Ferill 290. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 290 . mál.


545. Skýrsla



Íslandsdeildar VES-þingsins fyrir árið 1996.

    VES-þingið er þingmannasamkunda Vestur-Evrópusambandsins (VES) sem er varnarbandalag Vestur-Evrópuríkja og stofnað var með Brussel-sáttmálanum árið 1948. Í Maastricht-sáttmála ESB árið 1991 var VES falin útfærsla og framkvæmd varnarmálahluta sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu ESB. VES er einkum ætlað að gegna tveimur hlutverkum, að annast samræmingu á varnarmálahluta ESB, eins og að framan greinir, og jafnframt eru samtökin Evrópustoð NATO, þ.e. Evrópuríki sem aðild eiga að NATO eiga einnig aðild í einhverju formi að VES. Ofarlega á baugi umræðunnar innan VES-þingsins er framtíð sambandsins sjálfs, en fyrir ríkjaráðstefnu ESB sem nú stendur yfir liggur m.a. að taka stöðu og hlutverk VES til endurskoðunar. Aukið sjálfstæði Evrópuríkja í öryggis- og varnarmálum, staða evrópskra aðildarríkja NATO sem ekki eiga aðild að ESB, tengsl VES við NATO og ESB og stækkun VES og NATO til austurs er á meðal þess sem hefur verið til umræðu á vettvangi VES-þingsins árið 1996.

I. Markmið og skipulag VES-þingsins.
    VES-þingið var stofnað árið 1954 þegar verulegar breytingar voru gerðar á stofnsáttmála VES, m.a. til þess að veita Ítalíu og Þýskalandi aðild. Aðildarríki þingsins eru tíu talsins og eru þau jafnframt öll aðildarríki ESB og NATO. Þau eru: Belgía, Bretland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland. Samtals eiga þessi ríki 108 fulltrúa á VES-þinginu. Aukaaðild að þinginu eiga þau evrópsku aðildarríki NATO sem ekki eiga aðild að ESB, Ísland, Noregur og Tyrkland. Aukaaðildina fengu þau formlega 6. mars 1995. Áheyrnaraðild að VES-þinginu eiga ESB-ríkin Austurríki, Danmörk, Finnland, Írland og Svíþjóð. Loks hafa tíu ríki Mið- og Austur-Evrópu gert samstarfssamninga við VES og hafa í krafti þess áheyrnaraðild að VES-þinginu. Þau eru: Búlgaría, Eistland, Lettland, Litáen, Pólland, Rúmenía, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland og Slóvenía.
    Þingið hefur aðsetur í París. Tveir þingfundir eru haldnir árlega, í júní og desember, en þingið getur haldið aukafundi að ákvörðun forsætisnefndar, líkt og gert var í febrúar 1996. Hlutverk þingsins er að fjalla um málefni er falla undir starfssvið VES. Þingið fjallar um ársskýrslu VES og fjárhagsáætlun. Það tekur margvísleg málefni til umfjöllunar í nefndum þingsins, ályktar og gerir tillögur til ráðherraráðsins. Skjöl þingsins eru gefin út á ensku og frönsku. Umræður fara fram á tungumálum aðildarríkjanna. Fastanefndir VES-þingsins eru sex: varnarmálanefnd, stjórnmálanefnd, tækni- og geimvísindanefnd, fjármála- og stjórnsýslunefnd, þingskapanefnd og nefnd um almannatengsl. Íslandsdeildin á eitt sæti í hverri nefnd. Varamenn í landsdeildum mega taka aðalsæti í nefndum. Á þinginu starfa auk fastanefnda forsætisnefnd (Presidential Committee) og stjórnarnefnd (Standing Committee). Þessar nefndir taka ákvarðanir á milli þinga, sú fyrrnefnda einkum hvað varðar skipulagningu og stjórn þingsins, sú síðarnefnda á pólitíska sviðinu. Venja er að formenn landsdeilda sitji í þessum nefndum. Í forsætisnefnd sitja enn fremur forseti þingsins, níu varaforsetar þess (einn frá hverju hinna aðildarríkjanna), nefndaformenn og þeir fyrrverandi forsetar þingsins sem enn kunna að eiga þar sæti. Í stjórnarnefnd sitja allt að þremur fulltrúum til viðbótar frá hverju aðildarríki, alls 30 manns til viðbótar við forsætisnefnd. Ísland á einn fulltrúa í hvorri nefnd. Nefndir þingsins halda alla jafna nokkra fundi á ári utan þingfundanna.
    Samkvæmt starfsreglum VES-þingsins (gr. 17.1) á Alþingi í krafti aukaaðildar sinnar rétt á að senda þrjá fulltrúa á fundi VES-þingsins. Þá mega varamenn landsdeilda taka aðalsæti í nefndum en geta einungis sótt þingfundina sem áheyrnarfulltrúar. Aukaaðilar geta samkvæmt núverandi reglum þingsins tekið mikinn þátt í störfum þess. Þeir hafa þó ekki full réttindi, t.d. geta þeir ekki tekið þátt í kosningu framkvæmdastjórnar þingsins eða umfjöllun um ársskýrslu VES. Þeir hafa ekki heldur rétt til að tala sitt eigið tungumál á fundunum. Í flestum tilfellum hafa þeir þó atkvæðisrétt í nefndum, rétt á að taka til máls, gera breytingartillögur, taka þátt í nefndastarfi o.s.frv.

II. Stofnun Íslandsdeildar VES-þingsins.
    Vegna aðildar Íslands að NATO hefur Alþingi lengi staðið til boða að senda áheyrnarfulltrúa á fundi VES-þingsins. Alþingi þekktist boð VES-þingsins árið 1993, en árið áður hafði Ísland fengið aukaaðild að VES sem þó tók ekki formlega gildi fyrr en í mars 1995. Í umboði forsætisnefndar tilnefndu Íslandsdeild Norður-Atlantshafsþingsins og síðar Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins áheyrnarfulltrúa á desemberfund VES-þingsins árin 1994 og 1995. Í kjölfar þess að Ísland hlaut formlega aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu í mars 1995 samþykkti forsætisnefnd á fundi í maí 1995 að stofna Íslandsdeild VES-þingsins. Tilnefnd af þingflokkunum til setu í Íslandsdeildinni voru Lára Margrét Ragnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Össur Skarphéðinsson, Alþýðuflokki, og Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, sem aðalmenn, og Kristján Pálsson og Guðmundur Hallvarðsson, Sjálfstæðisflokki, og Ásta R. Jóhannesdóttir, Þjóðvaka, sem varamenn. Á fyrsta fundi Íslandsdeildarinnar 8. júní 1995 var Lára Margrét Ragnarsdóttir kjörin formaður og Össur Skarphéðinsson varaformaður. Ritari deildarinnar er Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari. Alþingi á sem fyrr segir rétt á að senda þrjá fulltrúa á VES-þingið í krafti aukaaðildarinnar auk áheyrnarfulltrúa sem jafnframt geta tekið sæti aðalmanna í nefndum þingsins. Skipan Íslandsdeildarinnar í nefndir er sem hér segir:
     Forsætis-, stjórnar- og stjórnmálanefnd     Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Varamaður     Össur Skarphéðinsson
     Varnarmálanefnd     Össur Skarphéðinsson
    Varamaður     Kristján Pálsson
     Nefnd um almannatengsl     Össur Skarphéðinsson
     Tækni- og geimvísinda-, fjármála- og
         stjórnsýslu- og þingskapanefnd
    Siv Friðleifsdóttir

III. Starfsemi á árinu.
    VES-þingið kemur sem fyrr segir saman tvisvar á ári til reglulegra þingfunda, í júní og desember, auk þess sem nefndir þingsins funda nokkrum sinnum á ári utan þingfunda. Þá var sem fyrr segir haldinn aukaþingfundur í febrúar. Á árinu tók Íslandsdeildin þátt í þingfundunum í febrúar, júlí og desember, en hún hefur ekki hlotið fjárveitingu til að sækja nefndafundi utan þingfundanna og setur það starfi hennar afar þröngar skorður. Á vegum VES-þingsins eru til umræðu mikilvæg hagsmunamál jafnt Íslands sem Evrópu allrar í öryggis- og varnarmálum og því æskilegt að geta fylgt málum eftir innan nefndastarfsins á milli þess sem þingið fundar á hálfs árs fresti.

a.    Aukafundur VES-þingsins í febrúar.
    Dagana 22.–23. febrúar var haldinn sérstakur aukafundur VES-þingsins til að fjalla um ríkjaráðstefnu ESB sem hófst í mars 1996, en þar eru m.a. til umræðu framtíðarhlutverk og staða VES. Fundurinn var haldinn í London en Bretar fóru með formennsku í ráðherraráði VES fyrri árshelming 1996. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Össur Skarphéðinsson varaformaður og Kristján Pálsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Eftirfarandi gestir fluttu ávörp á þinginu og svöruðu fyrirspurnum: Betty Boothroyd, forseti neðri deildar breska þingsins, José Cutileiro, framkvæmdastjóri VES, Sergio Balanzino, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, og John Major, forsætisráðherra Bretlands.
    Eftirfarandi skýrslur voru lagðar fram og ræddar á fundinum og ályktað um efni þeirra:
                   Skipulag öryggismála í Evrópu — pólitískar hliðar.
                   Skipulag öryggismála í Evrópu — varnarmál.
    Fyrir hönd aukaaðildarríkjanna þriggja (Íslands, Noregs og Tyrklands) skrifaði Össur Skarphéðinsson sérstakan viðauka við síðarnefndu skýrsluna þar sem fjallað er um helstu áhersluatriði þeirra um framtíð VES og tengsl sambandsins við NATO og ESB.
    Í setningarávarpi sínu sagði Sir Dudley Smith, forseti VES-þingsins, að VES ætti að sínu mati að mynda einhvers konar brú á milli ESB og NATO, en ekki mætti einblína um of á hlutverk VES sem varnarmálaarms ESB. Þá sagði hann óásættanlegt að ákvarðanir um þátttöku einstakra aðildarríkja VES í hernaðaraðgerðum yrðu teknar af yfirþjóðlegum stofnunum eða með meirihlutaatkvæði — slíkar ákvarðanir gætu einungis viðkomandi ríkisstjórnir og þjóðþing tekið. Loks greindi hann frá því að á þessum þingfundi væru í fyrsta sinn lagðar fram skýrslur með viðaukum frá fulltrúum aukaaðildarríkja og ríkja með áheyrnaraðild.
    Franski þingmaðurinn Jacques Baumel, framsögumaður varnarmálaskýrslunnar, lét þess getið að viðaukar skýrslunnar lýstu ólíkum sjónarmiðum. Hann sagði innihaldið í viðauka Össurar Skarphéðinssonar vera á þá leið að „án Bandaríkjanna væri enginn bjargvættur“. Í umræðum um skýrsluna mælti Össur Skarphéðinsson gegn hugmyndum um sameiningu VES og ESB eða að hið fyrrnefnda yrði fellt undir hið síðarnefnda. Slíkt gengi gegn hagsmunum aukaaðildarríkja VES og raunar Evrópu allrar. Össur sagði tengslin yfir Atlantshafið enn vera grundvallaratriði evrópskra öryggis- og varnarmála, líkt og sannast hefði með Bosníudeilunni. Því mætti efling sjálfstæðs evrópsks varnarmáttar ekki verða á kostnað NATO-samstarfsins. Ný kynslóð bandarískra stjórnmálamanna kynni að túlka slíka þróun sem skilaboð um minni áhuga Evrópuríkja á bandarískri þátttöku í vörnum Evrópu en áður. Enn fremur vaknaði spurning um stöðu evrópskra NATO-ríkja sem ekki væru aðilar að ESB. Þessi ríki væru nú með aukaaðild að VES sem nefndi sig sjálft Evrópustoð NATO. Össur sagðist ekki fá séð að þessi ríki gætu tekið fullan þátt í starfi VES sem sameinað hefði verið ESB, sem fyrir vikið gæti varla staðið undir nafni sem „Evrópustoð NATO“. Því yrði sameining VES og ESB til þess fallin að skapa nýjar markalínur í öryggis- og varnarmálum Evrópu.
    Irfan Demiralp frá Tyrklandi sagði tíma vera til kominn að aukaaðildarríkjum VES yrði boðið að gerast fullgildir aðilar að sambandinu. Öðru vísi væri marklaust að tala um VES sem Evrópustoð NATO. Matyas Eorsi frá Ungverjalandi (sem hefur áheyrnaraðild að VES-þinginu) sagði stöðu Íslands ekki vera stóra málið í umræðum um öryggis- og varnarmál Evrópu, heldur væru það ýmis fyrrverandi ríki Varsjárbandalagsins sem stæðu frammi fyrir raunverulegri ógn og sótt hefðu um aðild að NATO, VES og ESB sem þyrftu að fá úrlausn sinna mála.
    Á fundinum voru samþykkt tilmæli til ráðherraráðs VES þar sem hvatt var til aukins samstarfs VES og ESB, en jafnframt var varað við því að veita nokkru því ríki aðild að VES sem ekki væri reiðubúið til að taka fullan þátt í varnarsamstarfi undir formerkjum NATO, og ítrekuð fyrri tilmæli þingsins þess efnis að evrópskum aðildarríkjum NATO er stæðu utan ESB yrði boðin full aðild að VES.

b. II. hluti 41. fundar VES-þingsins.
    Dagana 3.–6. júní var síðari hluti 41. fundar VES-þingsins haldinn í París. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu fundinn Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Össur Skarphéðinsson varaformaður og Siv Friðleifsdóttir, auk Þórðar Bogasonar, starfandi ritara Íslandsdeildarinnar. Á þinginu bar hæst umræðu um málefni er tengdust ríkjaráðstefnu ESB-ríkjanna og stöðu VES gagnvart ESB, um niðurstöður ráðherrafundar Norður-Atlantshafsráðsins sem haldinn var í Berlín 3. júní og um framkvæmd friðargæslu í Bosníu-Hersegóvínu.
    Eftirfarandi skýrslur voru lagðar fram og ræddar á fundinum og ályktað um efni þeirra:
                   Fjárlög VES-þingsins fyrir fjárlagaárið 1996.
                   Stefna í Evrópusamstarfi um upplýsingaöflun.
                   Aðgerðaskipulag VES — svar við 41. ársskýrslu ráðherraráðsins.
                   Bandaríkin og öryggismál Evrópu.
                   Kjör forseta og varaforseta VES-þingsins.
                   Setning funda VES-þingsins og kjör framkvæmdastjórnar.
                   Samskipti þjóðþinga aðildarríkja VES og alnetið.
                   Herir, varnir Evrópu og upplýsingastreymi til almennings í aðildarríkjum VES.
                   Euclid-verkefnið og Evrópusamstarf í gerð rafrænna varnarkerfa.
                   VES og Helios 2.
                   Friðarferlið á Balkanskaga — framkvæmd Dayton-samkomulagsins.
                   Almenn skýrsla um starfsemi VES — svar við 41. ársskýrslu ráðherraráðsins.
    Á fyrri árshelmingi 1996 voru Bretar í formennsku fyrir VES og gerðu bæði Malcolm Rifkind, utanríkisráðherra Bretlands og formaður ráðherraráðs VES, og Michel Portillo varnarmálaráðherra grein fyrir störfum VES. Báðir fögnuðu sérstaklega niðurstöðum ráðherrafundar NATO þar sem samþykkt var hin svonefnda „CJTF“-áætlun (Combined Joint Task Forces), en VES-þingið hefur á undanförnum árum ítrekað ályktað um nauðsyn þess að áætluninni verði hrint í framkvæmd. Áætlunin gerir í grófum dráttum fleiri eða færri aðildarríkjum VES fært að takast á hendur verkefni á sviði öryggis- og varnarmála og nýta til þess búnað og herstjórnarkerfi NATO en pólitísk og hernaðarleg stjórn væri á hendi VES. Samstaða er um það meðal NATO- og VES-ríkjanna að uppbygging sérstaks herstjórnarkerfis fyrir VES væri allt of kostnaðarsöm, en flest ríkjanna hafa skorið niður framlög til hernaðarmála.
    Jafnframt ávörpuðu þingið og sátu fyrir svörum Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, José Cutileiro, framkvæmdastjóri VES, Leonid Kuchma, forseti Úkraínu, og Jean-Luc Dehane, forsætisráðherra Belgíu, en Belgía gegndi formennsku í ráðherraráði VES síðari árshelming 1996.
    Í umræðum um störf VES á liðnu ári gerði Siv Friðleifsdóttir að umtalsefni ríkjaráðstefnu ESB og taldi æskilegt að VES héldi sjálfstæði sínu gagnvart ESB. Benti hún á að líta mætti svo á að með samþykkt „CJTF“-áætlunarinnar hafi NATO verið að styrkja hlutverk VES sem sjálfstæðrar Evrópustoðar samtakanna.

c. I. hluti 42. fundar VES-þingsins.
    Dagana 2.–5. desember var haldinn I. hluti 42. fundar VES-þingsins í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Siv Friðleifsdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Eftirfarandi gestir ávörpuðu fundinn: Jean-Pol Poncelet, varnarmálaráðherra Belgíu, sem þá fór með formennsku í ráðherraráði VES, Jacques Chirac, forseti Frakklands, Aleksander Kwasniewski, forseti Póllands, José Cutileiro, framkvæmdastjóri VES, og Vladimir Meciar, forsætisráðherra Slóvakíu.
    Eftirfarandi skýrslur voru lagðar fram og ræddar á fundinum og ályktað um efni þeirra:
                   Öryggismál austurhluta Evrópu.
                   Framtíðarhlutverk VES.
                   Öryggismál við Miðjarðarhaf.
                   Öryggi og varnir stækkaðrar Evrópu.
                   Horfur í samstarfi Japans og Evrópu á sviði geimvísinda.
                   Eftirlit úr lofti.
                   Samstarf þjóðþinga á svæðinu við Svartahaf.
                   Fjárlög VES-þingsins fyrir árið 1997.
    Þá fóru fram sérstakar umræður þar sem ályktað var um hlutverk Vestur-Evrópu í Bosníu annars vegar og í Saír, Rúanda og nágrannaríkjum hins vegar.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir lagði fram tvær breytingartillögur við ályktun skýrslunnar um öryggismál austurhluta Evrópu. Í þeirri fyrri lýsir VES-þingið yfir áhyggjum sínum af stöðu mála í sambandsríkinu Júgóslavíu (Serbíu og Svartfjallalandi) þar sem stjórnvöld höfðu hafnað niðurstöðum nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga og haft að engu fjöldamótmæli almennings í landinu. Í ályktuninni er tekið fram að með þessu sé ríkisstjórn landsins að stofna í hættu friði heima fyrir, sem og friðarferlinu í Bosníu-Hersegóvínu. Í þeirri síðari lýsir VES-þingið því yfir að ríkisstjórn Júgóslavíu geti ekki reiknað með að ríkið verði hluti af nýju öryggiskerfi Evrópu, sem nú sé í þróun, haldi stjórnvöld áfram að vanvirða almenn mannréttindi og lýðræðislegar leikreglur. Báðar hlutu tillögurnar einróma samþykki þingsins.
    Á fundinum var spænski sósíalistinn Lluís María de Puig kjörinn forseti VES-þingsins í stað breska íhaldsmannsins Sir Dudleys Smith sem verið hefur forseti þingsins frá júní 1993. De Puig tók sæti 1. janúar 1997. Í kveðjuræðu sinni lýsti Sir Dudley ánægju sinni með að á undanförnum árum hafi VES styrkst jafnt og þétt og minnti á að nú ættu alls 28 ríki fulltrúa á fundum ráðherraráðsins og VES-þingsins, en á fundinum hlaut Slóvenía áheyrnaraðild að þinginu. Sir Dudley lagði jafnframt áherslu á þá skoðun sína að VES ætti áfram að halda sjálfstæði sínu gagnvart ESB, sem og að öllum evrópskum aðildarríkjum NATO ætti að standa til boða full aðild að VES. Í þakkarávarpi sínu lýsti De Puig þeirri bjargföstu skoðun sinni að efla þyrfti VES bæði sem varnarmálaarm ESB og Evrópustoð NATO. Hann sagðist ekki telja æskilegt að VES yrði fellt undir ESB en taldi æskilegt að stofnanirnar nálguðust. Megináhersluna lagði hann hins vegar á eflingu VES er starfa myndi í nánu samstarfi við bæði ESB og NATO. Annars komu fram skiptar skoðanir um hvernig haga bæri tengslum VES við ESB og m.a. sagði Jacques Chirac Frakklandsforseti það vera markmið Frakka að í fyllingu tímans yrði VES fellt undir ESB, þó svo að í bili yrði sjónunum einkum beint að eflingu VES. Bretar héldu að vanda uppi ákafri gagnrýni á allar hugmyndir um samruna VES við ESB.

Alþingi, 30. jan. 1997.



Lára Margrét Ragnarsdóttir,

Siv Friðleifsdóttir.

Össur Skarphéðinsson,


form.

varaform.