Ferill 341. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 341 . mál.


613. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Árni R. Árnason, Guðmundur Hallvarðsson,


Kristján Pálsson, Einar Oddur Kristjánsson.



1. gr.


    Við 3. málsl. 5. mgr. 12. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 87/1994, bætist: á þeim tegundum sem ekki hefur verið samið um veiðistjórn á.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 5. mgr. 12. gr. laganna er ákvæði sem segir að veiði skip minna en 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð falli veiðileyfi þess og aflahlutdeild niður og hlutdeild annarra skipa hækki sem því nemur. Þó er gert ráð fyrir því að 50% viðmiðunarhlutfallið lækki um 5% fyrir hverja 30 daga sem skipi er haldið til veiða utan fiskveiðilandhelginnar á fiskveiðiárinu. Þessi 5% regla kom inn í lögin árið 1994 og var ætlað að vera hvatning fyrir útgerðarmenn til að afla sér veiðireynslu á úthafinu. Nú þegar samið hefur verið um veiðar á tilteknum svæðum utan lögsögunnar er óeðlilegt og andstætt tilgangi laganna að skip sem fá úthlutað aflaheimildum á þeim svæðum geti jafnframt nýtt sér þessa lækkunarheimild. Því er hér lögð til sú breyting á þessu ákvæði að 5% lækkunin eigi einungis við um þær úthafsveiðar sem ekki hefur verið samið um.