Ferill 324. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 324 . mál.


586. Tillaga til þingsályktunar



um endurskipulagningu á þjónustu innan sjúkrahúsa.

Flm.: Guðrún Sigurjónsdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Svavar Gestsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórn Íslands að láta endurskipuleggja þjónustu sjúkrahúsa svo að þjónusta sem veitt er sé í senn sem hagkvæmust og uppfylli þarfir sjúklinga sem best á öllum stigum sjúkdóms. Verkefnið verði unnið í sameiningu af sjúkrahúsum landsins undir forustu heilbrigðisráðuneytisins.

Greinargerð.


    Hér er flutt tillaga sem gæti í verki sparað fé og stuðlað að jafngóðri eða betri líðan sjúklinga en nú er. Fyrir því eru þessi rök:
    Þann 27. janúar sl. voru á bráðadeildum Landspítalans 27 sjúklingar sem höfðu lokið meðferð. 21 þeirra komst ekki heim vegna færniskerðingar sem hægt hefði verið að meðhöndla á endurhæfingardeild. Hinir þurftu umönnun, en höfðu ekki þörf fyrir að vera á bráðadeild. Í þessum hópi voru hvorki aldraðir né hjúkrunarsjúklingar. Endurhæfingardeildir eru mun ódýrari í rekstri en bráðadeildir.
    Reynsla erlendis sýnir að sjúkradeildir sem taka við sjúklingum af bráðadeildum um leið og ástand þeirra er orðið stöðugt („sub-akut“-deildir) kosta a.m.k. 50% minna í rekstri en bráðadeildir.
                  Á íslenskum heilbrigðisstofnunum eru yfirleitt ekki slíkar deildir. „Sub-akut“-deildir taka við sjúklingum þegar þeir eru komnir af bráðastigi sjúkdóms eða aðgerðar. Ástand þeirra er þá orðið stöðugt og minni þörf fyrir eftirlit með sjúkdómi þeirra en meðan hann er á bráðastigi. Dæmi um slíka sjúklinga er fólk sem fengið hefur gerviliði í mjaðmir eða hné. Það bíður þess að sár þess grói og vinnur jafnframt að því að efla líkamlegt atgervi þar til það er fært um að útskrifast. Slíkir sjúklingar gætu farið á „sub-akut“-deild jafnvel tveimur til þremur dögum eftir aðgerð í stað þess að útskrifast á fimmta til sjöunda degi eins og nú er. Með þessu móti væri hægt að stytta biðlista því að mun betri nýting yrði á bráðarúmum.
                  Ástæðan fyrir því að „sub-akut“-deild er ódýrari en bráðadeild er sú að ekki er þörf á eins mörgum dýrum sérfræðingum og á bráðadeild vegna þess að virkri læknismeðferð er lokið.
    Þjónusta við sjúklinga verður markvissari á öllum stigum sjúkdóms. Markmiðið á „sub-akut“-deildum er að gera sjúklinga sem mest sjálfbjarga eða gera viðeigandi ráðstafanir þurfi þeir á aðstoð að halda heima við eftir útskrift. Á bráðadeild er markmiðið fyrst og fremst að grípa inn í bráðaástand og að annast mikið veika sjúklinga. Andrúmsloftið á slíkri deild er ekki hvetjandi fyrir þá sem eru á leið út í lífið eftir að bráðameðferð er lokið.