Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 175 . mál.


595. Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.    Nefndin hefur fjallað á ný um málið eftir 2. umræðu og fengið á sinn fund Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra, Halldór J. Kristjánsson, ráðuneytisstjóra í iðnaðarráðuneytinu, Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda og Lárus Ögmundsson, skrifstofustjóra í Ríkisendurskoðun.
    Meiri hlutinn leggur til að gerðar verði tvær breytingar á frumvarpinu.
    Í fyrsta lagi að við 8. gr. frumvarpsins bætist ákvæði er taki af öll tvímæli um að ákvæði samkeppnislaga eigi við um alla þætti í rekstri Landsvirkjunar.
    Í öðru lagi telur meiri hlutinn eðlilegt, með vísan til þeirrar meginreglu að Ríkisendurskoðun annist endurskoðun reikninga fyrirtækja sem ríkissjóður á að hálfu eða meira, að stofnunin tilnefni endurskoðendur Landsvirkjunar, í samráði við borgarendurskoðun Reykjavíkur og endurskoðanda Akureyrarbæjar. Nefndin leggur því til að ársfundur Landsvirkjunar kjósi endurskoðendur fyrirtækisins samkvæmt sameiginlegri tillögu Ríkisendurskoðunar, borgarendurskoðunar Reykjavíkur og endurskoðanda Akureyrarbæjar.
    Meiri hluti iðnaðarnefndar telur jafnframt eðlilegt að Ríkisendurskoðun hafi heimild til þess að gera stjórnsýsluendurskoðun á fyrirtækjum sem ríkið á meiri hluta í, líkt og er um Landsvirkjun. Til þess að svo megi verða með óyggjandi hætti þarf að breyta 9. gr. fyrirliggjandi frumvarps til laga um Ríkisendurskoðun, 262. mál, og kveða þar sérstaklega á um stjórnsýsluendurskoðun hjá fyrirtækjum sem ríkið á meiri hluta í en Ríkisendurskoðun annast ekki fjárhagsendurskoðun hjá vegna ákvæða í sérlögum. Meiri hlutinn áréttar þessa tillögu um breytingu á 262. máli (Ríkisendurskoðun) og vísar henni til þeirrar nefndar sem fjalla mun um frumvarpið.
    Eignaraðilar Landsvirkjunar hafa gert sameiginlega bókun, dags. 10. febrúar 1997, þar sem fram kemur að þeir eru ásáttir um að styðja þær breytingar sem meiri hluti iðnaðarnefndar leggur til að gerðar verði á frumvarpinu. Jafnframt kemur fram í bókuninni að eignaraðilarnir séu sammála um eftirfarandi varðandi arðgreiðslur og gjaldskrármarkmið:
„1.         Frá stofnun Landsvirkjunar hefur verið ákvæði um arðgreiðslur til eigenda af sérstökum eiginfjárframlögum og Landsvirkjun hefur í nokkur skipti greitt arð til eigenda sinna. Þetta ákvæði er nú í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun.
 2.         Núverandi samkomulag ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar felur í sér málamiðlun um arðgreiðslur til eigenda. Sammæli er um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót með þeim hætti sem samkomulagið gerir ráð fyrir.
 3.         Endanleg ákvörðun um arðgreiðslur verður tekin af eigendum á ársfundi Landsvirkjunar og verður þá höfð hliðsjón af raunverulegri afkomu fyrirtækisins. Verði verulegar breytingar á rekstrarforsendum mun það hafa áhrif á endanlega ákvörðun eigenda um arðgreiðslur á viðkomandi ári.“
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Guðný Guðbjörnsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er sammála áliti þessu og þeim breytingartillögum sem lagðar eru til.

Alþingi, 11. febr. 1997.Stefán Guðmundsson,

Guðjón Guðmundsson.

Jóhanna Sigurðardóttir.


form., frsm.Sigríður A. Þórðardóttir.

Árni R. Árnason.

Sighvatur Björgvinsson.Hjálmar Árnason.

Pétur H. Blöndal.