Ferill 298. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 298 . mál.


554. Tillaga til þingsályktunarum aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Sigríður Jóhannesdóttir.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa áætlun um aðgerðir til að draga úr framboði efnis þar sem ofbeldi er sýnt í einhverju formi. Sérstaklega verði athygli beint að hvers kyns efni eða athöfnum sem líklegt má telja að börn eða unglingar verði fyrir áhrifum af.
    Áætlunin miði m.a. að því að takmarka eins og kostur er:
    hvers kyns ofbeldi, misþyrmingar, limlestingar og manndráp í myndefni sjónvarpsstöðva, kvikmyndahúsa og á myndböndum,
    tölvuleiki, leiktæki og leikföng sem byggja á ofbeldi,
    ofbeldi á tölvunetum,
    ofbeldi í sýndarveruleikatækjum,
    ofbeldisefni í bókum, blöðum og tímaritum,
    annað efni eða athafnir þar sem ofbeldi er hafið til vegs, réttlætt eða dýrkað, þar sem ástæðulausar eða tilgangslausar ofbeldisathafnir eru sýndar eða ofbeldi yfirleitt án listræns eða fræðandi gildis,
    aðgengi barna og unglinga að ofbeldisefni.
    Forsætisráðherra skipi nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að vinna með viðkomandi ráðuneytum, stofnunum og samtökum að gerð framkvæmdaáætlunar um aðgerðir á þessu sviði, þar með talið fræðslu, sem lögð verði fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu.

Greinargerð.


    Sú tilhneiging foreldra að vernda börn sín og hlífa fyrir ljótleika tilverunnar hefur án efa fylgt manninum frá ómunatíð. Í daglegu lífi er reynt að forðast að láta börn horfa upp á þjáningar fólks, þau eru ekki látin vera viðstödd ef aflífa þarf skepnur o.s.frv. Fyrir daga nútímafjölmiðlunar voru aðstæður foreldra í þessu sambandi viðráðanlegar í þeim skilningi að hægt var að halda börnum frá tilteknum stöðum eða sjá til þess að þau væru ekki þátttakendur í athöfnum sem ekki voru taldar við hæfi. Nú er öldin önnur. Ofbeldi í einhverju formi er svo hversdagslegt og útbreitt fyrirbæri á svo fjölmörgum sviðum að ógerningur er að einangra nokkurn þjóðfélagsþegn, þar með talin börn, frá snertingu við það.
    Um heim allan hafa áhyggjur manna af áhrifum aukins framboðs ofbeldisefnis, einkum í sjónvarpi og kvikmyndum, aukist síðustu ár og áratugi. Nægir að vísa í því sambandi til fjölda kannana sem gerðar hafa verið á áhrifum þess að börn sem fullorðnir horfi á ofbeldismyndir. Allur þessi fjöldi kannana, allt það fé sem lagt hefur verið í rannsóknir á samhengi ofbeldis í samfélaginu og ofbeldis í fjölmiðlum staðfestir þessar áhyggjur. Hér er hvorki ætlunin að fullyrða neitt né fjölyrða um áhrif ofbeldisefnis í fjölmiðlum eða annars staðar þar sem það er að finna. Vandaðar kannanir sýna svo ekki verður um villst að fylgni er t.d. milli ofbeldishegðunar og mikils áhorfs á ofbeldisefni, þótt heimili, félagslegar aðstæður og fleiri þættir skipti vissulega einnig miklu máli. Vísast í því sambandi m.a. til fylgiskjals I með tillögu þessari.
    Á síðustu árum hefur framboð ofbeldisefnis aukist gífurlega en einnig hefur orðið breyting á eðli þess og gerð. Til að tíunda aðeins það helsta má nefna tölvuleiki í heimilistölvum og sérstakar leikjatölvur sem tengja má við sjónvarp. Uppistaðan í leikjum í slíkum tækjum er því miður oftast tengd ofbeldi. Sama gildir um sýndarveruleikatæki, leiktæki í spilasölum og leikföng. Ofbeldi í einhverri mynd sem einhvers konar bardagi eða hernaður er langoftast undirstaðan.
    Tæknin kemur hér einnig við sögu að því leyti að efnið sem framleitt er er raunverulegra að allri gerð. Tækninni (tölvugerð mynda) sem unnt er að beita til að gera ofbeldisatriðin eðlileg og lifandi ef svo má segja eru orðin lítil takmörk sett.
    Síðast en ekki síst er sífellt að verki vítahringur stigmögnunarinnar. Rétt eins og um annað hliðstætt efni virðist það lögmál gilda að hver mynd eða hver tölvuleikur þurfi helst að taka því næsta á undan fram hvað svæsni snertir. Það þarf með öðrum orðum aðeins stærri skammt í hverri umferð, meiri grimmd, afkastameiri drápstól, miskunnarlausari ofurhetjur, meira blóð.
    Þótt ekki sé ætlunin að draga hér upp eina allsherjarhryllingsmynd af ástandinu er fróðlegt að taka dæmi af því ofbeldisefni sem venjulegt skólabarn „gæti“ haft aðgang að á einum degi, t.d. grunnskólanemi í 7. bekk á 12. ári:
    „Það er föstudagur 13. september 1996 og Siggi í 7AB Háuhólaskóla kemur heim til sín ásamt Bjössa, einum skólafélaga, um kl. 14.30. Þeir kveikja á sjónvarpinu og á Stöð 2 er verið að sýna kvikmyndina Alive sem er bönnuð innan 16 ára. Næst ákveða þeir að fara í tölvuleiki. Annar tengir leikjatölvu, Super Nintendó, við sjónvarpið og leikur um stund leikinn Mortal Kombat, sem byggir á hrottafengnum bardaga. Hinn fer í heimilistölvuna og þar er að finna í safni leikja, sem eldri bróðir Sigga hefur sett inn, m.a. leikina Doom og Quake.
    Á eftir fara þeir um stund niður í herbergi Sigga. Þar hanga á veggjum myndir af ofurhetjum og illmennum og meðal leikfanga eru að sjálfsögðu orrustuþotur, skriðdrekar, herskip, eldflaugar, byssur og rifflar, kylfur, sverð o.s.frv.
    Nú er klukkan að verða fjögur og móðir Sigga og yngri systkini koma heim. Bjössi á hins vegar að sjá um sig sjálfur fram undir kvöldmat þar sem faðir hans kemur seint heim og móðir hans sem vinnur vaktavinnu er ekki væntanleg fyrr en um miðnætti. Vinirnir fá leyfi til að leigja spólu og horfa á hana heima hjá Bjössa. Þeir fara á myndbandaleigu og fá leigða án teljandi erfiðleika myndina Broken Arrow sem er bönnuð innan 16 ára. Á leiðinni heim koma þeir við í leiktækjasal þar sem meðal annars er að finna leiki þar sem skotið er úr eftirlíkingum af vélbyssum á skotmörk á tölvuskjá í viðeigandi tækjum. Þarna leika þeir sér um stund óáreittir, þrátt fyrir 14 ára aldurstakmark, fyrir afganginn af vasapeningum vikunnar.
    Eftir að hafa horft á myndina og blaðað í hasarmyndablöðum, þar sem menn falla eins og hráviði fyrir kúlum ofurhetjunnar, fer Siggi heim til sín. Á báðum heimilum er horft á kvöldfréttir ríkissjónvarpsins og bæði á undan og eftir fréttunum eru sýndar án nokkurrar viðvörunar auglýsingar um kvikmyndir sem bannaðar eru börnum innan 16 ára. Þrjár myndir (The Quest, Diabolique og White Sguall) eru auglýstar kl. 19.50, rétt fyrir fréttir og tvær myndir (Dead Man Walking og The Quest) kl. 20.35, rétt eftir fréttir.“
    Síðan skulum við vona að þeir Siggi og Bjössi hafi átt friðsælt kvöld yfir námsbókunum og að þeir búi við góðar fjölskylduaðstæður, ekki mun af veita.
    Það fer tæpast hjá því að fjölmargar spurningar vakni með þeim sem velta þessum málum fyrir sér. Fyrst kemur auðvitað spurningin: Hvað á að gera? Er eitthvað hægt að gera? Jafnvel: Er ástæða til að gera nokkuð?
    Það er eindregin skoðun tillögumanna að bregðast verði við. Við getum ekki horft aðgerðalaus upp á sívaxandi ofbeldi gegnsýra allt umhverfi okkar og barnanna okkar. Jafnvel þótt vísindalegar sannanir liggi ekki fyrir í einstökum atriðum um samhengi vaxandi ofbeldis í samfélaginu og aukins framboðs á ofbeldisefni, enda erfitt um vik, réttlætir það ekki að láta skeika að sköpuðu. Margt fleira en beint orsakasamband milli aukins framboðs ofbeldisefnis og ofbeldishegðunar og glæpatíðni kallar líka á að brugðist sé við. Við viljum væntanlega ekki sætta okkur við það að tilvera okkar og umhverfi sé fyllt ljótleika og ofbeldi, slíkir hlutir gegnsýri allt afþreyingarefni og ýti öðru til hliðar.
    Við Íslendingar ráðum að sjálfsögðu litlu um heimsmarkaðinn og komum ekki til með að hafa úrslitaáhrif á stefnuna hvað varðar framleiðslu á ofbeldisefni. En við getum sett sjálfum okkur reglur, við getum haldið fram meðvitaðri stefnu um að takmarka ofbeldisefnisflauminn og talað fyrir henni á norrænum vettvangi og alþjóðlega.
    Í framkvæmdaáætlun um að draga úr framboði ofbeldisefnis er hægt að hugsa sér ýmsar aðgerðir:
    Setja má strangar reglur um sýningartíma efnis sem bannað er börnum.
    Banna ætti auglýsingar á efni sem ekki er leyft til sýningar fyrir alla aldurshópa nema seint í kvölddagskrá sjónvarpsstöðva. Einnig á undan efni í kvikmyndahúsum sem leyft er til sýningar fyrir alla.
    Aðgöngumiðar að kvikmyndum og útleiga á myndböndum sem sýna ofbeldisefni gæti borið viðbótargjald sem síðan mætti verja til fræðslu- og forvarnarstarfs á viðkomandi sviði.
    Stórefla þarf kvikmyndaskoðun og bæta aðstöðu barnaverndaryfirvalda og löggæslu til eftirlits, sbr. 9. gr. laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 47/1995.
    Framfylgja þarf ströngum reglum um að kvikmyndir séu ekki sýndar eða myndbönd leigð út eða afhent öðrum en þeim sem aldur hafa til að horfa á viðkomandi efni.
    Framfylgja þarf ströngum reglum um aðgang að leiktækjum sem hafa ofbeldisefni á boðstólum.
    Beina þarf fræðslustarfi að foreldrum jafnt sem börnum þar sem hvatt er til þess að virða aldurstakmörk og takmarka áhorf að ofbeldismyndum eða aðgang að öðru ofbeldisefni o.s.frv.
    Flutningsmenn telja brýnt að mál þetta komist formlega á dagskrá og til skoðunar hjá yfirvöldum uppeldis- og menntamála, fjölmiðlunar, félagsmála og heilbrigðismála og annars staðar þar sem ástæða er til og þá auðvitað ekki síst meðal almennings og fjölskyldna í landinu.
Fylgiskjal I.


Hilmar Thor Bjarnason:

Úr skýrslu umboðsmanns barna um ofbeldi í sjónvarpi.


(Október 1996.)(12 síður myndaðar)


Fylgiskjal II.


Fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar til menntamálaráðherra


um ofbeldisefni í fjölmiðlum.


(235. mál á 120. löggjafarþingi, þskj. 317.)    Telur ráðherra þörf á sérstökum aðgerðum til að draga úr ofbeldisefni í dagskrá fjölmiðla eða að breyta þurfi tilhögun dagskrár fjölmiðlanna til þess að slíkt efni komi síður fyrir augu barna?

Munnlegt svar menntamálaráðherra (Björns Bjarnasonar).


    Herra forseti. Samkvæmt útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum, bera sjónvarpsstöðvar fulla ábyrgð á eigin útsendingum. Hins vegar hafa stjórnvöld á síðustu árum unnið að því að setja reglur sem hafa það að markmiði að stemma stigu við vaxandi ofbeldi í fjölmiðlum.
    Ísland er aðili að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ný lög um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 47/1995, sem voru samþykkt á Alþingi sl. vor hafa tekið gildi. Með þeirri lagasetningu voru felld saman í heildstæða löggjöf ákvæði um bann við ofbeldiskvikmyndum og ákvæði um skoðun kvikmynda til að meta sýningarhæfni þeirra fyrir börn.
    Í 1. gr. laganna segir að bannað sé að framleiða hér á landi eða flytja til landsins ofbeldiskvikmyndir. Enn fremur er bönnuð sýning, dreifing og sala slíkra mynda. Ofbeldiskvikmynd í skilningi laga þessara er kvikmynd þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar eða hrottalegar drápsaðferðir á mönnum og dýrum. Hin nýju lög við bann við ofbeldiskvikmyndum eiga að sjálfsögðu einnig við um fjölmiðla.
    Hin íslenska löggjöf um þessi efni verður að teljast harla ströng miðað við það sem gerist í nágrannalöndum okkar og hæpið að lengra verði komist eftir þeim leiðum. Stjórnvöldum ber að sjálfsögðu að sjá til þess eftir fremsta megni að gildandi lagaákvæðum sé framfylgt en meginatriði er að fjölmiðlar og ekki síst foreldrar og aðrir forráðamenn barna finni til þerrar ábyrgðar sem hvílir á þeim í þessum efnum. Samvinna allra þessara aðila er forsenda þess að árangri verði náð.
    Að því er sjónvarpsstöðvar varðar gera lög ráð fyrir ákveðnu samráði milli þeirra og kvikmyndaskoðunar þótt stöðvarnar beri sjálfar ábyrgð á dagskrárefni sínu eins og áður var sagt. Kvikmyndaskoðun hefur í ábendingum sínum til sjónvarpsstöðva einkum lagt áherslu á eftirfarandi atriði:
    Að efni séð raðað í dagskrá með tilliti til áhorfstíma barna og ofbeldiskenndu efni valin staður sem seinast á dagskrá.
    Að viðvaranir um dagskrárefni séu samræmdar og fylgi allri dagskrárkynningu.
    Að mati kvikmyndaskoðunar hefur skort nokkuð á að þessara atriða sé nógu vel gætt ekki síst hjá Ríkisútvarpinu. Árangursríkast til að draga úr grófu ofbeldisefni í fjölmiðlum væri vafalaust ef takast mætti að efla með ungu kynslóðinni það viðhorf að slíkt efni sé ómerkilegt og ekki þess virði að eyða í það tíma frá öðrum áhugaverðari viðfangsefnum. Þar reynir enn á hlutverk og fordæmi foreldra. Einnig kann að þurfa að huga að því hvort efla beri fræðslu í skólum sem geti stuðlað að þessu markmiði og auðveldað börnum að átta sig betur á því myndmáli sem ber fyrir augu þeirra í fjölmiðlum og annars staðar. Fylgiskjal III.


Fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar til viðskiptaráðherra


um kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi.


(236. mál á 120. löggjafarþingi, þskj. 318.)    Telur ráðherra að kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi, þar sem sýnd eru ofbeldisatriði úr kvikmyndum sem bannaðar eru börnum, samrýmist ákvæðum samkeppnislaga, sbr. sérstaklega 22. gr.?
    Ef svo er ekki, hvað hyggst ráðherra aðhafast í málinu?

Munnlegt svar viðskiptaráðherra (Finns Ingólfssonar).


    Herra forseti. Á þskj. 318 hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon beint til mín tveimur fyrirspurnum vegna kvikmyndaauglýsinga í sjónvarpi. Hin fyrri hljóðar svo:
    „Telur ráðherra að kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi, þar sem sýnd eru ofbeldisatriði úr kvikmyndum sem bannaðar eru börnum, samrýmist ákvæðum samkeppnislaga, sbr. sérstaklega 22. gr.?“
    Nei. Ég tel að margar þessara auglýsinga samræmist ekki 22. gr. samkeppnislaga, en þar segir m.a. eins og hv. þm. hefur rifjað upp:
    „Auglýsingar skulu miðast við að börn sjái þær og heyri og mega þær á engan hátt misbjóða þeim. Í auglýsingum verður að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga og áhrifa á þau.“
    Þeir sem hafa horft á þessar auglýsingar hljóta að geta verið sammála um að í fjölda þeirra eru ofbeldisatriði sem alls ekki eru við hæfi barna. Síðari spurningin hljóðar svo:
    „Ef svo er ekki, hvað hyggst ráðherra aðhafast í málinu?“
    Í tilefni þessara fyrirspurna hef ég aflað mér upplýsinga hjá Samkeppnisstofnun um hvað samkeppnisyfirvöld hafi aðhafst í málinu.
    Á fundi ráðgjafarnefndar samkeppnisráðs, þ.e. auglýsinganefndar, þann 21. mars 1995 var fjallað um auglýsingar frá kvikmyndahúsunum í sjónvarpi þar sem sýnd eru kvikmyndaatriði sem ekki hæfa börnum. Í framhaldi af fundinum sendi Samkeppnisstofnun bréf til Ríkisútvarpsins og kvikmyndahúsanna í Reykjavík þar sem þeim tilmælum var beint til þeirra að virða ákvæði 22. gr. samkeppnislaganna. Tilmælin báru árangur sl. vor en að undanförnu hafa auglýsingar með kvikmyndaatriðum sem ekki hæfa börnum tekið að birtast aftur og nú einnig frá myndbandaleigum. Því var ákveðið á fundi auglýsinganefndar Samkeppnisstofnunar 11. des. 1995 að ítreka fyrri tilmæli. Samkeppnisstofnun sendi síðan tilmæli um að virða 22. gr. samkeppnislaga til allra sjónvarpsstöðva, kvikmyndahúsa í Reykjavík og samtaka myndbandaleiga þar sem jafnframt var bent á þau viðurlög sem unnt er að beita til að framfylgja lögunum. Viðurlögin eru að samkeppnisráð getur bannað athafnir sem brjóta í bága við ákvæði 22. gr. samkeppnislaga og fylgt banninu eftir með dagsektum.
    Skömmu eftir að hin ítrekuðu tilmæli voru send fyrrgreindum aðilum barst samkeppnisráði bréf frá umboðsmanni barna, dags. 17. jan. Í bréfinu er m.a. bent á þau skaðlegu áhrif sem ofbeldi í kvikmyndahúsum getur haft á börn og telur umboðsmaður því brýnt að samkeppnisráð grípi til þeirra úrræða sem því eru tiltæk til þess að banna auglýsingar af þessu tagi. Í framhaldi af bréfi umboðsmanns barna kom auglýsinganefnd saman og mér er kunnugt um að hún hefur í undirbúningi tillögur sem ræddar verða á fundi samkeppnisráðs sem verður haldinn í byrjun næstu viku. Niðurstöðu þess fundar vil ég bíða.
    Ég tel brýnt að reynt verði að ná samkomulagi um það milli þeirra aðila sem að þessu standa að stemma stigu við þessu án þess að þurfa að beita þeim ákvæðum sem hægt er að beita á grundvelli samkeppnislaganna til þess að stöðva þetta, þ.e. banninu og dagsektunum. Áður en það verði gert tel ég rétt að það reyni á hvort ekki sé hægt að ná samkomulagi eins og tókst í upphafi síðasta árs. Takist það hins vegar ekki eru auðvitað engin önnur úrræði til en að beita ákvæðum samkeppnislaga sem þar eru heimiluð.