Ferill 292. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 292 . mál.


547. Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 1996.

    Þátttaka Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins í starfi sambandsins (Inter-Parliamentary Union) á árinu 1996 var með hefðbundnum hætti og tók Íslandsdeildin þátt í báðum reglulegum þingum sambandsins. Það fyrra var haldið í Istanbúl í apríl (95. þing) og hið síðara í Peking í september (96. þing). Þá fór stjórn sambandsins í heimsókn til Bretlands í janúar í boði forseta breska þingsins og Bretlandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Þeir sem óska eftir nánari upplýsingum um starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins en fram koma í ársskýrslunni geta fengið slík gögn hjá ritara deildarinnar en sambandið gefur m.a. út greinargóða og ítarlega skýrslu, á ensku og frönsku, um hvert þing sambandsins. Þá má fræðast um Alþjóðaþingmannasambandið á heimasíðu þess á vefnum en fljótlegast er að finna hana með því að fara á heimasíðu Alþingis og fara þar í „Aðrir vefir“ á forsíðu heimasíðunnar og þar undir má finna „Fjölþjóðastofnanir“.
    Í september varð sú breyting á stjórn Íslandsdeildarinnar að Margrét Frímannsdóttir (Alþýðubandalagi og óháðum) vék úr stjórninni. Sæti hennar tók Bryndís Hlöðversdóttir. Að öðru leyti var stjórnin óbreytt frá fyrra ári en auk Bryndísar eiga sæti í stjórninni Geir H. Haarde (Sjálfstæðisflokki), formaður, Magnús Stefánsson (Framsóknarflokki), Einar K. Guðfinnsson (Sjálfstæðisflokki) og Jóhanna Sigurðardóttir (Þjóðvaka). Áheyrnarfulltrúar voru Gísli S. Einarsson (Alþýðuflokki) og Kristín Halldórsdóttir (Kvennalista). Eins og undanfarin ár var Þorsteinn Magnússon ritari deildarinnar.

A. HEIMSÓKN TIL BRESKA ÞINGSINS


    Dagana 29. janúar til 1. febrúar fór sendinefnd Alþingis, sem skipuð var stjórn Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins og ritara hennar, í heimsókn til breska þingsins í boði forseta þingsins og Bretlandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Í heimsókn sendinefndarinnar í breska þinghúsið var henni var gerð grein fyrir starfsháttum þingsins, farin var skoðunarferð um þinghúsið (bæði neðri deildina og lávarðadeildina), fundir voru haldnir með forustu Bretlandsdeildar sambandsins og fulltrúum þingflokka auk þess sem fylgst var með þingfundum.
    Þá hitti sendinefndin að máli Jeremy Hanley aðstoðarutanríkisráðherra og átti auk þess sérstakan fund með embættismönnum í ráðuneyti hans, um Evrópumál og samskipti Íslands og Bretlands. Sendinefndin heimsótti einnig aðalstöðvar BBC World Service, höfuðstöðvar Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins og Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu og átti sendinefndin fund með fulltrúum þessara stofnana.

B. ÞINGIÐ Í ISTANBÚL


I. Inngangur.


    Alþjóðaþingmannasambandið hélt 95. þing sitt í Istanbúl dagana 15.–20. apríl 1996. Þingið sóttu fulltrúar 117 þinga. Af hálfu Íslandsdeildar sambandsins sóttu þingið alþingismennirnir Geir H. Haarde, formaður Íslandsdeildarinnar, Margrét Frímannsdóttir og Einar K. Guðfinnsson, auk Þorsteins Magnússonar, ritara deildarinnar.

II. Störf og ályktanir þingsins.


    
Að venju var fjallað um þrjú málefni á þinginu. Málefnin voru eftirfarandi:
—    vernd og nýting fiskstofna,
—    vernd minnihlutahópa,
—    barátta gegn hryðjuverkum.
    Umræður um þessi mál fóru fram í nefndum þingsins en auk þess voru almennar stjórnmálaumræður í þingsal þá daga sem ekki voru fundir í nefndum. Geir H. Haarde flutti ræðu í almennu stjórnmálaumræðunum, Einar K. Guðfinnsson sat fundi nefndar sem fjallaði um vernd og nýtingu fiskstofna og Margrét Frímannsdóttir sat fundi nefndar sem fjallaði um vernd minnihlutahópa og baráttu gegn hryðjuverkum. Ályktað var um öll þessi efni.
    Meginframlag Íslands á þinginu var flutningur tillögu um vernd og nýtingu fiskstofna. Fyrir þinginu lágu drög að ályktunum frá sendinefndum 19 þinga um þetta efni auk þess sem 12 þeirra lögðu fram sérstakar greinargerðir um málið. Íslenska sendinefndin lagði bæði fram drög að ályktun um málið sem og greinargerð og er þetta í fyrsta skipti sem Ísland hefur lagt fram ályktunartillögu ásamt greinargerð fyrir þing sambandsins. Umfjöllun um málið fór fyrst fram í vísinda- og umhverfisnefnd þingsins sem skipuð er einum fulltrúa frá hverri sendinefnd. Miklar umræður urðu um málið í nefndinni og tóku fulltrúar 65 landa til máls, þar á meðal fulltrúi Íslands, Einar K. Guðfinnsson.
    Að lokinni fyrri umræðu um málið í vísinda- og umhverfisnefndinni var kosin 13 manna undirnefnd til að gera tillögu að ályktun um málið. Í undirnefndina voru kjörnir þingmenn frá Íslandi, Spáni, Ítalíu, Kanada, Noregi, Bretlandi, Argentínu, Síle, Kamerún, Marokkó, Indlandi, Indónesíu og Senegal. Formaður undirnefndarinnar var kjörinn Amal Datta frá Indlandi og framsögumaður Peter Adams frá Kanada. Í upphafi fundar undirnefndarinnar voru greidd atkvæði um hvaða tillaga skyldi lögð til grundvallar sem vinnuskjal í nefndarstarfinu. Tillögur Íslands og Danmerkur voru taldar koma helst til greina og voru greidd atkvæði milli þeirra. Fulltrúar Spánar og Kanada lögðu til að íslenska tillagan yrði lögð til grundvallar og samþykkti mikill meiri hluti nefndarmanna það, en sú tillaga var ítarlegust og víðtækust af þeim 19 ályktunartillögum sem lágu fyrir þinginu. Undirnefndin fundaði heilan dag um málið og sat Einar K. Guðfinnsson fundi nefnarinnar sem fulltrúi Íslands. Þótt skiptar skoðanir væru um ýmis efnisatriði í undirnefndinni varð nefndin að lokum einróma sammála um niðurstöðu sína og voru öll efnisatriði íslensku tillögunnar samþykkt í þeirri tillögu sem undirnefndin gekk frá auk þess sem nokkrum öðrum áhersluatriðum var bætt í tillöguna og voru það allt atriði sem íslenska sendinefndin gat fallist á.
    Tillaga undirnefndarinnar fór síðan til síðari umræðu í vísinda- og umhverfisnefnd þingsins og var hún samþykkt einróma með smávægilegum breytingum. Tillaga vísinda- og umhverfisnefndarinnar var síðan lögð fyrir þingið og samþykktu þingfulltrúar hana með lófaklappi.
    Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins telur það mjög mikilvægan árangur að sambandið skuli hafa samþykkt ályktun um fiskveiðimál sem í meginatriðum byggist á tillögu Íslands. Verður að teljast þýðingarmikið að fulltrúar þjóðþinga í 117 löndum skuli hafa tekið undir sjónarmið Íslands í fiskveiðimálum.
    Ályktun þingsins um fiskveiðimál var mjög ítarleg og verða hér á eftir nefnd nokkur af helstu atriðum hennar sem voru sérstaklega mikilvæg fyrir Ísland:
    1. Samþykkt var að hvetja ríki heims til að staðfesta hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og í því sambandi var lögð sérstök áhersla á alþjóðasamninginn um úthafsveiðar sem byggist á hafréttarsáttmálanum.
    2. Samþykkt var að hvetja ríki heims til að efla rannsóknir á fiskstofnum og í því sambandi lögð sérstök áhersla á að hraða fjölstofnarannsóknum.
    3. Samþykkt var að hvetja ríki heims til að tryggja sjálfbæra og skynsamlega nýtingu sjávarlífvera, þar með talda sjálfbæra nýtingu sjávarspendýra.
    4. Samþykkt var að hvetja ríki heims til að taka upp ábyrga fiskveiðistjórnun.
    5. Samþykkt var að hvetja ríki heims til að vinna enn frekar að verndun lífríkis sjávar. Sérstök áhersla var lögð á varnir gegn mengun sjávar frá landi og í því sambandi hvatt til þess að notkun þrávirkra lífrænna efna yrði smám saman hætt. Þá var einnig hvatt til þess að hætt yrði losun hættulegs úrgangs í hafið, þar með talin losun geislavirkra úrgangsefna.
    6. Samþykkt var að hvetja ríki heims til að draga úr og að lokum afnema ríkisstyrki í sjávarútvegi og bent á að slíkir styrkir stuðli að því að afkastageta fiskveiðiflota verði langt umfram veiðiþol einstakra fiskstofna.
    7. Samþykkt var að hvetja ríki heims til að leysa deilumál um fiskveiðar á friðsamlegan hátt í samræmi við alþjóðlega samninga.
    

III. Störf og ályktanir ráðsins.


    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fundaði tvívegis meðan þingið stóð yfir en á meðan lágu þingstörf niðri. Ráðið fjallar um og tekur ákvarðanir um innri málefni sambandsins. Í ráðinu eiga sæti tveir fulltrúar frá hverri þjóðdeild. Öll íslenska sendinefndin sat fundi ráðsins.
    Ráðið samþykkti að víkja Níger úr Alþjóðaþingmannasambandinu þar sem þing landsins hafði verið lagt niður. Aðildarþing sambandsins voru eftir þessa ákvörðun 133.
    Að vanda var lögð fram ítarleg skýrsla þeirrar nefndar Alþjóðaþingmannasambandsins sem hefur það verkefni að fylgjast með mannréttindabrotum gagnvart þingmönnum og reyna að fá þingmenn leysta úr haldi hafi þeir verið fangelsaðir án dóms og laga. Í skýrslu nefndarinnar var gerð grein fyrir málum 76 starfandi eða fyrrverandi þingmanna í 13 löndum. Þessi lönd eru Albanía, Búlgaría, Búrúndí, Kambódía, Kólombía, Gambía, Hondúras, Indónesía, Maldíveyjar, Myanmar, Nígería, Tógó og Tyrkland. Einstakar þjóðdeildir voru hvattar til að vekja athygli þinga sinna og stjórnvalda á stöðu þessara þingmanna.
    Ráðið samþykkti einróma samstarfssamning milli Alþjóðaþingmannasambandsins og Sameinuðu þjóðanna sem hafði verið í undirbúningi um nokkurt skeið og áður hefur verið skýrt frá í ársskýrslu sambandsins.
    Líkt og á fyrri fundum fjallaði ráðið um fjölmörg önnur mál er varða innra starf sambandsins, svo sem fjármál þess og skýrslur forseta sambandsins, framkvæmdastjórnar, framkvæmdastjóra og sérnefnda.

IV. Störf framkvæmdastjórnar.


         Framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins, sem skipuð er tólf þingmönnum auk forseta sambandsins, fundaði í tvo daga fyrir upphaf þingsins auk þess sem hún hélt einn heilsdagsfund samhliða þinginu. Í framkvæmdastjórninni situr Geir H. Haarde og er hann jafnframt varaformaður hennar og staðgengill forseta sambandsins. Meginviðfangsefni funda framkvæmdastjórnarinnar voru ýmis innri mál sambandsins.

V. Störf pólitískra svæðahópa.


    Á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins er mikið um fundi pólitískra svæðahópa (nokkurs konar þingflokkar) sem þingfulltrúar skiptast í. Íslandsdeildin á aðild að Tólf-plús hópnum sem skipaður er þingmönnum frá flestum ríkjum í Evrópu auk Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálands. Þá eiga Ísrael, Evrópuþingið og Evrópuráðsþingið aukaaðild að hópnum.
    Peter Bosa frá Kanada, formaður hópsins, stýrði störfum hans bæði helgina fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samráðsfundum var tekin afstaða til einstakra mála, kosninga í trúnaðarstörf og þátttöku í nefndastarfi.

VI. Mál Sophíu Hansen.


    Samhliða því sem íslenska sendinefndin tók þátt í fundum Alþjóðaþingmannasambandsins átti hún fund með Irfan Köksalan, formanni Tyrklandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, um mál Sophíu Hansen og dætra hennar. Þá hitti sendinefndin einnig Sophíu Hansen og lögfræðing hennar, Hasip Kaplan. Sophía Hansen var stödd í Istanbúl, ásamt Sigurði Pétri Harðarsyni, til að vera viðstödd úrskurð undirréttar í Istanbúl í máli hennar og Halims Als 25. apríl.
    Irfan Köksalan sagðist hafa heyrt um mál Sophíu Hansen þótt hann þekkti það ekki í smáatriðum. Hann sagðist mundi hafa samband við lögfræðing hennar til að fá nánari upplýsingar um málið og kanna hvað hann gæti gert í málinu.

C. ÞINGIÐ Í PEKING


I. Inngangur.


    Alþjóðaþingmannasambandið hélt 96. þing sitt í Peking dagana 16.–21. september. Þingið sóttu fulltrúar 118 þinga, auk áheyrnarfulltrúa frá fjölmörgum alþjóðasamtökum. Af hálfu Íslandsdeildar sambandsins sóttu þingið alþingismennirnir Geir H. Haarde, formaður Íslandsdeildarinnar, Bryndís Hlöðversdóttir og Magnús Stefánsson, auk Þorsteins Magnússonar, ritara deildarinnar.

II. Störf og ályktanir þingsins.


    Að venju var fjallað um þrjú málefni á þinginu. Þau voru eftirfarandi:
—    leiðir til að stuðla að meiri virðingu fyrir mannréttindum með sérstöku tilliti til kvenna og barna,
—    leiðir til að tryggja öllum jarðarbúum mat,
—    bann við notkun jarðsprengna.
    Umræður um þessi mál fóru fram í nefndum þingsins en auk þess voru almennar stjórnmálaumræður í þingsal þá daga sem ekki var fundað í nefndum. Geir H. Haarde flutti ræðu í almennu stjórnmálaumræðunum og vék m.a. að pólitísku skipulagi og mannréttindamálum í Kína og stöðu Tíbets. Að öðru leyti skipti sendinefndin með sér setu á nefndafundum. Þingið ályktaði um öll þrjú umræðuefnin og var í meginatriðum samstaða um þau.

III. Störf og ályktanir ráðsins.


    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fundaði tvívegis meðan þingið stóð yfir en á meðan lágu þingstörf niðri. Öll íslenska sendinefndin sat fundi ráðsins.
    Við upphaf þingsins áttu 133 þing aðild að sambandinu en ráðið samþykkti aðildarumsóknir frá Gíneu, Kírgisistan og Máritíus auk þess sem ákveðið var að víkja Búrúndí úr samtökunum eftir að þingið hafði verið lagt niður þar í landi. Aðildarþing Alþjóðaþingmannasambandsins eftir þessar breytingar eru samtals 135.
    Ráðið afgreiddi fjárlög sambandsins fyrir árið 1997 og gerði Geir H. Haarde grein fyrir tillögum framkvæmdastjórnarinnar um útgjöld sambandsins og voru þær samþykktar einróma.
    Þá var að vanda lögð fram í ráðinu ítarleg skýrsla um mannréttindamál þingmanna en nefndin gerði grein fyrir málum 108 þingmanna í 14 ríkjum þar sem brotin höfðu verið mannréttindi á þingmönnum (í Albaníu, Búrúndí, Kambódíu, Kólombíu, Gambíu, Gvatemala, Hondúras, Indónesíu, Maldíveyjum, Myanmar, Nígeríu, Tógó, Túnis og Tyrklandi).
    Á fundi ráðsins var skýrt frá því að 24. júlí 1996 hefði verið undirritaður í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York sérstakur samstarfssamningur Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaþingmannasambandsins en samningurinn mun m.a. auðvelda sambandinu að koma á framfæri sjónarmiðum sínum á þeim ráðstefnum sem Sameinuðu þjóðirnar efna til um ýmis málefni, sbr. umhverfisráðstefnuna, mannfjöldaráðstefnuna og kvennaráðstefnuna. Gert er ráð fyrir að allsherjarþingið staðfesti samninginn á haustþingi sínu.
    Þá voru á fundum ráðsins kynntar hugmyndir um breytingar á skipulagi sambandsins sem m.a. fela í sér að þing þess verði einu sinni á ári í stað tvisvar eins og nú.
    Á þinginu í Peking rann út kjörtímabil tveggja af tólf framkvæmdastjórnarmönnum og kaus ráðið aðra í þeirra stað. Þeir sem létu af störfum voru Castillo de Lopez frá Venesúela og F. Kéfi frá Túnis. Í þeirra stað gáfu þrír þingmenn kost á sér í framkvæmdastjórnina: Carvajal frá Mexíkó, Faisal frá Jórdaníu (eina konan á þingi Jórdaníu) og Sayed frá Sýrlandi. Sýrlenski fulltrúinn náði ekki kjöri. Þá varð sú breyting að Novelli frá Ítalíu tók sæti samlanda síns Riz í framkvæmdastjórninni þar sem Riz á ekki lengur sæti á ítalska þinginu.

IV. Störf framkvæmdastjórnar.


    Framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins fundaði í tvo daga fyrir upphaf þingsins auk þess sem hún hélt einn heilsdagsfund samhliða þinginu. Geir H. Haarde, sem á sæti í framkvæmdastjórninni, var endurkjörinn varaformaður hennar og staðgengill forseta sambandsins fyrir næsta ár. Meginviðfangsefni funda framkvæmdastjórnarinnar voru ýmis innri mál sambandsins og tillögugerð fyrir fundi ráðs sambandsins.

V. Störf pólitískra svæðahópa.


    Daglegir samráðsfundir voru haldnir í Tólf-plús hópnum innan þingmannasambandsins (Vesturlandahópurinn). Hópurinn fundaði bæði helgina fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samráðsfundum var tekin afstaða til einstakra mála, kosninga í trúnaðarstörf og þátttöku í nefndastarfi og fjallað um innri málefni hópsins.
    Við lok þingsins í Peking lét Peter Bosa frá Kanada af störfum sem formaður Tólf-plús hópsins og var Franz Josef van der Heijden frá Hollandi kjörinn formaður.

D. NÆSTU ÞING


    Næstu þing sambandsins verða í Seúl (apríl 1997), Kaíró (september 1997), Windhoek (apríl 1998) og Moskvu (haustið 1998).

Alþingi, 30. jan. 1997.



Geir H. Haarde,

Bryndís Hlöðversdóttir.

Magnús Stefánsson.


form.



Einar K. Guðfinnsson.

Jóhanna Sigurðardóttir.



Neðanmálsgrein: 1
    Um var að ræða þingin á Íslandi, Síle, Venesúela, Senegal, Bretlandi, Indlandi, Egyptalandi, Danmörku, Ítalíu, Kanada, Þýskalandi, Filippseyjum, Ástralíu, Úrúgvæ, Frakklandi, Kúvæt, Kamerún, Argentínu og Indónesíu.