Ferill 294. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 294 . mál.


549. Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins fyrir árið 1996.

1.    Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Í byrjun árs 1996 sátu eftirtaldir fulltrúar í Vestnorræna þingmannaráðinu: Árni Johnsen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristín Ástgeirsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Svavar Gestsson. Varamenn voru þá kosnir Guðmundur Hallvarðsson, Stefán Guðmundsson, Gísli S. Einarsson, Kristinn H. Gunnarsson, Svanfríður Jónasdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir. Á fundi sínum 10. janúar 1996 kaus Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins Árna Johnsen formann og Ástu R. Jóhannesdóttur varaformann. Í vinnuhópi um framtíðarsamstarf sátu Árni Johnsen og Svavar Gestsson. Á fundi Alþingis 5. júní 1996 var kosið að nýju og urðu engar breytingar á fulltrúum Vestnorræna þingmannaráðsins.

2.    Störf Íslandsdeildar Vestnorrræna þingmannaráðsins.
    Deildin hélt sjö fundi á árinu. Á fundunum var meðal annars fjallað um breytingar á starfsemi Vestnorræna þingmannaráðsins, stöðu Vestnorræna sjóðsins og annarra vestnorrænna stofnana og störf vinnunefndar Vestnorræna þingmannaráðsins og ársfundur ráðsins var undirbúinn. Seinni hluta ársins var einkum fjallað um nýjar hugmyndir og nýjungar í störfum ráðsins.
    Miðsvetrarfundur landsdeildanna var að þessu sinni haldinn með vinnuhópi þingmannaráðsins í Kaupmannahöfn 15.–16. febrúar. Þar var meðal annars rætt um framtíðarsamstarfið og ársfund ráðsins á Íslandi.

3.    12. ársfundur Vestnorræna þingmannaráðsins 1996.
    12. ársfundur ráðsins var haldinn í Vestmannaeyjum dagana 26.–29. júní 1996. Hann sóttu af hálfu Íslandsdeildar þingmannaráðsins eftirtaldir þingmenn: Árni Johnsen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristín Ástgeirsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Svavar Gestsson.
    Alls sóttu 17 vestnorrænir þingmenn ársfundinn. Auk þess hafði sérstaklega verið boðið til fundarins fulltrúa Norðurlandaráðs, Guðmundi Árna Stefánssyni, Þorsteini Pálssyni sjávarútvegsráðherra, Steinari B. Jakobssyni, framkvæmdastjóra Vestnorræna sjóðsins, Ole Oxholm, forstöðumanni NAPA, Sigurði Guðmundssyni, deildarstjóra hjá Byggðastofnun og fulltrúa NÄRP, og Kaj Egede forstöðumanni, varaformanni í NORA. Gestirnir gerðu grein fyrir starfsemi á sínu sviði og þeim breytingum sem höfðu orðið á árinu. Formenn landsdeildanna fluttu stuttar skýrslur um störfin á árinu og gerðu grein fyrir stjórnmálalegri stöðu, hver í sínu landi. Í almennum umræðum var fyrst og fremst rætt skipulag framtíðarsamstarfsins á grundvelli tillögu sem lá fyrir um endurskoðun samstarfsins. Ákveðið er að halda 13. ársfund þingmannaráðsins í Færeyjum sumarið 1997.

4.    Breytingar á starfsemi Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Á ársfundinum var kosið um tillögu um breytingar á samstarfinu og var hún samþykkt með tólf atkvæðum gegn fimm, einn sat hjá. Samkvæmt tillögunni skal endurskipuleggja starfsemi Vestnorræna þingmannaráðsins á þá leið að framvegis verði kosið í ráðið eftir styrkleikahlutföllum flokka. Fulltrúar á hverjum ársfundi verða 18, þ.e. sex frá hverju landi. Ákveðið var að löndin skiptist á formennsku, lögð verði fram starfsáætlun og skýrsla og að löndin borgi framvegis árgjöld til starfseminnar, stofnuð verði skrifstofa ráðsins og ráðinn starfsmaður.
    Ein ákvörðun um innri málefni var tekin á ársfundinum en samkvæmt henni munu ný markmið fyrir Vestnorræna þingmannaráðið verða samþykkt á næsta ársfundi og á árinu á að fara fram endurskoðun á sáttmála ráðsins og vinnureglum. Tillaga til þingsályktunar verður lögð fram síðar á 121. þingi um breytingar á starfsemi Vestnorræna þingmannaráðsins.

5.    Störf vinnuhóps Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Vinnuhópur, sem endurskoða á starfsemi Vestnorræna þingmannaráðsins, hélt aukafund í lok ágúst og annan í nóvember. Á báðum fundunum var farið yfir ákvarðanir sem teknar voru á ársfundinum og ákvörðun tekin um rekstur skrifstofunnar. Á fundi í nóvember var ákveðið að halda ráðstefnur um ýmis málefni, m.a. ráðstefnu á næsta ári með þátttöku allra stofnana sem annast vestnorrænt samstarf. Einnig var ákveðið að íhuga breytingu á nafni Vestnorræna þingmannaráðsins og útgáfu á fréttabréfi.

6.    Annað.
    Vestnorræna þingmannaráðið sótti um styrk til norrænu ráðherranefndarinnar til að hefja starfsemi nýrrar skrifstofu ráðsins, u.þ.b. 3 millj. kr. Var ákveðið að til að byrja með yrði skrifstofan á Íslandi og var ráðinn starfsmaður til hennar. Alþingi útvegar húsnæði o.fl. endurgjaldslaust.
    Með breytingunum á störfum ráðsins var samþykkt að auka samvinnu og samstarf við Norðurlandaráð. Allir formenn landsdeilda Vestnorræna þingmannaráðsins sóttu þing ráðsins í Kaupmannahöfn í nóvember 1996 og áttu fund með forseta Norðurlandaráðs. Á þeim fundi var ákveðið að auka upplýsingaflæðið milli ráðanna og að Norðurlandanefnd Norðurlandaráðs mundi sérstaklega fjalla um málefni Vestnorræna þingmannaráðsins.

Alþingi, 31. jan. 1997.



Árni Johnsen,

Ásta R. Jóhannesdóttir,

Ísólfur Gylfi Pálmason.


form.

varaform.



Kristín Ástgeirsdóttir.

Rannveig Guðmundsdóttir.

Svavar Gestsson.