Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 362 . mál.


638. Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)1. gr.


    Við ákvæði til bráðabirgða bætist nýr liður, svohljóðandi:
 D.    Þeim sem hófu nám fyrir gildistöku laga nr. 62/1995, um breytingu á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, er heimilt að ljúka námi samkvæmt eldri lögum, enda útskrifist þeir eigi síðar en fimm árum eftir að námið hófst.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hér er lagt til að þeir nemendur, sem voru við nám í Stýrimannaskólanum áður en lög nr. 62/1995 tóku gildi, skuli ljúka námi samkvæmt eldri lögum. Í 11. gr. laga nr. 62/1995, sem breytir 16. gr. laga nr. 112/1984, er kveðið á um að þeir sem hafi öðlast rétt til atvinnu við siglingar á íslenskum skipum áður en lögin tóku gildi skuli halda þeim réttindum sínum óskertum. Það er eðlilegt að ný lög hafi ekki íþyngjandi áhrif á þá sem hófu nám í trausti þess að fá réttindi á grundvelli eldri laga.
    Lögin frá 1995 breyttu verulega atvinnuréttindum skipstjórnarmanna, enda höfðu Íslendingar nýlega gerst aðilar að alþjóðasamþykkt um menntun, þjálfun, skilríki og vaktstöðu sjómanna (STCW-1978) og var lögum um atvinnuréttindi breytt í samræmi við þessa samþykkt.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um atvinnuréttindi


skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum.


    Frumvarpið felur í sér nýjan lið í ákvæði til bráðabirgða í lögunum. Þar segir að þeim einstaklingum sem hófu nám fyrir gildistöku laga nr. 62/1995, um breytingu á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, verði heimilt að ljúka námi samkvæmt eldri lögum enda útskrifist þeir eigi síðar en fimm árum eftir að námið hófst. Tilgangur frumvarpsins er að koma í veg fyrir að ný lög hafi íþyngjandi áhrif á þá sem hófu nám í trausti þess að fá réttindi á grundvelli eldri laga.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.