Ferill 308. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 308 . mál.


567. Tillaga til þingsályktunar



um fræðslu til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu.

Flm.: Birna Sigurjónsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir.



    Alþingi ályktar að skora á menntamálaráðherra að tryggja að fræðslu til að búa nemendur í framhaldsskólum undir þátttöku í samfélaginu verði komið á í brautarkjarna allra framhaldsskóla, sbr. 17. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996. Áhersla verði lögð á fræðslu um samskipti kynjanna, fjölskylduábyrgð og einstaklingsskyldur, fjármálafræðslu, fræðslu um ábyrgð á eigin heilsu, umgengni við umhverfið og fleiri greinar sem hafa það að markmiði að gera nemendur að sjálfstæðum einstaklingum í nútímaþjóðfélagi.

Greinargerð.


    Í 2. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996, segir að hlutverk framhaldsskóla sé m.a. að stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Í 2. mgr. 17. gr. laganna segir að námsgreinar sem stuðla að almennri menntun og búa nemendur undir þátttöku í samfélaginu skuli vera í brautarkjarna.
    Í athugasemdum við 17. gr. frumvarps til laga um framhaldsskóla segir að námsþættir sem stuðla að því að gera nemendur hæfa til að lifa í lýðræðisþjóðfélagi og dýpka skilning þeirra á samfélaginu nefnist ratvísikjarni og skulu markmið hans skilgreind í aðalnámskrá framhaldsskóla.
    Þar sem nú er verið að undirbúa gerð aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla er nauðsynlegt að tryggja að markmið aðalnámskrárinnar um fræðslu á þessu mikilvæga sviði verði skýr og kennslu í þessum greinum verði komið á í öllum framhaldsskólum, enda er hér um að ræða eitt af meginhlutverkum framhaldsskólans eins og það er skilgreint í 2. gr. laganna.
    Nú þegar eru námsþættir sem falla undir þetta svið fyrir hendi á einstökum brautum framhaldsskóla, einkum uppeldis- og félagsfræðibrautum. Brýnt er að allir nemendur framhaldsskóla njóti þessarar fræðslu og framhaldsskólinn taki þannig ábyrgð á því að búa nemendur undir „að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi“ eins og segir í 2. gr. laga um framhaldsskóla. Í þessari lagagrein kemur fram skilningur á því að skólinn verður að bera ábyrgð á þessari fræðslu ásamt foreldrum. Í flóknu nútímasamfélagi geta þeir einir ekki sinnt þessari fræðslu svo fullnægjandi sé. Því þarf að efla þætti skólastarfsins sem búa nemendur undir þá ábyrgð sem fylgir því að verða fullorðinn, annast aðra og búa með öðru fólki.