Ferill 293. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 293 . mál.


548. Skýrsla



um norrænt samstarf frá janúar 1996 til janúar 1997.

1. Inngangur.
    1. janúar 1996 gekk í gildi nýtt skipulag Norðurlandaráðs. Undirbúningur þessara breytinga hófst þegar haustið 1994 en byggðist aðallega á skýrslunni „Nýir tímar í norrænni samvinnu“ sem lögð var fram á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í lok febrúar 1995 og þar samþykkt. Skýrslan hefur að geyma tillögur um markmið, inntak og form norrænnar samvinnu. Þar var samþykkt að endurnýja bæri samstarfið og aðlaga það að nútímanum og einnig að gera það hagkvæmara og markvissara. Breytingar þóttu nauðsynlegar í kjölfar hinna nýju aðstæðna sem sköpuðust við þjóðaratkvæðagreiðslurnar í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð um aðild að ESB. Með skýrslunni var norrænu samstarfi framtíðarinnar beint að þremur meginsviðum, samvinnu innan Norðurlanda, samvinnu milli Norðurlanda og Evrópu/ESB/EES og samvinnu Norðurlanda og grannsvæða þeirra.
    Nefndaskipan í Norðurlandaráði var breytt í samræmi við hinar nýju áherslur. Um áramótin 1995/1996 voru fagnefndir Norðurlandaráðs lagðar niður og í stað þeirra stofnaðar þrjár stórar nefndir byggðar á tilgreindum meginsviðum, þ.e. Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og grannsvæðanefnd. Forsætisnefnd var stækkuð og eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs var sett á stofn.
    Ýmsar aðrar breytingar gengu einnig í gildi á sama tíma. Þingum Norðurlandaráðs var fækkað úr tveimur í eitt á ári og það haldið um miðjan nóvember. Ákveðið var að stærri ráðstefnur yrðu haldnar á vegum Norðurlandaráðs um ýmis pólitísk málefni er tengjast norrænu samstarfi. Hin flokkspólitíska starfsemi í ráðinu var aukin til muna og flokkahóparnir fjórir, sem eru starfandi í Norðurlandaráði, flokkahópur jafnaðarmanna, flokkahópur hægrimanna, flokkahópur miðjumanna og flokkahópur vinstrisósíalista, fengu aukna fjármuni til styrktar starfsemi sinni. Hóparnir hafa eflt starfsemi sína með ýmsum hætti, m.a. með námskeiða- og ráðstefnuhaldi.
    Í upphafi ársins tóku gildi þær breytingar á Helsinki-sáttmálanum sem samþykktar voru á þingi ráðsins í Kuopio í Finnlandi í nóvember 1995 um áherslubreytingarnar í starfi Norðurlandaráðs. Árið 1996 var unnið að breytingum á starfsreglum Norðurlandaráðs. Breytingarnar voru samþykktar á þingi ráðsins í Kaupmannahöfn í nóvember 1996 og gengu í gildi 1. janúar 1997.
    Á starfsárinu var unnið að endurskoðun upplýsingastefnu Norðurlandaráðs í samstarfi við norrænu ráðherranefndina. Tímaritið „Nordisk Kontakt“ var lagt niður og í þess stað ákveðið að gefa út blað í öðru formi sem nefnist „Politik i Norden“. Fyrsta eintakið kom út í nóvember 1996.
    Með breytingum á starfsháttum Norðurlandaráðs var stefnt að því að auka umræðu um pólitísk málefni í Norðurlandaráði. Þau mál er helst bar á góma á starfsárinu voru einkum samstarf Norðurlanda og Evrópu, en sérstök þemaráðstefna var haldin um það í Kaupmannahöfn í mars 1996. Öryggis- og varnarmál voru ofarlega á baugi og fjallað um þau á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember 1996. Í framhaldi af því var ákveðið að halda sérstaka þemaráðstefnu um öryggismálefni í júní 1997.
    Skrifstofa Norðurlandaráðs fluttist á árinu frá Stokkhólmi til Kaupmannahafnar. Nú hefur skrifstofan aðsetur í sömu húsakynnum og skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar. Tilgangur flutningsins var að auka samráð og samstarf þessara tveggja skrifstofa og auk þess að auka hagkvæmni og samnýta ákveðin störf. Á árinu var mikil vinna lögð í gerð starfslokasamninga við þá starfsmenn Norðurlandaráðs sem ekki fluttust með til Kaupmannahafnar. Fækkaði starfsmönnum á skrifstofu Norðurlandaráðs um tæpan helming og eru þeir nú 15. Nýr framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, Berglind Ásgeirsdóttir, var ráðinn á miðju ári. Það er í fyrsta sinn sem Íslendingur gegnir þessari stöðu.
    Fjárhagsrammi Norðurlandaráðs var á árinu 36 millj. s.kr. Fjárhagsrammi norrænu ráðherranefndarinnar var 707,5 millj. d.kr. Hlutdeild Íslands í þessum framlögum var 1,1% á árinu 1996.
    
2. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
2.1 Fulltrúar í Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
    Í byrjun árs 1996 sátu eftirtaldir þingmenn í Norðurlandaráði: Geir H. Haarde, Guðmundur Árni Stefánsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Sturla Böðvarsson og Valgerður Sverrisdóttir. Varamenn í Norðurlandaráði voru: Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Johnsen, Árni M. Mathiesen, Guðni Ágústsson, Ísólfur Gylfi Pálmason og Bryndís Hlöðversdóttir. 5. júní kaus Alþingi sömu þingmenn til setu í Norðurlandaráði.
    Breytingar á Helsinki-sáttmálanum og samþykktir Norðurlandaráðs, sem gengu í gildi í byrjun ársins, kváðu á um að flokkahóparnir í Norðurlandaráði skyldu framvegis tilnefna fulltrúa landanna í trúnaðarstöður. Á þingi Norðurlandaráðs í Kuopio í nóvember 1995 tilnefndu flokkahóparnir í fyrsta sinn fulltrúa til setu í nefndunum. Fulltrúar Íslandsdeildar skiptust á árinu í eftirfarandi nefndir: Valgerður Sverrisdóttir, Geir H. Haarde og Guðmundur Árni Stefánsson sátu í forsætisnefnd. Siv Friðleifsdóttir og Sigríður A. Þórðardóttir sátu í Evrópunefnd og var Siv annar tveggja varaformanna. Steingrímur J. Sigfússon sat í Norðurlandanefnd og Sturla Böðvarsson í grannsvæðanefnd Norðurlandaráðs. Sigríður A. Þórðardóttir átti einnig sæti í eftirlitsnefnd ráðsins.
    Íslandsdeild skipti með sér verkum á fundi sínum 27. júní. Valgerður Sverrisdóttir var endurkjörin formaður og Guðmundur Árni Stefánsson endurkjörinn varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Geir H. Haarde var kjörinn formaður flokkahóps hægrimanna í nóvember 1995 til eins árs og endurkjörinn í nóvember 1996.

2.2 Störf Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs hélt níu fundi á starfsárinu. Norræni samstarfsráðherrann, Halldór Ásgrímsson, var gestur á fundi Íslandsdeildarinnar og gerði grein fyrir fyrirhuguðum breytingum á rekstri nokkurra norrænna stofnana. Hann boðaði einnig Íslandsdeild til fundar fyrir þing Norðurlandaráðs. Forseti Alþingis, Ólafur G. Einarsson, var gestur Íslandsdeildar á tveimum fundum á árinu og ræddi um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á skrifstofu Alþingis. Íslandsdeildin tók ákvörðun um að láta túlka af og á íslensku á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember 1996. Deildin stóð fyrir ráðstefnu í febrúar 1996 á Flughótelinu í Keflavík um Schengen-samstarfið. Sjá nánar um það í kafla 2.3.
    Norrænir fréttamannastyrkir voru á árinu veittir fjórum íslenskum fréttamönnum. Samanlagt var styrkupphæðin 60.000 s.kr. Íslandsdeild ákvað að eftirgreindir fréttamenn hlytu styrki: Eggert Skúlason, Einar Örn Stefánsson, Ólafur Þ. Stephensen og Þorbjörg Eva Erlendsdóttir.
    1. október 1996 var alþjóðasvið Alþingis stofnað og skrifstofa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs felld inn í það. Alþjóðasviðið sinnir þjónustu við allar alþjóðanefndir Alþingis.
    Starfsmenn skrifstofu Íslandsdeildar á starfsárinu voru Elín Flygenring forstöðumaður og Lene Hjaltason deildarsérfræðingur, en Kristín Ólafsdóttir starfaði á skrifstofunni í fimm mánuði í afleysingum.

2.3 Ráðstefna um Ísland og Schengen.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs stóð að ráðstefnu um Ísland og Schengen 23. febrúar 1996 á Flughótelinu í Keflavík. Valgerður Sverrisdóttir, formaður Íslandsdeildar, opnaði ráðstefnuna en aðrir ræðumenn voru Hannes Hafstein sendiherra sem hélt yfirlitserindi um Ísland og Schengen, Christian Oldenburg frá danska utanríkisráðuneytinu sem talaði um afstöðu annarra Norðurlanda til Schengen, sjónarmið löggæslunnar komu fram í erindi Þorsteins A. Jónssonar, skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu, og Magnús Oddsson ferðamálastjóri ásamt Guðmundi Pálssyni, framkvæmdastjóra flugrekstra- og tæknisviðs Flugleiða fjölluðu um sjónarmið ferðaþjónustunnar. Farið var í skoðunarferð til Keflavíkurflugvallar þar sem Pétur Guðmundsson flugvallarstjóri lýsti þeim breytingum sem gera þyrfti á byggingunni ef Íslendingar tækju þátt í Schengen-samstarfinu. Eftir framsöguerindi voru pallborðsumræður þar sem þátttakendur voru Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og norrænn samstarfsráðherra, Þorsteinn A. Jónsson, Hannes Hafstein, Guðmundur Pálsson og Hjörleifur Guttormsson, alþingismaður. Atli Rúnar Halldórsson stjórnaði umræðunum. Um 70 manns sóttu ráðstefnuna sem vakti mikla athygli fjölmiðla og þótti almennt mjög upplýsandi.

3. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
3.1 Forsætisnefnd.
    Eftir skipulagsbreytingarnar í Norðurlandaráði fara forsetaskipti og formennska nú fram um áramót. Í byrjun árs 1996 tók Daninn Knud Enggaard við forsetastóli af Geir H. Haarde alþingismanni. Olof Salmén frá Álandseyjum tók við um áramótin 1996/1997.
    Á starfsárinu hafa starfshættir forsætisnefndar og ráðsins breyst í samræmi við nýjar reglur. Nefndin hefur stýrt þeirri vinnu og einkum einbeitt sér að flutningi skrifstofu Norðurlandaráðs frá Stokkhólmi til Kaupmannahafnar og endurskoðun starfsreglna ráðsins. Forsætisnefnd hefur einnig fylgst með þróuninni í hinum nýju nefndum ráðsins og borið ábyrgð á samræmingu vinnunnar. Mikil breyting hefur orðið á störfum nefndarinnar með því að hún fjallar nú um fjárlagatillögur norrænu ráðherranefndarinnar. Auk þess hefur forsætisnefnd fjallað um ýmis pólitísk málefni á árinu.
    Kjör í trúnaðarstöður fer nú fram á vegum flokkahópa Norðurlandaráðs. Á starfsárinu hafa af Íslands hálfu setið í forsætisnefnd alþingismennirnir Geir H. Haarde frá flokkahópi hægrimanna, Valgerður Sverrisdóttir frá flokkahópi miðjumanna og Guðmundur Árni Stefánsson frá flokkahópi jafnaðarmanna.
    Forsætisnefnd hélt tólf fundi á starfsárinu. Fundur með forsætisráðherrum Norðurlanda var haldinn í tengslum við þing ráðsins. Aðalumræðuefni fundarins var grannsvæðastefnan og norræna samstarfið innan ESB. Einnig var haldinn fundur með norrænu samstarfsráðherrunum til að fjalla um komandi þing ráðsins, grannsvæðastefnu ráðherranefndarinnar og ESB-samstarfið.
    Eins og áður hefur verið vikið að var töluvert fjallað um öryggis- og varnarmál í forsætisnefnd Norðurlandaráðs á starfsárinu. Tvær þingmannatillögur voru til umfjöllunar um þetta efni, önnur frá flokkahópi vinstrisósíalista og hin frá flokkahópi hægrimanna. Fyrir þing ráðsins í Kaupmannahöfn í nóvember 1996 var samkomulag um að leggja ekki fram endanlegar álitsgerðir vegna þessara tillagna en ákveðið að forsætisnefnd héldi áfram að fjalla um þessi málefni á starfsárinu 1997. Jafnframt var tekin ákvörðun um að halda þemaráðstefnu um öryggismálin í júní í Helsinki 1997.
    Þingmannanefnd um norðurskautsmálefnin hélt áfram störfum sínum á árinu. Formaður þeirrar nefndar er Geir H. Haarde alþingismaður, en Norðurlandaráð á þrjá fulltrúa í nefndinni og auk þess eiga þar sæti fulltrúar frá Kanada, Rússlandi, Bandaríkjunum, Evrópuþinginu og frá fulltrúum frumbyggja. Í mars var haldin önnur þingmannaráðstefna um norðurskautsmálefni í Kanada. Þátttakendur voru um það bil 100 manns, þingmenn og aðrir fulltrúar frá heimskautslöndunum átta. Mikilvægasta málefni ráðstefnunnar var að þrýsta á um stofnun norðurskautsráðs, en það ráð var sett á stofn í september með yfirlýsingu sem undirrituð var af utanríkisráðherrum heimskautslandanna átta. Þingmannanefndin fær stöðu áheyrnarfulltrúa í ráðinu. Þriðja þingmannaráðstefnan um norðurskautsmálefni verður væntanlega haldin í Rússlandi seinni hluta árs 1997 eða á árinu 1998.
    Það er hlutverk forsætisnefndar að sjá um tengsl við aðrar alþjóðastofnarnir, svo og svæði og lönd sem liggja að Norðurlöndum. Þingmenn Eystrasaltsríkjanna fengu styrki á árinu til að kynna sér þingræði og starfsemi hins opinbera á Norðurlöndum. Í apríl var haldinn fyrsti sameiginlegi fundurinn milli Norðurlandaráðs og þingmannasamtaka Eystrasaltsríkjanna þriggja: Eistlands, Lettlands og Litáens. Ráðið var þátttakandi í 5. þingmannaráðstefnu Eystrasaltslandanna sem haldin var í Ríga.
    Forsætisnefndin stofnaði á árinu vinnunefnd til að endurskoða upplýsingastefnu ráðsins og ráðherranefndarinnar. Formaður hennar er Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður. Sjá nánar um störf þessarar nefndar í 5. kafla.

3.2 Norðurlandanefnd.
    Fulltrúi Íslands í Norðurlandanefndinni á starfsárinu var Steingrímur J. Sigfússon. Í vinnuáætlun fyrir starfsárið kom fram að málefni nefndarinnar væru einkum hin sígildu málefni norræns samstarfs, svo sem menntunar- og menningarmál, rannsóknir, félagsleg málefni, svæðasamstarf innan Norðurlandanna, jafnréttismál og málefni er varðar borgarana. Nefndin ákvað að setja nokkur málefni efst í forgangsröð og stofnaði fjóra vinnuhópa sem fjölluðu um eftirtalin málefni: norræn velferðarmál, lista- og menningarsamvinnu, norrænt barna- og ungmennasamstarf auk menntunar- og rannsóknasamstarfs. Steingrímur J. Sigfússon átti sæti í vinnuhópnum um velferðarmálefni.
    Á 48. þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn voru samþykkt tvenn tilmæli byggð á ráðherratillögum er lagðar voru fram, annars vegar um norrænt löggjafarsamstarf og hins vegar um framtíð Vestnorræna sjóðsins. Á þinginu voru samþykkt sex tilmæli byggð á þingmannatillögum sem Norðurlandanefndin hafði fjallað um. Tilmælin fjölluðu um norræna samræmingu hagnýtrar upplýsingatækni, auknar rannsóknir og menntun á sviði gigtsjúkdómafræði á Norðurlöndum, grundvallaröryggi norrænna flutningaverkamanna í ferðum yfir landamæri, sameiginlegt kerfi um flutning sjúkraskýrslna milli Norðurlandanna, samvinnu um meðhöndlun fámennra sjúklingahópa og baráttu gegn kynferðislegri misnotkun á börnum. Eftir umfjöllun nefndarinnar um þingmannatillögu um frjáls félagasamtök og hið opinbera norræna samstarf voru teknar ákvarðanir um innri málefni. (Sjá nánar um efni tilmæla og ákvarðana um innri málefni í fylgiskjali.)
    Nefndin hélt sex fundi á starfsárinu. Þar fyrir utan funduðu vinnuhóparnir mikið. Norðurlandanefndin átti fund með norrænu dómsmálaráðherrunum 11. nóvember 1996 í Kaupmannahöfn þar sem kynferðisleg misnotkun barna var umræðuefnið. Einnig hitti nefndin menningarmálaráðherrana þar sem meðal annars var fjallað um norrænt sjónvarpssamstarf. Þann dag átti nefndin einnig fund með stjórn Norræna menningarmálasjóðsins. Í júní var haldinn fundur þar sem þeim ráðherrum, er fjalla um málefni flóttafólks, var boðið til samráðs. Í september var haldinn áheyrnarfundur með sérfræðingum um kynferðislega misnotkun á börnum.
    
3.3 Evrópunefndin.
    Fulltrúar Íslands í Evrópunefndinni voru á starfsárinu Siv Friðleifsdóttir, sem var annar tveggja varaformanna nefndarinnar, og Sigríður A. Þórðardóttir.
    Eins og nafnið gefur til kynna er það hlutverk nefndarinnar að sinna samstarfi Norðurlanda og ESB/EES/EFTA. Nefndin sá að stórum hluta til um skipulagningu Evrópuráðstefnunnar, þemaráðstefnu Norðurlandaráðs, sem haldin var 4.–5. mars 1996 í Kaupmannahöfn 1996.
    Ein tilmæli voru samþykkt á þingi Norðurlandaráðs byggð á umfjöllun Evrópunefndar um tvær þingmannatillögur, um samræmda norræna atvinnustefnu og um aðgerðir gegn atvinnuleysi. (Sjá nánar um efni tilmælanna í fylgiskjali.)
    Í tengslum við þingið skipulagði nefndin áheyrnarfund um Evrópumálefni þar sem norrænu utanríkis- og Evrópuráðherrarnir voru boðnir til að svara fyrirspurnum. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og norrænn samstarfsráðherra var fulltrúi Íslands.
    Evrópunefndin hélt sex fundi á árinu og var sumarfundur nefndarinnar haldinn í Reykjavík þann 6.–8. ágúst. Friðrik Sophusson fjármálaráðherra var gestur fundarins og gerði grein fyrir íslenskri efnahagsstefnu. Nefndin heimsótti íslensk fiskvinnslufyrirtæki í Reykjavík og Stykkishólmi.

3.4 Grannsvæðanefndin.
    Íslenskur fulltrúi í grannsvæðanefndinni á starfsárinu var Sturla Böðvarsson.
    Í vinnuáætlun fyrir árið 1996 ákvað grannsvæðanefndin að hjálpa til við þróun lýðræðis og þingræðis á grannsvæðum Norðurlanda. Samstarfinu við grannsvæðin er m.a. ætlað að hvetja til markaðsbúskapar, virðingu fyrir mannréttindum og ábyrgðarfullrar nýtingar auðlindanna. Umhverfismál eru eitt af meginverkefnum í grannsvæðanefnd Norðurlandaráðs.
    Á 48. þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember voru samþykkt ein tilmæli byggð á ráðherranefndartillögu um samstarfsverkefni Norðurlanda á sviði sjávarútvegs 1997–2000. Einnig voru samþykkt tilmæli byggð á þingmannatillögum er fjallað hafði verið um í nefndinni. Þau fjölluðu um átak í almenningsfræðslu á Norðurlöndum og grannsvæðum og um rannsóknir og þróun nýrra og varanlegra orkubrunna, en nefndin tók jafnframt afstöðu til annarra orkumála er voru til umfjöllunar í nefndinni, m.a. skýrslu ráðherranefndarinnar um norrænt samstarf í orkumálum. (Sjá nánar um efni tilmælanna í fylgiskjali.)
    Nefndin hélt fimm fundi á starfsárinu. Fyrsti sameiginlegi fundur þingmannasamtaka Eystrasaltsríkjanna, Eistlands, Lettlands og Litáens og Norðurlandaráðs var haldinn í apríl í Vilníus. Grannsvæðanefndin tók þátt í fundinum ásamt forsætisnefnd og fulltrúum frá Evrópu- og Norðurlandanefndunum. Á fundinum var meðal annars fjallað um Evrópusamstarfið og öryggismál grannsvæðanna, efnahagslega þróun á svæðinu, umhverfis- og orkumál ásamt menningarmálefnum. Auk þess tóku formaður og varaformenn nefndarinnar þátt í ýmsum fundum með fulltrúum frá Eystrasaltslöndunum. Í tengslum við þing Norðurlandaráðs var haldinn sameiginlegur fundur nefndarinnar með norrænu samstarfsráðherrunum og einnig umhverfisráðherrum Norðurlanda. Umræðuefnið á fundinum var meðal annars áætlun um að halda ráðstefnu um umhverfisfjárfestingu, en sú ráðstefna verður væntanlega haldin fyrri hluta árs 1997 í Helsinki.
    
3.5 Eftirlitsnefnd.
    Fulltrúi Íslands í eftirlitsnefndinni var Sigríður A. Þórðardóttir.
    Nefndin hefur fyrst og fremst unnið við að skilgreina verkefni sín á árinu en auk þess gert úttekt á rekstri nokkurra norrænna stofnana. Aðalhlutverk nefndarinnar er að sjá um þingræðislegt eftirlit með þeirri starfsemi sem er fjármögnuð af norrænum fjárlögum, gera úttekt á norrænum stofnunum, hafa eftirlit með ákveðnum sérverkefnum, hafa eftirlit með og samþykkja norrænar ársskýrslur og endurskoðendaskýrslur og auk þess að gera sérstaka úttekt á ársskýrslum og endurskoðendaskýrslum Norðurlandaráðs.
    Nefndin kom saman sjö sinnum á starfsárinu. Voru fundirnir haldnir á öllum Norðurlöndunum og notaði nefndin tækifærið til að heimsækja norrænar stofnanir á hverjum stað fyrir sig. Sumarfundur eftirlitsnefndar var haldinn á Íslandi dagana 10.–13. júní 1996. Á þeim fundi hitti nefndin að máli forstöðumenn Norræna hússins í Reykjavík og Norrænu eldfjallastöðvarinnar. Á Akureyri var m.a. haldinn sameiginlegur fundur með stjórn Norræna menningarmálasjóðsins.

4. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs er nú þrenns konar, bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962 og eru þau veitt fyrir bókmenntaverk sem ritað hefur verið á einu Norðurlandamálanna. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga fyrir bókmenntum á tungumálum nágrannaþjóðanna. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1996 hlaut norski rithöfundurinn Øysteinn Lønn fyrir bók sína „Hva skal vi gjøre i dag? og andre noveller“.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965 og fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Síðan 1990 hafa verðlaunin verið veitt á ári hverju og eru þau veitt annað árið til tónskálda og hitt árið til tónlistarflytjenda.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir árið 1996 hlaut danska tónskáldið Bent Sørensen fyrir verk sitt „Sterbende Gärten“.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 voru samþykkt tilmæli um að Norðurlandaráð skyldi veita náttúru- og umhverfisverðlaun á hverju ári. Verðlaunin á að veita aðila sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða til hóps fólks, samtaka, fjölmiðla, fyrirtækja eða stofnana sem hefur í störfum sinum tekist að sýna í verki tillit til náttúrunnar á aðdáunarverðan hátt. Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn á þingi ráðsins í Kuopio í nóvember 1995.
    Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1996 hlutu umhverfissamtökin ICC — Inuit Circumpolar Conference fyrir vinnu á sviði umhverfismála innan AEPS þar sem samtökin hafa unnið að bættum lífskjörum heimskautsbúa.
    Verðlaun Norðurlandaráðs nema 350.000 d.kr.

5. Upplýsingastarfsemi.
    Á þingi ráðsins í Reykjavík 1995 var ákveðið að stefna að því að Norðurlandaráð og norræna ráðherranefndin skyldu sameina upplýsingastarfsemi sína svo fljótt sem unnt væri.
    Í byrjun ársins ákvað forsætisnefndin að stofna sérstaka vinnunefnd til að fjalla um nýja sameiginlega upplýsingastefnu. Hlutverk vinnunefndarinnar var meðal annars að sjá til þess að þessi sameining skyldi eiga sér stað. Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður er formaður nefndarinnar. Nefndin ákvað að leggja einkum áherslu á þrjú svið: nýtt blað sem kemur í stað „Nordisk Kontakt“, vikulegt fréttabréf í formi símbréfs og heimasíðu á alnetinu sem veitir upplýsingar um norrænt samstarf.
    Vinnunefndin hélt marga fundi á starfsárinu. Mikil vinna var lögð í að gefa út tilraunaeintak nýs blaðs „Politik i Norden“ sem gefið verður út í framtíðinni sameiginlega af Norðurlandaráði og norrænu ráðherranefndinni.
    Eintakafjöldi hins nýja blaðs var 5.500 í norrænni útgáfu og 1.500 í finnskri útgáfu.
    Vinnunefndin komst að þeirri niðurstöðu að mikill skortur væri á norrænu upplýsingaefni fyrir börn og unglinga. Formaðurinn lagði fram skýrslu með tillögum um hvernig auka skyldi þetta upplýsingaefni. Var ákveðið að þessu verkefni skyldi sérstaklega sinnt á árinu 1997.

6. Evrópuráðstefnan.
    4. og 5. mars var Evrópuráðstefna Norðurlandaráðs haldin í Kaupmannahöfn. Þetta var fyrsta stóra ráðstefnan sem Norðurlandaráð hélt eftir að ákvarðanir voru teknir um að endurskipuleggja norrænt samstarf. Tilgangur ráðstefnunnar var að safna saman þeim norrænu fulltrúum ríkisstjórnanna og þingmönnum sem sérstaklega fjalla um ESB-málefni. Markmiðið var m.a. að hafa samráð um mikilvæg málefni fyrir Norðurlönd sem kæmu upp á ríkjaráðstefnu ESB. Aðalmálefni ráðstefnunnar voru atvinnumál, umhverfismál, neytendamál og málefni varðandi lýðræði og upplýsingaskyldu.
    Í ráðstefnunni tóku þátt 33 ráðherrar, þar með taldir forsætisráðherrarnir, 93 meðlimir ráðsins, 25 fulltrúar Evrópuþingsins, 18 fulltrúar frá Evrópu- eða utanríkismálanefndum þjóðþinga Norðurlanda og nokkrir aðrir þingmenn. Alls tóku um 500 manns þátt í ráðstefnunni.
    Á ráðstefnunni var það undirstrikað að í grundvallaratriðum er samkomulag innan Norðurlanda um velferðarstefnuna og lýðræðið. Forsætisráðherrarnir bentu sérstaklega á nokkur sameiginleg norræn málefni í Evrópusamstarfinu, einkum umhverfismál, atvinnumál og upplýsingaskyldu. Þeir voru einnig sammála um að æskilegast væri að Evrópusambandið þróaðist sem bandalag sjálfstæðra ríkja. Norðurlöndin þrjú, sem eru meðlimir í ESB, leggja áherslu á að halda núverandi vægi milli lítilla og stórra ríkja í samstarfinu.

7. 48. þing Norðurlandaráðs.
    48. þing Norðurlandaráðs var haldið í Kaupmannahöfn 11.–13. nóvember 1996. Um tilmæli, umsagnir og ákvarðanir um innri málefni sem samþykkt voru á þinginu vísast til fylgiskjals og umfjöllunar um hverja nefnd fyrir sig.
    Á þinginu voru bæði almennar stjórnmálaumræður og sérstakar umræður um utanríkis- og varnarmál.
    Torbjørn Jagland, forsætisráðherra Noregs, flutti inngangsræðu almennu stjórnmálaumræðunnar. Hann fullyrti að norræna samstarfið væri mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr og undirstrikaði að Norðurlönd eru nágrannar með líkan bakgrunn og reynslu. Jagland lagði áherslu á að Norðurlönd ættu að verða fyrirmynd í Evrópu varðandi ákveðin málefni og skipulag. Þrátt fyrir að Norðurlönd tilheyri mismunandi alþjóðastofnunum og hafa valið mismunandi leiðir í varnarmálum, starfa þessar þjóðir saman á öllum sviðum sem ætti að geta orðið fyrirmynd annars staðar. Hann taldi að leggja ætti aukna áherslu á samvinnu Norðurlandanna við friðargæslu. Mikilvægt væri að þróa og breikka samband og samstarf á öllum sviðum milli stjórnvalda á Norðurlöndum og grannsvæðunum. Hjálpa ætti frjálsum félagasamtökum að byggja upp samstarf með grannsvæðunum. Jagland taldi að þróa ætti ungmennasamstarf innan Norðurlanda og milli Norðurlanda og grannsvæðanna. Hvað varðar efnahagslegt samstarf taldi hann mikilvægt að áfram yrði lögð sérstök áhersla á að sporna við atvinnuleysi og þeim erfiðleikum sem steðja að velferðarsamfélaginu. Forsætisráðherrann taldi mjög mikilvægt að tryggja samráð um mikilvæg evrópsk málefni sem fjallað er um innan ESB- og EES-samstarfsins. Umhverfismálin eiga að hafa forgang í norrænu samstarfi að hans mati og sérstaka áhersla skal leggja á orkumál. Innan menningarmálanna taldi Jagland mikilvægt að leggja áherslu á menningarviðburði til varnar útlendingahatri.
    Sérstök utanríkis- og varnarmálaskýrsla var lögð fram sameiginlega af norrænu utanríkisráðherrunum, en skýrsluna flutti Tarja Halonen frá Finnlandi. Hún sagði að staða Norðurlandanna í Norður-Evrópu og við Eystrasalt væri mjög mikilvæg í þeirri þróun sem nú á sér stað. Norrænt samstarf í ESB-málefnum hefði þróast jákvætt og upplýsingaskipti milli Norðurlandanna gengju vel í Brussel. Schengen-samningurinn sýndi að hið norræna samstarf um sameiginleg vegabréfasvæði hefði borið árangur. Halonen gerði grein fyrir því að á ríkjaráðstefnu ESB hefðu norrænu löndin innan sambandsins einkum lagt áherslu á upplýsingaskyldu, jafnrétti kynja, umhverfismál og atvinnumál. Hún undirstrikaði að þessi lönd hefðu lagt sérstaka áherslu á að samningarnir varðandi stækkun ESB við Eystrasaltslöndin yrðu að hefjast samtímis samningum við önnur lönd er sækja um aðild að ESB. Mikilvægt væri að Rússland yrði tekið inn í evrópskt samstarf. Halonen taldi Eystrasaltssamstarfið verða æ mikilvægara og einnig norðurskautssamstarfið sem hefði fest sig í sessi með stofnun norðurskautsráðsins. Tarja Halonen gerði grein fyrir því að Norðurlönd hefðu unnið í nánu samstarfi innan Sameinuðu þjóðanna þrátt fyrir þá breytingu sem varð við inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í ESB.
    Á þingi ráðsins var tekið upp það nýmæli að norrænu samstarfsráðherrarnir svöruðu óundirbúnum fyrirspurnum frá þingmönnum. Fyrirspurnatíminn þótti vel heppnaður og mun væntanlega verða framhald á þessu fyrirkomulagi.
    Í fyrsta skipti var túlkað af og á íslensku á þingi Norðurlandaráðs. Heimild til túlkunar íslensku hefur verið fyrir hendi um nokkurt skeið og ákvað Íslandsdeild Norðurlandaráðs að óska eftir túlkun á þessu þingi í tilraunaskyni. Þrátt fyrir nokkra annmarka er það álit Íslandsdeildarinnar að framhald eigi að vera á túlkun íslensku á þingum Norðurlandaráðs.

Alþingi, 31. febr. 1997.



Valgerður Sverrisdóttir,

Guðmundur Árni Stefánsson,

Geir H. Haarde.


form.

varaform.



Steingrímur J. Sigfússon.

Sigríður A. Þórðardóttir.

Sturla Böðvarsson.



Siv Friðleifsdóttir.




Fylgiskjal.


Tilmæli, umsagnir og ákvarðanir um innri málefni,


samþykktar á 48. þingi Norðurlandaráðs.


(Kaupmannahöfn 11.–13. nóvember 1996.)



Tilmæli:

Nr. 4/1996.


Samstarfsverkefni Norðurlanda á sviði sjávarútvegs 1997–2000


(tillaga ráðherranefndarinnar B 163/nær).


    Samstarfsverkefnið nær til þriggja einstakra sviða:
    Stjórnunarsamstarfs.
    Skipulagssamstarfs/samstarfs innan einstakra geira.
    Rannsókna- og þróunarsamstarfs.
    Verkefninu verður lýst reglulega í árlegri verkáætlun fyrir norrænt samstarf í sjávarútvegi og skýrsla um starfið birt í C 1-ársskýrslum Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Í ljósi aukinna krafna í framtíðinni um sjálfbæra þróun í sjávarútvegi telur nefndin mikilvægt að þjóðirnar starfi saman á árangursríkan hátt, einnig á hefðbundnum sviðum. Þá er enn fremur mikilvægt að sjávarútvegurinn þróist í samræmi við kröfur nútímans. Nefndin mælir með því að leitast verði við að auka skilning innan atvinnugreinarinnar á gildi sameiginlegra aðgerða Norðurlandaþjóða, svo sem varðandi markaðsgreiningu, vissa almenna markaðssetningu, skráningu fiskgæða og annars konar rekstrarsamstarf.
    Löndin skulu sameinast um að greina þörfina fyrir bætta samkeppnishætti innan sjávarútvegsins, bæði meðal sjómannanna sjálfra og á viðskiptasviðinu, svo að unnt sé að mæta samkeppni í framtíðinni. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram hafa komið um þörf á umbótum í samkeppnismálunum, sem og um nauðsyn þess að gera áætlanir í menntamálum og hrinda þeim í framkvæmd.
    Nefndin hefur enn fremur bent á að tillögu ráðherranefndarinnar er ábótavant að einu leyti. Í henni er ekki að finna neina útreikninga á árlegri fjárþörf og heildarkostnaði vegna framkvæmdar samstarfsverkefnisins.
    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:
—    að hefja framkvæmd verkefnisins um norrænt samstarf á sviði sjávarútvegs 1997–2000 samkvæmt ráðherranefndartillögu B 163/nær og í samræmi við þau sjónarmið sem grannsvæðanefndin hefur sett fram.

Nr. 5/1996.


Upplýsingaherferð á Norðurlöndum um löndin


á grannsvæðunum (þingmannstillaga A 1133/nær).


    Samskipti einstakra norrænna ríkja við löndin á grannsvæðunum eiga sér margbrotna og aldalanga sögu. Það er saga mikilla viðburða og að ýmsu leyti mikilla átaka.
    Þjóðir Norðurlanda þekkja fyrst og fremst elsta hluta þeirrar sögu.
    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:
—    að kanna möguleika á að auka þekkingu manna á grannsvæðunum á ýmsan hátt, fyrir tilstilli samtaka almennings, og möguleika á að styðja gagnkvæm skipti milli þegna.

Nr. 6/1996.


Rannsóknir og þróun nýrra og varanlegra orkulinda


(þingmannstillaga A 1135/nær).


    Í norrænu samstarfi um orkumál er mest áhersla lögð á málaflokka eins og raforkumarkað, mengunarmál, jarðgas, loftslag, hámarksorkunýtingu og rannsóknir.
    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda:
—    að gerð verði ítarleg könnun á möguleikum og áhrifum þess að samræma skattlagningu á orku hvarvetna á Norðurlöndum, með það að markmiði að markaðsverð á raforku endurspegli þá staðreynd að mismunandi framleiðsluhættir við raforkuframleiðslu valda umhverfinu misjafnlega miklum skaða.

Nr. 7/1996.


    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:
—    að stuðlað verði að aukinni samvinnu um rannsóknir og tækniþróun á sviði varanlegra orkulinda til þess að framlög frá rannsókna- og þróunarsjóðnum (FoU) dreifist og fjölbreytileiki norrænu stofnananna nýtist sem best. Þar sem þörf er á markvissu upplýsinga- og kynningarátaki skal koma á fót norrænu kerfi til að kynna nýjar og varanlegar orkulindir og tækni,
—    að komið verði á samvinnu sem stuðlað geti að aukinni tæknivæðingu á sviði nýrra og varanlegra orkulinda, m.a. með því að kanna hugsanlegar aðferðir til að gera Norðurlönd að einu markaðssvæði fyrir varanleg orkumannvirki. Upplýsingar, samræming og samstarf um stuðningsaðgerðir í ríkjum Norðurlanda eru mikilvæg atriði til að gera markaðinn og afurðirnar sýnilegar.

Nr. 8/1996.


Aðgerðir til að auka öryggi kjarnorku.


    Grannsvæðanefndin hefur endurskoðað tilmæli á sviði kjarnorkuöryggis og lagði tilmæli fyrir allsherjarfundinn sem skulu koma í stað hinna fyrri.
    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:
—    að allar aðgerðir af hálfu Norðurlanda sem varða öryggi í kjarnorkumálum, bæði eldri og nýrri, verði samræmdar og þeim fylgt eftir innan ramma gildandi alþjóðasamstarfs,
—    að haldið verði áfram þeirri viðleitni að auka kjarnorkuöryggi á Norðurlöndum, jafnt á grannsvæðum sem heimskautssvæðum, og unnið að bindandi alþjóðasamkomulagi um strangt eftirlit með almennri og hernaðarlegri starfsemi sem byggist á kjarnorkutækni, þar á meðal geymslu geislavirks úrgangs o.fl.,
—    að haldið verði áfram aðgerðum til að draga úr hættu frá kjarnorkuknúnum farartækjum, efnum sem geymd eru um borð í skipum og efnum sem losuð hafa verið í sjóinn á norðurhöfum,
—    að hún taki þegar í stað frumkvæðið að því að vinna að umbótum í umhverfismálum á Norðurlöndum, Eystrasalts- og Norðurkollusvæðum, þar sem spjöll verða rakin til orkuframleiðslu,
—    að hún leggi sitt af mörkum til að hindra að þekking í kjarnorkuvopnaframleiðslu breiðist út með því að styðja áætlanir sem nú eru á döfinni um að byggja upp rannsóknarmiðstöðvar þar sem vísindamönnum í Rússlandi, sem áður tóku þátt í þróun og framleiðslu kjarnavopna, væri gefinn kostur á nýjum verkefnum með því að styðja aðlögunarverkefni og eiga frumkvæði að því að auðvelda umskiptin frá framleiðslu kjarnavopna yfir í framleiðslu í almannaþágu, og
—    að hún styðji þróun öruggra aðferða við eyðingu kjarnavopna.

Nr. 9/1996.


(þingmannstillaga A 1127/euro, A 1136/euro).


    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ríkisstjórna á Norðurlöndum:
—    að þær láti vinna árlega greinargerð um atvinnumálastefnu landanna í samræmi við þær óskir sem fram koma í álitsgerð Evrópunefndarinnar. Greinargerðin skal skapa umræðugrundvöll fyrir árlega atvinnumálaumræðu á þingi Norðurlandaráðs og liggja fyrir eigi síðar en einni viku áður en þingið kemur saman í september ár hvert.

Nr. 10/1996.


Starfs- og fjárhagsáætlun fyrir norræna samvinnu


árið 1997 (B 161/p, C 2, C 1).


    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:
    Umbótaferlinu fylgt eftir
—    að fylgja umbótaferlinu „samvinna á nýjum tímum“ eftir með þeim hætti sem Norðurlandaráð lagði áherslu á í álitsgerð B 151/b og gefa því sérstakan gaum að forsætisnefndin og nýju nefndirnar skulu hafa möguleika á að ræða forgangsröð og skiptast á skoðunum um þau mál við ráðherranefndina og enn fremur að umræður skulu að hluta grundvallaðar á skýrslunni „Nordisk nytte“,
—    að gefa Norðurlandaráði og stofnunum þess möguleika á að ræða áætlanir, forgangsröð og fjárhagslegar afleiðingar á meginstigi og í tæka tíð til að hafa áhrif, svo sem þeim ber,
—    að sjá um að Norðurlandaráð fái yfir reikningsárið reglulega og án tafa nýjustu upplýsingar um reikninga síðasta árs, millifærslu fjár til framkvæmda, fjárhagslegar horfur o.s.frv.,
—    að sjá um að efni og framsetning pólitískra stjórntækja, svo sem starfs- og fjárhagsáætlana, sé sem skilmerkilegust og greinarbest og stuðli þannig að áframhaldandi umbótum. Hlutverk fjárhagsáætlana sem stjórntækis er að vísa veginn, segja til um þær þarfir sem uppfylla verður og um þjónustustigið.
    
         
    
    Af þeim sviðum þar sem Norðurlandaráð hyggst láta til sín taka í framtíðinni er lögð sérstök áhersla á eftirtalda málaflokka:
                  —    auknar fjárveitingar til Norræna menningarsjóðsins,
                  —    börn og ungmenni,
                  —    uppfræðslu almennings, fullorðinsfræðslu,
                  —    menningarsamstarf alþýðunnar,
                  —    upplýsingatækni,
                  —    aðgerðir til að auka veg lýðræðis- og alþýðuhreyfinga á grannsvæðum Norðurlanda,
                  —    sjálfbæra þróun á grannsvæðum Norðurlanda, þar með talið á heimskautssvæðum.
         
    
    Tilmæli ráðsins fela í sér eftirfarandi:
                  —    að „bygginga- og húsnæðisgeirinn“ fái engar fjárveitingar á fjárhagsárinu 1997. Þeir fjármunir sem þannig sparast verði færðir yfir á aðra útgjaldaliði sem hér segir: Norræna æskulýðsnefndin 150 þús. d.kr., nemendaskipti milli Vestnorræna svæðisins og annarra hluta Norðurlanda, sem og nemendaskipti innan Vestnorræna svæðisins, 250 þús. d.kr., framlög vegna tilmæla nr. 8/ 1994/nord, um aðgerðir gegn fíkniefnamisnotkun á Norðurlöndum og grannsvæðum, 600 þús. d.kr.,
                  —    að 500 þús. d.kr. verði teknar af fjárveitingu til Norræna vísindastefnuráðsins og færðar til rannsóknaáætlunarinnar „Norðurlönd og Evrópa“,
                  —    að 400 þús. d.kr. úr varasjóði ráðherranefndarinnar verði varið til áætlunar um að efla uppfræðslu almennings og fullorðinsfræðslu á Norðurlöndum,
                  —    að ráðherranefndin ráðstafi fjármunum skv. VI. kafla fjárhagsáætlunarinnar, sem fjallar um samstarf við grannsvæði Norðurlanda, með þeim hætti að framlög til samstarfs í umhverfismálum verði aukin um 1.200 þús. d.kr. — án þess þó að framlög til starfsþjálfunarkerfisins „Nordpraktik“ skerðist,
                  —    að afgangsfjármunum frá árinu 1995, sem samkvæmt upplýsingum ráðherranefndarinnar nema 2.500 þús. d.kr., verði varið í þágu Norræna menningarsjóðsins.

Nr. 11/1996.


Samstarfsáætlun og verkáætlun varðandi


norrænt löggjafarsamstarf (B 162/nord).


    Í samstarfsáætluninni er að finna þær starfsaðferðir sem framvegis skulu viðhafðar í samstarfi Norðurlanda. Enn fremur er lögð áhersla á þær meginreglur sem skulu gilda í norrænu löggjafarsamstarfi. Þær eiga einnig við um framkvæmd reglna Evrópusambandsins.
    Í tengslum við samstarfsáætlunina er unnið að lýsingu á tilteknum samstarfssviðum (verkáætlun). Árlega skulu gerðar breytingar á verkáætluninni og hún uppfærð eftir því sem samstarfsverkefnum miðar áfram og ný verkefni taka við af þeim sem lokið hefur verið.
    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:
—    að samþykkja samstarfsáætlun og verkáætlun fyrir hið norræna löggjafarsamstarf,
—    að árleg verkáætlun fyrir löggjafarsamstarf Norðurlanda verði lögð fyrir Norðurlandaráð í tengslum við árlegt þing þess.

Nr. 12/1996.


Vestnorræni sjóðurinn (B 164/nord).


    Norræna embættismannanefndin um byggðamál beitti sér fyrir mati á starfsemi Vestnorræna sjóðsins haustið 1995. Matið leiddi í ljós að Vestnorræna sjóðnum hefur ekki tekist að uppfylla helstu markmið sem skilgreind eru í lögum um sjóðinn. Útlánastarfsemi sjóðsins hefur verið lítil og megnið að fjármagninu runnið til Íslands. Höfuðstóll sjóðsins nemur 14,1 milljón Bandaríkjadala.
    Tillagan felur í sér margar einstakar tillögur að endurskipulagningu og bættum starfsaðferðum Vestnorræna sjóðsins.
    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:
—    að framkvæma þær breytingar sem lagðar eru til á samþykktum sjóðsins og varða umbætur í starfsemi hans,
—    að ekkert af ávöxtunarfé sjóðsins verði notað til að auka eigið fé Norrænu Atlantsnefndarinnar.

Nr. 13/1996.


Norrænt samstarf á sviði hagnýtrar upplýsingatækni (A 1125/nord).


    Vegna þess hve einsleit Norðurlönd eru landfræðilega, hagfélagslega og menningarlega og í ljósi þess hve upplýsingatæknin er orðin alþjóðleg í eðli sínu ættu að vera góðar forsendur fyrir norrænu samstarfi og samræmingu á þessu sviði. Sameiginleg norræn viðhorf geta öðlast aukið vægi í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi. Tillagan felur enn fremur í sér margar einstakar tillögur.
    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:
—    að setja saman þróunarverkefni þar sem upplýsingatækni er beitt til að auka þekkingu þegnanna á sviði upplýsingatækni og tryggja að öll almenningsbókasöfn á Norðurlöndum hafi aðgang að menntanetum.

Nr. 14/1996.


Auknar rannsóknir og menntun á sviði gigtsjúkdómafræði


á Norðurlöndum (A 1128/nord).


    Á Norðurlöndum er fjöldi fólks með gigt og skylda sjúkdóma. Flestir þessara sjúkdóma eru langvinnir og orsakir þeirra eru enn óþekktar. Ef lækning fyndist við gigtsjúkdómum hefði það í för með sér gífurlegan sparnað fyrir þjóðfélögin og miklu betra líf fyrir þá sem nú þjást.
    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:
—    að hvetja til þess að þörf fyrir sérfræðinga í gigtsjúkdómum verði metin í hverju landi fyrir sig og unnið að því að fjölga hugsanlegum námsstöðum í greininni,
—    að þjóðirnar beiti sér sérstaklega fyrir aukinni þekkingu í gigtsjúkdómafræði meðal heilbrigðisstétta,
—    að koma á fót vinnuhópi sem í eiga sæti læknar, starfsmenn við rannsóknir, fulltrúar gigtarfélaga og einn til tveir stjórnmálamenn í þeim tilgangi að setja saman norræna rannsóknaráætlun í klínískri gigtsjúkdómafræði, líf- og læknisfræði og lyfjaprófunum, og jafnframt kynna framkvæmdaáætlun svo unnt sé að skilgreina kostnað vegna endurhæfingar, þar á meðal tæknilegra hjálpartækja.

Nr. 15/1996.


Grundvallaröryggi norrænna flutningaverkamanna


í ferðum yfir landamæri (A 1129/nord).


    Margs konar aðstæður geta komið upp þar sem norrænir bílstjórar í ferðum yfir landamæri lenda í óhöppum og eiga erfitt með að leita hjálpar. Slíkar aðstæður hafa fjárhagslega og persónulega erfiðleika í för með sér og skapa talsverða óvissu í starfi.
    Lög, tungumál, siðir og venjur gera bílstjórum oft erfitt fyrir að skýra mál sitt og verja sig á einfaldan og eðlilegan hátt.
    Tillagan felur í sér fjölda einstakra tillagna um umbætur í öryggismálum flutningabílstjóra.
    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:
—    að setja reglur til að tryggja grundvallaröryggi norrænna flutningaverkamanna í ferðum yfir landamæri.

Nr. 16/1996.


Sameiginlegt norrænt kerfi um flutning


sjúkraskýrslna milli landanna (A 1131/nord).


    Þegar bráðir sjúkdómar eiga í hlut er mikilvægt að samskipti milli sjúkrahúsa séu sem greiðust; þar er oft keppt við tímann. Fyrstu viðbrögð geta skipt sköpum og mega því ekki dragast. Enn fremur verður að draga eins og hægt er úr hættu á rangri meðferð.
    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:
—    að kanna forsendur fyrir sameiginlegu norrænu kerfi um flutning sjúkraskýrslna milli landanna.

Nr. 17/1996.


Norrænt samstarf í meðferð fámennra sjúklingahópa (A 1132/nord).


    Meðferð erfiðra sjúkdóma er svo kostnaðarsöm að skynsamlegt væri að koma á samstarfi um meðferð þeirra milli Norðurlandanna. Slíkt samstarf gæti aukið gæði meðferðarinnar og tryggt viðhald og framfarir í sérfræðiþekkingu og meðferðarúrræðum, auk þess að stuðla að sem bestri nýtingu fjármuna.
    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:
—    að beita sér fyrir frekari kortlagningu þarfarinnar fyrir sérstakt samstarf Norðurlanda um meðferð fámennra sjúklingahópa,
—    að beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til að efla samstarf um meðferð fámennra sjúklingahópa.

Nr. 18/1996.


Barátta gegn kynferðislegri misnotkun barna (A 1140/nord).


    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:
    að hún láti baráttuna gegn kynferðislegri misnotkun barna hafa forgang og geri nauðsynlegar ráðstafanir til þess, með því að:
        —    skoða lög í hverju ríki Norðurlanda með það fyrir augum að koma á breytingum sem að gagni mega koma í baráttunni gegn kynferðislegri misnotkun barna, og þá jafnframt gegn barnaklámi,
        —    meta meðferð sem úrræði til viðbótar við refsidóma yfir þeim sem gerst hafa sekir um kynferðisbrot gagnvart börnum,
        —    sjá um að miðla fræðslu og upplýsingum um kynferðislega misnotkun barna til fólks sem vinnur með börnum, svo sem heilbrigðisstarfsmanna, kennara og leikskólakennara,
        —    sjá um að miðla fræðslu og upplýsingum til barna um hættuna á að verða fyrir barðinu á kynferðisafbrotamönnum,
        —    sjá um að þau börn sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi fái hjálp.
    að berjast gegn kynlífsferðamennsku með því að:
        —    auka samstarf löggæsluyfirvalda, bæði innan og utan Norðurlanda, m.a. með því að ráða fleiri norræna yfirmenn í stöður tengiliða,
        —    gera starfsfólki á ferðaskrifstofum grein fyrir ábyrgð þess,
    að koma á markvissri upplýsingaherferð í samvinnu við samtök sem láta sig slík mál varða, svo sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og Barnaheill, til að auka skilning meðal fólks á því hversu alvarlegur glæpur kynferðisleg misnotkun á börnum er.

Umsagnir:

Nr. 1/1996.


Mótun fjárhagsáætlunar og framhald umbótaferlisins (B 161/P, C 2).


    Að því er varðar mótun fjárhagsáætlunar og framhald umbótaferlisins vísar Norðurlandaráð til fyrri fyrirmæla og ákvarðana; einkum vísast til ákvörðunar ráðsins á 47. þingi þess í framhaldi af tillögu fjárhagsnefndar til allsherjarfundar ráðsins (C 2, B 151/b), 1. og 3. gr.

Nr. 2/1996.


Verkefnastjórnun Norræna menningarsjóðsins (C 5/k).


    Norðurlandaráð felur Norrænu ráðherranefndinni að færa til betri vegar þau atriði sem ríkisendurskoðun telur ábótavant í verkefnastjórn sjóðsins.

Ákvarðanir um innri málefni:

Nr. 1/1996.


Skipulagning ráðstefnu um öryggismál (A 1141/p).


    Norðurlandaráð samþykkir tillögu forsætisnefndar um að haldin verði ráðstefna um öryggismál á Norðurlöndum og á grannsvæðum fyrir lok ársins 1997.

Nr. 2/1996.


Ný fundarsköp Norðurlandaráðs (A 1139/p).


    Norðurlandaráð samþykkir tillögu forsætisnefndar að nýjum fundarsköpum fyrir ráðið og jafnframt að þau taki gildi 1. janúar 1997, að undanskildum 7. kafla, Kosningar, sem taki gildi þegar í stað.

Nr. 3/1996.


Endurskoðun á starfsemi Norðurlandaráðs fylgt eftir (C 9/k).


    Norðurlandaráð óskar að bætt verði úr þeim stjórnunarþáttum í starfsemi ráðsins sem endurskoðun leiddi í ljós að er ábótavant.

Nr. 4/1996.


Norræni þjóðfundurinn (A 1130/nord).


    Norðurlandaráð ályktar:
—    að Norræni þjóðfundurinn verði áfram helsti vettvangur skoðanaskipta og samstarfs milli Norðurlandaráðs og frjálsra samtaka á Norðurlöndum,
—    að eftir fund Norræna þjóðfundarins 1998 verði lagt mat á samkomuna; á grundvelli þess mats verði staða Norræna þjóðfundarins sem vettvangs skoðanaskipta og samstarfs síðan endurmetin. Matið skal taka til umfangs, forms og innihalds,
—    að Norðurlandaráð sjái til þess að Norræni þjóðfundurinn — eða sambærileg samkoma — fái fjárveitingu af fjárlögum Norðurlanda sem geri honum kleift að viðhalda hefðinni frá Hvidovre og Vasa.

Nr. 5/1996.


Tengsl Norðurlandaráðs við frjáls samtök (A 1130/nord).


    Norðurlandaráð ályktar:
—    að gangast fyrir ráðstefnum um sérstök efni eða umræðufundum milli ráðsins og frjálsra samtaka þegar fram kemur þörf fyrir slíkt; frumkvæðið getur komið hvort sem er frá samtökunum eða frá Norðurlandaráði,
—    að taka þátt í að skipuleggja undirbúningsfundi milli samtakanna og forsætisnefndar Norðurlandaráðs þau ár sem Norræni þjóðfundurinn kemur ekki saman,
—    að hvetja til þess að hinar ýmsu nefndir og vinnuhópar ráðsins komi á tengslum við hópa norrænna samtaka sem starfa á sambærilegu sviði,
—    að hvetja sendinefndir þjóðanna til að koma á reglulegum tengslafundum með frjálsum samtökum,
—    að hvetja frjáls samtök til að taka þátt í að mynda net með öðrum samtökum á grannsvæðum Norðurlanda.
Neðanmálsgrein: 1
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs tók við tilmælum eitt til þrjú fyrr á árinu.