hluta ársins), Pétur Jónsson, framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs Ríkisspítala, Sveinn Magnússon, héraðslæknir í Reykjaneshéraði, og Örn Bjarnason, trúnaðarlæknir Ríkisspítalanna.
     Fulltrúi í vísindaráði skólans árið 1996: Tómas Helgason prófessor, Geðdeild Landspítalans.
    Fulltrúi í nemendafélagi skólans árið 1996: Magnús Guðjónsson, heilbrigðisfulltrúi á Suðurnesjum, fulltrúi nemenda.
    
9.1.2. Norræn stofnun til prófunar efna til tannlækninga (NIOM).
    Fyrir íslenska tannlækna hafa tengslin við NIOM reynst hagkvæm vegna upplýsinga sem fengist hafa varðandi gæði og aukaverkanir efna til tannlækninga. Ekki síst ný efni sem framleiðendur reyna oft að selja áður en þau eru fullreynd.
    Verkefnum NIOM hefur verið skipt upp í fjóra meginþætti:
     —     „standardiseringu“,
     —     prófun efna,
     —     rannsóknir og
     —     fræðslu.
    Á alþjóðavettvangi tekur NIOM þátt í mótun staðla varðandi gæði og öryggi efna til tannlækninga með þátttöku í t.d. ISO (International Organization for Standardization), CEN (Comité Européen de Normalisation) og FDI (Federation Dentaire Internationale).
    Vegna aukinnar samvinnu Evrópuþjóða er NIOM nú að aðlaga störf stofnunarinnar breyttum aðstæðum og leitast er við að fjármagna starfsemina að hluta til með því að selja þjónustu stofnunarinnar.
    Stjórnarfundir eru haldnir minnst þrisvar á ári hverju. Fulltrúar Íslands í stjórn eru Sigfús Þór Elíasson, prófessor og Magnús R. Gíslason, yfirtannlæknir.
    
9.1.3. Norræna lyfjanefndin (NLN).
    Norræna lyfjanefndin er samstarfsvettvangur Norðurlanda í lyfjamálum.
    Tveir fulltrúar frá hverju Norðurlandanna sitja í nefndinni, þ.e. alls tíu manns og jafnmargir varamenn, skipaðir til fjögurra ára í senn. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári.
    Fulltrúar Íslands í nefndinni eru nú Einar Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, og dr. Magnús Jóhannsson, prófessor við Háskóla Íslands. Varamenn eru Guðrún S. Eyjólfsdóttir, forstöðumaður Lyfjaeftirlits ríkisins, og Sigurður B. Þorsteinsson, læknir á Landspítalanum og formaður lyfjanefndar ríkisins. Skipunartími þeirra er til 1. janúar árið 2000. Núverandi formaður NLN er Ola Westbye, skrifstofustjóri í norska heilbrigðisráðuneytinu, en Kjeld Strandberg, forstjóri Lyfjamálastofnunar Svíþjóðar, er varaformaður.
    Skrifstofa NLN er í Uppsölum í Svíþjóð. Starfsmenn nefndarinnar eru fjórir en Ulf Janzon, sænskur lyfjafræðingur, veitir skrifstofunni forstöðu.
    Kostnaður við störf nefndarinnar er um 3 millj. sænskra króna og greiðist að mestu með framlagi frá Norrænu ráðherranefndinni en einnig með sértekjum nefndarinnar.
    Verkefni nefndarinnar eru m.a.:
     —    að stuðla að samræmingu laga, reglugerða og framkvæmd lyfjamála á Norðurlöndum og vinna að norrænni skráningu og norrænni merkingu lyfja,
     —    að stuðla að norrænni samvinnu um samstarf Evrópu um lyfjamál, innan Evrópsku lyfjaskrárnefndarinnar, EFTA og ESB,
     —    að stuðla að norrænum rannsóknum og samvinnu um lyfjamál og vera ráðgefandi fyrir ríkisstjórnir Norðurlanda og Norrænu ráðherranefndina,
     —    að gera reglulega samanburð á lyfjanotkun og kostnaði milli Norðurlanda (þar með talið ATC, DDD og ATCvet).
    
    Innan NLN eru starfandi starfshópar á eftirtöldum sviðum:
     Lög og reglugerðir. Fulltrúi Íslands í starfshópnum er Ragnhildur Arnljótsdóttir, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
    Norræn lyfjatölfræði. Fulltrúi Íslands er Eggert Sigfússon, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
     ATCvet. Fulltrúi Íslands er Rannveig Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri Lyfjanefndar ríkisins.
    Innan NLN hafa auk þess starfað til skemri tíma starfshópar um ýmis afmörkuð málefni, svo sem um samnorræna skráningu, flokkun lyfja, klíniskar prófanir, lyfjaeftirlit, o.s.frv.
    NLN heldur námskeið, bæði norræn og alþjóðleg, um lyfjafræðileg efni og hefur staðið fyrir ýmsum merkum ráðstefnum, ýmist ein sér eða í samstarfi við aðra.
    Norræna lyfjanefndin hefur gefið út fjölda bóka og bæklinga með leiðbeiningastöðlum um framkvæmd lyfjamála og ýmis afmörkuð svið er varða lyf. Nýjasta útgáfan (NLN Publication No 41) nefnist: „NLN Regulatory Seminar 1996“ og fjallar um ráðstefnu um prófanir og mat á lyfjum sem norræna lyfjanefndin stóð fyrir í Málmey í Svíþjóð dagana 24.–25. apríl 1996.
    NLN tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi og hefur fengið áheyrnarfulltrúa í ýmsum mikilvægum vinnuhópum um lyfjamál innan ESB. Nýjar tilskipanir ESB um lyfjamál eru sendar NLN til umsagnar. Skrifstofa NLN varðveitir öll skjöl ESB um lyfjamál og þangað geta heilbrigðisyfirvöld og lyfjafyrirtæki sótt þjónustu varðandi málefni ESB. NLN tekur virkan þátt í samstarfi Evrópsku lyfjaskrárnefndarinnar. NLN hefur með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni tekið að sér aðstoð við Eystrasaltsríkin, Eistland, Lettland og Litáen, við að skipuleggja lyfjamál í löndunum. Fulltrúar landanna hafa t.d. verið hér á landi á vegum NLN til að kynna sér hvernig skipulagningu lyfjaskráninga og lyfjaeftirlits er háttað hér.
    Starfsemi norrænu lyfjanefndarinnar hefur nýlega verið metin út frá „norrænu notagildi“ (Nordisk nytte) eins og aðrar stofnanir Norrænu ráðherranefndarinnar og fékk nefndin ágætiseinkun eins og hún hefur reyndar einnig fengið í öðrum athugunum sem gerðar hafa verið á undanförnum árum.
    Norræna lyfjanefndin hefur ótvírætt mikla þýðingu fyrir Íslendinga. Við skipulag lyfjamála á Íslandi hefur einkum verið tekið mið af skipulagi þessara mála annars staða á Norðurlöndunum en það hefur einmitt verið talið vera til fyrirmyndar fyrir önnur lönd. Flokkun lyfja samkvæmt svokölluðu ATC-kerfi og mælikvarði á lyfjanotkun með skilgreindum dagskömmtum (DDD) er árangur af norrænu samstarfi og NLN hefur unnið ötullega að útbreiðslu þessara kerfa á alþjóðavettvangi. Mikill vinnusparnaður er fólginn í því að geta fengið aðgang að upplýsingum og þeirri vinnu sem lögð er í skráningar lyfja, gerð laga og reglugerða á hinum Norðurlöndunum. Einnig hefur samanburður á milli Norðurlanda á lyfjanotkun og kostnaði á vegum starfshóps NLN um lyfjatölfræði nýst heilbrigðisyfirvöldum hér á landi í verulegum mæli á undanförnum árum við ákvarðanatöku um aðgerðir til að draga úr lyfjanotkun og lækka lyfjakostnað.
    
9.1.4. Norræna rannsóknanefndin á sviði vímuefna (NAD).
    Norræna rannsóknanefndin á sviði vímuefna, NAD, er norræn stofnun á sviði félags- og heilbrigðismála. Aðalmarkmið nefndarinnar er að efla rannsóknir í áfengis- og vímuefnamálum. Nefndin skal einnig stuðla að þverfaglegum rannsóknum á notkun vanabindandi lyfja. Auk þess skipuleggur nefndin vísindaráðstefnur og stuðlar að bættri menntun vísindamanna og auknum samskiptum þeirra. Jafnframt sér hún um upplýsingamiðlun og skýrslugerð.
    Fjárframlög til nefndarinnar fyrir tímabilið 1995–1997 voru áætluð 6,6 millj. finnskra marka samkvæmt þriggja ára rammaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar. Fjárframlög fyrir tímabilið 1995–1996 hafa verið 4,2 millj. finnskra marka Í nefndinni eru þrír nefndarmenn og þrír varamenn frá hverju landi. Þrír Íslendingar eru í nefndinni og þrír til vara. Nefndin heldur að jafnaði fundi tvisvar á ári. Skrifstofa nefndarinnar er í Helsingfors og þar starfa framkvæmdastjóri og tveir aðrir starfsmenn.
    Hér á eftir fer yfirlit yfir helstu verkefni nefndarinnar árið 1996.
    Á vegum NAD var haldinn vinnufundur í Ósló í mars þar sem lögð voru drög að stuttum samnorrænum spurningalista um áfengisneysluvenjur og vímuefni. Fundinn sótti einn Íslendingur. Áformað var að Ísland yrði með í þessari rannsókn en ekki hefur fengist svar við umsókn sem send var Forvarnarsjóði um fjármögnun rannsóknarinnar.
    Í aprílmánuði átti NAD frumkvæði að fundi um formlega samvinnu evrópskra rannsóknarstofnana á sviði vímuefna. Markmiðið er að efla samanburðarrannsóknir á sviði áfengismála í Evrópu. Rætt var um að helstu rannsóknarviðfangsefni framtíðarinnar gætu verið faraldsfræði, forvarnir og meðferð. Fundinn sóttu 16 fulltrúar jafnmargra rannsóknastofnana og var einn Íslendingur þar á meðal. Boðaður hefur verið stofnfundur samtaka um samanburðarrannsóknir á áfengismálum í Evrópu (European Consortium for Comparative Social Research on Alcohol) í janúar á næsta ári.
    NAD og Norræna tengiliðanefndin í fíkniefnamálum stóðu sameiginlega að ráðstefnu í maí um metadonmeðferð á Norðurlöndum. Fjallað var um metadonmeðferð í nútíð og framtíð, siðfræði og stefnumörkun.
    Annað hvert ár styrkir NAD ráðstefnu þar sem kynntar eru líffræðilegar áfengisrannsóknir. Slík ráðstefna (XXIV. BAR-ráðstefnan) var haldin í Finnlandi í maí þetta ár.
    Norræna ráðstefnan um áfengis- og vímuefnarannsóknir, sem NAD skipuleggur annað hvert ár, var haldin í september í Noregi. Efni hennar var fíkn og kenningar um skynsemishyggju. Fjórir Íslendingur voru meðal þátttakenda og héldu tveir þeirra erindi.
    Í október hélt NAD rannsóknarfund í Rungsted í Danmörku um staðbundnar forvarnir áfengis og vímuefna.
    Tveir vinnufundir í janúar og nóvember voru haldnir í Stokkhómi til þess að ræða verkefni NAD (SNAPS) um hagsmunaaðila og breytingar á fyrirkomulagi áfengismála á Norðurlöndum. Í þessu verkefni er unnið að rannsóknum á þeim breytingum sem eru að verða á norrænum áfengismálum, t.d. á einkasölu áfengis og var fjallað sérstaklega um hagsmuni og valdatilfærslur á sviði áfengismála.
    Á árinu var lokið við vinnu sem hófst á síðasta ári vegna úttektar á skráningu á tölfræðilegum upplýsingum á meðferðarstofnunum fyrir áfengis- og vímuefnamisnotendur. Verkinu lauk með skýrslu og vinnufundi. Efni skýrslunnar og skráning á tölfræðilegum upplýsingum á meðferðarstofnunum var til umfjöllunar á sérstökum fundi í október í Helsingfors. Fundinn sótti einn Íslendingur. Frekari samvinna á þessu sviði er áformuð.
    Að auki veitti NAD styrki til nokkurra rannsóknaverkefna og nokkra ferðastyrki til einstaklinga.
    NAD styrkir fjárhagslega og tilnefnir fulltrúa í ritstjórn norræna tímaritsins Nordisk alkoholtidskrift. Ritstjórn skipa sex manns, þar af er einn Íslendingur. Styrkur NAD til tímaritsins var 40 þús. finnsk mörk. Í öðru og sjötta tölublaði tímaritsins árið 1996 voru birtar NAD-fréttir.
    Tvær bækur komu út á árinu í ritröð NAD:
    Läkemedelskontroll: EU och Norden. NAD Publikation nr. 29.
    Discussing drugs and control policy. Comparative studies of four Nordic countries. NAD Publikation nr. 31.
    Innan nefndarinnar hafa þær skipulagsbreytingar sem gerðar verða á NAD eins og öllum norrænum nefndum og stofnunum frá og með árinu 1997 verið ræddar. Nefndin reyndi að hafa áhrif á hið nýja stjórnskipulag en án árangurs.

9.1.5. Norræna hagskýrslunefndin (NOSOSKO).
    Norræna hagskýrslunefndin á sviði félagsmála, NOSOSKO, er fastanefnd sem starfað hefur frá árinu 1946. Höfuðverkefni NOSOSKO er að vinna að samanburðahæfri skýrslugerð um félagsmál á Norðurlöndum og gefa út bók um þann málaflokk með reglulegu millibili. Hér er átt við félagsmál í víðri merkingu, þar sem veigamestu útgjaldaliðirnir eru heilbrigðismál og lífeyristryggingar. Af öðrum verkefnum má nefna að nefndinni ber að fylgjast með alþjóðlegu samstarfi í hagskýrslugerð og vinna að samræmingu upplýsinga sem frá þátttökulöndunum koma.
    Allar Norðurlandaþjóðirnar fimm eru aðilar að samvinnu Evrópulanda á sviði hagskýrslugerðar, Eurostat, vegna aðildar sinnar að Evrópusambandinu eða EES. Eurostat hefur unnið að bættri hagskýrslugerð á sviði félagsmála og skilgreiningu og sundurliðun félagsmálaútgjalda eftir svonefndri ESSPROS-flokkun. Í þeirri vinnu hafa Norðurlandaþjóðirnar verið leiðandi, enda byggir ESSPROS-flokkunin meira og minna á norrænum fyrirmyndum. Á sumarfundi NOMESKO var ákveðið að í næsta skýrslu NOSOSKO yrði þess freistað að nota nefnda flokkun svo samræmi væri milli þeirra upplýsinga sem birtast í norrænu skýrslunni og skýrslum Eurostat.
    Á árinu var horfið frá því að gefa út skýrslu NOSOSKO á þriggja ára fresti og mun hún frá og með árinu 1996 koma út árlega. Um er að ræða nokkuð styttri útgáfu en verið hefur og mun skýrsla koma út í septembermánuði ár hvert og ensk útgáfa hennar síðar á árinu. Er síðan ætlunin að ítarlegri upplýsingar og fylgitöflur verði að finna á disklingum. Enn fremur er áformað að á heimasíðu NOSOSKO verði ávallt að finna ákveðnar upplýsingar um heilbrigðismál og lífeyristryggingar á Norðurlöndum.
    Í tengslum við sumarfund nefndarinnar var haldin sérstök afmælisráðstefna í Ósló þann 21. júní 1996 vegna 50 ára afmælis NOSOSKO. Á ráðstefnunni var lögð fram skýrsla um starfsemi NOSOSKO í 50 ár og þau verkefni sem eru framundan á starfssviði nefndarinnar.
    Í lok október stóð NOSOSKO fyrir námskeiði í Vilnius í Litáen fyrir starfsmenn hagstofa og ráðuneyta í Eystrasaltslöndunum. Í þetta sinn var auk almennra vandamála við hagsýslugerð fjallað um ESSPROS-kerfið og hlutverk þess í samvinnu Evrópuþjóða á næstu árum.
    Guðjón Hansen, tryggingafræðingur, sem starfað hefur í NOSOSKO frá 1957 og verið formaður íslensku nefndarinnar hart nær 30 ár, lét af störfum eftir áratuga farsælt starf.
    
9.1.6. Norræna nefndin um málefni fatlaðra (NNH).
    NNH er samstarfs- og fagstofnun um málefni fatlaðra og ber ábyrgð á stefnumótun og samhæfingu í þeim málefnum og að tryggja réttindi fatlaðra í samfélaginu.
     Í stjórn NNH eru tveir fulltrúar frá hverju landi Norðurlanda, svo og áheyrnarfulltrúi frá Færeyjum, Grænlandi, Álandseyjum og norrænum samtökum fatlaðra. Fulltrúar Íslands eru Björk Pálsdóttir iðjuþjálfi, Tryggingastofnun ríkisins, og Ásta B. Þorsteinsdóttir, fyrrverandi formaður Landssamtaka Þroskahjálpar. Þrír fundir voru haldnir á árinu.
    Fjárveiting til NNH á árinu 1996 var 4,4 millj. sænskra króna, 2,4 millj. finnskra marka til Nordisk utvecklingscenter för handikapphjalpmedel (NUH) sem er stofnun á vegum NNH og 1,6 millj. sænskar krónur til styrkja til norrænnar samvinnu félaga fatlaðra.
     Helstu verkefni NNH á árinu 1996. Starfsemi NNH á árinu 1996 einkenndist af fyrirhugaðri skipulagsbreytingu starfseminnar, sem mun taka gildi frá og með 1997.
    Helstu verkefni á árinu eru á sviði aðgengismála í samfélaginu, almenningssamgangna, jafnréttis og réttaröryggis fatlaðra, framhaldsmenntunar fatlaðra, hjálpartækja og styrkveitinga til norrænnar samvinnu félaga fatlaðra. Nefna má sem dæmi um styrkveitingar frá NUH til íslensks fyrirtækis, Hugfangs ehf., sem fékk 270 þús. norskra króna í styrk til þróunar á nýju tjáskiptahjálpartæki. Sex fundir af 55 í norrænni samvinnu félaga fatlaðra voru haldnir á Íslandi á árinu.
    Þrjár norrænar ráðstefnur voru á vegum NNH á árinu, um almenningssamgöngur (einn þátttakandi frá Íslandi), um réttaröryggi (tveir þátttakendur frá Íslandi, þar af einn fyrirlesari) og um framhaldsmenntun fatlaðra (tveir þátttakendur frá Íslandi, þar af einn fyrirlesari).
    
9.1.7. Norræna menntastofnunin fyrir starfsfólk sem vinnur með daufblindum (NUD).
    NUD er menntastofnun sem sér um námskeið og ráðstefnur fyrir starfsfólk sem vinnur með daufblindum.
    Stjórn NUD er sú sama og stjórn NNH og stjórnarfundir eru á sama tíma og stjórnarfundir NNH. Tveir fundir voru á árinu 1996.
    Fjárveiting til NUD 1996 var 5.757 þús. sænskar krónur.
    Sérstakt skólaráð er skipað til tveggja ára í senn og situr einn fulltrúi frá hverju landi. Fulltrúi Íslands er Anna Soffía Óskarsdóttir sérkennari, Þjálfunarskóla ríkisins. Tveir fundir voru í skólaráðinu 1996.
    Sérstök áhersla var lögð á námskeið og ráðstefnur með þátttöku daufblindra og aðstandenda þeirra. Átta námskeið og ráðstefnur voru á vegum NUD á árinu 1996. Tuttugu þátttakendur voru frá Íslandi á námskeiðum og ráðstefnum á árinu og þar af voru þrír daufblindir, en umsækjendur voru tuttugu og níu.
    
9.1.8. Norðurlandasamningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna.
    Norðurlandasamningur sá er hér um ræðir var undirritaður í Arjeplog í Finnlandi í júní 1993 og var hér um að ræða endurskoðaðan eldri samning, frá 25. ágúst 1981, um heilbrigðisstéttir og dýralækna. Endurskoðun fór fram vegna EES-samnings og miðaðist fyrst og fremst við að taka út úr samningnum ákvæði sem voru í andstöðu við hann.
    Samningurinn fjallar um gagnkvæmar viðurkenningar prófskírteina ákveðinna starfsstétta innan heilbrigðisþjónustunnar og dýralæknaþjónustunnar og á að tryggja aðgang norrænna ríkisborgara að norrænum vinnumarkaði á þessum sviðum.
    Aðilar samningsins töldu að þrátt fyrir samning frá 2. maí 1992 um Evrópska efnahagssvæðið þá verði áfram þörf á norrænum reglum um viðurkenningu starfsgreina. Í fyrsta lagi að því er varðar sérgreinar sem EES-reglur ná ekki til. Í öðru lagi að því er varðar einstaklinga er hlotið hafa menntun sína í þriðja landi og í þriðja lagi vegna norrænna ríkisborgara sem ella hefðu lakari möguleika á að stunda starfsgrein sína í öðru norrænu landi. Samningurinn er því í raun og hefur á árinu 1996 verið í stöðugri endurskoðun og Norðurlöndin ræða á þessum vettvangi þau vandamál sem upp koma vegna hins sameiginlega vinnumarkaðar. Eftirlitsnefndin er auk þess vettvangur kvartana sem fram koma um meint brot á samningnum og kvartana vegna framkvæmdar hans að öðru leyti. Samningurinn gildir nú á Íslandi um: lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga, lyfjafræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, ljósmæður, sjóntækjafræðinga, sálfræðinga, aðstoðarlyfjafræðinga, röntgentækna, tannfræðinga, aðstoðarmenn tannlækna, sjúkraliða, dýralækna og hnykkja.
    Eftirlitsnefndin hefur auk framangreinds unnið að því á árinu 1996 að endurskoða samninginn með tilliti til þess að fjölga þeim heilbrigðisstéttum sem undir samninginn heyra. Nefndin hefur í því skyni borið saman nám ýmissa heilbrigðisstétta sem nú eru ekki í samningnum og liggja nú fyrir drög að breytingu á samningnum sem unnið verður frekar að á árinu 1997.
    Eftirlitsnefndin tekur saman tölulegar upplýsingar um flutning heilbrigðisstétta milli Norðurlandanna svo og um fjölda innritaðra og útskrifaðra nemenda á þeim sviðum sem undir samninginn heyra. Nefndin fylgist auk þess með framkvæmd á tilkynningarskyldu vegna sviptinga eða takmarkana starfsleyfa á Norðurlöndum.

9.1.9. Samningur um félagslega þjónustu.
    Norðurlandasamningur um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu tók gildi 1. október sl. Verið er að prenta ítarlegar leiðbeiningar með honum á öllum Norðurlandamálum og hefur Ísland tekið þátt í samningu þeirra leiðbeininga.
    
9.2. Neytendamál.
    Í byrjun árs 1996 var í Fredensborg í Danmörku haldinn fundur norrænna ráðherra sem fara með neytendamál. Á fundinum var formlega samþykkt áætlun um neytendafræðslu í skólum og voru ráðherrar sammála um mikilvægi þess að stjórnvöld tryggðu sem best að stuðst verði við áætlunina í skólastarfi á Norðurlöndum. Ráðherrarnir samþykktu einnig stefnuyfirlýsingu um samþættingu umhverfissjónarmiða við neytendamál. Í henni kemur fram að Norðurlönd eigi að taka í ríkari mæli mið af því hversu umhverfisvænar vörur eru þegar innkaup eru ákveðin. Ráðherrar staðfestu einnig mikilvægi þess að samvinna eigi sér stað milli Norðurlandanna og ýmissa ríkja í Austur-Evrópu (einkum Eistlands, Lettlands og Litáen).
    Norræna embættismannanefndin hefur einnig unnið að því að hrinda í framkvæmd ákvörðun ráðherra um að efla beri rannsóknir á sviði neytendamála. Ráðinn hefur verið sérfræðingur sem mun veita faglega ráðgjöf við val á styrkumsóknum en ráðgert er að veita þrjá styrki árlega til einstaklinga sem hyggjast stunda rannsóknir í þágu neytendamála að loknu meistaraprófi frá háskóla.
    Ráðstefna um velferðarþjóðfélagið var haldin á Íslandi í júní 1996 og á meðal frummælenda voru fulltrúar sem töluðu fyrir sjónarmiðum neytenda á Norðurlöndum.
    Á árinu hafa samskipti við ESB verið á dagskrá ráðherranefndarinnar svo og norrænu embættismannanefndarinnar. Tillaga að breytingu á 129. gr. A. í Maastricht-sáttmálanum hefur verið rædd og áhersla hefur verið lögð á að Norðurlöndin sem aðild eiga að ESB standi vörð um hagsmuni neytanda á ríkjaráðstefnu ESB.
    Málefni neytenda er einmitt einn þeirra málaflokka í norrænni samvinnu þar sem samvinna ríkjanna hefur verið hvað nánust og samstarfið á árinu 1996 hefur sem fyrr verið einkar árangursríkt.
    
9.3. Norrænn vinnumarkaður.
Samstarfið á vinnumálasviðinu.
    Embættismannanefndin á vinnumálasviðinu ákvað á fundi sínum í Helsinki í nóvember sl. nýtt skipulag fyrir samstarf Norðurlandanna um vinnumál en sérstakur starfshópur hefur unnið að þessari endurskipulagningu síðan í ágúst 1995. Embættismannanefndin ákvað einnig á fundinum að setja á laggirnar vinnuhóp til að skoða samstarfssamninga Norðurlandanna á vinnumarkaðssviðinu.
    Samstarfið á vinnumálasviðinu á árinu 1996 hefur þannig mótast mikið af umræðum um endurskipulagningu á störfum norrænu vinnumálanefndanna, þar sem megináhersla er lögð á gagnsemi samstarfsins fyrir Norðurlönd og þríþættingu samstarfsins. Í fyrsta lagi innra samstarf Norðurlanda í vinnumálum, í öðru lagi vinnumálasamstarf við grannsvæði Norðurlanda, þ.e. Eystrasaltsríkin, Norðvestur-Rússland og Austur-Evrópu, og í þriðja lagi Evrópusamstarf um atvinnumál, vinnuréttarmál, vinnuumhverfismál og vinnumarkaðsmál.
    Velferðarráðstefnan í Reykjavík 11. júní sl. og niðurstöður hennar hafa haft mikla þýðingu fyrir vinnumálasamstarfið á árinu.
    
Skipulag norræna vinnumálasamstarfsins.
    Nýja skipulagið, sem tekur gildi 1. janúar 1997, leysir af hólmi eldra skipulag sem er frá því í janúar 1992. Líta verður á þessar breytingar sem fyrsta stigið í aðlögun að breyttum áherslum í norrænu samstarfi. Breytingarnar fela fyrst og fremst í sér að fastanefndum og samskiptanefndum um einstök málefnasvið fækkar en verkefnabundnum starfshópum fjölgar. Hlutverk embættismannanefndarinnar (EK-A), sem skipuð er einum fulltrúa frá hverju landi, er að mestu óbreytt en beint stjórnunarhlutverk hennar eykst. Nefndinni er ætlað að vera stefnumarkandi í vinnumálum.
    Undir embættismannanefndina heyra nú fimm fastanefndir, tveir verkefnahópar og tveir samskiptahópar. Auk þess heyrir ein stjórnarnefnd stofnunar, þ.e.a.s. NIVA, undir embættismannanefndina. Vinnumarkaðsnefndin og vinnumarkaðsrannsóknarnefndin verða sameinaðar í eina vinnumarkaðsnefnd frá og með 1. janúar 1997 auk þess sem ýmsar samskiptanefndir hafa verið lagðar niður a.m.k. tímabundið. Fastanefndirnar eru skipaðar sérfræðingum til að fjalla um einstaka málaflokka. Þetta eru nefndir um atvinnu- og vinnumarkaðsmál, vinnuverndarmál, vinnuverndarrannsóknir, vinnuréttarmál og atvinnulíf og um fólksflutninga. Í stað sérstaks stýrihóps, sem samræmdi störf nefndanna og undirbjó fundi embættismannanefndarinnar í samráði við Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar, kemur sérstök samskiptanefnd með mun færri verkefni en auk undirbúnings fyrir fundi embættismannanefndarinnar sér hún um vinnumálasamskipti við grannsvæði Norðurlanda. Það land sem hefur formennsku hverju sinni mun hins vegar koma sérstaklega að undirbúningi fundanna.
    Nefndirnar hafa allar gert nákvæma grein fyrir hlutverkum sínum og verkefnum í sérstökum stefnu- og verkefnaskjölum.
    Enn fremur eru starfandi starfshópar um afmarkaðri verkefni. Einn slíkur er NIAL sem sér um „Informationsprojektet“, sem er fjölbreytt upplýsingaútgáfa á mörgum sviðum vinnumála. Á vegum þessa verkefnis er m.a. tímaritið „ARBETSLIV I NORDEN“. Þá er einnig starfshópur um evrópsk vinnumál og sérstakur samskiptahópur um vinnumarkaðsþjónustu.
    
Vinnumiðlunarsamstarf.
    Vinnumarkaðsnefndin hefur leitast við að endurskipuleggja starfsemi sína á árinu. Meðal verkefna sem heyra undir þessa nefnd eru vinnumiðlun, atvinnuleysistryggingar og starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Á árinu var kynnt skýrsla um sérstaka athugun á því hvernig framkvæmd og reglur um norrænan vinnumarkað samræmdust reglum um evrópskan vinnumarkað, EES-samningnum og EURES-vinnumiðlunarkerfinu og hvaða afleiðingar EES-samstarfið hefur haft fyrir norrænt vinnumarkaðssamstarf. Fjallað var um skýrsluna og norrænt vinnumiðlunarsamstarf á ráðstefnu í Helsinki 26.–27. nóvember sl.
    Nefndin hélt einnig tvær ráðstefnur á árinu um málefni veikra hópa á vinnumarkaði. Sú fyrri var haldin í Noregi í apríl sl. og fjallaði almennt um stöðu veikra hópa á vinnumarkaði en sú seinni, sem haldin var í Svíþjóð í júní sl., fjallaði um stöðu innflytjenda á vinnumarkaði.
    Eitt helsta verkefni á vegum vinnumarkaðsnefndarinnar er NORDJOBB sem byggist á atvinnuskiptum ungs fólks milli Norðurlandanna en Norræna félagið hefur annast þessi samskipti fyrir Ísland og hefur hlutur Íslands jafnan verið stór í þessu verkefni. Á árinu hafa 271 íslensk ungmenni farið í vinnu á Norðurlöndum á vegum NORDJOBB með einhverjum hætti og 105 norræn ungmenni hafa komið til vinnu á Íslandi.
    NORDPRACTIC er sambærilegt verkefni fyrir Eystrasaltslöndin á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og hafa fimm einstaklingar komið frá Eystrasaltsríkjunum á þessu ári.
    Á árinu hefur verið unnið að því að auka upplýsingaflæði milli Norðurlandanna bæði um norrænan vinnumarkað og EES-vinnumarkaðinn með sérstakri útgáfustarfsemi.
    
Starfsmenntun.
    Annað stórt verkefni á vegum vinnumarkaðsnefndarinnar sem lauk á árinu er samstarfsverkefnið um starfs- og endurmenntun í atvinnulífinu.
    Sérstakur starfshópur NAMU hefur haft yfirumsjón með samstarfsverkefni um starfsmenntun í atvinnulífinu sem hófst árið 1992 og er hlutverk þess að gefa Norrænu ráðherranefndinni skýrslu um starfsmenntun í atvinnulífinu á Norðurlöndum og gera tillögur að nýju skipulagi og áherslum í starfsmenntun. Skýrslan sem kom út í desember byggist á fjórum meginviðfangsefnum. Í fyrsta lagi er um að ræða breytt verkefni starfsmenntunar í atvinnulífinu og aðlögun hennar að nýjum viðfangsefnum, í öðru lagi starfsmenntun í fyrirtækjum þar sem þörf er á samstarfi atvinnulífs og fræðsluyfirvalda, í þriðja lagi hvernig hægt er að öðlast aukna starfshæfni með starfsmenntun og í fjórða lagi áhrif nýrrar tækni.
    Auk starfshópsins hafa tekið þátt í samstarfinu fulltrúar frá stjórnsýsluaðilum sem vinna að starfsmenntun í atvinnulífinu á Norðurlöndunum, á Íslandi eru þetta starfsmenntaráð félagsmálaráðuneytisins auk starfsmanna Vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins.
    Verkefninu lauk með ráðstefnu á Borgundarhólmi 29.–30. ágúst sl. með þátttöku aðila vinnumarkaðarins.
    
Atvinnuleysistryggingar.
    Norrænt samstarf vegna atvinnuleysistrygginga hefur farið fram í tveim nefndum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, norrænum samstarfshóp um atvinnuleysistryggingar og fastanefnd vegna ráðstefna um atvinnuleysistryggingar auk þess sem þessi málefni hafa heyrt undir vinnumarkaðsnefndina.
    
Atvinnuleysi ungs fólks.
    Verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar „Áætlun gegn atvinnuleysi ungs fólks“, sem hófst í ársbyrjun 1994, lauk í ársbyrjun 1996 með námsstefnu í Helsingfors um hvað hafi breyst í atvinnumálum ungs fólks og árangur af aðgerðum gegn atvinnuleysi ungs fólks á tímabilinu 1994–1996. Tilgangur verkefnisins var að dreifa þekkingu um árangursríkar hugmyndir og aðgerðir gegn atvinnuleysi ungs fólks og draga úr og fyrirbyggja afleiðingar af atvinnuleysi ungs fólks.
    Gefnar hafa verið út fjölmargar skýrslur tengdar verkefninu. Haldnar hafa verið fjórar ráðstefnur auk fjölmargra rannsóknarverkefna vegna þessa verkefnis á tímabilinu 1994–1996. Starfsmenn Vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins, vinnumiðlana o.fl. hafa haldið erindi á þessum ráðstefnum og að öðru leyti tekið virkan þátt í þessu verkefni.
    
Vinnumarkaðsrannsóknir.
    Nefndin um vinnumarkaðsrannsóknir hefur haft umsjón með öllum verkefnum sem tengjast atvinnuleysi ungs fólks sem áður voru nefnd. Á vegum nefndarinnar lauk einnig á árinu verkefni, sem hófst árið 1995, um samanburðarrannsókn á launamyndun á Norðurlöndum með áherslu á greiningu sveigjanleika raunlauna í ólíkum löndum. Gert er ráð fyrir að umfjöllun á ráðstefnu um verkefnið verði tekin saman í lokaskýrslu á árinu.
    Annað verkefni sem lauk á árinu er verkefnið „Á leið út af vinnumarkaðnum“. Verkefnið hófst árið 1993 og tilgangur þess var að skoða breytinguna sem verður þegar fólk fer á eftirlaun. Enn fremur er unnið að lokaskýrslu um samanburð á einkavinnumiðlun og opinberri vinnumiðlun. Þá hafa verið gefnar út nokkrar skýrslur um verkefni sem lauk á fyrra ári eins og um nýjan vinnumarkað, um orlofsfyrirkomulag á Norðurlöndum og um norræna leið í vinnumarkaðsmálum en sú skýrsla var kynnt á velferðarráðstefnunni í Reykjavík 11. júní sl.
    Þau verkefni sem einkum eru í gangi á vegum nefndarinnar nú eru fólksflutningar milli landshluta á Norðurlöndum, um virkni vinnumiðlana en á vegum þess verkefnis var haldin ráðstefna í Stokkhólmi með þátttöku vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins og Vinnumiðlunar Reykjavíkur.
    Nefndin gefur árlega út árbækur annars vegar um vinnumarkaðsrannsóknir á Norðurlöndum og hins vegar um stöðu og þróun vinnumarkaðar á Norðurlöndum.
    
Vinnuréttur og atvinnulíf.
    Norræna samstarfsnefndin um vinnurétt og atvinnulíf hefur það meginhlutverk að stuðla að samstarfi Norðurlandanna á fyrrgreindum sviðum. Nefndin tekur nú sérstaklega á þeim málum sem eru mest í deiglunni og ekki síst vaxandi þýðingu alþjóðavæðingar fyrir vinnurétt og atvinnulíf á Norðurlöndunum.
    Vinnuréttarnefndin hefur þannig lagt áherslu á að fjalla um áhrif nýrra tillagna á sviði vinnuréttarmála sem hafa verið til umfjöllunar hjá Evrópusambandinu og framkvæmd annarra tillagna sem þegar hafa verið samþykktar af Evrópusambandinu og fyrirhugað er að nái til Evrópska efnahagssvæðisins. Í öðru lagi hefur verið rík áhersla á samstarf við aðila vinnumarkaðarins ekki síst um vinnuréttartilskipanir Evrópusambandsins. Umfjöllunin hefur einnig náð til annarra þátta vinnumálasamstarfsins á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi, svo sem á vegum Evrópuráðsins, Evrópudómstólsins, ILO, OECD og WTO.
    Haldin var lokaráðstefna á vegum NordFram II verkefnisins í Roskilde 22.–24. nóvember sl., þar sem aðilum vinnumarkaðarins og félagsvísindamönnum gafst kostur á að ræða niðurstöður NordFram-verkefnisins en verkefnið lýtur að ýmsum félagslegum þáttum vinnunnar og skipulagi hennar.
    
Vinnuvernd.
    Norræna samstarfsnefndin um vinnuvernd hefur það hlutverk að vinna að samræmingu reglna um vinnuvernd og staðla er lúta að vinnuvernd. Nefndin úthlutar einnig fjármunum til sérstakra verkefna á sviði vinnuverndar.
    Meðal verkefna eru fundir til að samræma reglur og eftirlit á ýmsum sviðum, þróunarverkefni af ýmsu tagi, samræmd þátttaka í staðlasamstarfi í Evrópu og norrænar ráðstefnur um eftirlitsmálefni, samráðsfundur forstjóra vinnueftirlitanna á Norðurlöndum og fundir samstarfsnefndar um aðstoð við Eystrasaltsríkin. Af einstökum verkefnum má nefna samnorræna rannsókn í umsjón Vinnueftirlitsins á vinnuframlagi barna og ungmenna.
    
Vinnuverndarrannsóknir.
    Hlutverk norrænnar samstarfsnefndar um vinnumarkaðsrannsóknir er að vinna að samræmingu rannsókna og að sameiginlegum rannsóknarverkefnum. Nefndin styrkir einnig rannsóknir á sviði vinnuverndar.
    Meðal verkefna sem nefndin styrkir og Vinnueftirlitið tekur þátt í eru ráðstefna sem haldin er einu sinni á ári um niðurstöður rannsókna á sviði vinnuverndar og norræn sérfræðinganefnd um mengunarmörk á vinnustöðum.
    
NIVA (Nordisk institution for videreutdanning inom arbeidsmiljöområdet).
    Stofnunin er í Finnlandi og heldur námskeið fyrir sérfræðinga á þessu sviði. Vinnueftirlitið hefur notið góðs af þessum námskeiðum og stórum hluta af endurmenntun starfsmanna er fullnægt með þessum hætti. Þátttaka Íslendinga er sérstaklega styrkt eða um allt að 2/3 hlutum af kostnaði.
    
9.4. Starfsmannaskipti á Norðurlöndum.
    Starfsmannaskiptin voru með óbreyttu sniði á árinu 1996 frá því sem var á fyrra ári. Hlutdeild Íslendinga í heildarfjárveitingunni nam 82.500 danskra króna (5%) að viðbættri aukafjárveitingu vegna aukins ferðakostnaðar. Styrkþegar voru þrír talsins og hlaut hver styrk til fjögurra mánaða dvalar, auk greiðslu ferðakostnaðar. Styrkþega er getið í greinargerð fjármálaráðuneytisins til Skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda um styrkveitingar hverju sinni.
    Skipulagsbreytingar sem gerðar hafa verið á skrifstofu ráðherranefndarinnar hafa haft áhrif á starfsemi starfsmannaskiptanna. Þau munu frá 1. nóvember 1996 heyra undir menningarmála-, rannsókna- og menntamáladeild (svonefnd fagafdeling 1) en á þeirri deild hvílir nú meginþungi starfsemi ráðherranefndarinnar.
    Um nokkurra ára skeið hefur starfsmannaskiptanefndin fylgst nokkuð með KAROLUS-áætlun Evrópusambandsins sem lýtur að starfsmannaskiptum með líkum hætti. Núverandi áætlun mun ljúka við árslok 1997 en unnið er að endurnýjun og endurbótum á henni.
    Fyrir eindregin tilmæli starfsmannaskiptanefndarinnar verður starfseminni haldið óbreyttri árið 1997. Nefndarmenn urðu á fundi í september 1996 sammála um að breyta skiptingu fjárins þannig að hlutur Svía lækki um tæplega 3% (úr 33% í 30,3%) Því fjármagni sem losnar með þessum hætti verður varið til að efla aðstöðu Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga en þeir búa við hlutfallslega hæstan ferðakostnað eins og kunnugt er.
    
9.5. Norræna embættismannanefndin um jafnréttismál (ÄK-JÄM).
    Norrænt samstarf á sviði jafnréttis kvenna og karla byggir á norrænni samstarfsáætlun sem tekur til tímabilsins 1995 til 2000. Jafnréttisráðherrar Norðurlanda héldu einn fund á árinu og embættismannanefndin fjóra.
    
Norræn samstarfsáætlun á sviði jafnréttismála.
    Samstarfsáætlunin var samþykkt í byrjun ársins 1995 og gildir til ársins 2000. Markmiðið með samstarfi Norðurlanda í jafnréttismálum er:
     —    að samstarfið leiði til þess að haldið verði áfram að þróa sameiginlega lífssýn Norðurlandaþjóða, svo og sameiginlega stefnu þeirra í víðara samstarfi innan Evrópu og á alþjóðavettvangi,
     —    að samstarfið stuðli að árangursríkara og öflugra jafnréttisstarfi á innanlandsvettvangi í hverju og einu Norðurlandanna,
     —    að það verði sjálfsagt að gæta jafnréttissjónarmiða í starfi á mismunandi sviðum stefnumótunar í þjóðfélaginu; einnig skal gæta jafnréttissjónarmiða á þeim sviðum stefnumótunar sem starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar tekur til.
    
    Ráðherranefndin mun á gildistíma áætlunarinnar beina samstarfi sínu að starfsemi sem:
     —    stuðlar að því að konur og karlar fái jafnan aðgang að ákvarðanatöku í stjórnmálum og efnahagsmálum,
     —    stuðlar að jafnri stöðu og áhrifum kvenna og karla í efnahagsmálum; aðgerðir sem stuðla að launajafnrétti kynja eru mikilvægar í slíku starfi,
     —     stuðlar að jafnri stöðu kynjanna í atvinnulífinu,
     —    gefur konum og körlum bætt tækifæri til að sameina foreldrahlutverk og launavinnu,
     —     hefur áhrif á þróun jafnréttismála innan Evrópu og á alþjóðavettvangi.
    
    Í því skyni að ná árangri með starfi sínu á sviði forgangsverkefnanna mun ráðherranefndin vinna að:
     —     þróun aðferða sem stuðla að virku jafnréttisstarfi.
    
    Aðferð, sem ráðherranefndin leggur einkar ríka áherslu á, er að jafnréttissjónarmiða sé gætt á öllum sviðum stefnumótunar, í nánasta umhverfi, í sveitarstjórnum, við stjórn landa og í norrænu samstarfi. Aðrar áhrifaríkar aðferðir eru gerð hagtalna um konur og karla, kvenna- og jafnréttisrannsóknir, menntun í jafnréttismálum ásamt upplýsinga- og fræðslustarfsemi.
    
Verkefni samkvæmt samstarfsáætlun.
    Norræn ráðstefna: „Konur, vinna og efnahagsmál“. Ráðstefnan verður haldin í Reykjavík í apríl 1997 og er undirbúningur hennar í höndum starfshóps sem skipaður er fulltrúum landanna fimm, ásamt fulltrúum frá norrænu vinnumálanefndinni. Efnahagsleg völd og áhrif kvenna og karla er eitt meginviðfangsefni norrænu samstarfsáætlunarinnar. Virk þátttaka á vinnumarkaðnum hefur til þessa verið talin meginforsenda áhrifa og valda. Með ráðstefnunni vill ráðherranefndin leggja sitt af mörkum til umræðunnar um stöðu kvenna á síbreytilegum vinnumarkaði og möguleika þeirra til efnahagslegra áhrifa og valda. Rétturinn til vinnu og réttlátra launa annars vegar og styrkurinn sem felst í margbreytileika kvenna sem eru á vinnuamarkaðinum eru tvö meginþemu ráðstefnunnar. Á ráðstefnunni verður einnig sótt þekking og reynsla til Evrópu.
    Bókin „Halva makten — nordiska kvinnor på väg“. Með bókinni er ætlunin að fylgja eftir því verki sem hófst með útgáfu bókarinnar „Den ofärdiga demokratin“ en hún kom út árið 1983. Tilgangur verkefnisins er að lýsa stöðu kvenna á Norðurlöndum hvað varðar völd og áhrif og hvernig norrænar konur og stjórnvöld í hverju landi hafa náð þeim árangri sem raun er. Í ritinu verður m.a. fjallað ítarlega um ábyrgð, skipulag og þátttöku stjórnvalda og opinberra stofnana í jafnréttismálum og hvernig samvinna frjálsra félagasamtaka og stjórnvalda hefur þróast. Í verkinu taka þátt konur frá öllum Norðurlöndunum og er stefnt að útgáfu hennar í lok ársins 1997.
    Karlar og jafnrétti kynja. Eins og rakið hefur verið stóð Norræna ráðherranefndin fyrir ráðstefnu undir yfirskriftinni „Norrænir karlmenn. Ólíkir einstaklingar — áþekk reynsla“ í Stokkhólmi í apríl 1996. Þátttakendur voru um 600 manns, þar af 35 frá Íslandi. Formaður karlanefndar Jafnréttisráðs var fulltrúi Íslands í undirbúningshóp ráðstefnunnar. Í lok hennar samþykkti undirbúningshópurinn áskorun til ráðherranefndarinnar um frekari aðgerðir á þessu sviði. Jafnréttisráðherrar Norðurlanda tóku undir þá áskorun en í yfirlýsingu þeirra kom fram að nauðsynlegt væri að Norðurlöndin sýndu frumkvæði í rannsóknum á stöðu karla og hlutverki þeirra að auknu jafnrétti kvenna og karla. Tryggja verði að ráðstefnan verð ekki einangrað fyrirbæri og boðskap hennar yrði að flytja á vettvang samvinnu Evrópuríkja og Sameinuðu þjóðanna.
    Til að vinna að þessu málefni var ákveðið að fela starfshópi, skipuðum fulltrúum allra Norðurlanda, að vinna drög að norrænni framkvæmdaáætlun til fjögurra ára, tímabilið 1997 til 2001, um aðgerðir sem hefðu það að markmiði að auka þátt karla í vinnunni að jafnrétti kynja. Vinnan er nú á lokastigi og er stefnt að því að jafnréttisráðherrar Norðurlanda afgreiði áætlunina á næsta ári.
    Jafnréttissjónarmið á alla þætti samfélagsins. Eitt af forgangsverkefnunum samkvæmt samstarfsáætluninni er að þróa og prófa aðferðir og tæki sem stuðla að því að jafnréttissjónarmiða sé gætt á öllum stjórnsýslustigum landanna við alla málaflokka. Hið sama á við um samstarfsvettvang Norðurlanda. Til þess að stuðla að slíkri þróun aðferða hófst á árinu undirbúningur að norrænu verkefni sem byggist á hugmyndum um „mainstreaming“. Ráðinn var norrænn verkefnisstjóri sem hefur störf í byrjun næsta árs.
    Markmiðið með verkefninu er að þróa aðferðafræði og tæki til þess að gera sjónarmið kynjajafnréttis miðlæg í allri almennri stefnumótun. Verkefnið nær til tveggja málaflokka, til starfs og stefnumótunar í málum ungmenna og til starfs og stefnumótunar í vinnumarkaðsmálum. Verkefnið er til þriggja ára og mun ná til allra Norðurlandanna og Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar.
    Verkefnið byggist á þeirri forsendu að æðsta stjórn í viðkomandi málaflokki hafi góða vitneskju og innsýn í jafnréttismál. Því er mikilvægt að safnað verði upplýsingum um stöðu kvenna og karla í viðkomandi málaflokki. Þær upplýsingar verði ásamt öðrum markmiðum málaflokksins lagðar til grundvallar allri stefnumótun. Fræðsla til tiltekinna lykilpersóna er grundvallaratriði, svo og að gefa út upplýsingaefni og koma því á framfæri þar sem við á. Undirbúningur verkefnisins hófst haustið 1996. Meginþungi vinnunnar verður á árunum 1997–1998. Síðan verður verkefnið metið og lokaskýrsla skrifuð á árinu 1999.
     Norrænt fréttabréf um jafnréttismál. Á árinu hófst útgáfa norræns fréttabréfs um jafnréttismál. Tilgangur þess er að miðla fréttum um jafnréttisstarfið á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og á vegum Norðurlandanna. Fréttabréfið er gefið út á finnsku, íslensku, skandinavísku og á ensku í 3000 eintökum, þar af eru 200 einstök á íslensku. Stefnt er að útgáfu þriggja blaða á ári. Jafnframt hefur verið ákveðið að í lok ársins 1997 verði metið gildi þess að gefa út sérstakt norrænt fréttabréf um jafnréttismál.
    
Önnur verkefni.
         Norræn rannsóknarstofnun í kvenna- og jafnréttisfræðum, NIKK. Norræn rannsóknarstofnun í kvenna- og jafnréttisfræðum var stofnuð á árinu 1995. Rannsóknarstofnunin, sem er þverfagleg, hefur aðsetur í Ósló. Stjórnin er skipuð fulltrúum frá hverju hinna norrænu landa. Hlutverk norrænu rannsóknarstofnunarinnar er að samhæfa norrænar kvenna- og jafnréttisrannsóknir, byggja upp gagnagrunn um rannsóknir á þessu sviði, samræma gagna- og upplýsingaþjónustu á Norðurlöndum og skipuleggja og standa fyrir ráðstefnum og námskeiðum fyrir fræðikonur/menn. Á stofnuninni skal vera aðstaða til að halda námskeið fyrir fræðimenn og nemendur og aðstaða fyrir gestafræðimenn. Einnig skal rannsóknarstofnunin skipuleggja og veita aðstöðu vegna stúdenta- og fræðimannaskipta.
    Helstu verkefni NIKK á þessu ári hafa verið að kynna stofnunina, bæði á norrænum og alþjóðlegum vettvangi. Í því skyni hefur verið lögð áhersla á útgáfu fréttabréfa bæði á norrænu máli og á ensku. Einnig hefur verið lögð áhersla á að byggja upp kynningu á alnetinu. Vinna við gerð fyrstu rannsóknaráætlunar stofnunarinnar er á lokastigi en NIKK hefur bæði átt frumkvæði að og tekið þátt í nokkrum rannsóknarverkefnum.
    Ráðstefnan „FRØ og FRUKTER“ var haldin í Ósló dagana 21.–23. nóvember 1996. Hún var samvinnuverkefni samtaka um norrænar kvennarannsóknir og NIKK og sú stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndum, með yfir 600 þátttakendur. Íslenskir fræðimenn taka virkan þátt en 27 manns sóttu ráðstefnuna héðan. Á ráðstefnunni var horft yfir sviðið og uppskera rannsókna á sviði kvenna- og jafnréttisfræða metin. Það var einnig spurt um framtíðina — hverju eigi að sá.
    Rannsóknarstofnunin hefur þegar haft mikil áhrif á þátttöku Íslendinga í norrænu rannsóknarsamstarfi. Nú þegar taka nokkrar íslenskar fræðikonur þátt í norrænum fræðiverkefnum og fleiri verkefni með þátttöku okkar Íslendinga eru í undirbúningi. Stofnunin er tengiliður við ýmis alþjóðasamtök og stofnanir og hefur sem slík orðið til að auka alþjóðlegt samstarf og styrkja tengsl við erlenda fræðimenn og stofnanir.
     Baltnesk/norræn jafnréttisráðstefna árið 1997. Undirbúningur að baltneskri/norrænni jafnréttisráðstefnu hófst á árinu en ráðstefnan er eitt verkefna innan samstarfsáætlunar Norðurlanda við Eystrasaltsríkin sem samþykkt hefur verið. Skipuð hefur verið 15 manna undirbúningsnefnd þar sem öll norrænu löndin, sjálfsstjórnarlöndin þrjú, Eystrasaltsríkin, Norðurlandaráð og fleiri eiga fulltrúa. Hlutverk undirbúningsnefndar er að vinna dagskrá og sjá um annan faglegan undirbúning en minni stjórnarnefnd ber ábyrgð á fjármálum og hinni daglegu vinnu. Ákveðið hefur verið að ráðstefnan verði í Valmiera í Lettlandi í ágúst 1997 og gert er ráð fyrir að hún standi í fjóra daga. Áætlaður þátttakendafjöldi er 1000 manns. Norræna ráðherranefndin mun standa fyrir tveimur minni ráðstefnum á fyrri hluta næsta árs, annarri í Eistlandi, hinni í Litáen og er það liður í undirbúningi ráðstefnunnar.
    Tilgangur ráðstefnunnar er að kalla saman konur og karla frá Eystrasaltsríkjunum og Norðurlöndum til virkrar umræðu um stöðu kynjanna í samfélagi Eystrasaltsríkjanna, um þörf lagasetningar um jafnrétti kynja, um þörf aðgerða og samstarfs milli félagasamtaka og fræðimanna í Eystrasaltsríkjunum og á Norðurlöndum um jafnrétti kynja. Nauðsynlegt er að réttur kvenna sé órjúfanlegur þáttur almennra borgaralegra réttinda og viðurkenndur sem ein forsenda almennrar lýðræðisþróunar í Eystrasaltsríkjunum.
    

10. Efnahagsmál.


10.1. Efnahags- og fjármál.
    Líkt og á undanförnum árum hefur starfsemi á sviði efnahags- og fjármálaráðherra Norðurlanda á yfirstandandi starfsári verið bæði fjölbreytt og yfirgripsmikil. Auk hefðbundinna verkefna hafa bæst við sérstök verkefni, m.a. á sviði umhverfismála, atvinnumála og samkeppnismála auk þess sem málefni Eystrasaltsríkjanna hafa hlotið mikla umfjöllun, sérstaklega í tengslum við norrænu fjárfestingaráætlunina. Í ár var rætt sérstaklega um áhrif Evrópska myntsamstarfsins (EMU), innan og utan Evrópusambandsins. Hér á eftir verður gerð grein fyrir fundum og helstu áherslum í starfi efnahags- og fjármálaráðherra Norðurlandanna á starfsárinu 1996–1997. Auk þess verður fjallað um störf ýmissa nefnda á sviði þeirra, helstu verkefni og greinargerðir.
    
Ráðherrafundir.
    Efnahags- og fjármálaráðherrar Norðurlandanna héldu þrjá fundi á árinu 1996. Í maí héldu ráðherrarnir óformlegan fund í París í tengslum við ráðherrafund OECD-ríkjanna þar sem rætt var um undirbúning ráðherrafundar EFTA- og ESB-ríkjanna. Í lok maímánaðar funduðu ráðherrarnir aftur og að þessu sinni í Finnlandi í tengslum við ársfund Norræna fjárfestingarbankans. Á fundinum var fjallað um efnahagshorfur og helstu viðfangsefni hagstjórnar á Norðurlöndunum, áhrif Evrópska myntsamstarfsins (EMU), atvinnumál og ýmsar aðgerðir til að draga úr kostnaði við velferðarkerfið. Í nóvember var haldinn ráðherrafundur í Kaupmannahöfn í tengslum við fund Norðurlandaráðs. Auk umræðu um efnahagsmál og Evrópska myntsamstarfið var rætt um tillögur forsætisráðherranna um að kortleggja þær breytingar sem gerðar hafa verið á sviði velferðarmála á Norðurlöndunum.
    Megináherslur í starfi ráðherranefndarinnar á sviði efnahags- og fjármála á yfirstandandi starfsári voru eftirfarandi:
     Samstarf á sviði atvinnumála.
    Norræna fjárfestingaráætlunin fyrir Eystrasaltsríkin.
    Samkeppnisstaða Norðurlandanna.
    Stuðningur við rússnesku grannhéruðin.
    Umhverfismál.
    Starfsemi og verksvið Norræna fjárfestingarbankans.

    Auk framangreindra atriða hafa ráðherrafundirnir verið vettvangur almennrar umræðu um ástand og horfur í efnahagsmálum, bæði á Norðurlöndunum og á alþjóðavettvangi. Í nóvember kom út árleg skýrsla ráðherranna um efnahagsmál á Norðurlöndunum, Økonomiske udsigter i Norden (sjá umfjöllun um starf efnahagsnefndar fjármálaráðherra).
    
Helstu nefndir, skýrslur o.fl.
     Embættismannanefndin (EK-Finans). Nefndina skipa háttsettir embættismenn í fjármálaráðuneytum landanna, einn frá hverju landi. Verkefni nefndarinnar eru fjölþætt. Meginverkefnið er að undirbúa ráðherrafundi og vera ráðgefandi í öllum málefnum sem varða starf ráðherranna á norrænum vettvangi. Nefndin hefur þannig haft yfirumsjón með skýrslugerð og greinargerðarskrifum fyrir ráðherrafundina. Jafnframt hafa oft starfað sérstakir vinnuhópar á vegum nefndarinnar til að sinna ákveðnum verkefnum. Á árinu 1996 voru málefni Norræna fjárfestingarbankans mikið til umfjöllunar hjá nefndinni, m.a. vegna áforma um að taka upp sérstakan lánaflokk til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna. Í ársbyrjun var gefin út skýrsla þar sem fjallað er um umhverfisskatta á Norðurlöndunum (sjá umfjöllun um starf vinnuhóps á sviði umhverfismála).
     Eystrasaltsnefndin (Baltikumudvalget). Árið 1992 samþykkti Norðurlandaráð norræna fjárfestingaráætlun fyrir Eystrasaltsríkin sem miðaði að því að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum og koma á fót sérstökum fjárfestingarbönkum í þessum ríkjum. Hlutverk þessarar nefndar er að hafa eftirlit og yfirumsjón með þessu verkefni. Nefndina skipa að mestu sömu fulltrúar og sitja í embættismannanefndinni. Starf nefndarinnar hefur að mestu falist í að greiða fyrir og leitast við að tryggja framgang fjárfestingaráætlunarinnar. Í þessu skyni hefur nefndin haft náin samskipti við fulltrúa Norræna fjárfestingarbankans (NIB), Evrópubankans í London (EBRD) og Norræna verkefnaútflutningssjóðsins (Nopef). Nefndin hefur sent árlegar skýrslur til Norðurlandaráðs um stöðu og framkvæmd fjárfestingaráætlunarinnar. Á árinu 1996 var samþykkt framlenging á fjárfestingaráætluninni fram til ársins 1999.
     Efnahagsnefndin (Konjunkturgruppen). Helsta verkefni þessarar nefndar er að fjalla um ástand og horfur í efnahagsmálum, einkum á Norðurlöndum. Auk þess hefur nefndin iðulega fjallað um afmörkuð verkefni á sviði efnahagsmála sem eru ofarlega á baugi hverju sinni. Nefndin hittist tvisvar á ári og hana skipa embættismenn úr fjármálaráðuneytum landanna. Á hverju hausti skilar nefndin sérstakri skýrslu (Økonomiske udsigter i Norden) til fjármálaráðherranna sem síðan er lögð fram á þingi Norðurlandaráðs.
     Ráðgjafanefnd í gjaldeyris- og peningamálum (Nordiskt finansielt udvalg). Eins og nafnið ber með sér er nefndin ráðgefandi aðili fyrir fjármálaráðherrana í gjaldeyris- og peningamálum. Enn fremur annast nefndin undirbúning og samræmingu norrænna sjónarmiða á þessu sviði á alþjóðavettvangi, einkum fyrir fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nefndina skipa embættismenn frá fjármálaráðuneytum og Seðlabönkum landanna. Af Íslands hálfu hefur Seðlabankinn að mestu sinnt þessu starfi til þessa. Fyrirhugað er að fjármálaráðuneytið taki í meira mæli þátt í starfinu á næstunni, meðal annars í ljósi aukins vægis peninga- og lánamála í starfi ráðuneytisins.
     Norræna hagrannsóknaráðið (Nordiskt økonomiskt forskningsråd). Norræna hagrannsóknaráðið var stofnað árið 1980 að tillögu fjármálaráðherra Norðurlanda. Ráðið hefur starfað á vegum Norðurlandaráðs og heyrt undir fjármálaráðherrana. Hlutverk ráðsins er að stuðla að auknum rannsóknum á þeim þáttum efnahagslífsins sem efst eru á baugi hverju sinni á Norðurlöndunum og treysta samstarf háskólamanna og sérfræðinga sem koma að mótun og framkvæmd efnahagsstefnunnar. Í þessu skyni hefur ráðið veitt styrki til norrænna sérfræðinga, gefið út margvíslegar skýrslur um hagfræðileg efni og haldið árlega ráðstefnur um þau málefni sem talin eru mikilvægust á hverjum tíma. Ráðið hefur árlega veitt styrki til vísindamanna á þessu sviði og gengist fyrir ráðstefnum um ýmis þau málefni á sviði efnahagsmála sem efst eru á baugi hverju sinni. Enn fremur hefur ráðinu gjarnan verið falið að leggja sérstaka áherslu á tiltekin verkefni. Sem dæmi má nefna skattlagningu fyrirtækja, aðlögun Norðurlandanna að Evrópusambandinu auk sérstaks uppbyggingar- og fræðslustarfs í Eystrasaltsríkjunum. Frá árinu 1994 hefur verið lögð sérstök áhersla á athugun á samkeppnisstöðu atvinnulífs á Norðurlöndunum. Í framhaldi af því var í júní haldin ráðstefna í Noregi um samkeppnisstöðu. Nú hefur verið ákveðið að leggja hagrannsóknaráðið niður frá næstu áramótum. Þessi ákvörðun var tekin í framhaldi af tillögu nefndar sem fór yfir starfsemi norrænna stofnana með það fyrir augum að draga úr kostnaði við norræna samstarfið.
     Vinnuhópur á sviði umhverfismála (Kontaktgruppe for miljøøkonomi). Á vegum tveggja embættismannanefnda, þ.e. þeirra sem fjalla um efnahagsmál (EK-Finans) og umhverfismál (EK-Miljø), starfar sérstakur vinnuhópur sem einkum fjallar um hagrænar aðgerðir á sviði umhverfismála. Fjármálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið eiga fulltrúa í þessum hópi. Á árinu 1996 hafa komið út þrjár skýrslur á vegum hópsins. Ein er frá ráðstefnu hans í Helsinki síðastliðið vor og ber hún yfirskriftina „Environmentally Related Taxes on Energy“. Önnur inniheldur kortlagningu á umhverfisskattlagningu á Norðurlöndunum (The Use of Economic Instruments in Nordic Environmental Policy) og er þetta fjórða skýrsla hópsins um þetta efni. Að lokum er skýrsla sem ber heitið „Environmental Protection and Employment in Nordic Countries“, en hún fjallar um ýmsar norrænar rannsóknir á áhrifum umhverfisskattlagningar á vinnumarkaðinn. Meginverkefni hópsins eru þó almenn skoðanaskipti um umhverfismál út frá hagrænu sjónarmiði.
     Sérfræðinganefnd um norræn fjárlög (Budgetexpertgruppen). Hlutverk nefndarinnar er að skila faglegri umsögn um tillögu samstarfsráðherra um frumvarp til norrænu fjárlaganna, bæði tæknilegri og efnislegri. Nefndin tekur einnig til umfjöllunar afmörkuð mál sem samstarfsráðherrar vísa til hennar. Á árinu 1996 var m.a. unnið að athugun á áhrifum af notkun mismunandi gjaldmiðla í fjármálaumsýslu Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar og úttekt á fyrirkomulagi samningsstjórnunar í norrænum rekstri. Fundi hópsins sitja einnig starfsmenn frá Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar.
     Norræna launa- og starfsmannanefndin (Löne- och personaleutskottet). Norræna launa- og starfsmannanefndin er ráðgefandi fyrir ráðherranefnd Norðurlanda (samstarfsráðherra) og forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Nefndin veitir ráðgjöf í launa-, ráðningar- og lífeyrismálum þeirra sem starfa við norrænar stofnanir og skrifstofur nefndanna í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Nefndin fær þessi mál til umfjöllunar ýmist frá Norrænu samstarfsnefndinni, ráðherranefndinni, Norðurlandaráði eða skrifstofum þeirra. Nefndin getur að eigin frumkvæði skotið málum varðandi ráðningar- og starfskjör til ráðherranefndarinnar og stjórnarnefndarinnar. Hún ákveður þóknanir til stjórnarmanna við norrænar stofnanir. Nefndin á að ábyrgjast að málefni er varða stofnanirnar fari eftir 5. gr. sáttmála þjóðanna um réttarstöðu norrænna stofnana frá 9. desember 1988 og að starfsmannafélög njóti umsagnarréttar áður en ákvörðun er tekin. Nefndin heldur 4–5 fundi á ári. Stundum er málum, eftir kynningu og umræðu, skotið til lokaafgreiðslu hjá starfsmannahaldi ráðherranefndarinnar og viðkomandi nefndarfulltrúa þegar erindið varðar stofnun í landi hans. Greinargerð um niðurstöðu er þá lögð fyrir næsta nefndarfund. Árið 1996 var einkum lögð áhersla á gerð starfsmannahandbókar (personaladministrativ vejledning for institusjonene), auk þess sem stofnanaúttektin (institusjonsutredningen) og flutningur skrifstofuhalds Norðurlandaráðs til Kaupmannahafnar leiddu til fjölmargra athugunar- og úrskurðarmála.

Norræni fjárfestingarbankinn.
    Norræni fjárfestingarbankinn var stofnaður árið 1976. Afkoma bankans á tuttugasta starfsári hans, árið 1995, var mjög góð og jukust útlán um 60% frá fyrra ári. Skýringin á þessari miklu aukningu er annars vegar aukin fjárfesting norrænna fyrirtækja og hins vegar aukin viðskipti við Asíu, Mið- og Austur-Evrópu. Á árinu 1995 nam hagnaður bankans um 103 millj. ECU, eða sem svarar til 12,1% af eigin fé, samanborið við 98 millj. ECU hagnað árið 1994. Bankinn greiddi eigendunum 30 millj. ECU í arð, eða sem nemur 10% af innborguðu stofnfé bankans. Á árinu 1995 veitti NIB lán til Íslands fyrir um 5,6 milljarða króna sem svarar til 7% útborgaðra lána bankans og er hlutur Íslands í heildarútlánum nú um 9%. Eignarhlutur Íslands í bankanum nemur um 1%. (Sjá nánar kafla 15.1.)
    
Önnur starfsemi á vegum fjármálaráðherra.
    Auk þeirra verkefna sem hér hafa verið nefnd er rétt að vekja athygli á að fjármálaráðherrar Norðurlanda hafa um árabil haft náið samstarf og samráð á vettvangi ýmissa alþjóðastofnana. Þannig hafa ráðherrarnir samráð fyrir fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og áður hefur verið minnst á. Enn fremur má nefna hliðstætt samráð vegna funda á vegum OECD. Meginlínurnar eru gjarnan lagðar á norrænum ráðherrafundum og þeim er fylgt eftir á hinum ýmsu fundum innan OECD, jafnt ráðherrafundum sem öðrum. Þá má nefna starfsemi Evrópubankans í London. Norðurlöndin eiga þrjá fulltrúa í stjórn bankans sem hafa náið en óformlegt samráð þar sem leitast er við að samræma norræn sjónarmið.
    
10.2. Iðnaðarmál.
    Á árinu 1996 áttu iðnaðar- og orkuráðherrar Norðurlanda með sér margvísleg samskipti og samstarf á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Eiga þeir með sér fundi að jafnaði tvisvar á ári hverju. Þess á milli starfar nefnd embættismanna að undirbúningi mála á vegum ráðherranefndarinnar.
    Norræn samvinna er Íslendingum mikilvæg, bæði sem vettvangur samstarfs um eiginleg norræn málefni svo og vettvangur umræðna og samráðs um þau evrópsku og alþjóðlegu mál sem efst eru á baugi hverju sinni. Forsenda þess að hið norræna samstarf dafni í framtíðinni er að unnt verði að finna því farveg sem rýmir þetta hvort tveggja. Miklu varðar að nýta bæði það þéttofna net formlegs og óformlegs norræns samstarfs, sem byggst hefur upp undanfarna áratugi, og þá kosti sem fylgja aðild þriggja norrænna ríkja að ESB. En innganga Finnlands og Svíþjóðar í ESB hefur haft í för með sér að hluta til nokkrar nýjar forsendur fyrir samvinnu þjóðþinga og ríkisstjórna Norðurlanda. Nú þegar þrjú Norðurlandanna og eitt sjálfsstjórnarsvæði, Álandseyjar, hafa gengið í ESB og tvö Norðurlandanna hafa nána samvinnu á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), auk tveggja sjálfsstjórnarsvæða, Grænlands og Færeyja, sem byggja samvinnu sína við ESB á tvíhliða samningum, þá fer ekki hjá því að mikilvægi norræns samstarfs eykst, bæði sem sameinandi afl á Norðurlöndum og grundvöllur upplýsingamiðlunar af evrópskum vettvangi. Þannig eru Evrópusambandsmál og samskipti Norðurlandaþjóðanna á þeim vettvangi fastur dagskrárliður á fundum iðnaðarráðherranna.
    Svo sem á undanförnum árum hefur höfuðáhersla starfsemi ráðherranefndarinnar á sviði iðnaðarmála beinst að vettvangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Samstarfið við grannsvæði Norðurlanda hefur og verið rækt og margt þar aðhafst á liðnu ári. Á fjórða tug norrænna viðfangsefna hafa verið þar í gangi. En þróunin á grannsvæðum Norðurlanda, á Eystrasaltssvæðinu og Barentssvæðinu, skiptir miklu pólitísku máli fyrir Norðurlönd. Aukin samvinna við Eystrasaltsríkin og norðvesturhéruð Rússlands er mikilvægt framlag þeirra til stöðugleika og þróunar lýðræðis á svæðinu.
    Á því tímabili, sem hér um ræðir, hafa ráðherrarnir lagt megináherslu á úttekt og endurmat þeirra stofnana og starfsemi, sem til þeirra friðar heyrir, og þá með tilliti til þess hvort og hvernig þau komi að sem mestu gagni fyrir Norðurlandasamstarfið almennt.
    Með nokkrum sanni má segja að árið 1996 hafi verið ár endurskipulagningar norrænna stofnana. Bæði á vettvangi Norræna iðnaðarsjóðsins og Nordforsk var unnið að og lagðar fram nýjar stefnumótunar- og framkvæmdaáætlanir í ljósi nýrra aðstæðna.
    Á sumarfundi iðnaðarráðherranna í júní sl. var ákveðið að fram skyldi fara gagnger úttekt og endurmat á starfsgrundvelli og starfsháttum Norræna iðnaðarsjóðsins. Um niðurstöður þess starfs verður svo fjallað á sérstökum fundi ráðherranna í febrúar 1997.
    Starfsemina, að öðru leyti en að framan getur, mætti greina í eftirfarandi meginatriði:
    
     Nýsköpun í atvinnulífi og þjónustustarfsemi.
         Þjónustustarfsemi hvers konar hefur verið til umfjöllunar í sérstökum starfshóp. Þar var hugað að stuðningi stjórnvalda við stofnun nýrra fyrirtækja og þjónustustarfsemi. Efnt var m.a. til sérstakrar ráðstefnu í Gautaborg í september 1996 um aðgerðir til að gera konum auðveldara að stofna fyrirtæki. Á árinu 1997 er að vænta nokkurrar eftirfylgni við þessi mál.
    
    Samstarf milli atvinnugreina.
         Starfshópur á vegum ráðherranefndarinnar kannar og leggur mat á samstarf, m.a. á sviði vinnumála og byggðamála til atvinnusköpunar og eflingar hagvaxtar. Sú nefnd er að störfum. Umhverfismál iðnaðar voru gaumgæfð og samstarf hafið við þá aðila innan vébanda Norðurlandaráðs, sem umhverfismálin varðar sérstaklega.
    
    Umsvif í austri og samstarf við grannsvæðin.
         Í þeirri viðleitni ráðherranefndarinnar að stuðla að viðleitni Eystrasaltsríkjanna til að aðlaga sig Evrópusambandinu á sviði iðnaðar- og atvinnumála, var efnt til umfangsmikillar ráðstefnu í apríl mánuði í Ríga. Þátttakendur voru frá Eystrasaltsríkjunum, Norðurlöndum og Evrópusambandinu, auk þess sem ráðherrar viðkomandi ríkja mættu til leiks. Heildaráætlunin í þágu grannsvæðanna, frá 1992, var tekin til endurskoðunar og samræmingar við framkvæmdastefnu ráðherranefndarinnar. Heldur dró þar með úr viðfangsefnum, en þau voru samtals sex á starfssviði iðnaðarráðherranna. Þeirra á meðal mætti nefna sérstakt útflutningsþróunarverkefni í Lettlandi, sem íslenska útflutningsráðið hefur umsjón með.
    
     Ýmis verkefni.
         Framlög og styrkir til ýmissa sérverkefna voru sem hér segir, í dönskum krónum talið:
    
    EMC-provning/Nordtest     100.000
    Ad-hoc grupp närområdesaktiviteter     200.000
    Idékonferens för kvinligt företagande     300.000
    Eurolab/Nordtest     222.500
    Nordisk turistaktion     110.500
    Ad-hoc sektorsamarbete     300.000
    Marknadsplan turist, utv. Östersjöområde     150.000
    Utvärdering av Nordiska Industrifonden     500.000
    Nordtest: EMC-workshop/kurs     100.000
    Nordtest: Eurolabs verksamhet     230.000
    
    Áhættufjármögnun.
         Í maí 1996 var boðað til fræðslustefnu um áhættufjármögnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Norðurlöndum. Þar með lauk umfjöllun á vegum ráðherranefndarinnar og vinnuhóps sem kannaði hvernig hvetja mætti einkaaðila, t.d. með skattaívilnunum, til að leggja meira áhættufjármagn í lítil og meðalstór fyrirtæki. Þátttakendur málþingsins voru frá öllum Norðurlandaríkjunum, ESB og OECD.
    
Norræni iðnaðarsjóðurinn.
    Norrræni iðnaðarsjóðurinn starfar á sviði ráðherra iðnaðarmála, sjá nánar kafla 15.2.
    
10.3. Samgöngumál.
    Eins og fram kemur í skýrslu samstarfsráðherra fyrir árið 1995 fer norrænt samstarf um samgöngumál að mestu fram í norrænni embættismannanefnd um samgöngumál (NET), en í henni eiga sæti ráðuneytisstjórar samgönguráðuneytanna á Norðurlöndunum, ásamt aðstoðarfólki. Undanfarin ár hafa ráðherrar samgöngumála hist tvisvar á ári að jafnaði í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Á árinu 1996 var þó aðeins haldinn einn fundur samgönguráðherra Norðurlandanna í Ósló í september.
    Á árinu 1996 voru eftirtalin mál m.a. til umfjöllunar:
    
1. Framtíð norræns samstarfs á sviði samgangna og umferðaröryggismála og verkáætlun fyrir árið 1997.
    Snemma á árinu 1995 lagði norræna embættismannanefndin (NET) fyrir ráðherrana tillögu um tilhögun þessa samstarfs í næstu framtíð. Gengið var út frá þeim sjónarmiðum að takmarka samstarfið við þá þætti sem nýttust best öllum norrænu þjóðunum, jafnframt því að aðlaga samstarfið breyttum áherslum í Evrópu.
    Hvað varðar innihald samstarfsins í framtíðinni var nefndin sammála um að leggja áherslu á:
    —     að ræða málefni er tengjast ESB, bæði þau sem til umfjöllunar eru frá degi til dags og þau sem höfða til lengri framtíðar,
    —     að fjalla um samgöngukerfin innan Norðurlandanna og milli þeirra og nærliggjandi landa,
    —     að ræða tengsl (sambúð) umferðar og umhverfis,
    —     að fjalla um umferðaröryggismál.
    Varðandi skipulag og fyrirkomulag samstarfsins lagði NET til að ráðherrarnir hittust árlega og þá í tengslum við þing Norðurlandaráðs, eins og oftast hefur verið fram á þennan dag. Undirbúningur fundanna yrði sem áður á hendi NET.
    Til að fjalla um aðkallandi málefni og ýmis forgangsmál verða settir á fót starfshópar.
    Á fundi sínum í Kuopio í nóvember 1995 samþykktu samgönguráðherrarnir framangreinda tillögu embættismannanefndarinnar.
    NET samþykkti á fundi sínum í Helsinki 1. október verkáætlun fyrir árið 1997 og staðfesti úthlutun fjárframlaga til einstakra verkefna.
    
2. Málefni er varða EES/ESB og Norðurlöndin.
    Á fundum ráðherranna og NET voru kynnt og rædd þau mál sem á árinu voru efst á baugi í samskiptum EES/ESB og Norðurlandanna. Af einstökum málum má nefna samkeppni á sviði póstmála, fjárfestingar í vegum og járnbrautum á leiðum er tengja Norðurlönd við önnur Evrópuríki, Schengen-samkomulagið, vegatolla í Evrópu og hámarksþyngd og lengd flutningabíla, gjaldfrjálsa fríhafnarsölu og tilskipun um járnbrautarsamgöngur.

3. Samgöngur og umhverfismál.
    Á fundi samgönguráðherranna í júlí 1994 var ákveðið að gera úttekt á því til hvaða aðgerða einstök lönd hafa gripið til þess að draga úr loftmengun frá umferðinni. Skipaður var starfshópur til að vinna þetta verk og skilaði hann skýrslu í byrjun síðasta árs.
    Starfshópurinn benti á að Norðurlöndin hafa við svipuð vandamál að etja í þessum málaflokki.
    Í skýrslunni kemur m.a. fram að mörg Norðurlandanna hafa lagt út í ýmsar aðgerðir til að draga úr loftmengun frá samgöngutækjum.
    Ráðherrarnir voru sammála um að samstarfið innan ESB/EES muni skapa nýja möguleika til lausnar á þessum vanda.
    Skýrslan var send umhverfisnefnd Norðurlandaráðs til frekari umfjöllunar.
    NET ræddi efni og niðurstöður skýrslunnar á fundum sínum á árinu.

4. Umferðaröryggismál.
    Á árinu 1993 var gerð formbreyting á norrænu samstarfi í þessum málaflokki. Norræna umferðaröryggismálaráðið (NTR) var lagt niður og einnig undirnefnd þess, Norræna nefndin um rannsóknir á sviði umferðaröryggismála (NKT) og sett var á laggirnar „Styringsgruppen for Nordisk Trafikksikkerhet“ (SNT). SNT heyrir beint undir norrænu embættismannanefndina.
    Á fundum NET á árinu voru málefni og starfsemi SNT áfram rædd. Eins og fram kemur í skýrslunni um norrænt samstarf á árinu 1995, samþykkti NET að SNT skuli starfa áfram með óbreyttu formi út árið 1996, en frá og með 1. janúar 1997 skuli SNT lagt niður.
    Þessi tillaga NET var samþykkt á fundi ráðherranna í Kuopio í nóvember 1995.
    Frá og með 1. janúar 1997 munu embættismenn norrænu ráðuneytanna, sem fjalla um umferðaröryggismál, hittast reglulega á óformlegum fundum.
    
10.4. Húsnæðis- og byggingarmál.
    Á árinu var unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum varðandi stefnumótandi þætti húsnæðismála, að sameiginlegri framgöngu Norðurlandanna á Habitat II, ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, og undirbúin samstarfsáætlun fyrir tímabilið 1997–2000. Starfið einkenndist nokkuð af óvissu um framhald og fyrirkomulag samstarfsins. Fjárframlög hafa dregist verulega saman og ein stofnun sem starfað hefur á vegum embættismannanefndarinnar var lögð niður.
    Húsnæðisráðherrar landanna hafa lagt áherslu á að beina viðfangsefnum að málum er lúta að stefnumótandi þáttum í húsnæðismálum. Ákveðið var að miða við færri verkefni en áður og lögð áhersla á mikilvægi þess að niðurstöður skili sér fljótt inn í umræðuna. Sérstök áhersla hefur verið lögð á rannsóknir á félagslegum þáttum húsnæðismála, sjálfbæra þróun og vistvæna byggingarstarfsemi og aðgerðir í þágu Eystrasaltsríkja. Einnig var unnið að samræmingu ýmissa þátta með hliðsjón af Evrópusamstarfi.
    Stærsta rannsóknarverkefnið fjallar um aðgerðir gegn aðskilnaði félagshópa í íbúðahverfum. Tilgangur þessa verkefnis, sem húsnæðisráðherrarnir telja sérstaklega mikilvægt, er að rannsaka ofan í kjölinn vaxandi félagsleg vandamál stærri borga og bæja og þá ört vaxandi félagslega aðgreiningu (segregation) eftir íbúðahverfum og húsnæðisformum, sem vart hefur orðið við á undanförnum árum. Þetta er viðamikið verkefni sem lýkur í ársbyrjun 1997 og verður í kjölfarið kynnt á sameiginlegri ráðstefnu á vegum ráðherranna. Þá má einnig nefna verkefni sem fjallar um samanburð á þeirri lagaumgjörð (Nordisk boenderätt) sem húsnæðismálin búa við. Fleira mætti nefna svo sem verkefni í Eistlandi og verkefni er snýr að húsnæðismálum Norðurlandanna í ljósi aukins Evrópusamstarfs.
    Á vegum embættismannanefndarinnar var unnið að sameiginlegri sýningu og kynningu á húsnæðis- og byggingarmálum Norðurlandanna á Habitat II húsnæðis- og byggingarmálaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Istanbúl dagana 3.–14. júní 1996.
    Norræna byggingarmálanefndin NKB (Nordiska kommittén för byggbestämmelser) hefur verið ein af stofnunum Norrænu ráðherranefndarinnar undir embættismannanefnd um húsnæðis- og byggingarmál. Stofnun þessi verður lögð niður í árslok 1996. Skipulag ríkisins hefur verið aðili að þessu samstarfi frá upphafi í umboði byggingarmálaráðuneyta, nú síðast umhverfisráðuneytis. Jafnframt hafa aðrar stofnanir svo sem Brunamálastofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Byggingastaðlaráð og fleiri aðilar tekið beinan þátt í starfi fagnefnda og notið til þeirrar þátttöku norrænna fjárframlaga. Síðasti stjórnarfundur NKB var haldinn á Íslandi dagana 28.–29. nóvember 1996, þar sem m.a. voru samþykkt drög að ramma um áframhaldandi samstarf byggingaryfirvalda á Norðurlöndum, nú á þann hátt að allur kostnaður verði borinn uppi af viðkomandi yfirvöldum. Þetta mun líklega verða til þess að þátttaka í norrænu byggingarmálasamstarfi hér á landi verður mun takmarkaðri en verið hefur síðastliðin ár. Samstarfið við Norðurlönd hefur tryggt okkur aðgengi að mjög víðtæku Evrópusamstarfi um byggingarmál með litlum tilkostnaði.
    
10.5. Byggðamál.
10.5.1. Embættismannanefndin um byggðamál.
    Samstarf Norðurlandanna í byggðamálum stendur á traustum grunni. Fyrirferðarmest eru samstarfshéruðin, þá samstarf um byggðastefnu, mótun hennar og samskipti milli embættismanna á því sviði. Síðast er rannsóknasamstarfið.
    Á árinu 1996 stóðu yfir miklar breytingar á svæðasamstarfinu milli einstakra landamærahéraða á Norðurlöndunum. Þau svæði sem eru innan Evrópusambandsins eða tengjast því hafa flest tengst landamærasamstarfi ESB, svo kölluðu INTERREG II. Fjármunir frá Norðurlandasamstarfinu ganga að verulegu leyti inn í það samstarf en nú undir formerkjum og á forsendum sambandsins. Samstarf landamærahéraðanna fær verulega aukna fjármuni til ráðstöfunar. Norðmenn hafa veitt sambærilegu fé til þeirra héraða sem taka þátt í Interreg verkefnum.
    Ísland tekur þátt í einu slíku samstarfsverkefni, hinu nýstofnaða Norræna Atlantssamstarfi (NORA). Það er jafnframt eina samstarfssvæðið á vegum ráðherranefndarinnar sem er algerlega fyrir utan ESB og eitt af fáum sem eru utan við Interreg-áætlunina. Nánari grein er gerð fyrir starfsemi NORA í sérstökum kafla.
    Samskipti byggðamálaráðuneyta Norðurlandanna við framkvæmdastjórnina í Brussel taka töluverðan tíma hjá embættismannanefndinni NERP. Þessi samskipti eru lærdómsrík, einkum ef það er haft í huga að ekki hafa orðið nærri því eins miklar breytingar í raunverulegri byggðastefnu hinna nýju aðildarlanda og ætla mætti. Breytingarnar eru töluverðar í fjármögnun aðgerða en ekki mjög miklar í útfærslu stuðnings við einstök fyrirtæki. Þó verður að segja að öll stefnumótun hefur orðið skilvirkari vegna þess að gerðar eru kröfur um áætlanagerð og það hefur neytt aðildarríkin til að samræma aðgerðir sínar.
    Embættismannanefndin hefur látið vinna fyrir sig ýmsar greinargerðir er varða eðli byggðaþróunar og áhrif aðgerða hins opinbera. Sem dæmi má nefna verkefni sem nú er að ljúka og varðar áhrif einkavæðingar og breytts fyrirkomulags í nokkrum þáttum opinbers rekstrar á byggðaþróun. Þá er stöðugt fylgst með byggðaþróun í einstökum héruðum allra Norðurlandanna.
    Málefni Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda (sjá nánar kafla 15.6.) heyra undir samstarfið í byggðamálum. Á árinu hefur verið unnið að breytingum á reglugerð um starfsemi sjóðsins í kjölfar úttektar sem gerð var á starfsemi sjóðsins í samræmi við reglur hans. Niðurstaðan er sú að starfsemin hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar í upphafi og voru gerðar tillögur til að breyta henni til samræmis við hlutverkið.
    Norðurlöndin hafa saman staðið að samstarfi við Skotland í byggðamálum og er kraftur að komast í það eftir nokkra byrjunarörðugleika. Þá hafa embættismannanefndirnar í byggðamálum og landbúnaðarmálum hafið samstarf sem skiptist í þrjú verkefni. Eitt þeirra, sem snýr að eflingu ferðaþjónustu í dreifbýli er undir forsjá Íslands í samvinnu við Norðmenn og hefur því verkefni verið stýrt af Jónasi Jónssyni hjá Bændasamtökum Íslands. Hin samvinnuverkefnin fjalla um matvælaframleiðslu á bændabýlum og þjónustu í mjög fámennum byggðarlögum.
    Í kjölfar skýrslu nefndar á vegum norrænu forsætisráðherranna um stofnanir á vegum Norðurlandasamstarfsins var ákveðið að sameina í eina stofnun tvær stofnanir og eitt verkefni, sem tengjast byggðamálum. NordREFO, norræna rannsóknastofnunin í byggðamálum og NOGRAN, verkefni á vegum NERP þar sem unnið hefur verið að ýmsum athugunum og öflun og miðlun upplýsinga um byggðaþróun verður sameinað Nordplan, menntastofnun í skipulagsmálum sem starfað hefur á vettvangi samstarfs í menningarmálum. Úr verður ný stofnun, NordREGIO, sem verður á ábyrgð byggðamálaráðherranna. Mun hún taka til starfa í Stokkhólmi þann 1. júlí 1997. Verkefni hennar verða þau sömu og þeirra stofnana sem yfirteknar verða og er vonast til þess að með myndun hennar verði til öflugur þekkingarkjarni á sviði byggðaþróunar og skipulags. Nú þegar eru uppi fyrirætlanir um að þessi stofnun muni nýtast til að miðla þekkingu í málaflokknum til Eystrasaltsríkja en að auki mun alþjóðasamstarf verða enn vaxandi þáttur.
    
10.5.2. Norræna Atlantsnefndin (áður samstarfsnefnd Vestur-Norðurlanda).
    Á síðasta ári var unnið að gagngerum breytingum á samstarfi hinna vestlægu Norðurlanda í byggðamálum og tók Norræna Atlantsnefndin (skammstafað NORA) til starfa í byrjun þessa árs. NORA er samstarfsvettvangur Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga og Norðmanna og heyrir nefndin undir Norrænu embættismannanefndina í byggðamálum (NERP). Skrifstofa nefndarinnar er staðsett í Þórshöfn í Færeyjum og er framkvæmdastjóri nefndarinnar Kjartan Hoydal, sjávarlíffræðingur og fyrrverandi fiskimálastjóri í Færeyjum. Stofnað hefur verið framkvæmdaráð þar sem sæti á einn fulltrúi frá hverju aðildarlandi en hlutverk framkvæmdaráðs er að undirbúa ákvarðanir nefndarinnar og veita framkvæmdastjóra leiðsögn í einstökum málum. Meginmarkmið með starfi nefndarinnar er:
—    Að hvetja til og efla samvinnu innan svæðisins með áherslu á eftirfarandi atriði: (1) auðlindir og umhverfismál sjávar, (2) landbúnað, (3) verslun og viðskipti, (4) ferðaþjónustu og (5) samgöngur.
—    Að koma á samstarfi milli nefndarinnar og annarra aðila sem vinna að hliðstæðum og tengdum verkefnum innan samstarfssvæðisins. Einkum skal þó lögð áhersla á samvinnu við atvinnuþróunar- og rannsóknarstofnanir í löndunum fjórum.
—    Að miðla reynslu og þekkingu í byggða- og atvinnumálum milli landanna.
—    Að stuðla að rannsóknum og þróun á framangreindum sviðum, þar sem löndin geta notið góðs af reynslu hvers annars með því að koma á samskiptum stofnana, fyrirtækja og fólks í millum.
    
    Þrír fulltrúar frá löndunum fjórum eiga sæti í nefndinni og eru fulltrúar Íslands skipaðir í nefndina af forsætisráðherra.
    Á þessu fyrsta starfsári nefndarinnar hafa borist margar umsóknir um styrki frá öllum löndunum en skilyrði fyrir styrkveitingu er að minnst tvö aðildarlönd séu umsækjendur að hverjum styrk. NORA hefur einnig í auknum mæli beint starfi sínu að verkefnum sem nefndin sjálf hefur frumkvæði að. Fjárveiting til nefndarinnar á þessu ári var um fimm millj. danskra króna og hefur stórum hluta þess þegar verið ráðstafað bæði til styrkja og til þess að setja að stað verkefni sem tengjast áður nefndum markmiðum.
    
10.6. Landbúnaður og skógrækt.
    Á árinu var hafist handa að starfa eftir nýrri starfsáætlun Norðurlandanna á sviði landbúnaðar og skógræktar sem gildir fyrir tímabilið 1996–2000. Þessi áætlun var samþykkt á 47. þingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Kuopio í Finnlandi í nóvember 1995. Eins og í öðrum starfsáætlunum innan hins norræna samstarfs er gengið út frá meginmarkmiðunum þremur, norrænu notagildi, tengingu við alþjóðamál einkum innan Evrópu og tengslum við grannsvæðin, svo sem Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland.
    Áhersla er lögð á að viðhalda þeim trausta samskiptagrundvelli sem áratuga samstarf á sviði landbúnaðar og skógræktar hefur lagt. Þannig má nefna að Nordiska Jordbruksforskares Förening (NJF) hefur starfað frá 1918 og það samstarf hefur lagt grunninn að mörgum samnorrænum verkefnum og haft mikil áhrif á þróun samstarfsáætlana norrænu ráðherranefndarinnar á sviði landbúnaðar. Náttúrulegar forsendur til landbúnaðar og skógræktar skera sig nokkuð úr því sem er í flestum löndum álfunnar og er lögð áherslu á samstarf um þá þætti.
    Megináherslan í hinni nýju samstarfsáætlun er á verkefni sem hafa skírskotun og tengsl til eftirfarandi fjögurra sviða:
—    Gæði í landbúnaðarframleiðslu með áherslu á umhverfið.
—    Varðveisla erfðafræðilegs fjölbreytileika.
—    Byggðaþróun á landsvæðum sem eru sérstaklega háð landbúnaði og skógrækt.
—    Sjálfbær skógrækt.
    Nokkur breyting hefur orðið á skipulagi og starfsháttum innan Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði landbúnaðar og skógræktar (MR-JS). Árlegir fundir eru nú tveir í stað eins áður. Í tengslum við sumarfundinn er haldinn fundur í NKJS (Norrænu samráðsnefndinni um landbúnað og skógrækt), sem var á sl. sumri að hluta til skipt í tvær málstofur þar sem önnur fjallar um landbúnaðarmál en hin um málefni skógræktar. Stefnt er að því að framkvæmd áætlunarinnar verði í ríkari mæli en hingað til rædd á fundum landbúnaðarráðherranna.
    Á sl. sumri var fyrsti sumarfundurinn haldinn samkvæmt þessu nýja skipulagi í NKJS undir formennsku Guðmundar Bjarnasonar, landbúnaðarráðherra. Meginviðfangsefni fundarins var að ræða tengsl umhverfismála og landnýtingar, reynslu Norðurlandanna af fyrsta framkvæmdaári landbúnaðarsamnings Alþjóða viðskiptastofnunarinnar og fimmtu rammaáætlun ESB um rannsóknir. Ráðherrarnir samræmdu viðhorf Norðurlandanna varðandi sjálfbæra nýtingu skóga á heimsvísu sem kynnt voru á sérfræðingafundi Sameinuðu þjóðanna um skógarnýtingu. Þar var lögð áhersla á áætlanir í hverju landi fyrir sig um nýtingu skóga og landsvæða svo og vistvæna umhirðu náttúrulegra skóga.
    Síðari ráðherrafundurinn á árinu var haldinn í Svíþjóð þann 28. nóvember. Á dagskrá fundarins var ákvörðun um skiptingu framlaga sem landbúnaði og skógrækt eru ætluð af samnorrænu fé, samstarf við grannsvæðin, störf nefndar um sjálfbæra þróun í skógrækt og ráðstefna FAO um fæðuöryggi. Þá voru enn fremur rædd drög að nýrri markmiðsgreiningu um samnorræna rannsóknarstarfsáætlun. Ráðherrar voru sammála um að mæla gegn því að færa þungamiðju í stefnumörkun á sviði rannsókna í landbúnaði, skógrækt og landnýtingu frá fagráðuneytum til menntamálaráðuneyta landanna eins og fyrirliggjandi hugmyndir gera ráð fyrir en í þeim er gert ráð fyrir einni yfirstjórn allrar samnorrænnar rannsóknarstarfsemi.
    Við mat á „norrænu notagildi“ hafa stofnanir sem heyra undir ráðherranefnd landbúnaðar og skógræktar (MR-JS) fengið háa einkunn. Til reksturs þeirra fer um helmingur þess fjármagns sem MR-JS hefur til umráða. Nokkur viðamikil langtímaverkefni eru rekin á verkefnagrundvelli en auk þess veitir norræna embættismannanefndin um landbúnað og skógrækt (NEJS) í samstarfi við aðra málaflokka fjármagni til sérstakra áætlana sem auglýstir eru til umsóknar og er samstarfið við norrænu embættismannanefndina um umhverfismál (EK-Miljø) og embættismannanefndina um byggðamál (NERP) dæmi um slíkt. Stofnanir og helstu langtímaverkefni eru:
—    Norræni genbankinn fyrir nytjaplöntur (NGB).
—    Norræni genbankinn fyrir húsdýr (NGH).
—    Norræna samstarfsráðið fyrir landbúnaðarrannsóknir (NKJ).
—    Norræna bútækniráðið (NTS).
—    Samstarf um plöntusjúkdóma og samræming á reglum um innflutning.
—    Samstarfsnefndin um norrænar skógræktarrannsóknir (SNS).
—    Samstarf landbúnaðarháskólanna (NOVA).
    Á árinu var unnið að nýrri markáætlun fyrir NKJ. Áætlunin tekur mið af áherslum í langtímaáætlun ráðherranefndarinnar. Meðal nýmæla er að NKJ mun vinna sérstaka verkáætlun sem snýr að hánorrænum landbúnaði (circumpolar agriculture).

Varðveisla á erfðabreytileika.
    Erfðabreytileiki og varðveisla fjölbreytileika er vaxandi áherslusvið í landbúnaðarsamstarfinu og gegna genbankarnir tveir NGB og NGH þar lykilhlutverki og þá sérstaklega NGB vegna samræmingar á stefnu Norðurlandanna varðandi framgang á umhverfissáttmála Sameinuðu þjóðanna um varðveislu fjölbreytileika lífsins. Auk þess sem viðfangsefni á þessu sviði eru fyrirferðarmikil í verkefnaáætlun NEJS er einnig unnið að framgangi þessa málaflokks í samstarfi við EK-Miljø sem er samstarfsvettvangur umhverfisráðherranna innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Sigfús Bjarnason lét af störfum sem forstjóri NGB í upphafi ársins eftir heilladrjúgt starf við stofnunina í sjö ár. Þorsteinn Tómasson var formaður stjórnar NGB á árinu. Stefán Aðalsteinsson gegnir stöðu forstöðumanns við NGH og hefur sinnt því starfi frá upphafi. Auk starfsemi þessara tveggja stofnana skipaði NEJS og NK-Miljø samstarfsnefnd um norræna stefnumörkun á sviði erfðafjölbreytni. Í nefndinni starfa tveir fulltrúar frá hverju Norðurlandanna og er annar tilnefndur af umverfisráðuneyti en hinn af landbúnaðarráðuneyti. Nefndinni er ætlað að hafa frumkvæði og leggja fram tillögur um verkefni á sviði varðveislu á erfðaefni. Einkum er ætlast til að nefndin hugi að áhrifum aukinnar tækni í landbúnaði á erfðafjölbreytni í nytjaplöntum og búfjárstofnum en einnig í hinni villtu náttúru. Norðurlöndin hafa komið sameiginlega að þróunaraðstoð á þessu sviði með uppbyggingu svæðisbundins genbanka í sunnanverðri Afríku og einnig með sérstakri aðstoð til Eystrasaltsríkjanna við uppbyggingu og skipulag í þessum málaflokki. Markmið norræns samstarfs á sviði erfðaefnis er að stuðla að varðveitingu erfðaefnis svo og nýtingu þess í kynbótastarfi. Íslendingar hafa leitt tvö stór verkefni sem stefna að þróun nýrra yrkja af grösum og smára fyrir jaðarsvæði Norðurlanda. Vestur-Atlantssjóðurinn hefur einnig komið að þessum málaflokki en hann styrkti stórt verkefni sem snýr að samanburði á íslenska kúakyninu við það kúakyn sem mest er notað í Noregi og geta niðurstöður þess haft veruleg áhrif í íslenskum landbúnaði.

Gæðastjórnun í landbúnaði með hliðsjón af umhverfisþáttum.
    Umhverfismál eru vaxandi viðfangsefni innan landbúnaðar og skógræktar á Norðurlöndunum. Stærstu samnorrænu verkefnin sem Íslendingar eiga aðild að lúta að hringrás næringarefnanna, einkum niturs og koltvísýrings. Rannsóknir á kolefnisjöfnuðinum eru mikilvægar með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum gagnvart losun kolefnis í andrúmsloftið. Virk þátttaka í norrænu verkefni á þessu sviði hefur rutt brautina fyrir þátttöku í stóru evrópsku verkefni um þessa ferla. Samanburðarrannsóknir sem lúta að mengun af völdum þungmálma hafa gefið íslenskum landbúnaði mjög góð viðmiðunargildi um hlutfall slíkra efna í íslenskri náttúru og í landbúnaðarafurðum sem renna stoðum undir þá fullyrðingu að hreinleiki afurðanna sé í flestum tilvikum mun meiri en gerist víða í nágrannalöndum okkar.

Byggðaþróun og landbúnaður og skógrækt.
    Áfram var unnið í samstarfi við NERP að verkefni á sviði atvinnu- og byggðamála, sem tengjast landbúnaði og skógrækt. Sérstök stjórnarnefnd lagði til að Norðurlönd ynnu sameiginlega að eftirfarandi verkefnum:
    Þróun fjölþættari viðfangsefna á sveitabæjum eða í tengslum við búskap.
    Þróun fjölþættari framleiðslu matvæla og vinnslu þeirra á búum bænda eða í tengslum við þau.
    Þróun þjónustustarfa í fámennum byggðalögum.
    Framkvæmd verkefnis um fjölþættari viðfangsefni á sveitabæjum var á vegum Íslands. Bændasamtök Íslands tóku að sér undirbúning þess og var Jónasi Jónssyni búnaðarmálastjóra falin framkvæmd þess. Ákveðið var að binda það fyrst og fremst við þróun ferðaþjónustu í sveitum og, að svo miklu leyti sem fjármunir og tími leyfðu, að taka inn í úrvinnsluna nýtingu á öðrum gæðum lands svo sem hlunnindum jarða í tengslum við nýja atvinnumöguleika. Þessi þrjú verkefni munu halda áfram árið 1997 að hluta eða öllu leyti.
    

11. Sjávarútvegsmál.


    Árið 1996 var sjávarútvegssamstarf Norðurlanda fellt niður sem sjálfstætt samstarfssvið og er nú hluti af efnahags- og atvinnusamstarfinu. Er þetta í samræmi við breytingar sem gerðar voru eftir heildarendurskoðun á norrænu samstarfi. Þrátt fyrir að ekki séu merkjanlegar miklar breytingar á sjávarútvegssamstarfinu á þessu fyrsta ári með nýrri tilhögun er þegar orðið ljóst að sjávarútvegssviðið stendur verr að vígi varðandi fjárveitingar. Heildarfjárveiting til samstarfsins var 7,3 millj. danskra króna og þar af var 1 millj. sett til samstarfsverkefna sjávarútvegs- og umhverfissviðs. Sjávarútvegssamstarfið hafði því 6,3 millj. til ráðstöfunar á árinu.
    Í framkvæmdaáætlun formennskulandsins Finnlands fyrir árið 1996 var lögð áhersla á að starfsemin yrði í samræmi við þær almennu áherslur sem lagðar eru í hinu norræna samstarfi. Ekki var lagt til að miklar áherslubreytingar yrðu gerðar, en þó boðað að Finnland myndi í frekari mæli styðja verkefni með menningarlega tilvísun og draga þar með úr áherslu á rannsókna- eða framleiðslutengd verkefni. Enn fremur óskaði Finnland eftir meiri áherslu á fiskeldi.
    Á árinu 1996 bárust alls 38 umsóknir um styrki til verkefna á sjávarútvegssviðinu. Umsóknirnar voru metnar af vísindanefnd, sem mælti með að 21 verkefni yrði styrkt. Vegna þröngrar fjárhagsstöðu var einungis unnt að veita fé til 14 verkefna og eru einungis þrjú þessara verkefna ný, hin eru til fleiri ára. Auk þessara verkefna veittu sjávarútvegsráðherrar Norðurlanda fé til 6 annarra verkefna. Meðal verkefna sem fá fjárveitingu má nefna verkefni um að meta þörf og möguleika á aðgerðum varðandi vistvæna merkingu, ráðstefnu um nýtingu ufsa og vinnufund um nýliðun rækju.
    Samstarfi sjávarútvegs- og umhverfissviðanna hefur verið haldið áfram á árinu og hefur hvort svið lagt 1 millj. danskra króna til verkefnisins. Fyrri hluta ársins komu niðurstöður úr forverkefnum sem hófust í lok 1995 eða upphafi 1996. Þessi verkefni hafa sum hver skilað sér í umsóknum um stærri verkefni og hafa nokkur hlotið styrk. Í lok ársins 1996 og upphafi ársins 1997 munu fulltrúar Íslands og Noregs, ásamt starfsfólki skrifstofu ráðherranefndarinnar gera drög að forgangsröðun viðfangsefna sem styrkt verða þar sem ljóst er að fjárveiting til samstarfsins mun ekki nægja til að vinna öll þau verkefni sem æskilegt er að styrkja.
    Í ágúst var Norræna fiskimálaráðstefnan haldin í Bergen. Yfirskrift ráðstefnunnar var alþjóðavæðing sjávarútvegsins og var í níu fyrirlestrum auk athugasemda fjallað um ýmsar hliðar á þeirri þróun sem nú á sér stað á alþjóðlegum vettvangi. Meðal fyrirlesara var Guðmundur Eiríksson þjóðréttarfræðingur. Samhliða ráðstefnunni héldu sjávarútvegsráðherrar Norðurlanda fund sem og embættismenn. Að auki voru haldnir tveir embættismannanefndarfundir, í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Þá var haldinn sameiginlegur fundur embættismannanefndanna um sjávarútvegs- og umhverfismál.
    Sjávarútvegsráðherrar samþykktu samstarfsáætlun fyrir tímabilið 1997–2000, en hún leysir af hólmi samstarfsáætlun fyrir tímabilið 1993–1996. Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að því að sjávarútvegurinn eflist og dafni sem mikilvægur þáttur þjóðlífs í norrænu löndunum. Þetta markmið hefur í för með sér að áhersla er lögð á verndun auðlinda sjávar og skynsamlega nýtingu þeirra. Samstarfið byggir á hinum þremur stoðum norrænnar samvinnu; samvinnu innan Norðurlanda, samvinnu Norðurlanda um Evrópumál og samvinnu Norðurlanda við grannsvæði þeirra. Skipulag starfseminnar verður með sama hætti og verið hefur, þ.e. hið formlega samstarf fer fram innan ráðherranefndar og embættismannanefndar sem getur falið vísindanefnd að meta umsóknir og fjalla um rannsóknaverkefni. Fiskveiðiráðgjafi Norrænu ráðherranefndarinnar er starfsmaður ráðherranna og sér um samræmingu og daglegan rekstur starfsins og er því mjög mikilvægur þáttur starfsins.
         

12. Samstarf við grannsvæði Norðurlanda.


    Til grannsvæða Norðurlanda teljast Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland, þ.e. Murmansk-, Arkhangelsk- og Pétursborgarsvæðin auk Kaliningrad og Karelen.
    Norðurskautssvæðið telst einnig til grannsvæða Norðurlanda en samstarfið um málefni Norðurskautssvæðisins fer fram samkvæmt sérstakri starfsáætlun.
    Starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar á grannsvæðum Norðurlanda hefur staðið frá árinu 1990. Samkvæmt starfsáætlun fyrir grannsvæðin sem samþykkt var árið 1995 er samstarfið við grannsvæðin ein af þrem meginstoðum norræns samstarfs. Veitt var 50 millj. danskra króna til grannsvæðasamstarfsins af norrænum fjárlögum árið 1996.
    Meginmarkmið norræns samstarfs við grannsvæðin er að:
—    stuðla að friði, öryggi og stöðugleika í Evrópu,
—    stuðla að þróun lýðræðis og markaðsbúskapar, mannréttindum og ábyrgri nýtingu auðlinda.
    Samstarf og samskipti við grannsvæðin á sér stað á nánast öllum sviðum norræns samstarfs. Það fer fram á vegum Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar, embættismannanefndanna, sérfræðinga- og starfshópa og norrænu stofnananna. Með þessu móti verða tengsl Norðurlanda við grannsvæðin mjög víðtæk og til þess fallin að stuðla að jákvæðri þróun þar.
    Á grundvelli óska frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi er lögð áhersla á starfsemi og verkefni þar sem Norðurlönd geta boðið sérstaka þekkingu og kunnáttu og þar sem framlag Norðurlandanna er mikilvæg viðbót við starfsemi heimamanna.
    Áherslusvið starfsáætlunarinnar fyrir grannsvæðin hafa verið:
—    Upplýsingastarfsemi og samskipti.
—    Styrkjakerfi.
—    Menningar- og umhverfissamstarf.
—    Réttindi þegnanna.
—    Iðnaðar- og efnahagsmál.
—    Umhverfissamstarf.
—    Landbúnaðarsamstarf.
    Verkefni innan starfsáætlunarinnar voru alls 56. Af nýjum verkefnum má nefna jafnréttisverkefni og verkefni á sviði vinnuumhverfis og neytendamála. Stöðugt samráð um framvindu verkefnanna er haft við öll fagsvið. Öllum verkefnum miðar samkvæmt áætlun nema þremur sem mættu fyrirstöðu í upphafi.
    Tilraunaverkefni um tengslanet í Murmansk er lokið og hefur það gefið góðan árangur. Einnig voru á árinu kannaðar nýjar leiðir til samskipta á Barentssvæðinu.
    
Starfshópur um stefnumörkun fyrir samstarf Norðurlanda við grannsvæðin.
    Finnland lagði í upphafi formennsku sinnar áherslu á að mótuð yrði heildarstefna fyrir samstarf Norðurlanda við grannsvæðin. Því var starfshópi falið að gera úttekt á samnorrænu starfsáætluninni og á samstarfsverkefnum landanna hvers um sig við grannsvæðin. Hópurinn lagði fram yfirlit yfir svæðisbundin samstarfsverkefni í löndunum við Eystrasalt og á Barentssvæðinu auk alþjóðlegra samstarfsverkefna á vegum erlendra ríkja annarra en Norðurlanda. Fyrir utan stefnumörkun varðandi starfsemi Norðurlanda á grannsvæðunum var hópnum falið að leggja fram tillögur annars vegar um samnorræna stefnumörkun og hins vegar um áherslusvið í norrænu grannsvæðaáætluninni. Fulltrúi Íslands í starfshópnum er Ólafur Egilsson, sendiherra. Tillögur starfshópsins hafa fengið mikla umfjöllun og liggja til grundvallar þeirri pólitísku stefnumótun fyrir starfsemina sem samþykkt var af samstarfsráðherrum Norðurlanda í október 1996.

Norrænu upplýsingaskrifstofurnar.
    Upplýsingaskrifstofan í Tallinn flutti á árinu í nýtt húsnæði í miðbæ Tallinn. Unnið var að fjölda verkefna og menningarviðburðir voru skipulagðir í samvinnu við innlenda og erlenda aðila. Þar ber hæst menningarátakið Varia–96, Norræna barna- og unglingabókmenntahátíð í október og „Nordiska spår i Baltikum – baltiska spår i Norden“ sem var í senn námsferð og námsstefna. Megináhersla hefur þó verið á framkvæmd grannsvæðaáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar svo og upplýsingamiðlun og tengslamyndun í tengslum við verkefni ýmissa norrænna samtaka í Eistlandi. Enn fremur má nefna símenntunarverkefni fyrir kennara og sjónvarpsþáttaröð um markaðsbúskap. Haldin voru norræn tungumálanámskeið en í stað þess að reka norrænt bókasafn á vegum skrifstofunnar hefur sú stefna verið tekin að þrjú almenningsbókasöfn hafi samstarf um að útvega bækur og annað efni.
    Upplýsingaskrifstofan í Ríga hefur sem fyrr unnið að því að miðla norrænni menningu og norrænu gildismati. Hér má nefna mánaðarlegt fréttabréf, norræna útvarpsþáttaröð fyrir börn og unglinga og heimasíðu á alnetinu. Í samstarfi við upplýsingaskrifstofurnar í Tallinn, Vilníus og Pétursborg er unnið að bæklingi um norrænt samstarf og norrænar ráðstefnur og verkefni á grannsvæðunum. Í samstarfi við listamannasamtök Lettlands og menningarráðuneyti landsins og eftir litáískri fyrirmynd verður innan tíðar stofnuð vinnustofa fyrir norræna listamenn. Í samvinnu við Norræna félagið í Ríga og Klubb Norden var haldin jólahátíð með fjölbreyttri dagskrá og í nóvember tók skrifstofan á móti jafnréttisráðherrum Norðurlanda.
    Upplýsingaskrifstofan í Vilníus hefur fengið 50 fermetra viðbótarhúsnæði í grennd við skrifstofuna. Með því að verkefnastjórar norrænna verkefna eru meðvitaðir um þá möguleika sem upplýsingaskrifstofan býr yfir, hefur hún orðið æ virkari í norrænum samstarfsverkefnum. Hún hefur aðstoðað við að koma á tengslum milli Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar og Ráðherranefnd Eystrasaltsríkja. Skrifstofan hefur tekið þátt í verkefnum um menntun blaðamanna og bókasafnsfræðinga, um jafnrétti og vímuefnamál og hún hefur einnig tekið virkan þátt í samstarfi um „menningarborg Evrópu“, þ.e.a.s. Kaupmannahöfn 1996 og Stokkhólm 1998. Skrifstofan hefur traust samstarf við dreifingaraðila kvikmynda og fjölmiðla og hefur haft frumkvæði um fjölda smærri verkefna, t.d. sýningar, verkstæði, tónleika og þýðingar á norrænum bókmenntum á lítháísku. Skrifstofan hefur tekið þátt í samstarfinu um vinnustofu fyrir norræna listamenn. Tengsl við grasrótarsamtök hafa þróast á mörgum sviðum. Hér er um margvísleg málefni að ræða og má t.d. nefna jafnréttismál, heimilislaus börn og fatlaða svo og baráttuna gegn vímuefnum og vændi.
    Upplýsingaskrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Pétursborg hefur á árinu unnið að því að móta sér starfsvettvang. Áhersla hefur verið lögð á að auka tungumálakennslu í norrænum málum í Norðvestur-Rússlandi. Nú er kennt í norrænum tungumálum í háskólum í Pétursborg, Pskov, Novgorod, Petrozavodsk og Arkhangelsk og innan skamms hefst kennsla í Murmansk. Skrifstofan hefur einnig haldið tungumálanámskeið á eigin vegum, þar sem 200 nemendum eru kennd fimm norræn tungumál. Stærsta verkefnið á árinu á menningarsviðinu var norræn barnakvikmyndahátíð sem farið var með vítt og breitt um Norðvestur-Rússland. Hátíðin fékk mjög góðar móttökur og mun skrifstofan þess vegna standa fyrir kvikmyndahátíð á landsbyggðinni á hverju ári. Haldnar voru námsstefnur um ákveðin viðfangsefni fyrir lækna og blaðamenn og áhersla var einnig á menntun á umhverfissviðinu.
    

13. Lagaleg mál.

13.1. Samstarf um löggjafarmál.
    Á fundi norrænu dómsmálaráðherranna í Nådendal í Finnlandi í ágúst 1996 var lokið endurskoðun á samstarfsáætlun um norrænt löggjafarsamstarf. Endurskoðunin var gerð með hliðsjón af skýrslunni „Nýir tímar í norrænni samvinnu“ og þar sem Finnar og Svíar auk Dana hafa gerst aðilar að ESB. Í þeirri skýrslu kemur fram að vegna framtíðarhlutverks ESB í Evrópu sé áríðandi að norrænt samstarf sé nýtt til að sinna norrænum hagsmunum og til að leggja grunn að því að Norðurlöndin geti haft áhrif á forgangsröðun málefna í Evrópu.
    Miðað er við að við samstarfsáætlunina verði samin lýsing á tilteknum tímabærum samstarfssviðum (framkvæmdaáætlun) sem verði endurskoðuð og uppfærð með reglubundnum hætti. Samstarfsáætlunin inniheldur fyrst og fremst leiðbeiningar um vinnuferli og tilhögun samstarfs, m.a. til að tryggja samhæfingu og samræmingu ráðstafana sem grípa þarf til til að framkvæma ESB-tilskipanir.
    Samstarf um löggjafarmál fer einkum fram með fundum dómsmálaráðherranna og embættismannanefndarinnar um löggjafarsamstarf þar sem unnið er að samræmingu á samstarfinu og sameiginleg áhugamál rædd.
    Á sumarfundi dómsmálaráðherranna var auk hinnar nýju samstarfsáætlunar og vinnuáætlunar með henni fjallað um málefni er varða upplýsingaskyldu stjórnvalda, forvarnir og afbrotatölfræði, Evrópumálefni, einkum málefni þriðju stoðar, og málefni Eystrasaltslandanna.
    Embættismannanefndin hittist reglulega en auk þess hittast fulltrúar dómsmálaráðuneytanna, eða annarra fagráðuneyta á viðkomandi sviði þar sem það á við, formlega eða óformlega, og er þar skipst á upplýsingum og einstök löggjafarviðfangsefni rædd. Þetta samstarf fer og fram í tengslum við alþjóðlega fundi, hvort heldur er á vettvangi ESB eða annars staðar, þar sem norrænir fulltrúar hafa náið samstarf og samræma sjónarmið sín eftir því sem unnt er. Meðal viðfangsefna sem rædd hafa verið á fundum embættismannanefndarinnar eða einstakra samráðshópa má nefna alþjóðleg einkaréttarmálefni á sviði sifjaréttar, málefni þriðju stoðar ESB almennt, mannréttindi, viðbrögð gegn bifhjólagengjum, kynferðislega misnotkun barna, samstarf um þróun hlutafélagalöggjafar, tilskipun um neytendakaup og ábyrgðir, Schengen-samstarfið o.fl.
    Embættismannanefndin hefur á árinu staðið fyrir nokkrum málþingum. Í janúar var haldið málþing um norræna löggjafarsamvinnu innan ESB/EES og annað um lagatæknilega skoðun lagafrumvarpa og í maímánuði var haldið málþing um upplýsingaskyldu stjórnvalda, um stöðu löggjafar á því sviði og reynslu. Í sama mánuði var og haldin ráðstefna um afbrotavarnir (forvarnir) og er fyrirhugað að undirbúa gerð norrænnar áætlunar á því sviði.
    Ráð um rannsóknir á Evrópurétti (NORFEIR) starfar á sviði löggjafarmála. Eins og undanfarin ár stóð ráðið fyrir málþingum fyrir norræna fræðimenn, embættismenn, lögfræðinga og aðra, um viðfangsefni sem varða réttarsvið þar sem reglur ESB og EES tengjast norrænni löggjöf. Málþing var haldið í Hveragerði í maímánuði þar sem viðfangsefnin voru fiskveiðistefna innan ESB/EES séð frá lögfræðilegu sjónarhorni, grundvallarréttindi innan ESB/EES og upptaka ESB/EES reglna í landsrétt. Annað málþing var haldið í nóvember um áhrif Evrópusamrunans á norrænt samstarf á sviði umhverfisréttar. Þá var í október haldin hringborðsráðstefna um fjarskiptaþjónustu og samkeppni. Einnig stóð ráðið fyrir málþingi fyrir þá sem vinna að doktorsritgerðum á þessu réttarsviði og öðru fyrir starfsmenn bókasafna. Á árinu 1997 er fyrirhugað framhald á málþingum um þetta réttarsvið en með breyttu formi. Verður verkefnið í umsjá embættismannanefndarinnar en NORFEIR verður lagt niður með nýju ári.
    
13.2. Málefni flóttamanna.
    Samráðsnefnd æðri embættismanna um málefni flóttamanna fjallar um stefnumótun í málefnum er varðar flóttamenn. Þar fara og fram víðtæk upplýsingaskipti milli stjórnvalda um þróun löggjafar, breytingar á framvkæmd mála er varða málefni flóttamanna, ákvarðanatöku o.fl. Viðfangsefni nefndarinnar hafa að verulegu leyti snúist um málefni er varða ríki fyrrum Júgóslavíu, m.a. endurbyggingarstarf þar og aðstoð við heimflutning flóttamanna þaðan. Aðstoð við Eystrasaltsríkin hefur einnig verið til meðferðar hjá nefndinni. Enn fremur samráð vegna samninga um afnám vegabréfsáritana o.þ.h. við þau ríki, svo og almennt, með hliðsjón af norræna vegabréfasambandinu og Schengen-samstarfinu. Starfshópur hefur unnið yfirlitsskýrslu um starf svokallaðra útlendingafulltrúa sem einstök ríki hafa sent til starfa við sín sendiráð. Miðað er þá við að önnur norræn ríki geti leitað fyrirgreiðslu hjá þeim með sama hætti og sendiríkið. Þá hefur starfshópur unnið skýrslu um sameiningu fjölskyldna, reglur og framkvæmd á því sviði, alþjóðlegar skuldbindingar og meðferð umsókna. Samstarf á þessu sviði nær og til þeirra ráðherra sem fara með málefni er varða flóttamenn og innflytjendur. Af þeirra hálfu er m.a. lögð áhersla á aðgerðir gegn kynþáttahatri og útlendingahatri almennt.
    

14. Norrænar stofnanir á Íslandi.

14.1. Norræna húsið.
    Formlegt hlutverk hússins er að „koma til móts við og örva áhuga á norrænum málefnum á Íslandi og miðla þekkingu um Ísland á öðrum Norðurlöndum“. Hefur þetta verið hlutverk stofnunarinnar frá því hún hóf störf árið 1968.
    Norræna húsið er norræn menningarmiðstöð á breiðum grunni og heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Það er að mestu leyti rekið af ráðherranefndinni og þar með af Norðurlöndunum sameiginlega.
    Starfsemin á árinu 1996 var heldur minni en árið áður en þó mun meiri heldur en vænst var samkvæmt þeim samningi um verkefnavísa sem gerður var við Norrænu ráðherranefndina fyrir tímabilið 1995–98. Starfsemin fer aðallega fram í Norræna húsinu en á starfsárinu skipulagði stofnunin starfsemi í sjö íslenskum bæjum utan Reykjavíkur, í átta bæjum á Norðurlöndum svo og í Caen í Frakklandi.
    Enn fremur hefur verið lánað efni úr bókasafni Norræna hússins um allt land og lánaðar hafa verið grafíksýningar og sýningar á upplýsingaefni. Fréttablaðið „Islands-Kontakt“ kemur út fjórum sinnum á ári, í 1500 eintökum á dönsku og í 500 eintökum á finnsku. Blaðið er ókeypis og því er dreift til Íslandsvina á öllum Norðurlöndum.
    Starfsemi Norræna hússins á árinu var fólgin í rekstri bókasafns, kaffistofu og skrifstofu fjögurra norrænna lektora við Háskóla Íslands, í sýningum, fyrirlestra- og tónleikahaldi, vestnorrænu fjölmiðlaverkstæði, svo og í umfangsmilli upplýsingarstarfsemi varðandi norræn málefni.
    Á árinu hefur verið boðið upp á 391 opinber dagskráratriði í Norræna húsinu, en þau skiptast þannig: fyrirlestrar/ráðstefnur (80 á vegum hússins og 116 á vegum leigutaka), tónleikar (9/49), kvikmyndasýningar (91/9), leiksýningar (6/1), listsýningar (13/4), kynningarsýningar (6/3) og námskeið (4, öll á eigin vegum).
    Húsið er opið alla daga vikunnar; á starfsárinu hefur því aðeins verið lokað í 5 daga. Bókasafn Norræna hússins er eina bókasafnið á landinu sem er opið alla daga.
    Talning gesta í sal, anddyri og fundarherbergi sýnir 53% aukningu á tímabilinu 1994–96, en fjöldi gesta á listsýningum er nokkurn veginn stöðugur og sama máli gegnir um veltu kaffistofunnar.
    Um 100.000 gestir heimsóttu Norræna húsið á starfsárinu. Þar af voru Íslendingar u.þ.b. 60%, gestir frá öðrum Norðurlöndum 25% og gestir frá öðrum löndum 15%.
    Í starfsemi hússins á árinu skal sérstaklega lögð áhersla á eftirfarandi:
    Dagana 21.–30. júní fór fram umfangsmikil Íslandskynning í Harstad í Norður-Noregi með þátttöku 35 íslenskra listamanna á sviði danslistar, leiklistar, tónlistar, bókmennta, kvikmynda og myndlistar.
    Í tengslum við verkefnið „vestnorræn fjölmiðlaverkstæði“ hafa verið haldin tvö námskeið, annars vegar 12 vikna námskeið og hins vegar tíu vikna námskeið. Þetta eru námskeið fyrir ungt fólk á aldrinum 16–19 ára sem hlotið hefur kennslu í fjölmiðlafræði, blaðamennsku, landafræði, heimspeki, listasögu og útlitsteikningu. Reykjavíkurborg hefur styrkt þessi námskeið. Samstarf hefur verið haft við svipuð „verkstæði“ í Færeyjum og á Grænlandi, og hafa samskiptin byggst á notkun tölva. Hópur færeyskra unglinga hefur sótt Ísland heim, og íslenskur hópur hefur farið til Færeyja. Í tengslum við sama verkefni komu 21 grænlenskt og 20 færeysk ungmenni til Íslands. Unglingahóparnir gefa í sameiningu út tímaritið OZON, sem er dreift í 25.000 eintökum til framhaldsskóla í hinum vestnorrænu löndum. Verkefnastjóri er Oddur Albertsson og verkefnið sem lýkur í lok ársins 1998 er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni.
    Í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og deildarstjóra byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum var í þriðja sinn haldin sameiginleg fyrirlestraröð um byggingarlist, skipulagsmál og hönnun. Nefndir aðilar gáfu út ritið „Byggingarlist í Reykjavík 1996“.
    Dagana 9.–13. mars voru haldnir danskir bókmenntadagar í samstarfi við danska sendikennara við Háskóla Íslands.
    Dagana 17.–22. september fóru fram tvö námskeið, fyrir 70 norræna blaðamenn á menningarsviðinu og fyrir 20 evrópska listgagnrýnendur. Í einn og hálfan dag var sameiginleg dagskrá í Norræna húsinu fyrir þátttakendur þessara námskeiða.
    Fernir tónleikar voru haldnir og móttaka var í Norræna húsinu. Þetta var liður í Norrænum tónlistardögum sem haldnir voru í Reykjavík dagana 24.–30. september.
    Haldin voru tvö tveggja vikna sumarnámskeið um íslenska tungu og menningu en í þeim tóku þátt 42 einstaklingar frá öllum Norðurlöndum.
    Níu kynningarsýningar og sautján listsýningar hafa verið á tímabilinu og í þeim hafa tekið þátt listamenn frá öllum Norðurlöndum nema Grænlandi og Álandseyjum, svo og frá Japan. Sýnd hafa verið málverk, höggmyndir, ljósmyndir, glerlist, grafíklist, textíllist og byggingarlist.
    Á hverju ári á tímabilinu 1995–98 fær Norræna húsið í grunnstyrk 54,467 millj. ísl.kr. frá Norrænu ráðherranefndinni en veltan verður um 85 millj. ísl.kr. á árinu. Mismunurinn felst í svonefndum ytri framlögum en af þeim er mesti hlutinn frá Norrænu ráðherranefndinni. Enn fremur var á árinu veitt umtalsvert fjármagn frá Reykjavíkurborg, ýmsum opinberum og einkareknum stofnunum á landinu og sendiráðum Norðurlanda í Reykjavík.
    Starfsmenn hússins eru 17, þar af tveir ráðnir í verkefni, í 11 stöðugildum.
    Í stjórninni eiga sæti sjö manns, þrír frá Íslandi og einn frá hverju landanna, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Formaður stjórnar er Lennart Elmevik (S), prófessor í norrænum tungumálum við Uppsalaháskóla en K. Torben Rasmussen (DK) er forstjóri Norræna hússins.
    
14.2. Norræna eldfjallastöðin.
    Norræna eldfjallastöðin (NORDVULK) er samnorræn stofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Stjórn stofnunarinnar er skipuð fulltrúum Norðurlandanna auk þriggja fulltrúa íslenskra stofnana á sviði jarðvísinda. Stjórnarformaður er prófessor Carl Ehlers, Finnlandi, en Dr. Guðmundur E. Sigvaldason veitir stofnuninni forstöðu. Skipunartími núverandi stjórnar rann út um áramót 1996/1997. Ný stjórn var tilnefnd eftir nýrri samræmdri reglugerð fyrir norrænar stofnanir sem tók gildi um áramót. Í nýrri stjórn er einn fulltrúi frá hverju landi.
    Í reglugerð fyrir stofnunina frá 11. desember 1972 er hlutverk hennar skilgreint svo:
    „Norræna eldfjallastöðin á að stunda rannsóknir í eldfjallafræði með áherslu á veigamestu rannsóknarsvið þeirrar fræðigreinar: bergfræði, jarðefnafræði, jarðeðlisfræði og eldfjallasögu. Stofnunin á að veita vísindamönnum og námsmönnum frá Norðurlöndum og, eftir nánari ákvörðun stjórnar stofnunarinnar, einnig frá öðrum löndum, aðstöðu til rannsókna í elfjallafræði og tengdum greinum.“
    Í reglugerð sem tekur gildi 1. janúar 1997 er hlutverk stofnunarinnar skilgreint svo: „Meginhlutverk Norrænu eldfjallastöðvarinnar er að stunda rannsóknir í jarðvísindum með áherslu á eldvirkni, flekahreyfingar og umhverfisrannsóknir þeim tengdar. NORDVULK á að þróa norrænt samstarf í grundvallarvísindum á sínu sviði. Stofnunin á að hafa greinilega norræna ásýnd (profil), og skapa með þeim hætti norrænt gildi til viðbótar við faglegar niðurstöður samvinnunnar.“
    Til að ná þessum markmiðum á NORDVULK að:
    móta og vinna að rannsóknarverkefnum, viðhalda tengslum við aðrar stofnanir og tryggja á þann hátt að stofnunin fylgist með framþróun á sínu sviði,
    skapa aðstöðu til rannsókna fyrir norræna vísindamenn, sem heimsækja stofnunina í lengri eða skemmri tíma, og koma á samstarfi og tengslum við vísindamenn á Norðurlöndum og í öðrum heimshlutum,
    annast framhaldsmenntun ungra norrænna vísindamanna, m. a. með því að bjóða dvalarstyrki (stipendiatprogram),
    eiga þátt í skipulagi og rekstri sumarskóla, vinnufunda og ráðstefna á Norðurlöndum,
    birta eða á annan hátt gera afrakstur starfsins aðgengilegan almenningi.
    
Rannsóknir.
    Á starfstíma Norrænu eldfjallstöðvarinnar hefur fræðigreinin, sem stofnunin er kennd við, eldfjallafræðin, tekið miklum breytingum. Þegar stofnunin hóf störf beindist athyglin einkum að virkum eldfjöllum og ferlum, sem tengdust eldgosum. Sívaxandi skilningur á hnattrænu mikilvægi efnisflutnings frá möttli til yfirborðs og aðgreiningu möttulefnis milli efnisgeyma mannlegs umhverfis olli mikilli fjölgun viðfangsefna, sem eldfjallafræðin var betur í stakk búin að fást við en aðrar fræðigreinar. Á umliðnum 20 árum hafa því myndast skil milli tvenns konar viðfangsefna eldfjallafræðinnar. Annars vegar eru viðfangsefni, sem lúta að vöktun eldvirkra svæða í þeim tilgangi að meta og vara við hættu vegna eldgosa, hins vegar viðfangsefni sem leitast við að auka skilning á orsökum eldvirkninnar og hnattrænum áhrifum hennar á umhverfið. Í upphafi tók Norræna eldfjallastöðin virkan þátt í verkefnum sem heyra undir fyrri hóp viðfangsefna en í seinni tíð hafa rannsóknirnar beinst í auknum mæli að þeim síðari.
    Helstu rannsóknarverkefni stofnunarinnar árið 1996 í jarðefnafræði og bergfræði fjölluðu um uppruna bergs á gliðnunarbeltunum. Sem dæmi má nefna að líkanreikningar benda til þess að möttullinn í grennd við möttulstrókinn byrji að bráðna á 100 km dýpi og að kvikan skiljist frá möttulefninu á dýpi sem er minna en 30 km. Annað dæmi er verkefni, sem hófst á þessu ári og miðar að því að afla gagna til að meta áhrif eldgosa á efnahvörf í heiðhvolfinu og enn önnur verkefni miða að því að rekja feril mengunarefna í efri hlutum lofthjúpsins með því að tengja forsöguleg gos á Íslandi við mengun á Grænlandi en efnin geta aðeins borist til Grænlands eftir að hafa farið einu sinni eða oftar umhverfis hnöttinn.
    Sem dæmi um verkefni í jarðeðilsfræði má nefna notkun radarmynda, sem eru teknar úr gervihnöttum, til að meta hreyfingar jarðskorpunnar. Samanburður tveggja mynda, sem eru teknar með nokkru millibili (mánuðir, ár) gefur samfellda mynd af hreyfingum á mjög stóru svæði, en það er mikil framför frá fyrri aðferðum, sem byggjast á landmælingum á jörðu niðri. Beiting þessarar aðferðar á flekaskilin um Ísland mun leiða til stóraukins skilnings á þeim kröftum sem ráða hreyfingum jaraðskorpuflekanna.
    Dæmi um verkefni í rafeindatækni er endursmíði rannsóknartækis, sem stofnunin eignaðist árið 1975, en var úr sér gengið. Nýtt tæki sömu gerðar kostar um 60 millj. kr. en tæknimenn stofnunarinnar hafa nú lokið fullkominni endurnýjun tækisins fyrir brot af þeim kostnaði. Annað verkefni á þessu sviði beinist að þróun sjálfvirks búnaðar til umhverfisvöktunar. Forsenda og markmið verkefnisins er þróun tækni til vöktunar eldvirkra svæða en flestir þættir verksins eru þess eðlis að niðurstaðan nýtist til alhliða vöktunar á ólíkum umhverfisþáttum við erfiðar aðstæður.
    
Alþjóðleg tengsl.
    Af þeim alþjóðlegu samvinnuverkefnum, sem stofnunin á aðild að, ber mest á verkefnum sem eru fjármögnuð af Evrópusambandinu. Fjögur slík verkefni hófust á árinu bæði á sviði jarðfræði/jarðeðlisfræði og rafeindatækni. Allmikil vinna er stöðugt unnin til undirbúnings nýjum umsóknum í sjóði ESB en næsti umsóknarfrestur til umhverfissjóðsins rennur út í janúar á næsta ári.
    
Norrænir styrkþegar.
    Fimm ungir, norrænir vísindamenn fengu styrk til ársdvalar við stofnunina. Að þessu sinni fengu tveir Danir, tveir Norðmenn og einn Finni styrki. Þar af fengu þrír framhaldsstyrki og tveir nýir styrkþegar komu til stofnunarinnar. Tveir styrkþegar luku dvöl sinni hér, annar finnskur, hinn sænskur.
    Styrkþegar vinna að verkefnum sem tengjast rannsóknarstefnu stofnunarinnar hverju sinni, en langflestir styrkþeganna kjósa að starfa að verkefnum í jarðefnafræði og bergfræði. Áherslan í rannsóknum stofnunarinnar til lengri tíma litið ræðst mjög af því á hvaða sviði styrkþegar kjósa að starfa, enda mynda styrkþegar stóran hluta þess mannafla til rannsókna, sem stofnunin hefur yfir að ráða. Eins er á það að líta að norrænu styrkþegarnir eru mikilvægur hornsteinn í starfi stofnunarinnar.
    
Sumarskóli Norrænu eldfjallastöðvarinnar.
    Sumarskóli Norrænu eldfjallastöðvarinnar var nú haldinn öðru sinni með fjárstuðningi frá Nordisk Forskerutdanningsakademi (NorFA) og Training and Mobility styrktarstofnun Evrópusambandsins (TMR). Sumarskólaverkefnið er nokkurs konar arftaki norrænu jarðfræðiferðanna til Íslands, sem voru fastur liður í norrænu samstarfi allt frá miðjum sjöunda áratug þar til þessar ferðir voru lagðar niður árið 1993. Skipulag sumarskólans er þó með alls ólíkum hætti og hefur önnur markmið en jarðfræðiferðirnar. Hver skóli fjallar um þröngt, sérhæft efni á sviði sem höfðar til hnattrænna fyrirbrigða en leitast við að velja efnið þannig að náttúra Íslands gefi möguleika á fræðslu úti í náttúrunni. Þátttakendur eru ungir vísindamenn, sem eru að fást við doktorsverkefni eða hafa nýlokið slíku námi, en fyrirlesarar eru þekktustu sérfræðingar sem völ er á til að fjalla um efni skólans. Skólinn er haldinn síðsumars í grennd við náttúrufyrirbrigði tengd efni skólans.
    Sumarskólinn 1996 var haldinn á Kirkjubæjarklaustri og fjallaði um myndun úthafsskorpu og ophiolita en það er forn úthafsskorpa sem hefur skarast upp á jaðar meginlandsfleka. Í ophiolitum er unnt að sjá gerð úthafsskorpunnar allt niður fyrir mótin milli skorpu og möttuls. Sameiginleg fjármögnun NorFA og TMR á sumarskólanum 1996 fól í sér að þátttakendur komu frá bæði Norðurlöndum og Evrópu. Aðeins reyndist unnt að sinna einum þriðja umsókna um þátttöku. Fyrirlesarar voru fengnir frá Evrópu og Bandaríkjunum.
    Bandarísku fyrirlesararnir höfðu ekki áður kynnst þessu formi á samskiptum ungra og eldri vísindamanna og fóru þess á leit við Norrænu eldfjallastöðina að hún skipulegði sumarskóla fyrir unga bandaríska vísindamenn sumarið 1997. Reiknað er með að sumarskólinn 1997 verði haldinn í Mývatnssveit og fjármagnaður af bandarískum vísindasjóði (National Science Foundation) og að NorFA greiði þátttöku nokkurra norrænna þátttakenda. Efni skólans verður um jarðeðlisfræðileg ferli á flekaskilum. Einnig verður fjallað um tæknilegar úrlausnir við að aðhæfa mæliaðferðir á yfirborði jarðar að aðstæðum á miklu sjávardýpi. Sumarskólinn 1998 er í undirbúningi og efni þess skóla mun tengjast rannsóknum á grænlensku ískjörnunum og loftslagsbreytingum á Norður-Atlantshafi. Umsókn til NorFA og TMR um styrki til þess skóla er í undirbúningi.

15. Norrænir sjóðir.


15.1. Norræni fjárfestingarbankinn (NIB).
Almennt um starfsemina.
    Samningur milli ríkisstjórna Norðurlanda um stofnun Norræna fjárfestingarbankans, NIB, var undirritaður í desember 1975. Starfsemi bankans hófst árið 1976. Haldið var upp á 20 ára afmæli bankans í lok maí sl. með ársfundi og ráðstefnu sem sótt var af fulltrúum eigenda bankans auk fulltrúa norræns og alþjóðlegs atvinnulífs.
    Hlutverk bankans er að veita lán og ábyrgðir á markaðskjörum til fjármögnunar fjárfestinga, sem uppfylla kröfur um norræna hagsmuni, jafnt innan sem utan Norðurlanda. Lánastarfsemin tekur til fjárfestinga sem eru í norræna þágu innan Norðurlanda og verkefnafjárfestingarlána (projekt-investeringslån, PIL) til lánshæfra landa í Mið- og Austur-Evrópu svo og þróunarlanda, sem uppfylla kröfur um lánshæfi. Bankinn veitir einnig lán til verkefna í Eystrasaltslöndum innan sérstakrar fjárfestingaráætlunar þeirra vegna. Þá hefur nú verið ákveðið að bankinn annist nýja fjárfestingaráætlun á sviði umhverfismála á grannsvæðum Norðurlanda. Höfuðstöðvar bankans eru í Helsingfors en auk þess hefur bankinn svæðisskrifstofur í Kaupmannhöfn, Ósló, Reykjavík og Stokkhólmi auk Singapore.
    Hagnaður af starfsemi Norræna fjárfestingarbankans (NIB) fyrstu átta mánuði ársins 1996 nam 74 millj. ECU (6,3 milljörðum íslenskra króna), sem er betri rekstrarárangur en fyrir sama tímabil í fyrra. Áætlaður hagnaður fyrir árið 1996 sem heild er um 114 millj. ECU (9,5 milljarðar íslenskra króna), sem er betri rekstrarafkoma en árið 1995 en það ár nam hagnaður af starfseminni 103 millj. ECU (8,7 milljörðum íslenskra króna) sem er besta afkoma bankans fram til þessa. Hreinar vaxtatekjur NIB fyrstu átta mánuði ársins, námu 82 millj. ECU (7,8 milljörðum íslenskra króna) en aðeins 78 millj. ECU á sama tímabil í fyrra. Bankinn hefur ekki í ár fremur en í fyrra orðið fyrir neinum útlánatöpum sem staðfestir sterka heildarmynd útlána bankans og fjárstýringar hans.
    Eigið fé bankans jókst um tæp 10 % úr 858 millj. ECU í ágúst 1995 í 940 millj. ECU (79,7 milljarða íslenskra króna) í lok ágúst 1996. Áætlað eigið fé bankans í árslok 1996 er tæplega 980 millj. ECU (83 milljarðar íslenskra króna). Grunnfé bankans nemur nú 2.809 millj. ECU (238 milljörðum íslenskra króna) og á þeim grundvelli getur bankinn lánað jafnvirði 7.021 millj. ECU (595 milljarða íslenskra króna) sem fjárfestingarlán innan Norðurlanda. Útlánaramminn samsvarar 2,5-földu grunnfé bankans. Þessu til viðbótar koma síðan sérstakir lánarammar fyrir verkefnafjárfestingarlán (PIL) að upphæð 2.000 millj. ECU og lán til Eystrasaltslandanna að upphæð 60 millj. ECU. Heildarútlánageta bankans nemur því nú um 9.081 millj. ECU (770 milljörðum íslenskra króna). Útborgaður arður til eigenda bankans á árinu 1996 vegna hagnaðar ársins 1995 er 30 millj. ECU (2,6 milljarðar íslenskra króna), en 20 millj. ECU árið áður.
    Samþykkt og útborguð lán bankans hafa aukist verulega á árinu 1996 en það endurspeglar vaxandi fjárfestingu. Á fyrstu átta mánuðum ársins námu útborganir og veittar ábyrgðir alls 840 millj. ECU (72 milljörðum íslenskra króna), en 628 millj. ECU fyrir sama tímabil í fyrra. Útistandandi lán alls hafa aukist um 10% frá áramótum og námu 5.467 millj. ECU (463 milljörðum íslenskra króna) í lok ágúst 1996. Áætlað er að heildarútlán bankans í árslok 1996 nemi tæplega 5.800 millj. ECU (490 milljörðum íslenskra króna). Niðurstöðutala efnahagsreiknings bankans nam 8.830 millj. ECU (748 milljörðum íslenskra króna) þann 31. ágúst 1996, en 8.078 millj. ECU í árslok 1995. Áætluð niðurstöðutala efnahagsreiknings bankans í árslok 1996 er um 8750 millj. ECU (740 milljarðar íslenskra króna).
    Á fyrstu átta mánuðum ársins voru greidd út ný lán til Norðurlanda að upphæð 692 millj. ECU eða um 58,5 milljarðar íslenskra króna. Til samanburðar námu útborganir fyrir sama tímabil í fyrra 507 millj. íslenskra króna. Um 41% af nýjum lánveitingum ársins fóru til Svíþjóðar, 37% til Finnlands, um 7% til Danmerkur, um 6% til Noregs og um 5% til Íslands. Heildarútlán bankans til Norðurlanda í lok ágúst 1996 námu u.þ.b. 4.540 millj. ECU (385 milljörðum íslenskra króna) og er hlutdeild Íslands um 9%, Svíþjóðar um 36%, Finnlands um 31%, Noregs um 14% og Danmerkur um 9%.
    Á fyrstu átta mánuðum ársins fóru um 65% af útborguðum lánum bankans til Norðurlanda til fjármögnunar fjárfestinga á sviði framleiðsluiðnaðar og er pappírs- og trjávöruiðnaður þar fyrirferðarmestur með um 20% af nýjum lánum en málm- og byggingariðnaður fylgir þar á eftir. Um 20% af útborguðum nýjum lánum til Norðurlanda hafa farið til fjármögnunar fjárfestinga sveitarfélaga, einkum á sviði orkumála, hreinsunar frárennslis auk verkefna á sviði sorphirðingu. Um 25% af útborguðum nýjum norrænum lánum hafa tengst fjárfestingum til umhverfisbóta.
    Útborganir lána bankans utan Norðurlanda fram til loka ágúst námu 148 millj. ECU (12,5 milljörðum íslenskra króna) en 121 millj. ECU á sama tímabili í fyrra. Útistandandi alþjóðleg lán bankans námu alls 971 millj. ECU (82,3 milljörðum íslenskra króna) í lok ágúst 1996, sem er um 13% aukning frá síðustu áramótum, er alþjóðlegar lánveitingar bankans námu alls 863 millj. ECU.
    Af framangreindum nýjum alþjóðlegum lánveitingum að upphæð 148 millj. ECU voru 114 millj. ECU (9,7 milljarðar íslenskra króna) svokölluð verkefnafjárfestingarlán (PIL), sem ætluð eru til fjármögnunar verkefna á hinum ört vaxandi mörkuðum í Asíu, Miðausturlöndum, Mið- og Austur-Evrópu, Afríku og Suður-Ameríku.
    Meginreglan við lánveitingar NIB er að sú fjárfesting sem fjármögnuð er gagnist a.m.k. tveim norrænum löndum. Að frumkvæði norrænna fjármála- og efnahagsráðherra hafa bankanum verið veittar auknar heimildir til að fjármagna innviðafjárfestingar þó svo fjárfestingin tengdist beinlínis einvörðungu einu landi. Skilyrði er að um umfangsmiklar fjárfestingar sé að ræða fyrir viðkomandi aðildarland. Sambærileg skilgreining hefur verið viðhöfð í tengslum við fjárfestingar á sviði orku- og umhverfismála auk fjárfestingar vegna rannsókna- og þróunarverkefna fyrirtækja. Á yfirstandandi ári hafa eigendur bankans falið honum ný verkefni m.a. á grannsvæðum Norðurlanda.
    Í ágúst sl. ákváðu forsætisráðherrar Norðurlanda að sett skyldi upp ný umhverfisáætlun á næsta ári og var bankanum falið að annast hana. Þessi nýi lánarammi er að fjárhæð 100 millj. ECU (8,6 milljarðar íslenskra króna) og skal honum varið til lánveitinga til fjárfestinga á sviði umhverfismála á grannsvæðum Norðurlanda. Eigendur bankans eru í bakábyrgð fyrir þessum lánveitingum.
    Þá hefur Norræna ráðherranefndin (fjármála- og efnahagsráðherrar Norðurlanda) samþykkt endurskoðun á túlkun hugtaksins norrænir hagsmunir, en norrænir hagsmunir eru eitt af grundvallarskilyrðum fyrir öllum lánveitingum NIB. Endurskoðunin felur m.a. í sér að nú er mögulegt fyrir bankann að taka þátt í fjármögnun erlendra fjárfestinga á Norðurlöndum, þó aðeins eitt landanna eigi beina aðild að verkefninu, enda efli fjárfestingin atvinnulíf og fjölgi atvinnutækifærum í viðkomandi landi.
    Ráðherranefndin hefur jafnframt samþykkt nýjar reglur fyrir alþjóðlegar lánveitingar bankans eða svokölluð verkefnafjárfestingarlán (PIL). Á yfirstandandi ári hafa reglur um þessar lánveitingar verið aðlagaðar örum vexti og aukinni einkavæðingu á mörkuðum í Asíu auk Mið- og Austur-Evrópu. Þessi lán eru veitt til fjármögnunar verkefna í löndum sem uppfylla kröfur um lánshæfni og meginreglan er að þau séu með ríkisábyrgð viðkomandi lántökulands. En breytingin felur jafnframt í sér að bankinn geti t.d. tekið þátt í fjármögnun innviðafjárfestinga, sem viðkomandi ríki hefur veitt fyrirtækjum í einkageiranum heimild til að annast þótt ekki sé um að ræða bakábyrgð viðkomandi ríkis. Það sama á einnig við um lánveitingar til langtímalánastofnana í viðkomandi ríkjum, enda uppfylli þær kröfur bankans um lánhæfni. Eigendur bankans eru í sérstakri bakábyrgð fyrir 90% af andvirði þessara lána en bankinn hefur ekki fram til þessa þurft að nýta þessa bakábyrgð eigandanna.
    NIB var af eigendum sínum falið að stjórna hluta af stuðningi Norðurlandanna við Eystrasaltslöndin er miðast að því að þróa fjármagnsmarkaðinn í þessum löndum. Bankinn hefur veitt lán til Litáen og Póllands í tengslum við uppbyggingu og endurbætur á vegakerfi Eystrasaltslandanna (Via Baltica) en það verkefni hefur haft forgang hvað varðar innviðafjárfestingar á grannsvæðum Norðurlanda. Þá hefur bankinn aðstoðað eistnesk stjórnvöld við undirbúning mikilvægrar fjárfestingar í orkuverum í borginni Narva og tengdri námavinnslu á olíusandi, sem er orkugjafinn. Framkvæmdirnar miða í senn að umhverfisbótum og hagkvæmni í rekstri orkukerfisins.
    Fjármála- og efnahagsráðherrar Norðurlanda ákváðu sl. haust að fela bankanum að halda áfram stuðningi við eflingu einkageirans í Eystrasaltslöndunum. Útlánarammi bankans var tvöfaldaður og nemur nú 60 millj. ECU (5,1 milljarði íslenskra króna). Jafnframt var bankanum falið að halda áfram tæknilegri aðstoð við uppbyggingu fjárfestingabanka í hverju landanna þriggja og fær til þess verkefnis 3,25 millj. ECU (275 millj. íslenskra króna). Auk þess mun NIB fá til ráðstöfunar sérstakan sjóð sem nemur 7,5 millj. ECU (636 millj. íslenskra króna) til hugsanlegra hlutafjárkaupa í fjárfestingarbönkunum þremur í Eystrasaltslöndunum.
    Nýjar lántökur bankans í formi skuldabréfaútgáfu fyrstu 8 mánuði ársins 1996 námu 1.597 millj. ECU (235 milljörðum íslenskra króna) á móti 1.445 millj. ECU fyrir sama tímabil í fyrra. Heildarlántökur NIB námu þann 31. ágúst 1996 6.822 millj. ECU (580 milljörðum íslenskra króna) á móti 6.086 ECU í árslok 1995.
    
Starfsemi NIB á Íslandi.
    Lánveitingar NIB til Íslands hafa verið nokkuð minni í ár en í fyrra, en það ár var það umfangsmesta fram til þessa. Á tímabilinu janúar til nóvember 1996 hafa verið samþykkt sjö ný lán til Íslands að jafnvirði 5,1 milljarður íslenskra króna á móti 7,7 milljörðum fyrir sama tímabil í fyrra. Útborguð lán í ár verða um 4,5 milljarðar íslenskra króna en 5,4 milljarðar á árinu 1995.
    Ný samþykkt lán 1996 og útborganir greinast þannig á einstaka flokka lántakenda (í millj. íslenskra króna):

Samþykkt 1996

Útborgað 1996

    
Lántakendur

Fjöldi

Upphæð

Fjöldi

Upphæð
Ríkissjóður     
1
2.460
Sveitarfélög     
1
300 1 160
Fyrirtæki í eigu hins opinbera     
1
200 3 945
Bankar     
3
1.800 3 1.220
Atvinnuvegasjóðir     
1
450 3 1.650
Einkafyrirtæki     
2 500
Samtals     
7
5.210 12 4.475     
    
    NIB er enn sem fyrr langstærsti einstaki erlendi lánveitandinn til Íslands með um 12% af erlendum langtímaskuldbindingum þjóðarbúsins í heild en heildarlánveitingar NIB til Íslands námu 395 millj. ECU eða tæplega 33,5 milljörðum íslenskra króna þann 29. nóvember 1996. Hlutur Íslands í lánveitingum NIB hefur undanfarin ár verið milli 9 og 10% af heildarútlánum bankans til Norðurlanda. Eignarhluti Íslands í NIB er u.þ.b. 1%.
    Á eftirfarandi töflu má sjá yfirlit yfir þróun útistandandi lána til Íslands frá 1992 til 1996 (upphæðir í millj. ECU):

31.12.1992

31.12.1993

31.12.1994

31.12.1995

31.12.1996Útistandandi lán alls      304
,2 350 ,7 346 ,7 379 ,9
394 ,6
Fjöldi lántakenda     
25
25 29 31 35
Fjöldi lána     
67
70 74 77 81


    Útistandandi lán NIB til Íslands námu í lok ágúst 1996 um 33,4 milljörðum og greinast þannig á einstaka flokka lántakenda:

Lántakendur

Fjöldi lántakenda

Upphæð í millj. kr.Fjárfestingarlánasjóðir og bankar     
7
13.923
Fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga     
7
7.850
Ríkissjóður     
1
7.050
Einkafyrirtæki     
16
2.558
Sveitarfélög     
4
2.044
Samtals     
35
33.425     

Stjórn bankans.
    Jón Sigurðsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri og ráðherra, er aðalbankastjóri NIB. Í bankaráðinu eiga nú sæti af Íslands hálfu Guðmundur Magnússon og Þorsteinn Ólafsson. Varamenn þeirra eru Ásgeir Jóhannesson og Árni Magnússon.
    
15.2. Norræni iðnaðarsjóðurinn (NI).
    Norræni iðnaðarsjóðurinn stuðlar að tækniþróun og nýsköpun í atvinnulífi Norðurlanda og stuðlar að því að samkeppnishæfar afurðir, ferli og þjónusta séu í boði. Sjóðurinn nær markmiðum sínum með því að styðja rannsókna- og þróunarverkefni sem eru samstarf innan Norðurlandanna og stuðla að auknum tengslum og þróun nýrra hugmynda meðal norrænna fyrirtækja.
    Á árinu 1996 hafði sjóðurinn til ráðstöfunar 71,0 millj. norskra króna, 25 millj. til greiðslu á árinu 1996, 31 millj. árið 1997 og 15 millj. til útborgunar 1998.
    Á árinu 1995 var heildarumfang verkefna 215 millj. norskra króna, en til samanburðar var árið það 1994 260 millj. norskra króna. Sjóðurinn studdi umrædd verkefni með 27% framlagi en rannsóknarráðin/tækniþróunarráðin greiddu 23% og tæp 51% kom frá fyrirtækjum.
    Áætla má að 1500 einstaklingar frá 800 fyrirtækjum og 70 rannsóknarstofnunum og háskólum séu skráðir þátttakendur í rannsókna- og þróunarverkefnum sem Norræni iðnaðarsjóðurinn styður. Auk þeirra er fjöldi einstaklinga sem tekur þátt í framkvæmd þróunarverkefnanna í fyrirtækjunum og rannsóknastofnununum.
    Starfsemi Norræna iðnaðarsjóðsins hefur breyst mikið á undanförnum tveimur árum. Sjóðurinn er þátttakandi í umfangsmeira samstarfi sem opnaðist með ESB-aðild og EES-samningnum auk þess sem unnið hefur verið að auknum tengslum við Eystrasaltsríkin og Austur-Evrópu.
    Sjóðurinn lagði fram og kynnti nýja stefnu á árinu 1996. Nýja stefnan felur í sér aukinn fjölda þátttakenda í umfangsminni verkefnum, svo sem forverkefnum, tengslaverkefnum (nätverk) og regnhlífarverkefnum sem stuðla að auknum tengslum rannsóknarhópa innan Norðurlandanna. Auk þess er gert ráð fyrir að um helmingur ráðstöfunarfjár fari í meginverkefni (huvudprojekt), hliðstæð stuðningsverkefnum undanfarinna ára.
    Í ágúst 1996 var haldin á Íslandi ráðstefna á vegum sjóðsins um matvælatækni (Nordfood) og tóku 240 einstaklingar þátt, þar af 40% frá iðnfyrirtækjum. Ráðstefnan tókst mjög vel og fékk nokkra umfjöllun í fjölmiðlum Norðurlandanna. Í tengslum við ráðstefnuna var haldin svokölluð „Brokerage Event“, þar sem rannsóknarfólk fékk tækifæri til að ræða ný verkefni og finna heppilega samstarfsaðila. Í „Brokerage Event“ voru 140 þátttakendur frá 18 þjóðlöndum og komu fram rúmlega 40 verkefnishugmyndir. Ráðstefna sem þessi er mikils virði fyrir íslenskt rannsóknasamfélag.
    Seinni hluta árs 1996 ákvað Norræna ráðherranefndin að gera úttekt á starfsemi sjóðsins og mun hún liggja fyrir í byrjun árs 1997.
    
15.3. Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn (Nopef).
Samstarf um útflutningsverkefni.
    Markmið Norræna verkefnaútflutningssjóðsins (Nopef) er að efla alþjóðlega samkeppnishæfni norrænna fyrirtækja og stuðla að þátttöku þeirra í verkefnum á alþjóðavettvangi. Þetta gerir sjóðurinn með því að styðja for- og arðsemisathuganir á verkefnum sem talið er að geti leitt til nýrra viðskiptatækifæra á erlendum mörkuðum og nýs verkefnaútflutnings. Í þessu skyni veitir Nopef lán á hagstæðum kjörum. Jafnframt stendur sjóðurinn fyrir almennum athugunum sem geta komið norrænu viðskiptalífi að gagni í þessu samhengi.
    Nopef styður við forathuganir vegna útflutningsverkefna eftir tveimur meginleiðum. Annars vegar er um að ræða almennan stuðning við slík verkefni utan aðildarríkja ESB og EFTA. Hins vegar hefur sjóðnum verið falið að annast hluta af stuðningi Norðurlandanna við Eystrasaltsríkin (svonefnd BIP-áætlun). Að auki hefur Nopef með höndum nokkur smærri verkefni, m.a. stuðning við grannsvæðin í Norðvestur-Rússlandi og samstarfsverkefni við ESB.
    
Almenn verkefni.
    Nopef veitir fyrirtækjum áhættulán til for- og arðsemisathugana á verkefnum sem til þess eru fallin að efla útflutning frá Norðurlöndum og stuðla að alþjóðavæðingu norrænna fyrirtækja. Lánin geta svarað til allt að 50% af kostnaði við gerð slíkra athugana og getur sjóðurinn breytt þeim í styrk reynist ekki grundvöllur fyrir verkefninu en annars ber að endurgreiða þau. Lánin eru vaxtalaus.
    Helstu forsendur fyrir stuðningi Nopefs eru:
     —     verkefnið verður að vera vel skilgreint og byggt á viðskiptalegum grunni,
     —     verkefnið verður að tengjast löndum utan ESB og EFTA,
     —     norrænir hagsmunir þurfa að liggja að baki verkefninu,
     —     raunhæf fjárhagsáætlun vegna verkefnisins þarf að liggja fyrir.
    Verkefnin geta verið af margvíslegu tagi og er lögð megináhersla á að viðunandi líkur séu á að þeim verið hrint í framkvæmd.
    
Fjárfestingaráætlunin fyrir Eystrasaltsríkin (BIP).
    Í tengslum við fjárfestingaráætlunina fyrir Eystrasaltsríkin (BIP) hafa Norðurlöndin falið Nopef að styðja norræn fyrirtæki til að stofna lítil og meðalstór fyrirtæki í Eystrasaltsríkjunum. Í vissum tilvikum kemur einnig til greina að styrkja fyrirtæki frá Eystrasaltslöndum ef það er í samstarfi við norrænan aðila. Stuðningurinn samkvæmt þessari áætlun, sem nær til ársloka 1999, er í formi vaxtalauss láns eins og þegar um almennan stuðning er að ræða. Lánin geta hins vegar numið allt að 60% af áætluðum kostnaði við athuganirnar og ef verkefnið leiðir til árangurs er hægt að sækja um 20% viðbótarlán. Ef verkefni er ekki hrint í framkvæmd getur lántaki sótt um niðurfellingu lánsins. Verkefnin eru jafnframt skilgreind víðar en almennu verkefnin, m.a. ná þau til undirbúnings viðskiptaáætlana og samstarfssamninga, tillögugerðar um endurskipulagningu fyrirtækja í umræddum löndum o.fl. Hámarksstuðningur við hvert verkefni er 600 þúsund finnsk mörk.
    
Verkefnin 1996.
    Nopef studdi 86 verkefni á árinu 1996 og nam stuðningurinn við þau rúmlega 300 millj. íslenskra króna. Þar af voru sex íslensk verkefni sem fengu samtals 21,4 millj. íslenskra króna. Hér á eftir er sýnd skipting verkefnanna á Norðurlöndin.

Fjöldi

    Fjárhæð (ísl. kr.)     

1995

1996

1995

1996Danmörk     
46
21 112 ,8 83 ,3
Finnland     
7
14 29 ,0 42 ,6
Ísland          
2
6 6 ,7 21 ,4
Noregur     
20
20 61 ,0 73 ,9
Svíþjóð     
36
25 87 ,5 86 ,4
Sameiginlegt     
3
0 27 ,7 0
Samtals     
114
86 324 ,7 307 ,6

    Eins og undanfarin ár voru Eystrasaltsríkin og Austur-Evrópa fyrirferðarmest í starfsemi sjóðsins á árinu 1996. Enginn vafi er því á að stuðningur Nopef hefur styrkt stöðu norrænna fyrirtækja í Austur-Evrópu.
    Alls hefur sjóðurinn fjallað um 1.418 verkefni á fjórtán ára starfstíma og þar af samþykkt lán og styrki til 735 verkefna.
    Nopef, sem sett var á stofn árið 1982, er systurstofnun Norræna fjárfestingarbankans (NIB), Norræna þróunarsjóðsins (NDF) og Norræna umhverfissjóðsins (NEFCO). Þessar stofnanir eru allar staðsettar í Helsingfors. Stefán Friðfinnsson, forstjóri Íslenskra aðalverktaka, og Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, eru í stjórn sjóðsins fyrir Íslands hönd. Þorsteinn Ólafsson, viðskiptafræðingur, sem gegnt hefur stöðu forstjóra Nopef frá 1990, sagði starfi sínu lausu frá miðju þessu ári og Per-Olaf Dahlöf, staðgengill Þorsteins undanfarin ár, var ráðinn forstjóri sjóðsins.
    
15.4. Norræni þróunarsjóðurinn (NDF).
    Norræni þróunarsjóðurinn (NDF) tók formlega til starfa 1. febrúar 1989. Hann hefur aðsetur hjá Norræna fjárfestingarbankanum (NIB) í Helsinki og nýtur samrekstrar með honum að mörgu leyti. Ákvörðun var tekin vorið 1996 um tvöföldun stofnfjár sjóðsins og er það nú 515 millj. SDR (um 51 milljarður íslenskra króna) sem greiðist af Norðurlöndunum í samræmi við „norræna deililykilinn“.
    Markmið sjóðsins er að styrkja efnahagslegar og félagslegar framfarir í þróunarríkjunum í samvinnu við aðrar lánastofnanir. Fyrst og fremst er lánað til fátækustu ríkja heims. Lánskjörin eru með þeim bestu sem þekkjast. Lánin eru til 40 ára, afborganalaus fyrstu 10 árin, vaxtalaus, en með 0,75% þjónustugjaldi á ári.
    Á árinu 1996 veitti stjórn sjóðsins vilyrði fyrir 18 lánum samtals að upphæð 48 millj. SDR (um 5 milljarðar íslenskra króna). Um miðjan desember 1996 höfðu verið undirritaðir lánasamningar um 70 þróunarverkefni í 27 löndum samtals að upphæð 256,5 millj. SDR (um 25 milljarðar ísl. kr.).
    Fimm samningar um lán hafa verið undirritaðir þar sem íslensk fyrirtæki eiga beinna hagsmuna að gæta:     
    Lán var veitt til fiskveiðiverkefnis í Malawi og er lánsupphæðin 2,8 millj. SDR (um 280 millj. ísl. kr.). Sjóðurinn tekur þátt í verkefninu ásamt Alþjóðabankanum og Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Verulegur hluti lánsins var notaður til byggingar tveggja skipa á Íslandi, rannsóknaskips og togveiðiskips.
    Fiskveiðiverkefni í Namibíu hlaut 1,5 millj. SDR lán (150 millj. ísl. kr.). Sjóðurinn tók þátt í fjármögnun verkefnisins ásamt Norræna fjárfestingarbankanum (NIB). Verkefnið er samstarfsverkefni Íslenskra Sjávarafurða hf. og Ríkisútgerðarfélags Namibíu, sem í sameiningu standa í verulegum fjárfestingum vegna uppbyggingar á veiðum og vinnslu í sameiginlegu fyrirtæki, Seaflower Whitefish Corporation í bænum Luderitz. Lán NDF var notað til kaupa á tækjabúnaði í frystihús og í frystitogara fyrirtækisins. Mestur hluti lánsins fór til kaupa tækjabúnaðar frá Íslandi.
    Á Grænhöfðaeyjum tekur sjóðurinn þátt í fjármögnun á fiskveiðiverkefni í samvinnu við Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Veitt hefur verið lán að upphæð 2,1 millj. SDR (um 210 millj. ísl. kr.) til að kosta fræðslustarfsemi, ráðgjöf og tækjabúnað. Verkefnið var að hluta undirbúið af íslenskum ráðgjöfum fyrir hönd NDF. Tækjabúnaður verður keyptur árin 1997 og 1998.
    Þá tekur sjóðurinn þátt í hitaveituverkefni í Tanggu í Kína í samvinnu við NIB. Lán NDF til verkefnisins er 700 þús. SDR (um 70 millj. ísl. kr.). Verkefninu er að mestu lokið. Íslenskir ráðgjafar luku sínum störfum við verkefnið á árinu og töluvert af búnaði var keypt á Íslandi.
    Sjóðurinn hefur veitt rammalán til þróunarbanka Austur-Afríku (East African Development Bank) en hann er í eigu ríkissjóða Kenya, Tanzaníu og Uganda og hefur aðsetur í Kampala. Þessi lánarammi er ætlaður til að styðja smáar og meðalstórar fjárfestingar. Lánsupphæðin er 5,6 millj. SDR (um 560 millj. ísl. kr.). Íslenskum aðilum hefur þegar verið veitt lán að upphæð 500 þús. SDR (um 50 millj. ísl. kr.) til fjárfestinga í fiskveiðum og vinnslu við Viktoríuvatn.
    Á árinu var undirritað lán vegna fiskveiðiverkefnis í Mozambique í samvinnu við Þróunarsamvinnustofnun Íslands og dönsku þróunarstofnunina DANIDA. Lánsupphæðin er 3,6 millj. SDR (um 360 millj. ísl. kr.) og er að hluta notað til að fjármagna rekstur á Feng, rannsóknaskipi Þróunarsamvinnustofnunar, en einnig til fjárfestinga í skipum og búnaði til fiskveiða og fiskvinnslu í landinu. Breytingar á Feng fyrir liðlega 400 þús. Bandaríkjadali voru gerðar á Íslandi.
    
    Heildarlán NDF til verkefna með beinum íslenskum hagsmunum eru um það bil 16 millj. SDR (um 1,6 milljarðar ísl. kr.). Íslensk fyrirtæki hafa unnið samninga sem nema um 1,6% af heildarfjárhæð samninga við norræn fyrirtæki sem sjóðurinn hefur fjármagnað. Hlutdeild Íslands í fjármögnun sjóðsins er 1,1%. Auk þess hefur sjóðurinn í allnokkrum mæli keypt íslenska sérfræðiþjónustu til verkefnaundirbúnings og eftirlits.
    Norræni þróunarsjóðurinn hefur tíu starfsmenn. Meðal þeirra er einn Íslendingur, Engilbert Guðmundsson hagfræðingur en hann gegnir starfi aðstoðarframkvæmdastjóra sjóðsins.
    Í stjórn sjóðsins situr einn fulltrúi frá hverju Norðurlandanna. Fulltrúi Íslands er dr. Ingvar Birgir Friðleifsson, forstöðumaður Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, en varamaður dr. Björn Dagbjartsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Jens Lund Sørensen frá Danmörku.
    
15.5. Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (NEFCO).
    Árið 1996 var sjötta starfsár Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins (NEFCO). Stofnfé félagsins er nú um 80 millj. ekna (ECU) eða um 6,7 milljarðar ísl. kr.
    Megintilgangur félagsins skv. stofnsamningi Norðurlandanna er að stuðla að umhverfisbótum, svo sem bættum mengunarvörnum í löndum Mið- og Austur-Evrópu. NEFCO tekur þátt í verkefnum með því að leggja fram fjármagn í formi hlutafjár eða lána til fyrirtækja. Þátttaka NEFCO er ákveðin á grundvelli mats á umhverfisáhrifum verkefnis og rekstrarhorfum. Almenn skilyrði fyrir þátttöku NEFCO í umhverfisverkefnum er að fyrirtæki eða einstaklingar í því landi þar sem verkefnið er unnið og frá einu hinna Norðurlandanna eigi aðild að verkefninu og leggi til þess fjármagn. Hlutdeild NEFCO er að jafnaði ekki meiri en sem nemur 25% af heildarhlutafé og lánsfé þegar um slíkt er að ræða.
    Á árinu 1996 var NEFCO falin umsjón og ráðstöfun sérstaks sjóðs sem umhverfisráðherrar Norðurlanda ákváðu að stofna á árinu 1995 til þess að styrkja umhverfisverkefni á starfssvæði NEFCO, sem ekki féllu að þeim skilyrðum sem félagið setti varðandi fjárhagslega arðsemi (Styrktarsjóður vegna framkvæmda í umhverfismálum á grannsvæðunum — Mjukgjøringsfacilitet). Sjóðurinn var stofnaður með sameiginlegu framlagi Norðurlandanna, samkvæmt hefðbundinni kostnaðarskiptingu, að upphæð 30 millj. danskra króna (um 340 millj. ísl. kr.). Fjármögnun þessa sjóðs verður ákveðin frá ári til árs en stefnt er að því að auka árleg framlög nokkuð frá því sem var á árinu 1996.
    Í árslok 1996 hafði NEFCO samþykkt þátttöku í alls 32 verkefnum með fjármögnun þ.e. í formi hlutafjár og lána að upphæð 40,6 millj. ekna (3,4 milljarðar ísl. kr.) en áætluð heildarfjárfesting í þessum verkefnum er um 399 millj. ekna (33,3 milljarðar ísl. kr.).
    Þessi verkefni skiptast þannig eftir löndum: Pólland 9, Tékkland 5, Slóvakía 2, Eistland 6, Lettland 6, Litáen 2 og Rússland 2. Aðild norrænna fyrirtækja skiptist þannig eftir löndum: Danmörk 7, Finnland 8, Ísland 2, Noregur 6, og Svíþjóð 9.
    Þá hafði stjórn NEFCO í lok ársins samþykkt þátttöku Styrktarsjóðsins (Mjukgjøringsfacilitet) í einu verkefni í Lettlandi með framlagi að upphæð 1,1 millj. ekna (um 92 millj. ísl. kr.).
    Í stjórn NEFCO fyrir Íslands hönd sátu á árinu 1996 Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri (aðalmaður) og Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri (varamaður). Forstjóri NEFCO er Haaro Pitkänen frá Finnlandi.
    
Nýr sjóður innan NEFCO.
    Á síðastliðnu ári var stofnaður nýr sjóður innan NEFCO, styrktarsjóður vegna framkvæmda í umhverfismálum á grannsvæðunum (Mjukgöringsfaciliteten). Framlög úr sjóðnum eru styrkir sem veittir eru að ákveðnum skilyrðum fullnægðum. Markmiðið með þessum sjóði er að auðvelda fjármögnun mjög áhættusamra verkefna á sviði umhverfismála og flýta fyrir framkvæmd mikilvægra verkefna. Greiðsla úr þessum sjóði skal vera til stuðnings öðrum gagnkvæmum aðgerðum Norðurlandanna á grannsvæðunum. Framlög til sjóðsins voru 30 millj. danskra króna sem greiddust bæði úr sameiginlegum norrænum sjóðum og með beinum framlögum landanna. Framlag Íslands í sjóðinn á árinu 1996 var um 2 millj. ísl.kr.
    Daglegur rekstur sjóðsins er í höndum NEFCO en rekstrarkostnaður er greiddur af vaxtatekjum sjóðsins. Ákvarðanir um fjárveitingar úr sjóðnum eru teknar af stjórn NEFCO að fengnum tillögum framkvæmdastjóra NEFCO. Áður en framkvæmdastjóri gerir slíkar tillögur til stjórnar eru þær sendar sérstakri nefnd til umsagnar en í þeirri nefnd sitja fulltrúar frá NEFCO og Norræna fjárfestingarbankanum (NIB).
    Rétt er að geta þess að með stuðningi umhverfisráðherra Norðurlanda var einnig stofnsettur sérstakur umhverfislánasjóður innan Norræna fjárfestingarbankans. Sjóðurinn er 100 millj. ECU og ábyrgjast Norðurlöndin lán úr þessum sjóði að fullu. Lokið verður við starfsreglur þessa sjóðs árið 1997.
    
15.6. Lánasjóður Vestur-Norðurlanda.
Útlán.
    Umsóknum fækkaði eitthvað árið 1996 miðað við 1995. Í lok ársins hafa 14 lán verið greidd út til íslenskra verkefna og eru það fleiri en í fyrra. Engin lán hafa verið afgreidd til Færeyja eða Grænlands á árinu. Nokur lán til íslenskra verkefna verða væntanlega greidd út rétt eftir áramót enda hefur stjórn sjóðsins þegar samþykkt tvö þeirra.
    Eitt nýtt samstarfsverkefni Íslendinga og Færeyinga er í undirbúningi, áætlað er að gera út skip sem á að veiða við Sao Tome.
    Útlán sjóðsins eru að miklu leyti í skilum og vanskil eru mun minni nú en í fyrra.
    Um þrjú hundruð og fimmtíu umsóknir hafa borist til sjóðsins frá upphafi, en tæplega helmingur þeirra hefur verið með nægilegum upplýsingum, sem nauðsynlega þarf til umfjöllunar og greiningar. Tæplega hundrað þessara umsókna hafa verið lagðar fyrir stjórn sjóðsins og hefur tveimur umsóknum verið hafnað en hinar allar samþykktar.
    
Reksturinn.
    Öll starfsemi sjóðsins hefur aukist verulega á síðustu árum og eru starfsmenn nú fjórir en alls eru stöðugildin þrjú að forstjóranum meðtöldum. Tveir starfsmenn vinna aðeins hálfan daginn í sambandi við bókhald og ritarastörf.
    Rekstur sjóðsins og ástand útlána hefur fram að þessu verið þannig að hagnaður hefur verið af starfseminni á hverju starfsári. Hagnaðurinn fyrir árið 1996 verður eðlilegur, eða væntanlega á bilinu 3–5 millj. danskra króna þótt endanlegar tölur séu ekki þekktar, enda sýndi uppgjör á miðju ári hagnað sem nam 1,8 millj. danskra króna þrátt fyrir veruleg framlög í afskriftareikning útlána.
    Afskriftareikningi útlána er beitt af varúð og tengist stærð hans framtíðarhorfum útlána en mat á öryggi þeirra er byggt á nýjustu upplýsingum um rekstur fyrirtækja og ástand veða.
    
Stjórn.
    Í stjórn Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda sitja sjö menn, einn frá hverju aðildarlandi, og hefur hver þeirra einn varamann. Fyrir Íslands hönd situr Sturlaugur Þorsteinsson, bæjarstjóri á Höfn í Hornafirði, í stjórn sjóðsins og var hann jafnframt formaður stjórnar til haustsins 1995 en þá tók Sigurd Poulsen, seðlabankastjóri úr Færeyjum, við stjórnarformennsku næstu tvö árin.
    
15.7. Norræni menningarsjóðurinn.
    Norræni menningarsjóðurinn var stofnaður 1966 með sérstökum samningi milli Norðurlandanna fimm. Samningnum hefur tvisvar verið breytt lítillega, 1975 og 1990. Síðasta breytingin var gerð til að tryggja sjálfstjórnarsvæðunum, Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum, aðild að stjórn sjóðsins. Stjórnin er skipuð til tveggja ára í senn. Í henni sitja alls ellefu fulltrúar, fimm þingmenn, einn frá hverju landi, tilnefndir af Norðurlandaráði, og fimm embættismenn, einn frá hverju landi, tilnefndir af Norrænu ráðherranefndinni. Ellefti stjórnarmeðlimurinn er sameiginlegur fulltrúi sjálfstjórnarsvæðanna og er tilnefndur til skiptis af Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni. Löndin gegna formennsku í stjórn sjóðsins tvö ár í senn og hefur Finnland á hendi formennskuna 1996 og 1997. Fulltrúar Íslands í stjórn sjóðsins eru (1995–96) Valgerður Sverrisdóttir alþingismaður og Guðríður Sigurðardóttir ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu. Valgerður mun sitja áfram í stjórninni 1997–98 en Þorsteinn Gunnarsson, arkitekt og leikari, mun taka sæti Guðríðar.
    Hlutverk Norræna menningarsjóðsins er að efla menningarsamstarf Norðurlandanna — í víðri merkingu þess orðs. Sjóðurinn veitir styrki til samstarfsverkefna á sviði lista, menntamála og rannsókna, en einnig til margvíslegra verkefna sem falla undir menningarmál almennt, svo sem til samstarfs áhugamannafélaga á ýmsum sviðum.Verkefni eru styrkhæf hjá Norræna menningarsjóðnum ef minnst þrjú lönd/sjálfstjórnarsvæði eru virkir þátttakendur. Veitt hefur verið úr sjóðnum fjórum sinnum á ári en nú hefur verið ákveðið að breyta þessu, þannig að árið 1997 verður veitt þrisvar úr sjóðnum en frá og með 1998 aðeins tvisvar á ári.
    Árið 1994 var ráðstöfunarfé sjóðsins aukið verulega og hefur hann nú árlega til ráðstöfunar u.þ.b. 22 millj. danskra króna.     
    Sjóðurinn hefur undanfarin ár afmarkað verksvið sitt í samræmi við ákvarðanir Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar um forgangsverkefni í norrænni menningarsamvinnu og leggur sérstaka áherslu á samstarfsverkefni fyrir börn og ungmenni, á verkefni sem hafa þann tilgang að draga úr útlendingahatri og kynþáttafordómum og á verkefni sem byggjast á þverfaglegri samvinnu og miða að nýbreytni.
    Sjóðnum berst sívaxandi fjöldi umsókna og heildarupphæðin sem sótt er um fer einnig vaxandi. Þrátt fyrir aukið ráðstöfunarfé getur sjóðurinn aðeins styrkt lítinn hluta þeirra verkefna sem sótt er um fé til. Styrkveitingar sjóðsins síðastliðin ár hafa numið sem svarar 12–15% af þeirri heildarupphæð sem sótt er um.
    Árið 1996 bárust sjóðnum 926 umsóknir að upphæð samtals um 180 millj. danskra króna. Veittir voru styrkir til 266 verkefna, samtals að upphæð 25,3 millj. danskra króna. Oftast samsvarar framlag sjóðsins aðeins hluta af heildarkostnaði við viðkomandi verkefni, enda er það stefna sjóðsins að vera hvetjandi þátttakandi í fjármögnun margra verkefna fremur en að greiða heildarkostnað af fáum. Þegar um stærri verkefni er að ræða hefur sjóðurinn samráð við aðrar norrænar stofnanir um styrkveitingu og/eða við stofnanir og samtök í hinum einstöku löndum.
    Ísland átti aðild að fjölmörgum verkefnum sem sjóðurinn styrkti 1996.
    Í byrjun ársins lágu fyrir niðurstöður úttektar á starfsemi sjóðsins sem gerð var 1995. Í framhaldi af því hefur verið unnið að endurskoðun og endurskipulagningu ýmissa þátta starfseminnar svo sem varðandi verkaskiptingu milli sjóðsins og annarra norrænna nefnda og stofnana á sviði menningarsamvinnu. Þessu starfi verður haldið áfram á næsta ári.