Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 363 . mál.


640. Tillaga til þingsályktunar



um eflingu íþróttastarfs.

Flm.: Guðjón Guðmundsson, Hjálmar Árnason, Kristinn H. Gunnarsson,


Kristín Ástgeirsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Árni Johnsen,


Ísólfur Gylfi Pálmason, Árni M. Mathiesen,


Magnús Stefánsson, Vilhjálmur Egilsson.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa sjö manna nefnd til að gera tillögur um að efla íþróttahreyfinguna og um samskipti ríkisvalds og annarra opinberra aðila við hreyfinguna og stuðning við íþróttastarfið í landinu.
    Markmið nefndarstarfsins verði meðal annars að skilgreina og gera tillögur um þátt hins opinbera í þeirri viðleitni íþróttahreyfingarinnar að:
    laða æskufólk, pilta og stúlkur, svo og almenning til iðkunar íþrótta,
    efla árangur íslensks afreksfólks á alþjóðavettvangi,
    auka skilning þjóðarinnar á gildi líkamsræktar, heilbrigðis og hollra lífshátta.
    Nefndin verði skipuð tveim fulltrúum Íþróttasambands Íslands, einum frá UMFÍ, einum fulltrúa tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einum tilnefndum af fjármálaráðherra, einum tilnefndum af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og einum tilnefndum af menntamálaráðherra og verði hann jafnframt formaður nefndarinnar.
    Nefndin skili skýrslu og tillögum eigi síðar en 1. nóvember 1997.

Greinargerð.


    Íþróttir og líkamsrækt skipa æ stærri sess í þjóðlífinu. Fleiri stunda hvers konar líkamsþjálfun en nokkru sinni fyrr, íþróttafélögum fjölgar, aukin umfjöllun er um íþróttir í fjölmiðlum og áhugi almennra borgara, og þá einkum æskufólks, á íþróttastarfi eykst stöðugt. Stöðugar kröfur eru til íþróttafélaga og sveitarfélaga um bætta aðstöðu til íþróttaiðkunar.
    Skilningur á gildi íþrótta sem þætti í heilbrigði og hollum lífsháttum eykst og starf íþróttafélaga hefur augljósa og jákvæða þýðingu í baráttunni við fíkniefnavandann og óreglu. Fullyrða má að iðkun íþrótta, hvort heldur til keppni eða afþreyingar, skipti miklu máli fyrir almenna vellíðan, afþreyingu, félagsþroska og uppeldi. Íþróttir hafa þannig ótvíræða samfélagslega þýðingu.
    Hér sem víðast annars staðar er hið skipulega starf á vettvangi íþróttanna rekið af frjálsri íþróttahreyfingu sem hefur innan sinna vébanda félög, bandalög og sambönd sem sameiginlega mynda Íþróttasamband Íslands. Þar til viðbótar má nefna Ungmennafélag Íslands sem myndað er af héraðssamböndum og einstökum ungmennafélögum. Þessi samtök starfa einnig að íþróttamálum og eru aðilar að ÍSÍ.


Prentað upp.

    Ríkissjóður hefur styrkt þessi landssamtök og auk þess Ólympíunefnd Íslands, Íþróttasamband fatlaðra og fleiri eftir atvikum. Þá hefur Alþingi samþykkt lög sem heimila ÍSÍ og UMFÍ ásamt Öryrkjabandalagi Íslands að starfrækja getraunir á almennum markaði.
    Sveitarfélög annast byggingu íþróttamannvirkja í samvinnu við íþróttafélögin.
    Um þetta fyrirkomulag hefur ríkt nokkuð góð sátt, en þó er ljóst að íþróttahreyfingin stendur illa fjárhagslega undir þeim kröfum sem gerðar eru til hennar. Vísast í því sambandi til samantektar sem ÍSÍ hefur kynnt og fjallar um fjárhag íþróttafélaga en þar kemur fram að félögin eru flest illa stödd í fjármálum. Sérsambönd eru flest rekin með tapi og Íþróttasamband Íslands kvartar undan því að ekki sé nægilegt fé til skiptanna.
    Íþróttaþing, sem haldið var á Akranesi í lok október 1996, samþykkti að sameina bæri Íþróttasambandið og Ólympíunefndina. Tilgangur þeirrar sameiningar er sagður vera að einfalda skipulag íþróttahreyfingarinnar og ná fram sparnaði og hagræðingu, einnig að slíkt samstarf auðveldi samskipti ríkisvaldsins og íþróttahreyfingarinnar.
    Augljóst er að íþróttahreyfingin leggur mikið af mörkum til félagslegra þátta. Nauðsynlegt er að meta gildi þessa hlutverks og huga að verkaskiptingu, fjárveitingum og mikilvægi einstakra þátta í ljósi þróunar þjóðfélagsins. Þá ber að laga opinberar fjárveitingar markvisst að stefnu sem er mótuð í sæmilegri sátt hlutaðeigandi aðila. Tillaga þessi flutt er í þeim tilgangi að vinna að slíkri stefnumörkun.