Ferill 356. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 356 . mál.


630. Tillaga til þingsályktunar



um hámarkstíma Stjórnarráðs Íslands og ríkisstofnana til að svara erindum.

Flm.: Gunnlaugur M. Sigmundsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja starfsreglur um hámarkslengd þess tíma sem Stjórnarráð Íslands og aðrar ríkisstofnanir megi taka sér til að svara erindum er þeim berast auk þess að hvetja til átaks í að auka þjónustuvitund starfsmanna ríkisstofnana við almenning og fyrirtæki er þangað leita.

Greinargerð.


    Meðal almennings og fyrirtækja er oft kvartað undan því að þjónustuvitund sé lítil hjá opinberum stofnunum og altítt er að erfiðlega gengur að fá svör opinberra aðila við einföldum erindum. Þingsályktunartillaga þessi miðar að því að hafist sé handa um að bæta þjónustu hins opinbera við fyrirtæki og einstaklinga er þangað leita. Vafalítið er langt í land að nauðsynleg hugarfarsbreyting eigi sér stað hjá hinu opinbera í þessa veru en sem lið í að bæta þjónustu við almenning felur tillagan í sér að settar séu reglur um þann hámarkstíma sem Stjórnarráð Íslands og aðrar opinberar stofnanir mega taka sér til að svara þeim erindum sem þangað berast. Því miður er mikill misbrestur á að þessir hlutir séu í lagi hjá Stjórnarráði Íslands og á því verður að ráða bót hið fyrsta. Flutningsmanni er kunnugt um fjölmörg dæmi þess að dregist hafi úr hömlu hjá Stjórnarráðinu að svara erindum er þangað berast. Skulu hér nefnd fjögur slík tilvik.
    Á árinu 1994 skrifaði sveitarfélag ráðuneyti og óskaði heimildar til að fá keypt það land sem sveitarfélagið stendur á en er nú í eigu ríkisins. Formlegt svar hafði ekki borist í janúar 1997 þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar að lútandi bæði skriflegar og munnlegar. Borið er við önnum í viðkomandi ráðuneyti.
    Á árinu 1991 skrifaði lítið fyrirtæki sem var með starfsemi erlendis til ráðuneytis og óskaði eftir að kannað yrði hvort Ísland gæti gert svipaðan milliríkjasamning við tiltekið land og flest lönd í Vestur-Evrópu höfðu þegar gert og sparað hefði þessu litla fyrirtæki milljónir króna. Svar við þessari ósk hefur ekki borist enn og hætti fyrirtækið að reka á eftir málinu árið 1993 þegar þau svör fengust í viðkomandi ráðuneyti að erindið væri týnt.
    Fyrirtæki óskaði eftir úrskurði um hvort sömu reglur giltu ekki um tollafgreiðslu tiltekinnar vöru sem fyrirtækið og tilteknar ríkisstofnanir notuðu til að veita sams konar þjónustu. Það tók viðkomandi ráðuneyti meira en fjóra mánuði að svara erindinu neitandi. Tekið skal fram að í svari ráðuneytisins var beðist afsökunar á þeim drætti sem orðið hefði á svari.
    Í upphafi árs 1996 ritaði lögmaður ráðuneyti fyrir hönd umbjóðanda síns í framhaldi af úrskurði umboðsmanns Alþingis um mál er varðaði umbjóðanda lögfræðingsins en úrskurður umboðsmanns féll skjólstæðingi lögmannsins í vil. Nú ári síðar hefur svar ekki enn borist frá viðkomandi ráðuneyti.

    Hér hafa verið nefnd dæmi sem varða þrjú mismunandi ráðuneyti, en því miður er langt í frá að um einstök og afmörkuð tilvik sé að ræða. Með einföldum og skýrum reglum á að vera unnt að koma í veg fyrir slíkan slóðaskap.
    Á árunum 1971–81 þegar flutningsmaður var starfsmaður í Stjórnarráði Íslands var haft á orði að þær óformlegu starfsreglur giltu í sumum ráðuneytum að erindum er þangað bærust skyldi ekki svarað of fljótt. Fljót afgreiðsla var talin grafa undan tiltrú almennings á að afgreiðsla máls byggðist á vandaðri málsmeðferð. Erindi voru því lögð til hliðar í nokkurn tíma áður en þau komu til skoðunar.
    Í fjármálaráðuneytinu var hins vegar á þessum tíma innleidd sú regla, sem ráðuneytisstjóri gerði starfsmönnum að vinna eftir, að öllum erindum er ráðuneytinu bærust skyldi svarað innan sjö virkra daga. Væri ekki unnt að kveða upp efnislegan úrskurð innan þeirra tímamarka skyldi fyrirspyrjanda svarað og sagt hvenær vænta mætti endanlegs svars. Ekki er vitað til að vandvirkni í málsmeðferð hafi liðið fyrir þessa vinnureglu.
    Reglur sem þessar eru einfaldar og ætti engum að vera ofviða að skilja þær eða vinna eftir þeim. Með tilkomu tölvutækni og stórfelldri fjölgun opinberra starfsmanna frá þeim tíma sem hér hefur verið vitnað til má vænta þess að unnt væri að svara flestum erindum innan fimm virkra daga, auk þess sem unnt ætti að vera að gefa þeim erindum númer sem af einhverjum ástæðum er ekki hægt að svara innan tiltekins frests og birta síðan á heimasíðu Stjórnarráðsins á veraldarvefnum hvað líði afgreiðslu umrædds máls. Slík tilhögun mundi veita þeim starfsmönnum hins opinbera sem í hlut eiga mikið aðhald og stórbæta þjónustu við almenning og fyrirtæki. Aðalatriðið er þó að ríkisstjórnin setji skýrar reglur um hvers skattgreiðendur mega vænta í viðskiptum sínum við Stjórnarráð Íslands og aðrar opinberar stofnanir.